Wednesday, March 11, 2015

Sögulegir Stríðsmenn?


Golden State hefur fengið margan pennan til að missa sig í gleðinni í vetur, en það er svo sem skiljanlegt þegar haft er í huga að Golden State er búið að spila óaðfinnanlega meira og minna síðan í haust. Eldri og reyndari pennar vita hinsvegar að Warriors - alveg eins og Atlanta - er ekki fyrsta liðið til að vinna fullt af leikjum í deildarkeppninni og því borgar sig að bíða aðeins með að krýna það besta lið allra tíma.

Umræddir pennar hafa líklega flestir brennt sig á því að ofmeta svona lið á árum áður. Þeir hafa kannski ætlað liðum eins og Seattle og Dallas að vinna meistaratitla, en svo töpuðu þau bara í fyrstu umferð og gerðu þá sem skrifuðu fallega um þau að fíflum.

Menn láta ekki hanka sig á svona löguðu nema einu sinni og láta yngri, ákafari og óreyndari mönnum að skrifa fréttir um það í janúar hvað Golden State sé á góðri leið með að bjóða upp á eitt besta tímabil í sögu deildarinnar.

Nú er hinsvegar að verða kominn miður mars og mörg lið eiga innan við tuttugu leiki eftir í deildarkeppninni, svo nú fer kannski að verða kominn tími til að líta á þetta sögulega tímabil hjá Steve Kerr og félögum.

Við erum kannski vitlaus, en við ætlum heldur ekki að skrifa hér sérstaka lofræðu um Golden State og jinxa liðið þannig bæði í deildarkeppninni og úrslitakepepninni.

Nei, við stundum ekki svoleiðis. Það eina sem okkur langaði að benda ykkur á er að EF allt gengur nú voðalega vel hjá Warriors fram í miðjan apríl og enn frekar ef liðinu á eftir að ganga vel í úrslitakeppni, gætum við átt eftir að horfa til baka og átta okkur á því að þetta Warriors-lið sem við horfðum á í vetur, var bara helvíti öflugt.

Sögulega öflugt, reyndar.

Þeir sem hafa verið að missa sig í gleðinni gleyma því gjarnan að lið eiga það oftar en ekki til að slaka á á lokametrunum í deildarkeppninni ef þau eru á annað borð á leið inn í úrslitakeppnina.

Það verður að teljast afar líklegt að Golden State gæti átt eftir að hvíla menn eins og Stephen Curry og sérstaklega Andrew Bogut þegar styttist í mark í deildinni.

Óháð því, eru tölurnar sem þetta Warriors-lið er að bjóða upp á núna allskostar ótrúlegar. Rétt eins og á síðustu leiktíð er það varnarleikurinn sem leggur grunninn að velgengni liðsins og það er í sérflokki í deildinnin í varnartölfræði fyrir lengra komna.

Golden State fær ekki á sig nema 97,4 stig á hverjar 100 sóknir og er eitt af aðeins fimm liðum í deildinni sem er undir 100 stigum í þessari tölfræði (Bucks 99,1, Spurs, Blazers og Rockets eru með 99,7).

Öfugt við á síðustu leiktíð, þegar sóknarleikur liðsins undir stjórn Mark Jackson var... mest lítill, hefur nú orðið algjör bylting á þeim enda vallarins og Golden State er sem stendur í öðru sæti deildarinnar í sóknartölfræðinni fyrir lengra komna - rétt á eftir LA Clippers sem vermir toppsætið.

Það er ekkert útilokað að Golden State gæti stolið efsta sætinu í sóknartölfræðinni líka en þá yrði það í fyrsta skipti í áratugi sem liði tækist að toppa báða flokka. Ef við munum rétt var það meistaralið Philadlelphia í upphafi 9. áratugarins sem afrekaði þetta síðast, en við segjum það án allrar ábyrgðar.

Auðvitað verður það árangur Golden State í úrslitakeppninni sem segir til um hvernig talað verður um þetta lið í annálum framtíðarinnar, en það verður ekki tekið af Steve Kerr og rándýru þjálfarateymi hans að það hefur sannarlega unnið fyrir kaupinu sínu í vetur.

Sem stendur er Golden State líka með langbesta stiga plús-mínusinn í allri deildinni þar sem liðið situr í +10,3 sem í sjálfu sér næði að koma liðinu inn á lista bestu liða í sögu deildarkeppninnar. Til marks um hve magnað það er, að næsta lið er með +6,4 og aðeins fjögur lið í NBA eru með betra en 4,1 í plús.

Við ljúkum þessari stuttu hugleiðingu með að sýna ykkur bestu plús-mínus tímabil sögunnar. Þið sjáið að þessi +10,3 myndu duga til að koma Golden State á þennan lista ef deildarkeppninni lyki í dag, en til að svo verði, má liðið reyndar ekki missa flugið mikið í lokaleikjunum í vor.