Showing posts with label Victor Oladipo. Show all posts
Showing posts with label Victor Oladipo. Show all posts

Sunday, June 26, 2016

Af framtíðaráformum Kevin Durant og Oklahoma


Nú þegar nýliðavalið árlega er afstaðið, geta NBA-miðlar í Bandaríkjunum nú einbeitt sér að ekkifrétt sumarsins, sem snýst um Kevin Durant og framtíðaráform hans á atvinnumarkaði. Þið vitið hvað við erum rosalega spennt fyrir svona skrumi, eða hitt þó heldur.

En rétt eins og aðrir NBA-miðlar, erum við hér á NBA Ísland með lesendur sem eru sumir hverjir forvitnir um svona mál og því verðum við að reyna að koma til móts við þá. Okkur leiðast kannski ekkifréttir um félagaskipti eða ekki félagskipti NBA leikmanna, en við erum bæði með hugmyndaflug og skoðanir, þannig að kannski er upplagt að við leggjum okkar lóð á vogarskálarnar í þessu leiðindamáli. 

Við segjum leiðindamáli, af því þetta skrum í kring um Durant er og verður eitt stórt leiðindamál og ekkifréttir þangað til hann gerir upp hug sinn, en þá verður ákvörðun hans frétt í einn eða tvo daga áður en allir steingleyma henni þangað til hann verður með lausa samninga næst.

Eins og flest ykkar vita líklega, hafa forráðamenn Oklahoma City ekki setið auðum höndum síðan liðið þeirra var slegið út úr keppni á sársaukafullan hátt í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar um daginn. Segja má að þeir hafi stolið senunni kvöldið sem nýliðavalið fór fram, þegar þeir ákváðu að ráðast í stórviðskipti á leikmannamarkaðnum.



Þannig ákváðu Oklahoma-menn að skipta framherjanum Serge Ibaka til Orlando Magic í staðinn fyrir framherjann Ersan Ilyasova, bakvörðinn Victor Oladipo og framherjann unga Domantas Sabonis sem Orlando tók fyrir þá númer ellefu í nýliðavalinu síðar um kvöldið. Sabonis þessi er af ákaflega góðum körfuboltaættum eins og flest ykkar vita líklega, en hann er sonur miðherjans Arvydas Sabonis sem lék með Portland Trailblazers á árunum 1995-2003.

Menn og konur voru afar fljót að mynda sér sterkar skoðanir á þessum viðskiptum og við erum þar engin undantekning, þetta þykir okkur ansi djarfur og kappsamur leikur hjá Oklahoma-mönnum. 

Eitthvað hefur verið talað um að þarna sé um fyrirbyggjandi aðgerðir að ræða hjá Oklahoma, því Ibaka átti ekki langt eftir af samningi sínum við félagið og ljóst var að það yrðu engir smáaurar sem hann kæmi til með að fara fram á þegar að því kæmi. Bæði af því hann gegnir jú mikilvægu hlutverki hjá liðinu og af því að launaþakið í NBA deildinni er að hækka langt upp fyrir öll velsæmismörk, ekki ósvipað og húsnæðisverð í Reykjavík.

Það er ekkert leyndarmál að tölfræðin hans Serge Ibaka er búin að vera að dala með nokkuð áberandi hætti síðustu ár, en Oklahoma-pennar segja að það megi að hluta skrifa á þjálfarateymi liðsins, því Ibaka hafi verið beðinn um að gera hluti sem urðu ekki beint til að fóðra hjá honum tölfræðina. Til dæmis hafi minnkandi frákastatölur komið til út af því að Ibaka gerði meira af því að elta minni menn úti á velli í stað þess að vera undir körfunni. Það er sitt hvað til í þessu, meira að segja við vitum það.


Annað sem olli okkur áhyggjum - og eflaust forráðamönnum og stuðningsmönnum Oklahoma líka - var hvað 3ja stiga nýtingin hans var búin að hríðlækka undanfarið. Hlutverk Ibaka í sókninni var jú á margan hátt fólgið í því að standa fyrir utan línu og teygja á vörnum andstæðinganna - t.d. með því að toga stóru mennina með sér út úr teignum svo þeir væru ekki fyrir Russell Westbrook þegar hann keyrði á körfuna.

Stigaskor Serge Ibaka lækkaði úr 15,1 stigi fyrir þremur árum niður í 12,6 í ár og þriggja stiga nýtingin hans fór úr 38,3% fyrir þremur árum, sem er afbragð, niður í innan við 33% á liðnum vetri. Á sama hátt hrundi hann niður í blokkeringum, þar sem hann varði mest 3,7 skot 2012, en aðeins 1,9 í vetur.

Loks datt hann niður í fráköstunum, úr 8,8 fyrir þremur árum og niður í aðeins 6,8 í vetur, sem er heilu frákasti minna en leikstjórnandi liðsins tók (þó hann sé líklega öflugasti frákastari í sögu NBA miðað við hæð og stöðu á vellinum. Hér er að sjálfssögðu verið að tala um Russell Westbrook. Við misnotum ekki tækifæri til að tala um Russell Westbrook. Það væri asnalegt).

Þessi þróun í tölfræðinni er vissulega áhyggjuefni, en það sem gerði Ibaka að þeim algjöra lykilmanni sem hann var í liðinu, kemur hvergi fram á tölfræðiskýrslum. Þar erum við auðvitað að tala um varnarleikinn.

Varnarleikur Oklahoma var ekki eins góður í deildarkeppninni í vetur og undanfarin ár og þið munið eflaust eftir því að það var ein af ástæðunum fyrir því að við rökkuðum liðið niður í vor og sögðum að það ætti ekki möguleika á að gera neitt í úrslitakeppninni. 

Við erum alveg handviss um að Serge Ibaka átti þarna stóran hlut að máli, enda er hann búinn að vera mikilvægasti maður liðsins í vörninni í mörg ár.

En þegar kom inn í úrslitakeppnina um daginn, var allt í einu komið allt annað hljóð í Oklahoma-liðið og skyndilega var eins og hefði "tekið sig upp gamall varnarleikur" hjá þeim. Allt í einu voru leikmenn liðsins eins og byssukúlur út um allt gólf í vörninni, nóg til að slátra San Antonio og keyra meistara Golden State alveg út á bjargbrún, lamaða af ótta eins og Krókódílamanninn eftir viðskiptin við bjargvættinn Laufeyju í texta Magnúsar Þórs Jónssonar.



Oklahoma varð fyrsta liðið til að finna svör við ógnarsterkum sóknarleik Golden State Warriors og gerði það með liðsuppstillingu sem NBA-penninn Nate Duncan kallaði Megadeath uppstillinguna, sem er ákaflega vel að orði komist. Lykilmaður í þessari aðferðafræði var að sjálfssögðu Serge Ibaka og þessi leikaðferð hefði trúlega aldrei gengið eftir með einhverjum öðrum leikmanni, því menn sem eru með þennan pakka af lengd, snerpu og íþróttamennsku eru teljandi á fingrum annarar handar - ef það.

Tuesday, December 10, 2013

Ó, þið ungu hetjur


Við kíktum til gamans á leik Philadelphia og Orlando frá því fyrir nokkrum dögum, svona út af öllu fjaðrafokinu sem var í kring um þennan leik. Þar gerðist það í fyrsta skipti að nýliðar í sitt hvoru liðinu næðu þrefaldri tvennu þegar Sixers vann 126-125 seiglusigur eftir tvíframlengdan og æsispennandi leik.

Þetta voru þeir Michael Carter-Williams hjá Philadelphia og Victor Oladipo hjá Orlando. Sérstaklega hefur Carter-Williams vakið áhuga okkar og aðdáun. Hann sló auðvitað í gegn í sínum fyrsta leik sem atvinnumaður eins og þið munið kannski.

Það er fullkomlega glórulaust að hugsa til þess hvað fær félög eins og Cleveland til þess að sleppa því að taka leikmann eins og Carter-Williams í nýliðavalinu.

Velja heldur sekk eins og aumingja Anthony Bennett, sem hefur aldrei komist í form og skýtur 22% utan af velli. Svona getur lífið verið furðulegt og ósanngjarnt.

Bennett er kandídat í að verða slakasti leikmaður sem valinn hefur verið númer eitt í sögu NBA, en við skulum vona að aumingja drengurinn nái sér á strik.

Oft hafa óveður gengið yfir Fíladelfíu þó spáin hafi verið góð. Vonandi verður breyting þar á núna. Liðið á helling inni og ætti að vera í flottum málum með Carter-Williams við stýrið í framtíðinni. Kannski var nýliðavalið árið 2013 ekki versta draft í sögu mannkynsins eftir allt saman.

Guð blessi tveggja metra leikstjórnendur.