Friday, March 6, 2015

Dagur hrikalegra manna


Sjötti mars er dálítið áhugaverður íþróttadagur ef vel er að gáð. Hann er ekki aðeins afmælisdagur Sleepy Floyd, Greg Ostertag og Michael Finley, heldur einnig afmælisdagur fyrirbærisins ógurlega Shaquille O´Neal. Shaq fæddist á þessum degi árið 1972 og ætti því að vera orðinn 43 ára gamall ef stærðfræðin bregst okkur ekki.







































Shaq þótti gaman að eiga afmæli og hann hélt einu sinni upp á fæðingu sína með því að fræsa aumingja Clippers-liðið eins og var í tísku hér áður. Þetta var á 28 ára afmælinu hans árið 2000 og þó að sé ekki langt síðan, eru myndgæðin eins og þetta hafi verið tekið upp skömmu fyrir siðaskipti. Alveg er það nú merkilegur fjandi, en við skulum nú samt horfa:


Annar ansi merkilegur hlutur í íþróttasögunni gerðist á þessum degi fyrir nákvæmlega þrjátíu árum síðan, en þá keppti Mike Tyson í sínum fyrsta bardaga sem atvinnumaður í hnefaleikum. Andstæðingur Tyson náði ekki að standa af sér fyrstu lotuna frekar en flestir sem valdir voru til að berjast við hann fyrstu mánuðina (Tyson barðist á örfárra vikna fresti af því hann kláraði bardagana sína oftast á rothöggi í 1. eða 2. lotu). Hérna geturðu séð debjúteringu Tysons:


Tyson var í miklu uppáhaldi hjá okkur og er enn. Við vitum vel að hann er ekki nálægt bestu hnefaleikurum sögunnar í sínum þyngdarflokki, en hann var algjört fyrirbæri sem fékk ótrúlegasta fólk til að míga á sig af spenningi yfir sporti sem það hafði aldrei gefið gaum áður. 

Í nóvember árið eftir slátraði hann svo Trevor Berbick og varð yngsti heimsmeistari sögunnar í þungavigt (20) og ári þar á eftir varð hann fyrsti maðurinn til að hengja öll þrjú beltin á sig og verða óumdeildur meistari þungavigtarinnar.
































Allir vita hvað fylgdi í kjölfarið, en við leyfum öðrum að gaspra yfir þeim leiðindum. 
Það eina sem við vildum benda ykkur á, var að 6. mars er sannarlega dagur hrikalegra manna.