Showing posts with label Fyrirbæri. Show all posts
Showing posts with label Fyrirbæri. Show all posts

Wednesday, January 13, 2016

NBA Ísland skoðar einstaka körfuboltamenn


Frávik eru nauðsynleg í samfélagi okkar fullyrti franski félagsfræðingurinn Émile Durkheim fyrir meira en hundrað árum síðan. Enski náttúrufræðingurinn Charles Darwin talaði líka um annars konar frávik - skrímsli og ýmis konar vanskapnað - sem hefur áhrif á þróun dýrategunda. Við mannfólkið erum jú ekkert annað en dýr. Þetta eru merkileg fræði þó ólík séu, frá tveimur af skörpustu hugsuðum nítjándu aldarinnar.

Nú voru þeir Darwin og Durkheim ekki svo heppnir að geta fylgst með NBA körfuboltanum, en okkur verður stundum hugsað til þeirra þegar við fylgjumst með Leiknum í dag. Það er nefnilega eins með körfuboltamenn og annað fólk - það má finna skrímsli í þeirra röðum og það má alltaf koma auga á einhverja þróun í bæði leiknum og mönnunum sem spila hann.

Þeir sem lesa NBA Ísland reglulega muna eflaust eftir því að við höfum átt það til að skrifa um sérstaka tegund leikmanna sem við köllum fyrirbæri. Sumum finnst þetta kannski ljótt orð til að lýsa körfuboltamönnum, en trúið okkur, við meinum ekkert illt með því - þvert á móti. Við köllum nefnilega ekki hvern sem er fyrirbæri. Ó, nei.






(Mynd: Lakers miðherjarnir Kareem Abdul-Jabbar, Shaquille O´Neal og George Mikan)

Ástæðan fyrir því að við erum að hugsa um fyrirbæri núna er sú að þegar við vorum að hugsa um eitt þeirra um daginn, flaug okkur í hug að líklega væru fleiri fyrirbæri í NBA deildinni í dag en nokkru sinni fyrr. Og til að færa rök fyrir því, er upplagt að útskýra fyrir ykkur hvað við meinum með orðinu fyrirbæri, greina frá sögu þess og segja ykkur loks frá fyrirbærum dagsins í dag.

Fyrirbæri er í stuttu máli sá körfuboltamaður sem skarar fram úr keppinautum sínum með líkamlegum yfirburðum sínum og/eða hreinum hæfileikum. Flest fyrirbærin hljóta þá nafngift hjá okkur af því þau eru stærri, sterkari, fljótari, fjölhæfari eða hæfileikaríkari en flestir ef ekki allir mótherjar þeirra á körfuboltavellinum.

Eins og þið getið ímyndað ykkur, er enginn á ritstjórn NBA Ísland sem fór á NBA leiki fyrstu áratugina sem deildin var í gangi og því verðum við að styðjast við ritaðar heimildir í leit að fyrirbærum eins og öllu öðru sem átti sér stað um og eftir miðja síðustu öld.

Líklega eru flestir sammála um að fyrsta fyrirbærið í sögu NBA deildarinnar hafi verið George Mikan.  Miðherjinn Mikan teldist sannarlega ekki mikið fyrirbæri í NBA deild dagsins í dag, enda ekki nema 208 sentimetrar á hæð - hvítur og luralegur náungi með gleraugu.

Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar var Mikan hinsvegar hinn eini sanni risi deildarinnar og var margfaldur stigakóngur og meistari með forvera Los Angeles Lakers í Minneapolis. Mikan var kallaður Herra Körfubolti og sjá má styttu af honum fyrir utan heimahöll Minnesota Timberwolves.

Við gætum haldið langan fyrirlestur um Mikan og þau áhrif sem hann hafði innan og utan vallar, en það sem skiptir mestu máli hvað fyrirbærafræðina varðar var að Mikan var það áhrifamikill í teignum að gerðar voru reglubreytingar út af honum.

Það eru góðar líkur á því að þú sért fyrirbæri ef þarf að breyta reglunum út af þér og það er engin tilviljun að miðherjarnir sem komu á eftir Mikan og höfðu þessi áhrif á reglurnar, fá líka á sig fyrirbærastimpilinn hjá okkur.



Næsta fyrirbæri á blaði hjá okkur kom ekki inn í NBA deildina fyrr en nokkrum árum eftir að Mikan hætti, en það var Wilt Chamberlain - mögulega fyrirbæri allra fyrirbæra.

Við höfum skrifað um Wilt áður og minnum ykkur á að þessum pistli er ekki ætlað að vera ævisaga mannanna sem fjallað er um, en Wilt er á þessum lista - og mögulega á toppnum - af því hann var fullkomlega óstöðvandi körfuboltamaður, líkamlegt og íþróttafræðilegt undur sem NBA deildin var hreinlega ekki tilbúin að taka á móti þegar hann kom til sögunnar í upphafi sjöunda áratugarins.

Wilt er eini maðurinn sem hefur skorað 100 stig í einum leik í NBA deildinni og hann er eini maðurinn sem hefur skorað 50 stig að meðaltali í leik í NBA deildinni.

Hann á flest met NBA deildarinnar í stigaskorun og fráköstum, en hann leiddi deildina líka einu sinni í stoðsendingum bara af því hann langaði að prófa það. Wilt var magnaður alhliða íþróttamaður og var frambærilegur bæði í blaki og frjálsum íþróttum á sínum tíma.

Svo skemmir það ekki fyrir goðsögninni Chamberlain að hann var sagður hafa átt bólfélaga sem skiptu þúsundum, hann spilaði einu sinni meira en 48 mínútur að meðaltali í leik yfir heila leiktíð, hann tróð einu sinni bolta með mann hangandi í honum og á að hafa fótbrotið annan mann af því hann tróð boltanum svo fast ofan á aðra löppina á honum.

Wilt Chamberlain gjörsamlega dómíneraði NBA deildinni allan sjöunda áratuginn og fram á þann áttunda og enginn leikmaður fyrr eða síðar hefur gert eins miskunnarlausar árásir á tölfræðiskýrslur í sögu körfuboltans.

Já, góðir hálsar. Wilt Chamberlain var fyrirbæri. Kannski fyrirbæriÐ.



Næstu tvö fyrirbæri á blað hjá okkur verða einfaldlega að fara þangað af því þau voru svo fáránlega góð í körfubolta, en það vill reyndar svo skemmtilega til að þau voru einu sinni saman í liði. Þetta eru Lew Alcindor, síðar Kareem Abdul-Jabbar og félagi hans Oscar Robertson.

Kareem er að mörgum talinn besti miðherji allra tíma í NBA deildinni og var sexfaldur meistari, sexfaldur leikmaður ársins og er stigahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi með 38.387 stig.

Punkturinn yfir i-ið hjá Kareem var svo einkennismerkið hans, sveifluskotið, sem gerði hann að óstöðvandi sóknarmanni. Hann upplifði það líka að reglunum í leiknum var breytt út af yfirburðum hans á vellinum.

Liðsfélagi Jabbars (um hríð hjá Milwaukee Bucks), Oscar Robertson, var annars konar fyrirbæri, en hann er fyrsti maðurinn á lista okkar sem var ekki miðherji.

Robertson var bakvörður sem er frægastur fyrir fjölhæfni sína á vellinum, enda  er hann eini maðurinn sem hefur verið með þrefalda tvennu að meðaltali í leik yfir heilt tímabil í NBA deildinni.

Robertson var framúrskarandi körfuboltamaður á öllum sviðum. Hann hafði alla kosti sem góðir bakverðir þurfa að hafa, en var ofan á það sterkur eins og ljón og frákastaði eins og stór maður.

Saturday, March 14, 2015

Gobert-skýrslan


Einhver ykkar hafa eflaust fundið það á sér að þessi pistill væri á leiðinni. Við ætlum að reyna að hafa hann stuttan og það sem meira er, reyna að gæta þess að segja ekki eitthvað sem við gætum fengið í bakið seinna eins og ryðgaðan búrhníf.

Málið er bara að við getum ekki haldið aftur af hrifningu okkar á franska miðherjanum Rudy Gobert hjá Utah Jazz. Við höfum orðið vitni að mörgum skemmtilegum hlutum í NBA deildinni í vetur, en Franska Andspyrnuhreyfingin Rudy Gobert er á góðri leið með að toppa þá alla.

Í gær sáum við Rudy taka Houston og gjörsamlega hakka það í sig með troðslum, fráköstum (og fleiri fráköstum), vörðum skotum og meira að segja stoðsendingum! Ef þú ert með athyglisbrest, geturðu látið þér nægja að horfa á þessa huggulegu troðslu hans:



En ef þú ert alvöru körfuboltaáhugamaður eða kona, skaltu kíkja á þessa Rudy-samantekt úr leiknum í nótt, þar sem troðslan hér fyrir ofan er innifalin. Hann hirti m.a. ellefu sóknarfráköst í fyrri hálfleik, sem Twitter NBA deildarinnar sagði hafa verið tveimur sóknarfráköstum frá meti Charles Barkley yfir flest sóknarfráköst í einum hálfleik. Seljum það svo sem ekki ekki dýrara.



Okkur hefur ekki þótt svona vænt um neinn Rudy síðan Rudy Huxtable var upp á sitt dúllulegasta á sjónvarpsskjánum okkar á níunda áratugnum.

Rudy Gobert átti ekkert að vera svona góður, en annað er að koma á daginn. Á meðan fyrrum liðsfélagi hans Enes Kanter er að skora og skora eins og Grindvíkingur í Oklahoma, hefur Kanter bókstaflega farið hamförum með Utah.

Það er eiginlega með ólíkindum að eintak eins og þessi drengur hafi gjörsamlega farið fram hjá NBA njósnurum og ekki verið tekinn fyrr en 27. í nýliðavalinu fyrir tveimur árum.

Þá erum við ekki endilega að tala um að hæfileikar hans hafi farið fram hjá fólki, enda voru þeir ekki meiri en hjá öðrum leikmönnum, heldur fyrirbærafræðileg stærðarhlutföll hans og keppnisskap.

Við sögðum ykkur frá því um daginn hvað það asnalegt að þetta Utah-lið sé allt í einu farið að vinna alla leiki - það meikar ekki nokkurn einasta sens.

Það er hinsvegar alveg ljóst að Rudy á stóran þátt í þessum framförum.

Í þeim ellefu leikjum sem Jazz hefur spilað eftir að Gobert leysti Enes Kanter af í byrjunarliðinu, er hann með 11 stig, 14 fráköst, 3 varin skot, stolinn bolta og 57% skotnýtingu. Það sem er merkilegra en þessi huggulega tölfræði er að Utah er búið að vinna níu af þessum ellefu leikjum, sem margir hverjir hafa komið á móti sterkum liðum sem eru á leið í úrslitakeppni.

Það er erfitt að hrífast ekki af þessari frammistöðu Gobert og í raun alls Utah-liðsins, en við erum búin að fylgjast það lengi með NBA deildinni að við vitum alveg að Öskubuskuævintýrin eru algeng í deild þar sem mikið er af hæfileikamönnum, sem fá endalaus tækifæri til að sýna þessa hæfileika.

Við vitum líka að Rudy Gobert er óralangt frá því að vera eitthvað gallalaus leikmaður. Hann er kornungur og óreyndur, þarf að verða miklu sterkari, taka betri ákvarðanir og koma sér upp einhvers konar sóknarleik. Þetta koma samt til með að verða aukaatriði hjá Rudy Gobert í nánustu framtíð, því drengurinn er þegar orðinn eitt óárennilegasta varnartæki í deildinni.

Ef við gæfum okkur að allir yngri leikmenn NBA deildarinar yrðu settir í pott og framkvæmdastjórar liðanna fengju að drafta þá leikmenn sem þeir myndu helst vilja fá til sín til að byggja upp sterkt lið til framtíðar. Það er nokkuð öruggt að Anthony Davis yrði tekinn númer eitt í slíku drafti en við fullyrðum að Rudy Gobert þyrfti ekki að bíða lengi eftir að verða valinn þar á eftir.

Tvær gerðir af leikmönnum verða ekki metnar til fjár í NBA deildinni. Ofurstjörnur og varnarakkeri. Og Utah Jazz  hefur einhvern veginn í fjandanum tekist að stela sér svona varnarakkeri fyrir ekki neitt.

Það er þegar orðið ljóst að Quin Snyder þjálfari Utah veit hvað hann er að gera og það verður rosalega forvitnilegt að sjá hvað hann gæti gert ef hann fengi t.d. bakverði í hendurnar sem væru betri en þeir sem spila í Domino´s deildinni.

En það verður Rudy Gobert sem verður þungamiðjan í varnarleik Jazz næstu árin. Við fullyrðum að ef hann sleppur við meiðsli og heldur áfram að bæta sig með eðlilegum hætti næstu árin, verður hann topp þrjú varnarmiðherji í deildinni um ókomin ár.

Það er reyndar ólíklegt að hann eyði öllum ferlinum í Salt Lake City, en menn eins og Gobert  - fyrirbæri eins og Gobert - geta haft úrslitaþýðingu fyrir lið sem ætla að vinna meistaratitla í framtíðinni. Gobert er nefnilega fyribæri. Líkamlegt fyrirbæri sem á eftir að gera mönnum lífið leitt í teigum NBA deildarinnar næstu árin. Sannaðu til.

Thursday, March 5, 2015

Russell Westbrook í sögulegu samhengi


Ef þú heldur að það sé okkur að kenna að þú sért að reka augun í enn einn Westbrook-pistilinn, veður þú um í villu og svíma. Við höfum ekkert með þetta að gera, það er Russell Westbrook sem er að þvinga okkur að lyklaborðinu.

Það er leitun að öðrum eins Westbrook-aðdáendum og okkur, en spilamennska drengsins undanfarinn mánuð er að þvinga æ fleiri efasemdamenn og konur inn á málstað hans. Málstað hins óbeislaða atmennis.

Það er gaman að standa hérna núna og fylgjast með öllum nýliðunum í aðdáendaklúbbi Westbrook, sem sumir hverjir hafa ekki gert annað en drulla yfir hann allar götur síðan hann kom inn í deildina. Hann var jú bara óagaður og skotglaður hrokagikkur sem kunni ekki að leika við hina krakkana og vissi ekki hvenær hann átti að hætta. Jú, jú, þetta passar allt við Westbrook.

Þið vitið það ósköp vel að við erum búin að vera að blása í Westbrook hornið lengi og því er það okkur sérstök ánægja að sjá alla hræsnarana sem eru að hrinda hvor öðrum úr vegi núna til að komast um borð í Russ-vagninn. Nú þegar drengurinn er að sprengja alla skala á körfuboltavellinum. Ætli sé ekki best að segja það bara. Við sögðum ykkur þetta! Og hana nú.

Við ætlum ekki að eyða sérstökum tíma í að fara yfir tölfræðina hans Westbrook, fólk sem fylgist á annað borð með NBA deildinni veit að drengurinn er nokkurn veginn búinn að vera í 30/10/10/2 meðaltali síðan í byrjun febrúar og var að klára fjórðu þrennuna sína í röð með gat á hausnum þegar þetta er skrifað. Með gat á hausnum, já.

Þegar NBA-leikmenn fara á svona rosalegt flug, verðum við að koma ykkur til aðstoðar, skilgreina geðveikina, hjálpa ykkur að lesa út úr henni og setja hana í samhengi.Russell Westbrook er að spila nokkurn veginn eins vel og hægt er að spila körfubolta á síðasta rúma mánuðinum og hann er að gera það algjörlega á sinn hátt.

Eini gallinn við þetta hjá honum er að Oklahoma er ekki búið að vinna nógu marga leiki og mun ekki vinna nógu marga leiki til að hann geti komið til greina sem leikmaður ársins, en bæði honum og okkur er alveg sama um það. Hann er með í MVP-umræðunni og það er út af fyrir sig nóg.

Oklahoma má samt ekki tapa nema 2-3 leikjum til vors ef hann á að eiga raunhæfa möguleika á nafnbótinni og það er ekkert að fara að gerast. Látum það samt ekki hafa áhrif á þetta fallega dæmi um íþróttafræðilegan exelans.

Wednesday, November 19, 2014

Vaxtarkippur Brúnars og fyrirbærafræðin


Flestir sem á annað borð vita hver Brúnar er, þekkja söguna á bak við skyndilegan vaxtarkipp drengsins á unglings- og fullorðinsárunum.

Anthony Davis er með ljómandi góða boltameðferð af stórum manni að vera, en það er að hluta til vegna þess að hann gegndi stöðu bakvarðar upp í það sem nemur íslenska tíunda bekknum.

Hann var víst helst þekktur fyrir að hanga úti í horni og skjóta þristum, sem er ákaflega skondin tilhugsun í dag (í deeesch!).

Davis var víst ekki nema rétt rúmlega 180 sentimetrar á hæð í kring um 14-15 ára aldurinn, en nú þegar hann er kominn yfir tvítugt, er hann að nálgast 210 sentimetrana.

Sagt er að hann hafi mest sprottið yfir 20 sentimetra á 18 mánaða kafla.

Og hann á víst enn að vera að stækka, sem er reyndar ekkert spes, því ef hann fer ekki að hætta því, er hætt við að hann verði brothættur. Hann er alveg nógu gjarn á að meiðast nú þegar, þessi sambrýndi nördalegi og krúttlegi ofurleikmaður.

Hann er orðinn svo góður og hann er svo sérstakur leikmaður, að ef hann heldur svona áfram, förum við að kalla hann fyrirbæri. 

Og þið sem þekkið til á NBA Ísland vitið að það að vera kallaður fyrirbæri er líklega mesti heiður sem leikmanni hlotnast í okkar bókum.

Fyrirbærin eru sjaldgæf og sérstök og hver kynslóð leikmanna gefur almennt ekki af sér nema eitt fyrirbæri. Þannig var Wilt Chamberlain (f. 1936) fyrirbæri, Magic Johnson (f. 1959)var fyrirbæri, Shaquille O´Neal var fyrirbæri (f. 1972) og LeBron James (f. 1984) er fyrirbæri.

Leikmenn sem flokkast undir þetta hugtak eiga það sameiginlegt að búa yfir einstökum hæfileikum og oft eru það líkamlegir burðir þeirra sem gera það að verkum að þeir bera höfuð og herðar yfir samferðamenn sína.

Wilt og Shaq voru einfaldlega stærri, sterkari, sneggri og hæfileikaríkari en keppinautarnir - þeir voru hrein og klár genaundur. Menn eins og Magic og LeBron voru fyrirbæri á þann hátt að þeir höfðu fáa veikleika, gátu spilað nánast hvaða stöðu sem er á vellinum og gert það nær óaðfinnanlega. Fyrsta mál á dagskrá hjá þeim var og er alltaf að gera meðspilarana betri

Það er misjafnt hvenær menn ná tökum á fyrirbærafræðum sínum. Það var til dæmis vitað mál að Magic Johnson yrði/væri mjög sérstakur leikmaður löngu áður en hann byrjaði að raka sig. Þetta er ekki alveg jafn klippt og skorið hjá Davis, sem spilar líka allt aðra stöðu, en hann er líklega besta efni í fyrirbæri síðan LeBron james kom inn í deildina fyrir rúmum áratug. Og þá erum við ekki bara að tala um klæðaburðinn.


Thursday, June 12, 2014

Og þá kom Barkley


Charles Barkley er einn af þeim frábæru leikmönnum sem teknir voru í nýliðavalinu fræga í NBA árið 1984. Hans er því auðvitað getið í heimildamyndinni sem gerð var um þetta sögulega nýliðaval og frumsýnd var á dögunum. Barkley var sannarlega ekki lengi að koma sér á kortið ef svo má segja.

Það var Philadelphia sem landaði Barkley með fimmta valrétti í fyrstu umferð, en öfugt við sum af liðunum sem áttu fyrstu valréttina, var Philadelphia með sterkt lið fyrir. Það vann meira að segja titilinn leiktíðina 1982-83. Það voru því engir skussar sem spiluðu með Sixers í þá daga, þarna voru menn eins og Julius Erving, Moses Malone, Andrew Toney og Maurice Cheeks.

Wednesday, January 8, 2014

Meira af Dennis diplómat


Það er bara til eitt eintak af Dennis Rodman í heiminum. Kannski er það miður. Frákastakóngurinn heldur áfram að gefa vesturveldunum langt PR-nef með því að hanga með félögum sínum í Norður-Kóreu. Gríðarlega trendí.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá hann bæði syngja afmælissönginn og komast við. Gaman að sjá að fyrrum Knicks-framherjinn Charles Smith ("Smith, stopped, Smith, stopped again!") var með í för.



Við ætlum ekki að greina þessa hluti á pólitískan hátt, af því stjórnmál eru okkur álíka ofarlega í huga og tilhugalíf sækembunnar á Galapagos-eyjum. Það er til fólk, svo eru til geimverur og svo Dennis Rodman.


Monday, June 3, 2013

Magnaðasti leikmaður sögunnar á betra skilið:


Sjöundi áratugur síðustu aldar var sannkallaður blómatími í NBA deildinni. Eigum við ekki að segja að þetta hafi verið tími risaeðlanna. Annars vegar af því það er orðið svo langt síðan og hins vegar af því leikmennirnir tveir sem drottnuðu í deildinni á þessum áratug voru risar

Hér eigum við auðvitað við goðsagnirnar Wilt Chamberlain og Bill Russell. Þeir voru ólíkir persónuleikar, ólíkir leikmenn og gerðu ólíka hluti á ferlinum í NBA deildinni. Það eina sem tengir þá er sú staðreynd að þeir voru áhrifamestu og bestu körfuboltamenn samtímans og því lágu leiðir þeirra oftar en ekki saman í úrslitakeppninni á vorin.

Við gætum auðvitað skrifað 200 blaðsíðna ritgerð* um hvorn leikmann fyrir sig, en það var ekki ætlunin með þessum pistli. Honum er ekki aðeins ætlað að drepa tíma þinn fram að oddaleik Miami og Indiana í kvöld, heldur einnig að taka upp hanskann fyrir Wilt Chamberlain heitinn.

Þá spyr kannski einhver: Til hvers þarf að taka upp hanskann fyrir magnaðasta fyrirbæri körfuboltasögunnar? Það er af því að Wilt fær ekki nógu mikla ást. Það er sorgleg staðreynd sem við rekum okkur allt of oft á og við viljum gera eitthvað í því.

Hér fyrir neðan ætlum við að sem sagt að segja þér af hverju Wilt fær ekki næga ást og færa rök fyrir því af hverju á að vera mynd af honum uppi á vegg hjá öllum körfuboltaáhugamönnum.

Ofurmannleg frammistaða Wilt Chamberlain á körfuboltavellinum tryggði að hann mun hvorki hverfa úr annálum NBA deildarinnar né af vörum þeirra sem fylgjast með.

Wilt á enn fjöldan allan af ótrúlegum tölfræðimetum og þar á meðal þekktasta einstaklingsmetið í öllum körfuboltageiranum - 100 stiga leikinn árið 1962 sem flestir kannast við sem á annað borð fylgjast með íþróttum.

Tvö lið - Boston vinnur

Þó ferill Chamberlain hafi verið eins og lygasaga, er það allt of algengt að umræða um hann fari strax að snúast um Bill Russell, Boston Celtics og þá staðreynd að Wilt átti aldrei roð í þá grænu.


Alltaf skal Wilt borinn saman við Russell - og þó Wilt hafi alltaf verið með miklu betri tölfræði - vann Boston alltaf.

Boston vann bara alltaf á þessum árum. Þeir sem þekkja söguna vita að Boston hirti alla titla nema einn sem í boði voru í NBA frá árinu 1959 til 1969 og það er allt nema útilokað að við sjáum annan eins áratug aftur í sögunni.

Wilt var einstaklega óheppinn að hafa verið atvinnumaður meðan Rómarveldi NBA deildarinnar var í sínum mesta blóma í Boston undir stjórn Red Auerbach þjálfara og Bill Russell inni á vellinum.

Nú væri kannski freistandi að snúa dæminu við og fara að hrauna yfir Boston, en það gerum við auðvitað ekki. Þetta Boston lið er mesta stórveldi í sögu NBA og á skilið ómengaða virðingu.

Það er samt óþarfi að drulla yfir Wilt Chamberlain þó Boston hafi alltaf unnið. Það getur vel verið að Russell og Celtics hafi oftast haft betur gegn liðunum hans Wilt (Warriors, Sixers, Lakers) en við hvetjum fók til að kynna sér aðeins söguna áður en það fer að taka undir með fólki sem heldur að það sé skylda að tala illa um Wilt Chamberlain af því hann vann "ekki nema" tvo meistaratitla.

Yngri lesendur eru sérstaklega beðnir að gefa eftirfarandi góðan gaum.

NBA deildin var allt öðruvísi á sjöunda áratugnum en hún er í dag og segja má að drögin að nútíma körfubolta hafi verið lögð á lokaárunum hans Wilt Chamberlain eftir 1970.

Aðvörun: Fáránleg tölfræði

Wilt  kom inn í NBA deildina árið 1959 og gerði allt vitlaust strax á nýliðaárinu sínu.

Hvorki fyrr né síðar hefur maður byrjað með eins miklum látum og Wilt gerði þennan vetur.

Hvað var hann með mikil læti, spyrðu?

Hann varð stigakóngur (37,6 stig), frákastakóngur (27 fráköst), spilaði flestar mínútur (46,4), var valinn í Stjörnulið og var verðmætasti leikmaður Stjörnuleiksins (23 stig, 25 fráköst), nýliði ársins, var í fyrsta úrvalsliði deildarinnar og var valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar.

Alls sló hann átta met á fyrsta árinu sínu í deildinni og þó hann hafi löngu verið búinn að prýða forsíður allra helstu blaða og tímarita í Bandaríkjunum á háskólaárum sínum - var hann nú á góðri leið í að verða fyrsta ofurstjarnan sem sportið ól af sér.

Árið 1962 afrekaði Chamberlain svo að skora 100 stig í einum og sama leiknum. Það er lang frægasta metið hans (tölfræði hans yfir bólfélaga hefur ekki verið staðfest, en sögð geigvænleg) en þar með var ekki öll sagan sögð.

Wilt var fjórum sinnum kjörinn verðmætasti leikmaður ársins í NBA, hann var sjö sinnum í fyrsta úrvalsliði deildarinnar, spilaði 13 stjörnuleiki, varð stigakóngur sjö ár í röð (met sem Jordan jafnaði 1988-93), ellefu sinnum frákastakóngur og leiddi meira að segja deildina í stoðsendingum (8,6 í leik) árið 1968 þegar hann vildi sanna að hann gæti líka gefið boltann.

Þá leiddi hann deildina einu sinni í skotnýtingu, þegar hann nýtti tæplega 73% skota sinna á lokaárinu sínu með Lakers og setti met sem enginn nema hann sjálfur hefur komið nálægt. Hann á líka næst bestu nýtinguna (68,3%) og á þrjú af bestu fimm tímabilum í sögu deildarinnar á þessu sviði.

Kannski er samt svakalegast af öllu að hugsa til þess að Chamberlain var með 50,4 stig og 25,7 fráköst að meðaltali í leik veturinn 1962, sem eru náttúrulega kolgeðveikar tölur.

Íþróttamaður á heimsklassa.

Við vitum að við gerumst sek um gróflega ofnotkun á orðinu "íþróttamaður" þegar við erum að lýsa líkamlegu atgervi NBA leikmanna, en það vill svo til að það hefði getað verið mynd af Wilt Chamberlain fyrir aftan orðið íþróttamaður í orðabókinni - slíkur garpur var hann.

Fyrir það fyrsta var Chamberlain ekki bara snöggur og fljótur, heldur var hann nautsterkur. Hann var ekki með mikið kjöt utan á sér á fyrstu árum sínum í deildinni en fór stækkandi eftir því sem leið á ferilinn og til eru ótal sögur af hrikalegum styrk hans.

Wilt stundaði það mikið að kasta einum félaga sínum hjá Harlem Globetrotters** upp í loftið eins og barni og grípa hann og einu sinni tróð hann bolta í körfuna þó maður væri hangandi á boltanum - hann tróð honum bara líka. Þá er til saga af Chamberlain þar sem hann ku hafa troðið svo fast í eitt skiptið að maður sem varð fyrir boltanum á niðurleiðinni hafi fótbrotnað, en það er reyndar ansi mikill Múnkhásen-þefur af þeirri sögu.

Wilt var ekki bara sterkur, heldur líka fljótur og fjölhæfur íþróttakappi. Hann lagði stund á m.a. þrístökk, hástökk, kringlukast og lang- og spretthlaup. Sagan segir að hann hafi klárað 100 metrana á 10,9 sekúndum í menntaskóla, sem er tími í heimsklassa, ekki síst í þá daga þegar enginn hafi náð að hlaupa vegalendina á innan við 10 sekúndum. Sá múr var ekki rofinn fyrr en árið 1968, meira en áratug síðar.

Yfirburðir Chamberlain.

Það má vel vera að Bill Russell geti alltaf bent á meistarahringana sína ellefu ef einhver fer að tala við hann um Wilt Chamberlain, en þó menn sem vinna eigi skilið sitt respekt, er afrekaskrá Russell þar fyrir utan ekki merkileg við hliðina á þeirri sem Wilt státaði af og við töldum upp hérna fyrir ofan.

Ekki misskilja, 99% leikmanna sem spilað hafa í NBA hefðu fegnir tekið því að vera með afrekaskrá Russell. Hann var fimm sinnum kjörinn verðmætasti leikmaður deildarinnar (þrátt fyrir að vera aðeins þrisvar í 1. úrvalsliði deildarinnar), var tólf sinnum í Stjörnuliðinu og leiddi deildina fimm sinnum í fráköstum.

En tölfræði Russell bliknar í samanburði við tölurnar hans Chamberlain. Wilt var með 30 stig, 23 fráköst, 4 stoðsendingar og 54% skotnýtingu á ferlinum. Russell skoraði 15 stig, hirti yfir 22 fráköst, gaf fjórar stoðsendingar og hitti úr 44% skota sinna.

Þess má geta að varin skot voru ekki viðurkennd tölfræði á þessum árum og vilja kunnugir meina að þeir félagar hafi verið ansi duglegir við þá iðju, sem er trúlegt. Eins og það er klisjulegt, átti Chamberlain það til að nýta ótrúlega íþróttahæfileika sína til að hamra skot mótherjanna upp í stúku, en Russell var þekktur fyrir að vanda sig við að verja skotin, leggja mikið upp úr því að halda þeim í leik og helst búa til hraðaupphlaup upp úr þeim.

Þá var aðeins nýbyrjað að velja varnarlið ársins undir restina á ferli þeirra Russell og Chamberlain og ætla má að sá fyrrnefndi hefði verið fastamaður þar allan ferilinn.

Chamberlain gat reyndar alveg spilað fantavörn ef honum sýndist svo og lagði meiri áherslu á þann hluta leiksins á árunum með Lakers undir stjórn Bill Sharman.

Magnaðir molar.

Okkur lék mikil forvitni á að vita hvernig Wilt vegnaði gegn Russell maður á mann í viðureignum þeirra í gegn um tíðina.

 Það er gömul tugga að Russell hafi oftast unnið leikina, gott og vel, en hvernig ætli tölfræðin hans Chamberlain hafi verið á móti varnarjaxlinum Russell?

(Mynd: Wilt og Arnold í hlutverkum sínum í kvikmyndinni Conan the Destroyer árið 1984)

Við rákumst á nokkra skemmtilega mola um viðureignir þeirra sem við ætlum að nota til að slá botninn í þessa hugleiðingu, sem ætlað var að vekja fólk til umhugsunar.

Chamberlain fær of lítið respekt að okkar mati, því hann er ekki aðeins mesti skorari í sögu körfuknattleiksins heldur í alla staði eitt stórkostlegasta fyrirbæri sem stigið hefur á parketið.

Við notum orðið fyrirbæri til að lýsa leikmönnum sem brjóta í bága við algengustu lögmál íþrótta- og eðlisfræðinnar. Og það gerði Wilt Chamberlain svo sannarlega.

Þið takið eftir því að í yfirfyrirsögninni á þessum pistli segjum við að Wilt Chamberlain sé magnaðasti leikmaður í sögu NBA deildarinnar.

Hann var (lang) hæfileikaríkasti körfuboltamaður sinnar kynslóðar og enginn, hvorki fyrr né síðar, hefur ruslað deildinni upp eins og hann gerði á sínum tíma. Það er útilokað að leika afrek Chamberlain eftir í nútíma körfubolta - nema Köngulóarmaðurinn sé á leiðinni í NBA.

Wilt var risi í kúltúr og risi að burðum. Allt sem hann gerði var hrikalegt og Twitter hefði brunnið til kaldra kola ef það apparat hefði verið til þegar Wilt var að setja metin (og hitta sautján konur á einni helgi - pældu í Wilt á Instagram!).

Annað sem hafa verður í huga þegar spólað er svona til baka er að átökin í deildinni voru mikið mun harðari á þessum tíma en þau eru í dag. Þá þótti ekkert tiltökumál að lemja andstæðinginn í gólfið þegar hann keyrði á körfuna og gefa honum svo á kjaftinn ef hann ætlaði að gera eitthvað í því. Þetta hljómar kannski villimannslegt, en svona var þetta stundum í þá daga.

Chamberlain íhugaði meira að segja að leggja skó sína á hilluna snemma á ferlinum, því hann var orðinn svo leiður á þeim gegndarlausu barsmíðum sem hann mátti þola í hverjum einasta leik. Ekki gat tröllið svarað fyrir sig, því þá hefði einhver endað á líkbörunum.

Bleyðuhátturinn sem viðgengst í NBA í dag er genginn yfir allt meðalhóf, þar sem menn fá tæknivillur fyrir það eitt að horfa í áttina að mótherjum sínum. Það væri gaman ef hægt væri að finna meðalhóf milli slagsmálanna á sjöunda og áttunda áratugnum - og bridge-hörkunnar sem tíðkast í NBA í dag.

Að lokum eru hér nokkrar tölur sem Wilt bauð upp á í leikjum gegn Russell:.

- 1959: Strax á nýliðaárinu sínu átti Wilt 44 stiga og 43 frákasta leik gegn Russell.
- 1960: Var hann með þrefalda tvennu í leik gegn Russell. 39 stig, 25 fráköst og 14 varin skot.
- 1961: Setti NBA met með 55 fráköstum í einum leik. Russell hirti 19 en vann leikinn.
- 1961: Var með þrefalda tvennu upp á 44 stig, 35 fráköst og 15 varin skot gegn Russell.
- 1962: Fagnaði árinu ´62 með því að salla 62 stigum á Russell.
- 1965: Tvær þrennur gegn Russell í úrslitakeppninni. Fyrst 33/31/11 og svo 30/26/13.
- 1967: Nær fernu gegn Russell í úrslitakeppninni - 24 stig, 32 frák, 13 stoð og 12 varin.
- 1968: Var með þrefalda tvennu (stig, frák, stoð) í þremur af fjórum leikjum gegn Russell.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

* -  Auðvitað varð þetta þá að 200 blaðsíðna ritgerð - bjóstu við öðru?

** - Wilt spilaði með Harlem Globetrotters fyrsta árið sitt sem atvinnumaður og gerðist þá svo frægur að spila m.a. í Rússlandi. Hann sagði alltaf að honum hefði liðið vel með Globetrotters, þar sem aðalatriðið var að skemmta fólki og hann var ekki laminn af varnarmönnum í hverri sókn.

Pé Ess. - Ekki missa vatnið þó við köllum Wilt magnaðasta leikmann sögunnar.

Það þýðir ekki endilega að hann sé besti leikmaður sögunnar, frekar að enginn leikmaður hafi notið annara eins yfirburða og hann gerði á sínum tíma.

Við erum ekki svo vitlaus að ætla að fara að bera saman körfuboltamenn frá gjörólíkum tímabilum og jafnvel menn í ólíkum leikstöðum (t.d. Jordan vs Wilt). Kannski skrifum við pistil um þetta einhvern daginn, en Wilt er klárlega og auðveldlega einn af tíu bestu körfuboltamönnum allra tíma í okkar bókum.

Ef allt væri eðlilegt, myndi merki NBA deildarinnar vera hannað eftir útlínum Wilt Chamberlain en ekki liðsfélaga hans Jerry West - með fullri virðingu fyrir Jerry.

Monday, January 21, 2013

Kvöld fyrirbæranna



Leikur Denver Nuggets og Oklahoma City í gærkvöld hafði alla burði til að verða einn af leikjum ársins, en því miður var dómaratríóið búið að ákveða það fyrir leik að hleypa þessum frábæru liðum aldrei á flug.

Án gríns, þeir eyðilögðu leikinn.

Við höfum aldrei séð jafn margar sóknarvillur, skrefa- og tvígripsdóma í einum körfuboltaleik. Það var með ólíkindum.

Í þessi fáu skipti sem skemmtikraftarnir inni á vellinum fengu þó að spila, fórum við að hugsa hvað það væri nú gaman að horfa á þessi tvö lið leika listir sínar.

Það eru nefnilega svo margir sérstakir körfuboltamenn í þessum tveimur liðum - fyrirbæri, ef þannig má að orði komast.

Russell Westbrook var klárlega maður leiksins. Westbrook er ofurhetja með tvö sjálf. Hann er annað hvort góði- eða slæmi Russ. Í nótt var hann lengst af góði Russ, með slettum af vonda Russ, sem er eiginlega skemmtilegasti kokteillinn.

Það er eitt heitasta deiluefni NBA deildarinnar hvort Russell Westbrok sé góður, einstakur, leikmaður, eða ólíkindatól sem skemmi fyrir Oklahoma. Fleiri eru á því að hann sé góður leikmaður, en það er ljóst að hann er enn ekki búinn að ná að temja sig og þroskast eins og lög gera ráð fyrir með úrvalsleikmenn. Það kemur og það er miklu auðveldara að temja villtan hest en að berja lata truntu áfram.

Það er skemmst frá því að segja að Oklahoma hefði aldrei átt möguleika gegn Denver í gær ef Westbrook hefði ekki notið við. Ef tölfræðin er skoðuð, er Kevin Durant fyllilega á pari við félaga sinn, en hann gat ekki blautan í gær - tveimur dögum eftir að hafa skorað yfir 50 stig.

Westbrook hélt uppi eins manns sókn á Denver bróðurpartinn af leiknum þrátt fyrir að hafa snúið sig illa á ökkla í fyrri hálfleik. Hann hefur aldrei misst úr leik á ferlinum og ætlaði nú ekki að byrja á því í Denver af öllum stöðum. Lét bara teipa sig upp á nýtt og hélt áfram. Einn af fjömörgum kostum við Westbrook sem enginn talar um, af því það hefur ekki komið til tals.

Það eru ekki margir leikmenn í NBA deildinni sem geta gert það sem Westbrook gerði í gær. Að halda heilu liði á tánum og koma sér á vítalínuna eða skora sókn eftir sókn eftir sókn. Þetta gerir hann með fádæma grimmd, keppnisskapi, klókindum og líkamlegum burðum sem fáir hafa yfir að ráða.

Við verðum líka að gefa Westbrook auka rokkstig fyrir grínið sem hann bauð upp á undir lokin á leik Denver og Oklahoma í nótt, þegar hann eyðilaggði skemmtiatriði í tvígang fyrir lukkudýri Nuggets - bara til að stríða áhorfendum. Hann fékk líka allt húsið upp á móti sér.

Ef Scott Brooks hefði haft vit á því að láta Kendrick Perkins ekki spila í þessum leik, hefði Westbrook meira að segja örugglega átt síðasta orðið.

En það vill svo skemmtilega til að Westbrook var ekki eina fyrirbærið á vellinum í Denver í nótt. Liðsfélagi hans Kevin Durant er sannarlega fyrirbæri líka. Hann er öskufljótur, hittinn og getur sett boltann á gólfið þó hann sé langt yfir tvo metra á hæð og sé með vænghaf upp á 230 sentimetra.

Það segir sína sögu um Durant að hann geti átt ömurlegan leik en samt skorað 37 stig. Það hefur með það að gera að hann hefur öðlast virðingu dómara og er líklega bestur allra leikmanna NBA í að koma sér á vítalínuna.

Ekki búinn að taka nema 42 víti síðustu tveimur leikjum!

Denver er líka með fyrirbæri í sínum röðum. Efstur á blaði þar er auðvitað varamiðherjinn Javale McGee á myndinni hér til hliðar.

Hann er ekki bara sjö fet á hæð, heldur gæti hann málað þakið á Hallgrímskirkju með vænghafinu einu saman.  Bættu svo við það þeirri staðreynd að hann hoppar hærra en flestir og við erum komin með mann sem truflar flugumferð þegar mest lætur.

Eini gallinn við þetta allt saman er að það er alls ekki víst að sé nokkur heima þó ljósin séu kveikt hjá honum og það er einmitt ástæðan fyrir því að hann er ekki einn besti miðherji heimsins.

Annað fyrirbæri í framlínu Denver er svo Dýrmennið Kenneth Faried (sjá efstu mynd). Hann er með einn besta mótorinn í NBA deildinni, sívinnandi og hefur ótrúlegt nef fyrir því að rífa niður öll fráköst sem skoppa af körfunum á báðum endum vallarins.

Varaleikstjórnandinn Andre Miller er svo fyrirbæri út af fyrir sig, en á allt annan hátt en áðurnefndir félagar hans.

Miller er búinn að vera lengi í bransanum og hefur alla tíð þótt frekar svifaseinn leikmaður. Það bætir hann upp með annars vegar klókindum og hinsvegar... þeirri staðreynd að hann er með þyngsta afturenda í sögu leiksins.

Miller getur póstað upp á helming leikmanna í NBA deildinni þrátt fyrir að vera innan við 190 sentimetrar á hæð af því hann er með skut eins og fimm tonna dísellyftari.

Þú stoppar þetta ekkert ef þetta fer af stað á sléttu gólfi.

Þetta voru nokkur orð um fyrirbærin sem við sáum á flugi í Denver í nótt. Það er ekki bara körfubolti sem ber fyrir augu á leikjum í NBA deildinni.

 Við þökkum þeim sem lásu. Góðar stundir.

Thursday, January 10, 2013

Nikola Pekovic er eins og dúkkulísa


Við giskum á að Nikola Pekovic sé "stærsti" leikmaðurinn í NBA deildinni þegar allt er talið. Hann er mjög hávaxinn (211 sm) og gríðarlega mikill um sig (132 kg) eða álíka stór og Dyrhólaey.

Svona þangað til hann hitti Úkraínumanninn IgorVovkovinskiy, sem býr í Minnesota og ku vera hæsti maður Bandaríkjanna - sjö fet og átta tommur eða 235 sentimetrar á hæð.

Jáh!



Saturday, November 17, 2012

- Þáttaskil hjá besta körfuboltamanni heims -


Miami-penninn Tom Haberstroh á ESPN átti kollgátuna í fyrradag þegar honum þótti ástæða til að skrifa grein um það þegar LeBron James ákvað að gefa boltann í stað þess að skjóta sjálfur á lokamínútu viðureignar Denver og Miami á dögunum.

Hversu oft höfum við ekki heyrt og séð þetta í gegn um árin?  James var ekki búinn að vera lengi í deildinni þegar byrjað var að skrifa heilu hlemmana um ákvarðanatöku hans á ögurstundu - skoða hverja ákvörðun og hverja hreyfingu í gegn um smásjá.

Það hefur vissulega komið fyrir á níu ára ferli hans að LeBron James hafi annað hvort (saurlosun) á sig eða ekki ráðið við verkefnið. 

James (saurlosun) á gólfið þegar Celtics sló Cleveland-liðið hans út úr úrslitakeppninni árið sem Cavaliers átti endanlega að fara alla leið árið 2010. Aftur (saurlosun) hann þegar Miami tapaði fyrir Dallas í lokaúrslitunum árið 2011.

Árið 2007 fór hann líka með veikt Cleveland-lið í úrslitin gegn San Antonio en réði þá ekki við verkefnið. Það verður að teljast fullkomlega mannlegt, því San Antonio var um það bil 840 sinnum sterkara lið en Cleveland og lokaði einfaldlega hurðinni á eina manninn sem gat eitthvað hjá Cavs.

LeBron var ekki búinn að vera lengi í deildinni þegar hann byrjaði að verða fyrir gagnrýni fyrir að gefa boltann á ögurstundu í stað þess að reyna að skora sjálfur. Ekki síst af því "Jordan og Kobe gerðu það alltaf."

Flestir sem skrifuðu um þetta tiltekna málefni tóku þó afstöðu með James, því það var augljóst að hann var bara að leita að besta skotinu sem í boði var, hvort sem hann tók það eða einhver annar.

Þetta er kallað að treysta meðspilurum sínum, en það er siður sem mörg stórstjarnan hefur átt erfitt með að temja sér.

Fólk er alltaf svo fljótt að gleyma því að James hefur hvað eftir annað lokað leikjum upp á sitt einsdæmi, aldrei eins eftirminnilega og með Cleveland gegn Detroit Pistons forðum.

Það er fallegt að hugsa til þess að pilturinn hafi kosið að vera samkvæmur sjálfum sér og halda sínum (rétta) leikstíl áfram þrátt fyrir alla þessa gagnrýni. Málið er auðvitað það að James er ekki þessi hefðbundni ofur-skorari og neyðarkall, þó hafi alla burði til þess.

Hann er ekki Kobe Bryant.

Hann er hinsvegar LeBron James, guði sé lof.

 Lang-, langbesti körfuboltamaður í heimi í dag.

Hann hlær að samkeppninni, óttast engan og stundum er eins og hann svífi í gegn um heilu leikina.

Maðurinn er  óstöðvandi á báðum endum vallarins og er alltaf að leita leiða til að vinna körfuboltaleiki, taka réttar ákvarðanir.

Sé það skot, verður það skot. Sé það sending, verður það sending. Gjör það sem til þarf til að vinna. Leyndarmálið.

Nei, ekki Kobe Bryant. Frekar eins og Larry Bird. Bara aðeins minni sveitalubbi, aðeins minni hormotta og sítt að aftan. Og aðeins meira svona... einn fræknasti íþróttamaður sögunnar.

Við erum alltaf að sjá nýjar og fallegar hliðar á þeirri dásamlegu staðreynd að LeBron James er loksins búinn að finna leið í gegn um gaddavírsgirðingarnar sem stóðu fyrir álit okkar allra á honum. Hann er frjáls ferða sinna, veit hver hann er og hvað hann þarf að gera. Gæti þess vegna sagt okkur að hann fílaði Creed og komist upp með það.

Þess vegna þótti Haberstroh ástæða til að skrifa þessa grein.

Það hjálpaði vissulega málstaðnum að þessi umrædda sending James þarna í Denver, sem var á galopinn Norris Cole í horninu, skilaði körfu sem ísaði leikinn.

En hvort sem skotið hefði farið niður eða ekki, er fólk nú farið að eyða orkunni í að hugsa um eitthvað annað en hvort James drekkur Coke eða Pepsi.

LeBron James fær að einbeita sér að því að vera hann sjálfur og halda áfram að vinna körfuboltaleiki með meistaraliðinu sínu.

Það eru falleg tíðindi.

Við urðum líka að skrifa grein, alveg eins og Haberstroh. Af því LeBron er leikmaður sem neyðir okkur reglulega að lyklaborðinu, hvort sem við höfum heilsu til að skrifa eða ekki. Hann er uppspretta andagiftar, hann er það góður.

Það hefur aldrei verið planið hjá okkur að fara í einhverja herferð til að auka hróður LeBron James á Íslandi, en það er ekki hægt að kalla þessa sífelldu pistla okkar um hann neitt annað en það - herferð.

Hann á bara skilið orðið að fallega sé um hann skrifað.

Hann er búinn að borga upp lánin sín í deildinni. Búinn að vinna vinnuna, svitna svitanum og bíta í súra eplið. Hann er búinn að gera mistök og að lokum hefur hann nú uppskorið eftir sáningu.

Fáir íþróttamenn, ef einhverjir, hafa byrjað í atvinnumennsku með öðru eins fári og LeBron James.

Við höfum sagt það áður og segjum enn. Það merkilegasta við feril James er að okkar mati sú staðreynd þrátt fyrir smá hiksta inn á milli, hefur pilturinn náð að standa undir megninu af þeim óraunhæfu kröfum sem til hans hafa verið gerðar á skrumfylltum fyrri áratug hans í NBA.

Það er ekki víst að þú áttir þig á því hve mikið afrek það er.

Nú er LeBron svo byrjaður að taka til hendinni í síðasta kaflanum í bókinni um James Konung, en sá kafli snýr að því að vinna fleiri meistaratitla. Það er ekki gott að segja til um hversu marga titla hann á eftir að vinna á ferlinum en flest bendir til þess að þeir verði fleiri en þessi eini.

Og það er sko ekkert að því okkar vegna.