Showing posts with label Jamal Crawford. Show all posts
Showing posts with label Jamal Crawford. Show all posts

Monday, May 19, 2014

NBA Ísland metur framtíðarmöguleika LA Clippers


Það fá ekki öll lið skrifaðan um sig pistil þegar þau falla úr leik í úrslitakeppninni. Þannig er það þó með Los Angeles Clippers. Það er ekki annað hægt en að fylgja þeim inn í sumarfríið með smá pælingu. Clippers nýtur jú þess vafasama heiðurs að vera langbesta körfuboltaliðið í NBA deildinni sem komst ekki upp úr annari umferð úrslitakeppninnar.

Einvígi Oklahoma og Los Angeles Clippers var auðveldlega langbesta rimman í annari umferðinni. Við segjum auðveldlega, af því San Antonio burstaði Portland og það var eina einvígið sem keppt gat við Oklahoma-Clippers, af því það var hitt einvígið í Vesturdeildinni.

Brooklyn var ekki inni í einvíginu við Miami nema í tvo daga og Indiana-Washington var eins og að horfa á tvo gamla karla í vatnsbyssuslag með stómapoka.

Twitter-löggan var fljót til þegar Clippers datt út og miðaði rafbyssum sínum auðvitað beint á Chris Paul.

Þegar við segjum Twitter-löggan, erum við að tala um skrímslið sem er fjölmiðlar árið 2014, þar sem allir verða að greina allt viðstöðulaust og án umhugsunar. Þar sem þeir sem eru ekki fullkomnir eru leiddir til slátrunar. Strax.

Við viðurkennum það hiklaust að við látum smitast af þessu ógeðslega viðhorfi. Þessi sífellda þörf fólks til að taka náungann umsvifalaust af lífi á félagsmiðlum og í athugasemdakerfum er sífellt að verða svartari blettur í tilveru okkar allra í dag.

Hér erum við komin langt út fyrir körfubolta. Við hefðum öll gott af því að líta í eigin barm og skoða hvort við getum ekki verið umburðalyndari og jákvæðari í garð náungans þegar við sitjum við lyklaborðið.

Við ítrekum að við vitum alveg að við erum ekki barnanna best og erum alltaf með einhver leiðindi. Við erum bara að vekja athygli á þessu.

En hvað um það.

Við vorum að tala um Chris Paul og Clippers-liðið hans.

Við byrjuðum aðeins að tala um framtíðina hjá Paul og Clippers þegar einvígið við Oklahoma stóð sem hæst í síðustu viku. En nú eru lærisveinar Doc Rivers formlega komnir í sumarfrí og þá er hægt að skoða málið fyrir alvöru.

Í umræddri pælingu, sem við kölluðum Fáir hata Chris og þú finnur í seinni helmingnum á þessari færslu, vorum við að hugsa upphátt um það hvort það væri ekki eðlileg krafa að Chris Paul ætti að hafa drullast til að koma a.m.k. einu liði upp úr annari umferð úrslitakeppninnar ef hann væri þessi snillingur sem flestir vilja meina að hann sé.

Wednesday, May 14, 2014

Margt hangir á spýtunni í einvígi OKC og Clippers


Við höfum fengið að sjá rosalega mikið af mistökum í fjórða leikhluta síðustu tveggja viðureigna Oklahoma City og Los Angeles Clippers. Menn eins og Charles Barkley og Kenny Smith í þættinum Inside the NBA á TNT höfðu sérstaklega orð á því í nótt, þegar Oklahoma tryggði sér ævintýralegan 105-104 sigur í Clippers á heimavelli - og náði 3-2 forystu í einvíginu.

Auðvitað gera menn oft klaufamistök þegar svona mikið er í húfi. Barkley gerði klaufamistök eins og aðrir, líka Kenny Smith. Við gerum flest einhverja bölvaða vitleysu annað slagið, ekki síst undir pressu.

Því kemur ekki til greina að fara að setja út á þennan sportbíl sem þetta einvígi er, bara af því hann er ekki með alveg nógu góðar bremsur. Fokk itt - þá krassar hann bara - það má hafa gaman af því.

Við opnum á þessu tali um mistökin af því við viljum vera heiðarleg þegar við tölum um deildina okkar fögru. Við förum ekki að sópa því undir teppið að atriðin sem réðu úrslitum hafi sum ekki verið glæsileg. Það að einblína á það, væri samt rakinn hálfvitagangur.

Við sögðum ykkur allt frá því önnur umferðin byrjaði, en einvígi Oklahoma og Clippers ætti eftir að verða það besta í umferðinni. Og við höfum staðið við það. Þetta er langskemmtilegasta einvígið, þó aulagangur hafi vissulega sett svip sinn á síðustu tvo leiki - sérstaklega leikinn í nótt.

Clippers á að vera 3-2 yfir í einvíginu á leiðinni á heimavöllinn sinn til að loka þessu, en í stað þess að klára unninn leik, ákvað liðið að skíta á völlinn nákvæmlega eins og Oklahoma gerði í fjórða leiknum í Los Angeles. Það er því Oklahoma sem er yfir 3-2 og fær nú tvo sénsa til að loka þessu.

Það var ákveðið afrek hjá Oklahoma að klúðra leiknum á sunnudagskvöldið, en Clippers toppaði það í kvöld, á hreint út sagt glórulausum lokamínútum.

Clippers var yfir meira og minna allan leikinn og var með einvígið í hendi sér eins og frá byrjun fjórða leikhlutans í fjórða leiknum. Liðið var yfir 101-88 þegar 4 mínútur og 13 sekúndur voru eftir. Hey, þú ert með Chris Paul í leikstjórnandanum - hvað getur klikkað?

Allt.

Dómararnir flautuðu allt fyrir Oklahoma á lokamínútunum, þar sem Kevin Durant (3 af 18.879 á þeim tímapunkti) fór loksins að hitta og maður leiksins Russell Westbrook kláraði dæmið. Russ var stórkostlegur í þessum leik, en ef hann fær ekki flautið á Paul þarna í restina (sjá mynd) - er ekki talað um neitt annað fram að næsta leik en þetta glórulausa skot sem hann fór upp í á þessum tímapunkti.

Það er stundum ekki nema hársbreidd á milli þess hvort Russ er engill eða djöfull og í nótt var hann engillinn, sem var íííískaldur á vítalínunni og tryggði Oklahoma sigurinn með þremur vítum. Að hugsa sér hvað er stutt á milli Óskars og Ófeigs í þessu.

Á hinum endanum hefði einhver haldið að Chris Paul næði ágætis skoti á þeim sekúndum sem eftir voru af leiknum, en hann lét Reggie Jackson lemja sig svo fast í hendina að hann missti boltann og rann á rassgatið.

Leikur.

Eins og sönnum Twitter-notendum sæmir, höfum við að sjálfssögðu leitað logandi ljósi að einhverjum til að kenna um ófarir Clippers - bæði í þessum leik og hvar sem brugðið hefur út af leið í einvíginu. Sú leit hefur ekki borið mikinn árangur, en þó má hafa eftirfarandi í huga:

Russell Westbrook fer hamförum í þessu einvígi, fólk þarf að átta sig á því. Eins og hann er villtur og stundum bara æpandi geðveikur, ætti Oklahoma ekki séns í helvíti í þessa seríu ef hugrekki hans og krafta nyti ekki við.

Og Russ er ekki bara búinn að drita skotum út um allt - hann er líka búinn að hitta þokkalega. Pilturinn er að skila 30 stigum, 7 fráköstum, 8 stoðsendingum, 2 stolnum, 53% skotnýtingu, 41% í þristum og 87% í vítum. Ekki slæm tölfræði frá næstbesta manninum í liðinu, ha?