Wednesday, March 11, 2015

NBA Ísland greinir MVP-kapphlaupið


Hlaðvarp þeirra Bill Simmons og Zach Lowe á dögunum kveikti hjá okkur áhuga til að blanda okkur aftur í umræðuna um hvaða leikmaður verður kjörinn verðmætasti leikmaður NBA deildarinnar í vor. Umræðan um þetta hefur verið lífleg og skemmtileg í ár og rétt eins og mörg lið hafa farið á kostum í vetur, hafa nokkrir leikmenn verið að spila eins og englar.

Áður en farið er út í þessa árlegu sálma, verðum við alltaf að ræða kríteríuna. Þegar Mest Verðmætasti Pilturinn er valinn í NBA, er það oftar en ekki sá leikmaður sem þykir hafa skarað hvað mest fram úr í einu af liðunum sem unnu flesta leiki á tímabilinu. Og tvö lið hafa unnið áberandi flesta leiki í vetur - Golden State og Atlanta.

Eins og þið sáuð þegar valið var í Stjörnuliðin í vetur, er augljóst að enginn leikmaður Atlanta Hawks passar inn í þessa kríteríu. Það er engin ofurstjarna í Atlanta, bara margir góðir leikmenn sem mynda gott lið. 


Hjá Golden State er það hinsvegar mjög augljóst hver er MVP-kandídatinn á þeim bænum. Það er Stephen Curry og því er hann langlíklegastur til að hreppa hnossið. 

Eiginlega er svo komið nú þegar að það yrði hneyksli ef hann yrði ekki valinn MVP af því hann passar best inn í þá kríteríu sem farið hefur verið eftir undanfarin ár.

En þið þekkið okkur illa ef þið haldið að við ætlum að láta okkur nægja að afgreiða þetta svona. Þeir Simmons og Lowe ræddu þessi mál í áðurnefndu hlaðvarpi, en þar brutu þeir valið upp og skiptu bestu leikmönnum ársins niður í eins konar flokka svo allir fengju hrós. Það er bráðsniðugt, þó það sé bara pæling sem skiptir engu máli þegar alvöru valið fer fram.

Við skulum því nota þetta tækifæri og gera upp hvaða leikmenn hafa verið að spila best og gera mest í vetur með því að setja þá inn í okkar MVP-formúlur og fara eftir okkar kríteríu. Hún er líka miklu ítarlegri og skemmtilegri en sú sem farið er eftir í NBA.

Þegar Verðmætasti leikmaður ársins í NBA er valinn, verður sigurhlutfall liðsins hans að vera mjög gott og það er pólitík sem við erum hjartanlega sammála. Það væri enda fáránlegt að velja mann sem er í liði með undir 50% vinningshlutfall fram yfir mann sem er að gera gott mót með sterku liði sem er til alls líklegt.

Og þegar þetta er haft í huga, er Stephen Curry óneitanlega mjög ofarlega á blaði hjá okkur alveg eins og hjá spekingum sem skrifa um NBA deildina vestra. Það er útlit fyrir að Golden State eigi jafnvel eftir að vinna vel yfir 60 leiki og ef liðið þitt vinnur yfir 60 leiki áttu ljómandi góða möguleika á MVP-styttunni ef þú hefur spilað vel í vetur. Eins og Curry hefur gert.

En Stephen Curry er svo miklu miklu meira en bara góður leikmaður í góðu liði og ef hann yrði fyrir valinu hjá okkur eins og líkur benda til, yrði það bæði af því hann er búinn að spila eins og engill í vetur og kannski helst vegna þess hvað hann er að gera fyrir Golden State þegar hann er inni á vellinum.
Mikið hefur verið talað um breiddina hjá Golden State í vetur, við höfum gert það eins og aðrir, en þegar nánar er að gáð, er Warriors-liðið bara alls ekkert gott lið þegar Stephen Curry er ekki inni á vellinum. Liðið er allt að því sögulega gott þegar hann spilar, en ósköp venjulegt þegar hann situr á bekknum. Þessar staðreyndir ýta að okkar mati undir meðmæli Curry sem MVP í vetur. Skoðaðu bara tölfræðina (fyrir lengra komna, sem þú ættir að vera farin(n) að þekkja núna):

Þegar Curry er inni á vellinum, er Golden State að skora 113 stig á hverjar 100 sóknir, en fær ekki nema 96 stig á sig per 100 sóknir í vörninni, sem er framúrskarandi varnartölfræði (sem skrifast auðvitað á allt liðið en ekki endilega á Curry, en skítt með það).

Þegar Curry er ekki inni á vellinum, eru allt aðrir sálmar í gangi og skemmst frá því að segja að liðið er með um 100 í sóknar- og varnartölfræði. Golden State er sem sagt 13 stigum betra í sókn þegar Curry er með og rúmum fjórum stigum betra varnarlega. Það er fjandi há tala.

Curry er vissulega búinn að vera að bæta sig undanfarin ár, en það var ekki fyrr en í fyrra sem fólk fór að veita honum þá athygli sem hann átti skilið að fá, því hann er svo miklu meira en bara skytta. Reyndar er Curry fjandi góð skytta og svo góð að öll umræða um hann byrjar alltaf á þeim enda litrófsins. 

Bakvörðurinn með barnsandlitið er með 24 stig, 8 stoðsendingar, 4 fráköst og tvo stolna bolta að meðaltali í leik og er með 42% þriggja stiga nýtingu, en 49% skotnýting hans er mögnuð ef haft er í huga að maðurinn er að taka átta þriggja stiga skot í hverjum leik. Tölfræði Curry í vetur er svipuð og oft betri en hún hefur verið undanfarin ár, en það athyglisverða við það er að hann er að spila færri mínútur en hann gerði og því að spila enn betur.

Eins og þið sáuð á tölfræðinni fyrir lengra komna, er Golden State ekki sama lið án Stephen Curry. Flest lið finna auðvitað fyrir því að missa sinn besta mann í meiðsli, en nokkrir menn eru alveg ómissandi og Curry er einn þeirra. 

Dæmi um það er að Golden State steinlá í eina leiknum sem hann hefur misst af í vetur, en það er reyndar atriði út af fyrir sig. Við megum ekki gleyma því hvaða orðspor fór af Curry hér á árum áður, þegar sífelld ökklameiðsli gerðu honum lífið leitt og eru raunar ástæðan fyrir því að hann er á skítakaupi í dag. 

Þegar verið er að velja menn ársins, má ekki gera lítið úr því að maður sem spilar alla 82 leikina fyrir lið sitt hlýtur að verða að þurfa að fá einhver stig fyrir það á meðan menn sem missa úr 20 leiki eða meira fá síður klapp á bakið. Þú verður helst að vera á svæðinu ef þú ætlar að kalla þig verðmætan leikmann.

Niðurstaðan úr þessari Curry-pælingu okkar er sú að MVP-styttan í NBA er hans í ár ef hann drullar ekki sögulega í brækurnar á lokasprettinum eða Golden State byrjar allt í einu að tapa fullt af körfuboltaleikjum. Bæði verður að teljast harla ólíklegt, svo ykkur er óhætt að setja peninginn á Curry.

Rétt eins og NBA deildin mun gera, verðum við líklega að útnefna Curry verðmætasta leikmann ársins samkvæmt okkar bókum. Tölfræðin er ekki að bjóða upp á neitt annað. Það þýðir samt ekki að megi ekki hrósa öðrum leikmönnum eða jafnvel finna á þá skemmtilega titla. Curry er sem sagt Besti leikmaðurinn í besta liði deildarinnar MVP-inn.

En hvað meira?

Sá leikmaður sem í allan vetur hefur verið nefndur í sömu andrá og Curry er skotstjórnandinn skeggjaði James Harden hjá Houston Rockets og það er sannarlega ekki að ástæðulausu. Harden er ekki bara með skuggalega fallega tölfræði og þá bestu á ferlinum til þessa (27 stig, 6 fráköst, 7 stoðsendingar og 2 stolna), heldur hefur hann haldið Houston-liðinu á floti í allan vetur.

Þið vitið að við höfum ekkert rosalega mikið álit á Dwight Howard, en hann hjálpar Houston alltaf eitthvað í varnarleiknum þó hann geri stundum ekki annað en eyðileggja fyrir því í sóknarleiknum. Howard hefur hinsvegar ekki spilað nema hálft tímabilið með Rockets vegna meiðsla og það gerir frábæran árangur Houston og um leið spilamennsku Harden mjög merkilega. 

Það er ekki blómlegt um að litast í leikmannahóp Houston þegar búið er að telja þá Harden, Howard og kannski Trevor Ariza upp, en einhvern veginn í fjandanum hefur Harden tekist að draga algjört meðalmennskulið upp í 68% vinningshlutfall og þriðja sætið í ógnarsterkri Vesturdeildinni. 

Við vitum vel að það er ekki vinsælt að telja mönnum það til tekna í MVP-kapphlaupinu hve margir liðsfélagar þeirra eru á meiðslalistanum, en þú getur ekki neitað því að James Harden er búinn að spila af sér anusinn í vetur. 


Kíkjum að lokum á aðeins meiri tölfræði hjá Harden. Houston skorar 107 stig á hverjar 100 sóknir þegar Harden er á vellinum en glæpsamleg 92,4 stig þegar hann er utan vallar, sem er Philadelphia-slæmt. 

Til samanburðar má nefna að aðeins fimm lið í deildinni eru með undir 100 stig per 100 sóknir (Sixers 92, Hornets 98, Knicks 98, Wolves 99, Magic 99). 

Rockets er reyndar um tveimur stigum betra varnarlega þegar Harden er útaf, en það er ekkert sem kemur á óvart. Allir eru sammála um að sé allt annað að sjá til hans í vörninni í vetur en var á síðustu leiktíð.

Þegar allt þetta er haft í huga er ekki undarlegt að Harden sé ofarlega á MVP-listum NBA-spekinga um þessar mundir, en okkur þykir einn punktur hafa orðið útundan í umræðunni um hann. Curry er ekki bara talinn líklegri til að hreppa verðlaunin af því liðið hans hefur unnið fleiri leiki. Við höfum nefnilega lúmskan grun um að þeir sem koma til með að kjósa um þetta, eigi líka eftir að hugsa aðeins fram á við þegar þeir greiða atkvæði. 

Það getur nefnilega verið dálítið neyðarlegt að kjósa leikmann MVP ef hann byrjar svo á því að detta út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð og þið munið eflaust hvernig gekk  hjá Harden og Houston í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð. 

Ef þið munið það ekki, er skemmst frá því að segja að Houston lét Portland slá sig út í fyrstu umferð þó það væri með heimavallarréttinn og Harden spilaði meira og minna eins og fífl í þessum leikjum.

Með þessu erum við ekki að segja að Curry og Warriors hafi náð lengra í fyrra, þó þeir hafi að hluta geta afsakað sig með fjarveru Andrew Bogut. 

Og ekki tekur betra við í vor, því það er ekki eins og væntanlegir andstæðingar strax í fyrstu umferð eigi eftir að verða eitthvað krúttlegir ef svo fer sem horfir og Oklahoma hafnar í áttunda sætinu í vestrinu.

Málið er bara að við höfum einhvern veginn miklu meiri trú á því að Golden State geti gert eitthvað í úrslitakeppninni frekar en Houston - og það óháð því hvort Golden State lendir í dauðariðlinum í fyrstu umferðinni. Þessi vantrú okkar á Houston er bara einhver rasismi, sem ætti ekki að verða til annars en að jinxa það í gegn um einhverja sigra í úrslitakeppninni. Það væri allt í lagi okkar vegna.

Sem sagt: James Harden er búinn að spila eins og bæði höfðingi og meistari í allan vetur og draga Houston á ra**hárunum upp í þriðja sæti fáránlega sterkrar deildar. Fyrir þetta á hann skilið mikið hrós og því ætlum við að útnefna hann Mest úr sem minnstu MVP-inn okkar í vetur. Það er víst eitthvað. Hættu þessu væli.



Aðeins einn maður í Austurdeildinni á raunhæfa möguleika á að verða valinn MVP og það vill svo skemmtilega til að hvort sem hann hreppir þann titil eður ei, er hann (ennþá) Besti leikmaður heims MVP-inn í deildinni. 

Þarna erum við auðvitað að tala um LeBron James, en ykkur er nokkurn veginn óhætt að dæma hann úr leik í þessu kapphlaupi í ár. James byrjaði tímabilið ósköp mannlega (ömurlega á sinn mælikvarða) og tók sér svo tveggja vikna frí til að chilla af sér nokkur meiðsli. 

Þegar hann sneri til baka eftir fríið fór hann strax að spila eins og hann sjálfur og bjóða upp á fáránlega tölfræði meðan Cleveland vann og vann körfuboltaleiki. LeBron James er eini leikmaðurinn af sinni kynslóð sem getur boðið upp á tölfræðina 26/6/7/1,5 með 49% skotnýtingu og talist vera að eiga down ár. 

Svona er þessi geimvera búin að láta okkur taka spilamennsku sína sem sjálfssögðum hlut. LeBron verður ekki MVP í ár þó hann fái sérstakan heiðurstitil hjá okkur, en hann þarf ekkert að gráta það með fulla hillu af slíkum dollum.

Þrír leikmenn í viðbót hafa verið nefndir til sögunnar sem MVP kandídatar, en þó þeir hafi allir verið rosalegir í vetur, eiga þeir ekki séns í raunverulegu styttuna. Það þýðir þó ekki að við getum ekki verðlaunað þá einhvern veginn.



Sá sem hefur verið mest í umræðunni að undanförnu er auðvitað Russell Westbrook, sem síðustu vikur hefur verið að spila eins og hann sé andsetinn. Westbrook spilar reyndar alltaf eins og hann sé staðráðinn í að slíta hausinn af andstæðingi sínum, en febrúar og mars hafa verið á annari plánetu hjá honum. Þú veist alltaf að það er eitthvað sérstakt í gangi þegar menn eru að endurtaka hluti sem Michael Jordan var síðast að gera á níunda áratugnum og það er Russ búinn að vera að gera undanfarið.

Tölfræðin hans Russ hefur sérstaklega verið í bullinu síðan Kevin Durant meiddist aftur, en í fjarveru KD er Russ búinn að bjóða upp á 34 stig, 11 fráköst og 12 stoðsendingar að meðaltali í níu leikjum. Þetta er náttúrulega bara geðveiki og það á enginn eftir að toppa þessa rispu hans í tölfræðiklámi í vetur. Það er ekki fræðilega hægt.

Það fer reyndar í taugarnar á okkur þegar menn tala um þessa rispu hjá Westbrook að "hann verði nú ekki kjörinn MVP bara þó hann sé með góða tölfræði í febrúar eða mars." Þessir hálfvitar halda líklega að Russ hafi bara verið að skora 10 stig í leik og gefa tvær stoðsendingar í öllum hinum mánuðunum. Fífl.

Hvað um það. Eins og við elskum hann Russ, er hann ekki að fara að vinna þetta þrátt fyrir tölfræðiaurskriðuna sína núna. Þar kemur tvennt til: fjarvera hans vegna meiðsla og sú staðreynd að Oklahoma hefur ekki getað neitt í vetur (reyndar vegna fjarveru Russ og KD, en samt).

Við skulum samt ekki láta það aftra okkur frá því að útnefna Russ vin okkar Tölfræðiklámkóng og geðsjúklings-MVP ársins í okkar bókum. Hann á annað eins skilið fyrir þessar hamfarir allar.



Annar piltur sem er búinn að missa úr nokkra leiki og er ekki í nógu góðu liði til að hreppa MVP-styttuna er Anthony Davis

Það hefur kannski ekki borið alveg jafn mikið á Brúnari vini okkar undanfarið og í haust, en trúið okkur, hann er búinn að vera að spila betur en flestir leikmenn deildarinnar og er farinn að hræða fólk með gæðum sínum. Hann er að bjóða upp á 25 stig, 10 fráköst og þrjú varin skot með 55% skotnýtingu, tölur sem enginn er að fara að herma eftir á næstunni.

Við skulum því sæma Brúnar sérstökum Guð forði okkur frá þessum dreng þegar hann verður fullorðinn og fær almennilega meðspilara-MVP ársins 2015 í NBA deildinni.



Það er svo ekki hægt að loka þessari pælingu án þess að minnast aðeins á Chris Paul. Rétt eins og Harden og Westbrook hefur hann haldið sínu liði á floti í fjarveru stjörnufélaga. Það er eins og Paul geti alltaf bara gefið aðeins í ef á þarf að halda. 

DeAndre Jordan er búinn að spila eins og hann sé með lausa samninga að undanförnu og það gæti haft eitthvað með það að gera að hann er með lausa samninga í sumar, en athugið að hann myndi ekki skora nema brotabrot af þessum stigum sem hann skilar ef Paul væri ekki til að henda í hann snuddum.

Við erum kannski löngu búin að missa alla trú á LA Clippers, en við verðum að segja að það hefur staðið sig nokkuð vel í fjarveru Blake Griffin og það skrifast mest á Chris Paul, sem við útnefnum hér með Hroka, frekju og yfirgangs-MVP ársins 2015. Honum á ekki eftir að veita af að fá smá verðlaun til að hugga sig í vor þegar allt fer sömu leið og áður.