Showing posts with label Kyle Korver. Show all posts
Showing posts with label Kyle Korver. Show all posts

Saturday, January 14, 2017

Korver til Cleveland | Hvað með það?


Kannski ofmetum við hvað Kyle Korver á eftir að gagnast Cleveland með nærveru sinni einni saman, hvað þá ótrúlegri hittni sinni, en eins og fram kom í 72. hlaðvarpsins okkar, urðu vistaskipti Korver þúfan sem velti hlassinu í okkar augum; Cleveland er nú sigurstranglegasta liðið í úrslitakeppninni 2017 að okkar mati.

Golden State er búið að vera sterkasta liðið í NBA í að verða þrjú ár samkvæmt okkar bókum, en endasprettur Cleveland í lokaúrslitunum síðasta sumar varð að sjálfssögðu til þess að veikja þá skoðun okkar. Það sem hefur svo velt Warriors úr toppsæti styrkleikalistans okkar og niður í annað sæti, er sú staðreynd að Golden State er ekki búið að stoppa upp í gatið sem Cleveland notaði til að vinna síðustu þrjá leikina í lokaúrslitunum í júní. 

Þið munið hvernig fór fyrir Warriors þegar Andrew Bogut meiddist (og ofan á það, hvernig liðinu gekk þegar Draymond Green tók út leikbann) og gat ekki lengur mannað miðjuna. LeBron James og Kyrie Irving nýttu sér fjarveru hans fullkomlega og James fékk sérstaklega að gera það sem hann gerir manna best - að ógna á blokkinni og ráðast á körfuna.


Zaza Pachulia er enginn Andrew Bogut og höfum hugfast að Festus Ezeli er líka farinn úr miðjunni hjá Warriors. JaVale McGee hefur ekki vitsmuni til að brúa þetta bil, þó hann hafi líkamlega burði til þess. Kevin Durant og Draymond Green loka miðjunni og verja körfuna svo vel að það er eiginlega aðdáunarvert. Fáir framherjar gera það betur. En líkamlega er hvorugur þeirra miðherji og verður aldrei.

Getur Golden State fundið lausn á þessum veikleika sínum? Okkur þykir það líklegt, já. Steve Kerr og félagar eru mjög klárir og þeir eiga mjög líklega eftir að herða varnarleik Warriors nógu vel til að fleyta liðinu í lokaúrslit þriðja árið í röð. En við setjum stórt spurningamerki við það hvort það er nóg til að vinna Cleveland.

Sem sagt: Það er skarð í vörn Warriors eftir mannskapinn sem fór frá félaginu. Skarð sem fínn varnarleikur og enn betri sóknarleikur sem Kevin Durant hefur verið að skila Golden State-liðinu í vetur, nær ekki að fylla. 

Cleveland er búið að vinna Golden State fjórum sinnum í röð og Cleveland var að bæta við sig manni sem á eftir að létta lykilmönnum meistaranna lífið til mikilla muna.

Þar komum við að Korver sjálfum. Allir sem fylgjast með NBA á annað borð vita að Korver er löngu búinn að sanna sig sem ein besta skytta í sögu deildarinnar.

Þó bestu og frískustu dagar Korver sem leikmanns séu að baki og meiðsli hafi gert honum lífið leitt að undanförnu, skulum við ekki gerast svo vitlaus að vanmeta þessa viðbót við lið meistaranna. Það hjálpar Cavs ekkert í dag, en það eru samt innan við tvö ár síðan Korver spilaði í Stjörnuleik. Það bæði segir mikið og ekki neitt, þið ráðið hvernig þið lesið í það. 

Myndin hér fyrir ofan sýnir skotkortið hans með Haukum í vetur, á nokkru sem kallast fremur lélegt ár ef miðað er við standardinn sem Korver er búinn að setja sér. Mjög gott ár ef við miðum við venjulega NBA-leikmenn.

Kyle Korver er fyrst og fremst stórskytta, já, en umræðuefni númer tvö þegar menn eru búnir að tala um hvað hann er hittinn, er alltaf annað hvort hvað hann er trúaður og góður strákur sem er duglegur að leggja góðum málefnum lið - eða varnarleikur hans. 

Korver hefur verið partur af nokkrum ljómandi fínum liðum í gegn um tíðina, liðum sem óhætt er að setja undir sama hatt og kalla annarar umferðar lið. Lið sem eru mjög góð, en ekki meistarakandídatar. Allt tal um varnarleikinn hans Korver fram að þessu hefur verið prump, en nú er hinsvegar kominn tími til að tala um hann fyrir alvöru, af því nú er Korver kominn í lið sem ætlar sér titil eða dauða, ekkert annað.

Og ef menn ætla að fá mínútur með slíku liði, verða þeir að vera þolanlegir varnarmenn, undir öllum kringumstæðum. Annað er bara ekki í boði og þess vegna verður óhemju forvitnilegt að sjá hvað Korver getur lagt til málanna á varnarendanum hjá Cavs. 

Við vitum að hann er klár strákur og duglegur, sem þýðir að hann er ljómandi vel læs og fínn í liðsvörninni. Það sem menn og konur hafa hinsvegar áhyggjur af, er að hann lendi á eyðieyju í vörninni úti á velli með Stephen Curry eða Kevin Durant á móti sér. Það er vísindalega sannað að það er bókstaflega versta martröð hvers þjálfara. 

Í rauninni skiptir ekki máli hvort það er Korver eða Kevin Love sem þú setur í þessar aðstæður, þær reyna svo á heilsu þjálfarateymisins að þær stytta aldur þeirra um meira en tvö ár að jafnaði. Það er vísindalega sannað líka. Og það verður mjög svo áhugavert að sjá hvort Cleveland treystir sér áfram til að gefa mönnum eins og Love og Korver mínútur í maí og júní í ljósi umræddra varnarvandamála.

Burtséð frá því hvort Korver spilar vel eða illa, er það fyrsta sem hann gerir fyrir Cleveland einfaldlega að gefa því skotbakvörð sem getur spilað mínúturnar hans JR Smith. Vitleysingurinn Smith er ekki væntanlegur til baka úr meiðslum fyrr en langt verður liðið á apríl og Cleveland var bara ekki með mann í bókhaldinu sem það treysti til að fylla upp í mínúturnar sem losnuðu þegar JR meiddist. 

Þetta tímabundna vandamál hefur nú verið leyst og vonandi fyrir stuðningsmenn Cavs, verður Korver-viðbótin til þess að létta þó ekki væri nema örlítið undir með lykilmönnum liðsins hvað mínútur varðar. LeBron James er sérstaklega að spila allt, allt of margar mínútur og við höfum vælt yfir því í meira en ár. Við skulum lofa að gera ekki meira af því hér.

Við höfum ekki hugmynd um hvernig Kyle Korver á eftir að falla inn í kúltúrinn hjá Cleveland Cavaliers, margt bendir til þess að hann verði pínulítið eins og prestur í rauða hverfinu á því sviði, hentar hann 100% fyrir Cavs þegar kemur að leikstíl liðsins. 

Síðast þegar við gáðum, var Cleveland að skjóta og skora meira af þristum en öll lið í deildinni nema Houston og langskotin eru auðvitað aðalsmerki Korver, svo það segir sig sjálft að það er draumur í dós fyrir Cavs.

Korver kemur samt með meira djús inn í sóknarleik Cavs en bara það að skora 3ja stiga körfur, því hann er með meira körfuboltalegt aðdráttarafl en nokkur annar leikmaður liðsins. Channing Frye kemst einna næst því, enda er hann búinn að skjóta frábærlega á síðustu árum. 

En þó fjöldi leikmanna Cavs geti sett niður þrista, sem þýðir að andstæðingar liðsins verða að taka þá alvarlega, útheimtir maður eins og Korver alveg sérstaka athygli, enda er enginn annar leikmaður í NBA búinn að skjóta betur úr 3ja stiga skotum en hann síðan árið 2010. Enginn. Ekki Steph Curry, ekki Klay Thompson, ekki amma þín. Kyle Korver.

Korver er maður sem þú (sem varnarmaður) mátt alls ekki yfirgefa undir neinum kringumstæðum og það gefur LeBron James í versta falli stöðu á vellinum sem hann nýtir betur en flestir. Það er nefnilega þannig að ef einn varnarmaður þarf að vera límdur á Korver öllum stundum, þýðir það að James og t.d. Kyrie Irving, þurfa í versta falli að spila fjórir á fjóra og þurfa því að hafa áhyggjur af einum leikmanni færra í vörnum og hjálparvörnum andstæðinga sinna.

Það á eftir að koma í hljós hvort Korver nær að halda sínu nógu vel í vörninni til að fá einhverjar mínútur að ráði ef Cleveland kemst nú aftur í úrslitin, en ef við miðum bara við deildarkeppnina, er koma hans til Cavs að tryggja að sóknarleikur liðsins er orðinn martraðarkenndari fyrir andstæðinga liðsins en nokkru sinni fyrr. 

Nú þarft þú, þjálfari andstæðinga Cleveland Cavaliers, að plana hvernig í ósköpunum þú ætlar að bregðast við því ef Cavs stilla upp sókndjörfu liði á móti þér. 

Hvernig ætlar þú að stoppa lið sem er að rótera Kyrie Irving, J.R. Smith, Kyle Korver, Kevin Love, LeBron James og Channing Frye í sóknarleiknum? 

Lið sem getur stillt upp fjórum eða fimm allt frá því mjög frambærilegum til heimsklassa skyttum hvenær sem því sýnist og getur valið um hvort það lætur Kyrie Irving eða LeBron James stýra leiknum?

Það er rétt hjá þér. 

Þú ert ekkert að fara að stoppa þetta. 

Það eina sem stöðvar þessa aftökusveit eru þessi fáu kvöld þar sem hún er ekki í stuði. Það kemur fyrir öll lið að skotin detta ekki. Það verða amk ekki varnir andstæðinganna sem stöðva Cavs.

Mörg ykkar eru vafalítið ósammála þessu mati okkar á stöðu mála, jafnvel svo ósammála að þið haldið því þvert á móti fram að Golden State muni rusla Cleveland upp í júní í sumar, ef liðin hittast þar þriðja árið í röð. Sérstaklega hefur fólk sagt okkur að við séum að ofmeta væntanlegt framlag Kyle Korver gróflega. Svo það sé á hreinu, erum við ekki að segja að Korver eigi eftir að tryggja Cleveland meistaratitilinn. Hann var aðeins dropinn sem fyllti mælinn fyrir okkur, ef svo má segja.

Tölfræðin hans Korver sem við sýnum ykkur á myndunum hér í þessari færslu eru Atlanta tölurnar hans í vetur fram að skiptunum til Cleveland. Korver er búinn að spila þrjá leiki fyrir Cavs. Það var skjálfti í honum í fyrstu tveimur leikjunum þar sem hann skaut 1 af 5 í þeim báðum og hitti ekki úr einu 3ja stiga skoti, en svo hrökk hann í gang í Sacramento í fyrrinótt og henti í 18 stig og var 4 af 6 í þristum. Ætli síðasti leikurinn gefi ekki betri mynd af því hvað Korver á eftir að gefa Cavs í vetur en fyrstu tveir. Eitthvað segir okkur það.



Við erum búin að segja ykkur þá skoðun okkar oftar en einu sinni að við förum aldrei ofan af því að betra liðið tapaði í lokaúrslitunum síðasta sumar, en þær breytingar sem við greindum frá hér að ofan eru orðnar það afgerandi að nú erum við á því að Cleveland sé hreinlega orðið betra lið en Golden State. 

Og nota bene, þá erum við að miða við að Cleveland myndi að okkar mati vera sigurstranglegra ef þessi lið mættust í einvígi í júní næstkomandi. Við erum ekki að meina að Cleveland sé betra lið en Golden State í deildarkeppninni. Þar er stór munur á. 

Cleveland er að spila pressulaust í gegn um deildarkeppnina og hugsar um það eitt að halda mannskapnum heilum fram á vorið.

Einhver hefði sagt að það væri sniðugt fyrir þá að gæta þess að spara lykilmennina aðeins, en það virðist ekki einu sinni vera inni á dagskrá, hvað þá stundað, og við fullyrðum að það á eftir að koma nður á liðinu á einhverjum tímapunkti. Vonandi ekki í ár.

Á sama tíma þarf Golden State að hafa sig allt við til að hanga fyrir framan San Antonio í sterkari Vesturdeildinni.

Það verður eintómt nammi að sjá hvernig Kyle Korver á eftir að smella inn í leik Cleveland í vetur og vor. 

LeBron James gæti átt eftir að bömpast upp um 1-2 stoðsendingar að meðaltali í leik þegar frábærar sendingar hans lenda í öruggum og skotglöðum höndum Korver í staðinn fyrir að lenda í krumlunum á grófhentum múrurum eins og Iman Shumpert. LeBron var spurður að því daginn fyrir fyrsta leikinn hans Korver hvernig nýjasti liðsmaður Cavs gæti best orðið að gagni. 

"Með því að skjóta. Alltaf. Um leið og hann snertir boltann," sagði LeBron James og glotti. 

Þetta er ekkert flókið.

Saturday, May 16, 2015

Nýr raunveruleiki blasir við Atlanta


Eins og þið hafið líklega tekið eftir, eyddum við ansi fáum orðum og við gátum í einvígi Atlanta og Brooklyn um daginn. Það var af því öllum var sama. Flestum var líka nákvæmlega sama um einvígi Atlanta og Washington en það bauð þó upp á talsvert meira en við fengum í fyrstu umferðinni.

Við gerðum tímabil Washington upp í pistlinum á undan þessum, en núna er komið að Atlanta. Við höfum vissulega skrifað eitthvað aðeins um Atlanta í reglulegum pistlum okkar um Austurdeildina, en eins og þið sjáið ef þið leitið í efnisorðaskránni á NBA Ísland, kemur lítið upp um Atlanta annað en molar um óguðlega 3ja stiga nýtingu Kyle Korver.

Auðvitað er þetta galið þegar haft er í huga að þetta er lið sem vann sextíu leiki í vetur, en eins og við segjum ykkur alltaf, er Atlanta alltaf bara Atlanta og því verður aldrei neitt úr neinu hjá liðinu. Eða fram að þessu að minnsta kosti. En nú er svo komið að liðið er komið í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar og þá verður einhver að rífa upp penna, svo það er alveg eins gott að við gerum það bara.

Það merkilegasta við að Atlanta sé komið í úrslit Austurdeildar er ekki að það sé að ná besta árangri sem það hefur náð í hálfa öld, þó það sé ansi merkilegt í sjálfu sér.

Nei, það langmerkilegasta við að Atlanta sé komið í úrslitaeinvígi Austureildarinnar - undanúrslit NBA deildarinnar - er að það þurfti ekki að gera annað en vinna Brooklyn og Washington til að komast þangað.

Brooklyn var með 46% vinningshlutfall í vetur og Washington 56% og síðarnefnda liðið var svo huggulegt að vera með sinn besta mann í meiðslum í annari umferðinni svo Atlanta fengi nú sæmilega greiða leið áfram í keppninni.

Þetta er sagt í kaldhæðni, en þið fattið hvert við erum að fara með þessu. Atlanta tók vissulega efsta sætið í Austurdeildinni í deildarkeppninni og tryggði sér þar með þessa léttu leið í gegn um fyrstu tvær umferðirnar, en við getum bara ekki annað en hlegið aðeins að þessu.

San Antonio hefði tapað um það bil einum leik ef það hefði mætt Brooklyn og Washington í fyrstu tveimur seríunum sínum, en þess í stað féll það úr í fyrstu umferð af því það er í Vesturdeildinni. Fúlt fyrir þá, gaman fyrir Haukana.

Atlanta náði að tapa fjórum leikjum fyrir Brooklyn og Washington í fyrstu tveimur umferðunum og það verður að teljast nokkuð vel af sér vikið. Þeir sem hafa nennt að horfa á Atlanta spila í úrslitakeppninni hafa tekið vel eftir því að það er langt í frá sami bragur á liðinu nú og var í deildarkeppninni í vetur.

Það er að hluta til eðlilegt og rímar við það sem Hatorade-drykkjufólk eins og við erum búin að vera að þusa um í allan vetur. Neikvæðni okkar byggðist á þremur atriðum:

  1. Leikaðferð Atlanta er mun erfiðari í framkvæmd í úrslitakeppni en í deildarkeppni.
  2. Atlanta er ekki með súperstjörnu sem getur framleitt sóknarleik eftir þörfum.
  3. Atlanta er Atlanta.*

En nú fáum við væntanlega fyrst að sjá hvort þetta Atlanta lið getur eitthvað í alvöru þegar það mætir Cleveland Cavaliers í úrslitum Austurdeildarinnar.

Eins og þið vitið eru talsverð meiðsli í herbúðum Cleveland, svo það ætti að geta hjálpað Atlanta eitthvað, en LeBron James og félagar ættu að verða mun verðugri andstæðingur en Washington þó ekki væri nema bara út af James sjálfum.

Tvennt stendur upp úr hjá okkur varðandi Atlanta eftir fyrstu tvær umferðirnar:

Fyrra atriðið er að DeMarre Carroll sé búinn að vera besti maður liðsins í úrslitakeppninni. Það er dálítið fyndið að eini maðurinn í byrjunarliði Hawks sem var ekki valinn í Stjörnuliðið í vetur sé að spila manna best hjá liðinu í úrslitakeppninni.

Carroll er maður sem ekkert lið kærði sig um, enda er Atlanta fimmta liðið sem hann spilar með á jafnmörgum árum í deildinni. Þar er hann þó líklega búinn að finna sér framtíðarheimili, ekki síst með frammistöðu sinni núna.

Pilturinn skoraði 12,6 stig að meðaltali í leik í vetur en í úrslitakeppninni er hann að skila 17 stigum og betri tölum á öllum sviðum leiksins, ekki síst í 3ja stiga skotunum, þar sem hann skaut 44% gegn Nets og Wizards.

Annað sem er dálítið magnað við Haukana er meintur vandræðagangur Kyle Korver í úrslitakeppninni. Við höfum ekki séð alla leiki Atlanta en Korver hefur ekki verið að hitta eins vel og hann gerði í deildinni. Slík eru vandræði stórskyttunnar að fjölmiðlar hafa gert sér mat úr því.

Við reiknuðum því með því að Korver væri að skjóta 30% utan af velli og 17% úr þristum þegar við flettum honum upp, en það er öðru nær. Hann er að hitta úr 38% skota sinna í það heila og 35% fyrir utan, sem er lélegt fyrir hann, en margir leikmenn væru tilbúnir að skipta við hann um nýtingu í langskotunum.

Hvort sem Korver var í vandræðum eða ekki, er samt alveg ljóst að Atlanta þarf á hans besta að halda þegar það mætir Cleveland. Haukarnir njóta góðs af því að vera með heimavöllinn og eru með sæmilega heilt lið, svo þeir ættu að meta möguleika sína ágæta.

Nú fáum við nefnilega að vita það í eitt skipti fyrir öll, hvor Atlanta sé bara Atlanta eða hvort Atlanta ætli að skrifa nýjan kafla í sögu Atlanta, sem væntanlega myndi þýða að Atlanta yrði ekki lengur bara Atlanta, heldur eitthvað miklu, miklu meira. Þú veist.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Lengri útgáfan af þessu orðatiltæki er svohljóðandi:
"Atlanta er bara Atlanta, hefur alltaf verið Atlanta og verður því bara Atlanta um ókomna tíð."

Thursday, May 14, 2015

Allt um stöðu mála í úrslitakeppninni


Hvergi koma veikleikar körfuboltaliða jafn átakanlega í ljós og í úrslitakeppninni, þegar þjálfarar andstæðinganna reyna að nýta sér hvern einasta millimetra sem þeir hafa á þig. Það sem sagt kemst fljótlega upp um þig ef þú ert ekki alvöru í úrslitakeppninni.

Flest liðanna sem eru nú að bítast í annari umferðinni áttu nokkuð náðug einvígi í þeirri fyrstu, en núna er allt annað uppi á teningnum. Núna snýst allt um tommurnar sem Al Pacino talaði um forðum.

Og af því þessir veikleikar eru stundum dálítið áberandi hjá liðum þegar komið er fram í fjórða og fimmta leik í einvígi, hættir okkur til að hrökkva í neikvæðnigírinn og fara að velta okkur upp úr því sem upp á vantar hjá liðunum í stað þess að skoða hvað þau gera vel. Við erum svo sem ekki ein um að sjá glasið svona hálftómt - Twitter er t.d. miskunnarlaus vélbyssa sem hlífir engum.

En við skulum hætta að velta okkur upp úr þessu og kíkja aðeins á það hvað er að gerast í rimmunum fjórum sem eru í gangi í úrslitakeppninni, þar sem staðan er svona þegar þetta er skrifað:



Eins og þið munið kannski, var staðan 1-1 á öllum vígstöðvum eftir fyrstu tvo leikina og var það í fyrsta skipti í ansi mörg ár sem sú staða kom upp eftir tvo leiki í 2. umferðinni, sem var nokkuð óvænt. Nú eru hinsvegar búnir fimm leikir í öllum rimmum og þá eru línur oftast farnar að skýrast nokkuð vel.

ATLANTA (3) - WASHINGTON (2)

Atlanta hafði heilladísirnar sannarlega á sínu bandi í nótt þegar það vann nauman 82-81 sigur á Washington á heimavelli sínum í fimmta leik.

Atlanta tapaði boltanum 23 sinnum í leiknum og skaut innan við 23% úr þriggja stiga skotum en vann samt, sem er ekkert annað en heppni í bland við góða baráttu.

Við leyfum okkur að fullyrða að Atlanta muni ekki vinna annan leik það sem eftir er í úrslitakeppninni með svona spilamennsku.

Það sem vakti helst athygli okkar í þessu einvígi var hvað Washington-liðið var fullt af góðum anda nánast allan leikinn.

Það hleypti óneitanlega fjöri í liðið að fá John Wall aftur inn og hann fær mörg rokkstig fyrir að ákveða að spila þrátt fyrir handarmeiðsli.

En Wall gerði meira en að spila, hann stýrði leik Wizards eins og herforingi og það er ekki hægt annað en öfunda Washington af bakvarðaparinu unga - honum og Bradley Beal - sem voru báðir frábærir í þessum leik.

Það sama verður ekki sagt um Nene frænda þinn, sem ákvað að vera Lélegi Nene í nótt og það hjálpaði Washington ekki neitt. Annað sem hjálpar liðinu ekki er að það er að spila á færri mönnum en LA Clippers, sem er ekki til eftirbreytni.

Það var eiginlega alveg magnað við þennan leik að okkur þótti Washington vera með hann í hendi sér nánast allan leikinn og sjálfstraustið geislaði af liðinu - sérstaklega bakvarðaparinu unga.

Paul Pierce hélt að hann hefði tryggt Washington sigur í leiknum með þriggja stiga körfu rétt fyrir leikslok, en eins og flest ykkar sáu, voru það Al Horford og heilladísirnar sem kláruðu leikinn þegar innan við tvær sekúndur voru eftir og Washington búið með leikhléin sín.

Við neyðumst víst til að hrósa Atlanta liðinu fyrir að hafa klárað þennan leik, en við finnum satt best að segja talsvert færri hluti til að hrósa Atlanta fyrir en Washington.

Atlanta vann 60 leiki í vetur og á auðvitað ekki að vera í svona rosalegum vandræðum með lið sem vann ekki nema 46 leiki.

Eini maðurinn sem okkur langar að hrósa hjá Atlanta er Al Horford og það er ekki af því hann skoraði sigurkörfuna eftir sóknarfrákast. Það er meira af því hann skoraði 23 stig, hirti 11 fráköst og varði 5 skot í leiknum og var langbesti maður Atlanta.

Það kom upp úr kafinu eftir leikinn að Mike Budenholzer þjálfari (ársins) Atlanta teiknaði lokaleikkerfið upp fyrir Dennis Schröder, sem er eitthvað sem við bara föttum ekki.

Schröder er vissulega fljótur og góður að komast fram hjá manninum sínum, en þar með er það upptalið. Hann getur ekki skotið til að bjarga lífi sínu og þó hann virðist vera mjög hugrakkur, finnst okkur stórfurðulegt að Jeff Teague hafi ekki verið látinn slútta þessu.

Washington getur huggað sig við að næsti leikur eru á heimavelli, þó það hafi reyndar ekki spilað sérstaklega vel þar í úrslitakeppninni síðustu tvö ár. Það kæmi okkur á óvart ef Wizards næði ekki að klóra þetta í oddaleik.

Saturday, February 7, 2015

Loftárásir Kyle Korver


Okkur leiðist nú ekki að líma skotkort upp um alla veggi eins og þið vitið. Það er góð leið til að túlka tölfræðiblæti á háu stigi.

En nú er svo komið, að það verður ekki hjá því komist að sýna ykkur nokkrar myndir. Það er svona þegar einhver NBA leikmaðurinn tekur upp á því að vera bara í ruglinu.

Maðurinn sem um ræðir er Kyle Korver hjá Atlanta Hawks. Korver hefur alltaf verið mjög beitt skytta - ein sú besta í deildinni - en hann er búinn að vera alveg sérstakur undanfarin ár og í ár er hann svo kominn í áðurnefnt rugl.

Korver á sjálfur metið yfir besta 3ja stiga nýtingu á tímabili, en hann skaut hvorki meira né minna en 53,6% úr þristum þegar hann var hjá Jazz veturinn 2009-10.

Eins og margir vita er Korvera að eiga annað eins ævintýratímabil núna (53,3%) en það sem er enn merkilegra við það, er að hann er að taka nærri þrisvar sinnum fleiri þriggja stiga skot en hann var að taka árið 2010.

Það stafar mestmegnis af því að hann er farinn að spila meira en hann gerði á síðustu árum. Hann er kominn í besta form sem hann hefur verið í á ferlinum og þjálfarinn treystir honum og gætir þess að hæfileikar hans nýtist til fullnustu.

Við verðum að klappa sérstaklega fyrir liðum eins og Jazz og Bulls sem voru með Korver í sínum röðum en töldu sig ekki hafa þörf fyrir hann, en þó ber að hafa í huga að Korver var ekki sá leikmaður sem hann er í dag árið 2010.

Hann var jú heimsklassa skytta eins og hann hefur alltaf verið, en hann var þungur á löppunum og gat ekki haldið mosa fyrir framan sig í vörninni í þá daga.

En það þýðir ekkert að velta sér upp úr fortíðinni. Það sem við höfum gaman af er nútíðin hans Kyle Korver og okkur langar að deila með ykkur hringlandi geðveiku skotkortinu hjá manninum.

Og til að setja hittnina hans í samhengi, byrjum við á að deila með ykkur skotkorti þriggja manna sem þið ættuð öll að kannast við. Allt eru þetta stórstjörnur á misjöfnum stað á ferlinum, en enginn þeirra getur kallast góð 3ja stiga skytta eins og þið sjáið hérna fyrir neðan (smellið til að stækka myndirnar).

Þið munið væntanlega að guli liturinn þýðir að leikmaðurinn sem um ræðir sé að skjóta mjög nálægt meðaltali deildarinnar á því svæði. Sé liturinn rauður, þýðir það að leikmaðurinn sé að skjóta undir meðaltali í deildinni, en græni liturinn þýðir að hann er með betri nýtingu en meðaltal deildarinnar.



Næstir á svið koma svo Swish-lendingarnir Klay Thompson og Stephen Curry hjá Golden State, en öfugt við þá Kobe, Wade og Rose, eru þeir framúrskarandi þriggja stiga skyttur eins og allir sem fylgjast með NBA hafa fengið að sjá undanfarin misseri. Hafi þremenningarnir á fyrstu kortunum verið slakar þriggja stiga skyttur, eru Warriors-piltarnir fagmenn í greininni.



Og þá getum við skoðað kortið hans Kyle Korver. Það er með algjörum ólíkindum að maðurinn sé að skjóta svona vel, þvi þið megið ekki gleyma því að hann er oftast með besta varnarmann andstæðinganna límdan í andlitið á sér hverja einustu sekúndu sem hann spilar, þó þeir eigi það nú til að sofna á verðinum.

Það sést best á því að Korver er með 53,3% 3ja stiga nýtingu þegar hann "grípur og skýtur" og hvorki meira né minna en 57,3% ef þú skilur hann eftir opinn. Og hvað er þetta með að hitta tveimur af hverjum þremur þristum úr hægra horninu? Er það bara...























Þetta er bara svo langt frá því að vera eðlilegt.
Nennir þessi maður kannski að slappa aðeins af!

Friday, December 20, 2013

Kyle Korver hittir oft körfuboltum ofan í körfur


Já, svona lítur skotkortið hans Kyle Korver út um þessar mundir. Þið munið að græni liturinn táknar skotnýtingu yfir meðaltali í deildinni. Hann sprengir þann skala á öllum vígstöðvum.

Auðveldlega ein af tíu bestu langskyttum sem spilað hafa í NBA deildinni. Líklega ein af fimm bestu. Tölfræðin hans undanfarin ár hefur verið lygileg. Hann er ekki bara sætur og góður strákur, hann Korver frændi þinn, hann er líka afburða fær í að kasta körfuboltum niður um hringlaga gjarðir af löngu færi.


Saturday, November 16, 2013

Korver nálgast met


Kyle Korver, leikmaður Atlanta Hawks, er ein besta þriggja stiga skytta sem stigið hefur inn á gólf í NBA deildinni. Korver smellti þremur þristum í nótt þegar lið hans skellti Spútnikliði Philadelphia 113-103 og er nú ekki langt frá því að skrá nafn sitt aftur í sögubækurnar.

Þetta var 82. leikurinn í röð sem Korver setur að minnsta kosti einn þrist niður. Hann vantar nú aðeins sjö leiki upp á að jafna NBA metið yfir flesta leiki í röð með einn þrist eða fleiri.

Það á Dana Barros sem setti það þegar hann var leikmaður Boston Celtics um miðjan tíunda áratuginn. Hann sló þá met Michael "græna ljósið" Adams, sem var 79 leikir í röð.

Þess má til gamans geta að Barros endaði þessa miklu rispu á sínum tíma með því að bjóða upp á 0-8 í þristum í leik gegn Golden State í janúar 1996. Hann hafði þá sett einn eða fleiri þrista allar götur síðan á Þollák árið 1994.

Ef Korver tekst að halda áfram að hitta, mun hann jafna met Barros þann 27. nóvember og slá það tveimur dögum seinna í leik gegn Dallas Mavericks. Það er engin ástæða til að efast um að hinum hug- og hárprúða prestssyni takist þetta.

Korver er að hitta yfir 51% úr þristum í vetur og setti m.a. NBA met árið 2010 þegar hann setti 59 af 110 þristum sínum niður (53,6%) með Utah Jazz, sem er besta nýting sem leikmaður í NBA hefur skilað á heilu tímabili. Hann sló þá met sem Steve Kerr setti árið 1995 með Chicago Bulls (52,4%). Þá á hann einnig NBA metið yfir að vera líkastur Ashton Kutcher.

Skyttan mikla hóf feril sinn með Philadelphia 76ers árið 2003 og var þar í fimm ár. Þá var hann í þrjú ár hjá Jazz, tvö hjá Chicago og er nú á öðru ári sínu með Atlanta.

Korver er með um 10 stig að meðaltali í leik á ferlinum og 42% þriggja stiga nýtingu. Alls hefur hann sett 1344 þrista, sem reyndar kemur honum ekki nema í 27. sætið yfir flesta skoraða þrista í sögu NBA.

Rétt er að taka fram að þessum pistli er ekki ætlað að jinxa aumingja Korver. Við tökum það á okkur ef hann klikkar á þessu, en við heitum á piltinn að hitta fram í desember.