Showing posts with label Taphrinur. Show all posts
Showing posts with label Taphrinur. Show all posts

Tuesday, November 28, 2017

Sunday, January 11, 2015

Knicks upp á háaloft


Það mætti halda að við værum með New York á heilanum, en þetta verður það síðasta sem skrifað verður um Knicks á leiktíðinni nema Madison Square Garden brenni til grunna. Við þurftum bara að koma frá okkur einni athugasemd í viðbót, sem okkur flaug í hug þegar við fylgdumst með "óslitinni sigurgöngu" Detroit Pistons og Philadelphia 76ers.

New York Knicks 2015 er sorglegasta körfuboltalið sem við höfum séð.

Philadelphia er með tvo eða þrjá NBA leikmenn í sínum röðum, en það hefur nú unnið fleiri leiki en New York. Philadelphia er að tánka, meðan New York ætlaði upphaflega að reyna að gera eitthvað í deildakeppninni. Og það þýðir ekkert að fela sig á bak við meiðsli.

Við vitum alveg að New York er líklega ekki lélegasta lið allra tíma, en það er klárlega það sorglegasta. Einhver lið hljóta að teljast lélegri en 2015 útgáfan af Knicks, en þau eru ekki mörg. Við erum að tala um það að New York er orðið svo lélegt að við erum farin að hata allt við félagið! Réttast væri að loka þessari vonlausu sjoppu.

Yfir og út á Knicks-skrif í bili.

"... Og haldiði svo kjafti!"

Friday, January 9, 2015

Blaðamaður losnar undan oki Knicks


Blaðamennirnir á New York Times er búnir að hafa nóg að gera við að fylgjast með liði Knicks í NBA deildinni undanfarnar vikur. Ætli þeir séu ekki búnir að tæma orðakvótann þegar kemur að því að lýsa vanhæfni liðsins, sem hefur nú tapað 24 af síðustu 25 leikjum sínum í deildinni og hefur aldrei í sögunni byrjað eins illa.

Líklega hefur ákvörðunin verið tekin með tungu í kinn, eins og Bandaríkjamenn orða það, en yfirmenn íþróttadeildarinnar á Times hafa gefið það út að þeir ætli að leyfa blaðamanninum sem starfað hefur í kring um Knicks að einbeita sér að öðrum verkefnum framvegis. Þeir hafa samúð með manni, sem hlýtur að vera orðinn rosalega leiður á lífinu eftir að vera búinn að elta aulana í Knicks í tapleiki út um allt land.

Það er augljóst hvað vakir fyrir Times-mönnum með þessu útpili. Þeir eru einfaldlega að sýna það í verki hvað þeim er orðið óglatt af að horfa upp á Knicks gera sig að fífli kvöld eftir kvöld. Við erum nú þegar búin að skrifa allt of mikið um þetta lið eins og þið vitið, en við máttum til með að deila þessum greinarstúf með þeim ykkar sem kunna að hafa misst af honum.

Það verður aldrei þreytt að fylgjast með körfuboltafélaginu New York Knicks tortíma sjálfu sér.


Tuesday, December 23, 2014

Það er aðeins eitt í stöðunni hjá Knicks


Öll eigum við það til að leika sófaforseta knattspyrnu- og körfuboltafélaga. Sófaforseti er gjarnan stuðningsmaður sem hefur mjög ákveðnar skoðanir á því hvað félaginu sem hann heldur með er fyrir bestu. Stundum eru þessar skoðanir harðlínulegar og trúar bókstafnum.

Það er alveg rosalega auðvelt að sitja heima í sófa og rífa kjaft og besservissa yfir því hvaða leikmenn þetta og hitt lið eigi að láta fara, hvaða leikmenn það ætti að semja við, hvaða leikaðferð það ætti að spila og hvort þjálfarinn hentar eða ekki. Þið kannist við þessar pælingar og við að sjálfssögðu líka, þetta vefsvæði gengur auðvitað mikið til út á svona fabúleringar.

Sófaforsetinn er ekki mjög þolinmóður einstaklingur og því þarf oft ekki mikinn mótbyr til að hann fari að ókyrrast og heimta hausa, en eins og þið vitið er það nú ekki algengt að félögin í NBA geri mjög stórar og róttækar breytingar þó þau skipti stundum ört um þjálfara.

Þú getur heldur ekki rekið allt liðið þitt þó þú tapir nokkrum leikjum í röð. Þig langar kannski til þess, en ef þú setur þig raunverulega í spor forráðamanna félagsins, sérðu augljóslega að það væru ekki fagmannleg vinnubrögð.

Stundum þarf hinsvegar að gera undantekningar og stóra undantekningin frá þessu er ruslahaugurinn New York Knicks.

Það er búið að reyna og reyna og reyna, en allt kemur fyrir ekki. Því meiri "metnað" sem forráðamenn Knicks setja í rekstur félagsins, því dýpra grafa þeir sig ofan í rotþró getuleysis, viðvaningsháttar og vanhæfni.

Monday, March 31, 2014

Saturday, March 22, 2014

Viðbjóðnum er hampað


Vitið þið hvað er það skelfilegasta við lélegu afsökunina af körfuboltaliði sem er Philadelphia 76ers? Það er ekki sú staðreynd að liðið sé búið að losa sig við alla leikmenn sína, suma ódýrt, og bjóði stuðningsmönnum sínum upp á D-deildarleiki á verði NBA leikja.

Heldur ekki sú staðreynd að liðið er búið að tapa 23 leikjum í röð og hefur alla (leir)burði til að slá NBA met Cleveland (26) yfir flest töp í röð. Og heldur ekki að þrátt fyrir allt þetta, sé Philadelphia EKKI í neðsta sæti í deildinni!

Sá heiður fellur í skaut Milwaukee Bucks - liðs sem myndi ekki verða sér meira til skammar þó það skráði sig til leiks í Peffsídeildinni í sumar.

Nei, það versta við þetta allt saman, er að það gerðist ekki fyrr en í þessari viku að Sixers yrði stærðfræðilega úr leik með að vinna sér sæti í úrslitakeppninni. ÞAÐ er grátlegt.

Með öðrum orðum, er Austurdeildin svo viðbjóðslega léleg, að tvö lið sem mögulega gætu talist tvö af lélegustu NBA liðum allra tíma, eru ekki úr leik með sæti í úrslitakeppninni fyrr en fjórar vikur eru eftir af deildakeppninni.

ÞAÐ er viðbjóðurinn í þessu öllu saman.

Eðlilega hefur það verið rætt mikið í vetur hvort breyta eigi fyrirkomulaginu í deildakeppninni til að reyna að koma í veg fyrir svona bull eins og lélegustu liðin í NBA eru að bjóða upp á í vetur. Því miður en nákvæmlega enginn metnaður fyrir því að breyta þessu.

Við vitum ekki með ykkur, en við sjáum stóran mun á því að stokka upp og byrja upp á nýtt, eða eyða 82 leikjum í að skíta á gólfið og rukka stórfé fyrir það. Margir halda að það að "tanka" þýði að liðin reyni að tapa. Það er ekki rétt. Öll NBA lið reyna að vinna þegar flautað er til leiks.

Nei, það er skrifstofufólkið sem sér um að tanka, með því að rútta saman og tefla fram liði sem kann ekki körfubolta.

Þá erum við ekki að meina sökum vanhæfni, eins og hjá New York, heldur hreint og klárt plan sem gengur hreint og beint út á að reka alla NBA leikmenn í burtu frá félaginu og fá D-deildarmenn inn í staðinn. Menn sem kunna ekki körfubolta.

Þetta er t.d. Philadelphia að gera núna.

Menn þurfa að verða (mjög) lélegir áður en þeir geta orðið góðir, segir klisjan í NBA deildinni. Því miður er mikið til í því.

Meira að segja besta lið síðustu tveggja áratuga í deildinni lagði grunninn að því með því að tanka - og það hressilega. Já, það var San Antonio Spurs, sem tankaði til að fá Tim Duncan. Ekki hægt að bera mikið á móti þessari aðferðafræði ef hún virkar svona vel, ha?

Okkur er alveg sama. Eins og við sögðum áðan, það er eitt að stokka upp og byrja upp á nýtt með því að henda ungum strákum út í djúpu laugina eins og Seattle/Oklahoma gerði á sínum tíma, annað að bjóða upp á horrorsjóv eins og Sixers er að gera.

En merkilegt nokk, er fólk samt enn að kaupa miða og mæta á leiki hjá Sixers. Mætingin er langt frá því að vera góð, en svo virðist sem fólk láti sig hafa það að mæta, kannski til þess eins og sjá Michael Carter-Williams sýna listir sínar. Fólkið huggar sig við að bráðum komi betri tíð með endalaus lotterípikk í haga og ef það er svona andskoti vitlaust að borga sig inn á svona, hlæja eigendurnir auðvitað alla leið í bankann.

Eitthvað segir okkur samt að karmað gæti átt eftir að blanda sér í málin hjá Sixers í framtíðinni.

Körfuboltaguðirnir eru ekki hrifnir af svona stöffi - það þarf enginn að segja okkur það. Segðu hvað sem þú vilt um þessi mál, okkur þykir svona frammistaða bera vott um metnaðar- og karaktersleysi, en umfram allt eru það reglurnar sem eru út í hött. Þessar reglur eru svartur blettur á langbestu deild í heimi, en því miður sjáum við bara ekkert í spilunum sem gefur til kynna að þetta verði lagað.

Þessum leppalúðum virðist finnast þetta rosalega gaman. Verði þeim að góðu.


Friday, February 28, 2014

Ristill: Körfuboltalið New York Knicks er


Þetta er vægast sagt afdráttarlaus fyrirsögn, en hún er með þeim sannari sem skrifaðar hafa verið á þetta vefsvæði. Það er alveg sama hvernig þú teiknar það upp - hvort þú ert fullur eða edrú - hvort sem þú elskar eða hatar New York Knicks. Þetta körfuboltafélag er fullkomið rusl og stjórn þess, þjálfarateymi og leikmenn eiga ekki skilið að fá borguð laun síðustu fjóra mánuði.

New York var eitt af Spútnikliðum síðasta vetrar og óvænt gengi liðsins kom engum fagmanninum á óvart, því það er sama hvort um er að ræða hörðustu stuðningsmenn Knicks eða blaðamenn í Bandaríkjunum - allir virðast jafnan halda að Knicks-liðið sé um það bil helmingi betra en það er í raun og veru.

Og auðvitað héldu bæði sérfræðingar og vitleysingar þess vegna að Knicks myndi byggja á árangrinum á síðustu leiktíð og verða enn betra í vetur.

Sem dæmi um þetta má nefna spá þeirra ESPN-manna Jalen Rose í haust. Þeir eru einmitt skemmtileg blanda af sérfræðingum og vitleysingum og þeir spáðu því að New York yrði eitt af tíu bestu liðunum í NBA í vetur.

Eins og staðan er í dag, er New York ekki einu sinni eitt af tíu bestu liðunum í Austurdeildinni og þó vill svo vel til að þessi Austurdeild er sú lang, langlélegasta sem við höfum orðið vitni að á þeim áratugum sem við höfum fylgst með NBA deildinni.

Ef við skoðum töfluna í dag, eru sex lið með verri árangur en New York og nokkur þeirra eru búin að skipta frá sér öllum NBA leikmönnunum sínum og spila á D-deildarmönnum.

Utah Jazz er með betri árangur en New York Knicks þegar þetta er skrifað. Já, sama Utah Jazz liðið og efast var um að ætti eftir að vinna tíu leiki í vetur eftir að það byrjaði 1-14 í haust.

Ein af sorglegustu staðreyndunum við þetta allt saman er að aðalstjarna liðstins, Carmelo Anthony, er að eiga eina af sínum bestu leiktíðum síðan hann kom inn í deildina með LeBron James og Dwyane Wade árið 2003. Hann hefur aldrei spilað jafnmargar mínútur og hefur aldrei frákastað eins vel.

En það er engin fylgni milli spilamennsku Carmelo Anthony og stöðu Knicks í töflunni. Carmelo Anthony er fyrst og fremst skorari og er vissulega í heimsklassa sem slíkur, en þar með er öll sagan sögð.

´Melo nær ekki að gera hina fjóra mennina sem spila með honum betri, það er orðið augljóst og fyrir vikið kemst liðið hans aldrei yfir ákveðinn þröskuld.

Það eru strangar kröfur á hvaða körfuboltamann sem er að ætla honum að gera meðspilara sína betri, en það eru eðlilegar kröfur á mann í launaflokki og stöðu Carmelo Anthony. Það eru ekki nema örfáir leikmenn í NBA deildinni sem uppfylla þessar kröfur, en það eru líka hinar sannkölluðu ofurstjörnur.

Það er Carmelo Anthony ekki.

Carmelo Anthony er fyrst og fremst frábær skorari, sem er byrjaður að ógna um leið og hann stígur yfir miðju, en hann er langt frá því að vera hagkvæmur skorari og seint verður sagt að skotval hans sé mjög gott.

´Melo getur spilað ágætis varnarleik ef honum sýnist svo, en það er bara mjög sjaldan sem honum sýnist svo. Það er svo fyrst núna í vetur sem hann er að frákasta eins og hann hefur burði til, en fram til þessa hefur hann oftar en ekki verið með lélegar tölur í þeirri deildinni.

Lykilatriðin á bak við listina að gera meðspilara sína betri eru boltameðferð, sendingageta og útsjónasemi og þá gefum við okkur að viðkomandi leikmaður hafi líka áhuga á að gefa boltann - sé óeigingjarn. ´Melo hefur eitthvað af þessu, en hann virðist ekki hafa nægan áhuga á að eyða tíma í þessa þætti leiksins.

Sjáðu bara pilt eins og Paul George hjá Indiana, strák sem spilar sömu stöðu og Carmelo Anthony. Það eru mörg ár síðan menn vissu að George hefði alla burði til að verða stórstjarna, en áður en svo mátti verða þurfti hann að laga tvo stór atriði. Hann var jú alls ekki góður skotmaður og svo var hann með afleita boltameðferð.


Skottækni geta menn alltaf lagað og hún fer oftar en ekki batnandi hjá mönnum eftir því sem árin líða í NBA deildinni. George hefur enda bætt sig sem skotmaður og á sjálfsagt eftir að halda því áfram.

En það var ekki skottæknin sem varð til þess að hann fór frá því að verða efnilegur yfir í að verða einn af fimm bestu alhliðaleikmennum í deildinni. Það var boltameðferðin. Og hana bætti pilturinn stórlega með þrotlausri vinnu.

Boltameðferðin hjá Paul George er enn ekki eins og best verður á kosið og skotnýtingin hans er líka oft upp og ofan. Það er samt skondið að sjá það að á síðasta rúma ári eða svo, hefur George að okkar mati tekið fram úr Anthony.

Jú, jú, Melo er með eitthvað betri tölfræði, en þið megið ekki gleyma því að leikurinn fer fram á tveimur vallarhelmingum.

Svo má kannski minnast á að Indiana-liðið hans George (þó það sé vissulega betur mannað en Knicks) er búið að vinna meira en helmingi fleiri leiki en liðið hans Anthony (44 vs 21).

Við höfum hundrað sinnum skrifað um vandræðaganginn á Knicks og þá staðreynd að hann hefur alltaf byrjað á skrifstofunni.

Það er bara svo grátlegt að forráðamenn félagsins virðast alltaf svo staðráðnir í því að binda félagið í báða skó og reka það eins og íslenskan banka. Keyra allt áfram á glórulausum lánum og halda áfram að hnoða stærri og stærri snjóbolta sem bara stækkar og stækkar.

Það hefur legið í loftinu í fjölda ára, en ekkert hefur verið gert í því. Núna bendir hinsvegar flest til þess að verði ekki bara gerð uppstokkun hjá Knicks, heldur verði spilastokknum bókstaflega hent og nýr keyptur í staðinn.

Það hefur ekkert annað verið í stöðunni í nokkur ár, en forráðamenn Knicks virðast alltaf vera einu aðilarnir sem fatta það ekki.

Það er ómögulegt að segja hvað verður um Carmelo Anthony þegar þessi uppstokkun á sér stað, en það vill svo vel til að kappinn er með lausa samninga í sumar og því er augljóst að það kemur í ljós á næstu mánuðum hvort hann er í framtíðarplönum Knicks.

Vissulega er það hroki og besserwiss að segja svona, en ef forráðamenn Knicks ætla sér að gera eitthvað í framtíðinni, eiga þeir að láta Carmelo Anthony fara - hvort sem þeir fá eitthvað fyrir hann eða ekki.

Við erum löngu búin að sjá hvað lið getur náð langt með Carmelo Anthony sem aðalstjörnu, bæði með lélegan og þokkalega góðan mannskap í kring um hann. Ef metnaður Knicks gengur út á að vera í kring um 50% vinningshlutfallið og detta út í 1-2 umferð úrslitakeppninnar, er um að gera að semja við ´Melo sem fyrst.

Sé metnaðurinn meiri, verður hann að fara.

Og það krakkar, það er bara þannig.

Saturday, November 30, 2013

Carmelo Anthony reynir að vinna körfuboltaleiki


Denver tók á móti New York í nótt. Sumir eru hreinlega búnir að gleyma því, en þessar viðureignir eru dálítið sérstakar fyrir þær sakir að aðalskorari New York var jú einu sinni aðalstjarna Denver-liðsins.

Carmelo Anthony á ekki skemmtilegar minningar frá gamla heimavellinum, því á síðustu leiktíð spilaði hann illa í Denver og þurfti loks að fara meiddur af leikvelli. Ekki var það mikið skárra í ár. Anthony hitti frekar illa úr skotunum sínum og þar á meðal var loftbolti sem hefði getað sent leikinn í framlengingu. Loftboltinn kom reyndar til af því Anthony lét 193 sentimetra háan Randy Foye verja frá sér skotið.





New York er búið að vinna 108 leiki síðan Carmelo Anthony gekk í raðir liðsins, en Denver hefur unnið 122 leiki á sama tímaskeiði. Denver hefur ekki unnið seríu í úrslitakeppni eftir að Anthony fór (0-3), sem er svo sem í takt við það sem tíðkaðist meðan hann var þar, ef eitt ár er undanskilið. New York hefur tekist að vinna eina seríu í úrslitakeppni, þegar það lufsaðist í gegn um Boston í vor og er því á svipuðum slóðum og Denver á þeim bænum (1-3).

New York (3-12) byrjar leiktíðina vægast sagt hörmulega og er búið að tapa átta leikjum í röð. Flestum þykir eflaust erfitt að kyngja því þegar liðið þeirra tapar átta leikjum í röð, en reyndar er nú ekki svo langt síðan Knicks tapaði átta í röð (feb. 2010). Denver (9-6) hefur hinsvegar unnið níu af síðustu tólf eftir hikst í byrjun (0-3).

Það vantar mikið í liði Knicks þegar Tyson Chandler er ekki í vinnunni, flestir vita hvað hann er duglegur varnarmaður.

Það er samt athyglisvert að það hafði lítil sem engin áhrif á liðið í fyrra þegar Chandler meiddist, það hélt samt áfram að vinna.

Við erum enn ekki búin að fatta af hverju New York vann svona marga leiki á síðustu leiktíð, en gæti verið að eitthvað af því tengist jafnvel leiðtogahæfileikum Jason Kidd og eldri borgaranna sem voru í liðinu þá?

Margir eru hissa á að ekkert gangi hjá Knicks þessa dagana, en að okkar mati er þetta gengi frekar nær raunveruleikanum en velgengnin á síðustu leiktíð.

Fólk er búið að bíða rosalega lengi eftir fyrsta meistaratitlinum hans Carmelo Anthony. Við ráðleggjum þessu fólki að halda ekki niðri í sér andanum. Við erum búin að reikna þetta út á vísindalegan hátt: New York á í dag 14,7% betri líkur á að vinna meistaratitilinn en Fram á Skagaströnd.

Knicks hefur ekki unnið meistaratitilinn í 40 ár og það er ljóst að engin breyting verður á því á næstunni. Félagið er að fá átakanlega lítið út úr ofborguðum milljarðamæringunum sínum, sem liggja og baða sig upp úr drullunni eins og ofalin svín.

Við höfum ekki hugmynd um hvað Carmelo Anthony segir við son sinn þegar hann liggur á dánarbeðinu þegar að því kemur. En við erum nokkuð örugg um það það verður ekki;

"Ó, mig auma, sonur! Ég vildi að ég hefði tekið fleiri skot þegar ég var atvinnumaður í körfubolta, þá hefðum við kannski unnið eitthvað, fjandakornið! Kreegah, ´Melo bundolo!"


Thursday, November 21, 2013

Rotið Epli


Hér sjáum við morðvopnið á bak við enn eitt tapið hjá New York Knicks á heimavelli. Liðið var með leikinn við Indiana gjörsamlega í höndum sér þegar Iman Shumpert ákvað að brjóta á Paul George í þriggja stiga skoti og gefa honum tækifæri til að jafna og senda leikinn í framlengingu.

Auðvitað vann Indiana aukaleikhlutann og svínað Knicks í 3-8, þar af 1-6 á heimavelli. Þetta lítur ekkert rosalega vel út hjá liðunum tveimur í Stóra Eplinu þessa dagana.

Vissulega setja meiðsli strik í reikninginn bæði hjá Knicks og Nets (líka 3-8), en það verður bara að setjast eins og er að grannarnir eru báðir gjörsamlega að drulla á sig. Aðeins Milwaukee (2-8) hefur gert betur í buxurnar í Austurdeildinni það sem af er leiktíðinni.

Við vitum að skammtastærðin er enn lítil, en ef úrslitakeppnin hæfist í dag, myndu tvö lið með innan við 40% vinninshlutfall fara í hana í Austurdeildinni. Þar af lið með 36% vinningshlutfall (Detroit). Alltaf sömu risarnir þarna austanmegin.

Sunday, November 17, 2013

Verstir í vestri


Það er ekkert auðvelt að vera Detroit Pistons. Það var og er kreppa í Bandaríkjunum og fáar borgir hafa orðið eins illa fyrir barðinu á henni og Detroit. Það er hrikalegt að sjá ástandið þar. Atvinnuleysi er mikið og ónýt og yfirgefin hús um alla borg. Detroit er að breytast í draugaborg. Eða kannski Gotham.

En hér var ætlunin að skrifa um körfubolta en ekki félagsfræðiritgerð. Það er nefnilega svo að það eru ljótir hlutir í gangi hjá Pistons - lygileg taphrina sem sýnir okkur svart á hvítu hvað þetta lið er búið að vera handónýtt síðan Joe Dumars losaði sig við leikmennina sem unnu titilinn fyrir áratug síðan.

Detroit gerði sér lítið fyrir og lagði Sacramento Kings á útivelli á föstudagskvöldið.

Þetta var afar þýðingarmikill sigur, því fyrir leikinn var Detroit búið að tapa 21 útileik í röð gegn liðum úr Vesturdeildinni.

Liðið hafði aðeins unnið einn af síðustu 45 útileikjum sínum gegn vestrinu og ef Sacramento er tekið út úr myndinni, eru töpin orðin 38 í röð.

Þetta er náttúrulega ekki í lagi.

Á undanförnum árum, hefur liðið reyndar náð að vinna einhverja 3 útileiki gegn Sacramento, en samkvæmt lauslegri könnun okkar, vann Detroit síðast útileik gegn vesturliði öðru en Kings þann 19. desember árið 2010. Pældu aðeins í því.

Þennan dag marði Detroit sigur á New Orleans eftir framlengdan leik. Rip Hamilton og Tracy McGrady voru í liði Pistons og maður leiksins var Tayshaun Prince, sem skilaði 28 stigum (12-16 í skotum), 12 fráköstum og 8 stoðsendingum.

Það er aðeins einn leikmaður í New Orleans liðinu í dag sem var í því fyrir þremur árum, en það er miðherjinn skemmtilegi Jason Smith sem þá var nýkominn til félagsins frá Fíladelfíu.

Vonandi fara nú heilladísirnar að koma úr fríi og henda beini í Detroit-liðið. Framlína Pistons er mjög frambærileg, en hefur þó enn ekki náð að stimpla sig almennilega inn í elítuna í deildinni. Þeir Greg Monroe og Andre Drummond eru nettir spilarar og það er ekki langt í að þeir taki stökkið ef þeir gera það á annað borð.

Sunday, December 30, 2012

Kisurnar og Clippers með andstæðar rispur:


Mánudagurinn 26. nóvember sl. var nokkuð merkilegur dagur á NBA almanakinu okkar í ár. Þá áttu sér stað tveir tapleikir sem mörkuðu upphafið að miklum rispum í sitt hvora áttina.

Þessi lélega afsökun af körfuboltaliði sem kölluð er Charlotte Bobcats tapaði þetta kvöld hrottalega fyrir Oklahoma City 114-69 og lauk þar hreinlega keppni á tímabilinu, sem hafði byrjað svo efnilega.

Eins og frægt er orðið  vann Charlotte aðeins sjö leiki alla leiktíðina í fyrra og skilaði lélegasta vinningshlutfalli í sögu NBA deildarinnar.

Kisurnar byrjuðu ótrúlegt nokk 7-5 í haust og gott ef okkur varð ekki á að hrósa liðinu fyrir að jafna sigrafjölda síðustu leiktíðar strax í nóvember.  Síðan þetta var hefur beinlínis verið drulluslóð á eftir Charlotte, sem gæti allt eins verið með Sigga Storm og Axl Rose í byrjunarliði sínu.

Eins og þeir vita sem fylgjast með NBA, hefur Charlotte nú tapað 18 leikjum í röð frá 26. nóvember.

Á hinum endanum á spektrúminu er það Los Angeles Clippers sem brillerar sem aldrei fyrr.

Clippers hefur nefnilega ekki tapað leik síðan á umræddu mánudagskvöldi og hefur síðan unnið hvorki meira né minna en 16 leiki í röð, sem er löngu orðið félagsmet og meira til.

Það var nú ekki merkilegra lið en New Orleans Hornets sem var síðasta liðið til að leggja Clippers að velli, en Chris Paul og félagar töpuðu reyndar fjórum leikjum í röð áður en þeir fóru á þessa svakalegu rispu sem þeir eru á núna.

Ef allt væri eðlilegt myndi þessi pistill sem við skrifum um sigurgöngu Clippers nægja til að jinxa liðið í 87 stiga tap í næsta leik, en þannig vill til að andstæðingur liðsins í kvöld á álíka gengi að fagna og Aston Villa um þessar mundir svo við höfum engar áhyggjur af jinxi.

Sextándi sigurinn í röð hjá Clippers kom gegn Jazz á útivelli í fyrrakvöld og það eftir að gestirnir höfðu lent 19 stigum undir í þriðja leikhluta. Sautjándi sigurinn í röð kemur einnig gegn leikstjórnandalausu Jazz-liði í Los Angeles í kvöld.

Fyrrum Clippers-maðurinn Mo Williams er frá vegna meiðsla hjá Jazz og er hans vægast sagt saknað. Mennirnir sem sjá um að fylla skarð hans, Jamaal Tinsley og Earl Watson eru samtals 1 af 8 í skotum með 12 stoðsendingar og 13 tapaða bolta í síðustu tveimur leikjum. Væri gaman að sjá hvort Ingvi Hrafn Jónsson næði að skila betra framlagi. Þessir snáðar gætu ekki hitt úr skoti þó þeir sætu uppi á spjaldinu og andstæðingum þeirra á ekki eftir að leiðast neitt sérstaklega í svæðinu ef þeir kveikja þá á því að spila það gegn Jazz til að eiga náðugt kvöld.


Sigurganga Clippers er orðin svo löng að það hefur unnið Jazz tvisvar á útivelli meðan á henni stendur. Liðið hefur reyndar unnið þrjá útileiki í röð gegn Jazz og það hefur ekki gerst í rúm 30 ár eða síðan Clippers spilaði í San Diego. Til gamans má geta þess að Joe "Jellybean" Bryant, pabbi hans Kobe Bryant, var í liði Clippers á þessum tíma.

Clippers er aðeins 23. liðið í sögu NBA sem nær að vinna 16 leiki í röð, svona til að gefa ykkur mynd af því hve mögnuð þessi sigurganga er nú.

Það var að sjálfssögðu Chris Paul sem lokaði leiknum þegar Clippers lenti í þessum vandræðum gegn Jazz í fyrrinótt og olli mestum skaða á vítalínunni, því hann lenti merkilegt nokk í vandræðum þegar hann vær í gæslu Gordon "Ásmundar" Hayward og skaut aðeins 1-6 gegn honum í fjórða leikhlutanum.


Það gefur ágæta mynd af því hvað Clippers er búið að vera að strauja andstæðinga sína í vetur að fyrir þennan hetjuskap Chris Paul gegn Jazz í fyrrakvöld hafði hann ekki komið við sögu í nema 21 af 29 síðustu 4. leikhlutum hjá liðinu. Í þessum tilvikum hefur hann setið rólegur á bekknum og fylgst með varamönnum klára leiki þar sem úrslitin hafa verið ráðin.

Fyrir leikinn í fyrrakvöld, hafði Clippers verið 15+ stigum yfir í 17% af spiluðum leikmínútum liðsins. Það er með hreinum ólíkindum. Þetta lið er svo sterkt að það lætur Jamal Crawford líta vel út, en það hefur verið í plús hverja einustu mínútu sem hann hefur spilað á sigurgöngunni.  Meira að segja Willie Green er að skila framlagi með 42% þriggja stiga nýtingu.

Þegar lið taka rispur eins og Clippers er eðlilegt að menn fari að spyrja sig hvort þeir eigi að taka þau alvarlega og kalla þau meistaraefni. Það er kannski dálítið snemmt að fara að pæla í því, en það má alveg skjóta í stutt krossapróf og athuga hvort Clippers hefur þessa helstu fídusa sem meistaralið þarf að hafa.

Ef lið ætla að verða meistarar þurfa þau meðal annars að spila úrvalsvörn, vera með sýstem, frákasta vel, karakter og mannskap sem kaupir konseptið, hafa neyðarkall, góðan bekk, rulluspilara og góðan þjálfara

Clippers getur krossað í alla reiti þarna nema kannski fráköstin og þjálfarann. Gárungarnir segja að styrkur Vinny Del Negro sem þjálfara sé að vera ekki að skipta sér að því hvað Chris Paul er að gera með liðið.

Það verður gríðarlega áhugavert að fylgjast með þessu Clippers-liði fram á vorið og sjá hvað í því býr. Það er ljóst að það vantar ekki mikið upp á að þessi gamli brandari NBA deildarinnar sem Clippers-liðið er, geti gert alvöru atlögu að meistaratitli.

Tuesday, November 27, 2012

0-12 í myndum



Eigum við að hafa áhyggjur af Clippers?


Nei, ekki stórar.

Þetta er niðurstaða vísindalegrar skyndikönnunar sem við gerðum í nótt eftir að Clippers drullaði enn og aftur á sig á heimavelli gegn liði sem það ætti að nota sem dyramottu.

Smelltu á myndina hér til hliðar til að sjá skeddjúlið hjá Clippers það sem af er.

Leikur Clippers og Hornets í nótt var sannarlega fjörugur og meira að segja sögulegur í leiðinni.

Caron Butler sló félagsmet Randy Foye (8) frá í fyrra með því að setja níu þrista fyrir Clippers. Það kom þó ekki í veg fyrir að New Orleans færi með nokkuð sannfærandi sigur af hólmi 105-98 í Staples Center.

Fjögur stig (1-9 í skotum) Blake Griffin hjálpuðu Clippers liðinu frekar lítið.

Þetta var fjórða tap Clippers í röð og því eru margir farnir í panikk, því það eru ekki margir dagar síðan menn voru að tala um Clippers sem alvöru áskoranda í slagnum um Vesturdeildina.

Þolinmæði og yfirvegun hefur aldrei verið sterkasta hlið þeirra sem fylgjast með NBA. Gildir þá einu hvort um er að ræða blaðamenn eða almenna aðdáendur.

Við skulum samt kíkja á töfluna hjá Clippers og kryfja þetta betur. Clippers átti, fyrir það fyrsta, að byrja leiktíðina 10-0.

Aðeins aulaleg heimatöp fyrir Golden State og Cleveland komu í veg fyrir þessa fullkomnu byrjun. Ekkert annað en vanmat og leti í gangi. Þess vegna byrjaði liðið 8-2 í stað 10-0.

Þessi fjögur töp sem hafa komið í kjölfarið eru svo ofur-skiljanleg.

Þrír fyrstu leikirnir voru á útivelli. Fyrst tapar liðið fyrir Oklahoma City í framlengdum naglbít og er því næst svo óheppið að hitta á einn af þremur leikjum Nets í vetur þar sem liðið nær að spila vörn.

Strax kvödið eftir kemur svo tap fyrir Atlanta Hawks, en slík töp er auðvelt að skrifa á þreytu.

Það er mikil og stór klisja í NBA að enginn leikur sé jafn "hættulegur" og fyrsti leikurinn á heimavelli eftir nokkurra leikja keppnisferðalag.

Þessi klisja sannaðist heldur betur í nótt þegar Clippers tók á móti New Orleans Hornets, sem var án sinna tveggja bestu manna og búið að tapa sjö leikjum í röð.

Clippers átti aldrei möguleika í leiknum, þó baráttan hafi verið til staðar, amk í síðari hálfleik. Það er bara erfitt að vinna lið sem skjóta 15 af 25 (60%) úr þristum.

Stuðningsmenn Clippers þurfa ekki að örvænta. Við kíktum á töfluna hjá liðinu út árið og getum með sanni sagt að hún er ekki ýkja ógnvekjandi. Liðið á ekki einn leik við mjög sterkt lið fram að áramótum. Boston, Denver, Dallas - þetta eru bestu liðin sem Clippers á við að eiga út árið - restin er drasl.

Lamar Odom hefur kannski algjörlega misst áhuga og ástríðu fyrir körfubolta, en Clippers á eftir að fara skælbrosandi inn í nýja árið í bullandi samkeppni um toppsætið í Vesturdeildinni.

Það yrði þó enn betra fyrir Clippers ef töpin yrðu fleiri en sigrarnir á næstu vikum, því þá myndi stjórnin kannski sjá að sér og reka þjálfarann. Del Negro er engan veginn nógu góður þjálfari til að stýra jafn góðum mannskap og Clippers hefur innan sinna raða.

Ræður ekkert við verkefnið.

Saturday, November 3, 2012

Lakers gengur illa að vinna körfuboltaleiki


Það er of snemmt að fara að hakka Lakersliðið í sig þó það hafi tapað þriðja leiknum í röð í upphafi leiktíðar, nú síðast fyrir grönnum sínum í Clippers.

Þessi 0-3 byrjun liðsins er sú versta síðan árið áður en Magic Johnson kom til sögunnar og auðvitað gretta menn sig yfir svona byrjun - þetta er Los Angeles Lakers - við erum ekki að tala um Súluna á Stöðvarfirði.

Nei, það er ekki tímabært að kalla í aftökusveitina enn sem komið er, en það er allt í lagi að gagnrýna liðið. Við eigum til að mynda aldrei eftir að skilja þessa Princeton-sóknar áráttu.

Við, sem höfum mjög takmarkað vit á körfubolta, settum strax spurningamerki við þá ákvörðun Lakers að bæta við sig sóknarþjálfara og spila með þessum hætti.

Og þá erum við ekki farin að tala um þá staðreynd að bikarhillurnar hans Eddie Jordan eru nú ekki beint fullar, þó hugmyndafræðin sé góð og gild.

Sjálfsagt hefur það sína kosti fyrir Lakers að spila þennan sóknarleik, en þó ætti liðið jafnvel að vera eitt af þeim síðustu í deildinni til að reyna hann með jafn boltafreka bakverði og raun ber vitni.

Steve Nash, sem verður frá í nokkra daga vegna meiðsla, átti erfitt með sig í nótt þegar ESPN spurði hann hvort hann væri ekki frekar til í að stýra bara sóknarleiknum sjálfur líkt og hann gerði í Phoenix. "Ertu að reyna að koma mér í vandræði?" spurði hann Chris Broussard og glotti við tönn.

Auðvitað vill Nash prófa að djassa þetta aðeins upp ef illa gengur. Ekki eins og hann hafi farið fyrir mörgum lotterýliðum á ferlinum. Hefur nánast einn síns liðs haldið sóknarleik Phoenix á floti í nokkur ár.

Eins og áður sagði verða þessar róttæku breytingar (á aðferðafræði og mannskap) Lakers auðvitað að fá tíma til að virka, en það er ekki bara sóknarleikurinn sem er að hiksta.

Varnarleikurinn hefur á tíðum verið ömurlegur líka og jafnvel fleiri eru að tuða yfir honum.

Ekki að sjá að margfaldur varnarmaður ársins standi þarna inni í miðjunni og telji mönnum hughvarf með allar ferðaáætlanir sínar í teiginn.

Annað atriði sem hátt er orðið talað um er aldurinn og ástandið á lykilleikmönnum Lakers. Þeir eru á suman hátt dálítið gamlir og seinir og andstæðingarnir eiga eftir að nýta sér það með því að keyra á þá með aukinni grimmd og hraða.

Þetta er svona það helsta sem við erum að hugsa um Lakers. Við ætlum ekkert að ýta á neina neyðarhnappa. Þessar breytingar hja Lakers virðast bara ætla að taka mun lengri tíma en okkur grunaði. Engin ástæða til að fara í panikk, en Mike Brown þarf samt að fara að vinna körfuboltaleiki fljótlega.

Annars verður ástandið bara átakanlegt og þá gæti Buss-fjölskyldan hreinlega neyðst til að gera eitthvað róttækt í málunum. Hann áttar sig alveg á því.

En sjáum nú til. Þetta hlýtur að fara að lagast hjá þeim.