Showing posts with label Tímamót. Show all posts
Showing posts with label Tímamót. Show all posts
Friday, July 15, 2016
Tim Duncan með augum NBA Ísland
Þú veist að það er eitthvað sérstakt í gangi þegar hörkutól úr bransanum eins og RC Buford framkvæmdastjóri og Gregg Popovich þjálfari San Antonio vatna músum. En það gerðist nú samt á sitt hvorum fjölmiðlafundinum þegar þeir voru spurðir út í Tim Duncan, sem hefur ákveðið að leggja skó sína á hilluna eftir 19 ára feril í NBA deildinni.
Við erum búin að liggja yfir þessu í nokkurn tíma og reyna að átta okkur á því að Tim Duncan verði ekki í NBA deildinni næsta vetur. Rétt eins og verður með Kobe Bryant, eigum við öll eftir að sjá á eftir Tim Duncan þegar hann hverfur inn í sólarlagið, enda höfum við öll getað stillt klukkurnar okkar eftir stöðugri spilamennsku hans í nær tvo áratugi.
Við höfum stundum skrifað minningagreinar um menn þegar þeir hætta að spila í NBA. Við skrifuðum reyndar ekkert um Kobe Bryant á sínum tíma, því okkur þótti við vera búin að gera svo mikið af því í gegn um tíðina. Nú er ekki loku fyrir það skotið að við gerum ferilinn hans Kobe Bryant upp í pistli einn daginn, en þegar við heyrðum að Duncan væri hættur, greip okkur strax einhver tilfinning í ætt við skyldurækni - að við yrðum bara að skrifa pistil um hann.
Tim Duncan er sannarlega ekki litríkasti eða umdeildasti leikmaður í sögu NBA deildarinnar, enda hefur umfjöllun um hann alltaf verið í lágmarki bæði hér og annars staðar. Þar liggja nokkrar ástæður að baki. Duncan var aldrei neitt fyrir það að trana sér fram og vildi helst ekki veita viðtöl, en þar að auki hefur kúltúrinn hjá Spurs aldrei snúist um neitt skrum, frægð eða frama.
Og það var að hluta til Tim Duncan sem byggði þennan fræga kúltúr, þetta stjórnkerfi San Antonio Spurs sem öll hin liðin í NBA deildinni hafa öfundað það af í tvo áratugi. Tim Duncan bara mætti (snemma) í vinnuna, vann vinnuna sína vandlega og fór svo heim til fjölskyldunnar, án frægðarljóma eða flugeldasýninga. Gregg Popovich er arkítektinn á bak við megnið af kúltúrnum hjá Spurs, en Tim Duncan hefur verið kjarni hans í nær tuttugu ár.
Tim Duncan hefur aldrei verið allra og mörgum finnst hann leiðinlegur leikmaður, ekki síst af því stuðningsmenn hinna liðanna í NBA eru búnir að vera að tapa fyrir honum í tuttugu ár. Flest körfuboltaáhugafólk sem við þekkjum hefur hinsvegar vottað Duncan virðingu sína í vikunni, hvort sem það var gefið fyrir leik hans eða ekki, af því þetta fólk veit að þar hverfur af sjónarsviðinu algjör goðsögn í sögu deildarinnar.
Einhver ykkar eru eflaust búin að lesa eina eða fleiri af þeim fjölmörgu greinum sem skrifaðar hafa verið um Duncan síðustu daga. Þær hafa verið misgóðar, en leitað í svipaða sálma; Tim Duncan var frábær leikmaður - allt að því vélrænn - liðið hans vann næstum því alltaf, hann var meiri húmoristi og vænni drengur en flestir gerðu sér grein fyrir og líklega var hann líka betri leikmaður en flestir gerðu ráð fyrir.
Við hefðum kannski getað skrifað pistil í ætt við þetta, en þar sem við höfum alltaf horft á Tim Duncan út frá alveg sérstöku sjónarhorni, ákváðum við frekar að deila því með ykkur sem á annað borð nennið að lesa um hetjuna hæglátu. Nánar um það á eftir.
Fyrsti tendensinn sem vaknaði hjá okkur þegar fyrir lá að skrifa Duncan út, var að reyna að finna út hversu ofarlega hann á heima á lista bestu körfuboltamanna allra tíma. Þá hnussa mörg ykkar og segja að fólk eigi ekki að vera að flokka körfuboltamenn - það sé ekkert hægt að bera saman bakverði og miðherja og enn síður ef líða áratugir á milli þess sem þeir spila í deildinni.
Við skiljum að mörgum finnist svona uppröðun og listar asnalegir, en það eru margir sem hafa gaman af þessu og okkur þykir bara alveg nauðsynlegt að reyna að átta okkur á því hvar við eigum að setja Duncan eftir þennan stórkostlega feril sem hann átti í NBA.
Efnisflokkar:
Auðmýkt
,
Charles Barkley
,
Elítuklúbbur NBA Ísland
,
Gamli skólinn
,
Goðsagnir
,
Karl Malone
,
Klassík
,
Realtalk
,
Sigurvegarar
,
Skórnir á hilluna
,
Sögubækur
,
Spurs
,
Tim Duncan
,
Tímamót
,
Úrvalsleikmenn
Tuesday, December 15, 2015
Nýtt hlaðvarp: Karfan.is tíu ára
Allir sem á annað borð vita hvað körfubolti er, eru reglulegir lesendur karfan.is. Þess vegna var það stórmerkilegur áfangi í gær þegar þessi traustasti körfuboltavefur landsins átti tíu ára afmæli.
Á svona stórum tímamótum er ekki annað hægt en að fá ritstjórann Jón Björn Ólafsson í smá hlaðvarp og fá hann til að rifja upp gamla tíma, en horfa um leið fram á veginn á innlendum vettvangi í körfunni.
Þú getur hlustað á hlaðvarpið í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna okkar góðu og sótt það til að setja inn á spilarann þinn - og hlusta þegar þér sýnist, aftur og aftur...
Efnisflokkar:
Afmæli
,
Hlaðvarpið
,
karfan.is
,
Tímamót
Monday, September 7, 2015
Allir á EM
Karlalandsliðið okkar í knattspyrnu tryggði sér í gærkvöldi sæti á EM á næsta ári með því að ná sér í stig gegn Kazakstan á heimavelli. Við viljum nota þetta tækifæri til að óska piltunum, þjálfarateyminu og öllum aðstandendum liðsins til hamingju með þennan ótrúlega árangur.
Það er í einu orði sagt frábært að fá að upplifa það að tvö af landsliðunum okkar séu að ryðjast áður ótroðnar slóðir - og það á sama tíma. Sjötti september verður líklega merktur með rauðu í dagatalinu hjá mörgum, þar sem strákaliðið okkar komst loksins á stórmót. Þeir eiga hrós skilið ekki síður en félagar þeirra í körfunni og nú er hálf þjóðín farin að skipuleggja sumarfríið sitt í kring um EM í Frakklandi næsta sumar.
Það er hálf furðulegt að hugsa til þess hvaða árangur hefur náðst hjá þessum liðum, svo magnaður er hann. Víða mátti sjá og heyra fólk í geðshræringu í kring um knattspyrnuleikinn. Gleðitár runnu niður kinnar og gæsahúð var á öðrum hverjum manni og konu. Fólk veit hreinlega ekki hvernig það á að haga sér í allri þessari hamingju.
Efnisflokkar:
Knattspyrna
,
Og nú að allt öðru
,
Ruglað saman reitum
,
Sigurgöngur
,
Sigurvegarar
,
Sögubækur
,
Tímamót
Saturday, May 16, 2015
Nýr raunveruleiki blasir við Atlanta
Eins og þið hafið líklega tekið eftir, eyddum við ansi fáum orðum og við gátum í einvígi Atlanta og Brooklyn um daginn. Það var af því öllum var sama. Flestum var líka nákvæmlega sama um einvígi Atlanta og Washington en það bauð þó upp á talsvert meira en við fengum í fyrstu umferðinni.
Við gerðum tímabil Washington upp í pistlinum á undan þessum, en núna er komið að Atlanta. Við höfum vissulega skrifað eitthvað aðeins um Atlanta í reglulegum pistlum okkar um Austurdeildina, en eins og þið sjáið ef þið leitið í efnisorðaskránni á NBA Ísland, kemur lítið upp um Atlanta annað en molar um óguðlega 3ja stiga nýtingu Kyle Korver.
Auðvitað er þetta galið þegar haft er í huga að þetta er lið sem vann sextíu leiki í vetur, en eins og við segjum ykkur alltaf, er Atlanta alltaf bara Atlanta og því verður aldrei neitt úr neinu hjá liðinu. Eða fram að þessu að minnsta kosti. En nú er svo komið að liðið er komið í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar og þá verður einhver að rífa upp penna, svo það er alveg eins gott að við gerum það bara.
Það merkilegasta við að Atlanta sé komið í úrslit Austurdeildar er ekki að það sé að ná besta árangri sem það hefur náð í hálfa öld, þó það sé ansi merkilegt í sjálfu sér.
Nei, það langmerkilegasta við að Atlanta sé komið í úrslitaeinvígi Austureildarinnar - undanúrslit NBA deildarinnar - er að það þurfti ekki að gera annað en vinna Brooklyn og Washington til að komast þangað.
Brooklyn var með 46% vinningshlutfall í vetur og Washington 56% og síðarnefnda liðið var svo huggulegt að vera með sinn besta mann í meiðslum í annari umferðinni svo Atlanta fengi nú sæmilega greiða leið áfram í keppninni.
Þetta er sagt í kaldhæðni, en þið fattið hvert við erum að fara með þessu. Atlanta tók vissulega efsta sætið í Austurdeildinni í deildarkeppninni og tryggði sér þar með þessa léttu leið í gegn um fyrstu tvær umferðirnar, en við getum bara ekki annað en hlegið aðeins að þessu.
San Antonio hefði tapað um það bil einum leik ef það hefði mætt Brooklyn og Washington í fyrstu tveimur seríunum sínum, en þess í stað féll það úr í fyrstu umferð af því það er í Vesturdeildinni. Fúlt fyrir þá, gaman fyrir Haukana.
Atlanta náði að tapa fjórum leikjum fyrir Brooklyn og Washington í fyrstu tveimur umferðunum og það verður að teljast nokkuð vel af sér vikið. Þeir sem hafa nennt að horfa á Atlanta spila í úrslitakeppninni hafa tekið vel eftir því að það er langt í frá sami bragur á liðinu nú og var í deildarkeppninni í vetur.
Það er að hluta til eðlilegt og rímar við það sem Hatorade-drykkjufólk eins og við erum búin að vera að þusa um í allan vetur. Neikvæðni okkar byggðist á þremur atriðum:
- Leikaðferð Atlanta er mun erfiðari í framkvæmd í úrslitakeppni en í deildarkeppni.
- Atlanta er ekki með súperstjörnu sem getur framleitt sóknarleik eftir þörfum.
- Atlanta er Atlanta.*

Eins og þið vitið eru talsverð meiðsli í herbúðum Cleveland, svo það ætti að geta hjálpað Atlanta eitthvað, en LeBron James og félagar ættu að verða mun verðugri andstæðingur en Washington þó ekki væri nema bara út af James sjálfum.
Tvennt stendur upp úr hjá okkur varðandi Atlanta eftir fyrstu tvær umferðirnar:
Fyrra atriðið er að DeMarre Carroll sé búinn að vera besti maður liðsins í úrslitakeppninni. Það er dálítið fyndið að eini maðurinn í byrjunarliði Hawks sem var ekki valinn í Stjörnuliðið í vetur sé að spila manna best hjá liðinu í úrslitakeppninni.

Pilturinn skoraði 12,6 stig að meðaltali í leik í vetur en í úrslitakeppninni er hann að skila 17 stigum og betri tölum á öllum sviðum leiksins, ekki síst í 3ja stiga skotunum, þar sem hann skaut 44% gegn Nets og Wizards.
Annað sem er dálítið magnað við Haukana er meintur vandræðagangur Kyle Korver í úrslitakeppninni. Við höfum ekki séð alla leiki Atlanta en Korver hefur ekki verið að hitta eins vel og hann gerði í deildinni. Slík eru vandræði stórskyttunnar að fjölmiðlar hafa gert sér mat úr því.
Við reiknuðum því með því að Korver væri að skjóta 30% utan af velli og 17% úr þristum þegar við flettum honum upp, en það er öðru nær. Hann er að hitta úr 38% skota sinna í það heila og 35% fyrir utan, sem er lélegt fyrir hann, en margir leikmenn væru tilbúnir að skipta við hann um nýtingu í langskotunum.
Hvort sem Korver var í vandræðum eða ekki, er samt alveg ljóst að Atlanta þarf á hans besta að halda þegar það mætir Cleveland. Haukarnir njóta góðs af því að vera með heimavöllinn og eru með sæmilega heilt lið, svo þeir ættu að meta möguleika sína ágæta.
Nú fáum við nefnilega að vita það í eitt skipti fyrir öll, hvor Atlanta sé bara Atlanta eða hvort Atlanta ætli að skrifa nýjan kafla í sögu Atlanta, sem væntanlega myndi þýða að Atlanta yrði ekki lengur bara Atlanta, heldur eitthvað miklu, miklu meira. Þú veist.
------------------------------------------------------------------------------------------------------------
* - Lengri útgáfan af þessu orðatiltæki er svohljóðandi:
"Atlanta er bara Atlanta, hefur alltaf verið Atlanta og verður því bara Atlanta um ókomna tíð."
Efnisflokkar:
DeMarre Carroll
,
Framfarir
,
Hawks
,
Krúttlegt
,
Kyle Korver
,
Tímamót
,
Úrslitakeppni 2015
,
Velgengni
Thursday, August 28, 2014
Ísland á EM í körfubolta (+ myndir)
Karlalandsliðið okkar í körfubolta er búið að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins í fyrsta skipti í sögunni og körfuboltaáhugamenn á Íslandi vita hreinlega ekki hvað þeir eiga af sér að gera.
Þetta varð ljóst þrátt fyrir að liðið tapaði 70-78 á heimavelli fyrir Bosníumönnum og Hersigóvum í gærkvöldi. Tölfræðisérfræðingarnir okkar sögðu okkur að íslenska liðið væri sama og komið áfram vegna stöðunnar í öðrum leikjum áður en flautað var til leiks í Höllinni í gær. Íslenska liðið hefði þurft að tapa með yfir 30 stiga mun til að eiga á hættu að sitja eftir. Það var aldrei uppi á teningnum í þessum hnífjafna leik, þar sem gestirnir reyndust sterkari í lokin.
Það kemur enda lítið á óvart að Bosnía skuli vinna körfuboltaleik. Þetta er flott lið hvort sem í það vantar NBA leikmann eða ekki. Sérstaklega þótti okkur varnarleikur beggja liða sterkur í gær og það var varnarleikur gestanna sem tryggði þeim sigurinn að lokum. Íslenska liðið fann ekki svör í sókninni á síðustu mínútunum. Burðarásar eins og Stefánsson skiljanlega orðnir nokkuð þreyttir.
Eins og atmennið sem hann er, spilaði Hlynur nokkrar mínútur á krambúleruðum ökklanum, en gat skiljanlega ekki beitt sér að fullu.
Þetta nýttu risarnir frá Bosníu sér vel og það gefur augaleið að ein stærsta breytan á bak við sigur þeirra var yfirburðir þeirra undir körfunni - bæði í sókn (54% nýting í tvistum gegn 32% hjá íslenska liðinu) og í fráköstunum (44-35).
Þetta var fín æfing fyrir strákana okkar á þessu sviði, því þeir eiga eftir að þurfa að kljást við ófáa risana þegar þeir koma á EM, hvar sem það verður nú haldið.
Annars erum við sammála Hauki Helga Pálssyni, sem í samtali við Guðmund Marínó Ingvarsson á Vísi sagði að líklega hefðum við tekið þennan leik ef Hlynur hefði verið 100% heill. Það er grábölvað að vera án hans eins og þið sáuð þegar andstæðingar okkar dældu boltanum hvað eftir annað inn í teiginn og fóru illa með miklu lágvaxnari leikmenn íslenska liðsins.
Þetta lagaðist aðeins þegar þjálfarinn sendi Natvélina á vettvang og við hefðum viljað sjá hana lengur en í sjö mínútur inni á vellinum.
Efnisflokkar:
Hlynur Bæringsson
,
Landsliðið
,
Myndir
,
Ragnar Nathanaelsson
,
Sigurvegarar
,
Sögubækur
,
Tímamót
,
Vel Gert
Thursday, January 9, 2014
Nýtt hlaðvarp
Nýtt hlaðvarp var að detta í loftið hjá okkur. Hér er um að ræða 17. þátt þar sem gesturinn er skotbakvörðurinn knái Kjartan Atli Kjartansson hjá Stjörnunni. Kjartan tilkynnti í gær að hann væri hættur að spila í úrvalsdeildinni og ætlar að einbeita sér að þjálfun í framtíðinni.
Baldur Beck ræddi við Kjartan (í einn og hálfan klukkutíma) um sigrana og töpin, meðspilara og andstæðinga, sterkustu liðin, ólíkar þjálfunaraðferðir, um uppgang körfuboltans í Garðabæ og viðureignir hans og viðhorf í garð Keflvíkinga. Kjartan hefur verið áberandi hjá Stjörnunni í mörg ár og spilaði með liðinu áður en það vann sér sæti í úrvalsdeildinni. Það er því engin tilviljun hve sterkar taugar hann ber til félagsins.
Undir borðanum efst á síðunni sem þú ert að lesa er hnappur sem á stendur "Hlaðvarp." Ef þú styður á hann, ferðu inn á samnefnda síðu og kemst í gotteríið. Ef þér er fyrirmunað að átta þig á því hvernig þú ferð inn á hlaðvarpssíðuna, er ekki annað í stöðunni en að smella hér og vona það besta. Góða skemmtun.
Efnisflokkar:
Faðir Tími
,
Heimabrugg
,
Hlaðvarpið
,
Kjartan Atli Kjartansson
,
Skórnir á hilluna
,
Stjarnan
,
Tímamót
Friday, January 3, 2014
Gleðilegt ár krakkar
NBA Ísland óskar lesendum gleðilegs árs og þakkar fyrir lesturinn
og stuðninginn á árinu 2013. Þið eruð sannkallað úrvalsfólk.
Efnisflokkar:
Áramót
,
Frá ritstjórn
,
NBA Ísland
,
Sjoppan
,
Tímamót
Subscribe to:
Posts (Atom)