Showing posts with label Skorarar. Show all posts
Showing posts with label Skorarar. Show all posts
Monday, May 8, 2017
Þess vegna elskum við Isaiah
Við værum ekki samkvæm sjálfum okkur ef við hefðum ekki skrifað nokkur orð um eina af hetjum úrslitakeppninnar til þessa, hinn smávaxna Isaiah Thomas hjá Boston Celtics.
Við minntumst aðeins á þrautagöngu hans í einvíginu við Chicago í pistlinum um Austurdeildina á dögunum, þar sem við sögðum ykkur frá því þegar Thomas lenti í þeirri hræðilegu lífsreynslu að missa unga systur sína í bílslysi daginn fyrir fyrsta leik í úrslitakeppninni.
Það kemur fyrir annað slagið að leikmaður eða leikmenn í NBA deildinni spila svo vel að þeir heilla okkur upp úr skónum og gera okkur að aðdáendum sínum. Hrifning okkar og allt að því ást á Russell Westbrook undanfarin ár er gott dæmi um þetta, þar sem leikmaður sem strangt til tekið spilar á skjön við öll þau prinsipp sem okkar uppáhalds leikmenn spila venjulega eftir.
Westbrook er bara svo skemmtilegur persónuleiki, líkamleg geimvera og fellibylur í mannsmynd, að hann neyddi okkur á sitt band. Þetta er ekki algengt, en þeir segja að ástin sé blind og þetta er gott dæmi um það.
Þessi hrifning okkar af hinum og þessum leikmönnum í deildinni getur oft haft eitthvað með persónuleika þeirra og/eða skapgerð að gera, en oftast er það nú spilamennskan sem ræður mestu um það hvort við "föllum fyrir leikmönnum" eða ekki.
En nú fyrir nokkrum dögum lentum við í nokkru sem við höfum aldrei lent í áður, þegar við féllum fyrir leikmanni, minnst út af hæfileikum hans og mestmegnis út af skapgerð hans andlegum styrk, eljusemi, dugnaði og góðum húmor ofan á allt saman.
Þetta er auðvitað Isaiah Thomas, leikmaður Boston Celtics.
Þessi hrifning okkar á Thomas er líklega búin að vera lengi að gerjast, því við munum vel eftir því þegar hann var að vinna leiki fyrir Sacramento á sínum tíma og sanna að þó hann gæti ekki spilað vörn til að bjarga lífi sínu - mestmegnis vegna smæðar sinnar - gat hann slúttað leikjum á pari við þá bestu, því það gat enginn maður stöðvað hann einn á einn og getur ekki enn.
Thomas er búinn að fara ansi langt síðan hann var að koma af bekknum hjá Sacramento Kings, sem lét hann auðvitað fara fyrir lítið úr því var hægt að nota hann eitthvað. Eftir stutt stopp í Phoenix endaði kappinn svo hjá þeim grænu á klink og er búinn að borga það ellefufalt til baka eða meira.
Eins og við minntumst eflaust á í pistlinum um Boston um daginn, er það nú ekki þannig að sé eitthvað flókið að hrífast af Isaiah Thomas bæði sem leikmanni og karakter. Og ekki varð það flóknara í vetur þegar hann var einn stigahæsti leikmaður deildarinnar og sprakk út í hverjum 4. leikhlutanum á fætur öðrum og tryggði Boston efsta sætið í austrinu.
Og svo kemur þessi martröð daginn fyrir fyrsta leik í úrslitakeppni - heimaleik við Chicago. Þið þekkið framhaldið. Thomas var grátandi á hliðarlínunni þegar skammt var til leiks, sem varð til þess að Charles Barkley lýsti því yfir að sér þætti óþægilegt að horfa upp á Thomas þjást svona þegar hann átti að vera að spila körfubolta.
Fjöldi fólks tókst ætlunarverk sitt og náði að raka upp skít þegar það ákvað að Barkley hefði verið að gagnrýna Isaiah Thomas með ummælum sínum (sem vissulega voru ekki orðuð neitt snilldarlega). Hann var auðvitað ekki að því. Honum fannst bara fokkíng óþægilegt að sjá fullorðinn mann í ekkasogum á íþróttavelli þegar hann átti að fara að spila körfuboltaleik, andskotinn hafi það!
Fólk sem hefur ekki þurft að smakka á lífinu heldur kannski að Isaiah Thomas hafi bara hrist þessi hræðilegu tíðindi af sér á tveimur dögum og einbeitt sér að fullu að körfubolta eftir það, en auðvitað er þetta langt í frá svo einfalt. Svona sársauki varir mjög lengi, kemur í bylgjum og það er engin leið að segja til um það hvenær þessi hræðilega staðreynd verður 100% raunveruleg í augum Thomas.
Vonandi hefur hann náð að gera þetta að mestu upp og kveðja systur sína í jarðarförinni og á minningarathöfninni um hana, sem haldin á hinum enda Bandaríkjanna - á að giska fimm tíma flugferð frá Boston í miðri úrslitakeppni.
En Thomas gerði annað og meira en að mæta í alla leikina, því með aðeins örfáum undantekningum, spilaði hann eins og hann var búinn að gera í allan vetur og dró Boston-liðið á herðum sér sóknarlega. Hann fór fyrir frábærri endurkomu Celtics gegn Bulls, þar sem liðið sneri við blaðinu og vann fjóra í röð eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum á heimavelli (aldrei gerst áður í 7 leikja seríu í 1. umferð).
Þegar hann var búinn að klára Chicago, flaug hann vestur til Washington-fylkis, fylgdi systur sinni til grafar, hélt ræðu, þar sem hann sagði sem var að hann hefði verið að hugsa um að gefast upp á öllu saman, en mundi svo að systir hans hefði viljað að hann héldi ótrauður áfram í stað þess að gefast upp (en ekki hvað?)
"Þegar ég fékk þessar fréttir, langaði mig satt best að segja að gefast upp og hætta ," sagði Thomas á minningarathöfninni um systur sína. "Og ég hef aldrei á ævi minni hugsað um að hætta. En svo rann það upp fyrir mér að það kæmi ekki til greina að hætta. Það væri að velja auðveldu leiðina. Ég ætla að halda áfram fyrir systur mína, af því ég veit að hún hefði viljað að ég héldi áfram..."
Svo stökk okkar maður upp í næstu vél austur aftur og skoraði 33 stig í sigri Boston á Washington í leik eitt nokkrum klukkutímum síðar.
Hann var þó ekki hættur að heilla, sá stutti, því á einhverjum tímapunkti í upphafi þessarar grófu seríu gegn Washington (þessi lið HATA hvort annað af ástríðu) varð hann fyrir því óláni að missa tönn í barningnum og þurfti oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að fara í aðgerðir til að láta lappa upp á kjaftinn á sér. Hann er sagður hafa verið meira en tíu klukkutíma í stólnum hjá tannlækninum.
Og svo skoraði hann jú 53 stig og tryggði Boston sigur í æsispennandi framlengdum leik tvö og kom sínum mönnum í algjöra lykilstöðu í einvíginu. Það gerist ekki á hverjum degi að menn skori 53 stig í úrslitakeppni í NBA deildinni - og enn sjaldnar (aldrei) að menn sem eru ekki andskoti mikið hærri en 170 sentimetrar á hæð geri það. Þennan leik, eins og sjálfssagt alla aðra sem hann á eftir að spila um ævina, tileinkaði hann systur sinni, sem hefði átt afmæli þennan dag.
Þessi 53 stig voru það næstmesta sem nokkur leikmaður hefur skorað í sögu Boston Celtics, en það sem var eftir vill enn áhrifameira var að hann skoraði 29 af þessum stigum sínum í fjórða leikhluta og framlengingu - þar sem Thomas einn skoraði fleiri stig en allt Washington-liðið.
"Óskiljanlegt," var orðið sem Brad Stevens þjálfari notaði þegar hann var beðinn að lýsa frammistöðu Isaiah Thomas í gegn um mótlætið í úrslitakeppninni.
Danny Ainge, forseti Boston Celtics, er ekki maður sem er auðvelt að hrífa, enda hefur hann séð ýmislegt á löngum ferli sem leikmaður, þjálfari og síðar yfirmaður í NBA deildinni. Ainge tjáði ESPN að Thomas væri búinn að vera góð fyrirmynd fyrir alla hjá félaginu fyrir það hvað hann hefði höndlað pressuna og mótlætið vel og þá er spilamennska hans ótalin, en Ainge tjáði sig um hana í útvarpsviðtali í Boston á dögunum.
"Maður missir bara hökuna í gólfið þegar hann byrjar," sagði Ainge. "Hann er búinn að eiga einhverja tíu leiki eins og þennan (leik 2 gegn Washington) í vetur og það er alltaf jafn ótrúlegt að horfa upp á það. Ég veit ekki hvernig hann fer að þessu. Hann er gríðarlega hæfileikaríkur og er með ótrúlegan sigurvilja. Hann er búinn að eiga einstakt tímabil í vetur og ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa þessu öðruvísi en það að það er ekki auðvelt að hrífa mig á körfuboltavelli, en hann er búinn að gera það aftur og aftur í allan vetur," sagði Ainge.
NBA deildinni er náttúrulega skítsama þó fólk sé að skrifa lofræður um Isaiah Thomas og þegar þetta er skrifað er Washington búið að jafna metin í einvíginu í 2-2 með góðum sigrum á heimavelli sínum, en það breytir engu í þessu samhengi. Það sem við erum að reyna að segja er að það getur vel verið að þú sért ekki með hjarta ef þú ert ekki dálítið hrifin(n) af Isaiah Thomas og því sem hann er búinn að afreka í vetur.
Það er ekki nema handfylli af gaurum af þessu stærðarkalíberi sem hefur á annað borð náð að festa sig í sessi sem NBA leikmenn á síðustu þrjátíu árum, en enginn þeirra kemst með tærnar þar sem Thomas hefur hælana sem leikmaður.
Með öðrum orðum, hann er allt of góður til að við séum eitthvað að hjala um það að hann sé "góður á miðað við hvað hann er mikill tittur" eða eitthvað þannig.
Isaiah Thomas er einfaldlega einn skæðasti sóknarmaður NBA deildarinnar í dag, jafnvel þó hann sé örugglega oft eini maðurinn sem trúir því í alvörunni.
Neikvæðir leiðindapésar munu halda áfram að benda á það að Isaiah Thomas muni alltaf gefa megnið af því sem hann gefur Boston-liðinu í sókninni til baka um leið og hann fer yfir á hinn enda vallarins.
Því miður er það á vissan hátt satt og það verður alltaf erfiðara og erfiðara fyrir Boston að "fela" Thomas í vörninni með því að láta hann dekka leikmann eða menn sem engin ógn er af sóknarlega. Það er erfitt á móti Washington og gæti verið ómögulegt í seríu gegn liðum eins og Cleveland og Golden State.
En Isaiah Thomas er búinn að hlusta á svona tuð síðan hann var krakki - að hann geti ekki þetta og geti ekki hitt - en hann er nú samt Stjörnuleikmaður sem var að skora næstum því 30 stig að meðaltali í leik hjá einu frægasta körfuboltafélaagi heims í sterkustu körfuboltadeild heims. Það er kannski táfýla af hárinu áhonum, en hann er nú samt fyrsti kostur hjá liðinu sem vann Austurdeildina í vetur og er búinn að vinna helvítis helling af leikjum fyrir liðið sitt í vetur.
Og hann er búinn að sýna okkur hvað hann er magnaður karakter með spilamennsku sinni og framkomu undanfarnar vikur. Við vitum ekki með ykkur, en við erum öll grjóthörð í #TeamIsaiah hérna á ritstjórninni. Annað væri bara... kaldlyndi og leiðindi í hugum okkar.
Isaiah Thomas er fulltrúi okkar venjulega fólksins í NBA deildinni. Hann er búinn að sanna það að ef maður er nógu harður, duglegur og ákveðinn, er hægt að afreka allan andskotann í þessu lífi.
Drengurinn er 175 sentimetrar á hæð en er samt einn besti sóknarmaðurinn í deild þar sem það er að verða algengara en hitt að leikstjórnendur, sem í gegn um tíðina hafa venjulega verið minnstu mennirnir á vellinum, séu orðnir um og yfir tveir metrar á hæð.
Og þá eru ótaldir allir risarnir sem bíða átekta í teignum og nýta hvert tækifæri sem þeir fá til að berja menn eins og Thomas í gólfið ef þeir ráðast á körfuna. Þetta er ekki auðvelt djobb, en Isaiah Thomas lætur sig hafa það á hverjum degi, oftast með bros á vör. Svona næstum eins og hann sé búinn að fatta það að hann sé raunverulega fulltrúi okkar allra þarna úti.
Efnisflokkar:
Á ögurstundu
,
Celtics
,
Danny Ainge
,
Isaiah Thomas
,
Margur er knár
,
Skorarar
,
Úrslitakeppni 2017
Friday, January 29, 2016
Er þetta Green?
Nú er búið að tilkynna hvaða leikmenn skipa Austur- og Vesturdeildarúrvalið í Stjörnuleiknum í NBA sem fram fer í Toronto eftir tvær vikur. Það er bolurinn sem fær að kjósa byrjunarliðin en það eru (allir) þjálfararnir í deildinni sem ákveða hvaða leikmenn skipa varamannabekkinn.
Án þess að við höfum rannsakað það vísindalega, sýnist okkur ekki mikið um stórskandala þegar kemur að vali þjálfaranna þetta árið. Í fljótu bragði ætti Damian Lillard auðvitað að vera í liðinu á kostnað Kobe Bryant, en svo hefur það örugglega verið höfuðverkur fyrir þjálfarana að skilja goðsagnir eins og Tim Duncan og Dirk Nowitzki eftir heima.
Nowitzki hefði örugglega verið til í að taka einn Stjörnuleik í viðbót, en eitthvað segir okkur að Tim Duncan langi heldur að slaka á með fjölskyldunni heldur en að fara í þriggja sólarhringa fjölmiðlamaraþonið sem helgin er.
Þegar valið í Stjörnuleikinn ber á góma verður okkur oft hugsað til þess hvað gerðist við þetta sama tækifæri árið 1990, en það er í fyrsta skipti sem við munum eftir því að valið í Stjörnuleikinn hafi farið í taugarnar á okkur. Og það hefur gert það ansi oft síðan.
Það sem fór svona heiftarlega í taugarnar á okkur fyrir aldarfjórðungi var líka vinsældakosning áhangenda - og það sem meira er - var það líka út af Lakers-manni sem hafði ekkert í Stjörnuleikinn að gera.
Í dag er það Kobe Bryant en árið 1990 var það A.C. Green sem fór öfugt ofan í okkur.
A.C. Green var ágætis körfuboltamaður og gengdi auðvitað lykilhlutverki hjá sigursælu liði Los Angeles Lakers á níunda áratugnum.
En að hann - maður sem skoraði innan við tíu stig að meðaltali í leik á umræddri leiktíð - væri kosinn í byrjunarliðið í Stjörnuleiknum í staðinn fyrir Karl Malone?
Það var bara mesti skandall í heimi!
En svona var þetta og svona er þetta enn þann dag í dag og ekkert við því að gera. Þetta var samt dálítið gróft dæmi þarna 1990 og það voru fleiri gramir yfir þessu en við. Karl Malone varð brjálaður þegar hann frétti að 13 stiga hreinn sveinn með krullur hefði verið kosinn inn í byrjunarliðið á sinn kostnað.
Malone var afar óhress með þetta og ákvað að taka gremju sína út á næsta andstæðingi Utah Jazz á körfuboltavellinum, Milwaukee Bucks. Það gerði hann svo um munaði, því hann skoraði 61 stig í leiknum, hirti 18 fráköst og hitti úr 21 af 26 skotum utan af velli (19 af 23 á línunni) á aðeins 33 mínútum í 144-96 sigri Utah.* Svona á að gefa út yfirlýsingar.

"Ég get annað hvort farið heim til Louisiana að veiða eða farið til Miami. Akkúrat núna er ansi freistandi að fara að veiða," ansaði Malone þegar hann var spurður út í tilfinningar sínar að vera ekki valinn í byrjunarliðið. Þetta kom við egóið á honum, sem var risavaxið (hann talaði alltaf um sig í 3. persónu) en viðkvæmara en lappirnar á Greg Oden.

Ekki var hann verri í leikjunum fjórum gegn Lakers þennan vetur, þar sem hann skoraði 34 stig að meðaltali, hirti 9 fráköst og skaut 61%.
Einhver gæti ef til vill giskað á að ástæðan fyrir Stjörnuleiksdissinu á Malone hefði verið staða liðs hans í töflunni, því leikmenn í lélegum liðum fá jú færri atkvæði.
En því var ekki að skipta þarna. Utah var alveg á hælunum á LA Lakers þegar þarna kom við sögu. Jazzararnir voru með 29 sigra og 11 töp, meðan Lakers var með 31 sigur og 9 töp.
Það var misjafnt hvort Malone var valinn á bekk eða í byrjunarlið í Stjörnuleikjunum sem fylgdu á eftir þeim dramatíska árið 1990, en hann mætti í þá á hverju ári þangað til árið 2002 þegar hann var valinn í síðasta skipti en sat vegna meiðsla.
Við þökkum Morgunblaðinu fyrir að leyfa okkur að birta blaðagreinina um reiðikastið hans Karl Malone hérna á vefsvæðinu, en hún er að sjálfssögðu skrifuð af Gunnari Valgeirssyni í Bandaríkjunum. Gunnar gerði vel í að fjalla um deildina fögru hér áður, þegar lítið sem ekkert var að finna um NBA boltann annað en tveggja daga gömul úrslit í Mogganum.
------------------------------------------------------------------------------------------------------------
* - Þú hlýtur að vera að pæla í því hvað John Stockton gaf margar stoðsendingar í risaleiknum hans Malone, þar sem Utah setti 144 stig á töfluna. Þær voru reyndar ekki nema 16 í þetta skiptið, sem er ekki hægt að kalla annað en vonbrigði hjá manni sem var jú einu sinni með næstum því fimmtán stoðsendingar að meðaltali í leik. Dálítið undarlegt.
Efnisflokkar:
AC Gren
,
Fret úr fortíðinni
,
Jazz
,
Karl Malone
,
Netbrennur
,
Skorarar
,
Stjörnuleikir
Thursday, November 5, 2015
Goðsögn í vanda
Lesendur NBA Ísland í gegn um árin vita að ritstjórnin á í nokkuð flóknu sambandi við skotbakvörðinn og goðsögnina Kobe Bryant hjá Los Angeles Lakers. Við berum virðingu fyrir Kobe út af því sem hann hefur afrekað á löngum og glæstum ferli sínum, en síðari ár höfum við átt það til að stríða honum dálítið vegna hugarfars hans og leikstíls.
Það var allt í lagi að gera stundum grín að Kobe Bryant, því hann hefur alltaf staðið undir því og meira til. Hann var kannski á of háum launum og skaut kannski aðeins of mikið en það var allt í lagi, því Lakersliðið undanfarin ár er svo lélegt að það skiptir engu máli hvort Kobe tekur 3 eða 30 skot. Því ekki að halda bara áfram að bomba og reyna að slá met áður en skórnir fara á hilluna?

Það var byrjað að bera á því áður en öll þessi meiðsli komu til. Kobe var byrjaður að dala verulega sem leikmaður, því skrokkurinn á honum var hættur að gera það sem honum var sagt.
Þetta kemur fyrir okkur öll á endanum og flest okkar sætta sig við það og aka eftir aðstæðum.
Ekki Kobe Bryant - varla hefur þú reiknað með því.
Þetta kemur fyrir okkur öll á endanum og flest okkar sætta sig við það og aka eftir aðstæðum.
Ekki Kobe Bryant - varla hefur þú reiknað með því.
Við munum eftir viðtali sem Amad Rashad tók við Bryant fyrir nokkru þar sem hann sýndi áður óþekkta auðmýkt og viðurkenndi að meiðslavesenið hefði fengið á hann.
Var þetta ávísun á að þessi samviskulausi skorari væri farinn að þroskast og ætlaði að taka hugarfar sitt og leikstíl til endurskoðunar?
Ekki svo mikið.
Var þetta ávísun á að þessi samviskulausi skorari væri farinn að þroskast og ætlaði að taka hugarfar sitt og leikstíl til endurskoðunar?
Ekki svo mikið.
Varast ber að stökkva á of miklar alhæfingar á 82 leikja keppnistímabili þegar búið að spila 5% af því, en nú er ljóst að allir eru farnir að hafa áhyggjur af Kobe Bryant. Bæði við og þið - og meira að segja hann sjálfur. Bryant kallaði sjálfan sig 200. besta leikmann deildarinnar í viðtali á dögunum, þar sem hann fór ófögrum orðum um sjálfan sig - sagðist frekast sjúga.
Það bætir svo ekki úr skák að Lakers skuli vera með eitt lélegasta lið í sögu félagsins um þessar mundir. Það er án sigurs í fjórum leikjum og er með lélegustu vörnina í NBA (fær á sig 113 stig á hverjar 100 sóknir andstæðinga sinna) og það ekki í fyrsta skipti. Og varnarleikurinn er meira að segja áberandi verri þegar Kobe Bryant er inni á vellinum (nærri 117 stig per 100 sóknir), sem er ákveðið afrek.
Við máttum bara til með að skrifa nokkur orð um þetta sérstaka vandamál sem komið er upp í gula hluta Los Angeles í dag, af því við höfum aldrei séð neitt þessu líkt áður. Ein af goðsögnum leiksins - einn besti skotbakvörður í sögu körfuboltans - stendur skyndilega frammi fyrir þeirri staðreynd að hann er ekki skugginn af sjálfum sér. Sjáðu t.d. þessa átakanlegu loftbolta:
Svartsýnustu menn spáðu því að öll þessi meiðsli gætu átt eftir að gera út af við Kobe og raunar þurfti enga svartsýni til. Skrokkur á þessum aldri með allt þetta slit, hefur einfaldlega ekki efni á að meiðast jafn illa og raun bar vitni hjá Kobe Bryant og höggið núna er enn þyngra af því hann er búinn að vera svo lengi frá. Svo poppar hann allt í einu inn í liðið á ný og í ljós kemur að það er allt í einum rjúkandi mínus.
En þarna er ekki öll sagan sögð. Þetta væri kannski ekki svo grábölvað ef Kobe Bryant hefði andlega burði til að takast á við allt mótlætið og setti alla sína orku og einbeitingu í aðlögunarferlið.
Málið er bara að það er ekki stíllinn hans Kobe Bryant. Kobe hefur aldrei farið eftir annari pólitík en sinni eigin - aldrei dansað eftir lögum annara. Hann er búinn að vera maðurinn í fimmtán ár og er búinn að gleyma því hvernig rulluspilarar hjálpa liðum sínum að vinna. Það eina sem kemst að hjá Kobe er að drepa, klára leiki, hleypa alfa-menninu lausu - Svörtu Mömbunni.
Gallinn er bara að lemstraðir fertugir karlar eru engar andskotans Mömbur, sama hve heitt þeir þrá það. Banvæn Svarta Mamban er horfin og í staðinn er kominn drukkinn órangútan með vélbyssu, sem er alveg jafn líklegur til að skjóta sjálfan sig í tætlur og einhvern annan.
Efnisflokkar:
99 vandamál
,
Drullan upp á herðar
,
Elli Kelling
,
Faðir Tími
,
Goðsagnir
,
Kobe Bryant
,
Lakers
,
Rauntal
,
Skorarar
,
Skotgleði
,
Skotkort
,
Þett´ er búið!
Thursday, December 18, 2014
Hvaða þýðingu hefur nýjasti áfangi Kobe Bryant?
Þegar við vorum búin að byrja sautján sinnum upp á nýtt og henda um það bil 2000 orðum af einhverju rugli sem átti að heita pistill, rann það upp fyrir okkur að það skiptir nákvæmlega engu máli að Kobe Bryant sé búinn að skora fleiri stig en Michael Jordan í NBA deildinni.
Við héldum að þetta skipti máli og gerðum okkar besta til að skrifa þetta, en reyndir pennar finna það strax ef efniviðurinn er drasl. Þá er hann til dæmis enn meira drasl en það sem þó ratar inn á þessa síðu. Og það er sannarlega drasl.

Það ber fyrst og fremst vott um fjóra hluti: heppni með meiðsli (lengst af), járnvilja, samviskuleysi og óhemju hæfileika.
Við höfum ekki hitt neinn sem heldur að þessi áfangi hjá Bryant þýði að nú geti hann talist betri leikmaður en Jordan.
Við hvetjum fólk til að fara nú ekki að hugsa þannig, það væru svokallaðar ranghugmyndir. Kobe verður aldrei betri en Jordan, en hann er samt einn allra besti körfuboltamaður sögunnar.
Efnisflokkar:
Áfangar
,
Goðsagnir
,
Kobe Bryant
,
Lakers
,
Michael Jordan
,
Skorarar
,
Svarta Mamban
,
Töflur og gröf
,
Tölfræði
Thursday, November 13, 2014
Sunday, March 30, 2014
Æ, vertu úti
Efnisflokkar:
Allt er vænt sem vel er grænt
,
Kevin Durant
,
MVP
,
Ógnarstyrkur
,
Rólegur
,
Skorarar
,
Tölfræði
,
Þetta er ungt og leikur sér
Tuesday, February 4, 2014
Megamánuður Kevins Durants
Hérna er smá upprifjun á ruglinu sem Kevin Durant var að bjóða upp á í síðasta mánuði. Hann var með 36 stig, 6 fráköst, 6 stoðsendingar og 55% skotnýtingu! Þetta er algjör þvættingur!
Efnisflokkar:
Kevin Durant
,
Netbrennur
,
Ógnarstyrkur
,
Rólegur
,
Skorarar
,
Thunder
Sunday, January 26, 2014
Sjóðbullandi
Carmelo Anthony skoraði 62 stig í sigri New York á Charlotte á föstudagskvöldið og fyrir vikið eru menn farnir að tala um að hann sé að hitna. Svo hirti hann meira að segja 20 fráköst í leik um daginn.
En Kevin Durant er líka sæmilega heitur um þessar mundir. Svo heitur að við ákváðum að bera þá félaga saman - athuga hvað þeir eru búnir að vera að gera í síðustu fimm leikjum. Þessi athugun segir ekkert stórmerkilegt, við ætlum ekki að halda því fram. Það er bara skondið að skoða tölur. Alltaf.
Efnisflokkar:
Carmelo Anthony
,
Kevin Durant
,
Netbrennur
,
Rólegir
,
Skorarar
Tuesday, December 10, 2013
Mark Aguirre á afmæli í dag
Skorarinn skemmtilegi Mark Aguirre á afmæli í dag. Framherjinn lék 13 ár í deildinni og átti sín bestu ár með Dallas, en fleiri muna kannski eftir honum með meistaraliðum Detroit Pistons árin 1989 og 1990.
Aguirre var sem áður segir frábær skorari og margir vilja meina að það sé skandall að hann sé ekki búinn að fá sæti í Heiðurshöllinni. Hann hefur reyndar ekki einu sinni fengið treyjuna sína hengda upp í Dallas, þar sem hann skoraði að jafnaði um 25 stig í leik á rúmum sjö árum.
Fyrir tuttugu árum síðan var Aguirre að skora 29,5 stig að meðaltali í leik og aðeins Adrian Dantley hjá Utah var með hærra meðaltal (30,5).
Það er nokkuð skondið að skoða listann yfir stigahæstu leikmenn deildarinnar þarna fyrir 20 árum. Þar eru tæknilega níu af tíu stigahæstu mönnum deildarinnar minni framherjar (Ísmaðurinn spilaði bæði bakvörð og framherja).
Terry Cummings spilaði stöðu kraftframherja, en það er merkilegt að sjá ekki einn einasta bakvörð þarna á listanum.
Sagan segir að það hafi verið Aguirre sem lagði grunninn að kaupum Mark Cuban á Dallas Mavericks um aldamótin með því að koma á fundi með honum og Ross Perot, þáverandi eiganda félagsins.
Hérna fyrir neðan má sjá Aguirre sækja að Charles Barkley í Stjörnuleiknum árið 1988. Þetta var þriðji og síðasti Stjörnuleikur hans á ferlinum (´84, ´87).
Til hamingju með daginn, Mark.
Efnisflokkar:
Afmæli
,
Fret úr fortíðinni
,
Mark Aguirre
,
Mavericks
,
NBA 101
,
Pistons
,
Skorarar
Subscribe to:
Posts (Atom)