Showing posts with label Goðsagnir. Show all posts
Showing posts with label Goðsagnir. Show all posts

Tuesday, May 23, 2017

Tuesday, December 20, 2016

Takk aftur, Tim


Nú er búið að hengja treyjuna hans Tim Duncan upp í rjáfur í San Antonio eins og þið tókuð eftir. Það var sannarlega ekki verið að drolla við þetta. Ætli forráðamenn Spurs séu ekki hræddir um að hann eigi eftir að hverfa inn í Amazon frumskóginn einn daginn og koma aldrei aftur, eða eitthvað slíkt. Hvað vitum við svo sem um þessa hávöxnu ráðgátu af manni.

Okkur þótti vænt um að horfa á seremóníuna, sem var stutt og hnitmiðuð á miðað við tilefnið, en þið vissuð að það yrðu ekki teknir neinir sjö tímar í að keyra Tim Duncan út. Alveg eins og þegar Duncan tilkynnti að hann væri hættur á sínum tíma, fengum við eitthvað nostalgíukast og hugsuðum að við yrðum nú að skrifa eitthvað um þetta. 
Vorum næstum því búin að gleyma því að við vorum búin að gera það, nokkuð ítarlega meira að segja. Þau ykkar sem nenntuð ekki að lesa það, getið þá kannski gert það núna, ef þið eigið eftir að sakna Duncan eins og við.

Við eigum ekki eftir að sakna þess að horfa á Duncan spila, þannig séð, við erum búin að gera meira af því en flestir á síðustu tveimur áratugum. Við eigum bara eftir að sakna hans af því hann var á sinn hljóðláta hátt ein af undirstöðunum í NBA deildinni, hvort sem hann fór í taugarnar á þér eða þú elskaðir hann.

Það er óþarfi að skrifa annan hlemm um Duncan eins og við gerðum í sumar, en okkur langar bara að vekja athygli á nokkrum atriðum.

Þau ykkar sem horfðuð á athöfnina þegar treyjan hans Duncan fór upp í rjáfur (hún er aðgengileg víða á youtube), hafið eflaust veitt því athygli hvað þeir Tony Parker, Manu Ginobili og Gregg Popovich töluðu lítið um leikmanninn Tim Duncan í ræðunum sínum. Það vita allir að Duncan var góður leikmaður og því var óþarfi að tala um það við þetta tækifæri - Duncan hefði líka ekki nennt að hlusta á það. 

Nei, það eina sem komst að hjá höfðingjunum sem tóku til máls til að heiðra liðsfélaga sinn til 15-20 ára var hvað hann væri góður liðsfélagi og góð manneskja. 

Þeir færðu líka rök fyrir máli sínu. Minntust á hvernig hann peppaði þá upp þegar illa gekk, hvað hann var mikill leiðtogi, hvað hann gaf gott fordæmi og hvað hann var alltaf tilbúinn að eyða tíma í að gera félaga sína betri (eins og að taka aukaæfingar til að reyna að gera körfuboltamann úr Boban á lokaárinu sínu). 

Það var ekki ónýtt fyrir börnin hans Duncan að fá að heyra allt þetta hrós um gamla manninn á þessu sviði. Það er ekki víst að það gerist nema einu sinni enn.

Þetta er allt voðalega boring, við vitum það, svona leiðindi þykja ekki sexí í dag. En þetta segir okkur hvernig manneskja er horfinn af NBA sviðinu - þið vitið hvernig leikmaður er horfinn af sviðinu. Við vorum búin að segja ykkur það.

Eitt í viðbót langaði ykkur að minnast á, sem við tókum ekki í fram í greininni í sumar. Það var að skjóta niður vitleysu sem við höfum heyrt nokkrum sinnum og vekja athygli á öðru atriði í framhaldinu.

Stundum er talað um að Spurs-liðið hans Tim Duncan hafi ef til vill haft heppnina með sér þegar kom að styrkleika mótherja þeirra úr austrinu í lokaúrslitunum. Þetta er rétt, en sömu sögu er að segja af t.d. aldamótaliði LA Lakers. 

Friday, July 15, 2016

Tim Duncan með augum NBA Ísland



















Þú veist að það er eitthvað sérstakt í gangi þegar hörkutól úr bransanum eins og RC Buford framkvæmdastjóri og Gregg Popovich þjálfari San Antonio vatna músum. En það gerðist nú samt á sitt hvorum fjölmiðlafundinum þegar þeir voru spurðir út í Tim Duncan, sem hefur ákveðið að leggja skó sína á hilluna eftir 19 ára feril í NBA deildinni.

Við erum búin að liggja yfir þessu í nokkurn tíma og reyna að átta okkur á því að Tim Duncan verði ekki í NBA deildinni næsta vetur. Rétt eins og verður með Kobe Bryant, eigum við öll eftir að sjá á eftir Tim Duncan þegar hann hverfur inn í sólarlagið, enda höfum við öll getað stillt klukkurnar okkar eftir stöðugri spilamennsku hans í nær tvo áratugi.

Við höfum stundum skrifað minningagreinar um menn þegar þeir hætta að spila í NBA. Við skrifuðum reyndar ekkert um Kobe Bryant á sínum tíma, því okkur þótti við vera búin að gera svo mikið af því í gegn um tíðina. Nú er ekki loku fyrir það skotið að við gerum ferilinn hans Kobe Bryant upp í pistli einn daginn, en þegar við heyrðum að Duncan væri hættur, greip okkur strax einhver tilfinning í ætt við skyldurækni - að við yrðum bara að skrifa pistil um hann.



Tim Duncan er sannarlega ekki litríkasti eða umdeildasti leikmaður í sögu NBA deildarinnar, enda hefur umfjöllun um hann alltaf verið í lágmarki bæði hér og annars staðar. Þar liggja nokkrar ástæður að baki. Duncan var aldrei neitt fyrir það að trana sér fram og vildi helst ekki veita viðtöl, en þar að auki hefur kúltúrinn hjá Spurs aldrei snúist um neitt skrum, frægð eða frama.

Og það var að hluta til Tim Duncan sem byggði þennan fræga kúltúr, þetta stjórnkerfi San Antonio Spurs sem öll hin liðin í NBA deildinni hafa öfundað það af í tvo áratugi. Tim Duncan bara mætti (snemma) í vinnuna, vann vinnuna sína vandlega og fór svo heim til fjölskyldunnar, án frægðarljóma eða flugeldasýninga. Gregg Popovich er arkítektinn á bak við megnið af kúltúrnum hjá Spurs, en Tim Duncan hefur verið kjarni hans í nær tuttugu ár.

Tim Duncan hefur aldrei verið allra og mörgum finnst hann leiðinlegur leikmaður, ekki síst af því stuðningsmenn hinna liðanna í NBA eru búnir að vera að tapa fyrir honum í tuttugu ár. Flest körfuboltaáhugafólk sem við þekkjum hefur hinsvegar vottað Duncan virðingu sína í vikunni, hvort sem það var gefið fyrir leik hans eða ekki, af því þetta fólk veit að þar hverfur af sjónarsviðinu algjör goðsögn í sögu deildarinnar.



Einhver ykkar eru eflaust búin að lesa eina eða fleiri af þeim fjölmörgu greinum sem skrifaðar hafa verið um Duncan síðustu daga. Þær hafa verið misgóðar, en leitað í svipaða sálma; Tim Duncan var frábær leikmaður - allt að því vélrænn - liðið hans vann næstum því alltaf, hann var meiri húmoristi og vænni drengur en flestir gerðu sér grein fyrir og líklega var hann líka betri leikmaður en flestir gerðu ráð fyrir.

Við hefðum kannski getað skrifað pistil í ætt við þetta, en þar sem við höfum alltaf horft á Tim Duncan út frá alveg sérstöku sjónarhorni, ákváðum við frekar að deila því með ykkur sem á annað borð nennið að lesa um hetjuna hæglátu. Nánar um það á eftir.



Fyrsti tendensinn sem vaknaði hjá okkur þegar fyrir lá að skrifa Duncan út, var að reyna að finna út hversu ofarlega hann á heima á lista bestu körfuboltamanna allra tíma. Þá hnussa mörg ykkar og segja að fólk eigi ekki að vera að flokka körfuboltamenn - það sé ekkert hægt að bera saman bakverði og miðherja og enn síður ef líða áratugir á milli þess sem þeir spila í deildinni.

Við skiljum að mörgum finnist svona uppröðun og listar asnalegir, en það eru margir sem hafa gaman af þessu og okkur þykir bara alveg nauðsynlegt að reyna að átta okkur á því hvar við eigum að setja Duncan eftir þennan stórkostlega feril sem hann átti í NBA.

Friday, January 29, 2016

Tímamót


NBA Stjörnuleikurinn árið 2016 fer fram í Toronto á Valentínusardaginn, þann 14. nóvember næstkomandi. Þetta er vitanlega sunnudagur. Það sem er sérstakt við þennan leik og í rauninni merkilegast af öllu, er að það verður í fyrsta skipti síðan árið 1997 sem hvorki Tim Duncan né Dirk Nowitzki tekur þátt í Stjörnuleiknum í NBA.

Önnur gömul stjarna, Kobe Bryant, fékk að lafa inni í leiknum á lokaárinu sínu út á vinsældir sínar, því auðvitað hefur hann ekkert í leikinn að gera hvað spilamennskuna hans í vetur varðar.

Já, þetta eru sannarlega tímamót. Við sjáum engan þeirra í næsta Stjörnuleik. Svona verða kynslóðaskiptin í þessu eins og öðru. Við erum að fara að kveðja nokkrar af stærstu goðsögnum leiksins eftir eitthvað sem við mælum líklega í mánuðum en ekki árum.

Friday, January 22, 2016

Það er erfiðara en þú heldur að vinna titil í NBA


Forkólfar NBA deildarinnar hafa um árabil stuðst við regluverk er miðar að því að halda einhvers konar jöfnuði í deildinni, svo minni klúbbarnir eigi möguleika á að ná árangri alveg eins og stórveldin.

Ekki eru allir sammála um ágæti þessa kommúnisma og reglufarganið sem fylgir nýjum kjarasamningum í NBA deildinni er nokkuð umdeilt. Þannig eru reglur um launastrúktúr og launaþak gjörólíkar því sem tíðkast í atvinnudeildum í flestum öðrum boltagreinum, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.

En þessi pistill rúllaði ekki af stað af því okkur langaði svo mikið að fara að skoða katalóga og regluverk. Ef við hefðum gaman af því, hefðum við gerst lögfræðingar og ef við hefðum gerst lögfræðingar, væri ekki til neitt sem héti NBA Ísland af því þá værum við mjög líklega dauð inni í okkur.

Hugmyndin að þessum pistli fæddist þegar við heyrðum ónefnda fjölmiðlamenn ræða átakanlega dökka nánustu framtíð Brooklyn Nets í hlaðvarpsþætti á dögunum.



Framtíð Nets er kolsvört, vegna þess að forráðamenn félagsins tóku þátt í stóru og miklu áhættuspili fyrir nokkrum árum og töpuðu mjög illa. Þeir standa nú uppi með mestmegnis gagnslausan mannskap og enga valrétti, en á sama tíma er framtíð félagsins sem átti við þá viðskipti - Boston Celtics - hin bjartasta.

Brooklyn er fast í skrúfstykki af eigin völdum langleiðina til 2020 og því sjá stuðningsmenn framtíðina fyrir sér eins og súludansmær í Norður-Kóreu - það er eitthvað lítið að fara að gerast þar á bæ.

En þessi pistill er heldur ekki um Brooklyn Nets, Guð forði okkur öllum. Hugmyndin sem vaknaði við þessa Brooklyn-pælingu var aftur á móti þessi: Hvað þarf að gerast svo félag í NBA deildinni geti ekki aðeins orðið samkeppnishæft, heldur unnið meistaratitil?

Og því meira sem við hugsuðum um það, því þunglyndari urðum við, því það liggur í augum uppi að það er nánast ekki séns í helvíti að vinna NBA meistaratitilinn. Trúið þið okkur ekki? Gott og vel, við skulum bara skoða gögnin sem liggja fyrir.

(Mynd: Bill Russell, ellefufaldur NBA meistari sem leikmaður og síðar spilandi þjálfari Boston Celtics og Red Auerbach, þjálfari Celtics, sem var sigursælasti þjálfari í sögu NBA deildarinnar með níu meistaratitla þangað til Phil Jackson sló honum við árið 2009).



Það eru undantekningar á öllum reglum auðvitað, en það sem þú þarft til að vinna meistaratitla í NBA deildinni er ekki bara frábærir körfuboltamenn. Þú þarft instant heiðurshallarmeðlimi, goðsagnir, helst bestu leikmenn sögunnar í einhverjum stöðum - og þú þarft fleiri en einn og stundum fleiri en tvo. Og þú þarft að vera með sögulega góðan þjálfara og staff, góða skrifstofu, nóg af metnaði og peningum - og síðast en ekki síst, þarftu að vera ógeðslega heppinn, lesandi góður.

Til að forðast það að þessi pistill verði þriggja vikna lestur og til að halda okkur sem næst nútímakörfuknattleik, skulum við kíkja á síðustu 25 ár eða þar um bil í deildinni og miða okkur við árið þegar Michael Jordan tók við lyklunum að NBA deildinni úr höndum Magic Johnson og Larry Bird - árið 1991.

Chicago Bulls lið 10. áratugarins ættu að vera mörgum sem lesa þetta vel kunnug, en þó allir titlarnir gefi það ef til vill til kynna að þetta lið hafi rokið beint á toppinn og verið þar í áratug, var þetta nú ekki alveg svona auðvelt hjá Jordan og félögum.

Fyrstu þrjú árin sem Bulls fór í úrslitakeppnina með Jordan, féll það út í fyrstu umferð (1985-87), þá annari (´88) og loks í úrslitum Austurdeildarinnar fyrir Detroit árin tvö sem Pistons vann titlana ´89 og ´90.

Árið 1991 var hinsvegar komið að Chicago og liðið átti eftir að vinna sex titla á árunum 1991-98.

Myndin hér til hægri er af fyrsta meistaraliði í sögu Chicago frá árinu 1991. Þetta lið lagði Magic Johnson og félaga í Lakers 4-1 í lokaúrslitum eftir að hafa lent undir 1-0 á heimavelli í einvíginu.

Þessi Chicago-lið, sérstaklega liðið sem vann seinni þrennuna af titlunum (´96-´98), er almennt álitið eitt besta lið allra tíma í NBA deildinni.

Bæði liðin áttu það sameiginlegt að vera þjálfuð af sigursælasta þjálfara allra tíma Phil Jackson og þá gegndi Scottie Pippen hlutverki Robins við hlið Leðurblökumannsins Michael Jordan, sem reyndar var oftar kallaður Ofurmennið (ekki var vitað til þess að Súpermann hefði verið með samkynhneigðan unglingspilt sem side-kick eins og Leðurblöku-pervertinn).

Síðari útgáfan af meistaraliði Chicago var með ljómandi góða aukaleikara og rulluspilara, sem sumir hverjir eru virtari í annálum deildarinnar en svo að þeir séu kallaðir rulluspilarar þar.

Dennis Rodman var t.d. rankaður tíundi besti kraftframherji sögunnar af ESPN á dögunum, en auk hans voru þarna menn eins og Tony Kukoc og Steve Kerr, sem í dag þjálfar Golden State Warriors.

Chicago hafði sem sagt á að skipa besta leikmanni heims á sínum tíma og líklega besta leikmanni allra tíma í Michael Jordan, einum besta þjálfara allra tíma í Phil Jackson, öðrum leikmanni sem var einn af 50 bestu leikmönnum allra tíma sem kjörnir voru í tilefni hálfrar aldar afmæli NBA deildarinnar árið 1996 (Scottie Pippen).

Það var líka með tíunda besta kraftframherja sögunnar að mati ESPN (Rodman), einn besta evrópska leikmanni sögunnar í NBA deildinni (Kukoc) og góðum slatta af ljómandi góðum rulluspilurum sem keyptu plan þjálfarans.

Eins og titlarnir sex bera með sér, var þetta Chicago-lið ekkert slor og auk allra þessara hæfileikamanna, hafði það líka heppnina með sér, sem er alltaf mikilvægur þáttur í öllu meistarasamhengi eins og við erum alltaf að segja ykkur.

Þannig átti þetta Chicago-lið sér engan ákveðinn sögufrægan mótherja sem það þurfti að berjast við ár eftir ár eins og Celtics og Lakers lið þeirra Bird og Magic höfðu gert áratuginn á undan og ekki má gleyma meiðslunum.

Chicago slapp við öll stór meiðsli á þessum árum sem gerði því kleift að vinna titla. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort Chicago hefði unnið t.d. Phoenix ´93 eða Utah bæði árin 1997 og 98 ef Michael Jordan hefði slitið krossbönd í annari umferð úrslitakeppninnar.

Liðið sem sópaði til sín titlunum tveimur sem í boði voru á milli-Jordans-árunum 1994 og 1995 (þegar Jordan tók þá yfirmáta fáránlegu ákvörðun að gerast atvinnumaður í boccia) var Houston Rockets.

Fyrirliði og stórstjarna þessara Houston-liða var Hakeem Olajuwon, einn besti miðherji í sögu NBA deildarinnar (5. besta miðherja sögunnar að mati ESPN í könnun sem birt var á dögunum).

Annað árið fékk hann til liðs við sig gamla liðsfélaga sinn úr háskóla Clyde Drexler (5 besta skotbakverði sögunnar skv. sömu ESPN könnunar) og í kring um þá var langur listi frábærra rulluspilara.

Á meðal þeirra má nefna Kenny Smith (sjónvarpsmaður á TNT í dag), Robert Horry (sjöfaldur NBA meistari - meira um hann síðar), Vernon Maxwell, Otis Thorpe, Sam Cassell og fleiri góðir.

Þetta lið var svo þjálfað af mjög góðum þjálfara í Rudy Tomjanovich, sem einhverra hluta vegna er ekki kominn inn í Heiðurshöllina, en pólitíkin á bak við inngöngu í það batterí er ekki einföld.

Saturday, January 16, 2016

Detroit heiðrar Stóra-Ben í nótt


Þetta er Stóri-Ben Wallace, miðherji Detroit Pistons á árunum 2000-´06 og 2009-´12.

Þeir verða ekki mikið hrikalegri en Wallace og það er ekki laust við að fólk velti því fyrir sér hvort þessi maður hafi einhvern tímann verið látinn pissa í glas.

"Merkja þetta betur, Skúli minn!"

Ef við ættum að finna einn körfuboltamann sem væri hvað best lýsandi fyrir meistaralið Detroit Pistons frá árinu 2004, myndum við velja Ben Wallace.

Hann var varnarakkeri einnar sterkustu varnar í sögu NBA deildarinnar og er sennilega sá maður sem hefur komist næst því að feta í fótspor Dennis Rodman síðan sá litríki maður lagði skó sína á hillun.

Wallace gegndi alltaf stöðu miðherja hjá Detroit þó hann væri ekki nema um 206 sentimetrar á hæð og þó það viðgangist í dag, þótti það dvergvöxtur fyrir miðherja á fyrstu árum aldarinnar.

Það er varla nóg að rétt slefa í tvo metrana ef maður þarf að dekka Shaquille O´Neal er það?

Jú, einhvern veginn dugði það Wallace. Svona stundum amk.

Ben Wallace var fjórum sinnum valinn Varnarmaður ársins í NBA deildinni, sem er met sem hann á með Dikembe Mutombo.

Fimm sinnum var hann í varnarúrvali deildarinnar og hann fór meira að segja í fjóra Stjörnuleiki - svo sterkt var Detroit á þessum árum. Liðið fór í úrslit Austurdeildar sex ár í röð, frá 2003 til 2008.

Hrikalegasta tölfræðin sem Wallace bauð upp á á ferlinum var árið 2003, þegar hann skoraði 7 stig að meðaltali í leik, en hirti 15,3 fráköst, stal 1,4 boltum  og varði 3,2 skot. Hann var með 10,3 stig, 14,3 fráköst og 2,4 varin skot að meðaltali í leik í úrslitakeppninni árið sem Detroit vann titilinn (2004).

Af hverjum erum við að rifja þetta upp núna?

Jú, af því að Detroit ætlar að hengja treyjuna hans upp í rjáfur í kvöld þegar Golden State kemur í heimsókn og verður hann þar með fyrsti leikmaðurinn úr meistaraliðinu 2004 sem er heiðraður með þessum hætti.

Þegar hefur verið ákveðið að Chauncey Billups fái sömu trakteríngar þann 10. febrúar næstkomandi. Reiknað er með því að Billups verði viðstaddur seremóníuna í kvöld ásamt liðsfélögum þeirra Rip Hamilton og Rasheed Wallace, svo einhverjir séu nefndir.

Wallace, sem er 41 árs gamall í dag, spilaði 655 leiki með Pistons á sínum tíma og á eitthvað af félagsmetum í vörðum skotum auk þess að vera ofarlega á listum í stolnum boltum og fráköstum.

Ekki slæmt af manni sem oft á tíðum var lágvaxnasti miðherji deildarinnar og enginn hafði áhuga á að taka í nýliðavalinu árið 1996.

Búningurinn hans Wallace (númer þrjú) verður sá áttundi sem fer upp í rjáfur í Höllinni í Detroit, en þar eru fyrir þeir Joe Dumars, Dennis Rodman, Isiah Thomas, Vinnie Johnson, Bob Lanier, Dave Bing og Bill Laimbeer. Ekki dónalegur mannskapur það.

Til lukku með þetta, Benni.

Saturday, January 2, 2016

Varist eftirlíkingar


Þegar Larry (Bird) og Magic (Johnson) ríktu í NBA deildinni snerist allt um að gera meðspilara sína betri og þó báðir hafi verið mjög fjölhæfir og Bird til að mynda mikill skorari, snerist þetta á endanum allt um að vinna fyrir liðið. Þetta er mikil einföldun, en svona var þetta nokkurn veginn á níunda áratugnum.

Svo kemur Michael Jordan og lagði nýjar línur. Jordan var margfaldur stigakóngur og sá jafnan sjálfur um að gera hlutina hjá Chicago liðinu sínu. Þetta breyttist þegar kom fram á tíunda áratuginn, þegar Jordan fór að treysta félögum sínum betur og liðið í kring um hann fór um leið að verða sterkara. Jordan náði tökum á "leyndarmálinu" - að finna milliveginn, hvenær á að treysta meðspilurunum og hvenær á gera hlutina sjálfur.

En eins og þið munið, kaus Jordan mun oftar að gera hlutina sjálfur en að láta félögum sínum það eftir. Jú, jú, þeir áttu sín augnablik - menn eins og John Paxon og Steve Kerr settu niður eftirminnileg skot sem voru brauðmolar sem féllu af veisluborði Jordans.

En í tíð Michael Jordan gekk það að vera ofurstjarna út á það að skapa hlutina sjálfur, þrjóskast og hnoðast til sigurs á keppnisskapinu, hæfileikunum og sigurviljanum.

Þetta gerði Jordan og komst oftast upp með það, en í leiðinni bjó hann til hefð sem ekki er hægt að segja að hafi gert leiknum gott.

Það hefur örugglega ekki verið meiningin hjá Jordan að ala upp kynslóð manna sem spiluðu eins og hann, en ofurmannlegir hæfileikar hans, sigurhefð og heimsfrægð gerðu það að verkum að "allir vildu vera eins og Mike."

Það gefur augaleið að þó milljónir manna hafi viljað vera eins og Mike, gekk það einfaldlega ekki upp.

Þú hleypur ekkert bara inn á körfuboltavöll og spilar eins og besti körfuboltamaður í heimi, sama hvað þú æfir þig.

Því varð enginn eins og Mike, þó einn hafi komist dálítið nálægt því og það af yfirveguðu ráði.

Kobe Bryant vildi sannarlega vera eins og Mike og hann tók því svo alvarlega að hann hermdi allt eftir goðinu sínu - meira að segja tunguleikfimina. Kannski dálítið hallærislegt, en ef til vill skiljanlegt.

Ef þú getur hermt sæmilega vel eftir manni sem vann sex meistaratitla og var útnefndur besti körfuboltamaður heims, hlýtur það að skila einhverju.

Og sú varð raunin. Kobe fékk mikla og góða hjálp, en hann vann fimm meistaratitla með því að vera eins og Mike. Hann hjálpaði mismikið til með því að spila eins og Mike. Stundum var hann lykilmaður á bak við sigrana, en stundum færði hann sér einfaldlega allt of mikið í fang og hreinlega skemmdi fyrir liði sínu.

Dæmi Kobe Bryant sýnir okkur svo ekki verður um villst að það er ekki hlaupið að því að vera eins og Mike. Raunar er það varla hægt. Aðeins afburðaleikmenn eins og Kobe geta komist nálægt því, en eins vel og Kobe reyndi, varð hann aldrei annað en Pepsi við hliðina á kókinu hans Jordans.

En svo heldur hringrásin auðvitað áfram, og þó enn séu til menn sem vilja vera eins og Mike, eru líklega fleiri í dag sem vilja vera eins og Kobe. Þá er dæmið farið að flækjast verulega. Þá eru menn farnir að vilja vera eins og Kobe sem vildi vera eins og Mike. Það gefur augaleið að þetta er erfitt plan og tæplega vænlegt til árangurs.

Það er til nafn yfir leikaðferð Kobe og Mike - hún er kölluð hetjubolti.

Hetjubolti er hugtak sem hefur neikvæða merkingu. Menn sem spila hetjubolta ætla nefnilega að taka leikinn í sínar hendur og vinna hann upp á sitt einsdæmi, hjálparlaust, eins og Mike. Mike tókst það stundum, Kobe tókst það líka stundum, en venjulegir menn ráða ekki við þetta. Þúsundir hafa reynt, þúsundum hefur mistekist. Hetjubolti er andstæðan við liðsbolta Magic og Larry frá níunda áratugnum og er því þyrnir í augum bókstafstrúarmanna á liðsboltasviðinu.


Hetjuboltinn er dúkkar upp kollinum við og við í NBA deildinni í dag og átakanlegasta dæmið um hann er einmitt hjá sjálfum Kobe Bryant. Kobe er í kveðjutúrnum sínum, þar sem hann spilar með gjörsamlega handónýtu liði sem getur ekki neitt og á ekki að geta neitt. Kobe fær bara að spila hetjuboltann sinn, spila eins og hann hefur alltaf spilað, skjóta samviskulítið eða laust á körfuna, oft með litlu tilliti til meðspilara sinna.

Nú er svo komið að við gætum verið að fylgjast með alveg nýrri bylgju og þeirri sem við lýstum hér að ofan. Það er ekki komið í ljós enn, en það er ekki útilokað að nú færi að bera á nýrri kynslóð leikmanna - manna sem vilja vera eins og Steph.


Stephen Curry spilaði betur en nokkur körfuboltamaður í heiminum á síðustu leiktíð, þegar hann var kjörinn leikmaður ársins í NBA og bætti um betur með því að fara fyrir liði sínu alla leið að titlinum.

En eins ótrúlegt og það kann að hljóma, hefur Curry ekki aðeins verið betri í vetur en á síðustu leiktíð. Hann er búinn að vera MIKLU betri.

Og eins og við höfum skrifað 500 sinnum eða svo á þetta vefsvæði, er Curry að gera hluti sem við höfum aldrei séð áður. Algjörlega einstaka hluti. Hluti sem fyrir tuttugu árum hefðu þótt hrein og klár geðveiki. Hluti eins og að taka tíu þriggja stiga skot á hlaupum í hraðaupphlaupum, þremur metrum aftan við þriggja stiga línuna.

Rétt eins og enginn gat fyllilega verið eins og Mike, eigum við mjög bágt með að sjá að nokkur maður geti verið eins og Curry.

En látið ykkur ekki bregða þó margir eigi eftir að reyna það. Og mistakast illa.

Thursday, November 5, 2015

Goðsögn í vanda


Lesendur NBA Ísland í gegn um árin vita að ritstjórnin á í nokkuð flóknu sambandi við skotbakvörðinn og goðsögnina Kobe Bryant hjá Los Angeles Lakers. Við berum virðingu fyrir Kobe út af því sem hann hefur afrekað á löngum og glæstum ferli sínum, en síðari ár höfum við átt það til að stríða honum dálítið vegna hugarfars hans og leikstíls.

Það var allt í lagi að gera stundum grín að Kobe Bryant, því hann hefur alltaf staðið undir því og meira til. Hann var kannski á of háum launum og skaut kannski aðeins of mikið en það var allt í lagi, því Lakersliðið undanfarin ár er svo lélegt að það skiptir engu máli hvort Kobe tekur 3 eða 30 skot. Því ekki að halda bara áfram að bomba og reyna að slá met áður en skórnir fara á hilluna?

En svo byrjuðu bölvuð meiðslin að setja strik í reikninginn og eins og þið vitið hafa þau allt nema eyðilagt fyrir honum tvö keppnistímabil í röð. Þegar öll þessi meiðsli eru svo lögð ofan á skrokk sem búið að níðast á í tuttugu ár, er útkoman einhver elsti 37 ára gamli íþróttamaður veraldar.

Það var byrjað að bera á því áður en öll þessi meiðsli komu til. Kobe var byrjaður að dala verulega sem leikmaður, því skrokkurinn á honum var hættur að gera það sem honum var sagt.

Þetta kemur fyrir okkur öll á endanum og flest okkar sætta sig við það og aka eftir aðstæðum.

Ekki Kobe Bryant - varla hefur þú reiknað með því.

Við munum eftir viðtali sem Amad Rashad tók við Bryant fyrir nokkru þar sem hann sýndi áður óþekkta auðmýkt og viðurkenndi að meiðslavesenið hefði fengið á hann.

Var þetta ávísun á að þessi samviskulausi skorari væri farinn að þroskast og ætlaði að taka hugarfar sitt og leikstíl til endurskoðunar?

Ekki svo mikið.

Varast ber að stökkva á of miklar alhæfingar á 82 leikja keppnistímabili þegar búið að spila 5% af því, en nú er ljóst að allir eru farnir að hafa áhyggjur af Kobe Bryant. Bæði við og þið - og meira að segja hann sjálfur. Bryant kallaði sjálfan sig 200. besta leikmann deildarinnar í viðtali á dögunum, þar sem hann fór ófögrum orðum um sjálfan sig - sagðist frekast sjúga.


Það bætir svo ekki úr skák að Lakers skuli vera með eitt lélegasta lið í sögu félagsins um þessar mundir. Það er án sigurs í fjórum leikjum og er með lélegustu vörnina í NBA (fær á sig 113 stig á hverjar 100 sóknir andstæðinga sinna) og það ekki í fyrsta skipti. Og varnarleikurinn er meira að segja áberandi verri þegar Kobe Bryant er inni á vellinum (nærri 117 stig per 100 sóknir), sem er ákveðið afrek.

Við máttum bara til með að skrifa nokkur orð um þetta sérstaka vandamál sem komið er upp í gula hluta Los Angeles í dag, af því við höfum aldrei séð neitt þessu líkt áður. Ein af goðsögnum leiksins - einn besti skotbakvörður í sögu körfuboltans - stendur skyndilega frammi fyrir þeirri staðreynd að hann er ekki skugginn af sjálfum sér. Sjáðu t.d. þessa átakanlegu loftbolta:


Svartsýnustu menn spáðu því að öll þessi meiðsli gætu átt eftir að gera út af við Kobe og raunar þurfti enga svartsýni til. Skrokkur á þessum aldri með allt þetta slit, hefur einfaldlega ekki efni á að meiðast jafn illa og raun bar vitni hjá Kobe Bryant og höggið núna er enn þyngra af því hann er búinn að vera svo lengi frá. Svo poppar hann allt í einu inn í liðið á ný og í ljós kemur að það er allt í einum rjúkandi mínus.

En þarna er ekki öll sagan sögð. Þetta væri kannski ekki svo grábölvað ef Kobe Bryant hefði andlega burði til að takast á við allt mótlætið og setti alla sína orku og einbeitingu í aðlögunarferlið.

Málið er bara að það er ekki stíllinn hans Kobe Bryant. Kobe hefur aldrei farið eftir annari pólitík en sinni eigin - aldrei dansað eftir lögum annara. Hann er búinn að vera maðurinn í fimmtán ár og er búinn að gleyma því hvernig rulluspilarar hjálpa liðum sínum að vinna. Það eina sem kemst að hjá Kobe er að drepa, klára leiki, hleypa alfa-menninu lausu - Svörtu Mömbunni.

Gallinn er bara að lemstraðir fertugir karlar eru engar andskotans Mömbur, sama hve heitt þeir þrá það. Banvæn Svarta Mamban er horfin og í staðinn er kominn drukkinn órangútan með vélbyssu, sem er alveg jafn líklegur til að skjóta sjálfan sig í tætlur og einhvern annan.

Saturday, September 19, 2015

Nokkur orð um Moses heitinn


Það er eins með okkur eins og aðra körfuboltamiðla, við höfum ekki hugmynd um hver Moses Malone var. Eitt af því fáa sem við vitum með vissu er að hann er nú látinn blessaður, aðeins sextugur að aldri. Við vitum kannski fátt um Moses, en við lítum á það sem skyldu okkar að skrifa nokkur orð um það þegar þrefaldur leikmaður ársins í NBA deildini fellur frá. Sérstaklega ef við fengum nú að horfa á hann spila.

Þið sem þekkið til Malone á annað borð vitið þetta litla sem fólk vissi yfir höfuð um hann, en þó hann hafi alltaf verið sem lokuð bók, þýðir það ekki að hann hafi ekki átt merkilegan feril. Því er alveg kjörið að skrifa nokkrar línur um hann til að upplýsa yngri lesendur um einn besta miðherja í sögu NBA deildarinnar. Við komumst ekki hjá því að detta í nokkrar klisjur þegar við gerum upp feril Moses Malone, en það verður bara að hafa það. Hann skal fá nokkur orð.

Moses Malone fæddist í krummaskuðinu Pétursborg í Virginíuríki árið 1955 og var alfarið alinn upp af móður sinni Maríu, sem sleit samvistum við faðir hans sem sagt er að hafi verið óreglumaður.

Það kom mjög fljótlega í ljós að Moses var enginn venjulegur piltur, því þó hann væri svo sem ekki hávaxinn á miðað við NBA-miðherja almennt (208 cm), var hann risi við hlið foreldra sinna.

Faðir hans var þannig innan við 171 cm á hæð og móðir hans ekki nema 158 cm, svo það eina sem hann erfði frá foreldrum sínum voru smávaxnar hendurnar.

Einn liðsfélaga hans sagði að það hefði bókstaflega verið ósanngjarnt ef Malone hefði verið með risastórar hendur, því hann var besti frákastari sinnar kynslóðar þrátt fyrir barnslegar hendurnar.

Malone ólst upp í fátækt og í grein um hann frá áttunda áratugnum segir að frárennslismálum hafi verið ábótavant á æskuheimili hans og að það hafi verið svo hrörlegt að það hafi bókstaflega verið gat á húsinu á einum stað.

María móðir hans flosnaði upp úr skóla þegar hún var í kring um tíu ára aldur þar sem hún var elst níu systkina og því var nóg annað fyrir hana að gera en hanga í skóla. Fyrir vikið hafði hún ekki um auðugan garð að gresja þegar kom að atvinnu, en þó hún hefði lítið milli handanna reyndi hún að dekra við son sinn eins og henni var unnt.


Moses var ekki námsmaður frekar en móðir hans og gekk vægast sagt illa í skóla. Hann var sjúklega feiminn og ekki beint mælskur - fékk einu sinni á sig gælunafnið Muldri Malone.

Þetta kann að hafa haft áhrif á það að hann varð fyrsti körfuboltamaðurinn í Bandaríkjunum til að stökkva beint úr menntaskóla í atvinnumennsku. Fjöldi háskóla hafði áhuga á að fá hann til sín, en hann ákvað fljótlega að atvinnumennskan væri málið og sú varð raunin.

Það var ABA-lið Utah Stars sem krækti í Moses árið 1975 en þá kom ekki til greina fyrir hann að semja við félag í NBA deildinni af því reglur þar á bæ leyfðu ekki nítján ára gömlum piltum að gera samninga.

























Moses spilaði stöðu framherja á fyrsta árinu sínu sem atvinnumaður og segja má að margt sé líkt með nýliðaárinu hans og nýliðaárinu hans Kevin Garnett hjá Minnesota á sínum tíma, en Garnett fetaði í fótspor Malone með því að fara í NBA deildina beint úr menntaskóla.

Malone var ekki nema um 90 kíló og mátti því hafa sig allan við í baráttunni í teignum, en íþróttamennska hans, styrkur og hraði tryggði þó að hann skilaði 19 stigum og tæpum 15 fráköstum að meðaltali í leik fyrir Stjörnuna í Salt Lake City. Ekki dónalegar tölur fyrir nítján ára gamlan strák, sem margir efuðust um að ætti eftir að standa sig í atvinnumennskunni.

Einhver hefði haldið að þessi fína byrjun hefði hjálpað Malone að festa sig í sessi sem leikmaður, en þó hann ætti eftir að spila sem atvinnumaður næstu tuttugu árin, áttu ótrúlega margir klúbbar eftir að vanmeta snilli hans.


ABA deildin lagðist af árið 1976 og í framhaldi af því fór Moses bæði til Portland Trailblazers og Buffalo Braves (L.A. Clippers), en bæði félögin ösnuðust til að láta hann fara, aðallega af því þau töldu sig ekki hafa efni á honum.

Saturday, September 12, 2015

Tvöfalt hjá Tommy Heinsohn


Rétt eins og þegar hann var innvígður í Heiðurshöllina sem leikmaður, tók nefndin sér góðan tíma í að ákveða hvort Tommy Heinsohn ætti þar heima sem þjálfari. Það tók meira en 20 ár að ákveða hvort hann fengi inni sem leikmaður en enn lengri tíma að heiðra hann sem þjálfara.

Ekki vitum við hvað olli þessum töfum, en við botnum heldur ekkert í aðferðafræði Heiðurshallarnefndar frekar en nokkur manneskja á þessari jörð. Heiðurshöllin er meingallað fyrirbæri þar sem pólitík, klíkuskapur og sérviska ráða för og nú er svo komið að það er eins og allir fljúgi þarna inn.



















En við skulum ekki láta það bitna á Tommy Heinsohn að Heiðurshöllin sé fáránleg. Hann á alveg skilið að vera þarna inni karlinn. Heinsohn vann ekki nema átta meistaratitla á níu ára leikmannsferli sínum með Boston Celtics og þjálfaði liðið svo á árunum 1969 til 1978. Celtics varð meistari í tvígang undir stjórn Heinsohn (1974 og 1976) og hann var kjörinn þjálfari ársins í NBA árið 1973. Menn hafa fengið inni í Springfield fyrir minna.



Nú er ekki annað eftir en kippa karlinum inn í höllina sem sjónvarpsmanni til að fullkomna þrennuna. Heinsohn, sem við erum nokkuð viss um að talaði fyrir Fred Flintstone í teiknimyndunum um Steinaldarmennina, er búinn að vera aðstoðarlýsandi á Boston leikjum með Mike Gorman í yfir þrjátíu ár.

Karlinn er skemmtilega klikkaður lýsandi og jafnan dásamlega hlutdrægur þegar kemur að Boston-liðinu hans,  en hann er eini maðurinn sem kemst upp með það af því hann er fyrir löngu orðin stofnun í annálum NBA deildarinnar.

Maðurinn er búinn að vinna hjá Celtics frá því árið 1956, sem þýðir að hann á sextíu ára starfsafmæli hjá félaginu á komandi leiktíð. Vonandi fáum við að heyra frasana hans í mörg ár í viðbót, því hann er enn í fullu fjöri þó hann sé kominn á níræðisaldur.


NBA deildin væri sannarlega ekki sú sama ef fuglar eins og Heinsohn væru ekki á skjánum reglulega, en þar fyrir utan er maðurinn náttúrulega einn mesti sigurvegari sem stigið hefur á parket í NBA sögunni.

Thursday, April 23, 2015

Lifi Tim Duncan


Eins og getið var um í síðustu færslu, fór Tim gamli Duncan mikinn í sigri San Antonio á LA Clippers í nótt sem leið. Duncan hefur í sjálfu sér aldrei verið mikill skorari þannig séð, en vélræn staðfesta hans og samkvæmni tryggja að hann er nú kominn í hóp góðra manna í sögubókum.


















Þetta stutta myndbrot hérna fyrir neðan sýnir okkur glöggt hvað er enn mikill töggur í Duncan, sem verður 39 ára eftir nokkrar vikur. Þarna sjáið þið hann etja kappi við tvo af sprækari risum yngri kynslóðarinnar, þá Blake Griffin og DeAndre Jordan hjá LA Clippers.

Þrítugsaldurinn er tími ríkidæmis og stórra samninga, fertugsaldurinn er tími hæfileikanna. Eitthvað slíkt var haft eftir Duncan eftir frábæra frammistöðu hans í nótt. Við þreytumst ekki á því að horfa á þennan snilling gera það sem hann gerir betur en nokkur körfuboltamaður í sögunni.

Þeir Duncan og Blake Griffin eru gjörólíkir leikmenn, en Griffin ber óblandaða virðingu fyrir gamla manninum og er eflaust byrjaður að stela hreyfingum frá honum. Enda væri galið að gera það ekki.

Sunday, March 29, 2015

Hot Rod Hundley lýkur keppni


"Stockton to Malone, hammer dunk! You gotta love it, baby!"

Þetta er einn af fjölmörgum frösunum hans Rod "Hot Rod" Hundley sem féll frá um helgina, áttræður að aldri. Ef þú fylgdist eitthvað með NBA deildinni hér á árum áður, hefurðu heyrt röddina hans Hot Rod lýsa einhverjum tilþrifum. Ef ekki, ertu líklega döff og þá hefur lítið upp á sig að vera að pæla í því.

Í myndbrotinu hér fyrir neðan má heyra Hundley lýsa því þegar John Stockton sló stoðsendingamet Magic Johnson á sínum tíma (og undirstrikar í leiðinni hvað NBA deildin hefur frjálslegar hugmyndir um það hvað er stoðsending og hvað ekki).



Hundley gerði gott mót með Vestur Virginíuháskóla eins og Jerry West á sínum tíma og spilaði sex ár í NBA deildinni með Minneapolis- og síðar Los Angeles Lakers. Eftir að leikmannsferlinum lauk, flutti Hundley sig yfir á hljóðnemann, þar sem hann lærði mikið af goðsögninni Chick Hearn hjá Lakers. Hot Rod var stundum sakaður um að stela frösum frá Hearn, en svaraði því jafnan svo:

"Ég stal ekki nokkrum frösum frá Chick Hearn, ég stal öllum mínum frösum frá Chick Hearn!"

Frá Lakers lá leið hans til New Orleans þegar Jazz var stofnað árið 1974 og flutti með því til Utah árið 1979. Hann var aðalþulur Jazz í útvarpi og sjónvarpi í 35 ár og enginn hafði starfað lengur hjá félaginu þegar hann lagði míkrafóninn á hilluna árið 2009.

















Svo djúp spor liggja eftir þennan skemmtilega mann hjá félaginu að það nefndi fjölmiðlamiðstöð sína í höfuðið á honum og sumir gátu hreinlega ekki hugsað sér að fylgjast með Jazz án þess að hafa rödd Hundley með í för. John Stockton sagði að hann ætti erfitt með að ímynda sér hvernig einhver annar en Hot Rod ætti að geta lýst leikjum Jazz, sem var kannski ekki furða eftir að sá gamli hafði lýst meira en 3000 leikjum með liðinu.

Ef þú ert ennþá að lesa þegar hér er komið við sögu, gæti verið að þér leiðist og þú hafir ekkert annað að gera. Það má vel vera og við sýnum því skilning.

En kannski ertu enn að lesa af því þér er ekki skítsama um allt og alla. Kannski gerir þú eins og við gerðum þegar Anthony Mason og Jerome Kersey létust um daginn. Kannski tekurðu þér smá stund, staldrar við og hugsar um hvernig þessir menn lögðu sín lóð á vogarskálarnar til að gera Leikinn að því sem hann er. Öll erum við jú á sama ferðalaginu og við ráðum sjálf hvort við tökum þátt í því eða ekki.

You gotta love it, baby!

Friday, March 20, 2015

Pat Riley er sjötugur í dag


Það er enginn smá karl sem á afmæli í dag, enda er Pat Riley eitt stærsta nafn í sögu NBA deildarinnar. Honum er oft líkt við guðföðurinn úr samnefndri kvikmynd eftir skáldsögu Mario Puzo.

Riley er alveg einstakur með það að hann átti farsælan feril sem leikmaður, þar sem hann var m.a. partur af einu besta liði allra tíma (Lakers ´72), vann nokkra meistaratitla sem þjálfari og rak svo smiðshöggið á þetta með því að verða einn besti skrifstofumaður deildarinnar hjá Miami.

Það er óþarfi að vera að masa eitthvað um Pat Riley hér, því ef þú veist ekki hver Pat Riley er, er ljóst að þú hefur engan áhuga á körfubolta og myndir því ekki lesa pistilinn okkar ef við skrifuðum hann. Þetta heitir að koma sér fagmannlega hjá hlutunum.

Nei, við skulum heldur skoða extra feitan bunka af myndum af Riley. Nokkrar frá því þegar hann var leikmaður í NBA, nokkrar úr þjálfuninni og svo slatti af honum bæði við skrifstofustörfin og í chilli með forsetum og öðru frægu fólki. Smelltu á myndirnar til að stækka þær.

Innilega til hamingju með daginn, Pat Riley.