Showing posts with label Kareem Abdul-Jabbar. Show all posts
Showing posts with label Kareem Abdul-Jabbar. Show all posts

Wednesday, February 10, 2016

Fátt er svo með öllu illt...


Stjörnuleikurinn í NBA deildinni fer fram í Toronto klukkan eitt á sunnudagskvöldið og verður að venju sýndur beint á Stöð 2 Sport. Þessi árlegi leikur er sannarlega ekki allra og sennilega er löngu kominn tími til að hrista aðeins upp í prógramminu, svo það líkist meira körfubolta en þeim skrípaleik sem hann hefur því miður átt það til að vera undanfarin ár.

Neikvætt fólk fær mikið kikk út úr því að hrauna yfir Stjörnuleikinn og er fljótt að finna neikvæðu hliðarnar á öllu dæminu, hvort sem það er skotkeppnin, troðkeppnin eða leikurinn sjálfur. Við hérna á ritstjórninni erum sannarlega ekki saklaus af svona væli, en það er vegna þess að þegar við byrjuðum að fylgjast með NBA á ofanverðum níunda áratugnum, var næstum því spilaður hefðbundinn körfubolti í Stjörnuleiknum.

Við segjum næstum því hefðbundinn, því auðvitað spiluðu menn litla sem enga vörn í þrjá leikhluta, en við munum vel eftir því hvernig keppnisskapið í mönnum tók svo völdin þegar leið á lokaleikhlutann og þá fóru að sjást einstaka varnartilþrif líka.

Það sem þessir leikir höfðu þó langmest fram yfir Stjörnuleiki dagsins í dag, var að þeim var stýrt af alvöru leikstjórnendum - mönnum sem leituðust fyrst og fremst við að gera meðspilara sína betri.

Menn eins og Magic Johnson, John Stockton og Isiah Thomas sáu til þess að blússandi hraður sóknarleikurinn fór nokkuð stílhreint fram - það var method í því madnessi eins og sagt er.

Ætli það hafi ekki verið í kring um aldamótin sem Stjörnuleikirnir sjálfir hættu að vera þessi fagurfræðilega skemmtun sem þeir voru á árum áður, en það var að okkar mati fyrst og fremst vegna þess að leikmennirnir sem stýrðu spilinu í leiknum voru orðnir skorarar fyrst og fremst - ekki hreinir og klárir leikstjórnendur.

Við Magic, Stockton og Thomas tóku menn eins og Allen Iverson, Stephon Marbury og Steve Francis, fínir leikmenn, en undir þeirra stjórn breyttist leikurinn árlegi í langskotakeppni og röð af átakanlega lélegum sendingum sem áttu að búa til viðstöðulausar troðslur en þessar sendingar enduðu oftar en ekki uppi í þrettándu röð en ekki á Vince Carter eða Tracy McGrady.

Stjörnuleikurinn í dag minnir vissulega meira á aldamótahefðina en leikina á níunda áratugnum, en þó við tökum undir og viðurkennum fúslega að stundum sé leikurinn meiri vitleysisgangur en körfubolti, gætum við þess alltaf að muna hvaðan við erum að koma - hvar þetta byrjaði allt saman.

Það var nefnilega svo að það var Stjörnuleikur sem átti mjög stóran hlut í að koma okkur á NBA-bragðið á sínum tíma og fyrir það verðum við ávallt þakklát.

Við megum nefnilega ekki gleyma því að þó lengra komnir NBA-pjúristar fussi og hristi höfuðið yfir Stjörnuleiknum og horfi yfir höfuð ekkert á hann, eru þeir ekki einu NBA áhugamennirnir á jörðinni.

Það eru nefnilega alltaf að bætast við ungir áhugamenn um fallegustu íþrótt og bestu deild í heimi, NBA deildina, og þessu unga fólki verður að gera til hæfis líka.

Hvað er það jú sem yngstu áhorfendurnir vilja sjá? Laukrétt, þeir vilja sjá þrista, troðslur og tilþrif, þeir vilja sjá stjörnurnar sínar spila hraðan og skemmtilegan leik og jafnvel kynnast nýjum stjörnum sem þeir hafa aldrei séð áður.

Þannig var það þegar við sáum Stjörnuleikinn 1989 á Stöð 2 í gamla daga, undir styrkri stjórn goðsagnarinnar Einars Bollasonar.

Í þá daga var NBA boltinn á dagskrá vikulega á stöðinni, en þá var alltaf um að ræða gamla leiki þar sem stiklað var á stóru yfir fyrri hálfleik en svo var síðari hálfleikurinn sýndur "í beinni" - eða það höfðum við á tilfinningunni.

Það var sama hvort það var þessi ákveðni Stjörnuleikur eða hvort það var leikur með þá nýtilkomnu liði Minnesota Timberwolves, alltaf náði Einar að glæða þessa leiki lífi, spennu og drama.

Einar vissi allt um alla leikmennina og útskýrði fyrir okkur hvernig reglurnar virkuðu með reglulegu millibili líka, enda var NBA deildin hálfgerður nýliði fyrir Íslendingum, þó fólk hafi fengið að kynnast deildinni nokkrum árum áður - fyrst í Ríkissjónvarpinu ef við munum rétt.

Við vorum búin að fylgjast með öllu sem í boði var frá NBA deildinni á níunda áratugnum, en svo fengum við að sjá Stjörnuleikinn 1989 og vorum svo heppin að eignast hann á myndbandi. Áður en yfir lauk, var búið að horfa svo oft á þetta tiltekna myndband að það var orðið nánast ónýtt.

Við kunnum Stjörnuleikinn utan af, þar sem við fengum fyrst að sjá Seattle-skyttuna Dale Ellis skjóta Craig Hodges í kaf í skotkeppninni og Kenny "Sky" Walker frá New York vinna óvæntan sigur í troðkeppninni eftir að hafa komið inn í hana sem varamaður á síðustu stundu. Hér fyrir neðan sérðu mynd af liði Austurdeildarinnar:

(Efri röð frá vinstri: Charles Barkley - Philadelphia, Isiah Thomas - Detroit, Michael Jordan - Chicago, Dominique Wilkens - Atlanta, Mark Jackson - New York, Mark Price - Cleveland.
Neðri röð frá vinstri: Moses Malone (R.I.P.) - Atlanta, Kevin McHale - Boston, Brad Daugherthy - Cleveland, Lenny Wilkens, þjálfari - Cleveland, Larry Nance - Cleveland, Patrick Ewing - New York og Terry Cummings - Milwaukee).



Leikurinn 1989 hafði þá sérstöðu að hann var spilaður í Houston Astrodome höllinni og þar var sett aðsóknarmet þegar yfir 44 þúsund manns mættu á að fylgjast með snilldinni. Annað sem var sérstaklega eftirminnilegt við Stjörnuleikinn ´89 var að leikmannakynningarnar voru rappaðar af Ultramagnetic MC´s. Þetta þótti okkur um það bil það svalasta sem við höfðum nokkru sinni séð. Þið hljótið að vera sammála, því þetta rígheldur sér orð fyrir orð enn þann dag í dag:



Eins og við sögðum ykkur fyrr í pistlinum var þekking okkar á NBA deildinni á þessum tíma nokkurn veginn takmörkuð við Magic, Kareem, Bird, Jordan og Barkley - eitthvað í þá áttina - en Stjörnuleikurinn ´89 breytti þessu.

Þar fengum við að kynnast alls konar forvitnilegum leikmönnum sem spiluðu með liðum sem við vissum ekki að væru til, til dæmis lið eins og Utah Jazz! Hvað var það nú eiginlega?

Utah átti þrjá fulltrúa í Stjörnuleiknum þetta árið, þá Stockton og Malone og hinn risavaxna Mark Eaton.

Magic Johnson var meiddur þarna og því kom það í hlut John Stockton að stýra leik Vesturstrandarliðsins, sem gjörsamlega keyrði yfir andstæðinga sína.

Stockton gaf 17 stoðsendingar í leiknum (en hefur örugglega farið heim til sín og refsað sjálfum sér með gaddavír á Gamla Testaments-vísu af því hann tapaði 12 boltum í leiknum), megnið af þeim á þá Dale Ellis (26 stig) og samherja sinn Karl Malone (27 stig) sem fyrir vikið var valinn maður leiksins.

Annað sem gerði þennan leik nokkuð merkilegan var að þarna var á ferðinni nítjándi og síðasti Stjörnuleikur Kareem Abdul-Jabbar á ferlinum, en hann var tekinn inn í leikinn sem varamaður fyrir liðsfélaga sinn Magic Johnson sem var meiddur.

Jabbar kórónaði skemmtilegt kvöld með því að skora einu körfuna sína utan af velli með sveifluskoti rétt áður en leiktíminn rann út og vestrið fagnaði sigri. Já, hlutirnir voru sannarlega öðruvísi í þá daga. Sjáðu bara lið Vesturdeildarinnar á myndinni hérna fyrir neðan:

Í því var einn leikstjórnandi (Stockton #12), einn skotbakvörður (Clyde Drexler #22, Portland), þrír minni framherjar (Dale Ellis #3 - Seattle, Alex English #2 - Denver, James Worthy #42 - L.A. Lakers og Chris Mullin #17 - Golden State, tveir kraftframherjar (Karl Malone #26 - Utah og Tom Chambers  #24 - Phoenix) og svo FJÓRIR miðherjar (Kareem #33 - Lakers, (H)Akeem Olajuwon #34 - Houston, Mark Eaton #53 - Utah og Kevin Duckworth #00 (R.I.P.) - Portland).



Þið getið rétt ímyndað ykkur Stjörnuleik með fjórum miðherjum og einum leikstjórnanda í dag (þó Magic Johnson hafi auðvitað verið valinn í leikinn en ekki spilað vegna meiðsla - og miðherji komið inn í hans stað). Svona voru hlutirnir í þá daga.

NBA deildin er búin að breytast gríðarlega mikið síðan þessi skemmtilegi leikur fór fram þann 12. febrúar árið 1989, en þó gæðin í leiknum í Toronto á sunnudaginn verði eflaust eitthvað minni en þau voru fyrir aldarfjórðungi - er aldrei að vita nema séu einhverjir ungir og upprennandi körfuboltafíklar, vampíruvaktarmenn framtíðarinnar, sem fylgjast spenntir með og éta í sig hvert einasta augnablik.

Wednesday, January 13, 2016

NBA Ísland skoðar einstaka körfuboltamenn


Frávik eru nauðsynleg í samfélagi okkar fullyrti franski félagsfræðingurinn Émile Durkheim fyrir meira en hundrað árum síðan. Enski náttúrufræðingurinn Charles Darwin talaði líka um annars konar frávik - skrímsli og ýmis konar vanskapnað - sem hefur áhrif á þróun dýrategunda. Við mannfólkið erum jú ekkert annað en dýr. Þetta eru merkileg fræði þó ólík séu, frá tveimur af skörpustu hugsuðum nítjándu aldarinnar.

Nú voru þeir Darwin og Durkheim ekki svo heppnir að geta fylgst með NBA körfuboltanum, en okkur verður stundum hugsað til þeirra þegar við fylgjumst með Leiknum í dag. Það er nefnilega eins með körfuboltamenn og annað fólk - það má finna skrímsli í þeirra röðum og það má alltaf koma auga á einhverja þróun í bæði leiknum og mönnunum sem spila hann.

Þeir sem lesa NBA Ísland reglulega muna eflaust eftir því að við höfum átt það til að skrifa um sérstaka tegund leikmanna sem við köllum fyrirbæri. Sumum finnst þetta kannski ljótt orð til að lýsa körfuboltamönnum, en trúið okkur, við meinum ekkert illt með því - þvert á móti. Við köllum nefnilega ekki hvern sem er fyrirbæri. Ó, nei.






(Mynd: Lakers miðherjarnir Kareem Abdul-Jabbar, Shaquille O´Neal og George Mikan)

Ástæðan fyrir því að við erum að hugsa um fyrirbæri núna er sú að þegar við vorum að hugsa um eitt þeirra um daginn, flaug okkur í hug að líklega væru fleiri fyrirbæri í NBA deildinni í dag en nokkru sinni fyrr. Og til að færa rök fyrir því, er upplagt að útskýra fyrir ykkur hvað við meinum með orðinu fyrirbæri, greina frá sögu þess og segja ykkur loks frá fyrirbærum dagsins í dag.

Fyrirbæri er í stuttu máli sá körfuboltamaður sem skarar fram úr keppinautum sínum með líkamlegum yfirburðum sínum og/eða hreinum hæfileikum. Flest fyrirbærin hljóta þá nafngift hjá okkur af því þau eru stærri, sterkari, fljótari, fjölhæfari eða hæfileikaríkari en flestir ef ekki allir mótherjar þeirra á körfuboltavellinum.

Eins og þið getið ímyndað ykkur, er enginn á ritstjórn NBA Ísland sem fór á NBA leiki fyrstu áratugina sem deildin var í gangi og því verðum við að styðjast við ritaðar heimildir í leit að fyrirbærum eins og öllu öðru sem átti sér stað um og eftir miðja síðustu öld.

Líklega eru flestir sammála um að fyrsta fyrirbærið í sögu NBA deildarinnar hafi verið George Mikan.  Miðherjinn Mikan teldist sannarlega ekki mikið fyrirbæri í NBA deild dagsins í dag, enda ekki nema 208 sentimetrar á hæð - hvítur og luralegur náungi með gleraugu.

Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar var Mikan hinsvegar hinn eini sanni risi deildarinnar og var margfaldur stigakóngur og meistari með forvera Los Angeles Lakers í Minneapolis. Mikan var kallaður Herra Körfubolti og sjá má styttu af honum fyrir utan heimahöll Minnesota Timberwolves.

Við gætum haldið langan fyrirlestur um Mikan og þau áhrif sem hann hafði innan og utan vallar, en það sem skiptir mestu máli hvað fyrirbærafræðina varðar var að Mikan var það áhrifamikill í teignum að gerðar voru reglubreytingar út af honum.

Það eru góðar líkur á því að þú sért fyrirbæri ef þarf að breyta reglunum út af þér og það er engin tilviljun að miðherjarnir sem komu á eftir Mikan og höfðu þessi áhrif á reglurnar, fá líka á sig fyrirbærastimpilinn hjá okkur.



Næsta fyrirbæri á blaði hjá okkur kom ekki inn í NBA deildina fyrr en nokkrum árum eftir að Mikan hætti, en það var Wilt Chamberlain - mögulega fyrirbæri allra fyrirbæra.

Við höfum skrifað um Wilt áður og minnum ykkur á að þessum pistli er ekki ætlað að vera ævisaga mannanna sem fjallað er um, en Wilt er á þessum lista - og mögulega á toppnum - af því hann var fullkomlega óstöðvandi körfuboltamaður, líkamlegt og íþróttafræðilegt undur sem NBA deildin var hreinlega ekki tilbúin að taka á móti þegar hann kom til sögunnar í upphafi sjöunda áratugarins.

Wilt er eini maðurinn sem hefur skorað 100 stig í einum leik í NBA deildinni og hann er eini maðurinn sem hefur skorað 50 stig að meðaltali í leik í NBA deildinni.

Hann á flest met NBA deildarinnar í stigaskorun og fráköstum, en hann leiddi deildina líka einu sinni í stoðsendingum bara af því hann langaði að prófa það. Wilt var magnaður alhliða íþróttamaður og var frambærilegur bæði í blaki og frjálsum íþróttum á sínum tíma.

Svo skemmir það ekki fyrir goðsögninni Chamberlain að hann var sagður hafa átt bólfélaga sem skiptu þúsundum, hann spilaði einu sinni meira en 48 mínútur að meðaltali í leik yfir heila leiktíð, hann tróð einu sinni bolta með mann hangandi í honum og á að hafa fótbrotið annan mann af því hann tróð boltanum svo fast ofan á aðra löppina á honum.

Wilt Chamberlain gjörsamlega dómíneraði NBA deildinni allan sjöunda áratuginn og fram á þann áttunda og enginn leikmaður fyrr eða síðar hefur gert eins miskunnarlausar árásir á tölfræðiskýrslur í sögu körfuboltans.

Já, góðir hálsar. Wilt Chamberlain var fyrirbæri. Kannski fyrirbæriÐ.



Næstu tvö fyrirbæri á blað hjá okkur verða einfaldlega að fara þangað af því þau voru svo fáránlega góð í körfubolta, en það vill reyndar svo skemmtilega til að þau voru einu sinni saman í liði. Þetta eru Lew Alcindor, síðar Kareem Abdul-Jabbar og félagi hans Oscar Robertson.

Kareem er að mörgum talinn besti miðherji allra tíma í NBA deildinni og var sexfaldur meistari, sexfaldur leikmaður ársins og er stigahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi með 38.387 stig.

Punkturinn yfir i-ið hjá Kareem var svo einkennismerkið hans, sveifluskotið, sem gerði hann að óstöðvandi sóknarmanni. Hann upplifði það líka að reglunum í leiknum var breytt út af yfirburðum hans á vellinum.

Liðsfélagi Jabbars (um hríð hjá Milwaukee Bucks), Oscar Robertson, var annars konar fyrirbæri, en hann er fyrsti maðurinn á lista okkar sem var ekki miðherji.

Robertson var bakvörður sem er frægastur fyrir fjölhæfni sína á vellinum, enda  er hann eini maðurinn sem hefur verið með þrefalda tvennu að meðaltali í leik yfir heilt tímabil í NBA deildinni.

Robertson var framúrskarandi körfuboltamaður á öllum sviðum. Hann hafði alla kosti sem góðir bakverðir þurfa að hafa, en var ofan á það sterkur eins og ljón og frákastaði eins og stór maður.

Thursday, November 5, 2015

"Heppnir" Stríðsmenn í sögulegu samhengi


Við erum reyndari en svo í bransanum að við látum smá flugeldasýningu frá Stephen Curry slá okkur út af laginu og fá okkur til að skrifa pistil um að hann sé últra-mega-bestur í heimi. Það er samt allt í lagi að leyfa sér að brosa og gleðjast þegar drengurinn fer hamförum eins og hann hefur gert nú í upphafi leiktíðar. Um það snýst þetta nú allt saman - að hafa gaman.


Annað atriði sem tengist frammistöðu Curry undanfarin misseri með beinum hætti er gengi liðs hans síðustu tólf mánuði. Það er hlutur sem hefur verið til umræðu undanfarið og í þeirri umræðu hafa komið fram skoðanir sem urðu helsta kveikjan að þessum pistli.

Umræðan um meinta og raunverulega heppni Golden State-liðsins á síðustu leiktíð er nefnilega ekki að deyja og virðist meira að segja lifa góðu lífi. Þannig er ekki langt síðan fjölmiðlar nýttu tækifærið og tóku ummæli Doc Rivers þjálfara Clippers og rifu þau úr samhengi, þegar hann hafði orð á því að vissulega hefði Golden State haft heppnina með sér á leið sinni að titlinum á síðustu leiktíð. Við sögðum þetta nákvæmlega sama oftar en einu sinni, en fólk sá líka ástæðu til að taka það úr samhengi.

Það sem okkur þótti nauðsynlegt að benda á í þessu samhengi, er að þó Warriors hafi ef til vill haft heppnina með sér eins og öll lið sem verða meistarar í NBA, bendir nákvæmlega ekkert til þess að þar hafi verið á ferðinni lið sem grísaðist til að vinna einn meistaratitil. Þvert á móti, segja tölfræðin og sagan okkur að Golden State hafi verið eitt öflugasta lið sögunnar og því vel að titlinum komið hvort sem vegurinn að honum var holóttur eða malbikaður.


Við erum búin að segja ykkur þetta oft áður og ef þið eruð orðin leið á því, skulið þið bara sleppa því að lesa þetta. Ætlun okkar með þessum áróðri er ekki að troða því upp á ykkur að Warriors-liðið sé besta lið allra tíma - okkur langar bara að benda aftur á það að árangur þessa liðs var enginn grís. Langt í frá.

Hvort sem Golden State var heppið á síðustu leiktíð eða ekki, fór árangur liðsins í sögubækurnar af því hann var einn sá besti sem sést hefur. Nóg er að nefna að liðið vann 67 leiki í deildarkeppninni, sem er eitthvað sem við sjáum ekki á hverju ári eins og þessi tafla sýnir.


Frekari tölfræðigröftur sýnir að Golden State var líka með einn hagstæðasta stigamun per 100 sóknir sem sést hefur, enda vann það ekki bara stóra sigra, heldur gat líka leyft sér þann munað að hvíla stjörnurnar sínar í fjórða leikhluta leik eftir leik.

Þeir segja að vörn vinni titla og þó það sé klisja, var það sönn klisja á síðustu leiktíð þegar besta varnarlið deildarinnar varð meistari. En Golden State var nefnilega ekki bara besta varnarlið deildarinnar, það var líka veiðihári frá því að vera besta sóknarlið deildarinnar. Það var í öðru sæti yfir bestu sóknina, rétt á eftir Los Angeles Clippers eins og við höfum tuggið í ykkur 200 sinnum.

Og það er sannarlega ekki algengt að lið séu á eða við toppinn í báðum katagóríum. Síðasta lið sem við munum eftir sem var á toppnum bæði í vörn og sókn var ofurlið Chicago Bulls frá árinu 1995-96 sem margir kalla besta lið allra tíma. Lið eru sæmd slíkum titlum þegar þau vinna 72 leiki í deildarkeppninni (NBA met), eru best í vörn og sókn, hagstæðasta stigamuninn (+13) og vinna loks titilinn.

Hérna er tafla frá tölfræðivélinni John Schuhmann á NBA punktur kom, sem sýnir okkur hina og þessa tölfræði öflugustu liðanna í nútímakörfuknattleik.


















Golden State var aðeins þriðja liðið á síðustu 38 árum sem var á topp tvö í bæði vörn og sókn og stigamunur liðsins (+11,4 stig per 100 sóknir) var sá fjórði besti á sama tíma á eftir Chicago-liðunum 1996 (+13,3 og 72 sigrar) og ´97 (+12 og 69 sigrar) og meistaraliði Boston Celtics frá árinu 2008 (+11,5). Þetta Boston lið var besta varnarlið deildarinnar á sínum tíma og vann 66 leiki, en aðeins í tíunda sæti í sókn og fór ekki beint óaðfinnanlega í gegn um úrslitakeppnina eins og þið munið kannski.

Sunday, September 27, 2015

Af Kevin Johnson, Mark Price og skotfeimni Suns


Þú hefur sennilega ekkert við Kevin Johnson að gera ef þú ert svo heppinn að vera þegar með Mark Price í liðinu þínu.

Þannig sáu forráðamenn Cleveland þetta leiktíðina 1987-88 þegar Johnson var hluti af leikmannaskiptum Cleveland og Phoenix, sem áttu eftir að hafa mikil áhrif á báða klúbba - aðallega til batnaðar.

Ári síðar var Mark Price orðinn Stjörnuleikmaður og Kevin Johnson árið þar á eftir. Okkur verður oft hugsað til þessara tveggja frábæru leikstjórnenda, sem settu svip sinn á NBA deildina í kring um 1990.

Þeir Price og Johnson voru gjörólíkir leikmenn sem léku í NBA deild sem var gjörólík þeirri sem við fylgjumst með í dag.

Báðir hefðu þeir sómað sér vel í nútíma NBA, en þó sérstaklega Price, sem segja má að hafi verið á undan sinni samtíð.

Liðsfélagi hans frá Cleveland, Steve Kerr, lét einhvers staðar hafa eftir sér að Price hafi fullkomnað listina að kljúfa varnir andstæðinganna í tvímenningi - skottast milli þeirra í vegg og veltu.

Þess utan var Price margfaldur Stjörnuleikmaður og einn besti leikstjórnandi deildarinnar á sínum tíma, en leikstíll hans hefði hentað enn betur í dag. Price skaut mikið, skaut mikið af 3ja stiga skotum, löngu áður en það varð þessi stóri þáttur af öllum sóknarleik eins og það er í dag.

Ef við ættum að finna einhvern leikmann úr sögu NBA til að reyna að herma eftir leikstíl Stephen Curry, myndum við velja Mark Price. Það segir ykkur kannski hvernig leikmaður hann var.

Hann hafði vissulega ekki hraðann hans Curry og fólk þurfti kannski ekki að byrja að dekka hann um leið og hann kom yfir miðju, en að öðru leyti er Price sennilega besta Curry-eftirlíkingin sem okkur dettur í hug.

Cleveland fór frá því að vera drasl yfir í að vera ljómandi gott körfuboltalið undir stjórn Mark Price á sínum tíma. Hann fékk mikla hjálp við þetta verkefni frá mönnum eins og Brad Daugherty og fleirum. Þetta lið komst aldrei yfir Jordan-þröskuldinn í austrinu en var samt hörkulið.

Og Price var hjartað í því, þar sem hann varð meðal annars fyrsti maðurinn annar en Larry Bird til að bjóða upp á 50/40/90 leiktíð árið 1989 þegar hann skilaði 19 stigum og 8 stoðsendingum með skotnýtingu upp á 53%, 44% í þristum og 90% á línunni.

Ástæðan fyrir því að við fórum að pæla í þeim Price og Johnson var að við rákumst á gamlar tölfræðiskýrslur og þegar það gerist, eigum við það til að fara að fabúlera. Og þá koma svona pistlar eins og andskotinn út í bláinn og ekkert samhengi í neinu.

Þegar við vorum að leika okkur að skoða tölfræðina hans Kevin Johnson hjá Phoenix kom eitt og annað skemmtilegt í ljós.

Við höfum alltaf vitað hvað Johnson var góður leikmaður, en við vorum t.d. búin að gleyma því hvernig liðið hans leit út umrædda leiktíð - veturinn 1988-89.

Eins og við minntumst á áðan, voru þriggja stiga skot ekki komin í svona svakalega tísku og í dag árið 1989. En það var nefnilega mesta synd, því ef eitthvað lið hefði getað látið vaða fyrir utan, var það einmitt þetta Phoenix-lið. Ekki vantaði mannskapinn í það - mönnum bara flaug þetta ekki í hug.

Eða hvað myndir þú gera ef þú værir með Dan Majerle, Craig Hodges, Steve Kerr, Jeff Hornacek og Eddie Johnson í liðinu þínu, skorunarmaskínu eins og Tom Chambers og frábæran leikstjórnanda eins og Kevin Johnson sem getur komist fram hjá manninum sínum og inn í teig í hvert einasta skipti sem honum dettur það í hug?

Já, þú myndir líklega skjóta. Við vitum að við hefðum gert það.

Pældu í þessum skyttum! Dan Majerle tók tvisvar þátt í 3ja stiga skotkeppninni um Stjörnuhelgina og þeir Kerr, Hornacek og Hodges unnu hana - oft!

Og þeir tóku ekki einu sinni flest skot í Suns-liðinu árið 1989. Það var Eddie Johnson sem gerði það - tók næstum helminginn af þeim. Og hitti eins og fjandinn, 41%.

Chambers tók líka fleiri 3ja stiga skot en allir kóngarnir, sem er skondið, því hann var aldrei sérstök langskytta. Setti eitt af þremur þetta árið og var innan við 31% á ferlinum.

Hugsið ykkur að vera með allt þetta fæjerpáver í liðinu sínu og nota það ekki neitt. Phoenix-liðið árið 1989 tók samanlagt 481 3ja stiga skot á leiktíðinni og setti 168 þeirra niður (35%).

Ef þetta Suns-lið hefði verið einstaklingur, hefði það verið sjötta afkastamesta langskytta síðustu leiktíðar í NBA deildinni. Stephen Curry tók næstum því 650 þrista 2015 - og setti 286 þeirra niður!

Damian Lillard tók 572 þriggja stiga skot og það vill svo skemmtilega til að félagarnir James Harden og Trevor Ariza hjá Houston tóku báðir 555 slík í vetur.

Þá tók Klay Thompson félagi Curry hjá Warriors einnig fleiri þrista en ´89 lið Suns, eða 545.

Veistu hvað okkur finnst samt merkilegast við þetta Suns-lið?

Já, þú giskaðir rétt. Það sem er fáránlegast við þetta tiltekna lið er að Kevin Johnson var ekki valinn í vesturliðið í Stjörnuleiknum í Houston árið 1989.

Og það þó Magic Johnson væri meiddur og gæti ekki tekið þátt í leiknum. Nei, þeir ákváðu að senda Kareem gamla frekar í leikinn þó hann hefði ekkert erindi þangað. Hann var fjórði miðherji vesturliðsins (Hakeem Olajuwon, Kevin Duckworth, Mark Eaton) þetta árið. John Stockton var eini leikstjórnandi vestursins og lauk keppni með þrennu (11, stigum, 17 stoðsendingum og 12 töpuðum boltum).

Kannski komst Kevin Johnson ekki í Stjörnuliðið af því hann var með svo lélega tölfræði þetta árið...

Nei, bíddu aðeins. Hann var með 20 stig, 12 stoðsendingar*, 4 fráköst 1,7 stolna, 50% skotnýtingu, 88% vítanýtingu, spilaði 29 mínútur í leik (3. mesta í deildinni) og var kjörinn sá leikmaður sem tók mestum framförum í NBA deildinni á tímabilinu.

O.k, kannski ekki það.

En kannski var liðið sem hann var að spila með bara svona lélegt? U, nei. Phoenix var með 29 sigra og 17 töp um Stjörnuleikshelgina. O.k. - ekki það heldur.

Phoenix fékk einn fulltrúa í Stjörnuleiknum, hann Tom Chambers (25 stig, 8 fráköst), sem var fínt. En Kevin Johnson fékk ekki að fara með honum til Houston - og ekki Eddie Johnson heldur (21 stig).

Jabbar var með 10 stig og 4,5 fráköst að meðaltali hjá Lakers ´89 og hætti að spila um vorið.

Við erum alveg handviss um að við höfum bjargað mannslífum með þessum fróðleik, þó hann haldi samhengi á svipaðan hátt og Troll 2.

-------------------------------------------------------------------

* - Það er líka alveg eðlilegt að 12,2 stoðsendingar í leik hafi ekki dugað leikmanni nema í 3. sæti á lista stoðsendingahæstu leikmanna ársins í NBA árið 1989, en svona var að spila í deild með John Stockton (13,6 stoðsendingar í leik) og Magic Johnson (12,8 stoðsendingar í leik).

Sunday, March 15, 2015

Frá stórum mönnum til stormsveita


Körfuboltinn sem spilaður er í NBA deildinni er búinn að þróast og breytast gríðarlega frá því deildinni var hleypt af stokkunum um miðja síðustu öld. Fyrir vikið er erfitt - og raunar ekki hægt - að bera saman spilamennsku manna sem spiluðu í deildinni með áratuga millibili.

Boltinn sem spilaður er í dag er ekki bara allt öðruvísi en sá sem var spilaður t.d. á áttunda og níunda áratugnum - hann er líka allt öðruvísi en boltinn sem spilaður var í deildinni fyrir 20 árum. Og við þurfum ekki einu sinni að fara svo langt aftur til að finna spilamennsku sem er allt öðruvísi en sú sem við sjáum í dag.

Það er nóg að skoða fyrstu meistaralið San Antonio Spurs í kring um aldamótin, en þessi lið - auk aldamótaliðs Lakers - voru að heita má síðustu liðin sem unnu meistaratitla að megninu til út á stóru mennina sína. 

Tim Duncan og David Robinson lögðu grunninn að titlum Spurs árin 1999 og 2003 og gjöreyðingarvopnið Shaquille O´Neal ruddi braut Lakers að þremur titlum í röð árin 2000-2002.

Þar með erum við ekki að segja að stórir menn skipti ekki máli í NBA deildinni, þeir hafa oftast úrslitaþýðingu í varnarleiknum þó þeir geri það kannski sjaldnast í sókninni nú orðið.Allar þessar breytingar vöktu okkur til umhugsunar. 

Við höfum oft skrifað pistla um dauða miðherjastöðunnar hér á þessu vefsvæði, en þó allt í einu virðist eitthvað aðeins vera að rofa til í þeim efnum í deildinni, er ljóst að miðherjarnir eru nánast horfnir af sjónarsviðinu sem bestu menn deildarinnar eins og hér áður fyrr.

Þannig hafa aðeins þrír hreinræktaðir miðherjar* verið kjörnir leikmenn ársins í NBA deildinni á síðustu þremur áratugum, eða síðan þeir Moses Malone og Kareem Abdul-Jabbar skiptu styttunni á milli sín á árunum í kring um 1980. Þetta eru Hakeem Olajuwon (1994), David Robinson (1995) og Shaquille O´Neal (2000).

Þessi rannsókn leiðir óneitanlega í ljós hvað hlutur miðherjans hefur verið lítill á síðustu árum, sérstaklega af haft er í huga hvað stóru mennirnir áttu deildina á fyrstu áratugunum. Þannig voru hvorki meira né minna en 23 af fyrstu 28 verðmætustu leikmönnum ársins í NBA deildinni miðherjar og á kafla unnu þeir MVP tíu ár í röð. 

Á árunum 1960 til 1980 unnu aðeins tveir leikmenn nafnbótina MVP sem ekki voru miðherjar, þeir Oscar Robertson og Bob McAdoo, sem reyndar var stundum titlaður miðherji, þó við sjáum hann frekar sem framherja.

Kannski má segja að Julius Erving hafi hringt inn nýja tíma þegar hann var kjörinn MVP árið 1981, því þó Moses Malone tæki verðlaunin 1982 og ´83, má kannski segja að gullöld miðherjanna hafi verið liðin. 

Þarna fór í hönd tími minni, fjölhæfari og hæfileikaríkari leikmanna sem höfðu MVP-styttuna í sínum fórum allar götur til ´94 og ´95 þegar Hakeem og Robinson fengu hana lánaða. 

Mennirnir sem um ræðir eru auðvitað Magic Johnson, Larry Bird og Michael Jordan. Þeir skiptu styttunni á milli sín óslitið frá 1984 til 1993 þegar Charles Barkley hirti hana. Þessi stutta sagnfræðilexía sýnir okkur svo ekki verður um villst að það eru breyttir tímar í NBA deildinni.

En það er svo sem ekki bara dauði miðherjans sem hefur haft áhrif á breytingarnar í deildinni. Reglubreytingar hafa líka haft gríðarlega mikið að segja og þar bera hæst breyttar reglur um þukl á andstæðingunum í varnarleiknum og þegar svæðisvarnarafbrigði voru leyfð eftir að einn á einn hjakkið um miðjan tíunda áratuginn stóð illa í fagurkerum.

Til að gera langa sögu stutta er búið að sníða reglurnar í NBA deildinni þannig til að bakverðirnir eru orðnir ósnertanlegir miðað við það sem tíðkaðist áður (þegar þeir máttu allt nema berja hver annan) og regluhöfundar hafa leitast við að vernda flæði og hraða leiksins með von um hærra stigaskor og hærra skemmtanagildi. 

Þessar áherslubreytingar fara ekki vel í alla og reglulega má heyra gamla nagla kvarta yfir því að deildin í dag sé fyrir dúkkulísur.

Annað atriði sem vegur þungt í öllum þessum breytingum er sjálfur leikstíllinn, en hann hefur verið að þróast í mjög ákveðna átt á síðasta áratug eða svo. Margir kenna þennan nýja stíl við Gregg Popovich þjálfara San Antonio, en staðreyndin er nú sú að það var Mike D´Antoni og Phoenix-liðið hans sem kom þessari tísku af stað.

Þetta Phoenix-lið var sannarlega magnað og líklega hafa flestir sem lesa þetta orðið vitni að spilamennsku þess í lengri eða skemmri tíma á síðasta áratug. Hinn frægi "sjö sekúndur eða minna" -sóknarleikur Suns undir stjórn D´Antoni og umfram allt Steve Nash.

Það er sannarlega ótrúlegt, en eins falleg, skemmtileg og áhrifarík þessi leikaðferð Suns var, eru menn enn þann dag í dag að bölva henni í sand og ösku.

Við vitum alveg upp á hár af hverju menn höfðu svona mikið á móti Suns á sínum tíma og hafa enn. Það er út af öfund og engu öðru. 

Bæði þjálfarar og leikmenn annara liða í deildinni öfunduðu Suns af því að spila svona leiftrandi sóknarleik, vinna leiki og skila flottum tölum. Svo hlakkaði alltaf í þessum leiðindapésum þegar Phoenix féll úr leik í úrslitakeppninni af því að "það var ekki hægt að vinna titla á sóknarleiknum einum saman."

Við vorum stundum í þessum grátkór sem gagnrýndi Suns, en ef þetta lið hefði haft heppnina með sér bara einu sinni á þessum árum, hefði það vel getað unnið meistaratitilinn. Heppni var hinsvegar eitthvað sem var ekki í spilunum hjá þessu liði, því á hverju einasta ári voru það meiðsli eða leikbönn sem hjálpuðu til við að ýta því úr leik í úrslitakeppninni.

Það er tilgangslaust að velta sér upp úr þessari óheppni Suns í dag og nær væri að minnast þess þess skemmtilega sem það kom með inn í leikinn. Og það var sko skemmtilegt að horfa á þetta lið spila. Ef þú hafðir ekki gaman af því að horfa á Phoenix-hraðalestina á fullri ferð, varstu ekki með púls yfir höfuð.

Allt hófst þetta á tvímenningi Steve Nash og Amare Stoudemire (þegar hans naut á annað borð við) og restin af liðinu raðaði sér út á kantana til að búa til pláss og bomba niður þriggja stiga skotum. 

Það var alveg sama hver átti í hlut, hvort það voru bakverðir, framherjar eða miðherjar - allir voru á græna ljósinu og þessi stormsveitaleikaðferð átti eftir að starta nýju trendi í NBA deildinni. 

Þetta trend var ekki bara að spila hratt og létt, heldur var Phoenix líka eitt af fyrstu liðunum sem fór að spila með hugann við tölfræði fyrir lengra komna. Það tók tölfræðinga í NBA deildinni marga áratugi að átta sig á því hvað þriggja stiga skotið er dýrmætt og eins og þið munið var enginn maður í þessu Suns-liði feiminn við þristana.

Ein af þrálátustu goðsögnunum um þetta lið var að það hefði verið hræðilegt varnarlið, en það er einfaldlega kjaftæði. Það var vissulega ekkert San Antonio eða Detroit, en það var með þokkalegustu varnartölur ár eftir ár, enda hefði það aldrei verið að vinna svona sextíu leiki ef það hefði verið ónýtt í vörninni. Sóknarleikur liðsins var reyndar sögulega góður, en ekki svo góður.

Nú erum við ekki að segja að öll liðin í NBA deildinni í dag séu að spila "sjö sekúndur eða minna" sóknarleik, en leikaðferð Suns forðum gekk öll út á háan vegg og veltu, að teygja á gólfinu með skyttum og spila hraðan og óeigingjarnan sóknarleik. 

Ef við ættum að lýsa algengustu leikaðferð NBa deildarinnar í dag gengur hún nákvæmlega út á þetta, ekki síst leikaðferð meistaranna sjálfra í lokaúrslitunum í fyrra þegar þeir tættu ofurlið Miami í sundur með spili sínu.

Nú getur vel verið að einhver ykkar sakni þess að horfa á svartmálm á borð við þann sem New York spilaði um miðjan tíunda áratuginn, nú eða ofbeldisfullan varnarleik Pörupiltanna í Detroit þar á undan, en þó við höfum haft lúmskt gaman af því öllu saman, er það engan veginn sambærilegur körfubolti. Með öðrum orðum: ef þú saknar áðurnefndra slagsmála svona mikið, væri upplagt fyrir þig að hætta að horfa á NBA boltann og einbeita þér að því að horfa á handbolta.

Það má vel vera að miðherjarnir séu hættir að vera bestu körfuboltamenn í heiminum og ef við eigum að vera alveg hreinskilin, vorum við farin að hafa dálitlar áhyggjur af framtíðinni í öllu þessu miðherjaleysi.

Körfuboltinn er hinsvegar eins og lífið, hann finnur sér alltaf leið í gegn um grjótið. Hann breytist stundum í nokkuð stórum stökkum, en hann finnur alltaf rétta farveginn á endanum. Skemmtilegasta, besta og fallegasta íþróttagrein heimsins væri það heldur ekki ef hún þyldi ekki að þróast aðeins. Þó það nú væri.