Showing posts with label Deron Williams. Show all posts
Showing posts with label Deron Williams. Show all posts

Sunday, April 26, 2015

Vörutalning 25/4


Látum okkur sjá...

Í haust reiknuðum við með því að úrslitakeppnin yrði svo jöfn að hún ætti eftir að koma okkur í gröfina. Annað hefur að sjálfssögðu komið á daginn og það er mjög langt síðan fyrsta umferðin hefur verið eins "ójöfn" og raun ber vitni. Það er mjög sérstakt að sex af átta rimmum þar hafi byrjað 3-0, raunar munum við ekki eftir svona löguðu. Það gerðist síðast fyrir tólf árum að fimm einvígi byrjuðu 3-0.

Liðin þrjú í austrinu sem komust í 3-0 gerðu það af því mótherjinn getur ekki neitt. Golden State lokaði New Orleans 4-0,  ekki af því að Brúnar og þeir væru lélegir, heldur af því Golden State er svo sterkt lið.

Svo eru Memphis og Houston komin í 3-0 af margvíslegum ástæðum, einna helst meiðslum.

Það er augljóst að fyrsta umferðin í ár er áberandi slappari en hún hefur verið á síðustu árum. Það er rauntal. En það er samt ósanngjarnt að bera hana saman við fyrstu umferðina í fyrra, sem var ein sú besta sem við höfum séð - ef ekki sú besta.

Það er svo fáránlegt hvað er stutt síðan við spáðum því að úrslitakeppnin í vestrinu í vor yrði ein sú besta (sterkasta) í sögunni, en eins og þið hafið séð fer lítið fyrir því. Það er ekki nema ein dúndur sería í gangi og það er sorglegt.

En nú skulum við hætta þessum helvítis barlómi og henda niður á blað því helsta sem er að frétta úr stríðinu:

Eins og við sögðum ykkur fyrir skömmu, er viðureign LA Clippers og San Antonio að bjarga þessari úrslitakeppni. Fyrstu tveir leikirnir í LA voru rafmagnaðir en San Antonio tók sig reyndar til og slátraði Clippers í þriðja leiknum.

Það er því enginn vafi á því að allur meðbyr í einvíginu er í seglum San Antonio þessa stundina, en slæmu fréttirnar fyrir LA Clippers í því sambandi eru að Texasliðið á helling inni í sóknarleiknum.

Munar þar mestu um Tony Parker, sem vegna margvíslegra meiðsla hefur ekki gert annað en skemma fyrir liðinu með framlagi eins og 25% skotnýtingu.

Lélegur leikur Parker og takmarkað leikform Tiago Splitter hefur hinsvegar ekki komið að sök enn sem komið er í einvíginu og það er nýjustu stórstjörnu NBA deildarinnar að þakka. Kawhi Leonard er gjörsamlega búinn að fara hamförum hjá Spurs og tekur á sig stærra hlutverk með hverjum leiknum sem líður. Hann er í alvöru að verða skerí-góður eins og það er kallað. Aumingja Clippers að þurfa að díla við þetta apparat.

Clippers syngur sama lag og áður. Byrjunarliðið hjá þeim er frábært og hangir oftast í Spurs, en um leið og þeir þurfa að hvíla, fer allt til andskotans í hvelli. Þeim þjálfara-Doc Rivers og framkvæmdastjóra-Doc kemur alveg örugglega illa saman.












Wednesday, May 14, 2014

Margt hangir á spýtunni í einvígi OKC og Clippers


Við höfum fengið að sjá rosalega mikið af mistökum í fjórða leikhluta síðustu tveggja viðureigna Oklahoma City og Los Angeles Clippers. Menn eins og Charles Barkley og Kenny Smith í þættinum Inside the NBA á TNT höfðu sérstaklega orð á því í nótt, þegar Oklahoma tryggði sér ævintýralegan 105-104 sigur í Clippers á heimavelli - og náði 3-2 forystu í einvíginu.

Auðvitað gera menn oft klaufamistök þegar svona mikið er í húfi. Barkley gerði klaufamistök eins og aðrir, líka Kenny Smith. Við gerum flest einhverja bölvaða vitleysu annað slagið, ekki síst undir pressu.

Því kemur ekki til greina að fara að setja út á þennan sportbíl sem þetta einvígi er, bara af því hann er ekki með alveg nógu góðar bremsur. Fokk itt - þá krassar hann bara - það má hafa gaman af því.

Við opnum á þessu tali um mistökin af því við viljum vera heiðarleg þegar við tölum um deildina okkar fögru. Við förum ekki að sópa því undir teppið að atriðin sem réðu úrslitum hafi sum ekki verið glæsileg. Það að einblína á það, væri samt rakinn hálfvitagangur.

Við sögðum ykkur allt frá því önnur umferðin byrjaði, en einvígi Oklahoma og Clippers ætti eftir að verða það besta í umferðinni. Og við höfum staðið við það. Þetta er langskemmtilegasta einvígið, þó aulagangur hafi vissulega sett svip sinn á síðustu tvo leiki - sérstaklega leikinn í nótt.

Clippers á að vera 3-2 yfir í einvíginu á leiðinni á heimavöllinn sinn til að loka þessu, en í stað þess að klára unninn leik, ákvað liðið að skíta á völlinn nákvæmlega eins og Oklahoma gerði í fjórða leiknum í Los Angeles. Það er því Oklahoma sem er yfir 3-2 og fær nú tvo sénsa til að loka þessu.

Það var ákveðið afrek hjá Oklahoma að klúðra leiknum á sunnudagskvöldið, en Clippers toppaði það í kvöld, á hreint út sagt glórulausum lokamínútum.

Clippers var yfir meira og minna allan leikinn og var með einvígið í hendi sér eins og frá byrjun fjórða leikhlutans í fjórða leiknum. Liðið var yfir 101-88 þegar 4 mínútur og 13 sekúndur voru eftir. Hey, þú ert með Chris Paul í leikstjórnandanum - hvað getur klikkað?

Allt.

Dómararnir flautuðu allt fyrir Oklahoma á lokamínútunum, þar sem Kevin Durant (3 af 18.879 á þeim tímapunkti) fór loksins að hitta og maður leiksins Russell Westbrook kláraði dæmið. Russ var stórkostlegur í þessum leik, en ef hann fær ekki flautið á Paul þarna í restina (sjá mynd) - er ekki talað um neitt annað fram að næsta leik en þetta glórulausa skot sem hann fór upp í á þessum tímapunkti.

Það er stundum ekki nema hársbreidd á milli þess hvort Russ er engill eða djöfull og í nótt var hann engillinn, sem var íííískaldur á vítalínunni og tryggði Oklahoma sigurinn með þremur vítum. Að hugsa sér hvað er stutt á milli Óskars og Ófeigs í þessu.

Á hinum endanum hefði einhver haldið að Chris Paul næði ágætis skoti á þeim sekúndum sem eftir voru af leiknum, en hann lét Reggie Jackson lemja sig svo fast í hendina að hann missti boltann og rann á rassgatið.

Leikur.

Eins og sönnum Twitter-notendum sæmir, höfum við að sjálfssögðu leitað logandi ljósi að einhverjum til að kenna um ófarir Clippers - bæði í þessum leik og hvar sem brugðið hefur út af leið í einvíginu. Sú leit hefur ekki borið mikinn árangur, en þó má hafa eftirfarandi í huga:

Russell Westbrook fer hamförum í þessu einvígi, fólk þarf að átta sig á því. Eins og hann er villtur og stundum bara æpandi geðveikur, ætti Oklahoma ekki séns í helvíti í þessa seríu ef hugrekki hans og krafta nyti ekki við.

Og Russ er ekki bara búinn að drita skotum út um allt - hann er líka búinn að hitta þokkalega. Pilturinn er að skila 30 stigum, 7 fráköstum, 8 stoðsendingum, 2 stolnum, 53% skotnýtingu, 41% í þristum og 87% í vítum. Ekki slæm tölfræði frá næstbesta manninum í liðinu, ha?

Saturday, June 29, 2013

Prokhorov bruðlar í Brooklyn:


Þetta er ekki dónalegt byrjunarlið á pappírunum.

Rússinn Mikhail Prokhorov var ekkert að grínast þegar hann keypti Nets árið 2010. Margir hlógu þegar hann sagðist ætla að vinna titil innan fimm ára og það getur vel verið að þeir brosi enn, en þeir eru hættir að hlæja.

Prokhorov er bókstaflega að taka Manchester City-pakkann á þetta og er skítsama um þær óhugnalegu peningaupphæðir sem hann kemur til með að þurfa að greiða í lúxusskatt á næstu árum. Þið vitið að við erum reyndar ekkert rosalega mikið fyrir að velta okkur upp úr peningamálum leikmanna í NBA deildinni - nema þeir séu ekki að vinna fyrir þeim.

Nei, við erum meira fyrir að skoða hvað gerist inni á körfuboltavellinum sjálfum.

Fyrir Boston þýða þessi skipti einfaldlega að það á að fara að byggja allt upp á nýtt og nú er liðið með hvorki meira né minna en sex valrétti í fyrstu umferð nýliðavalsins næstu þrjú ár. Með smá klókindum ætti að fást eitthvað gott fyrir það.

Eina spurningin sem er ósvarað hjá Celtics er hvort Rajon Rondo verður látinn fara líka, en þó hann sé reyndar meiddur enn þá, er hann á fínum samningi og engin ástæða til að hræra í því.

Það er Brooklyn sem er í sviðsljósinu eftir þessi skipti og þó félagið hafi í rauninni haft afar lítið svigrúm til að stokka upp hjá sér, verðum við líklega að taka ofan fyrir forráðamönnum klúbbsins fyrir að prófa þetta djarfa útspil.

Margir vilja gera breytingar bara til að gera breytingar - og óþolinmóðir eigendur sem eru grilljarðamæringar eru sannarlega engin undantekning þar á.

Það er hinsvegar fullkomlega rökrétt að stokka aðeins upp í þessu hjá Nets að okkar mati, því þó liðið hafi bætt sig í deildakeppninni á milli ára, var frammistaða þess óásættanleg í úrslitakeppninni.

Nú er svo komið að Nets hefur losað sig við fáránlegan samninga þeirra Gerald Wallace og Kris Humphries og einnig losað sig við tvo leikmenn sem spiluðu undir væntingum á síðustu leiktíð. Það er í sjálfu sér mjög vel gert, en auðvitað koma himinháir samningar inn í staðinn.

Mestu munar þarna um Paul Pierce sem þénar 17 milljónir dollara næta vetur en þeir Kevin Garnett og Jason Terry eru svo sem ekkert að vinna kauplaust heldur.

En þá er bara stóra spurningin eftir: Verður Brooklyn-liðið betra eftir þessi skipti?

Stutta svarið er já, en hversu mikið betra eigum við alveg eftir að sjá.

 Ef marka má úrslitakeppnina í vor, er ekkert rosalega mikið eftir á tanknum hjá þeim Garnett og Pierce og Jason Terry fékk hvað eftir annað að koma inn á hjá Boston þó hann væri látinn.

Þeir KG og Pierce verða 37 og 36 ára gamlir þegar leiktíðin hefst í haust og eru því augljóslega löngu komnir af léttasta skeiði. Spurningin er bara hversu vel þeir ná að mótívera sig í vetur.

Þeir hljóta að geta keyrt sig upp á því að Boston hafi dissað þá og ekki kært sig um starfskrafta þeirra. Það má vel vera að þeir félagar hafi verið sprækari, en þeir geta samt kennt sekkjunum hjá Nets eitt og annað .

Til dæmis koma þeir með leiðtogahæfileika, drápseðli og dugnað inn í dæmið - og ef allt gengur upp - kenna þeir þessum skussum kannski að vinna körfuboltaleiki.

Keppnin í Austurdeildinni verður væntanlega mun harðari næsta vetur en hún var í ár.

Miami-skrímslið verður á sínum stað, unglingarnir hjá Indiana verða bara betri og endurheimta Danny Granger (eða fá einhvern í hans stað) og endurkoma Derrick Rose lyftir Chicago úr meðalmennskunni í keppnina á toppnum.

Það er því ljóst að Brooklyn-liðið þarf að slípast vel saman og halda heilsu í vetur ef það á að ná sér í góða stöðu fyrir úrslitakeppnina. Svo má auðvitað ekki gleyma því að þjálfari liðsins hefur ekki hugmynd um hvað hann er að gera, af því hann hefur aldrei þjálfað áður.

Jason Kidd er klár strákur og er með góða aðstoðarmenn, en það verður sannarlega forvitnilegt að sjá hvernig honum tekst að ná sambandi við jafnaldra sína frá Boston. Ráðning Kidd var stórfurðuleg, en það getur vel verið að þessi áhætta borgi sig líkt og var með Mark Jackson hjá Warriors.

En svo er hinn möguleikinn. Að þetta springi allt í andlitið á þeim. Það þarf nú ekkert að pína Deron Williams í að láta reka þjálfarana sína eins og þið vitið - hann er þegar með þrjú nöfn á samviskunni þessi fitubolla.

Svo er það stór spurning í okkar huga hvernig kemistríið á eftir að verða í þessu liði. Þarna er hellingur af egói, reynslu og skoðunum - stýrt af manni sem hefur enga reynslu af þjálfun.

Hmmm.

Brooklyn er sem fyrr að reyna að hlaða í titil strax, verkefni sem er nær ómögulegt nema vera með hárréttan mannskap, þjálfara og fullt af heppni. Segðu hvað sem þú vilt um þessa kostnaðarsömu aðferðafræði Prokhorov, það verður ekki tekið af honum að hann hefur að minnsta kosti kjark til að reyna að gera eitthvað og setur um leið smá púður í þetta karlinn.

Sunday, February 3, 2013

Deron Williams og ungfrú Ameríka






















Deron Williams, leikstjórnandi Brooklyn Nets, var svo heppinn að fá að leiða Ungfrú Ameríku 2013 inn á gólfið þar sem hún bað ekki aðeins um heimsfrið, heldur söng sjálfan þjóðsönginn i leiðinni. Þessi huggulega dama heitir Mallory Hagan.

Sunday, December 30, 2012

Brooklyn-blús



























Það er búið að reka Avery Johnson frá Brooklyn Nets eins og þú vissir. Við verðum bara að skrifa nokkrar línur um það af veikindavaktinni þó þetta sé gömul frétt.

Nokkuð sérstakt að þjálfari mánaðarins í nóvember sé rekinn nokkrum vikum síðar, en svona er þetta í NBA deildinni - sérstaklega hjá félögum sem eru að borga há laun og ætlast til að fá sigra í staðinn.

Avery Johnson var lengi vel búinn að vera í kósí djobbi hjá Nets. Hann notaði óþolandi röddina sína til að öskra á menn sem kunnu ekki körfubolta og töpuðu óhemju fjölda leikja. Það var ekkert verið að erfa það við Johnson, því það ætlast enginn til þess að þú farir með Jet Black Joe í úrslitakeppnina í NBA.

Núna er landslagið hinsvegar orðið allt annað. Nets er með besta bakvarðapar deildarinnar á pappírunum, borgar fullt af körfuboltamönnum fullt af peningum og nú á að fara að vinna.

Það heppnaðist framan af þegar liðið átti flúgandi 11-4 start í nóvember og vann meðal annars LA Clippers og New York Knicks, en svo datt botninn úr öllu saman.

Desember hófst á átta töpum í fyrstu tíu leikjunum og þeir fimm sigrar sem Nets hefur náð að druslast til að vinna í mánuðinum eru gegn stórveldum eins og Detroit, Cleveland, Charlotte og Toronto.

Aðeins sigurinn gegn Philadelphia getur talist góður sigur, hin liðin gætu tapað fyrir Newcastle og Norwich á góðum degi.

Það er rosalega auðvelt og freistandi að kenna Deron Williams um hvernig fór fyrir Johnson og við ætlum að gera það. Williams er hjartað og sálin í liði Nets og framtíð þess veltur öll á honum.

Eina afsökunin sem Williams hefur er sú að hann gengur ekki heill til skógar og hefur ekki gert síðan hann gekk í raðir Nets. Þegar Williams er í lagi, er hann launa sinna virði og í klúbbi með bestu leikstjórnendum heims.

En þegar úlniðurinn á honum er í klessu og hann fer í fýlu út í þjálfarann sinn,  hjálpar hann liðinu sínu sorglega lítið. Og sú var raunin og þjálfarinn fékk sparkið.

Kannski er ósanngjarnt að klína öllu á Deron Williams. Hann þvertekur fyrir að vandræði Nets og brottreksturinn sé honum að kenna, en segist gera sér grein fyrir að hann fái blammeringarnar og segist gangast við þeim hvort sem það er sanngjarnt eða ekki.

Okkur er alveg sama hvort það er sanngjarnt eða ekki. Deron Williams er nú orðinn staðfestur þjálfaramorðingi í okkar augum. Var reyndar þegar orðinn það, en nú hefur hann tekið af allan vafa.

Deron Williams er ástæðan fyrir því að Jerry Sloan hætti að þjálfa og það er fyrst og fremst honum að kenna að Avery Johnson er á atvinnuleysisskrá.

Hvað framtíðina varðar hjá Nets, voru fjölmiðlar að sjálfssögðu fljótir að orða alla bestu þjálfara heims við félagið af því þeir vita að eigandi Nets þarf ekkert að brjóta sparigrísinn ef hann ætlar að landa góðum manni. Hann á nóg af aurum.

Einmitt þess vegna var strax byrjað að tala um Phil Jackson og eitthvað svoleiðis. Að okkar mati er það útilokað að Jackson tæki við Nets. Vissulega fengi hann feit laun og það freistar hans örugglega, en Jackson er í bransanum til að vinna titla og það er enginn efniviður til þess hjá Nets sem stendur.

Nets vegna vonum við að þjálfarinn sem landar djobbinu verði sterkur karakter, því það er ljóst að Deron Williams virðist hreint ekki tilbúinn til að vinna með hverjum sem er. Það höfum við fengið að sjá.

Það verður mikil áskorun að gera alvöru lið úr Nets þó vissulega séu þar hörkuspilarar inn á milli. Það hjálpar í þjálfaraleitinni að staðan verður vel borguð, en ekki búast við að næsti þjálfari verði þar í átta ár. Ekki frekar en að PJ Carlesimo geri góða hluti þar sem aðalþjálfari.


Ríki Derons


(Smelltu til að stækka)


Thursday, March 8, 2012

Jordan Farmar er alveg sama um Lob City


Það var enginn annar en Jordan Farmar sem tryggði New Jersey Nets sjaldgæfan sigur með þriggja stiga körfu í nótt. Undirbúningur Deron Williams er frábær - sendingin gull. Williams er ekki mikið í því að tapa fyrir Chris Paul - hvorki maður á mann, né með liði sínu. Athyglivert hve ójafnt einvígi þeirra hefur verið undanfarin ár. En hvað um það. Sólin skín líka stundum á hundsrassa. Það sýndi sig í nótt.

Monday, March 5, 2012

Sögulegt kvöld hjá frábærum leikstjórnendum


Leikstjórnandastaðan hefur sjaldan eða aldrei verið sterkari en hún er í NBA í dag. Þessir ungu piltar eru alltaf að bæta sig og það er eins og annað hvort lið í NBA búi svo vel að eiga ás sem er á stjörnuliðskalíberi.


Tölfræðin sem leikstjórnendurnir voru að bjóða upp á í nótt fer í sögubækur, það er ekkert öðruvísi. Deron Williams skoraði 57 stig í sigri New Jersey Nets á ömurlegu Bobcats-liði. Þetta er einn mesti stigaleikur sem hreinræktaður leikstjórnandi hefur boðið upp á í sögu deildarinnar og þá er ekkert slor að hitta úr 21 af 21 skoti á vítalínunni.

Ef þú spyrð okkur er 18/17/20 leikur Bostonmannsins Rajon Rondo öflugri en skotsýning Deron Williams. Aðeins Wilt Chamberlain og Oscar Robertson hafa sett upp aðrar eins tölur í sögu deildarinnar en það að 185 cm og 84 kílóa maður skuli bjóða upp á þennan sóðaskap í nútíma NBA er ekkert annað en fáránlegt.

Það segir sína sögu um flugeldasýningu kvöldsins að frábærir leikir fjögurra annara miðjubakvarða skuli falla algjörlega í skuggann. Þeir Chris Paul og Derrick Rose fóru þó báðir fyrir sínum liðum í góðum sigrum og skiluðu frammistöðu vel yfir meðaltali. Þá var einvígi þeirra Tony Parker og Ty Lawson ekki mikið síðra. Það er dásamlegt að fylgjast með leikstjórnendum nútímans leika listir sínar í NBA.