Showing posts with label Anthony Davis. Show all posts
Showing posts with label Anthony Davis. Show all posts

Tuesday, February 21, 2017

Nokkur orð um vistaskipti DeMarcus Cousins


Þetta kom dálítið aftan að okkur öllum. Anthony Davis var nýbúinn að leggja frá sér styttuna sem hann fékk fyrir að vera kjörinn leikmaður kvöldsins í Stjörnuleiknum og flest ykkar gengin til náða. Það var búið að vera eitthvað félagaskiptapískur í gangi yfir daginn, en menn færu nú ekki að skipta leikmönnum milli félaga á meðan þeir væru að spila Stjörnuleikinn, fjandakornið!

Jú, reyndar.

Sérstaklega ef menn eru Sacramento Kings. Og það þó allir sem réðu einhverju hjá Kings væru nýbúnir að sverja það að DeMarcus Cousins yrði ekki látinn fara frá Sacramento. Það liðu einhverjar fimmtán mínútur frá þessari hollustuyfirlýsingu Vlade Divac og félaga þangað til þeir pökkuðu nærbuxunum hans ofan í tösku og sendu hana í express til eiganda síns, sem í kaldhæðni örlaganna var einmitt staddur í New Orleans.

Þið sem hafið fylgst með atvinnuboltagreinum lengur en í eitt ár vitið ósköp vel að rekstur NBA liða er bissness en ekki fjölskylda. Einstaka klúbbar reyna að rembast við það að halda uppi einhvers konar fjölskylduímynd, en fæstum tekst það eins og nýleg dæmi með t.d. Miami Heat hafa sýnt.

Nei, viðskipti eru viðskipti eins og þeir segja og þó tímasetningin á þessum Cousins-viðskiptum hafi verið dálítið undarleg, kom hún svo sem ekkert á stórkostlega mikið á óvart. Cousins er búinn að vera í innsta kjarna slúðurfrétta í nokkur ár en ekki nokkrar vikur.

Flestir voru reyndar farnir að hallast að því að hann myndi framlengja við Kings af því þar átti hann möguleika á að fá svo miklu hærri samning hjá uppeldisfélagi sínu en í boði væri hjá einhverju hinna 29 liðanna í deildinni. Hann þarf svo sem ekki að svelta þó hann verði af þessum auka milljörðum sem hann hefði átt rétt á hjá Kings en við höfum svo sem engan áhuga á þeim hluta málsins.

Við höfum alltaf fyrst og fremst áhuga á körfuboltanum sjálfum og hvað þessi skipti þýða fyrir körfuboltalið New Orleans og Sacramento í framhaldinu. Við munum í fljótu bragði eftir einum NBA-penna sem fussaði ekki og sveiaði yfir því hvað Sacramento fékk lítið fyrir ofurstjörnuna sína og við verðum að taka undir þá hneykslan. DeMarcus Cousins er stórkostlega gallaður einstaklingur, en hæfileikar hans einir saman ættu að tryggja það að Kings fengju eitthvað smávegis í staðinn fyrir hann - jafnvel þó hann sé með lausa samninga í sumar.

En, nei. Það er varla hægt að segja það og það er ekkert við því að gera. Sacramento átti auðvitað að vera búið að selja manninn frá sér fyrir lifandi löngu, þegar það hafði einhver spil á hendi sér. Núna höfðu liðin sem voru að sparka í dekkin á Cousins með nánast öll spilin á sínum höndum. Þau þurftu ekkert að taka Cousins frekar en þau vildu. Þau gátu leyft sér að vega og meta stöðuna í rólegheitunum meðan forráðamenn Kings svitnuðu.

Vlade Divac og félagar vissu að klukkan var farin að tikka. Þeir urðu að gera eitthvað núna ef þeir ætluðu að fá eitthvað fyrir miðherjann sinn. Og ef við skoðum þessi viðskipti út frá því sjónarhorni, er það sem Sacramento fékk til baka kannski ekki svo slæmt - þó það sé auðvitað fjarri því að vera gott.

Það sem er áhugaverðast í þessu frá okkar bæjardyrum séð er tímasetningin á ákvörðun Kings. Fólk veltir því fyrir sér hvort eitthvað í fari Cousins undanfarna daga og vikur hafi jafnvel verið þúfan sem velti hlassinu endanlega. Allar þessar tæknivillur til dæmis - sem farnar eru að kosta leikbönn.

Það er ekki gott að segja hvað veldur og það skiptir náttúrulega ekki nokkru einasta máli núna, því félagaskiptin eru að fara í gegn, ef við gefum okkur að allir nái að ljúga sig í gegn um læknisskoðun (við eigum reyndar eftir að sjá Tyreke Evans sleppa í gegn um læknisskoðun, en það vill svo heppilega til að hann hóf auðvitað ferilinn sinn hjá Sacramento Kings á sínum tíma og því geta þeir bara ljósritað gamla skýrslu um hann og breytt dagsetningunni. Ekkert vesen!).


Fyrir utan nýliða, valrétti og aukaleikara er það DeMarcus Cousins sem er þungamiðjan í þessum viðskiptum og þó við vitum öll að hann er æpandi geðveikur, er framkvæmdastjóri New Orleans einfaldlega að bjarga starfinu sínu með þessum gjörningi.

Cousins er gallagripur, en hann er stórstjarna sem á að geta myndað eitt óárennilegasta sóknartvíeyki NBA deildarinnar með Anthony Davis og þó vissulega sé nokkur áhætta fólgin í því að fá til sín tímasprengju eins og Cousins, er það algjörlega áhættunnar virði af því félagið þurfti alls ekki að borga mikið fyrir hann.

Cousins er reyndar með lausa samninga í sumar og ef hann og umboðsmaður hans standa við hótanir sínar um að skrifa ekki undir neina samninga sem hugnast þeim ekki, yrði það auðvitað nokkuð blóðugt ef þessi viðskipti tryggðu Pelicans ekki annað en nokkurra mánaða leigu á miðherjanum. En, enn og aftur, þetta var ekki svo hrikalega dýrt dæmi og trúið okkur - þessi viðskipti voru eini fræðilegi möguleikinn sem New Orleans átti á því að næla sér í stjörnu á félagaskiptamarkaðnum. Auðvitað stökkva þeir á þetta!


En öllum er okkur sama um hvað stendur í samningnum hans Cousins. Við viljum vita hvort hann getur gagnast New Orleans eitthvað; hvort hann og Davis geta orðið þetta skaðræði á vellinum sem þeir eru sannarlega á pappírunum. Og þið eruð komin inn á NBA Ísland til að leita svara við þessum spurningum, af því þið megið ekki vera að því að bíða í margar vikur eftir því að fá að vita það.

Þið vitið líka að ritstjórn NBA Ísland er alltaf tilbúin að gera sig að fífli með illa ígrunduðum yfirlýsingum í allar áttir um allt og alla. Það er ein slík á leiðinni hérna um leið og þú lest þetta og við þurftum ekki að kreista hana upp úr okkur. Þið sem hafið fylgst eitthvað með hér á síðunni vitið hvað okkur finnst um hann Boogie Cousins og því vitið þið hvað okkur finnst um þessi félagaskipti.


Það var um að gera fyrir New Orleans að kýla á þetta. Ekki spurning. Sacramento hefði eflaust átt að fá eitthvað meira fyrir sinn snúð - Vlade Divac missti meira að segja út úr sér að honum hefði verið boðið meira en hann hefði klúðrað því - en Sacramento er bara Sacramento og Sacramento klúðrar alltaf hlutunum.

Það sem stuðningsmenn Kings geta þó sætt sig við er að félaginu er ekki lengur haldið í gíslingu af ofvöxnu, geðveiku og agalausu barni sem á allt of mikið af peningum og hefur aldrei fengið nei. Það eru sama og engir hæfileikar eftir í Sacramento, en þó að við vitum að forráðamenn félagsins eigi bara eftir að halda áfram að klúðra öllu, skuluð þið ekki láta ykkur bregða þó liðið sjái eitthvað aðeins til sólar á næstunni nú þegar búið er að skera krabbameinið í burtu.

Sjáið bara hvernig sjónvarpsmaður Sacramento Kings óð fram á ritvöllinn um leið og ljóst var að Cousins væri á útleið. Við vissum alveg að ástandið væri svona slæmt í Sacramento, en hversu oft sjáum við svona ummæli látin falla í NBA deildinni? Ekki oft.

Vissulega er það spennandi tilhugsun að láta sig dreyma um hvernig tveir af hæfileikaríkustu ungu stóru mönnunum í NBA í dag koma til með að vinna saman í sóknarleiknum (við skulum halda okkur á jörðinni - varnarleikurinn kemur seinna ef hann kemur yfir höfuð) og þið getið hengt ykkur upp á það að við eigum eftir að stilla inn á leiki New Orleans í forvitni okkar á næstunni.

Við skulum þó ekki fara fram úr okkur, því ef við eigum að greina þessi félagaskipti, verðum við að byrja á byrjuninni. Okkur þykir það leitt ef þessar æfingar okkar draga ykkur niður og koma ykkur á bömmer, en þið vilduð fá okkar skoðun á þessu.

DeMarcus Cousins er búinn að spila með Sacramento Kings í sjö ár og á þeim tíma hefur hann ekki náð nokkrum einasta árangri. Hljómar kannski hart, en þetta er staðreynd. Nema þú kallir það árangur að ná einu sinni að vinna 30 leiki á sjö árum árangur. Við héldum ekki.

Ástæðurnar fyrir erfiðleikum Kings hafa verið margþættar, en hluti þeirra lá hjá DeMarcus Cousins. Eins hæfileikaríkur og hann er - og hann stenst fyllilega tölfræðisamanburð við nánast hvaða miðherja sem er í sögu NBA - þá er hann latur, geðveikur, eigingjarn og fullkomlega agalaus, en þessir skapgerðarbrestir eru einmitt akkúrat andstæða þess karakters sem stórstjarna/leiðtogi NBA liðs þarf að búa yfir.

Ef við snúum þessu við til gamans, erum við komin með leikmann sem er duglegur, andlega sterkur, óeigingjarn, agaður og fórnfús. Og ef þetta eru ekki helstu kostirnir í skapgerð Tim Duncan, þá vitum við ekki hvað. Þarna sjáið þið, þetta er ekki flóknara.



Þegar þetta er haft í huga, er ljóst að DeMarcus Cousins á sér hreint ekki bjarta framtíð sem sigurvegari í NBA deildinni og ef við eigum að vera alveg hreinskilin, á hann bara einn möguleika á að komast í snertingu við einhvers konar velgengni.

Og það er ef hann endar hjá félagi með sterkan kúltúr, grjótharða skrifstofu, reyndan þjálfara sem hlustar ekki á neitt múður og liðsfélaga sem eru blanda af stjörnum og reynsluboltum.

Kannski voruð þið búin að geta ykkur til um það, en New Orleans Pelicans er hreint ekki svona félag og raunar ekki mikið nær því en Sacramento að vera svona fyrirmyndarklúbbur. Þið vitið sjálfssagt hvaða klúbbur það er sem við erum að lýsa - San Antonio er augljóslega félag sem uppfyllir megnið af þessum óraunhæfu kröfum - en málið er bara að það dugar ekkert minna þegar ólíkindatól eins og Cousins er annars vegar.


San Antonio er líklega eina félagið í NBA deildinni í dag sem tikkar í öll þessi box, en þó eru eitt og eitt félag í deildinni sem virðast hafa einhverja hugmynd um hvað það er að gera. Við höfum það sterklega á tilfinningunni að megnið af liðunum í deildinni hafi almennt séð ekki hugmynd um hvað þau eru að gera og gætu ekki svarað því hver langtímaáform þeirra væru þó þú stingir byssuhlaupi í andlitið á framkvæmdastjóranum.

En hvað um það. New Orleans er ekki félag með sterkan kúltúr. Það er félag með skárri kúltúr en Sacramento, en það segir fjandi lítið. Og af því að New Orleans er ekki með nógu sterkan kúltúr, skrifstofu og leiðtoga/stjörnur í leikmannahópnum, er þessi Cousins-tilraun dauðadæmd frá upphafi.

DeMarcus Cousins sýnir kannski á sér sparihliðarnar í nokkra daga, en svo fer hann strax aftur í sama horfið. Fer að halda félaginu í gísling með geðveiki sinni og agaleysi og strádrepur allan anda í búningsherberginu.

Hann verður fljótur að komast upp á kant við nýja þjálfarann - sennilega segir hann honum að fara til helvítis áður en langt um líður þegar þjálfarinn skammar hann fyrir að hafa fengið á sig sniðskot í þremur hraðaupphlaupum í röð af því Cousins var að öskra á dómarana og fá dæmdar á sig tæknivillur. Það er svona Cousins special, ef svo má segja.

Auðvitað vonum við að New Orleans breytist í Lísu í Undralandi og allt verði æðislegt, þeir Cousins og Davis nái óaðfinnanlega saman í vörn og sókn, liðið fari í úrslitakeppni og allir giftist prinsessunni, erfi kónginn og verði ríkir, gamlir og feitir, en þið vitið að þetta virkar ekki svona. Amk ekki þegar bandormar eins og DeMarcus Cousins eru annars vegar.

Við vonum fyrst og fremst að verði gaman að horfa á New Orleans spila um hríð og að við fáum að njóta þess að fylgjast með tveimur af hæfileikaríkustu körfuboltamönnum heims í kring um sjö fetin fara á kostum kvöld eftir kvöld.

Eða svona... þangað til Cousins springur í loft upp og gerir New Orleans að sama niðurdrepandi geðveikrahælinu og Sacramento hefur verið undanfarin ár.

Wednesday, January 13, 2016

NBA Ísland skoðar einstaka körfuboltamenn


Frávik eru nauðsynleg í samfélagi okkar fullyrti franski félagsfræðingurinn Émile Durkheim fyrir meira en hundrað árum síðan. Enski náttúrufræðingurinn Charles Darwin talaði líka um annars konar frávik - skrímsli og ýmis konar vanskapnað - sem hefur áhrif á þróun dýrategunda. Við mannfólkið erum jú ekkert annað en dýr. Þetta eru merkileg fræði þó ólík séu, frá tveimur af skörpustu hugsuðum nítjándu aldarinnar.

Nú voru þeir Darwin og Durkheim ekki svo heppnir að geta fylgst með NBA körfuboltanum, en okkur verður stundum hugsað til þeirra þegar við fylgjumst með Leiknum í dag. Það er nefnilega eins með körfuboltamenn og annað fólk - það má finna skrímsli í þeirra röðum og það má alltaf koma auga á einhverja þróun í bæði leiknum og mönnunum sem spila hann.

Þeir sem lesa NBA Ísland reglulega muna eflaust eftir því að við höfum átt það til að skrifa um sérstaka tegund leikmanna sem við köllum fyrirbæri. Sumum finnst þetta kannski ljótt orð til að lýsa körfuboltamönnum, en trúið okkur, við meinum ekkert illt með því - þvert á móti. Við köllum nefnilega ekki hvern sem er fyrirbæri. Ó, nei.






(Mynd: Lakers miðherjarnir Kareem Abdul-Jabbar, Shaquille O´Neal og George Mikan)

Ástæðan fyrir því að við erum að hugsa um fyrirbæri núna er sú að þegar við vorum að hugsa um eitt þeirra um daginn, flaug okkur í hug að líklega væru fleiri fyrirbæri í NBA deildinni í dag en nokkru sinni fyrr. Og til að færa rök fyrir því, er upplagt að útskýra fyrir ykkur hvað við meinum með orðinu fyrirbæri, greina frá sögu þess og segja ykkur loks frá fyrirbærum dagsins í dag.

Fyrirbæri er í stuttu máli sá körfuboltamaður sem skarar fram úr keppinautum sínum með líkamlegum yfirburðum sínum og/eða hreinum hæfileikum. Flest fyrirbærin hljóta þá nafngift hjá okkur af því þau eru stærri, sterkari, fljótari, fjölhæfari eða hæfileikaríkari en flestir ef ekki allir mótherjar þeirra á körfuboltavellinum.

Eins og þið getið ímyndað ykkur, er enginn á ritstjórn NBA Ísland sem fór á NBA leiki fyrstu áratugina sem deildin var í gangi og því verðum við að styðjast við ritaðar heimildir í leit að fyrirbærum eins og öllu öðru sem átti sér stað um og eftir miðja síðustu öld.

Líklega eru flestir sammála um að fyrsta fyrirbærið í sögu NBA deildarinnar hafi verið George Mikan.  Miðherjinn Mikan teldist sannarlega ekki mikið fyrirbæri í NBA deild dagsins í dag, enda ekki nema 208 sentimetrar á hæð - hvítur og luralegur náungi með gleraugu.

Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar var Mikan hinsvegar hinn eini sanni risi deildarinnar og var margfaldur stigakóngur og meistari með forvera Los Angeles Lakers í Minneapolis. Mikan var kallaður Herra Körfubolti og sjá má styttu af honum fyrir utan heimahöll Minnesota Timberwolves.

Við gætum haldið langan fyrirlestur um Mikan og þau áhrif sem hann hafði innan og utan vallar, en það sem skiptir mestu máli hvað fyrirbærafræðina varðar var að Mikan var það áhrifamikill í teignum að gerðar voru reglubreytingar út af honum.

Það eru góðar líkur á því að þú sért fyrirbæri ef þarf að breyta reglunum út af þér og það er engin tilviljun að miðherjarnir sem komu á eftir Mikan og höfðu þessi áhrif á reglurnar, fá líka á sig fyrirbærastimpilinn hjá okkur.



Næsta fyrirbæri á blaði hjá okkur kom ekki inn í NBA deildina fyrr en nokkrum árum eftir að Mikan hætti, en það var Wilt Chamberlain - mögulega fyrirbæri allra fyrirbæra.

Við höfum skrifað um Wilt áður og minnum ykkur á að þessum pistli er ekki ætlað að vera ævisaga mannanna sem fjallað er um, en Wilt er á þessum lista - og mögulega á toppnum - af því hann var fullkomlega óstöðvandi körfuboltamaður, líkamlegt og íþróttafræðilegt undur sem NBA deildin var hreinlega ekki tilbúin að taka á móti þegar hann kom til sögunnar í upphafi sjöunda áratugarins.

Wilt er eini maðurinn sem hefur skorað 100 stig í einum leik í NBA deildinni og hann er eini maðurinn sem hefur skorað 50 stig að meðaltali í leik í NBA deildinni.

Hann á flest met NBA deildarinnar í stigaskorun og fráköstum, en hann leiddi deildina líka einu sinni í stoðsendingum bara af því hann langaði að prófa það. Wilt var magnaður alhliða íþróttamaður og var frambærilegur bæði í blaki og frjálsum íþróttum á sínum tíma.

Svo skemmir það ekki fyrir goðsögninni Chamberlain að hann var sagður hafa átt bólfélaga sem skiptu þúsundum, hann spilaði einu sinni meira en 48 mínútur að meðaltali í leik yfir heila leiktíð, hann tróð einu sinni bolta með mann hangandi í honum og á að hafa fótbrotið annan mann af því hann tróð boltanum svo fast ofan á aðra löppina á honum.

Wilt Chamberlain gjörsamlega dómíneraði NBA deildinni allan sjöunda áratuginn og fram á þann áttunda og enginn leikmaður fyrr eða síðar hefur gert eins miskunnarlausar árásir á tölfræðiskýrslur í sögu körfuboltans.

Já, góðir hálsar. Wilt Chamberlain var fyrirbæri. Kannski fyrirbæriÐ.



Næstu tvö fyrirbæri á blað hjá okkur verða einfaldlega að fara þangað af því þau voru svo fáránlega góð í körfubolta, en það vill reyndar svo skemmtilega til að þau voru einu sinni saman í liði. Þetta eru Lew Alcindor, síðar Kareem Abdul-Jabbar og félagi hans Oscar Robertson.

Kareem er að mörgum talinn besti miðherji allra tíma í NBA deildinni og var sexfaldur meistari, sexfaldur leikmaður ársins og er stigahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi með 38.387 stig.

Punkturinn yfir i-ið hjá Kareem var svo einkennismerkið hans, sveifluskotið, sem gerði hann að óstöðvandi sóknarmanni. Hann upplifði það líka að reglunum í leiknum var breytt út af yfirburðum hans á vellinum.

Liðsfélagi Jabbars (um hríð hjá Milwaukee Bucks), Oscar Robertson, var annars konar fyrirbæri, en hann er fyrsti maðurinn á lista okkar sem var ekki miðherji.

Robertson var bakvörður sem er frægastur fyrir fjölhæfni sína á vellinum, enda  er hann eini maðurinn sem hefur verið með þrefalda tvennu að meðaltali í leik yfir heilt tímabil í NBA deildinni.

Robertson var framúrskarandi körfuboltamaður á öllum sviðum. Hann hafði alla kosti sem góðir bakverðir þurfa að hafa, en var ofan á það sterkur eins og ljón og frákastaði eins og stór maður.

Friday, May 22, 2015

Úttekt á úrvalsliðunum


Stundum nota sjónvarpsmenn fjölda Stjörnuleikja til að láta leikmenn hljóma rosalega góða. Þið vitið þó væntanlega að það er mjög ónákvæm aðferð til að mæla ágæti leikmanna í NBA deildinni, sérstaklega á þessum síðustu og verstu.

Það eru hinsvegar úrvalsliðin þrjú sem eiga að gefa okkur réttari mynd af því hvaða leikmenn voru að spila best á tilteknum tímabilum. Þessi aðferð er ekki gallalaus heldur vegna þess að kjörið miðar við að fylla þurfi allar leikstöður. Hér áður var ósköp einfalt að velja í þessi lið, en það er aðeins flóknara í dag. 

Þannig er búið að breyta reglunum þannig að menn geta "svindlað" aðeins og sett framherja í liðið sitt í stað miðherja ef svo býr undir og ekki er horft sérstaklega til þess hvort um er að ræða leikstjórnendur eða skotbakverði - þeir eru bara titlaðir sem bakverðir.

Valnefndin að þessu sinni var nokkuð sammála um hvaða leikmenn ættu heima í fyrsta úrvalsliðinu, enda var það ekki flókið. Það eina sem stingur í augun þar er að Marc Gasol frá Memphis skuli vera þar, en þar komum við inn á þetta sem við vorum að tuða yfir áðan - leikstöðurnar. Gengið er út frá því að það verði að vera miðherji í úrvalsliðunum hvað sem raular eða tautar - jafnvel þó hann eigi það ekki skilið.






























Marc Gasol hefur til dæmis ekkert að gera í fyrsta úrvalslið deildarinnar. Hann er vissulega mjög góður leikmaður, en það hefi verið réttara í okkar augum að velja til dæmis Chris Paul eða Blake Griffin þar inn í staðinn.

Þeir Stephen Curry, James Harden, LeBron James og Anthony Davis eru það sem við köllum nóbreiner í fyrsta liðið - það liggur í augum uppi að þeir eiga heima þar, hvort sem einhverjir þeirra misstu úr nokkra leiki í deildinni eða ekki.

Það eru hinsvegar lið tvö og þrjú sem fara aðeins í taugarnar á okkur að þessu sinni, en það er mjög auðvelt að laga það með því að skipta úrvalsliði tvö nokkurn veginn út og setja úrvalslið þrjú þar inn í staðinn. Þetta á sérstaklega við um stóru stöðurnar á vellinum, miðherja og framherjana.

Við hefðum þannig frekar sett Tim Duncan og Blake Griffin í lið tvö þar sem þeir eiga réttilega heima. Þeir eru nær því að vera í fyrsta úrvalsliðinu í okkar bókum en því þriðja og kannski á DeAndre Jordan bara heima þar með þeim.

Við höfum ekkert á móti LaMarcus Aldridge, Pau Gasol og DeMarcus Cousins, en þeir ná ekki í lið númer tvö hjá okkur - sérstaklega Pau Gasol - sem var ekki einu sinni besti maðurinn í sínu liði í vetur.

Á hverju ári er fólk að svekkja sig á því að þessi eða hinn skuli ekki ná inn í úrvalslið deildarinnar, annað sem er sérstakt við valið í ár er hvað menn þurftu að spila óguðlega vel til að komast á blað. Það segir sína sögu um styrk leikmanna þegar menn eins og Chris Paul og Russell Westbrook komast ekki í fyrsta úrvalsliðið þó þeir hafi báðir verið framúrskarandi í allan vetur. Það var bara enginn bakvörður að fara að taka sætið af annað hvort leikmanni ársins (Curry) eða manninum sem varð annar í kjörinu á leikmanni ársins (Harden).

Að lokum eru þarna tveir piltar sem vöktu athygli okkar, þeir Klay Thompson og DeMarcus Cousins. Thompson er vel að því kominn að ná inn enda spilaði hann mjög vel fyrir langbesta liðið í deildinni en við erum á báðum áttum með það hvort DeMarcus eigi heima í úrvalsliði tvö.

Hann setur vissulega upp bilaða tölfræði, betri en flestir leikmennirnir þarna, en í okkar huga á hann ekki skilið að komast í annað úrvalslið deildarinnar af því liðið hans vann ekki nema 29 leiki í vetur. 

Þú getur ekki ætlast til þess að verða verðlaunaður mikið ef liðið sem þú spilar með getur nákvæmlega ekkert. Leikmenn sem komast í úrvalslið deildarinnar eiga að vera það góðir að liðin þeirra vinni að minnsta kosti helming leikja sinna og komist helst í úrslitakeppnina. Okkur er alveg sama þó sé fátt um fína drætti í leikmannahóp Sacramento og Cousins fái litla hjálp. Þetta lið er drasl og því hefur stjarnan í því ekkert að gera í úrvalslið. 

Annar punktur varðandi Cousins er svo viðhorf hans og framkoma. Hann var aðeins byrjaður að sýna það í vetur að hann ætlaði að þroskast en hann var nokkuð fljótur að taka upp sína gömlu ósiði. Cousins skilar oftast hrikalegri tölfræði, en þetta er líka oftast innantóm tölfræði af því hún er stofnuð í tapleikjum. Þá kemur allt of oft fyrir hvað eftir annað að Cousins fari í fýlu, láti reka sig út af, nenni ekki að spila vörn og nenni ekki að keyra til baka. Úrvalsleikmenn haga sér bara ekki svona.


Sunday, April 5, 2015

NBA Ísland útnefnir leikmann ársins


Nú viljið þið náttúrulega vita hver verður valinn verðmætasti leikmaður deildarkeppninnar í NBA, það er skiljanlegt. Allt fjaðrafokið í kring um MVP kapphlaupið í vetur hefur líklega gert það að verkum að þið vitið ekki hvort þið eruð að koma eða fara í þessu sambandi.

En sem betur fer hafið þið alltaf NBA Ísland til að leiða ykkur í sannleikann ef hlutirnir eru orðnir of flóknir og við skulum leiða ykkur í sannleikann um þetta allt saman. Þegar Mest Verðmæti Pilturinn hefur verið valinn undanfarin ár, hefur verið farið eftir ákveðinni kríteríu eins og við höfum áður sagt ykkur. Oftast er hægt að sjá fyrir hver hreppir hnossið og við teljum okkur gera það núna líka, þó kapphlaupið í ár hafi verið eitt það áhugaverðasta í mörg ár.

Við höfum eitthvað komið inn á þessa umræðu í pistlum í vetur og þá - rétt eins og nú - var MVP kapphlaupið svo hart að við ákváðum að stofna okkar eigin undirflokka til að hægt væri að skipta nafnbótinni á milli þeirra sem gerðu tilkall til hennar. Rosalega árangursrík leið til að koma sér hjá því að taka erfiða ákvörðun, þið verðið að gefa okkur það. Nú eða ekki.

En nú er ekkert elsku amma lengur. Nú skulum við veita ykkur hugarró með því að segja ykkur hver verður kjörinn MVP, hver ætti raunverulega að vera kjörinn MVP og af hverju nokkrir frábærir leikmenn verða ekki kjörnir MVP. Kandídatarnir í ár skiptast í þrjá flokka of það vill svo skemmtilega til að það eru tveir menn í hverjum flokki. Við skulum hefja leik í þriðja flokknum.

3. flokkur

Þar eru menn sem hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir góðan leik í vetur. Þetta eru oftar en ekki menn sem hafa tekið t.d. nokkurra vikna rispu þar sem þeir voru framúrskarandi, en urðu svo mannlegir á ný.

Ástæðan fyrir því að menn ná ekki ofar en í þriðja flokk getur verið sú að þeir hafi misst umtalsvert marga leiki úr vegna meiðsla eða að liðið þeirra hafi ekki unnið nógu marga leiki - jafnvel misst af úrslitakeppninni. Þú verður að komast í úrslitakeppnina ef þú ætlar að verða MVP og þumalputtareglan segir okkur að ef þú ert ekki nógu góður til að draga liðið þitt í úrslitakeppnina - þá segir sig sjálft að þú ert ekkert MVP.

Og í þennan flokk fara tveir herramenn í ár. Sá fyrri á vafalítið eftir að verða fastagestur á þessum lista næsta áratuginn eða svo, en það er hann Brúnar vinur okkar - Anthony Davis hjá New Orleans.

Tölfræðin sem drengurinn er búinn að vera að bjóða upp á í vetur er eitthvað sem hefur ekki sést oft í sögu deildarinnar og síðast þegar við gáðum var hann að hóta því að setja met í PER-vísitölunni.

Davis er að bjóða upp á 25 stig, 10 fráköst og 3 varin skot að meðaltali í leik í vetur og er alltaf að verða fjölhæfari og hættulegri á báðum endum vallarins á milli þess sem hann málar tölfræðiskýrslur.

Það sem vinnur gegn Davis og hindrar hann frá því að fara hærra á listanum er staða New Orleans í töflunni og leikirnir sem hann er búinn að missa úr vegna meiðsla í vetur. Ef Brúnar klárar þessa sex leiki sem liðið á eftir, kemur hann til með að spila 67 leiki í deildarkeppninni eins og í fyrra.

Það er fjandi hart að segja að liðið hans vanti sigra svo hann komist hærra á MVP-listanum, því Skarfarnir hafa jú unnið 41 leik og tryggt sér 50% vinningshlutfall. Gallinn er að það er tæplega nóg til að skila liðinu í úrslitakeppnina og aumingja Brúnar fær að gjalda fyrir það.

Wednesday, March 11, 2015

NBA Ísland greinir MVP-kapphlaupið


Hlaðvarp þeirra Bill Simmons og Zach Lowe á dögunum kveikti hjá okkur áhuga til að blanda okkur aftur í umræðuna um hvaða leikmaður verður kjörinn verðmætasti leikmaður NBA deildarinnar í vor. Umræðan um þetta hefur verið lífleg og skemmtileg í ár og rétt eins og mörg lið hafa farið á kostum í vetur, hafa nokkrir leikmenn verið að spila eins og englar.

Áður en farið er út í þessa árlegu sálma, verðum við alltaf að ræða kríteríuna. Þegar Mest Verðmætasti Pilturinn er valinn í NBA, er það oftar en ekki sá leikmaður sem þykir hafa skarað hvað mest fram úr í einu af liðunum sem unnu flesta leiki á tímabilinu. Og tvö lið hafa unnið áberandi flesta leiki í vetur - Golden State og Atlanta.

Eins og þið sáuð þegar valið var í Stjörnuliðin í vetur, er augljóst að enginn leikmaður Atlanta Hawks passar inn í þessa kríteríu. Það er engin ofurstjarna í Atlanta, bara margir góðir leikmenn sem mynda gott lið. 


Hjá Golden State er það hinsvegar mjög augljóst hver er MVP-kandídatinn á þeim bænum. Það er Stephen Curry og því er hann langlíklegastur til að hreppa hnossið. 

Eiginlega er svo komið nú þegar að það yrði hneyksli ef hann yrði ekki valinn MVP af því hann passar best inn í þá kríteríu sem farið hefur verið eftir undanfarin ár.

En þið þekkið okkur illa ef þið haldið að við ætlum að láta okkur nægja að afgreiða þetta svona. Þeir Simmons og Lowe ræddu þessi mál í áðurnefndu hlaðvarpi, en þar brutu þeir valið upp og skiptu bestu leikmönnum ársins niður í eins konar flokka svo allir fengju hrós. Það er bráðsniðugt, þó það sé bara pæling sem skiptir engu máli þegar alvöru valið fer fram.

Við skulum því nota þetta tækifæri og gera upp hvaða leikmenn hafa verið að spila best og gera mest í vetur með því að setja þá inn í okkar MVP-formúlur og fara eftir okkar kríteríu. Hún er líka miklu ítarlegri og skemmtilegri en sú sem farið er eftir í NBA.

Þegar Verðmætasti leikmaður ársins í NBA er valinn, verður sigurhlutfall liðsins hans að vera mjög gott og það er pólitík sem við erum hjartanlega sammála. Það væri enda fáránlegt að velja mann sem er í liði með undir 50% vinningshlutfall fram yfir mann sem er að gera gott mót með sterku liði sem er til alls líklegt.

Og þegar þetta er haft í huga, er Stephen Curry óneitanlega mjög ofarlega á blaði hjá okkur alveg eins og hjá spekingum sem skrifa um NBA deildina vestra. Það er útlit fyrir að Golden State eigi jafnvel eftir að vinna vel yfir 60 leiki og ef liðið þitt vinnur yfir 60 leiki áttu ljómandi góða möguleika á MVP-styttunni ef þú hefur spilað vel í vetur. Eins og Curry hefur gert.

En Stephen Curry er svo miklu miklu meira en bara góður leikmaður í góðu liði og ef hann yrði fyrir valinu hjá okkur eins og líkur benda til, yrði það bæði af því hann er búinn að spila eins og engill í vetur og kannski helst vegna þess hvað hann er að gera fyrir Golden State þegar hann er inni á vellinum.

Thursday, January 29, 2015

Baráttan um 8. sætið í vestrinu er hörð


Það hefur sýnt sig að það er óhemju erfitt að vinna tuttugu körfuboltaleiki á einni viku. Þetta er vandamálið sem stendur frammi fyrir strákunum í Oklahoma City Thunder og farið er að vekja talsverða athygli.

Eins og þið munið kannski, voru margir fljótir að ýta á óðagotshnappinn í haust þegar ljóst varð að Oklahoma yrði án þeirra Kevin Durant og Russell Westbrook í nokkrar vikur. Alla jafna hefði það ekki verið stórmál, en ef þú ert Oklahoma City árið 2015, er það risavaxið vandamál.

Oklahoma er nefnilega lið sem má engan veginn við því að missa tvo bestu leikmennina sína. Ekkert lið á svo sem við því að missa tvo bestu leikmennina sína, en í tilviki Oklahoma er um að ræða tvo af bestu körfuboltamönnum í heimi og um leið mennina sem bera uppi 97,83% af sóknarleik liðsins.

Því fór náttúrulega allt til helvítis hjá Oklahoma á umræddum vikum eins og flestir spáðu. Þeir sem ýttu á óðagotshnappinn gerðu það af því þeir voru alveg vissir um að fjarvera þeirra Durant og Westbrook yrði til þess að Oklahoma næði ekki að komast í úrslitakeppnina í vor.

Við tilheyrðum þeim hluta fólks sem hló að þessari dramatík. 

Vesturdeildin var jú sögulega hrikaleg, en kommon, lið eins og Oklahoma yrði nú ekki lengi að vinna upp nokkra leiki þegar kanónurnar sneru aftur...

Þegar þeir félagar byrjuðu svo að spila aftur, báðir talsvert á undan áætlun, mátti sjá bera fyrir skítaglotti á andlitum okkar þegar Oklahoma byrjaði strax aftur að vinna leiki og Phoenix virtist ætla að hjálpa þeim að henda sér úr 8. sætinu í Vesturdeildinni því það byrjaði allt í einu að tapa leikjum á meðan Oklahoma vann sína.

Glottið er hinsvegar alveg horfið núna og það er meira að segja langt síðan. Staðan sem við töldum ómögulega er meira en mætt; Oklahoma er komið í mittisdjúpan skít.

Wednesday, November 19, 2014

Vaxtarkippur Brúnars og fyrirbærafræðin


Flestir sem á annað borð vita hver Brúnar er, þekkja söguna á bak við skyndilegan vaxtarkipp drengsins á unglings- og fullorðinsárunum.

Anthony Davis er með ljómandi góða boltameðferð af stórum manni að vera, en það er að hluta til vegna þess að hann gegndi stöðu bakvarðar upp í það sem nemur íslenska tíunda bekknum.

Hann var víst helst þekktur fyrir að hanga úti í horni og skjóta þristum, sem er ákaflega skondin tilhugsun í dag (í deeesch!).

Davis var víst ekki nema rétt rúmlega 180 sentimetrar á hæð í kring um 14-15 ára aldurinn, en nú þegar hann er kominn yfir tvítugt, er hann að nálgast 210 sentimetrana.

Sagt er að hann hafi mest sprottið yfir 20 sentimetra á 18 mánaða kafla.

Og hann á víst enn að vera að stækka, sem er reyndar ekkert spes, því ef hann fer ekki að hætta því, er hætt við að hann verði brothættur. Hann er alveg nógu gjarn á að meiðast nú þegar, þessi sambrýndi nördalegi og krúttlegi ofurleikmaður.

Hann er orðinn svo góður og hann er svo sérstakur leikmaður, að ef hann heldur svona áfram, förum við að kalla hann fyrirbæri. 

Og þið sem þekkið til á NBA Ísland vitið að það að vera kallaður fyrirbæri er líklega mesti heiður sem leikmanni hlotnast í okkar bókum.

Fyrirbærin eru sjaldgæf og sérstök og hver kynslóð leikmanna gefur almennt ekki af sér nema eitt fyrirbæri. Þannig var Wilt Chamberlain (f. 1936) fyrirbæri, Magic Johnson (f. 1959)var fyrirbæri, Shaquille O´Neal var fyrirbæri (f. 1972) og LeBron James (f. 1984) er fyrirbæri.

Leikmenn sem flokkast undir þetta hugtak eiga það sameiginlegt að búa yfir einstökum hæfileikum og oft eru það líkamlegir burðir þeirra sem gera það að verkum að þeir bera höfuð og herðar yfir samferðamenn sína.

Wilt og Shaq voru einfaldlega stærri, sterkari, sneggri og hæfileikaríkari en keppinautarnir - þeir voru hrein og klár genaundur. Menn eins og Magic og LeBron voru fyrirbæri á þann hátt að þeir höfðu fáa veikleika, gátu spilað nánast hvaða stöðu sem er á vellinum og gert það nær óaðfinnanlega. Fyrsta mál á dagskrá hjá þeim var og er alltaf að gera meðspilarana betri

Það er misjafnt hvenær menn ná tökum á fyrirbærafræðum sínum. Það var til dæmis vitað mál að Magic Johnson yrði/væri mjög sérstakur leikmaður löngu áður en hann byrjaði að raka sig. Þetta er ekki alveg jafn klippt og skorið hjá Davis, sem spilar líka allt aðra stöðu, en hann er líklega besta efni í fyrirbæri síðan LeBron james kom inn í deildina fyrir rúmum áratug. Og þá erum við ekki bara að tala um klæðaburðinn.


Tuesday, October 28, 2014

Brátt kemur Brúnar


Þetta er alveg frábær mynd. Meiri grísinn í ljósmyndaranum að ná henni. Hefur alveg örugglega verið óvart. Ef þú áttar þig ekki á samhenginu, er Anthony Davis í forgrunni og hálf skelkaður Tim Duncan bakatil.
































Einn besti framherji/miðherji í sögu NBA deildarinnar, sem er á síðustu metrunum á ferlinum, fylgist með efnilegasta stóra manninum í dag. Manninum sem góðar líkur eru á að verði besti körfuboltamaður í heimi ef hann heldur heilsu.

Já, hann er alveg svona efnilegur hann Brúnar vinur okkar. Það verður alveg ógeðslega gaman að fylgjast með honum í vetur.


Saturday, November 17, 2012

Kandídatar


Ef kosið yrði í dag, er ekki ólíklegt að þeir Mike Woodson
þjálfari Knicks og Anthony Davis nýliði New Orleans
Hornets myndu vinna til verðlauna.

Þá fengi Anthony Davis, eða Brúnar eins og við köllum hann,
 nafnbótina nýliði ársins. Yrði þar með fyrsti einbrúnungurinn
til að hljóta þennan heiður.














 

Á sama hátt yrði þá Mike Woodson eflaust fyrsti brúnaleysinginn
til að verða kjörinn þjálfari ársins.


Tuesday, June 12, 2012

Við höfum áhyggjur af framtíðinni í körfubolta


New Orleans mun nota fyrsta valréttinn til að taka Kentucky-framherjann hávaxna, Anthony Davis.

Annað kemur ekki til greina.

Á myndinni sérðu nákvæmlega af hverju.

Drengurinn er með yfirnáttúrulegt vænghaf og margir tippa á að hann eigi eftir að verða flottur varnarmaður í NBA um ókomin ár.

Eins og sum ykkar vita, fylgjumst við ekkert með háskólaboltanum. Með fullri virðingu fyrir þeirri keppni, þá nennum við ekki að horfa á litla krakka í Bandaríkjunum spila körfubolta. Gerum nóg af því hér heima.

Myndum kannski fylgjast með háskólaboltanum ef nú væri árið 1984, en í dag er tímanum miklu betur varið í að horfa á Iceland Express deildina og yngri flokka heima á klakanum.

Það var ekki ætlunin að nota þessa færslu til að drulla yfir háskólaboltann.

Punkturinn sem við vildum koma að, er að síðustu tvö til þrjú ár, hafa dunið á okkur loforð um að nýliðaárgangurinn árið 2012 ætti eftir að verða mjög sterkur - sá sterkasti í áraraðir.

Einmitt.

Nú heyrum við að Anthony Davis verði fínn, leikmenn tvö til sex svona la la og restin drasl.

Nýliðaárgangurinn 2013 verði svo almennilega lélegur.

Jesús, María, Jósef og allt þeirra fylgdarlið!

Þeir verða farnir að taka garðhúsgögn úr Europris í annari umferð á næsta ári.

Þetta er alvarlegt mál. Framleiðsla á góðum - og ekki síst hávöxnum - leikmönnum virðist vera að leggjast af.

Ekki margt í spilunum og við erum farin að óttast að þetta verði bara einhver búðingakeppni þegar 2003 árgangurinn lýkur keppni. Það er ekki að sjá að leikmenn á borð við Tim Duncan og Shaquille O´Neal séu væntanlegir í NBA.

Thursday, May 31, 2012

Til hamingju New Orleans


Við berum miklar taugar til tónlistarborgarinnar New Orleans og því var það okkur sönn ánægja þegar í ljós kom að körfuboltafélagið í borginni hreppti hnossið í Nýliðalottóinu.

Eins og svo oft áður þurfti liðið með lélegasta árangurinn að bíta í það súra epli að fá ekki fyrsta valréttinn þrátt fyrir að eiga bestu líkurnar á því.

Á grafinu hér til hliðar sérðu hvaða líkur klúbbarnir áttu á því að hreppa fyrsta valréttinn og þar sést glöggt að Charlotte átti auðvitað bestu líkurnar á 1. valrétti, en sem betur fer varð ekkert úr því.

Það hefði verið dapurlegt að sjá Michael Jordan skamma Brúnar inn á geðveikrahæli og bjóða svo jafnvel upp á þriðju endurkomuna eftir Stjörnuleikinn í febrúar.

Sem betur fer sér karmað oftast um að refsa skítaklúbbum sem tanka. Það átti reyndar ekki við um Golden State að þessu sinni, en félagið fékk að halda sínum valrétti sem það hafði mikið fyrir að tanka til sín í vetur. Skammarlegt metnaðarleysi.

Það er ekkert leyndarmál að hinn fjölhæfi og varnarsinnaði einbrúnungur Anthony Davis verði valinn númer eitt í sumar. Ef að líkum lætur, á Brúnar eftir að reynast slöku liði New Orleans sannkallaður hvalreki.

Gaman fyrir hinn efnilega þjálfara Monty Williams og þetta unga lið. Vonandi skemma samsæriskenningarnar ekki fyrir þeim gleðina og við fáum bara bullandi uppgang í Nawlins.