Showing posts with label Kári Jónsson. Show all posts
Showing posts with label Kári Jónsson. Show all posts
Friday, April 29, 2016
Fella hjá KR
Körfuboltavertíðinni hér heima lauk formlega hjá strákunum í gærkvöldi þegar KR lagði Hauka nokkuð örugglega 70-84 á Ásvöllum og tók úrslitaeinvígið sumsé 3-1. Þetta er búinn að vera nokkurn veginn fullkominn vetur hjá KR-ingum sem tóku bæði deild og bikar í ár.
Áætlunin hans Helga Magnússonar um að hætta með stæl gekk því óaðfinnanlega upp, þar sem hann er Íslandsmeistari þrjú síðustu árin sín og vinnur allt á lokaárinu sínu. Þið munið eflaust eftir öðrum þekktum körfuboltamanni sem lagði skó sína á hilluna árið 1998 eftir að hafa orðið meistari þrjú ár í röð, en það er nokkuð skondin tilviljun að sá leikmaður fór líka til Washington eftir titlana þrjá eins og Helgi ætlar sér að gera átján árum síðar.
KR-ingar eru vel að titlinum komnir eins og venjulega. Haukaliðið er einfaldlega ekki nógu sterkt til að vinna KR í seríu og við vissum það öll fyrirfram. Hinsvegar verðum við að hrósa Haukapiltum fyrir að ná að gera þetta að einvígi á kafla en ekki sópi. Við fengum smá drama í þriðja leiknum og það reddaði seríunni, sem hefði ekki verið merkileg ella. Til dæmis ekki nálægt því eins góð og Njarðvíkurserían hjá KR.
Það hefði verið gaman að sjá KR mæta Stjörnunni, það hefði verið gaman að sjá KR mæta Njarðvíkurliði sem væri ekki með lykilmenn í meiðslum og síðast en ekki síst hefði verið helvíti gaman að fá að sjá Kára Jónsson spila með Haukunum í úrslitaeinvíginu. En svona er þetta víst. Meiðsli gerast og allt það.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig KR-ingar ætla að fylla í það stóra skarð sem Helgi Magnússon skilur eftir sig næsta vetur og það verður eftirsjá í þessum flinka leikmanni og leiðtoga. Það verður líka áhugavert að sjá hvernig Haukarnir tækla næstu leiktíð - hvort þeir ætla að láta sér nægja að hafa skrifað smá Öskubuskuævintýri núna og sökkva sér bara aftur í meðalmennskuna þegar Kári er farinn. Vonandi ekki.
Ritstjórn NBA Ísland óskar KR-piltum og Snæfellsstúlkum hjartanlega til hamingju með titlana sína í vikunni. Þetta er búinn að vera frábær körfuboltavetur hjá okkur á innlendum vettvangi.
Hérna eru loks nokkrar myndir frá Ásvöllum í gær.
Smelltu á "Lesa meira" ef þig langar að skoða þær allar.
Efnisflokkar:
Haukar
,
Heimabrugg
,
Helgi Magnússon
,
Kári Jónsson
,
KR
,
Myndir
,
Sigurgöngur
,
Sigurvegarar
,
Skórnir á hilluna
,
Titlar
,
Úrslitakeppni 2016
Wednesday, March 30, 2016
Útgáfupartí
Fjórði leikur Hauka og Þórs í 1. umferð úrslitakeppninnar í gærkvöldi var einn sá skemmtilegasti sem við höfum séð í vetur - þvílík hávaðaskemmtun sem hann var.
Eins og þið vitið væntanlega, lauk leiknum með sigri gestanna úr Hafnarfirði 100-96 eftir framlengingu, sem þýðir að Haukarnir eru komnir í undanúrslitin. Við viðurkennum fúslega að við dauðsjáum á eftir Þórsliðinu og það er fúlt að Natvélin og félagar séu á leiðinni til Benidorm.
Blanda af klaufagangi og óheppni liðsins hjálpaði ekkert, en það sem gerði gæfumuninn í þessum leik var sú staðreynd að Vance Hall spilaði gjörsamlega eins og aumingi. Ef hann hefði spilað af 50% getu í þessum leik, hefði Þórsliðið náð að knýja fram oddaleik, en hann valdi slæman dag til að eiga sinn versta leik á tímabilinu og því fór sem fór. Maðurinn hlýtur bara að hafa verið fárveikur. Ekkert annað afsakar þessa arfaslöku frammistöðu hjá þessum annars magnaða leikmanni.
Það sem stendur upp úr í þessum leik kemur Þórsliðinu hinsvegar ekkert við, því hann var að okkar mati útgáfupartí Kára Jónssonar. Drengurinn fór hamförum og kláraði leikinn fyrir Kanalausa Hafnfirðingana. Það er nákvæmlega ekkert eðlilegt við það að drengur sem er ekki búinn að eyða fermingarpeningunum sínum taki bara yfir leik í úrslitakeppni með þessum hætti, en hann gerði það nú samt. Þvílíkur töffari sem þessi drengur er.
Efnisflokkar:
Frumraunir/frumsýningar
,
Haukar
,
Heimabrugg
,
Kári Jónsson
,
Natvélin
,
Útgáfupartí
,
Þór Þorlákshöfn
Saturday, February 27, 2016
Af leikandi léttum Haukum
Ka-kaaaaa!*
Einar Árni kærði sig ekki um að nota flensuskít sem afsökun fyrir slökum leik hans manna í Þórsliðinu þegar þeir steinlágu 86-62 fyrir Haukum í Schweinhunde-höllinni í Hafnarfirði í gærkvöldi. Hann sagði að hefðu verið veikindi hjá Haukunum líka. Það bar þó eitthvað minna á því hjá heimamönnum.
Það sem fór með þetta hjá Þórsurunum var að mikilvægasti leikmaður liðsins var mjög augljóslega veikur, enda skoraði Vance Hall ekki nema 12 stig og hitti úr 4 af 13 utan af velli. Það gefur augaleið að þetta verður alltaf erfitt þegar prímusmótorinn er á felgunni. Sáum Natvélina poppa íbúfen á bekknum.
Þetta var skítt fyrir Þórsarana, að lenda í svona pestarkjaftæði á svona mikilvægum tímapunkti, þar sem liðin í efri hluta deildarinnar eru að klóra og bíta hvert annað til að ná í heimavöllinn í úrslitakeppninni. Þórsararnir reyndu, en stundum ganga hlutirnir einfaldlega ekki upp. Þeir eiga eftir að svara þessu þegar þeir hressast, ekki spurning.
Aftur urðum við vitni að Jekyll and Haukar móment hjá Hafnfirðingum. Þeir eru álíka stöðugir og íslenska krónan, en þetta getur verið drullu skemmtilegt lið þegar það er í essinu sínu. Við erum búin að sjá nokkra átakanlega leiki frá Haukunum í vetur, en þeir virðast hafa unnið í Kanalottóinu, því það er allt annað að sjá liðið eftir að Brandon Mobley kom inn í þetta hjá þeim.
Nú höfum við ekki hugmynd um hvort þessi uppsveifla Hafnfirðinga skrifast á hann eða ekki, en hann á tvímælalaust þátt í þessu. Maðurinn er einfaldlega frábær í körfubolta, sem hjálpar. Hann er með 21/9 meðaltal þrátt fyrir fúleggið sem hann verpti gegn Star um daginn og er að skjóta 50% fyrir innan og utan.
Þegar vörnin heldur hjá Haukum, boltinn gengur vel og skotin þar af leiðandi að detta, er ljómandi gaman að horfa á þá spila körfubolta. Sérstaklega þótti okkur gaman að sjá þegar (Steph) Kári Jónsson og Mobley tóku vegginn og veltuna. Það var svona dálítið: "Hvort viltu láta bora í hnéskelina á þér eða sparka úr þér tennurnar?"- dæmi fyrir aumingja Þórsarana.
Vorum við búin að segja ykkur frá hrifningu okkar af Kára Jónssyni? Já, margoft, en hér kemur það aftur. Við ráðum ekkert við þetta. Eigum ekki séns þegar kemur að Kára, eins og líklega allir körfuboltaáhugamenn sem á annað borð eru með mælanlegan púls. Drengurinn er listamaður í alla staði og skilar 18/5/5 með 55% og 37% í vetur. Uh, jez-ah.
Men in black, lag Will Smith úr samnefndri kvikmynd, var á toppi breska vinsældalistans daginn sem Kári fæddist í lok ágúst árið 1997.
Nú eru Haukarnir búnir að vinna fimm leiki í röð og eru taplausir í febrúar eftir að hafa kvatt janúar með blæstri frá KR. Það er freistandi að stökkva um borð í Haukavagninn og byrja að renna sér núna, en við ætlum ekki að gera það alveg strax. Viljum ekki brenna okkur aftur. Það er svo sárt.
Hvað sem öðru líður, ætti að vera óhætt að áætla að Haukar eigi eftir að setja skemmtilegan svip á úrslitakeppnina í vor - eitthvað sem við sáum ekki fyrir fyrir mánuði síðan. Þeir eru með hörkulið og eiga að krefjast þess af sjálfum sér að þeir fari að minnsta kosti í undanúrslitin í vor. Annað væru bara vonbrigði og við erum 100% viss um að Haukarnir eru því sammála.
Það er líklega of mikil bjartsýni að ætla þessu liði að keppa um titilinn, en okkur er alveg sama. Ef þetta lið spilar svona skemmtilegan bolta í úrslitakeppninni, fáum við öll eitthvað fyrir peninginn okkar og þá eru allir glaðir.
Hérna eru loks nokkrar myndir frá leiknum í gær. Þú mátt alveg fá þær lánaðar ef þú gætir þess að merkja okkur þær. Nema þú sért fjölmiðill. Þá eru ekkert of góður til að borga fyrir þær. Dollah, dollah, bill yo!
-------------------------------------------------------------------
* - Þetta er mökunarkall hauksins um fengitímann
Efnisflokkar:
Haukar
,
Heimabrugg
,
Kári Jónsson
,
Natvélin
,
Þór Þorlákshöfn
Saturday, October 19, 2013
Drama í Domino´s í gær
Frábær körfuboltaleikur fór fram á Ásvöllum í gærkvöldi, þar sem Íslandsmeistarar Grindavíkur unnu nauman 104-102 sigur á Haukum eftir tvíframlengdan háspennuleik.
Nú þegar hafa farið fram nokkrir toppleikir í deildinni okkar fögru, en þetta var sá fyrsti sem við vorum svo heppin að sjá með berum augum í vetur.
Það var hávaðadramatík í þessu og dómararnir voru eflaust aðfram komnir af öllum hlaupunum upp í fjölmiðlastúku, því þangað þurftu þeir að hlaupa til að taka af allan vafa í hvert sinn sem lokaflautan skrækti - þ.e. kíkja á vídeóið og athuga hvort karfa/körfur voru góðar eður ei.
Kannski ekki gaman að blanda saman vídeókvöldi og körfuboltaleik, en auðvitað er best að hafa þetta allt saman rétt og dómararnir stóðu sig vel eins og alltaf.
Menn voru farnir að hrista höfuðið yfir þessari spennu og velta fyrir sér hvort hreinlega yrði búið að taka ákvörðun um uppgjör skuldabréfa í erlendri mynt á Íslandi áður en þessi leikur kláraðist.

Við verðum að byrja á því að biðja aumingja Emil Barja afsökunar á að hafa jinxað hann til helvítis í þessum leik.
Eins og við greindum frá um daginn vorum við svo hrifin af frammistöðu Emils í fyrsta deildarleik Haukanna þar sem pilturinn bauð upp á þrennu.
Við sögðumst því ætla að kíkja fljótlega á Haukaleik og sjá Emil hlaða í aðra og enn betri þrennu.
Skemmst er frá því að segja að ekkert varð úr því. Leikstjórnandinn skemmtilegi lenti fljótlega í villuvandræðum, sneri sig þvínæst á ökkla og lét á endanum reka sig af velli fyrir kjánagang.
Sorry, Emil, við skulum ekki auglýsa komu okkar svona fyrirfram næst. Það boðar greinilega bara eitthvað Digranes. Við tökum þetta á okkur og skömmumst okkar fyrir þetta.
Einhver hefði haldið að Haukarnir, sem eru nú ekki beinlínis með neina súperbreidd í hópnum, hefðu átt erfitt uppdráttar í leik þar sem einn besti maður liðsins spilar ekki nema ellefu mínútur. Og kannski áttu Haukarnir erfitt uppdráttar á köflum, en þeim tókst þá nokkuð vel að fela það. Í það minnsta voru þeir ekki á því að leyfa meisturunum að hirða af sér stigin.
Þetta Haukalið er virkilega skemmtilegt og rétt að mæla með að fólk líti við á leik hjá þeim fljótlega. Bandaríkjamaðurinn Terrence Watson fór mikinn í liði Hafnfirðinga og skilaði 44 framlagsstigum. Slíkt gerist sannarlega ekki á hverjum degi.
Það var líka gaman að fylgjast með Hauki Óskarssyni hlaða í 31 stig. Hann tók nokkrar skemmtilegar rispur og er gríðarlega flinkur leikmaður. Einn af þessum ungu piltum sem bera með sér sjaldséð sóknarsvægi og fallegar hreyfingar.
Honum er hinsvegar bent á að fara að pappíra sig í fráköstunum. Menn yfir tvo metra eiga ekki að frákasta eins og þriðji leikstjórnandi, grátandi upphátt.
Eins og gefur að skilja var fullt af krönsmínútum í tvíframlengdum körfuboltaleik.
Það vakti athygli okkar að sjá að fyrrum Grindvíkingurinn Davíð Hermannsson brá sér í hlutverk neyðarkarls hjá Haukaliðinu á lokamínútum venjulegs leiktíma og setti hverja körfuna á fætur annari eins og hann væri að sýna þeim gulklæddu hverju þeir væru að missa af.
Athyglivert þótti okkur að fylgjast með kornungum Kára Jónssyni hjá Haukum.
Honum var fengið nokkuð stórt hlutverk eftir að Emil þurfti frá að hverfa og þó hann hafi gert nokkur mistök, stóð hann sig reglulega vel.
Þessi sextán ára gutti setti m.a. tvær stórar körfur þegar skammt var til leiksloka.
Kári er sonur fyrrum leikmanns og þjálfara Haukanna, Jóns Arnars Ingvarssonar. Því miður verðum við að grípa í þreytta klisju og segja eins og er að Kári virðist vera með körfuboltann í genunum.
Það verður gaman að fylgjast með þessum strák í framtíðinni - eins og raunar Haukaliðinu eins og það leggur sig. Eins og þið vitið orðið, höfum við alltaf óhemju gaman af því að horfa á unga körfuboltamenn stíga á svið og reyna að sanna sig (#NoPedo).
Þið takið eftir að meistararnir verða svo til útundan í þessari einhliða umfjöllun okkar, en það er auðvitað fátt nýtt undir sólinni þegar kemur að Grindavíkurliðinu.
Sóknarleikurinn hjá þeim gulu var ekkert brjálæðislega góður en þeir eru að verða orðnir mjög rútíneraðir í varnarleiknum enda eru lykilmenn liðsins farnir að þekkjast ansi vel. Svona stöðugleiki skiptir ekki litlu máli.
Góð lið vinna leiki gjarnan á góðum varnarleik eins og þið vitið og sterk lið eins og Grindavík eiga oftast nokkur varnarstopp á lagernum þegar kemur fram á lokamínúturnar.
Nokkrir viðmælenda okkar á leiknum höfðu á orði að líklega væri verið að prenta flugmiðann vestur um haf handa Bandaríkjamanninum Kendall Timmons hjá Grindavík.

Þess ber þó að geta að það var nú eiginlega Timmons sem ísaði leikinn loksins fyrir gestina með nokkrum góðum sóknaraðgerðum í 2. framlengingunni.
Grindvíkingar spiluðu þennan leik eins og tvöfaldir meistarar spila haustleik í deildinni - það leit enginn út fyrir að vera að fá hjartaáfall af spennu og áhyggjum.
Þegar lið eru orðin jafn sigursæl og þetta Grindavíkurlið, gerist það sjálfkrafa að deildakeppnin missir dálítið vægi.
Auðvitað vilja Grindvíkingar tryggja sér heimavallarréttinn í úrslitakeppninni með því að taka deildameistaratitilinn, en eins og áður sagði, tapa þeir klárlega engum svefni yfir því þó þeir tapi nokkrum leikjum í deildakeppninni - hvað þá svona að hausti til.
Þeir sem fylgjast reglulega með á NBA Ísland vita að við erum ekki gefin fyrir trommuslátt á körfuboltaleikjum og viljum helst halda trommunum alfarið í handboltanum.
Okkur þykir þó sérstök ástæða til að gefa trommara Haukanna kredit þar sem hann mætti ekki bara með trommur, heldur sýmbala líka.
Þetta er fagmennska og þó trommurnar fari í taugarnar á okkur á körfuboltaleikjum, má svo sem alveg hugsa sér að skapast geti skemmtileg stemning ef einhver tæki upp á því að tromma t.d. Silent Scream með Slayer meðan á leik stendur.
Stjarnan fékk hrottalegan 95-76 skell austur í Þorlákshöfn í gærkvöldi. Svo stóran að menn vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara. Okkur skilst að Garðbæingar ætli að restarta vélinni hjá sér eftir þetta ljóta tap. Að sama skapi er þetta heldur betur flottur sigur hjá Benna, Nat-vélinni og félögum í Þór, sem virðast ekki ætla að sýna neina gestrisni í Ljósabekknum í vetur.
Hey - hérna eru nokkrar myndir frá Ásvöllum í gærkvöldi:
Efnisflokkar:
Á flautunni
,
Davíð Hermannsson
,
Digranes
,
Dómgæsla
,
Emil Barja
,
Grindavík
,
Haukar
,
Haukur Óskarsson
,
Heimabrugg
,
Kári Jónsson
,
Nýliðar
,
Stjarnan
,
Þetta er ungt og leikur sér
,
Þór Þorlákshöfn
Subscribe to:
Posts (Atom)