Showing posts with label Hrikalegheit. Show all posts
Showing posts with label Hrikalegheit. Show all posts

Wednesday, November 30, 2016

Draymond Green afgreiðir körfuboltaleiki, aftur


Þau ykkar sem hlustuðu á hlaðvarpið okkar á föstudaginn var, hafa eflaust tekið eftir því að þar fór að minnsta kosti helmingur þátttakenda gjörsamlega á límingunum við það að lýsa hrifningu sinni á spilamennsku Leatherman-framherjans Draymond Green hjá Golden State Warriors.

Alhliða spilamennska Green er nú í sviðsljósinu sem aldrei fyrr, ekki síst varnarleikur kappans, sem var eitt helsta umræðuefnið þegar leikmanninn bar á góma í ofangreindu hlaðvarpi. Hann er orðinn svo góður í körfubolta að það virðist ekki vera hægt að jinxa hann einu sinni.

Ekki ef marka má frammistöðu hans á lokaaugnablikunum þegar Warriors-liðið tók á móti Atlanta Haukunum á dögunum, en þá tók Green sig til og gerði nákvæmlega það sem lýst var í hlaðvarpinu; hann tók þá skynsömu ákvörðun að klára leikinn upp á sitt einsdæmi á lokamínútunum - og það sem meira er - hann gerði það (mestmegnis) með því að spila varnarleik.

Þetta var dálítið dæmigerður Warriors-leikur. Það var alltaf líklegra að Golden State væri að fara að vinna hann, því lið sem stunda það að vinna 10+ leiki í röð eiga það til að vera sigurstranglegri en... til dæmis lið úr Austurdeildinni.

Þetta var samt alveg leikur þarna í restina á mánudagskvöldið og Atlanta er alveg með gaura sem geta sparkað í punginn á þér ef þú yfirbugar þá ekki, svona ef við gætum þess að hafa líkingamálið bæði karllægt og ofbeldisfullt í tilefni jólanna.

Jæja, eins og þið sjáið í myndbandinu hérna fyrir neðan, freistaði Curry þess að stinga rýtingnum í Haukaliðið, en hetjuskotin hans voru ekki að detta og þið heyrið alveg að sjónvarpsþulir Warriors-liðsins eru ekkert yfir sig hrifnir af ákvarðanatöku og óþolnimæði sinna manna í sókninni þarna í lokin.

Það var á þessum tímapunkti sem Draymond Green tók áðurnefnda ákvörðun, sem minnst var á í hlaðvarpinu á föstudaginn; svona: Æ, best að loka þessu bara, snöggvast!

Smelltu á play, spólaðu á 7:30 og sjáðu hvað gerist. Nei, reyndar ekki. Farðu á 7:30 og horfðu bara á hvað Draymond Green gerir!



Það er ekki flókin stærðfræði að nánast allt jákvætt sem gerist hjá góða liðinu frá og með þessum tímapunkti, kemur frá Green. Sama hvort það eru hindranir, stoðsendingar, fráköst, hagkvæmar villur, réttar staðsetningar og ákvarðanir - jú, eða kannski tvö varin skot sem klára leikinn og annað þeirra hrekkur meira að segja af sóknarmanninum og í innkast, eins og til að kóróna fagmennskuna.

Þetta er akkúrat málið með Draymond Green. Hvenær sástu svona leikmann, með svona pakka, gera svona hluti inni á körfuboltavelli síðast? Nákvæmlega.

Við vitum alveg að við erum dramatísk og við vitum líka að við höfum ekki með körfuboltalegt kapítal í að ætla okkur að fara að greina NBA leiki - hvort sem um er að ræða varnar- eða sóknarleik, Val eða Warriors. Við erum hvorki Valur Ingimundar né Hubie Brown (aiiit?).

En málið snýst heldur ekkert um það.

Málið snýst alfarið um það hvað Draymond Green er orðinn ískyggilega góður í körfubolta og hvað sú staðreynd er sumpart farin að grafa undan hugmyndafræði okkar um stórstjörnuna í NBA sem setið hefur og safnað ryki um árabil. Þetta er sannarlega rannsóknarefni, sem taka verður föstum tökum, helst með hjálp sérfræðinga, þegar hlutirnir róast aðeins á ritstjórninni eftir mánaðamótin.

Saturday, November 19, 2016

Russell Westbrook er þriggja treyju leikmaður




 Þú ert með boltann, þremur stigum yfir og sjö sekúndur eftir af leiknum. Hvað er best að gera? Á að koma boltanum á bestu vítaskyttuna eða fljótasta manninn? Á að reyna að tefja eða jafnvel teikna upp flott kerfi og reyna að skora strax? Hægt eða hratt? Lítill eða stór? Inn eða út?

Flest liðin í NBA eru svo heppin að vera með einn eða fleiri leikmenn, jafnvel stjörnuleikmenn, sem fá sérstaklega borgað fyrir að leysa svona þrautir. Russell Westbrook er einn þessara manna, en eins og þið vitið jafnvel og við, er hann ekki að flækja hlutina með endalausum spurningum og vangaveltum eins og við gerðum hér fyrir ofan.

Hjá Russ, er bara einn gír. Það er bara go!

Þannig að: Ef þú lendir í aðstæðunum sem við lýstum að ofan - og þú ert svo heppinn* að það er ekki nema einn svisslenskur miðherji upp á tvöhundruðogsjö sentimetra sem ver fleiri skot en allir nema fimm leikmenn í NBA deildinni - nú, þá náttúrulega keyrirðu bara á körfuna, hefur þig til flugs, og HAMRAR í grillið á áðurnefndum miðherja. Með VINSTRI hendi. Og klárar leikinn. Af hverju að vera að flækja það eitthvað?


Sumir leikmenn eru svo góðir að þeir selja þér treyjuna sína þó þú sért orðinn allt of feitur og eigir að vera löngu vaxinn upp úr því að klæðast NBA treyjum (samanber enska hugtakið dásamlega: full kit wanker).
Russ seldi okkur heimavallar- og  útivallartreyju Oklahoma númer núll - og er að spila svo yfirnáttúrulega vel núna að hann er við það að selja okkur þessa ógeðslegu óranslituðu líka! Þið vitið, þessa sem ekki einu sinni hann nær að gera töff. 

Sumir leikmenn eru bara svona svalir. Reyndar ekkert sumir. Þeir eru mjög fáir.

Russ er einn þeirra. Hann er með þrjátíu stig og þrennu í leik. Hann er þriggja treyju maður.

----------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Þú tekur eftir því að við ávörpum þig í karlkyni. Það er af því að í okkar huga ert þú lesandi. Og lesandi er karlkynsorð, rétt eins og lekandi, á meðan verðandi er nafnorð í karlkyni, kvenkyni og meira að segja lýsingarorð líka!

Við gerum okkur grein fyrir því að við erum ekki komin langt út úr torfkofunum t.d. í jafnréttismálum og að margt af því sem við skrifum má eflaust túlka sem glórulausan ras- og sexisma. En við erum að reyna að bæta okkur. Fylla upp í götin með vitneskju og lærdómi, umburðalyndi, ást og kærleika.

Kúkur.

Lol!

Saturday, October 31, 2015

Klikkaðasti körfuboltamaður heims


Hér er bara lítið dæmi frá því í nótt sem rökstyður af hverju Russell Westbrook er klikkaðasti körfuboltamaður heims í dag. Klikkaður, eins og í óútreiknanlegur, hvatvís, ör, óhræddur og alveg ógeðslega góður.

Friday, March 6, 2015

Dagur hrikalegra manna


Sjötti mars er dálítið áhugaverður íþróttadagur ef vel er að gáð. Hann er ekki aðeins afmælisdagur Sleepy Floyd, Greg Ostertag og Michael Finley, heldur einnig afmælisdagur fyrirbærisins ógurlega Shaquille O´Neal. Shaq fæddist á þessum degi árið 1972 og ætti því að vera orðinn 43 ára gamall ef stærðfræðin bregst okkur ekki.







































Shaq þótti gaman að eiga afmæli og hann hélt einu sinni upp á fæðingu sína með því að fræsa aumingja Clippers-liðið eins og var í tísku hér áður. Þetta var á 28 ára afmælinu hans árið 2000 og þó að sé ekki langt síðan, eru myndgæðin eins og þetta hafi verið tekið upp skömmu fyrir siðaskipti. Alveg er það nú merkilegur fjandi, en við skulum nú samt horfa:


Annar ansi merkilegur hlutur í íþróttasögunni gerðist á þessum degi fyrir nákvæmlega þrjátíu árum síðan, en þá keppti Mike Tyson í sínum fyrsta bardaga sem atvinnumaður í hnefaleikum. Andstæðingur Tyson náði ekki að standa af sér fyrstu lotuna frekar en flestir sem valdir voru til að berjast við hann fyrstu mánuðina (Tyson barðist á örfárra vikna fresti af því hann kláraði bardagana sína oftast á rothöggi í 1. eða 2. lotu). Hérna geturðu séð debjúteringu Tysons:


Tyson var í miklu uppáhaldi hjá okkur og er enn. Við vitum vel að hann er ekki nálægt bestu hnefaleikurum sögunnar í sínum þyngdarflokki, en hann var algjört fyrirbæri sem fékk ótrúlegasta fólk til að míga á sig af spenningi yfir sporti sem það hafði aldrei gefið gaum áður. 

Í nóvember árið eftir slátraði hann svo Trevor Berbick og varð yngsti heimsmeistari sögunnar í þungavigt (20) og ári þar á eftir varð hann fyrsti maðurinn til að hengja öll þrjú beltin á sig og verða óumdeildur meistari þungavigtarinnar.
































Allir vita hvað fylgdi í kjölfarið, en við leyfum öðrum að gaspra yfir þeim leiðindum. 
Það eina sem við vildum benda ykkur á, var að 6. mars er sannarlega dagur hrikalegra manna.


Saturday, February 14, 2015

Við munum þig, Mason


Góðvinur ritstjórnarinnar Anthony Mason berst nú fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi eftir að hafa fengið alvarlegt hjartaáfall ofan á önnur veikindi sem þegar voru að hrjá hann.

Dapurlegt þegar svona ungir menn missa heilsuna og þó nýjustu fréttir bendi til þess að ástand hans hafi skánað eitthvað lítillega, er hann enn í lífshættu.

Þið eruð kannski búin að gleyma því hvað Anthony Mason var skemmtilegur leikmaður á sínum tíma, en við erum svo sannarlega ekki búin að gleyma því.

Og þá erum við ekki bara að tala um þegar hann myndaði eina físískustu framlínu körfuboltasögunnar með þeim Patrick Ewing, Charles Oakley og Charles Smith í New York.

Nei, við munum líka eftir því þegar hann gekk í raðir Charlotte, þar sem hann fór sérstaklega hamförum leiktíðina 1996-97.

Þá spilaði hann með drullu-skemmtilegu Hornets-liði sem hafði á að skipa mönnum eins og Glen Rice, Vlade Divac, Dell Curry (pabba Stephen Curry), Muggsy litla Bogues að ógleymdum fagmönnum eins og Ricky Pierce og Matt Geiger. Þetta lið vann 54 leiki um veturinn, en lét reyndar New York sópa sér út 3-0 í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Anthony Mason var byggður eins og jarðýta, en það skondna við það var að hann var með ágætis boltameðferð og átti það til að koma upp með boltann og stýra spili Hornets.

Þarna var hann líka með sína flottustu tölfræði á ferlinum - skoraði 16,2 stig, hirti 11,4 fráköst, gaf 5,7 stoðsendingar, stal einum bolta og skaut 52,5% utan af velli, sem er ekkert slor.

Kappinn bauð upp á einar fjórar þrennur um veturinn og setti í nokkrar hrikalegar tölfræðilínur inn á milli.

Dæmi má nefna fjóra leiki sem hann tók í röð janúar árið 1997 þar sem hann hrærði í 19/12/7, 20/17/8, 20/17/7 og 14/11/9 á einni viku í síðari hluta mánaðarins.

Í mánuðinum á eftir bauð hann upp á svipuð læti, þar sem sjá mátti leiki upp á 15/22/10, 21/18/8, 28/12/9, 19/13/12, 19/14/12 og svona var þetta leik eftir leik hjá vini okkar, skoðaðu bara logginn hans frá árinu 1997. Það eru ansi feitar línur þarna inn á milli.

 Mason var fjall að burðum, en í rauninni of lágvaxinn til að vera fjarki en of hrikalegur til að vera þristur. Ef við ættum að finna hliðstæðu Mason í deildinni í dag myndum við kannski helst benda á Draymond Green hjá Golden State.

Green er fljótari á löppunum og betri varnarmaður en Mason, en sá síðarnefndi var með miklu betri leik á póstinum og svona 89 sinnum sterkari. Það er þó eins með Mason og Green, ef menn hafa hæfileika, passa þeir inn í hvaða lið sem er.

Það var tíska hjá sumum að raka eitt og annað í hárið á sér þarna á tíunda áratugnum og Mason var fremstur í flokki í NBA deildinni í þeirri list, þar sem hann skaut meira að segja Dennis Rodman ref fyrir rass.

Við teljum ólíklegt að Mason sitji núna í sjúkrarúminu sínu (ef hann er þá með meðvitund) og hugsi um hvað það sé nú merkilegt og skemmtilegt að það sé fólk á Íslandi að hugsa fallega til hans í veikindunum og rifja upp afreksverk hans á körfuboltavellinum.

En svona er nú heimurinn lítill og lífið almennt undarlegt.

Láttu þér batna, Mase. Við hugsum hlýlega til þín.

Monday, January 19, 2015

Aðeins um Russ


Russell Westbrook er dýnamískasti körfuboltamaður í heimi, það er staðreynd. Hann er því alltaf að eignast fleiri og fleiri aðdáendur, sem er hið besta mál, hann á það skilið.

NBA deildin á marga frábæra skemmtikrafta. Undanfarin misseri hafa menn eins og LeBron James og Kevin Durant ekki aðeins látið okkur fá gæsahúð með tilþrifum sínum, heldur hafa þeir aukinheldur barist um titilinn Verðmætasti leikmaður ársins.

Þeir félagar eru hinsvegar ekki efst á listanum að þessu sinni af mismunandi ástæðum og útlit fyrir að nýtt nafn verði ritað á MVP-styttuna góðu í vor.  Tveir menn eru þar oftast nefndir til sögunnar, þeir Stephen Curry og James Harden. Það er réttmætt að okkar mati. Þeir eru tveir af þeim leikmönnum sem hafa skarað hvað mest fram úr í toppliðunum í Vesturdeildinni.

Kevin Durant fellur næstum sjálfkrafa út úr þessari umræðu af því hann er búinn að missa úr nokkuð marga leiki og í raun og veru má segja það sama um hann Westbrook vin okkar.

Strangt til tekið, ætti Westbrook samt að vera með í þessari umræðu, því hann hefur farið hamförum að undanförnu.

Við eigum eftir að sjá til í vor hvað Oklahoma tekst að vinna marga leiki, hvort þeir Russ og KD verða heilir það sem eftir er - og hvort þeir halda áfram að spila svona vel.

Russell Westbrook er búinn að spila sig inn í hjörtu ansi margra körfuboltaáhugamanna og kvenna og skemmst er að minnast yfirlýsingar Kjartans Atla Kjartanssonar í hlaðvarpinu hjá okkur, þegar hann sagði Westbrook að sínu mati besta leikstjórnanda heimsins í dag.

Það má sannarlega rífast um það í margar vikur, en að okkar mati segir það sína sögu um spilamennsku Westbrook að hann skuli vera kominn inn í þessa umræðu. Þar hefði hann ekki verið fyrir tveimur árum síðan.

Hann er gríðarlega umdeildur leikmaður og þeim sem er illa við hann, rækta það hugarfar oft sérstaklega. Þetta er bara öfund og lélegur mórall - ekkert annað.

Við vonum að Westbrook og aðdáendur hans verði ekki sárir þegar við segjum þetta, en hann á því miður aldrei eftir að verða kjörinn MVP í NBA deildinni.

Það er alveg sama hvað Oklahoma vinnur marga leiki og hvað hann setur upp sóðalegar tölur, umdeildur leikstíll hans mun aldrei hljóta náð fyrir augum allra kjósenda.

En það er einmitt leikstíllinn sem gerir Russ að Russ. Hann er allt í senn hamhleypa, atmenni og berserkur sem ræðst linnulaust á andstæðinga sína og sýnir enga miskunn. Það er eins og hann verði aldrei þreyttur og sé bara með einn gír; allt í botni - alltaf!

Saturday, November 15, 2014

Thursday, June 12, 2014

Og þá kom Barkley


Charles Barkley er einn af þeim frábæru leikmönnum sem teknir voru í nýliðavalinu fræga í NBA árið 1984. Hans er því auðvitað getið í heimildamyndinni sem gerð var um þetta sögulega nýliðaval og frumsýnd var á dögunum. Barkley var sannarlega ekki lengi að koma sér á kortið ef svo má segja.

Það var Philadelphia sem landaði Barkley með fimmta valrétti í fyrstu umferð, en öfugt við sum af liðunum sem áttu fyrstu valréttina, var Philadelphia með sterkt lið fyrir. Það vann meira að segja titilinn leiktíðina 1982-83. Það voru því engir skussar sem spiluðu með Sixers í þá daga, þarna voru menn eins og Julius Erving, Moses Malone, Andrew Toney og Maurice Cheeks.

Monday, March 3, 2014

Saturday, December 21, 2013

Pekhálsinn


Hálsinn á Nikola Pekovic minnti okkur svo hrikalega á eitthvað. Vorum nokkrar mínútur að fatta það, en svo kom þetta. Hann er engin smásmíði, miðherji Úlfanna.

Sem knúinn af kjarnorku kastar hann körfuboltum í átt að körfum, gætir þess að annað fólk sé ekki að kasta boltum í körfuna hans og reynir loks að góma körfubolta sem skoppa hingað og þangað í látunum - til dæmis af körfuhringnum ef körfuboltinn fer ekki beint ofan í KÖRFU! Svona er jú körfuboltinn.


Saturday, October 26, 2013

Héraðsbúar með dólg í Dalhúsum


Aldrei þessu vant nenntum ómögulega að keyra vestur á Ísafjörð í gærkvöldi, svo við ákváðum í staðinn að skella okkur í Grafarvoginn og sjá Fjölnismenn taka á móti Hetti frá Egilsstöðum. Fljótlega varð ljóst að Héraðsmennirnir voru ekki mættir í Dalhúsin til að lita og leira, heldur flugu þeir aftur austur með 83-90 sigur í farteskinu.

Ef þið staldrið aðeins við og hugsið um helstu kenningar sem settar hafa verið fram í skynheildarsálfræði og hugrænni bókmenntafræði frá árinu 1990, verður niðurstaðan mjög líklega eitthvað svipuð og þekking okkar á Hattarliðinu.

Sem sagt engin.

Aldrei hefði okkur grunað að Höttur ætti eftir að æða í Grafarvoginn og vera bara með læti og vinna, en það var kannski bara af því við höfðum hvorki hugmynd um styrk heimamanna né gestanna.

Breytingarnar á liði Fjölnis frá því á síðustu leiktíð eru svo rosalegar að í rauninni átti klúbburinn ekki annað eftir en að skipta um nafn og búning.

Það hljómar reyndar alls ekki illa að kalla körfuboltafélagið í Grafarvogi bara Huginn, Súluna eða Hrafnkel Freysgoða, en þeir hafa ákveðið að halda sig við Fjölnisnafnið og ætla sér væntanlega fljótt upp í efstu deild aftur..

Brottfallið á úrvalsleikmönnum Fjölnis hefur verið mikið á síðustu árum, en síðastliðið vor þegar liðið féll í 1. deildina, steyptust hrægammarnir á líkið og kroppuðu allt kjöt af beinunum. Þegar upp var staðið voru nær allir strákarnir sem kunnu körfubolta farnir úr Grafarvoginum. Það væri hægt að setja saman suddalegt körfuboltalið úr mannskapnum sem komið hefur upp hjá Fjölni síðustu 8-10 árin eða svo, en það þýðir ekkert að tala um það.

Sú samsuða leikmanna sem nú er í Grafarvoginum er reyndar drullu skemmtileg, við ljúgum engu til um það. Þar kennir ýmissa grasa og finna má leikmenn kenndir hafa verið við Keflavík, Grindavík, Snæfell og KR svo einhver séu nefnd.

Gengi Fjölnis hefur kannski ekki verið fullkomið í upphafi leiktíðar, en þetta lið er ljómandi skemmtilegt og óskandi væri að fleiri nenntu að mæta á völlinn og styðja þessa stráka. Stundum höfðum við á tilfinningunni að það væru fjórtán manns á leiknum.

Það verður ekki bara breyting á leikmannahópnum þegar lið fellur í 1. deildina. Áhorfendum fækkar umtalsvert, fjölmiðlamenn eru sjaldséðir, umgjörðin dettur aðeins niður og hvorki vott né þurrt í boði fyrir blaðamenn uppi á svölum.

Þetta er miður, en vafalítið algeng þróun hjá félögum við þessar aðstæður.

Þetta raus í okkur er auðvitað ekki hefðbundin umfjöllun um körfuboltaleikinn frekar en venjulega þegar við byrjum að rugla, en við getum að sjálfssögðu ekki sett lokapuntinn á þessa hugleiðingu án þess að minnast á hrikalegheitin sem Ólafur Torfason var að bjóða upp á hjá heimamönnum.

Það var eins og hann hefði móðgast þegar Pavel Ermolinski setti tröllaþrennuna í Stykkishólmi í gær og ákveðið að fara sjálfur á tölfræðitúr.

Uppskeran hjá miðherjanum kjötmikla var 25 stig (10-16 í skotum), 20 fráköst og  5 stoðsendingar. Þetta þýðir hvorki meira né minna en 43 stig í framlag frá pilti, sem er glæsilegur árangur. Ekkert að því að vera með 13/13 meðaltal í deildinni eins og Ólafur í byrjun leiktíðar.

Af öðrum snáðum í Fjölnisliðinu má nefna að Páll Fannar Helgason var flottur í leikstjórnandanum með 18/5/4 og fína hittni og þá var atmennið Davíð Ingi Bustion (10/9/4) sjálfum sér samkvæmur og hamaðist eins og enginn væri morgundagurinn.

Davíð, sem varð Íslandsmeistari með Grindavík á síðustu leiktíð, minnir okkur stundum á Denver-manninn Kenneth Faried í NBA deildinni. Helsti munurinn á þeim er þó sá að Davíð er miklu betri varnarmaður.

Emil Jóhannson hafði mjög hægt um sig í liði Fjölnis það litla sem hann spilaði. Við áttum okkur ekki á því hvort það var út af meiðslum eða hvort honum er bara ekki ætlað stærri rulla en þetta í liðinu. Furðulegt.

Erlenda vinnuaflið í liðunum var í besta falli bleh.

Hérna fyrir neðan getið þið kíkt á nokkrar myndir frá leiknum ef þið hafið áhuga.















Friday, October 18, 2013

Sautján metrar af mönnum


Það er ekkert grín að vera á röltinu í verslunarmiðstöð og mæta allt í einu sautján metrum af mönnum, sem verða hrikalegri eftir því sem þeir minnka. Það gerðist nú samt núna í vikunni eins og þið sjáið á myndinni hér fyrir neðan sem stolið var af Instagram.


























Fyrir þau ykkar sem eruð alveg úti á túni og þekkið ekki mennina, eru þetta (frá vinstri) miðherjinn Ragnar "Nat-vélin" Nathanaelsson hjá Þór í Þorlákshöfn, Hafþór Júlíus Björnsson (aka Ljónið), heimsklassa aflraunamaður og fyrrum körfuboltamaður í KR og loks miðherjinn Egill Jónasson úr Njarðvík.

Natvélin hefur til þessa verið talinn hæsti núlifandi frónbúinn ásamt goðsögninni Pétri Guðmundssyni, en við veittum því athygli að Ragnar er farinn að lista sig 220 sentimetra á hæð en ekki 218 eins og... við héldum.

Mögnuð mynd af mögnuðum mönnum. Mikið væri nú gaman að fá smá kommbakk frá Hafþóri í körfuna. Ætlar þú að stíga mann út sem er 170 kíló skafinn og dundar sér við það að kasta vörubílsdekkjum út og suður? Einmitt.

Við vitum að við (eins og margir aðrir) eigum það til að ofnota orðið hrikalegur, en ef einhver Íslendingur er HRIKALEGUR, er það Hafþór Júlíus. Vinur hans og æfingafélagi Stefán Sölvi er svo auðvitað engin barbídúkka heldur. Toppmenn þessir strákar.

Það var synd að missa Hafþór úr körfunni, en úr því svo þurfti að vera, var þá gott að hann færi í kraftasportið. Aflraunirnar eru ekki sport fyrir neinar dúkkulísur. Meira fyrir hrikalega körfuboltamenn.

Saturday, August 17, 2013

Sælar stelpur, LeBron hérna

































Myndirnar í þessari færslu voru teknar þegar LeBron James var að leika í auglýsingu fyrir Nike íþróttavöruframleiðandann í Miami á dögunum. Auglýsingin ætti að vera eitthvað fyrir stelpurnar, ef marka má myndirnar. Heilbrigð sál í hraustum líkama, eh?

Þarna má einnig sjá James stinga sér til (sjó)sunds, sem er eitthvað sem við áttum ekki von á að sjá nokkru sinni. Kannski erum við svona heimaleg og sveitó, en það er álíka algengt fyrir okkur að sjá blökkumann í sundi eins og á verðlaunapalli í alpagreinum. Sem sagt, ekkert mjög algengt.

Annars geta bleiknefjar þakkað fyrir að svarti maðurinn hafi enn ekki látið til sín taka í t.d. skíðaskotfiminni. Hann myndi eflaust pakka þeim hvíta saman þar eins og annars staðar á íþróttasviðinu. En nú gætum við mögulega verið komin aðeins út fyrir efnið.

Kíktu bara á bannsettar  myndirnar.











Tuesday, August 13, 2013

Tekið á því


LeBron James notar nokkuð óhefðbundnar aðferðir við að halda sér í formi.
Ef þið hélduð að hann ætlaði að nota sumarið í að liggja í sófanum og éta snakk...
Maðurinn ætlar að vinna þrjá í röð.

Sunday, August 4, 2013

Yao Ming hefur ekki minnkað


Ekki höfum við hugmynd um hvað kínverski risinn og gæðablóðið Yao Ming var að dandalast með Kanadamanninum Patrick Chan, en svo skemmtilega vill til að það náðist mynd af þeim félögum. Chan er 171 sentimetri á hæð og er margfaldur heimsmeistari í listdansi á skautum. Okkur sýnist Yao vera aðeins hærri.


Tuesday, July 2, 2013

Þegar Mark Eaton hitti Wilt Chamberlain


Varnartröllið Mark Eaton hefur meðal annars unnið sem hvatningarræðumaður síðan hann lagði körfuboltaskóna á hilluna á tíunda áratugnum.

Hinn 224 sentimetra hái miðherji var ekki mikill körfuboltamaður framan af ferlinum en fann sína hillu eins og hann segir frá í myndbandinu hérna fyrir neðan.

Eaton fékk ekki að spila mikið með UCLA háskólanum á sínum tíma og var því ekki hátt skrifaður þegar kom að nýliðavalinu í NBA árið 1982.

Hinn ævintýragjarni Frank Layden hjá Utah Jazz ákvað þó að taka sénsinn á honum í fjórðu umferðinni af því að "það er ekki hægt að kenna mönnum að vera hávaxnir."

Jazz vann sannarlega í lottóinu því Eaton á enn metið yfir hæsta meðaltal í vörðum skotum á einu tímabili (5,6) í NBA deildinni og var tvívegis kjörinn varnarmaður ársins.

Hann afrekaði meira að segja að vera valinn í Stjörnuliðið árið 1989 ásamt félögum sínum John Stockton og Karl Malone. Hann varði 3,5 skot að meðaltali í leik yfir NBA ferilinn, sem er einstakt.

Ath! - Smelltu samt á myndina af gaurnum hérna fyrir ofan og pældu í því hvað hann var raunverulega risavaxinn. "Titturinn" í Sonics-treyjunni sem er að keyra fram hjá honum á myndinni er Xavier "X-maðurinn" McDaniel, sem er rétt rúmir tveir metrar á hæð og var maður sem engin vildi mæta í dimmu húsasundi.