Showing posts with label Aftanmóðumas og steinsmugustiklur. Show all posts
Showing posts with label Aftanmóðumas og steinsmugustiklur. Show all posts

Friday, January 9, 2015

Blaðamaður losnar undan oki Knicks


Blaðamennirnir á New York Times er búnir að hafa nóg að gera við að fylgjast með liði Knicks í NBA deildinni undanfarnar vikur. Ætli þeir séu ekki búnir að tæma orðakvótann þegar kemur að því að lýsa vanhæfni liðsins, sem hefur nú tapað 24 af síðustu 25 leikjum sínum í deildinni og hefur aldrei í sögunni byrjað eins illa.

Líklega hefur ákvörðunin verið tekin með tungu í kinn, eins og Bandaríkjamenn orða það, en yfirmenn íþróttadeildarinnar á Times hafa gefið það út að þeir ætli að leyfa blaðamanninum sem starfað hefur í kring um Knicks að einbeita sér að öðrum verkefnum framvegis. Þeir hafa samúð með manni, sem hlýtur að vera orðinn rosalega leiður á lífinu eftir að vera búinn að elta aulana í Knicks í tapleiki út um allt land.

Það er augljóst hvað vakir fyrir Times-mönnum með þessu útpili. Þeir eru einfaldlega að sýna það í verki hvað þeim er orðið óglatt af að horfa upp á Knicks gera sig að fífli kvöld eftir kvöld. Við erum nú þegar búin að skrifa allt of mikið um þetta lið eins og þið vitið, en við máttum til með að deila þessum greinarstúf með þeim ykkar sem kunna að hafa misst af honum.

Það verður aldrei þreytt að fylgjast með körfuboltafélaginu New York Knicks tortíma sjálfu sér.


Friday, December 12, 2014

Vörutalning - Austurdeild


Nú eru flest liðin í NBA deildinni búin að spila tuttugu leiki og þá fer að verða hægt að rýna vitrænt í það hvað er að gerast í deildinni. Stutta útgáfan er að Vesturdeildin er svo sterk að annað eins hefur varla sést, en það þýðir vitanlega að Austurdeildin er mögulega að verða lélegri en áður, sem er afrek svo ekki sé meira sagt. En eins og allir sem lesið hafa NBA Ísland í fimm ár vita, er ekkert til á þessu vefsvæði sem heitir stutta útgáfan. Þannig að...

AUSTURDEILD

Auðvitað er Toronto í efsta sæti Austurdeildarinnar...

Toronto er í alvöru í efsta sæti Austurdeildarinnar þegar þetta er skrifað. Það er ekkert stungið af, en það er samt í efsta sæti. Toronto er veiðihári á undan Atlanta í efsta sætinu, manstu ekki, Atlanta sem byrjaði leiktíðina 1-3...

Ekki misskilja okkur. Toronto (16-6), Atlanta (15-6) og Washington (15-6) eru fín körfuboltalið, en þú veist að deildin þín er ekkert rosalega sterk ef þessi þrjú lið toppa hana.

Þessi lið eru öll með betra en 70% vinningshlutfall og það er fínt, en kommon. Það er ekkert heimsmet að vinna sjö af tíu leikjum í þessari Austurdeild, þar sem þú ert að spila við lið eins og New York, Detroit og Philadelphia kvöld eftir kvöld.

Það hefur hinsvegar margoft komið fram á þessu vefsvæði að það er ekki liðum eins og Toronto, Atlanta og Washington að kenna að hin liðin í deildinni þeirra (Austurdeildinni) séu rusl. Ókei, þá vitum við það.

Sunday, August 3, 2014

Það er ekki alveg sama hvar þú spilar körfubolta


Stóri-Al Jefferson hjá Charlotte Hornets er prúður og vel upp alinn piltur frá Mississippi, nánar tiltekið frá Monticello, en það er bær á stærð við Sandgerði í suðurhluta ríkisins.

Því má kannski segja að hann hefði alist upp í Mjóafirði í Suður-Múlasýslu ef hann hefði fæðst á Íslandi. Þó má reyndar teljast ólíklegt að hann hefði farið út í körfuboltann ef hann hefði alist upp hjá Fúsa á Brekku, þrátt fyrir að vera vel á þriðja metrann á hæð.

Atlanta-framherjinn Paul Millsap er frá talsvert stærri borg sem heitir Monroe í norðurhluta nágrannaríkisins Louisiana. Hann er kannski ekki alveg sami sveitamaðurinn og Jefferson, en báðir eru þeir rólegir og geðþekkir piltar sem eiga það jú sameiginlegt að vera frambærilegir körfuboltamenn. Vissulega eiga þeir það líka sameiginlegt að hafa verið samherjar hjá Utah Jazz á árunum 2010 til 2013.

Thursday, May 15, 2014

Indiana heldur áfram að spila lélegan körfubolta


Það er ekki þannig að okkur langi beinlínis að skrifa eitthvað um Indiana Pacers, en við getum bara ekki hamið okkur eftir fimmta leik liðsins gegn Washington í fyrrakvöld. Leikmenn Indiana höfðu á einhvern óskiljanlegan hátt náð að snúa einvíginu sér í hag eftir að hafa drullað á sig heima í fyrsta leiknum. Þeir náðu að vinna næstu þrjá leiki og setja einvígið í "þett´er búið"-status.

En bíddu við...  ekki alveg.

Eins og þið vitið örugglega flest, skeit Indiana svo hrottalega á sig í fyrrakvöld að menn þurfa að leita djúpt í annála til að finna annað eins hrun hjá einu liði - sérstaklega þegar kemur að fráköstunum. Washington - liðið á útivelli - vann frákastabaráttuna 62-23! Þetta er einhver mesti munur sem sést hefur síðan mælingar á þvíumlíku hófust.

Við skulum ekki taka neitt af Washington-mönnum, þeir stóðu sig ljómandi vel undir forystu pólska Hamarsins Marcin Gortat (31/16) og hafa ótrúlegt en satt unnið fimm af sex útileikjum sínum í úrslitakeppninni en eru aðeins 1-3 á heimavelli.

Wiz hafði fyrir einvígið tapað tólf leikjum í röð í Indiana, en líður núna ljómandi vel þar. Ef svo fer sem horfir, gæti það meira að segja fengið að kíkja þangað í oddaleik um helgina.

Jón og séra Jón, Pétur og Páll, skrattinn og amma hans eru öll búin að skrifa um vandræðaganginn á Indiana í vor, en fæstir færa almennileg rök fyrir því hvernig stendur á þessu hruni.

Sumir segja að það sé af því Paul George tók þá kjarneðlisfræðilegu ákvörðun að senda myndir af æxlunarfærunum á sér á internetið, sumir segja að þetta snerti móral í kring um framhjáhald, sumir segja að þetta sé út af eigingirni og frekju með skot og spilatíma, sumir segja að þetta sé út af Andrew Bynum og/eða Gunnari Birgissyni (Evan Turner) og enn aðrir af því þeir eru orðnir svo þreyttir á þvi að fólk haldi að Michael Rapaport sé hæfur leikari.*

Við nennum sko ekki að velta okkur upp úr því hvur fjandinn er að valda vandræðum Indiana, en ljóst er að það er eitthvað meiriháttar að og það verður ekki lagað í miðri úrslitakeppni - okkur er alveg sama hvað hver segir.

Andinn, baráttan, einingin og varnarleikurinn sem einkenndu þetta lið eru allt nema fokin út í veður og vind og eftir stendur risastór og mengaður drullupollur.

Það er ómögulegt að segja hvað gerist í 1-2 síðustu leikjunum í einvígi Indiana og Washington, en okkur er til efs að liðið sem stendur í lappirnar eftir það slöggfest eigi eftir að hanga lengi í Miami - jafnvel þó Miami sé sjálft í basli og langt frá sínu besta þessa dagana.

Þessi historíska skita hjá Indiana fékk okkur til að spóla til baka og reyna að muna eftir fleiri liðum sem voru með allt niður um sig.

Okkur dettur einna helst í hug meistaralið Miami frá árinu 2006-07, sem árið eftir að vinna titilinn skeit gjörsamlega upp á bak og lét Chicago Bulls sópa sér úr keppni í fyrstu umferðinni.

Það var skammarleg frammistaða hún hefur sennilega verið verri en niðurgangurinn sem Brooklyn bauð upp á í úrslitakeppninni í fyrra.

En þessi frammistaða Indiana núna, er alveg sér á parti. Við höfum aldrei séð annað eins og vonum að við eigum ekki eftir að sjá það aftur. Og því miður fyrir aumingja Larry Bird, þarf hann líklega að gera fullt af breytingum á liðinu sínu í sumar. Liðinu sem hann hélt að væri að smella svona skemmtilega saman hjá honum. Aumingja Larry.

Saturday, March 22, 2014

Viðbjóðnum er hampað


Vitið þið hvað er það skelfilegasta við lélegu afsökunina af körfuboltaliði sem er Philadelphia 76ers? Það er ekki sú staðreynd að liðið sé búið að losa sig við alla leikmenn sína, suma ódýrt, og bjóði stuðningsmönnum sínum upp á D-deildarleiki á verði NBA leikja.

Heldur ekki sú staðreynd að liðið er búið að tapa 23 leikjum í röð og hefur alla (leir)burði til að slá NBA met Cleveland (26) yfir flest töp í röð. Og heldur ekki að þrátt fyrir allt þetta, sé Philadelphia EKKI í neðsta sæti í deildinni!

Sá heiður fellur í skaut Milwaukee Bucks - liðs sem myndi ekki verða sér meira til skammar þó það skráði sig til leiks í Peffsídeildinni í sumar.

Nei, það versta við þetta allt saman, er að það gerðist ekki fyrr en í þessari viku að Sixers yrði stærðfræðilega úr leik með að vinna sér sæti í úrslitakeppninni. ÞAÐ er grátlegt.

Með öðrum orðum, er Austurdeildin svo viðbjóðslega léleg, að tvö lið sem mögulega gætu talist tvö af lélegustu NBA liðum allra tíma, eru ekki úr leik með sæti í úrslitakeppninni fyrr en fjórar vikur eru eftir af deildakeppninni.

ÞAÐ er viðbjóðurinn í þessu öllu saman.

Eðlilega hefur það verið rætt mikið í vetur hvort breyta eigi fyrirkomulaginu í deildakeppninni til að reyna að koma í veg fyrir svona bull eins og lélegustu liðin í NBA eru að bjóða upp á í vetur. Því miður en nákvæmlega enginn metnaður fyrir því að breyta þessu.

Við vitum ekki með ykkur, en við sjáum stóran mun á því að stokka upp og byrja upp á nýtt, eða eyða 82 leikjum í að skíta á gólfið og rukka stórfé fyrir það. Margir halda að það að "tanka" þýði að liðin reyni að tapa. Það er ekki rétt. Öll NBA lið reyna að vinna þegar flautað er til leiks.

Nei, það er skrifstofufólkið sem sér um að tanka, með því að rútta saman og tefla fram liði sem kann ekki körfubolta.

Þá erum við ekki að meina sökum vanhæfni, eins og hjá New York, heldur hreint og klárt plan sem gengur hreint og beint út á að reka alla NBA leikmenn í burtu frá félaginu og fá D-deildarmenn inn í staðinn. Menn sem kunna ekki körfubolta.

Þetta er t.d. Philadelphia að gera núna.

Menn þurfa að verða (mjög) lélegir áður en þeir geta orðið góðir, segir klisjan í NBA deildinni. Því miður er mikið til í því.

Meira að segja besta lið síðustu tveggja áratuga í deildinni lagði grunninn að því með því að tanka - og það hressilega. Já, það var San Antonio Spurs, sem tankaði til að fá Tim Duncan. Ekki hægt að bera mikið á móti þessari aðferðafræði ef hún virkar svona vel, ha?

Okkur er alveg sama. Eins og við sögðum áðan, það er eitt að stokka upp og byrja upp á nýtt með því að henda ungum strákum út í djúpu laugina eins og Seattle/Oklahoma gerði á sínum tíma, annað að bjóða upp á horrorsjóv eins og Sixers er að gera.

En merkilegt nokk, er fólk samt enn að kaupa miða og mæta á leiki hjá Sixers. Mætingin er langt frá því að vera góð, en svo virðist sem fólk láti sig hafa það að mæta, kannski til þess eins og sjá Michael Carter-Williams sýna listir sínar. Fólkið huggar sig við að bráðum komi betri tíð með endalaus lotterípikk í haga og ef það er svona andskoti vitlaust að borga sig inn á svona, hlæja eigendurnir auðvitað alla leið í bankann.

Eitthvað segir okkur samt að karmað gæti átt eftir að blanda sér í málin hjá Sixers í framtíðinni.

Körfuboltaguðirnir eru ekki hrifnir af svona stöffi - það þarf enginn að segja okkur það. Segðu hvað sem þú vilt um þessi mál, okkur þykir svona frammistaða bera vott um metnaðar- og karaktersleysi, en umfram allt eru það reglurnar sem eru út í hött. Þessar reglur eru svartur blettur á langbestu deild í heimi, en því miður sjáum við bara ekkert í spilunum sem gefur til kynna að þetta verði lagað.

Þessum leppalúðum virðist finnast þetta rosalega gaman. Verði þeim að góðu.


Thursday, November 21, 2013

Rotið Epli


Hér sjáum við morðvopnið á bak við enn eitt tapið hjá New York Knicks á heimavelli. Liðið var með leikinn við Indiana gjörsamlega í höndum sér þegar Iman Shumpert ákvað að brjóta á Paul George í þriggja stiga skoti og gefa honum tækifæri til að jafna og senda leikinn í framlengingu.

Auðvitað vann Indiana aukaleikhlutann og svínað Knicks í 3-8, þar af 1-6 á heimavelli. Þetta lítur ekkert rosalega vel út hjá liðunum tveimur í Stóra Eplinu þessa dagana.

Vissulega setja meiðsli strik í reikninginn bæði hjá Knicks og Nets (líka 3-8), en það verður bara að setjast eins og er að grannarnir eru báðir gjörsamlega að drulla á sig. Aðeins Milwaukee (2-8) hefur gert betur í buxurnar í Austurdeildinni það sem af er leiktíðinni.

Við vitum að skammtastærðin er enn lítil, en ef úrslitakeppnin hæfist í dag, myndu tvö lið með innan við 40% vinninshlutfall fara í hana í Austurdeildinni. Þar af lið með 36% vinningshlutfall (Detroit). Alltaf sömu risarnir þarna austanmegin.

Saturday, January 12, 2013

Lakersvaktin og nokkur orð um NBA Countdown


Ekki verður það auðveldara, verkefnið hjá Los Angeles Lakers (15 sigrar -21 töp).

Liðið átti aldrei, aldrei, aldrei möguleika á heimavelli sínum í nótt þegar það steinlá fyrir Kevin Durant (42 stig) og félögum í Oklahoma.

Lakers hefur nú tapað fimm leikjum í röð sem er lengsta taphrina liðsins síðan það tapaði sjö í röð vorið 2007.

Við höfum ekki áhyggjur af því að taphrinan verði sú lengsta í sögunni hjá Lakers, það er alltaf stutt í næsta leik við Bobcats, en þegar við skoðum framhaldið hjá liðinu kemur í ljós að það eru líka erfiðir leikir á dagskránni.

Þannig eru tíu af næstu sextán leikjum Lakers útileikir (sjá mynd hér að neðan). Liðinu hefur ekki vegnað glæsilega á útivöllum (5-12), en heimavöllurinn er svo sem ekki glæsilegur heldur (10-9).

Síðast þegar Lakers spilaði 82 leikja tímabil, tapaði liðið ellefu leikjum heima allt tímabilið, en það þótt nú reyndar frekar slakur árangur fyrir lið eins og Lakers.

Sem dæmi um andstæðinga sem bíða með blóðbragð í munninum eftir Lakers á næstu dögum má nefna Miami (heima og úti), Chicago (úti), Memphis (úti), Oklahoma, Brooklyn (úti) og Boston (úti). Þetta verður ekkert skemmtiskokk og enn síður með lykilmenn á meiðslalistanum.

"Ég er hræddur um að þetta sé búið spil hjá Lakers-liðinu mínu," sagði Magic Johnson, annar ofur-hómerinn (hinn er Bill Simmons) í annars ágætum þætti ESPN sjónvarpsstöðvarinnar NBA Countdown í nótt.*

Það er lítið að marka bullið sem kemur upp úr Magic í sjónvarpinu, því miður, en við hugsum að þetta hafi hann sagt í algjörri einlægni. Ekki bara til að reyna að kveikja í liðinu sínu - hann er löngu búinn að reyna það - hann bara sér ekkert í spilunum hjá þeim gulu.

Ekki við heldur.

Það er ekkert að frétta af þessu liði nema fleiri meiðslasögur. Nú þykir ljóst að Jordan Hill þurfi í uppskurð og komi ekki meira við sögu hjá Lakers á leiktíðinni.

Einmitt það sem vantaði...

Ef hlutirnir þróast eitthvað svipað og undanfarin ár í Vesturdeildinni, það er að segja ef það verður hvergi nærri nóg að vera með 50% vinningshlutfall til að ná áttunda sætinu inn í úrslitakeppni, er Lakersliðið í djúpum skít.

Síðustu fimm tímabil, hefur liðið í áttunda sætinu í Vesturdeildinni verið að vinna að jafnaði 48 leiki. Samkvæmt ESPN þýðir þetta að Lakers þurfi að taka 33-14 lokasprett (yfir 70% vinningshlutfall) til að fá að vera með í alvörunni.

Sem sagt hætta að tapa og byrja að vinna á morgun!

Þetta lið hlýtur bara að ná að snúa aðeins við blaðinu í vetur, annað virðist ómögulegt, en það virkar fremur ótrúlegt að viðsnúningurinn verði það öflugur að liðið nái inn í úrslitakeppni.

Til að svo megi verða, verður Lakersliðið ekki aðeins að snúa gjörsamlega við blaðinu og fara að vinna, heldur þarf það að treysta á að lið eins og Golden State, Denver, Houston, Utah, Minnesota drulli gjörsamlega í brækurnar á móti.

Seinni möguleikinn þykir okkur reyndar líklegri en sá fyrri.

----------

* Við höfum ekki horft mikið á NBA Countdown sem er svar ESPN við hinum margverðlaunaða Inside the NBA þætti TNT stöðvarinnar með Charles Barkley og félögum.

Í þættinum í nótt sáum við Bill Simmons, Michael Wilbon, Magic Johnson og Jalen Rose, en þeir eru reyndar bara fjórir af fjölmörgum starfsmönnum ESPN sem sjá um þáttinn (og kannski sem betur fer ef marka má þátt næturinnar).

Það var eitt stórt vandamál við þennan þátt í nótt og það er hómerismi þeirra Bill Simmons og Magic Johnson. Allir sem fylgjast eitthvað með NBA vita að Simmons er harður Celtics-maður og Magic heldur auðvitað upp á Lakers-liðið sitt.

Gallinn er bara sá að áhorfendur fá engan frið fyrir þessum staðreyndum og þeim er afdráttarlaust nuddað framan í áhorfandann. Það má skilja að Magic beri taugar til Lakers, maðurinn vann jú marga titla með liðinu og er goðsögn, svo hann fær smá séns. Hann fer þó langt yfir strikið og stundum fá önnur lið en Lakers lítið að komast að hjá honum.

Simmons er miklu verri. Hann talar bara um Celtics og enn meira um þá staðreynd að hann haldi með Celtics, sem er orðið gjörsamlega óþolandi. Hann virðist til dæmis halda að það komi Celtics eitthvað við að það gangi illa hjá LA Lakers.

Simmons ætti að halda sig við það sem hann gerir vel. Af hverju að troða manni í sjónvarp sem virkar svona vel með pennann og í Hlaðvarpinu?

Það má vel vera að þetta eigi við um einhverja fleiri *hóst* en þetta eru nú samt okkar tvo sent á NBA Countdown og mannskapinn sem þar er.

Friday, November 30, 2012

Ersan Ilyasova og Hedo-heilkennið




Ersan Ilyasova hefur verið nokkuð í fréttum í haust og þó það nú væri. Komið hefur í ljós að hann hefur skitið á sig eftir næstum hvern einasta leik Bucks til þessa.

Ilyasova er fæddur á Eskişehir (Eskifirði) í Tyrklandi þann 15. maí 1987. Fyrstu fimm árin sín með Bucks var hann með að meðaltali 1,6 milljónir dollara í árslaun, sem er ansi hreint lítið miðað við það sem gengur og gerist í NBA.

Ekki fór mikið fyrir piltinum fyrstu árin, en á síðustu leiktíð byrjaði hann allt í einu að leggja fram svona leiki (stig/fráköst):

19/15, 17/17, 20/16, 31/12, 32/10, 29/25, 17/16, 7/19.

Sannarlega ekki á hverjum degi sem menn bjóða upp á 29 stig og 25 fráköst í einum leik.  Aðeins Ástþór býður upp á svona tölur - eða það héldum við þar til Ilyasova frussaði upp þessari stera-línu gegn Nets á síðustu leiktíð.

Og svo er hann brúkleg langskytta líka, svona eins og sykurlaus Ástþór.

Þvílík tilviljun að Ersan okkar skuli hafa verið með lausa samninga mitt í öllum þessum látum!

Og rétt eins og landi hans Hidayet "Hedo" Türkoğlu hérna um árið, virðist Ilyasova nú ætla að gera fátt annað en að drulla í buxurnar eftir að hafa skrifað undir samning sem færir honum 8 milljónir dollara á ári næstu fimm árin.

Það er milljarður króna á ári.

Sjáðu bara hvað tölfræðin hans hefur hrunið.

Vonandi nær Ilyasova að hrista þetta af sér og vonandi er hér ekki um Hedo-heilkennið að ræða. Kannski væri heppilegra að kalla það bara Tyrkjarán.

Það er svívirðilegt hvað er auðvelt að búa til ódýra orðaleiki úr raunum Ilyasova og biðjum við lesendur umsvifalaust afsökunar á því.

Já, krakkar, það væri synd ef Ersan næði sér ekki á strik á ný, verandi sjaldgæfur og solid fjórfari.

Svo er auðvitað alltaf sá hræðilegi möguleiki fyrir hendi að Scott Skiles þjálfari drepi hann hreinlega með ryðfríum kartöflustappara.

Maður sem var tilbúinn að fljúgast á við Shaquille O´Neal lætur það nú ekki eftir sér að mauka einn Tyrkjadjöful sem er að stela kaupinu sínu.

Það er kannski ljótt að segja svona, en þið vitið að okkur gengur aldrei annað en gott til. Þetta er aðeins ætlað sem hvetjandi skrif til handa efnilegum leikmanni sem villst hefur af leið og stefnir í glötun.

* - (Lausleg þýðing) Áttavilltur ungur maður í NBA - ENDAÞARMSINNLEGG ERSANS

Tuesday, November 13, 2012

Ótímabært og tilgangslaust stöðutékk


Það er allt of snemmt að draga stórar ályktanir um stöðu mála í NBA deildinni þegar aðeins nokkur þeirra hafa náð því að spila 10% af leikjum sínum svona fyrir miðjan nóvember.

En á þessum tímum athyglibrests og óþolinmæði er þó ekki hægt annað en að kíkja aðeins á það hvað hefur verið að gerast í deildinni í þessum fyrstu 2-3 vikum. Aldrei hægt að velta sér of mikið upp úr körfubolta - aldrei of seint að móðga einhvern með því að tala með ristlinum um liðið hans.

Svona til að jafna aðeins um vitleysinginn hann Marc Stein, er gaman að geta þess að Vesturdeildin er um það bil 600 sinnum áhugaverðari en Austurdeildin það sem af er í vetur og það mun ekki breytast til vors.

Byrjun New York Knicks er eini alvöru fréttapunkturinn í Austurdeildinn til þessa. Það er með ólíkindum hvað heil stétt manna (íþróttafréttamenn) getur misst sig yfir fjórum körfuboltaleikjum, en það hefur hún gert eftir 4-0 byrjun Knicks.

Þetta eru vissulega fínir sigrar hjá Knicks, m.a. á meisturunum, en við skulum nú samt klára tímabilið áður en við færum New York meistaratitilinn.

Við höfum lofað því að sinni að vera ekkert að velta okkur upp úr stöðu mála hjá Sixers eða Andrew Bynum. Stuðningsmenn Sixers eru viðkvæmir fyrir slíku. Athugið að við óskum liðinu (Evan Turner og mullet-inu hans Spencer Hawes) alls hins besta.

Á hinum endanum á töflunni kemur það kannski einhverjum á óvart að Orlando skuli vera búið að vinna tvö körfuboltaleiki, en það kemur færri á óvart að Washington og Detroit skuli þegar þetta er skrifað vera samanlagt búin að vinna jafnmarga NBA leiki og Súlan frá Stöðvarfirði.

Charlotte er búið að vinna TVO leiki og er hársbreidd frá sæti í úrslitakepninni eins og staðan er í dag. Austurdeildin í hnotskurn.

Hættum þessu rausi og drífum okkur í Vesturdeildina. Þar er miklu skemmtilegra að vera.

Vandræðagangurinn á Lakers verið stærsta fréttamálið í Vesturdeildinni og heldur áfram að vera það. Aldrei þessu vant skrum í kring um Lakers, ha?

Þið hafði fengið að fylgjast með því í þremur hlemmum sem við höfum skrifað um þjálfaramál félagsins.

San Antonio byrjar vel og heldur uppteknum hætti frá því í deildakeppninni á síðustu leiktíð. Leikmenn San Antonio vita hvar best er að standa og hvar og hvenær best er að hlaupa á vellinum til að eiga betri möguleika á að setja boltann ofan í körfuna oftar en hitt liðið. Þetta mun ekki breytast neitt í vetur.

Taktu eftir því að Spurs hefur bara tapað einum leik.

Memphis byrjar sömuleiðis vel og er þegar komið með það á afrekastrá sína að drulla yfir meistara Miami. Memphis er reyndar eina liðið í deildinni sem hefur ótvírætt tak á Miami. Þar vegur stór framlína liðsins nokkuð þungt.

Taktu eftir því að Griz hefur bara tapað einum leik.

Þetta eina tap Spurs og Grizzlies kemur gegn LA Clippers. Það er afar vel mannað lið sem þó hefur skemmt fyrir sér með því að gleyma að mæta í heimaleiki gegn Golden State og Cleveland og er því 5-2 í stað 7-0.

Fórnarlömb Clippers eru m.a. Lakers, Grizzlies og Spurs. Segir sitt.

Meiðslin hjá Minnesota eru að verða svo mikil að forráðamenn félagsins eru farnir að hringja í Anthony Peeler og biðja hann um að mæta á æfingu.

Það breytir því ekki að liðið er 5-2 þegar þetta er skrifað, sem er líklega eftirtektarverðasti árangur deildarinnar hér í byrjun. Rússarnir eru að smella dásamlega inn í þetta og Rick Adelman á skilið að fá Óskarstilnefningu fyrir leikstjórn nú þegar.

Anthony "Brúnar" Davis hjá New Orleans og Damian Lillard hjá Portland eru að stimpla sig vel inn í NBA deildina og virðast ekki aðeins ætla að keppast um titilinn Nýliði ársins, heldur sýna okkur að þeir séu alvöru leikmenn.

Anthony Davis á eftir að verða einn besti stóri maðurinn í NBA næstu árin ef hann heldur heilsu. Það er hægt að fullyrða af því það eru nánast hættir að koma fram stórir menn í Bandaríkjunum.

Það er gaman hvað þeir Eric Gordon hjá New Orleans og Andrew Bogut hjá Golden State halda okkur skemmtilega við efnið alltaf. Halda okkur í óvissunni eins og skilnaðarbarni sem bíður eftir jólagjöfinni frá pabba. Þeir eru ekkert að fara að spila á næstunni og virðast bara búnir á því.

Mál Gordon er alvarlegra. Stefnir ekki í neitt annað en að honum verði sturtað niður í Amnesty-klósettið sem Brandon Roy synti upp úr sælla minninga.

Golden State getur ekki, hefur aldrei getað og mun aldrei geta keypt "breik" sem félag í NBA deildinni. Það kemur því nákvæmlega ekkert á óvart hver meiðslastuðullinn er hjá félaginu í ár.

Fólk var actually að tala um að Golden State yrði hörkulið í ár eins og svo sorglega oft áður, en þetta fólk hefur greinilega ekki opnað sögubók.

Warriors heldur bara uppteknum hætti og tapar leikjum í vetur, en passar að tapa ekki of mörgum svo það þurfi ekki að láta frá sér valréttinn sinni í nýliðavalinu næsta sumar.

Metnaðurinn hjá nýjum eigendum félagsins virðist vera sá sami og var hjá forverum þeirra. Að tapa körfuboltaleikjum og greiða meiddum körfuboltaleikmönnum laun fyrir að spila ekki körfuboltaleiki. Æðislegt alveg. Aumingja stuðningsmenn Warriors, sem eiga þetta svo ekki skilið.

Jæja, til að gera langa sögu stutta, er Vesturdeildin pökkuð í vetur eins og alltaf. Verður hrikalega gaman að fylgjast með henni í vetur.

Hey, þá veistu það.