Showing posts with label Landsbyggðin. Show all posts
Showing posts with label Landsbyggðin. Show all posts

Saturday, October 26, 2013

Héraðsbúar með dólg í Dalhúsum


Aldrei þessu vant nenntum ómögulega að keyra vestur á Ísafjörð í gærkvöldi, svo við ákváðum í staðinn að skella okkur í Grafarvoginn og sjá Fjölnismenn taka á móti Hetti frá Egilsstöðum. Fljótlega varð ljóst að Héraðsmennirnir voru ekki mættir í Dalhúsin til að lita og leira, heldur flugu þeir aftur austur með 83-90 sigur í farteskinu.

Ef þið staldrið aðeins við og hugsið um helstu kenningar sem settar hafa verið fram í skynheildarsálfræði og hugrænni bókmenntafræði frá árinu 1990, verður niðurstaðan mjög líklega eitthvað svipuð og þekking okkar á Hattarliðinu.

Sem sagt engin.

Aldrei hefði okkur grunað að Höttur ætti eftir að æða í Grafarvoginn og vera bara með læti og vinna, en það var kannski bara af því við höfðum hvorki hugmynd um styrk heimamanna né gestanna.

Breytingarnar á liði Fjölnis frá því á síðustu leiktíð eru svo rosalegar að í rauninni átti klúbburinn ekki annað eftir en að skipta um nafn og búning.

Það hljómar reyndar alls ekki illa að kalla körfuboltafélagið í Grafarvogi bara Huginn, Súluna eða Hrafnkel Freysgoða, en þeir hafa ákveðið að halda sig við Fjölnisnafnið og ætla sér væntanlega fljótt upp í efstu deild aftur..

Brottfallið á úrvalsleikmönnum Fjölnis hefur verið mikið á síðustu árum, en síðastliðið vor þegar liðið féll í 1. deildina, steyptust hrægammarnir á líkið og kroppuðu allt kjöt af beinunum. Þegar upp var staðið voru nær allir strákarnir sem kunnu körfubolta farnir úr Grafarvoginum. Það væri hægt að setja saman suddalegt körfuboltalið úr mannskapnum sem komið hefur upp hjá Fjölni síðustu 8-10 árin eða svo, en það þýðir ekkert að tala um það.

Sú samsuða leikmanna sem nú er í Grafarvoginum er reyndar drullu skemmtileg, við ljúgum engu til um það. Þar kennir ýmissa grasa og finna má leikmenn kenndir hafa verið við Keflavík, Grindavík, Snæfell og KR svo einhver séu nefnd.

Gengi Fjölnis hefur kannski ekki verið fullkomið í upphafi leiktíðar, en þetta lið er ljómandi skemmtilegt og óskandi væri að fleiri nenntu að mæta á völlinn og styðja þessa stráka. Stundum höfðum við á tilfinningunni að það væru fjórtán manns á leiknum.

Það verður ekki bara breyting á leikmannahópnum þegar lið fellur í 1. deildina. Áhorfendum fækkar umtalsvert, fjölmiðlamenn eru sjaldséðir, umgjörðin dettur aðeins niður og hvorki vott né þurrt í boði fyrir blaðamenn uppi á svölum.

Þetta er miður, en vafalítið algeng þróun hjá félögum við þessar aðstæður.

Þetta raus í okkur er auðvitað ekki hefðbundin umfjöllun um körfuboltaleikinn frekar en venjulega þegar við byrjum að rugla, en við getum að sjálfssögðu ekki sett lokapuntinn á þessa hugleiðingu án þess að minnast á hrikalegheitin sem Ólafur Torfason var að bjóða upp á hjá heimamönnum.

Það var eins og hann hefði móðgast þegar Pavel Ermolinski setti tröllaþrennuna í Stykkishólmi í gær og ákveðið að fara sjálfur á tölfræðitúr.

Uppskeran hjá miðherjanum kjötmikla var 25 stig (10-16 í skotum), 20 fráköst og  5 stoðsendingar. Þetta þýðir hvorki meira né minna en 43 stig í framlag frá pilti, sem er glæsilegur árangur. Ekkert að því að vera með 13/13 meðaltal í deildinni eins og Ólafur í byrjun leiktíðar.

Af öðrum snáðum í Fjölnisliðinu má nefna að Páll Fannar Helgason var flottur í leikstjórnandanum með 18/5/4 og fína hittni og þá var atmennið Davíð Ingi Bustion (10/9/4) sjálfum sér samkvæmur og hamaðist eins og enginn væri morgundagurinn.

Davíð, sem varð Íslandsmeistari með Grindavík á síðustu leiktíð, minnir okkur stundum á Denver-manninn Kenneth Faried í NBA deildinni. Helsti munurinn á þeim er þó sá að Davíð er miklu betri varnarmaður.

Emil Jóhannson hafði mjög hægt um sig í liði Fjölnis það litla sem hann spilaði. Við áttum okkur ekki á því hvort það var út af meiðslum eða hvort honum er bara ekki ætlað stærri rulla en þetta í liðinu. Furðulegt.

Erlenda vinnuaflið í liðunum var í besta falli bleh.

Hérna fyrir neðan getið þið kíkt á nokkrar myndir frá leiknum ef þið hafið áhuga.















Saturday, November 5, 2011

Ljómandi kvöld í Ljósabekknum




Já, við sáum Stjörnuna gera góða ferð í Ljósabekkinn í Þorlákshöfn í kvöld. Vinna þar 97-86 sigur á Þórsliði sem hefur byrjað vel í deildinni og á eftir að vinna ansi marga leiki á heimavelli í vetur.

Það leyndi sér ekki að Stjörnumönnum þótti mjög vænt um þennan sigur og það var kannski ekki skrítið á miðað við hve illa liðið spilaði þrjá síðustu leikhlutana gegn KR um daginn. Þá var eins og allt færi fjandans til þegar Jovan þurfti að yfirgefa völlinn meiddur. Hann var í hversdagsklæðunum á bekknum í kvöld og verður það amk í einhverja daga í viðbót.



Þetta var prýðilega skemmtilegur leikur eins og búast mátti við. Græni Drekinn er eins og sjötti maðurinn í liði Þórs, en það var nú flott að sjá að nokkrir Garðbæingar höfðu drifið sig með austur og reyndu hvað þeir gátu að hvetja sína menn áfram meðan Drekinn dró andann.

Gaman að sjá Marvin Marvelous Valdimarsson spila vel með Stjörnunni. Hann er í flottu formi pilturinn og er að spila fleiri mínútur en á síðustu leiktíð. Var stigahæsti maður vallarins með 25 í kvöld og ísaði þetta fyrir gestina í lokin. Marvin hefur alltaf vitað hvar karfan er, ekki síst fyrir austan fjall, en hann tók auðvitað að sér nýtt hlutverk þegar hann gekk til liðs við Stjörnuna.

Við heilsuðum aðeins upp á Benedikt Guðmundsson þjálfara Þórs eftir leikinn og tjáðum honum að hann hefði engu logið þegar hann sagði að stemningin í Þorlákshöfn væri einstök. Hann var dálítið leiður yfir því að hans menn hefðu ekki fylgt andrúmsloftinu eftir með sigri, en hann skuldar okkur ekkert í þeim efnum. Það er reglulegur sómi af nýliðum Þórs og þeir eiga eftir að lenda á löppunum í vor.

Það var flott að koma í Þorlákshöfn og þetta verður alveg örugglega ekki síðasti leikurinn sem við sjáum í þessu húsi í vetur. Fengum gott kaffi eftir smá krókaleiðum og það eina sem setja mætti út á voru blessaðir lúðrarnir og þá helst trommurnar sem lamdar voru af krafti allan leikinn. Stuðningsmenn Þórs eru svo öflugir í að syngja og tralla að slíkir aukahlutir eru með öllu óþarfir. Það var sómi af þessum túr austur í kvöld. Megi Þorlákshafnarbúar eiga lið í efstu deild um ókomin ár.


Nú var það ´Höfnin sem heillaði


Það er að myndast einhver hefð fyrir því að NBA Ísland fari út á land á körfuboltaleiki. Það var kominn tími á það að skella sér í Þorlákshöfn og kynna sér stemninguna umtöluðu hjá Þórsurum.

Fulltrúi Græna Drekans gerði sér lítið fyrir og hringdi í okkur og bauð okkur í sérstaka upphitun að hætti heimamanna. Þetta köllum við fagmannleg vinnubrögð. Þetta er til eftirbreytni.

Við eigum eftir að segja ykkur betur frá þessari skemmtilegu heimsókn fljótlega, en skemmst er frá því að segja að Drekamenn eru höfðingjar heim að sækja. Það er með ólíkindum að jafn lítið pláss og Þorlákshöfn skuli eiga sér svona öflugan hóp harðkjarnastuðningsmanna. Þeir kalla sig öflugustu stuðningsmenn Iceland Express deildarinnar og því er einfaldlega ekki hægt að mótmæla.

Drekamenn eru ekkert að finna upp hjólið og það er margt líkt með Drekanum og Miðjunni góðu í KR, sem reyndar hefur verið lítt áberandi í körfuboltanum upp á síðkastið. Það væri ekkert minna en rosalegt að sjá þessar tvær stuðningssveitir takast á á pöllunum einhvern daginn.

Fólk tekur misvel í fyrirbæri eins og Miðjuna og Græna Drekann. Margir eru viðkvæmir fyrir miklum hávaða og kyndingum sem stundum eru ef til vill á gráu svæði. En það er mjög mikilvægt að svona stuðningsmannasveitir fái að vera til og stunda sína iðju.

Harðlínustuðningsmenn setja ómetanlegan svip á kappleiki, en verða að gæta þess að missa sig ekki. Fjölskyldufólk verður líka að geta farið á leiki með börnin sín, en það má heldur ekki gleyma því að körfuboltaleikir eru vettvangur til að sleppa fram af sér beislinu og hafa hátt. Lifa sig inn í leikinn. Ef fólk þolir ekki smá atgang, verður það bara að vera heima og horfa á Útsvar.

Vonandi eigum við ekki eftir að fá það í bakið að hafa skrifað svona fallega um Græna Drekann. Megi þeir finna hinn gullna meðalveg í látunum í vetur og sem lengst fram á vorið.

Saturday, October 29, 2011

Hann heillaði, Hólmurinn


Þá er tveggja vikna útlegð okkar í Hólminum lokið. Það hefði verið betra að fá fleiri leiki meðan á dvölinni stóð, því það er ekki margt annað að gera þarna fyrir vestan.



Þetta var þó mjög uppbyggilegur túr og heimamenn tóku vel á móti okkur. Það verður ekki tekið af þeim, þetta er eitt fallegasta pláss á landinu hvort sem hægt er að fá bernaise-sósu þar eður ei. Ritstjórnin er á betri stað en hún var þegar í Hólminn var haldið og er nú kominn aftur á skrifstofuna.



Það er veisla fram undan og hún hefst á morgun þegar KR tekur á móti Þórsurum úr Þorlákshöfn. Það ætti að verða okkur auðveldara að sinna ritstörfunum nú þegar við erum komin aftur í borgina og búin að ræsa Photoshop aftur.

Þökkum Hólmurum kærlega fyrir okkur. Það var gaman að sækja þá heim. Við verðum eitthvað meira á ferðinni utan höfuðborgarsvæðisins á næstunni. Landsbyggðin alla leið.

Wednesday, October 26, 2011

NBA Ísland fór á körfuboltaæfingu


Kíktum á æfingu hjá Snæfelli áðan. Það var bara ekki annað í boði eftir allt þetta körfuboltaleysi undanfarið - að ógleymdri þeirri staðreynd að við komumst ekki á Star-KR annað kvöld.

Hvað um það. Það var létt yfir Hólmurum eins og venjulega og þeir buðu fulltrúa NBA Ísland velkominn í þetta innlit. Kannski séð aumur á ræflinum þar sem hann stóð hokinn með myndavélina.

Glöggir taka eftir þvi að það var leynigestur á æfingu hjá Snæfelli. Var þarna á sinni annari æfingu. Pilturinn heitir Marquis Hall og ku vera nokkuð vel að sér í körfuboltafræðunum.

Hann leit amk mjög vel út í augum okkar viðvaninganna og ekki var annað að heyra á Hólmurum að þeir væru sammála, enda stefna þeir hátt eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.




Wednesday, October 19, 2011

Digranes í Hólminum: Veitingahúsagagnrýni


Þeir segja að ekkert jafnist á við Bernaise-borgarann á Narfeyrarstofu. Það var því ekki annað að gera en að smakka kvikindið. Við vitum af þremur viðskiptavinum í gegn um árin sem fengið hafa pakka-bernaise í stað alvöru. Það var áhættunnar virði að prófa. Ekkert annað til að éta.






























Spennan var því gríðarleg síðustu skrefin að þessu fallega húsi. Það var kalt í veðri og okkur var farið að hlakka til að komast inn í hlýjuna og takast á við Bernaise-bombuna - hvort sem hún kæmi úr pakka eða ekki.



Þessi skemmtilega saga verður ekki mikið lengri. Við komum að læstum dyrum. Opnunartími bæði á húsinu og á heimasíðu staðarins segir allt annað eins og þið sjáið á efri myndinni. Neðri myndin sýnir svo glöggt hvað það er helvíti mikið opið þarna.

Vel gert, Narfeyrarstofa.

Núll stjörnur af fimm.

Tuesday, October 18, 2011

Sígild æskulist


Listformið sem þú sérð hérna á myndinni á líklega eftir að standa lengi í mann- og fornleifafræðingum framtíðarinnar.

Þetta táknmál endurspeglar vinsælt tjáningarform ungmenna í plássunum umhverfis Ísland frá árinu 1980. 

Þetta eru klassísk rokkhljómsveitarnöfn, skorin og krössuð ofan í borð úr skólastofu úti á landi.

Það vekur upp svo mikla nostalgíu að sjá þetta.

Svona var þetta gert í okkar sveit í gamla daga, svona vitum við að þetta var gert fyrir norðan - og nú höfum við skjalfest það á þessu litla ferðalagi okkar í Stykkishólm að svona gera menn þetta líka á vesturlandinu. Listaverkið hér á myndinni var skrifað á borð sem staðsett var í óhefðbundinni blaðamannastúku Snæfellsliðsins.

Kannski er unga fólkið okkar ekki vonlaust eftir allt. Ekki nema hann Leifur, sem var einn þeirra sem settu nafnið sitt við þetta tiltekna verkefni, hafi verið ungur maður fyrir löngu síðan. Það kæmi svo sem ekki á óvart.