Það hefur verið mögur tíð hjá Utah Jazz undanfarin ár, en þó Jazz sé eitt minnsta félagið í NBA deildinni, er það alveg nýtt fyrir stuðningsmenn þess að vera á botni deildarinnar. Stuðningsmenn liðsins höfðu það gott á þeim tæplega tveimur áratugum sem John Stockton og Karl Malone léku með því, enda fór það í úrslitakeppnina öll átján árin hans John Stockton.
Liðið missti af úrslitakeppninni þrjú ár í röð frá 2004-06 eftir að Stockton og Malone hurfu á braut, en Jerry Sloan þjálfari sá þó til þess að liðið var ekki lélegt nema eitt af þessum árum - hin tvö var það með 50% vinningshlutfall eða meira. Það var erfitt að komast í úrslitakeppnina í Vesturdeildinni í þá daga alveg eins og nú.
Jazzarar voru fljótir að henda saman nýju liði upp úr miðjum síðasta áratug og í stað Stockton og Malone voru komnir Deron Williams, Carlos Boozer og Mehmet Okur. Þetta lið náði lengst í úrslit Vesturdeildarinnar árið 2007 þar sem San Antonio slátraði því á leið sinni að titlinum.
Í stað þess að enda í enhverjum sirkus eins og Orlando með Dwight Howard og Denver með Carmelo Anthony, ákváðu forráðamenn Utah hinsvegar að slá fyrsta höggið og skiptu Williams til New Jersey og ákváðu að byggja til framtíðar.
Það er skondið að horfa á þessi skipti í dag. Um tíma leit ekki út fyrir að Jazz hefði fengið mikið fyrir sinn snúð, en ef skiptin eru skoðuð með raunsæum augum í dag, er ekki hægt að segja annað en að Jazz hafi fengið þokkalegan bita í staðinn fyrir Williams í ljósi þess að hann vildi ekki vera áfram hjá félaginu.
Eftir nokkrar tilraunir með lið með Al Jefferson og Paul Millsap í framlínunni og menn eins og Devin Harris og Mo Williams í leikstjórnandastöðunni, sáu forráðamenn Utah að þessi mannskapur var aldrei að fara að fleyta liðinu lengra en í einn sigur í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Þeir ákváðu því að breyta um stefnu og stokka upp.
Tyrone Corbin var látinn fara sem þjálfari og Quin Snyder var ráðinn í staðinn. Þetta var í fyrsta skipti í sögu félagsins sem það réði þjálfara sem var ekki úr Utah-fjölskyldunni ef svo má segja.
Framkvæmdastjóri Utah, fyrrum San Antonio starfsmaðurinn Dennis Lindsey, ákvað að ráða annan Spurs-lærling til að taka við liðinu, Quin Snyder.
Snyder þessi hefur komið víða við og starfað undir nokkrum frábærum þjálfurum, en hann aðstoðaði síðast Mike Budenholzer (annan Spurs-mann) í Atlanta og nú er útlit fyrir að hann sé kominn á réttan stað í stöðu aðalþjálfara.
Auk þess að ráða nýjan þjálfara, ákvað Utah að leyfa bestu leikmönnum liðsins að yfirgefa félagið. Al Jefferson fór til Charlotte, Paul Millsap til Atlanta (þar sem hann er ásamt tveimur öðrum fyrrum Jözzurum, DeMarre Carroll og Kyle Korver) og svo framvegis.
Eftir sátu ungir menn sem voru hvergi nærri tilbúnir að vera byrjunarliðsmenn í NBA deildinni og enn síður að vinna leiki. Þetta kom bersýnilega í ljós á síðustu leiktíð, þegar Utah var í kjallara Vesturdeildarinnar og lélegasta varnarlið deildarinnar.
Lélegasta varnarlið deildarinnar, takið eftir.
Jæja, eitthvað hefur Eyjólfur verið að hressast í Utah að undanförnu, við værum nú varla að skrifa um liðið annars.
Og jú, það er satt að liðið hefur verið að bæta sig, en hvernig það fór að því og af hverju, er okkur sama ráðgátan og öllum öðrum NBA-pennum heimsins.
Tölfræðiúrtak sem spannar nokkrar vikur er vissulega ekki mjög ítarlegt og segir okkur kannski engan heilagan sannleik, en þegar lið fer frá því að vera lélegasta varnarlið deildarinnar yfir í að vera besta - nei, langbesta - varnarlið deildarinnar í heilan mánuð á innan við ári, er með algjörum ólíkindum.
En þetta hefur Utah nú samt náð að gera og það er ekki af því það hafi verið með vinsamlegt leikjaplan, það hefur verið bullandi erfitt eins og það er jafnan hjá liðum í Vesturdeildinni. Tvennt er það sem mönnum dettur helst í hug að nefna til að útskýra þennan skyndilega viðsnúning hjá liðinu, Quin þjálfara og þá staðreynd að Franska Andspyrnuhreyfingin Rudy Gobert er kominn í byrjunarliðið.
Gobert vakti fyrst athygli á HM í fyrra þegar hann pakkaði Gasol-bræðrunum og tryggði mjög svo undirmönnuðu landsliði Frakka óvæntan sigur á spænska liðinu sem allir spáðu að færi í úrslit.
Síðan þá hefur pilturinn verið að vinna sér inn fleiri og fleiri mínútur hjá Utah og nú er svo komið að drengurinn er allt í einu orðinn einn mikilvægasti leikmaður liðsins og kjölfestan í áðurnefndri undravörn Jazz.
Þegar þetta er skrifað, er Gobert með meðaltöl upp á 11 stig, 14 fráköst og þrjú varin skot að meðaltali í leik síðan í Stjörnuleiksvikunni og þá er varnarleikurinn ótalinn. Utah er að fá á sig aðeins 88,5 stig per 100 sóknir á þessum tíma, sem er lygileg tölfræði fyrir hvaða lið sem er, hvað þá lið sem var í 26. sæti deildarinnar í varnarleik í fyrstu 40 leikjum tímabilsins. Næsta lið á eftir Utah í vörninni á umræddu tímabili er Indiana með 91,9 stig fengin á sig per 100 sóknir og Milwaukee þar á eftir með 95,3, svo þið sjáið að þetta eru nokkuð magnaðar tölur þó úrtakið sé ekki stórt.
Utah er nú 20-17 í síðustu 37 leikjum sínum en þó slíkar rispur gætu gert eitthvað í Austurdeildinni, gefa þær liði ekki vonarglætu á úrslitakeppnisæti í vestrinu.
Það skiptir engu máli fyrir Utah, aðalatriðið er að reyna að byggja á þeim góða árangri sem náðst hefur að undanförnu og skrifast að miklu leyti á Quin Snyder þjálfara.
Þér finnst kannski undarlegt að við séum að upphefja þjálfara liðsins með þessum hætti, en prófaðu þá að staldra aðeins við og pæla í því hvaða mannskap hann hefur yfir að ráða.
Utah er næstyngsta lið deildarinnar á eftir Philadelphia-brandaranum og er með sjö nýliða í hópnum. Meirihluti leikmanna liðsins eru grínlaust nýliðar og leikmenn sem fengnir voru úr D-deildinni.
Jú, jú, hann Rudy Gobert er vissulega búinn að standa sig vonum framar í vörninni og Derrick Favors hefur ekki síður verið frábær eftir að hann flutti sig aftur í kraftframherjastöðuna þegar Enes Kanter fór til Oklahoma.
Þá hefur Gordon Hayward verið að spila mjög vel sem besti maður liðsins þó allir hafi slegið því föstu á síðustu leiktíð að hann gæti ekki verið fyrsti kostur í liði í NBA deildinni. Fyndið að horfa á þann dreng breytast úr áttavilltum krakkaræfli með hor í ljómandi góðan og fjölhæfan NBA leikmann.
En þar með er það upptalið, góðir hálsar, allt sem gott getur talist í þessu liði og ef þið trúið því ekki, ættuð þið endilega að skoða úrvalið af bakvörðum og vængmönnum sem Utah hefur á að skipa fyrir utan Gordon Hayward. Kíktu til dæmis á skotnýtinguna hjá þeim.
Lið sem er að skjóta svona má þakka fyrir að vinna 15 leiki á 82 leikja tímabili, en undir stjórn Snyder er þessi undarlega blanda leikmanna þegar búin að vinna fleiri leiki en á síðustu leiktíð.
Það getur vel verið að margir myndu þræta við okkur þegar við segjum það, en þetta Utah-lið er eitt slakasta lið síðari ára í NBA deildinni á pappírunum. Það er einfaldlega staðreynd. Það eru í besta falli þrír eða fjórir NBA leikmenn í þessu liði, restin er nýliðar og D-deildarmenn, en einhvern veginn tekst Snyder að fá þessa sveppi til að skora stig, berjast bæði og verjast á hverju kvöldi.
Það verður sannarlega gaman að fylgast með því hvort þessi velgengni er bara blaðra sem springur hjá Utah, eða hvort þetta er eitthvað sem hægt er að byggja á. Liðið ætti að eiga einn eða tvo þokkalega nýliða sem vísa á næstu árum og eitthvað svigrúm undir launaþakinu sömuleiðis.
Stærsta atriðið fyrir utan framfarir Rudy Gobert er svo vitanlega stóra gátan - fíllinn í herberginu - hvort hægt verður að gera NBA leikmann úr ástralska unglingnum Dante Exum.
Við verðum að sýna drengnum þolinmæði í ljósi þess að hann er nú bara nítján ára gamall og ekki einu sinni kominn með líkama til að spila í deildinni, hvað þá reynslu til að byrja að gera eitthvað af viti.
Við vorum búin að lýsa því áður hér á vefsvæðinu að við værum handviss um að Exum yrði risastórt "böst" og að ekkert yrði úr honum. Það sem við höfðum fyrir okkur í því, var að hann átti einfaldlega óralangt í land á flestum sviðum leiksins.
Kaldhæðnin við þetta allt saman er að það var varnarleikurinn sem átti að vera stærsta vandamálið hjá honum og þeir sem njósnuðu um hann leyfðu sér að efast um að sú hlið leiksins ætti eftir að verða ásættanleg hjá honum.
Það sem hefur hinsvegar komið á daginn er að strákurinn er bara drullufínn varnarmaður og nýtir sér vel hraða sinn og lengd á þeim enda vallarins.
Á sóknarendanum er hann hinsvegar ragur, einhentur, ekki með nógu góða boltameðferð, líkama eins og átta ára stelpa og ofan á það allt saman getur hann ekki skotið til að bjarga lífi sínu. Meira efnið þar á ferðinni...
Utah Jazz á aldrei aftur eftir að leika til úrslita um NBA meistaratitilinn. Sá kvóti kláraðist á síðustu öld og deildin er nú bara þannig að hinir ríku verða bara ríkari þó forráðamenn deildarinnar þykist alltaf vera að reyna að jafna bilið, sem á að öllum líkindum eftir að stækka verulega þegar launaþakið hækkar eftir tvö ár og allt verður endanlega vitlaust á leikmannamarkaðnum..
Það verða alltaf stóru klúbbarnir, með örfáum undantekningum, sem vinna titlana í NBA. Litlir markaðir eins og Utah eiga nánast engan séns á að koma sér upp almennilegu liði, því fyrir utan að eiga takmarkaða peninga, vill ekki nokkur einasti maður spila þar.
Það verður því þungur biti að kyngja fyrir Utah-menn þegar í ljós kemur að Dante Exum er ekkert undrabarn og Rudy Gobert fer til Los Angeles Lakers. En þeir eru vanir þessu og vita að þeir verða að láta sér nægja að njóta litlu sigranna eins og þess sem það fagnar í dag. Svona er nú lífið bara á litlu mörkuðunum.*
----------------------------------------------------------------------------------
* Litlir markaðir eins og San Antonio og Oklahoma hafa átt mikilli velgengni að fagna undanfarin ár, en þau unnu líka bæði í lottói þar sem líkurnar voru einn á móti milljarði. San Antonio með því að hreppa besta leikmann sinnar kynslóðar og einn besta stóra mann allra tíma og Oklahoma með því að grísa á að taka Kevin Durant og Russell Westbrook (og Serge Ibaka, ef þú vilt) með korters millibili eftir að hafa verið í klósettinu í nokkur ár.
Ókei, litlir markaðir geta alveg átt sína ágætu daga, alveg eins og sólin skín stundum á hundsrassgöt líka, en það heyrir til algjörra undantekninga. Það er markaðurinn sem talar í þessu og sá markaður er sannarlega ekki í snæviþöktum mormónabyggðum Utah.