Saturday, March 7, 2015

Ristill: Gremjulisti ritstjórnar


Ævarandi gremja ritstjórnar þessa vefsvæðis hefur vart farið framhjá nokkrum lesanda. En hvað veldur þessari endalausu gremju? Þarf ekki að rannsaka það?  Jú, tvímælalaust. Allir hlutir sem valda annari eins gremju eru rannsóknarefni.

Þið vitið að við elskum körfubolta, sérstaklega NBA deildina og 97% af því sem fer þar fram. En svo eru það þessi þrjú prósent sem liggja út af borðinu. Ókei, kannski aðeins meira en þrjú prósent. En hvað um það, við skulum líta á þessi atriði og af hverju þau eru svona ergileg. Hér koma þau, í engri sérstakri röð, í 4.250 orða geðkasti.

NEW YORK KNICKS

Fyrst skal frægan telja og það er að sjálfssögðu New York Knicks.

Við höfum farið yfir það oftar en einu sinni að Knicks fer í taugarnar á okkur fyrst og fremst út af fjölmiðlafárinu sem er alltaf í kring um liðið.

Knicks-pennar og Knicks-hneigðir miðlar geta verið fullkomlega óþolandi og eru sumir með gríðarlegar ranghugmyndir um að liðið sé allt í senn spennandi, skemmtilegt og gott.

Það er svo ekki gott að segja af hverju, en eignarhaldið og skrifstofan öll hjá félaginu hefur líka farið rosalega í taugarnar á okkur síðustu ár. Líklega er það af því við finnum til með stuðningsmönnum Knicks, sem hafa ekkert gert af sér annað en að halda með liði sem er drasl.

Og úr því við erum að tala um drasl og erum í New York á annað borð...

BROOKLYN NETS

Brooklyn fer reyndar líka rosalega í taugarnar á okkur - svo mikið að við ætlum ekki einu sinni að gera því þann greiða að búa til sérstakan dálk um það. Brooklyn fer í taugarnar á okkur af því það er fullt af leikmönnum á allt of háum launum sem geta ekki rassgat og af því Djei-Sí er að reyna að hæpa það upp. Sko, Huginn Seyðisfirði verður ekkert allt í einu kúl klúbbur þó að BlazRoca byrji að mæta á leiki hjá honum.

Talandi um Huginn Seyðisfirði...

PHILADELPHIA 76ERS

Við höfum ekki farið leynt með vanþóknun okkar á Sixers undanfarin misseri. Forráðamenn félagsins eru sumpart hugrakkir að prófa að gera róttækan hlut sem aldrei hefur verið gerður áður.

Það sem þeir eru að gera er mjög líkt því sem siðleysingjarnir sem rændu Ísland gerðu á sínum tíma - eitthvað löglegt en siðlaust. Og það er aldrei góð hugmynd að herma eftir Íslendingum með eitt eða neitt, nema þú ætlir að tortíma sjálfum þér í eigin heimsku lesandi góður.

Það er eitt að tanka en það er annað að bjóða stuðningsmönnum sínum upp á aðra eins ælu og forráðamenn Sixers hafa gert undanfarin misseri. Við vitum ekki með ykkur, en við myndum hætta að halda með félagi sem hagaði sér svona.

Þú heldur kannski að metnaðarleyri Sixers beri vott um metnað, en því er öfugt farið. Þetta félag er búið að verða sér til skammar þó það hafi kannski ekki brotið neinar reglur og það er ekki fræðilegur, vísindalegur möguleiki að þessi aðferðafræði félagsins eigi eftir að skila árangri í framtíðinni.

Körfuboltaguðirnir munu aldrei leyfa það.

CHICAGO BULLS

Já, við erum búin að setja Chicago Bulls á gremjulistann okkar eins og alkohólistarnir.

Ástæðan fyrir því að við erum farin að hatast út í Chicago er að okkur þykir svo vænt um þetta lið. Það er bara búið að bregðast okkur of oft.

Framtíðin er alltaf svo björt og efniviðurinn svo góður, en svo verður aldrei neitt úr neinu. Við erum því hætt að gera nokkrar væntingar til þessa liðs og látum það sigla sinn sjó

(Nota bene: fyrsta draft af þessum pistli var skrifað áður en Derrick Rose meiddist enn eina ferðina um daginn).

DÓMARAR

Dómarar í NBA deildinni vinna erfiða vinnu en eru flestir starfi sínu vaxnir. Nokkrir dómarar í deildinni virðast þó halda að hlutverk þeirra sé ekki að gæta að því að leikurinn fari eðlilega fram, heldur að reyna að finna EITTHVAÐ til að flauta á, eitthvað til að eyðileggja leikinn með öllum mögulegum ráðum.

Það er auðveldast að nefna Joey Crawford í þessu tilliti. Hann heldur stundum að fólkið hafi borgað sig inn á leikinn til að horfa á hann og fátt fær okkur til að gnísta tönnum eins hrottalega og Crawford þegar hann fer að haga sér eins og hálfviti. Nýjar reglur sem leyfa dómurum að skoða myndbandsupptökur af atvikum hafa sína kosti, en sá skrípaleikur fer allt of oft úr böndunum og tefur leikina meira en nokkru sinni.

DAVID STERN

Hann er sem betur fer hættur, en hann hefði aldrei átt að taka meira en 20-25 ár í djobbi einræðisherra deildarinnar í stað þess að sitja í þrjátíu.

Stern kom NBA deildinni á kortið og á heiður skilinn fyrir það - þetta snýst ekki um það. Hann gerði fullt af góðum hlutum í tíð sinni, en síðustu árin varð hann hrokafyllri og hrokafyllri og minnti þá mikið á ákveðinn íslenskan stjórnmálamann sem er svo gramur að hann reynir að breyta sögu landsins með því að skrifa hana sjálfur.

Og rétt eins og þessi stjórnmálamaður og hans fylgdarlið mun aldrei viðurkenna að það geri mistök, viðurkennir Stern aldrei að hann skeit á sig í síðasta verkbanni og eyðilagði fyrir sér með því að sitja of lengi.

CLAY BENNETT

Við þurfum ekki að fara mörgum orðum um þennan lygamörð frá Oklahoma, sem keypti Seattle Supersonics og rændi félaginu til Oklahoma við fyrsta mögulega tækifæri - þvert á öll loforð.

Stuðningsmenn Sonics áttu þetta ekki skilið og það er hneyksli að jafn fínn klúbbur og þeir voru með uppi í Seattle sé bara strokaður út af sakramentinu út af einum hálfvita (og David Stern, hlutur hans í þessu rugli má ekki gleymast).

DWIGHT HOWARD

Við erum ekki ein um að hatast út í Dwight Howard. Hann bara biður um þetta. Howard er ágætur körfuboltamaður á vissu sviði en hann er samt mjög takmarkaður og gerir ekkert í því. Hann hefur til dæmis ekki bætt sóknarleik sinn á nokkurn hátt í sex ár. Hann er góður varnarmaður en tekur oft meira frá liðinu sínu en hann gefur því með hnoði, töpuðum boltum og heimskulegum ákvörðunum eins og að verja skot á niðurleið, sem hann mun aldrei hætta að gera. Howard hefur ekki metnað til að ná alvöru árangri og er einn ofmetnasti leikmaður sinnar kynslóðar.

REGGIE MILLER

Hann er einn ofmetnasti leikmaður í sögu NBA og er hrútleiðinlegur sjónvarpsmaður. Hann á ekki skilið að fá meira blek, en það væri gaman að vita hvernig litið væri á hann í dag ef hann hefði málað sín þekktustu verk gegn Minnesota Timberwolves en ekki New York Knicks á sínum tíma.

CARMELO ANTHONY

Það er náttúrulega dónaskapur að vera að agnúast út í ´Melo ræfilinn, en við erum bara svona illa innrætt. Megnið af þessum pirringi út í framherjann skotglaða er að sjálfssögðu af því hann spilar í New York, en það fer líka í taugarnar á okkur hvað fólk (bæði fjölmiðlar og bolurinn) ofmetur Anthony svakalega.

Eins og við höfum skrifað milljón sinnum, er Anthony einn besti skorari sinnar kynslóðar, en þar með er það upptalið.

Það er sýnt, sannað og reynt að ´Melo hjálpar liðinu þínu ekki að vinna. Hann getur kannski verið munurinn á 20 sigrum og 30 sigrum, en hann er ekki nógu sterkur leikmaður til að koma liði í úrslitakeppni - ekki einu sinni í Austurdeildinni - nema hafa mikla hjálp.

Það situr alltaf í okkur að Anthony er oft með betri tölfræði þegar New York getur ekkert en í þetta eina skipti sem það vann nokkra leiki.

Kannski er ósanngjarnt að ætla að hengja svona mikla ábyrgð á einn mann, en þegar menn eru hæpaðir jafn mikið upp og ´Melo í New York - og þegar menn eru á laununum hans - þá eiga menn að minnsta kosti að drulla liðinu sínu í úrslitakeppni með sæmilega samstarfsfélaga.

Þú þarft ekki einu sinni að vinna helminginn af leikjunum þínum á ruslahaugnum sem austrið er til að ná í úrslitakeppnina, en það er meira en ´Melo og félagar hafa ráðið við.

Og nú er svo búið að Anthony er farinn að taka sér pásur í nokkra mánuði af því honum er illt í hnénu og það er stutt í að skrokkurinn á honum fari að banna honum að gera eitthvað af því sem hefur gert hann að því hættulega vopni sem hann er í sókninni.

Auðvitað koma aldrei til greina hjá Anthony að yfirgefa New York þegar hann var með lausa samninga síðast, því þá hefði hann þurft að skilja milljarða eftir á borðinu. Hann hefði hinsvegar haft mjög gott af því að skipta um umhverfi og freista þess að spila með almennilegu liði.

Menn voru búnir að merkja honum stól í Chicago, þar sem hefði verið forvitnilegt að sjá hann spila. Þar hefði hann mögulega verið með næga hjálp til að vinna eina eða tvær seríur í úrslitakeppni til tilbreytingar. Mikið hrikalega eru leiðinleg ár framundan hjá ´Melo. Lítil sem engin von. Bara meðalmennska.

LOS ANGELES LAKERS

Ef þú heldur ekki með Lakers, þá hatarðu Lakers, það er bara þannig. Þetta hatur ristir ekki djúpt, en það er nauðsynlegt að vera með leiðindi út í risaklúbbana. Þeir eru þarna til þess að hata þá. Nema þú ætlir að bjóða þessum töppum í afmælið þitt:



WASHINGTON WIZARDS

Þetta lið fer í taugarnar á okkur af því það er svo lélegt. Það ber óneitanlega vott um lélegan karakter og geðrænan óstöðugleika að vera að eyða tíma í að hatast út í lið fyrir að vera lélegt, en svona er þetta bara. Við erum bara ekki betri manngerð en þetta, gleðitrefjarnar vantar.

Það á að vera fullt af góðum körfuboltamönnum í þessu Washington-liði og alltaf eru miðlarnir fljótir að kjafta það upp, en niðurstaðan er alltaf sú sama, þetta lið getur ekki neitt.

Þú hefðir kannski haldið að lið með Gortat, Nene, (Beal), Pierce og Wall ætti að geta eitthvað, en það er öðru nær. Wiz gengur svo ömurlega í augnablikinu að vonandi fara þeir að reka gagnslausan þjálfarann, sem þeir ösnuðust til að gefa nýjan samning í fyrra. Þú gætir sett Vigdísi Finnbogadóttur eða Harold Bishop í stólinn í stað Wittman, þau yrðu ekki verri.

PAUL PIERCE

Mjög sterkur leikmaður en óhemju leiðinlegur. Ljótur og hrokafullur floppari. Frábær leikmaður, en ertu búin(n) að gleyma hjólastólnum? Ekki við. Og Pierce var ekki eini gaurinn sem var óþolandi í þessu Boston-liði...

KEVIN GARNETT

Frábær leikmaður eins og Pierce, en á meðan Pierce var bara óþolandi, er/var Garnett ómerkilegur hrotti og fantur sem beinir spjótum sínum í 99% tilvika að litlum bakvörðum sem þora ekki að dúndra hann á kjaftinn eins og hann á svo sannarlega skilið fyrir alla olnbogana.

Garnett á fáa sína líka sem leikmaður og er einn besti fjarki sögunnar, en á síðustu árum hefur hann atað ímynd sína aur með skítlegri framkomu eins og áðurnefndum olnbogaskotum og er svo ekki annað en gunga og lydda þegar á hólminn er komið. 

DENVER NUGGETS

Denver er óþolandi í okkar augum í vetur af því það drullaði á sig en er skítsama um það. Þetta lið er var með mannskap til að berjast um sæti í úrslitakeppni, en hefur í staðinn ákveðið að drulla bara á völlinn í hvert skipti sem það spilar. Það virðist vera að koma í ljós að Brian Shaw er ekki þessi Messías þjálfarastéttarinnar sem allir héldu að hann væri.

SKRIFSTOFUFÓLK

Það er regnhlífarhugtak sem nær yfir til dæmis framkvæmdastjóra og eigendur klúbba í NBA deildinni, en þeir geta komið hverjum sem er í vont skap með lítilli fyrirhöfn. Dæmi um þetta eru menn sem fara í taugarnar á okkur af því þeir eru of metnaðarlausir og nískir til að ýta liðunum sínum yfir þröskuldinn þegar kemur að því að reyna að vinna titla.

Þetta eru herramenn eins og eigendur og stjórn Oklahoma og Memphis, liða sem eru bæði búin að vera að banka á dyrnar í nokkur ár, en komast aldrei inn af því eigendurnir eru ekki í bransanum til að vinna titla.

Þetta hljómar stórfurðulega, en það gefur augaleið að skrifstofan hjá Oklahoma hefur t.d. engan áhuga á að vinna meistaratitla eins og sést á bæði aðgerðum og aðgerðaleysi undanfarin ár.

Af hverju létu þeir ekki slag standa með James Harden? Af hverju létu þeir samninginn hans Kendrick Perkins nánast eyðileggja titilvonir liðsins? Af hverju reynir Oklahoma ekki að fá menn eins og Arron Afflalo til sín í staðinn fyrir vonlausa vitleysinga eins og Dion Waiters?

Svörin við þessum spurningum eru augljós og snúa öll að annað hvort nísku eða metnaðarleysi. Þvílík og önnur eins sóun á bestu árum stórkostlegra leikmanna á borð við Kevin Durant og Russell Westbrook. Þeir eiga eftir að horfa til baka eftir tuttugu ár og bölva bæði upphátt og í hljóði yfir því hvað yfirmenn þeirra voru ragir aumingjar.

Önnur tegund af þessari gagnslausu manngerð eru illa gefnir súrefnisþjófar eins og eigandi New York Knicks (nauðsynlegt að koma Knicks inn í eina sautján flokka í þessari mjög svo eðlilegu upptalningu okkar).

Það má vel vera að það sé hálfvitagangur að láta svona menn fara í taugarnar á sér, en James Dolan er einn af þeim sem bókstaflega þvingar fólk upp á móti sér.

Hann er ekki aðeins búinn að sýna fram á það margoft að hann veit ekkert hvað hann er að gera, heldur er hann óvinsæll hjá núverandi og fyrrverandi leikmönnum Knicks, sem sumir kalla hann djöflamerg og svo hraunar hann bæði og drullar yfir eitthvað karlgrey sem vogaði sér að gagnrýna þetta helvítis drasl sem Knicks-liðið er búið að vera nær óslitið frá aldamótum. Þetta er náttúrulega ekki í lagi.

FJÖLMIÐLAR

Ekki bara veruleikafirrtu Knicks-pennarnir sem halda að New York sé eina liðið í heiminum sem skiptir máli þó það væri líklegt til að tapa fyrir Herði á Patreksfirði þessa dagana.

Það sem kemur fast á hæla Knicks-miðlanna eru fjölmiðlamenn sem tísta stöðuna í leikjum á Twitter.

Kannski er það til marks um það hve vitgrannir þeir eru að þeir skuli raunverulega halda að fólki finnist það gagnlegt að þeir tísti hver skoraði og hver staðan er í leikjum.

Við erum ekki að tala um #LeaguePassAlert tíst undir lok leikja, heldur sífelld tíst út í gegn um leikinn sem virka eins og boltavakt (livescore).

Gaur, ef fólk er á internetinu yfir höfuð, þá stendur því til boða að fylgjast með NBA stöðuuppfærslum í beinni á um það bil sextánhundruðþúsund netsíðum en tímalínan þín á Twitter er sannarlega ekki ein þeirra. Og þar fyrir utan, er tímalínan þín á Twitter stundum 1-2 mínútum á undan útsendingum frá leikjunum á t.d. League Pass, þannig að þetta tilgangslausa andskotans rugl sem þú ert að æla út úr þér gerir nákvæmlega ekkert annað en að eyðileggja áhorfið fyrir okkur hinum.

Vitum við ekki hvar Unfollow-takkinn er? Jú, jú, en vandamálið er að þó umræddir blaðamenn virðist vera heilalausir þegar þeir eru að tísta stöðuna í leikjunum, þá eiga þeir það til að skrifa ágætar greinar eða skúbba litlum fréttum inn á milli þessir vitleysingar - og þess vegna viljum við ekki henda þeim út.

Það eina sem vantar þegar hér er komið við sögu, er að finna stærra fyrsta heims vandamál en ofangreinda dílemmu á árinu 2015. Líkurnar á að það gerist eru um 0,37%, sem vill svo skemmtilega til að eru nákvæmlega sömu líkur og eru á því að Dennis Rodman drekki ekki áfengi fyrir hádegi.

SJÓNVARPSMENN

Reggie Miller er ekki eini NBA-gaurinn sem á alls ekki að vera í sjónvarpi. Lýsandi Oklahoma City getur ekki sagt ess, Eric Reid hjá Miami er svo nefmæltur að hann hljómar eins og særður sæfíll fastur í holræsi (reyndu að hlusta á hann í smá stund og hugsa ekki um að raka af honum allt hárið með sláttuorfi), lýsandi Houston hljómar eins og hann sé örlítið greindari en stöðumælir og Sean Elliott aðstoðarlýsandi hjá San Antonio er svo leiðinlegur að hann gæti drepið nashyrning í gegn um Skype.

Það eru fleiri skrautlegir sjónvarpsmenn í bransanum, sem strangt til tekið ættu ekki að koma nálægt hvorki myndavél né hljóðnema, en þeir eru skemmtilega geðveikir. Þetta eru menn eins og Fred Flintstone (Tommy Heinsohn) aðstoðarlýsandi Boston og Austin Carr, aðstoðarlýsandi Cleveland (DEEP-IN-A-CUUUUUERRRRGHL! --- THROWS-THA-HAMMAH-DOOOWNRRRGHL! --- GIT-DAT-WEAK-STUFF-OUTTA-HEEEERERRRGHL!!! ).

GREGG POPOVICH

Pop er einn besti þjálfari sögunnar, en hann er of hrokafullur - nei, dónalegur - við fjölmiðlamenn sem eru bara að vinna vinnuna sína. Það getur vel verið að þetta sé stundum fyndið, en okkur finnst þetta ekki fyndið lengur. Bara dónaskapur og eiginlega bara barnaskapur. Það þorir enginn að segja það, en við þorum því.

MEIÐSLI

Þetta er tvímælalaust mesti gremjuvaldurinn.  Það er með ólíkindum hvað hafa verið mikil meiðsli í NBA deildinni síðustu 2-3 árin og það fer alveg óstjórnlega mikið í taugarnar á okkur.

Haturskórinn segir að það sé álaginu í deildinni að kenna og vill fækka leikjum, en við sjáum ekki hvað er svona öðruvísi við að spila 82 deildarleiki í dag eða fyrir tuttugu árum.

Kannski erum við með eitthvað skökk gleraugu, en við munum ekki eftir öðrum eins meiðslum en herja á deildina í dag.

BÖLVUNIN Í PORTLAND

Við erum ekki hætt að tala um meiðsli, því eitt félag er búið að lenda svo illa í þeim að við verðum að skrifa sérstakan kapítula um það.

Liðið sem um ræðir er Portland og saga félagsins er bókstaflega vörðuð hamfarasögum af meiðslum bestu leikmanna þess.

Portland er ekkert eina liðið sem hefur lent í meiðslum í NBA deildinni, en líklega hefur ekkert lið verið jafn glettilega óheppið í þeim efnum og Blazers.

Svo óheppið að það er óhætt að byrja að tala um að hvíli bölvun á klúbbnum.

Þetta eilífa meiðslavesen hefur alltaf verið þarna og við miðum þessa stuttu yfirferð við það þegar miðherjinn frábæri Bill Walton hrundi niður ónýtur hjá Portland í lok áttunda áratugarins eftir að hafa gert það að meistara árið 1977. Walton var einn besti miðherji sögunnar, en bölvuð meiðslin tryggðu að blómaskeið hans var stutt hjá Blazers.

Næst má hoppa fram til ársins 1984 þegar Portland afrekaði að velja postulínsdúkkuna Sam Bowie í nýliðavalinu í staðinn fyrir mann eins og tjah... Michael Jordan.

Portland til varnar var liðið náttúrulega með Clyde Drexler fyrir í skotbakvarðarstöðunni, en ef þetta val hefði farið fram í dag, hefði Portland tekið Jordan án þess að hika og látið hann og Drexler spila á vængjunum.

Bowie var fínn körfuboltamaður en náði aldrei nokkru sinni að halda sér heilum lengur en í korter og því er ekki hægt að kalla hann annað en klúðraðan valrétt þegar menn eins og Jordan, Charles Barkley og John Stockton voru á lausu.

Þið munið svo eflaust eftir tveimur næstu fórnarlömbum bölvunarinnar sem hurfu af sjónarsviðinu fyrir stuttu síðan. Þetta eru þeir Brandon Roy og Greg Oden, sem hugmyndin var að færu fyrir liði sem ætti eftir að keppa um titilinn ár eftir ár.

Einmitt. 

Þeir þurftu báðir að leggja skóna á hilluna í blóma lífsins meðan stuðningsmenn Blazers rifu af sér hárið og hugsuðu um ef og hefði.

Og eins og til að minna okkur á það að hann er nú ekki farinn neitt, var meiðsladraugurinn svo að droppa við í heimsókn til Portland í vikunni. Hann gætti þess að hafa bensínorfið með og fræsa aðra hásinina á á Wesley Matthews í sundur til gamans.

Við verðum að viðurkenna að við sáum Portland ekki fara mjög langt í úrslitakeppninni í vor þó það geri einhvern veginn ekki annað en að vinna leiki, en þessi alvarlegu meiðsli á Wes sturta þeim litla séns sem liðið hafði á Öskubusku-brellum beint ofan í skítugt klósettið.

Gjörsamlega ömurlegur veruleiki fyrir þetta skemmtilega lið sem er búið að berjast hart fyrir sínu undanfarin misseri og er alltaf að vinna fleiri á sitt band.

Nú er bara að bíða spennt yfir því hvort Damian Lillard á eftir að hálsbrotna, mjaðmagrindarbrotna, ristilrifna eða sprengja upp á sér báðar hnéskeljarnar í nánustu framtíð. Hann er klárlega næstur á listanum og það er svo borðleggjandi að þið skulið bara drífa ykkur í símann og hringja í Vegas. Djöfulsin viðbjóður.

DEMARCUS COUSINS

Það er ekki hægt annað en að vera með Boogie á þessum lista. Þú ert ekki með púls ef hann fer ekki aðeins í taugarnar á þér með endalausu vælinu og smábarnalátunum.

Hann lét aftur skína í pótensjalinn sinn í haust þegar hann spilaði eins og maður í nokkrar vikur, en hlutirnir voru mjög fljótir að hrökkva í sama farið hjá Kings, sem ráku þjálfarann sinn og réðu Tyrone Corbin í staðinn.

Með öðrum orðum: Þeir hentu fartölvu sem ekkert var að - og keyptu sér ritvél í staðinn.

Cousins er eins hæfileikaríkur og hvaða stóri maður sem er í NBA deildinni og í rauninni ræður ekki nokkur maður við hann þó hann sé allt of oft að haga sér eins og hálfviti. Þessi drengur verður mjög nauðsynlega að komast í burtu frá þessu félagi. Þetta er geðveikrahæli og stærsti og sterkasti sjúklingurinn er að sjá um bæði að elda ofan í vistmennina og taka þá í hugræna atferlismeðferð í leiðinni.

Atferlismeðferðin gengur út á það að hann fer með sjúklingnum inn í myrka tveggja fermetra skúringakompu og öskrar búlgarska þjóðsönginn ofan í andlitið á þeim þangað til þeir fá taugaáfall.

Nei, svona sjáum við þennan guðsvolaða klúbb fyrir okkur. Það skiptir ekki nokkru einasta máli hvað þú ræður marga Sjakka og Dívasa í vinnu þarna, það er ekki hægt að treysta fólki sem drekkur skipamálningu.

LOS ANGELES CLIPPERS

Já, við setjum Clippers á blað líka. Það verður ekkert skrifað um gremju okkar í garð Clippers í sögubókum, en ef vel er að gáð, er þarna smá pirringur sem vert er að skrásetja.

Rannsóknir hafa sýnt að 97,8% karlmanna á aldrinum 12-42 ára hafa einu sinni eða oftar bölvað Clippers-liðinu á síðustu tveimur árum* og upptök gremjunnar liggja undantekningarlítið hjá Blake Griffin og/eða Chris Paul.

Við erum reyndar í Blake-friðunarfélaginu og höfum barist fyrir því að fólk láti hann í friði með skrifum okkar á þessu vefsvæði.

Við skiljum þó mætavel að það fari í taugarnar á fólki þegar hann er að væla og floppa eitthvað, en þið væruð líka pirruð ef þið fengjuð sömu meðferð og Griffin í teignum.

Chris Paul fær á hinn bóginn enga hjálp frá okkur til að skýla sér fyrir óvildinni í sinn garð. Hann hefur unnið sér inn fyrir megninu af henni.

Við erum búin að fara yfir þetta áður. Paul er viðurstyggilega góður, en það er bara að koma tími á það að hann og aðdáendur hans fari að líta í spegil og spyrja sig af hverju í andskotanum hann gerir aldrei neitt í úrslitakeppninni.

Matt Barnes er svo annar leikmaður sem fer í taugarnar á öllum, Big Baby Davis á mörgum og það var náttúrulega bara að skvetta olíu á eldinn að bæta svo hvítum skotbakverði frá Duke inn í þennan hóp. Það er eins og þessir menn séu að reyna að verða skotnir á færi. Bættu svo við þetta stjörnugeðveikum eigandanum og áður en þú veist af ertu komin(n) með hóp af mönnum sem Móðir Teresa hefði blótað í sand og ösku.

* - Þetta er náttúrulega hauga- helvítis lygi. Er ekki í lagi með þig?

PATRICK BEVERLEY

Houston-maðurinn Beverley er á gremjulista mjög margra af þeirri einföldu ástæðu að hann er óþolandi góður varnarmaður. Hann fór þó gróflega yfir strikið þegar hann kastaði sér á hnéð á Russell Westbrook og meiddi hann hérna um árið. Ef við hefðum verið á leiknum, hefðum við ráðist inn á völlinn og lamið hann í andlitið með klaufhamri fyrir að fara svona með skemmtilegasta körfuboltamann á jörðinni.

J.R. SMITH

Af svipuðum ástæðum og Knicks...

Hann er með geðveikara skotval en Russell Westbrook, en vandinn er bara að hann kann ekki að fara með það. Það er oftast fyndið þegar NBA leikmenn gera skammir af sér og skandalísera utan vallar, en þegar Smith gerir það, er það bara sorglegt.

Rúsínan í afturendanum og tryggingin fyrir því að Smith fari í taugarnar á okkur er svo sú staðreynd að hann spilaði lengi með Knicks og er því búinn að vera gróflega ofmetinn leikmaður lengi. Smith er með öðrum orðum hæfileikaríkur hægðaheili.

ÞEGAR BOLURINN BYRJAR...

Íslensk stjórnmál og sérstaklega júróvisjón, eiga ALLS EKKI heima á Twitter. Þessi tvö fyrirbæri, ásamt barnamyndum, eru sérhönnuð fyrir Facebook og ber að gæta þess sérstaklega að þau rati aldrei inn á aðra miðla.

Og... svona okkar á milli... ef þú hefur notað hasstaggið "tólf stig" á Twitter - ertu þungavigtarbolur og mjög líklega að hlusta á einn af uppáhalds slögurunum þínum með Simply Red á Bylgjunni (þinni) á meðan þú lest þetta (Holding back the years kæmi þar sterkt inn).

HATERS

Köllum þá leiðindaseggi í íslenskri þýðingu, menn (og eiginlega aldrei konur) sem leggja alla sína orku og hugvit í að standa undir nafni - vera með leiðindi. Þetta er algeng dýrategund, en sem betur fer er hefur hún verið mjög sjaldgæf í kring um NBA Ísland. Lesendur okkar eru nefnilega ekki bara vel yfir meðaltali hvað gáfur snertir, heldur líka jákvæðir, stundum örlátir og skemmtilegir.

Nei, svona sleikjulaust og í fullri alvöru, þykir okkur óskaplega vænt um ykkur öll með tölu. Sérstaklega þau ykkar sem sýna þakklæti sitt í verki og styðja við bakið á NBA Ísland með frjálsum framlögum (með því að smella á gula hnappinn hægra megin á síðunni sem á stendur "þitt framlag" - þetta eru alveg einstaklega vel gerðar manneskjur) á þessum erfiðu tímum.

Kaldhæðnin við þennan stutta pistil er svo augljóslega að ritstjórnin sem sendir hann frá sér er daglega með miklu meiri leiðindi en allir ofangreindir. Það er fátt skemmtilegra en grjótkast í glerhúsum.

Við höfum reyndar gríðarlegar áhyggjur af því að við höfum gleymt fjölda atriða í þessari upptalningu, en við verðum þá bara að líma það aftan við eftir á. Hver veit nema það gæti valdið smá pirringi í leiðinni. Það er svo gott að koma þessu frá sér.

Takk fyrir okkur, elskurnar.