Showing posts with label Sóðaskapur. Show all posts
Showing posts with label Sóðaskapur. Show all posts

Monday, January 19, 2015

Pavel fer ótroðnar tölfræðislóðir (+ myndir)


Í annað sinn í vikunni skelltum við okkur í DHL-höllina í gærkvöldi og horfðum á KR vinna körfuboltaleik. Ef skemmtilegur körfubolti, óhollt bakkelsi og ný myndavélarlinsa er ekki nóg til að draga fólk á völlinn, gerir ekkert það.

Við erum ekki frá því að sé að myndast hálfgerð hefð fyrir því að karlalið KR vinni körfuboltaleikina sem það tekur þátt í í vetur. Á fimmtudaginn sáum við KR leggja ÍR í deildakeppninni en í gærkvöldi voru það Keflvíkingar sem voru fórnarlömb Vesturbæinga. 

Sóknarleikur KR var ansi beittur og hittnin góð, svo Suðurnesjamennirnir áttu aldrei raunhæfa möguleika í þessu dæmi. Lokatölur urðu 111-90 fyrir KR og fyrir þau ykkar sem eruð ekki búin að skoða tölfræðina, getið gert það hér.

Það eina sem er fáránlegra en yfirburðir KR í deild og bikar í vetur, er gereyðingartölfræði Pavels Ermolinski. 

Eftir að hafa boðið upp á ólöglega 24/18/14/2 línu í sigrinum á ÍR á dögunum, bætti drengurinn um betur í gærkvöldi þegar hann fór inn í hálfleikinn með 8 stig, 12 fráköst og 11 stoðsendingar! 

Eins og til að stríða okkur ákvað Pavel að sýna okkur hvað honum er sama um tölfræðina sína með því að skora bara níu stig í leiknum og sleppa þannig þrennunni, en það voru auðvitað ekki stigin sem skiptu máli. Það voru frekar þessi nítján fráköst og sextán stoðsendingar sem vöktu athygli. Þetta er svo mikið kjaftæði að það væri réttast að hringja í lögregluna.

Við höfum öruggar heimildir fyrir því að svona súrrealísk tölfræði hefur aldrei sést í úrvalsdeild karla í körfubolta. Vissulega hafa menn náð þrennu og þrennu, en það er bara ekkert eðilegt að þeir séu að fara um og yfir 15 í fráköstum og stoðsendingum leik eftir leik - og hvað þá að bjóða upp á 14/12/11 meðaltal í deildakeppninni.

Við þurfum að fara alla leið aftur til Óskars Róbertssonar hjá Milwaukee Bucks til að finna dæmi um jafn suddalega tölfræði og Pavel er að bjóða upp á.  Roberson er sem kunnugt er (er það ekki?) eini leikmaðurinn í sögu NBA sem hefur verið með þrennu að meðaltali yfir heilt tímabil (10+ stig, 10+ fráköst og 10+ stoðsendingar) árið 1962. 

Magic Johnson var ekki langt frá þessu 20 árum síðar (18,6 stig, 9,6 frák og 9,5 stoð), en það að hann skuli ekki hafa náð þessu, segir okkur hvað það er nær ómögulegt. Það yrði ótrúlegt afrek ef Pavel næði að klára það að vera með þrennu að meðaltali í deildinni í vetur. 

Tölurnar sem hann er að bjóða upp á eru svona eins og þú hefðir boðið langömmu þinni að taka leik í NBA 2K15, þar sem þú hefðir valið að vera með bandaríska landsliðið með LeBron James í fararbroddi en gamla konan - elliær, heyrnarlaus og vitlaus - hefði valið Coventry City.

Já, það þarf eitthvað mikið að breytast í körfuboltalandslaginu á Íslandi ef KR á ekki að hlaupa í burtu með bikarana sem í boði eru. Og þegar og ef að því kemur, verður það Pavel Ermolinski sem sér um að passa þá.

Friday, January 16, 2015

Myndir frá KR-ÍR


KR og ÍR buðu okkur formlega gleðilegt ár með tvíframlengdri bombu í DHL-höllinni í gærkvöldi. ÍR-ingar virtust vera búnir að gleyma því að þeir gætu ekkert í körfubolta og áttu í fullu tré við meistarana. Neyðarlegar tilraunir þeirra til að verja forskotið sitt á lokamínútunum í venjulegum leiktíma mistókust algjörlega og KR nýtti sér það. Lokatölur 113-110 fyrir KR.

Það er freistandi að lýsa því yfir að ÍR hafi sýnt okkur að það sé miklu sterkara en staða þess í deildinni segir til um, en það er leikrit sem við höfum öll séð oft áður. Tölfræði-hundarnir fengu sannarlega nóg fyrir peninginn í þessum leik.

Pavel bauð upp á 24 stig, 18 fráköst og 14 stoðsendingar hjá KR - eins og það sé bara alveg eðlilegt - og Matthías Sigurðarson leikstjórnandi Breiðhyltinga hlóð í 29/12/9. Við þökkum strákunum kærlega fyrir þennan nýársglaðning þeirra í tölfræðisafnið og fögnum því að karfan sé aftur farin á fullt á nýju ári.

Það voru teknar einar sjötíu myndir af þessu eins og þið sjáið hérna fyrir neðan. Gjörið svo vel og skoðið þær eins og þið viljið, við vitum að þið farið ekkert illa með þær þó þær séu ómerktar.





Sunday, March 9, 2014

Noah gerðist


Hvað gerðist eiginlega þarna í Chicago í kvöld?
Joakim Noah gerðist.
Bara of mikið Noah - 20/12/7/5 af Noah, svona ef þú vilt hafa þetta nákvæmt. Hnnngh!




























Tuesday, December 10, 2013

Ó, þið ungu hetjur


Við kíktum til gamans á leik Philadelphia og Orlando frá því fyrir nokkrum dögum, svona út af öllu fjaðrafokinu sem var í kring um þennan leik. Þar gerðist það í fyrsta skipti að nýliðar í sitt hvoru liðinu næðu þrefaldri tvennu þegar Sixers vann 126-125 seiglusigur eftir tvíframlengdan og æsispennandi leik.

Þetta voru þeir Michael Carter-Williams hjá Philadelphia og Victor Oladipo hjá Orlando. Sérstaklega hefur Carter-Williams vakið áhuga okkar og aðdáun. Hann sló auðvitað í gegn í sínum fyrsta leik sem atvinnumaður eins og þið munið kannski.

Það er fullkomlega glórulaust að hugsa til þess hvað fær félög eins og Cleveland til þess að sleppa því að taka leikmann eins og Carter-Williams í nýliðavalinu.

Velja heldur sekk eins og aumingja Anthony Bennett, sem hefur aldrei komist í form og skýtur 22% utan af velli. Svona getur lífið verið furðulegt og ósanngjarnt.

Bennett er kandídat í að verða slakasti leikmaður sem valinn hefur verið númer eitt í sögu NBA, en við skulum vona að aumingja drengurinn nái sér á strik.

Oft hafa óveður gengið yfir Fíladelfíu þó spáin hafi verið góð. Vonandi verður breyting þar á núna. Liðið á helling inni og ætti að vera í flottum málum með Carter-Williams við stýrið í framtíðinni. Kannski var nýliðavalið árið 2013 ekki versta draft í sögu mannkynsins eftir allt saman.

Guð blessi tveggja metra leikstjórnendur.


Tuesday, March 27, 2012

Nokkrir molar um 30/20 leiki


Þið sem á annað borð lesið NBA Ísland vitið hvað ritstjórnin er gefin fyrir skemmtilega tölfræði.

Atmennið Kevin Love hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu enda er hann að bjóða upp á tölfræði sem er fyllilega á pari við það sem duglegustu menn voru að gera fyrir um 30 árum síðan.

Og það er hrós.

Tölfræði á borð við þá sem okkur þykir sjálfssögð í dag hefur ekki verið haldin almennilega síðan árið 1985. Því er ekki fyllilega marktækt að slá upp svona töflum, en það er óskaplega skemmtilegt.

Hér til hliðar er tafla yfir þá leikmenn sem oftast hafa boðið upp á 30 stig og 20 fráköst í einum og sama leiknum.

Þarna kemur bersýnilega í ljós að það sem Kevin Love er að gera um þessar mundir er hreint ótrúlegt.

Love er aðeins á sínu fjórða ári í deildinni, en hvað varðar 30/20 leiki hefur hann þegar skotið mörgum Heiðurshallarmeðlimum ref fyrir rass. Mönnum eins og David Robinson, Karl Malone og Tim Duncan, svo einhverjir séu nefndir.

Þó þetta sé vissulega skuggalegur árangur hjá Love, á hann enn óralangt í fyrirbærið Charles Barkley sem náði þessum áfanga hvorki meira né minna en 20 sinnum á ferlinum. Það er bara ein af átta þúsund ástæðum fyrir því að við og svo margir fleiri elska Charles Barkley.

Hér fyrir neðan er yfirlit yfir 30/20 leikina hans Barkley (smelltu á myndina til að stækka hana). Taktu eftir því að í þrígang er hann hársbreidd frá því að bæta við 10 stoðsendingum (9,9,8) og breyta tröllatvennunni í ofurþrennu. Í einum leiknum (16.) bætir þessi töffari svo við 7 vörðum skotum (og 7 töpuðum boltum) til gamans. Svona mannlegar grjótskriður eins og Barkley koma ekki fram nema einu sinni á öld. Þvílíkt eintak.


Það er þó hætt við því að Wilt heitinn Chamberlain myndi fussa og sveia yfir þessum tölum, því hann gjörsamlega stútaði allri þessari tölfræði og miklu meira en það.

Nægir að nefna að leiktíðina 1961-62 var Chamberlain með SJÖTÍU 30/20 leiki.  Þá þótti ekkert tiltökumál að hann tæki 40-50 skot í leik og átti meðal annars 38 frákasta leik. Það var algjör undantekning ef hann hirti undir 20 fráköst í leik það tímabil eins og reyndar mörg önnur.

Að lokum hendum við inn mynd af þremur gullfallegum körfuboltamönnum sem allir náðu á einhvern óskiljanlegan hátt að slysast í 30/20 leik á ferlinum. Getur þú sagt okkur hvað þessir heiðursmenn heita án þess að svindla? Sendu svarið á nbaisland@gmail.com ef þú ert með þetta.