Showing posts with label Manu Ginobili. Show all posts
Showing posts with label Manu Ginobili. Show all posts

Tuesday, May 23, 2017

Friday, March 18, 2016

Liðið í skugganum er líka að slá met - mörg met



Það fór ekki mikið fyrir sigri San Antonio á Portland í NBA deildinni okkar fallegu í gærkvöldi, en hann var svo sannarlega merkilegur. Sigur Spurs þýddi nefnilega að nú er San Antonio komið með "jákvætt" vinningshlutfall - yfir 50% - gegn ÖLLUM liðunum í NBA deildinni í sögulegu samhengi.

San Antonio varð hluti af NBA deildinni árið 1976 eftir að hafa heitið öllum illum nöfnum í ABA-deildinni sálugu, þar sem það hafði líka aðsetur hér og þar í Texas frá stofnun klúbbsins árið 1967. Það er dálítið skondið að félagið hafi verið stofnað árið 1976, því það er einmitt fæðingarár sigursælasta og besta leikmanns í sögu þess - Tim Duncan.

Duncan þessi verður fertugur í næsta mánuði og er búinn að bera liðið á herðum sér lengst af síðan San Antonio tók hann í nýliðavalinu árið 1997.

Það er auðvitað með ólíkindum að lítið félag eins og San Antonio - en ekki klúbbar eins og Lakers eða Celtics - skuli afreka það að vera með 50+ prósent vinningshlutfall gegn öllum hinum liðunum í deildinni.

Þetta ber fyrst og fremst vott um ótrúlega sigurhefð Gregg Popovich þjálfara, Tim Duncan og aukaleikara hans í gegn um árin, þar sem menn eins og Tony Parker og Manu Ginobili eru vitanlega efstir á blaði.

San Antonio er búið að fara hamförum í deildarkeppninni í vetur og er með 58 sigra og aðeins tíu töp, sem er árangur sem aðeins fimm lið í sögunni hafa státað af eftir 68 leiki.

Þessi frábæri árangur fellur gjörsamlega í skuggann af sögulegu gengi Golden State (61-6) í vetur, enda er Oakland-liðið að hóta því að slá met Chicago Bulls frá árinu 1996 yfir bestu deildarkeppni allra tíma, þegar Jordan og félagar unnu 72 leiki og töpuðu aðeins tíu.

Þetta eru ekki einu rósirnar í hnappagati Texas-klúbbsins. Liðið hefur þannig komist í úrslitakeppnina 19 ár í röð og er búið að vinna 50+ leiki 17 ár í röð, en svo er það líka taplaust á heimavelli í vetur - eins og Golden State.

Það er því hætt við því að eitthvað verði undan að láta á næstu vikum, því Spurs og Warriors eiga eftir að mætast þrisvar sinnum í viðbót áður en yfir lýkur.

Fyrsta viðureignin af þessum þremur fer fram í San Antonio núna á laugardagskvöldið (19. mars) og þar eiga Spursarar harma að hefna, því Warriors-liðið valtaði yfir það í fyrstu viðureign liðanna á árinu.

Það sem er svo allra sérstakast við rimmu Spurs og Warriors á laugardagskvöldið er að sjálfir meistararnir í Golden State hafa ekki unnið deildarleik í San Antonio síðan árið 1997 - ÁÐUR EN Tim Duncan gekk í raðir Spurs það ár. Sigur Warriors þetta ár kom þann 14. febrúar, þegar Stephen Curry var átta ára gamall. Þetta, er náttúrulega alveg eðlilegt.

San Antonio er búið að vinna 43 leiki í röð á heimavelli, sem er þriðja lengsta rispa síns eðlis í sögunni á eftir 44 leikjum Chicago leiktíðina 1995-96 og svo Golden State núna, sem er búið að vinna 50 heimaleiki í röð.

Chicago á metið yfir flesta heimasigra í röð í upphafi leiktíðar, en það var 37 í röð á áðurnefndu tímabili, en San Antonio er komið með 34 í röð í vetur og Golden State hefur unnið 32 fyrstu heimaleikina sína á leiktíðinni.

Engu liði hefur tekist að fara taplaust á heimavelli í gegn um heila leiktíð, þó Boston hafi verið nálægt því um miðjan níunda áratuginn, þegar það tapaði aðeins einu sinni á heimavelli eitt árið.

Þó langt sé í land og þessi ógnarsterku lið eigi mjög erfiða leiki eftir, þyrfti það sannarlega ekki að koma á óvart þó að minnsta kosti eitthvað af áðurnefndum metum ættu eftir að falla. Þessi vetur sem við erum að fá að fylgjast með núna, er einfaldlega það sérstakur.

Það þarf enga sérfræðinga í körfubolta til að sjá að þeir Tim Duncan, Manu Ginobili og Tony Parker eru allir farnir að hægja verulega á sér, enda komnir með ansi margar mílur á lappirnar á sér eftir að hafa spilað 100+ leiki með félagsliði sínu ár eftir ár - svo áratugum skiptir á ferlinum.

Svona óguðlegt álag bæði telur og tekur á skrokkinn. Spyrjið bara menn eins og Kobe Bryant.

En alltaf skulu þeir malla áfram þessir menn. Spurs-arar hafa fengið ljómandi fína hjálp í yngri stjörnuleikmönnum eins og Kawhi Leonard og LaMarcus Aldridge í vetur, en í okkar huga kemst liðið ekki nema ákveðið langt á þessum tveimur nýgræðingum í Spurs-vélinni.

Ef San Antonio á að komast í úrslitaeinvígið enn eitt árið, þarf það að hafa alla sína menn 100% heila og líklega að fá framlag frá mönnum sem eiga einfaldlega að vera orðnir of gamlir og lúnir til að veita það.

En við skulum gæta þess að afskrifa þessa snillinga, sem mynda eitt sigursælasta lið í sögu deildarkeppni NBA deildarinnar. Það gæti leynst eitthvað smá spúnk í þeim gömlu enn. Kannski einn sprettur enn (með Tim Duncan standandi í lappirnar).

Og eins og við segjum í hvert sinn sem þetta lið ber á góma: Ekki myndum við gráta það þó þetta lið tæki eina dollu til. Virðing okkar fyrir þessum klúbbi er nær takmarkalaus.

Hérna fyrir neðan getur þú svo skoðað þetta sem við sögðum ykkur frá í upphafi pistilsins: samantekt tölfræðideildar NBA punktur komm yfir árangur San Antonio gegn öllum hinum liðunum í NBA deildinni frá upphafi. Þetta er ekkert til að henda í ruslið, svo mikið er víst.


Sunday, May 3, 2015

Clippers áfram - Spurs í frí


Ef við eigum að vera alveg hreinskilin, bjuggumst við ekki við þessu. Við áttum frekar von á því að þurfa að skrifa um það af hverju Clippers væri dottið snemma út úr úrslitakeppninni enn eitt árið. Spá í það hvernig dóma Chris Paul og restin af liðinu fengju ef þeir féllu úr í fyrstu umferð.

En annað kom á daginn. Það er Clippers sem varð í nótt síðasta liðið til að tryggja sér sæti í annari umferð úrslitakeppninnar með 111-109 sigri á San Antonio og setja þar með punktinn aftan við eina bestu seríu sem háð hefur verið í fyrstu umferð. Sumir segja þá bestu, t.d. Zach Lowe á Grantland.

Það var alveg í takt við annað í þessu einvígi að úrslitin skuli hafa ráðist einni sekúndu fyrir leikslok og við slík tækifæri verður ekki hjá því komist að finna hetjur og jafnvel skúrka. Látum það eiga sig að tala um skúrka og setjum fókusinn frekar á það jákvæða - á hetjuna Chris Paul.



Það var jú Chris Paul sem tryggði Clippers sigurinn með undrakörfu einni sekúndu fyrir leikslok, þrátt fyrir að vera haltrandi um á annari löppinni vegna meiðsla á aftanverðu læri. Hvernig drengurinn kom þessu skoti framhjá Tim Duncan er okkur hulin ráðgáta, hvað þá hvernig í ósköpunum hann fór að því að koma þvi ofan í körfuna.

Þetta einvígi er búið að vera lygilegt. Við vorum undir það búin að sjá Clippers detta út, því okkur fannst San Antonio stýra því lengst af, þó margir séu ósammála því.

Chris Paul (27 stig) var ekki á því að tapa þessu. Hann er búinn að fá nóg af því og ætlar sér lengra. Líka Blake Griffin, sem bauð upp á aðra þrennuna sína í einvíginu: 24/13/10. Þessir tveir eru í hópi allra bestu körfuboltamanna heims og það sem meira er, þeir eru búnir að sýna það í úrslitakeppninni.

Allt pískur um að Chris Paul skreppi eitthvað saman þegar spennan eykst í mikilvægum leikjum hefur væntanlega verið kæft með frammistöðu hans í síðustu tveimur leikjum.

Sá hefur andað léttar þegar ljóst var að þeir færu áfram, pressan á honum er alltaf að aukast. Raunar andaði hann svo mikið léttar að hann felldi tár.

Svona var mikið undir hjá honum og það bara kom ekkert til greina að tapa þessu. Þá er bara næsta mál á dagskrá, að vinna Houston Rockets og koma sér í úrslit Vesturdeildarinnar í fyrsta skipti á ferlinum.

Við bjuggumst ekki bara við sigri Spurs í þessu einvígi, við vorum satt best að segja að vona að Duncan og félagar færu áfram, því okkur fannst San Antonio líklegra til afreka í næstu umferðum. Þetta varð allt líklegra eftir að Chris Paul tognaði aftan á læri og var haltrandi út um allt.

Doc Rivers er strax búinn að gefa það út að Chris Paul verði sennilega ekki með í fyrsta leik Clippers í Houston í annari umferðinni. Sú rimma hefst strax á mánudagskvöldið og því er lítill tími fyrir Clippers að sleikja sárin og enn minni tími fyrir Paul að jafna sig.

Við vitum öll að svona aftanílærisvesen tekur alltaf nokkrar vikur og við vitum líka að Clippers - með alla sína ENGA breidd - á engan möguleika í framhaldinu án besta leikstjórnanda heims.

Hann er alfa og ómega í öllum aðgerðum liðsins, fyrir svo utan það að hann er eini hreinræktaði leikstjórnandinn í leikmannahópnum. Framkvæmdastjóra-Doc fær litlar þakkir frá þjálfara-Doc vegna þessa.

Þið vitið kannski að við höfum enga óbilandi trú á liði Houston og hefðum mjög líklega tippað á Clippers í þeirri rimmu.

Nú er hinsvegar ljóst að Chris Paul verður mjög takmarkaður á næstunni. Hann missir af fyrsta leiknum og kannski fleirum og okkur sýnist útséð með það að hann verði heill það sem eftir er af úrslitakeppninni.

Paul er nýjasta fórnarlamb meiðslabölvunarinnar í NBA. Hún verður ekki stöðvuð (Curry og Bogut hjá Warriors eru næstir). Eins og við erum búin að  segja sexhundruð sinnum áður: Þessi meiðsli hættu að vera fyndin fyrir jól, en núna er þetta bara orðið asnalegt. Þetta er langstærsti meiðslafaraldur sem riðið hefur yfir deildina á síðustu 30 ár og er bókstaflega að eyðileggja tímabilið.

En hvað verður nú um San Antonio?

Þeir voru alveg sorglega nálægt því að fara áfram, lærisveinarnir hans Pop, en þetta datt ekki með þeim að þessu sinni.

Og við vorum löngu búin að segja ykkur af hverju þetta er ekki ár Spurs. Þetta lið stoppar aldrei lengi við í úrslitakeppninni ef lykilmennirnir eru ekki heilir, það hefur sýnt sig aftur og aftur á undanförnum árum. Meiðsli Tiago Splitter og Tony Parker voru víst meira en liðið réði við.

Nú fara leikmenn San Antonio bara á Benidorm og chilla í smá tíma, en nokkrir þeirra þurfa líka að fara upp á kontór og skrifa undir nýja samninga við félagið.

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig það gengur, en forvitnilegast af þessu öllu er hvort þeir Tim Duncan og Manu Ginobili ætla yfir höfuð að halda áfram að spila körfubolta, 39 og 37 ára gamlir.

Þeir eru á ólíkum stað gömlu félagarnir. Ginobili (8 stig, 35% skotnýting gegn Clippers) virkaði frekar andlaus og mistækur í seríunni við Clippers, en Duncan var mjög traustur (18/11meðaltal og 59% skotnýting gegn Clippers). Það magnaða við Duncan er að hann er að skila mjög svipaðri tölfræði í deildarkeppninni í vetur og hann gerði fyrir tíu árum per 36 mínútur. Stórmeistari og galdramaður.

Af því Duncan spilaði svona vel í vetur, væri eiginlega synd ef hann gæfi bara skít í þetta og hætti. Hann er nefnilega betri en enginn. Sumum finnst kannski gert of mikið úr hæfileikum Duncan, en það er bull og vitleysa, hann er búinn að spila eins og engill í vetur og gerir hellings gagn ennþá. Þess vegna á hann ekkert að hætta. Taktu eitt tímabil í viðbót, gamli! Þú hefur bara gaman af því!

Friday, May 1, 2015

Oddaleikur í Englaborg um helgina


Þetta einvígi heldur bara áfram að gefa...

San Antonio og LA Clippers buðu upp á enn einn naglbítinn í nótt og aftur var boðið upp á skemmtilegt tvist, sem fáir áttu kannski von á að sjá. Clippers náði að vinna í San Antonio 102-96 og jafna metin í seríunni í 3-3. Við erum því að fara í oddaleik á miðnætti á laugardagskvöldið, sem verður talsvert stærri viðburður en Bardaginn sem hefði átt að fara fram fyrir sjö árum.

Eins og þessi sería hefur verið frábær, á það eftir að koma okkur þráðbeint í þunglyndi þegar annað þessara liða fellur úr keppni á laugardaginn. Það er af því við vitum upp á hár hvaða stefnu umræðan tekur varðandi tapliðið.

Ef San Antonio tapar, öskra menn ÞEEEEETT´ERBÚIÐ! - og byrja að skrifa minningargreinar um San Antonio í fjögurhundruðasta skipti, til þess eins að fá þær í andlitið árið 2021 þegar liðið vinnur næsta titil með 45 ára gamlan Tim Duncan í miðjunni.

Þessi skrif verða óhjákvæmilega blanda af nostalgíu og þunglyndi. Var þetta síðasti dansinn hjá Spurs? Hætta Duncan og Manu (og Pop)? Þið vitið, eintóm leiðindi, þannig séð.

Á  meðan San Antonio gæti svo sem alveg riðið inn í sólarlagið með alla sína titla og lokið keppni með sæld, er ekkert slíkt uppi á teningnum hjá Clippers.

Þar á bæ verður engin rómantík, bara aftökur og frussu-drull í allar áttir frá öllum mögulegum pennum, hvort sem þeir skrifa um körfubolta, hestaíþróttir eða hokkí. Eins vel og þeir eru búnir að spila, verða Chris Paul og Blake Griffin teknir af lífi til skiptis. Þeir verða svona eins og vankaða sæljónið sem háhyrningarnir nota sem tennisbolta í tíu mínútur áður en þeir éta það lifandi.

Það verður ekki vottur af sanngirni í því frekar en öðru á Twitter-öldinni, þar sem ekkert kemst að nema skyndiaftökur, alhæfingar og gífuryrði - þú ert annað hvort Michael Jordan eða mesti aumingi í heimi.

Sko...

Það getur vel verið að Clippers hafi einhvern tímann átt skilið smá drull, við gagnrýndum liðið t.d. nokkuð harðlega í fyrra ef við munum rétt. En fari svo að liðið tapi á laugardaginn (fyrir meisturunum), er ekki sanngjart að ætla að taka fram sveðjuna og byrja að höggva leikmennina niður.

Jú, jú, það getur vel verið að Clippers sé með versta bekk síðan... ever... og það getur vel verið að menn eins og Jamal Crawford séu mestmegnis búnir að drulla á sig í seríunni og vissulega getur verið að DeAndre Jordan sé með skarð á stærð við Þistilfjörð í leik sínum þegar hann getur ekki drullast til að hitta úr öðru hverju vítaskoti sem hann tekur.

En munurinn á Clippers núna og undanfarin ár hjá okkur, er að liðið var miklu þéttara í ár en fyrri ár. Það er betra varnarlega og stjörnurnar hafa verið að spila af sér anusana.

Chris Paul hefur oftast leikið mjög vel í úrslitakeppninni en það er alltaf eitthvað sem kemur í veg fyrir að hann fari áfram í keppninni.

Í fyrra átti hann sjálfur þátt í skitu Clippers, en að þessu sinni er ekkert svoleiðis í boði. Gaurinn er búinn að vera í lás í allt vor og klórar úr þér augun og hoppar ofan á þeim í takkaskóm ef þú ætlar að standa í vegi fyrir honum.

Helsta ástæðan fyrir auknum styrk Clippers er svo ungstirnið Blake Griffin, sem hefur farið hamförum á móti Spurs.

Hann bauð upp á smá prump í 4. leikhluta í fimmta leiknum, en þið megið ekki gleyma því að hann er kraftframherji en ekki bakvörður.

Hann getur ekki bara tekið boltann og gert hvað sem hann vill við hann, þó hann geri það stundum í hraðaupphlaupum. Það hefði einhver mátt reyna að segja okkur að Griffin ætti eftir að bjóða upp á 24 stig, 13 fráköst, 7 stoðsendingar, 2 stolna bolta og 2 varin skot að meðaltali í leik í fyrstu sex leikjunum við Spurs. Og gaurinn er með flensu...

Við vitum að mörg ykkar þola manninn ekki og hafið eflaust góðar og gildar ástæður fyrir því, en mikið fjandi er hann orðinn góður í körfubolta. Því er ekki hægt að neita.

Stóra fréttin við leik sex hjá Spurs var að gömlu góðu stjörnurnar hjá liðinu voru bara farþegar í þessum leik. Þeir gerðu nánast ekki neitt og létu þess í stað menn eins og Marco Belinelli og Boris Diaw bara sjá um þetta fyrir sig. Og það var næstum því nóg. En samt ekki.


Við vitum alveg að Parker og Splitter eru ekki heilir, en hversu góða möguleika haldið þið að Spurs eigi í sjöunda leiknum ef Tim Duncan, Manu Ginobili og Tony Parker skora ekki meira en 23 stig á milli sín. Nú eða að Duncan, Ginobili, Parker og Leonard (3 af 15 fg) verði ekki með nema 35 stig samtals. Það er mjög góð breidd í liði Spurs, en ef fernan þeirra frækna spilar ekki betur en þetta, er einvígið búið.

Okkur gæti faktískt ekki verið meira sama um hvernig þetta einvígi fer, við viljum bara fá áframhaldandi gæði í einn leik í viðbót.

Sigurvegarans bíður svo deit við Houston, sem hefur verið að spila ofar væntingum má segja, en sú sería byrjar strax á mánudaginn.
Það verður ekki létt dæmi fyrir eldgamla Spurs-ara eða Clippers með enga breidd (ekki eykst hún í fjarveru Tröllabarnsins sem fékk meiddi í kvöld eins og allir hinir).

Við segjum bara hallalúja yfir þessu einvígi. Þetta er botnlaust festival og flottheit og sama hvernig serían fer, eiga bæði lið skilið tröllakúdós fyrir frábæra rimmu. Sjáumst á laugardagskvöldið!

Saturday, October 11, 2014

Tuesday, July 29, 2014

Með eða án Manu


Félagaskipti LeBron James eru eðlilega fyrirferðarmesta frétt sumarsins í NBA, enda er það eðlilegt, það er stórfrétt þegar besti körfuboltamaður í heimi skiptir um félag að gamni sínu á hátindi ferilsins.

Þegar stórlax eins og James skiptir um félag, þarf stundum að núllstilla valdajafnvægisvogina í NBA upp á nýtt. Eins og James hefur sagt sjálfur, væri sennilega of mikið að ætlast til þess að Cleveland-liðið hans hafi burði til að keppa um meistaratitilinn á fyrsta árinu hans. Þetta þýðir með öðrum orðum að félagaskipti LeBron James eru ekki atriðið sem vegur þyngst í kapphlaupinu um meistaratitilinn 2015.

Það er þetta atriði sem ræður mestu í því samhengi.

Það er orðin gömul vísa og þreytt, en hún er sönn. Þú vinnur ekki meistaratitilinn nema hafa heppnina með þér í meiðslamálum, eins og San Antonio hafði á síðustu leiktíð. 

Þetta sterka lið hefur oft mætt í úrslitakeppnina með lykilmenn í meiðslum og þá er ekki að spyrja að leikslokum.

Ef úrslitakeppnin 2015 byrjaði í dag, væri San Antonio langsigurstranglegast, það segir sig sjálft. Og þess vegna ætti San Antonio líklega að eiga meiri möguleika en nokkuð annað lið á að vinna meistaratitilinn næsta sumar, EF allir lykilmenn halda heilsu.

Þess vegna er sú staðreynd að Spurs sé ekki tilbúið að leyfa Manu Ginobili að spila fyrir hönd Argentínu á HM þýðingarmesta frétt sumarsins.

Auðvitað vill Manu spila fyrir hönd þjóðar sinnar þó hann sé að nálgast fertugt og þrátt körfuknattleikssambandið í Argentínu sé víst frekar vafasamt fyrirtæki. 

En hann verður að taka skynsamlega ákvörðun í þessu sambandi núna og San Antonio er reyndar búið að gera það fyrir hann. Það liggur í augum uppi að Manu hefur ekki efni á því að spila á HM nú þegar hann er orðinn 37 ára gamall. Það er bara útilokað.

Landsliðsbrölt hefur áhrif á alla leikmenn sem taka þátt í því og meiðslahættan er líka mikil. Bættu því svo við hvað Ginobili er orðinn gamall og brothættur og þú ert kominn með sjálfsmorðsleiðangur fyrir hann og félagsliðið hans.

San Antonio á enga möguleika á að vinna meistaratitilinn 2015 (eða nokkurn annan) án Manu Ginobili, það er alveg klárt. Og bara til að rökstyðja mál okkar settumst við niður og reiknuðum það vísindalega út hvað  San Antonio ætti góða möguleika á að verja meistaratitilinn ef Ginobili hefði tekið þátt á HM á Spáni í haust.

Niðurstaðan: Þrjú komma sjö prósent! 

Það eru 3,7% líkur á að San Antonio vinni titilinn 2015 ef Manu Ginobili tekur þátt í HM með Argentínu. Svo ertu hissa á því að Spurs sé ekki tilbúið að sleppa honum á stórmót sumarið áður en það á möguleika á að vinna síðasta meistaratitilinn sinn með núverandi mannskap.

Látt´ekki svona!

Sunday, June 15, 2014

NBA Ísland reynir að útskýra velgengni Spurs


San Antonio er hársbreidd frá því að lengja afrekaskrá sína enn frekar. Það er ekki of djúpt í árina tekið þó við segjum að nánast allt við þessa leiktíð hjá félaginu er með hreinum ólíkindum.

Ef Spurs tekst að vinna fimmta titilinn í sögu félagsins á næstu dögum, skrifast nýr kafli í velgengniannála félags sem er búið að gleyma því hvernig tilfinning það er að komast ekki í úrslitakeppni - kann varla að tapa.

Það eina sem okkur dettur í hug til að bera saman við þetta velmegunartímabil hjá Spurs er sigurganga Sir Alex Ferguson hjá Manchester United og svo mulningsvél Boston Celtics á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

Thursday, May 22, 2014

Enn eitt metið hjá San Antonio
































Tim Duncan, Tony Parker og Manu Ginobili urðu í nótt sigursælasta tríó í sögu úrslitakeppninnar þegar þeir unnu sinn 111. sigur saman á því sviði. Þetta eru engir pappakassar sem þeir voru að setja á bak við sig - Lakers goðsagnirnar Magic, Kareem og Cooper. Langt er síðan þeir slógu Celtics-þrennunni Bird, Parish og McHale við.

Það getur vel verið að þú viljir ekki heyra það, en það eru bara ekki mörg lið í sögu NBA deildarinnar sem slá þessu Spurs-liði við.

Þett´er náttúrulega bara rugl.

Tríóið okkar - og raunar liðið allt - er hvað eftir annað að slá met í velgengni bæði í deildakeppni og úrslitakeppni. San Antonio-liðið hans Tim Duncan er sannarlega einstakt lið.

Eitt allra besta körfuboltalið allra tíma.

Öllum er að vísu skítsama, en þetta er staðreynd engu að síður.

Vittu til, þú átt eftir að finna léttan straum af fortíðarþrá leika um þig þegar þú montar þig af því við barnabörnin að þú hafir fylgst ítarlega með Spurs allar götur frá því Tim Duncan kom til sögunnar og þangað til hann og félagar hans Parker og Ginobili lögðu skó sína á hilluna árið 2087.

Við viðurkennum það að þetta lið hefur oft farið í taugarnar á okkur. Svona eins og gamall, strangur og afturhaldssamur kennari með allt á hornum sér. Stundum finnst þér hann fyrirsjáanlegur og stundum fer hann í allar þínar fínustu.

En þegar þú hugsar til hans eftir 25 ár, áttu eflaust eftir að minnast hans með hlýju.

Hann kunni þetta nú allt saman, helvískur! 

Friday, May 9, 2014

Það var árið 2005


Fyrir sléttum níu árum síðan voru San Antonio og Seattle að berjast í annari umferð úrslitakeppninnar. Seattle var eitt af Spútnikliðum vetrarins undir stjórn Nate McMillan og rúllaði Sacramento nokkuð óvænt upp 4-1 í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Liðið veitti San Antonio svo harða keppni í annari umferðinni þar sem það jafnaði 2-2 heima eftir að hafa lent undir 2-0, en San Antonio kláraði síðustu tvo leikina og vann svo titilinn nokkrum vikum síðar með því að leggja Detroit í lokaúrslitum.

Þetta Spútnik sem var í Seattle-liðinu á þessum tíma náði þó ekki lengra en þetta. Nate McMillan var látinn fara og stórskotalið þeirra Rashard Lewis (Orlando) og Ray Allen (Boston) leituðu loks annað. Eins og þið sjáið á myndinni hérna fyrir neðan var Manu Ginobili með hár á þessum tíma. Þarna er hann í baráttu við stórmeistarann Nick Collison hjá Seattle, sem tæknilega er enn hjá sama félagi, þó Oklahoma komi Seattle auðvitað ekkert við.


Monday, June 17, 2013

Myndir frá upprisu Manu Ginobili


Hér fyrir neðan sérðu samantekt með helstu tilþrifum Manu Ginobili úr fimmta leik
lokaúrslitanna í nótt í lýsingu Mike Breen á ESPN/ABC.



Og hér sérðu tilþrifin í Draugsýn (Phantom) sem er svo vinsælt fyrirbæri þessa dagana,
en þá spilast myndbrotið á um 120 dramatískum römmum á sekúndu. Skemmtileg hughrif.


Þetta gat aðeins farið á einn veg


San Antonio hefur náð 3-2 forystu í úrslitaeinvíginu um NBA meistaratitilinn eftir magnaðan 114-104 sigur á Miami í fimmta leik liðanna í Texas í nótt. Ef ekki væri fyrir NBA Ísland og jinxkrafta ritstjórnarinnar, væri San Antonio undir 3-2 og horfði fram á að þurfa að vinna tvo leiki í röð í Miami.

Auðvitað var pistillinn sem við skrifuðum í gær ekkert annað en vandlega staðsettur þráður í vef örlaganna. San Antonio átti ekki möguleika í fimmta leiknum nema við tækjum okkur til og reverse-jinxuðum x-faktórinn í einvíginu til andskotans.

Við urðum að gæta þess að tilætlanir okkar væru ekki of augljósar og því varð pistillinn að vera sannfærandi. Við urðum að keyra Manu Ginobili í kaf til að gefa örlögunum start og það tókst - með látum.

Við meintum hvert orð sem við sögðum í pistlinum í gær og stöndum við það. Ginobili er ekki sami maður og hann var.

Góður lesandi orðaði það best þegar hann sagði að Manu gæti í besta falli haft áhrif á einstaka leik, en ekki heilu einvígin eins og hann gat áður.

Einhver varð að kasta grjóti í örlögin og við tókum þetta á okkur til að fá sem flesta leiki í einvígið. San Antonio þurfti á hjálp að halda - og þá sérstaklega argentínski vinur okkar.

Það var ekkert, Manu. Nú verður þú hinsvegar að sjá um restina af þessu, við höfum séð um okkar part.

Rödd Charles Barkley ómar í höfðinu á okkur:

"GINOBILIIIIIIIIIII!!!"

Þið megið hlæja að okkur alveg fram á næsta tímabil. Okkur er sama. Þetta dásamlega úrslitaeinvígi verður langt og skemmtilegt og Manu lifir - í versta falli í nokkra daga í viðbót.

Við höfum aldrei gefið okkur úr fyrir að hafa vit á körfubolta, en við getum jinxað hitabylgju yfir Norðurpólinn ef við vöndum okkur.

Og vakið körfuboltamenn upp frá dauðum, greinilega.

En Manu okkar á ekki allan heiðurinn.

Þrátt fyrir að San Antonio hafi á köflum leikið frábæran bolta í fimmta leiknum í nótt, var með ólíkindum hvað Miami var fljótt að keyra inn í leikinn aftur með snörpum áhlaupum sem komu oftast algjörlega upp úr þurru.

Leikmenn Spurs gerðu sig hvað eftir annað seka um einbeitingarleysi og klaufamistök og það er bara dauðasök á móti sterku liði eins og Miami.

Þú tekur tvö illa ígrunduð skot og missir tvo bolta - og allt í einu er Miami búið að taka 11-0 sprett á þig á rúmri mínútu. Það er með ólíkindum.

Þegar þetta er ritað er eflaust verið að lyfjaprófa Danny Green hjá San Antonio. Það nær ekki nokkurri átt hvað drengurinn er að hitta vel.

Green er búinn að skora 90 stig í lokaúrslitunum og skora 25 þrista, en það er meira en hann gerði
í deildakeppninni samanlagt bæði 2010 og 2011.

Hann nýtir 66% þrista sinna í lokaúrslitunum og er búinn að slá met Ray Allen yfir flesta skoraða þrista á stóra sviðinu.

Tony Parker gerði líka sitt þó hann væri augljóslega ekki á fullu gasi. Segir sína sögu um það hvað hann er góður og hvað við leggjum mikið á herðar hans að hann skuli skila 24 stigum (10-14 í skotum) á felgunni vegna meiðsla í læri.

Það getur vel verið að Miami hafi tapað þessum leik og hvað eftir annað lent um 20 stigum undir í þessum leik, en við höfðum það á tilfinningunni að liðið væri aldrei mjög langt undan.

Við fengum samt ekki þessa ofurframmistöðu frá Sólstrandargæjunum og við fengum í leik fjögur.

Okkur grunaði það svo sem, en það var ekki mikið út á frammistöðu þeirra að setja. Stjörnurnar voru að hver um sig að skila ágætisleikjum heilt yfir.

Enn eina ferðina hefur orðið viðsnúningur í þessu einvígi. Enn og aftur er San Antonio komið yfir eftir að hafa verið komið langt undir á stigum og útlitið verið farið að dökkna.

Það lítur ekkert illa út fyrir svona rútínerað lið eins og San Antonio að þurfa bara að vinna einn af næstu tveimur leikjum sínum til að landa titlinum enn eina ferðina - jafnvel þó það þurfi að gerast á útivelli.

En Miami á að sjálfsögðu eftir að líða betur á heimavelli sínum og þið vitið hvað gerist alltaf þegar Miami tapar - það kemur öskrandi í næsta leik.

Ef næsti leikur verður þannig eitthvað í takt við annað í þessu einvígi, vinnur Miami auðveldan stórsigur í næsta leik og við fáum hreinan úrslitaleik á fimmtudaginn.

Það yrði nú ekki leiðinlegt.

Við skulum samt ekki fara fram úr okkur. Draumar okkar allra sem erum hlutlaus í þessu rættust með sigri Manu og félaga í nótt.  Fjörið heldur áfram og við eigum dásamlega leiki í vændum, jafnvel þó hlegið verði að sumum okkar - gangandi um með ullarsokka í kjaftinum.

Það er ekki nema ánægjulegur fórnkostnaður fyrir svona veislu. Amen.

Sunday, June 16, 2013

Einn dáðasti drengur NBA Ísland á í erfiðleikum


Við höfum andúð á sjálfum okkur fyrir að skrifa svona lagað, en getum ekki að því gert. Þið vitið að það er ekkert við því að gera þegar opnast fyrir flóðgáttirnar á NBA Ísland. Þeir sem fylgst hafa með gangi mála hér á síðunni vita að Manu Ginobili er einn af okkar uppáhaldsleikmönnum og hefur alltaf verið.

Þess vegna fengum við ælubragð í munninn og umsvifalausa andúð á sjálfum okkur þegar okkur datt í hug að skrifa pistil um það hvort Manu Ginobili ætti ef til vill að hætta að leika körfuknattleik.

Hvað eftir annað skrifuðum við fyrstu línurnar, en hentum þeim í ruslið jafnóðum. Fengum okkur ekki til að skrifa svona drullu.

En alltaf leituðum við beint á lyklaborðið aftur. Svona geta hugmyndir farið illa með skapara sína.

Það er helvítis hroki og ekkert annað að fara fram á að fólk úti í bæ hætti í vinnunni sinni og finni sér eitthvað annað að gera. Ekki síst ef viðkomandi er kannski snillingur í sínu fagi eins og Manu Ginobili.

Það er ekki eins og við höfum efni á að tala. Við værum eflaust búin að vinna til margra eftirsóttra verðlauna ef við hefðum staðið okkur eins vel í okkar starfi og argentínska undrið í sínu.

Það er bara svo erfitt að horfa á Manu spila orðið. Hann er engan veginn sami maður og hann var. Jú, jú, hann fær okkur vissulega til að súpa hveljur með færni sinni reglulega, en þessum atvikum er farið að fækka verulega.

Ef við horfum bara blákalt á það, er Manu Ginobili búinn að vera skítlélegur undanfarið.

Lélegur, ef við miðum við það sem hann hefur sýnt okkur síðasta áratuginn. Lélegur, þannig að fólk sé farið að hrópa á það að "Popovich geti bara ekki réttlætt það að hafa hann inni á vellinum lengur."

Við grettum okkur við það eitt að hugsa svona, en þetta er því miður satt.

Og við elskum Manu svo hrikalega að við getum ekki horft upp á hann spila í lokaúrslitum NBA deildarinnar og eiga erfitt uppdráttar nánast hverja einustu mínútu.

Það er ekkert að honum. Aldrei þessu vant, er Manu Ginobili bara nokkuð heill heilsu, en sama hvað hann reynir - nær hann bara ekki að vera Manu. Og það er ömurlegt að horfa upp á það.

Að sama skapi hefur verið erfitt að horfa á Dwyane Wade undanfarið, en Wade er meiddur. Þessi meiðsli hans eru stundum æði dularfull, en hann er meiddur. Ginobili er ekki meiddur. Hann er bara ekki með þetta lengur.

Manu hefur í versta falli alltaf verið x-faktór San Antonio Spurs og í besta falli hefur hann verið besti leikmaður liðsins leik eftir leik. Sú tíð er liðin, löngu liðin - og það er að kosta San Antonio í einvíginu við Miami - enginn getur mótmælt því.

Ginobili gegnir ákveðnu hlutverki í sóknarleik San Antonio. Hann er jóker sem sprengir upp varnir andstæðinganna og leysir Tony Parker af sem aðalleikstjórnandi þegar sá franski hvílir sig á bekknum - jafnvel þó San Antonio sé með helling af eiginlegum leikstjórnendum á bekknum.

Það myndi setja gríðarlega mikla pressu á sterkan varnarleik Miami ef Ginobili væri ferskari. Ef hann væri að skila því sem við áttum von á að sjá frá honum, fengi vörn Miami ekki frið í 48 mínútur stanslaust.

Við þurfum ekki að velta okkur upp úr tölum til að rökstyðja mál okkar en ætlum nú samt að gera það.

 Snillingar eins og Manu Ginobili eiga ekki að vera að skila 10 stigum, 35% skotnýtingu og innan við 20% nýtingu í þristum í lokaúrslitum.  Það er... ekki gott.

Þegar San Antonio varð meistari árið 2005, var Manu með 21 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar að meðaltali í leik í úrslitakeppninni og margir vildu meina að hann hefði verið besti maður liðsins á leið þess að titlinum.

Við þurfum ekki að fara svo langt aftur. 2010 skilaði hann 19/4/6 í úrslitakeppninni og árið eftir 21/4/4. Það var fyrir aðeins tveimur árum síðan, nota bene.

Manu hefur alveg átt leik og leik í úrslitakeppninni í vor eins og við sögðum ykkur. Hann skilaði t.a.m. tveimur ellefu stoðsendinga leikjum í seríunni gegn Golden State og var nálægt þrennunni í einum þeirra (16/7/11) en það eru aðeins plastperlur í fjóshaugnum sem þessi úrslitakeppni hefur verið hjá honum.

Fyrirgefðu, Manu, en svona er þetta bara.

Kannski erum við bara að skrifa þetta til að jinxa hann inn á epíska frammistöðu í restinni af einvíginu við Miami - ekkert myndi gleðja okkur meira - en því miður er útlit fyrir að þessi stórkostlegi leikmaður sé búinn að sjá sína bestu daga.

Þetta er síðasti séns hjá San Antonio. Við höfum sagt þetta í sex ár, en núna er þetta allra, allra, allra síðasti séns hjá þeim svartklæddu.

Líka hjá Manu.

Þetta er búinn að vera sögulegur sprettur hjá honum. Fáir körfuboltamenn hafa náð eins stórkostlegum árangri og nær óslitinni sigurgöngu í íþróttinni og hann. Gildir þá einu hvort við tölum um með landsliðinu, í Evrópuboltanum eða með San Antonio Spurs.

Við erum ekkert að segja að langbesti körfuboltamaður í sögu Suður-Ameríku sé bara búinn, dauður og ónýtur. Hann er það bara ef við berum hann saman við eftirminnilegustu goðsagnir leiksins.

Menn eins og hann sjálfan.

Tuesday, May 28, 2013

Þessi Manu


Manu Ginobili er kannski ekki að hitta vel eða skora mikið í úrslitakeppninni, en hann er enn sami listamaðurinn. Hér fyrir neðan er ein af sendingunum hans í Memphis í nótt sem leið. Svona gera bara snillingar.


Saturday, April 20, 2013

Sögulegt San Antonio


Gregg Popovich hjá San Antonio er almennt álitinn besti þjálfarinn í NBA deildinni. Þegar honum er hrósað fyrir að vera góður þjálfari, er hann alltaf fljótur að vísa því á bug og segja að velgengni Spurs sé leikmönnunum að þakka en ekki honum - hann sé fyrst og fremst heppinn að hafa fengið leikmenn eins og Tim Duncan upp í hendurnar.

Pop þarf ekkert að vera með þessa stæla, hann er frábær þjálfari og hann veit það, en hitt er rétt að það skiptir engu máli hvað þú ert góður þjálfari - þú nærð litlum árangri ef þú ert ekki með góða leikmenn.

Þá komum við að kveikjunni að þessari hugleiðingu:

Gerið þið ykkur einhverja grein fyrir því hvað San Antonio er búið að vera sögulega frábært lið síðan Tim Duncan kom inn í NBA deildina um miðjan tíunda áratuginn?

Enn eitt árið var San Antonio að ljúka deildakeppninni með tæplega 60 sigra (58) og er það hvorki meira né minna en fjórtánda árið í röð sem liðið vinnur 50 leiki eða meira. Þetta er NBA met.

Þegar betur er að gáð, er Spurs reyndar tæknilega búið að vinna 50+ leiki sextán ár í röð, því í verkbanninu um aldamótin voru auðvitað bara spilaðir 50 leikir.

Það ár var San Antonio með einn besta árangurinn í sögu félagsins (74% vinningshlutfall), svo það er enginn glæpur að áætla að Spurs hefði klárað 50 sigra með vinstri það árið.

Árið áður en Tim Duncan kom inn í deildina var San Antonio ömurlegt og tankaði duglega meðan stórstjarnan David Robinson var í meiðslum alla leiktíðina. Þetta er eina ljóta tímabilið í sögu félagsins allt aftur til níunda áratugarins.

Það er því þannig að ef við uppreiknum verkbannsárið um aldamótin, hefur San Antonio unnið 50+ leiki nítján sinnum á síðustu tuttugu árum, sem er með algjörum ólíkindum.

Auðvitað á Gregg Popovich sinn þátt í þessari velgengni San Antonio. Það var ekki lítið umdeild og kjarkmikil ákvörðun hjá honum á sínum tíma að láta það verða sitt síðasta verk í skrifstofudjobbinu sínu hjá Spurs að reka þjálfarann (sem var búinn að ná flottum árangri í deildakeppninni) og ráða sjálfan sig í staðinn.

Þá kom Tim Duncan til skjalanna og síðan hefur San Antonio ekki gert annað en vinna 50+ sigra á tímabili og safna meistaratitlum.

Eins og við höfum getið um annað slagið í vetur, er Tim Duncan að eiga sögulegt ár hjá Spurs. Flestir voru búnir að afskrifa gamla manninn eftir að tölfræðin hans fór að dala hressilega ár eftir ár, en í ár er engu líkara en hann hafi sest að sumbli í æskubrunninum með Eddie Murphy.

Það er alveg sama hvað meiðsli leika Spurs grátt og alveg sama hvað Popovich sparar mínútur og hvílir stjörnurnar sínar - alltaf skal sýstemið ganga upp og Spurs vinna fullt af leikjum.

Pop er sennilega besti þjálfarinn í NBA og menn eins og Tony Parker og Manu Ginobili eru engir skussar, en San Antonio væri ekki búið að vera stórveldi í tvo áratugi ef Tim Duncan hefði ekki notið við.

Jú, hann Duncan er ekki sexí, hann á auðvelt með að fara í taugarnar á fólki, hann gefur ekki litrík viðtöl og er sannarlega enginn skrautfugl á vellinum heldur.

Hann veitir afar sjaldan persónuleg viðtöl og í rauninni hefur enginn hugmynd um hvaða mann hann hefur að geyma - fólk veit bara að hann er góður drengur, stórkostlegur körfuboltamaður og agaður leiðtogi eins besta liðs allra tíma.

Þannig að...

Ef þú hefur ekki gefið þér tíma til að staldra við og gefa því gaum að Tim Duncan er einn besti körfuboltamaður allra tíma, er heldur betur kominn tími á það.

Og ekkert væl um að San Antonio sé leiðinlegt lið. Þú hefur ekki hundsvit á körfubolta ef þú heldur slíku fram.

San Antonio kann að hafa verið dálítið leiðinlegt lið þegar það var að vinna titlana forðum, en á allra síðustu árum hefur Popovich gjörbylt spilamennsku liðsins og breytt því úr Land Rover í Lamborghini.
Allt í einu varð San Antonio eitt besta sóknarlið deildarinnar.

Þessi leikaðferð dugar alltaf í 50+ sigra í deildakeppninni, en undanfarin ár hefur vantað herslumuninn í úrslitakeppninni.

Liðið var mjög nálægt því að gera góða hluti í fyrra þegar það vann fyrstu 10 leikina sína í röð í úrslitakeppninni áður en það steinlá einhvern veginn fyrir Oklahoma (eftir að hafa komist 2-0 yfir).

Vonir Spursara í vor eru hátt spenntar, því liðið hefur verið miklu betra í varnarleiknum í vetur en það var í fyrra og eflaust má skrifa hluta af því á endurholdgun Tim Duncan.

Heilsufar lykilmanna er þó alltaf stóra spurningamerkið og sumir ganga svo langt að ætla Lakers að slá San Antonio út í fyrstu umferð út af meiðslavandræðum Tony Parker, Manu Ginobilli og Boris Diaw svo einhverjir séu nefndir.

Við ætlum nú ekki að ganga svo langt, en við verðum að veðja á móti Spurs í úrslitakeppninni af því við afskrifuðum liðið sem meistarakandídat fyrir svo löngu síðan. Þýðir ekkert að ætla að taka einhvern Reykhás á það.

Það fer samt enginn gráta á skrifstofu NBA Ísland ef San Antonio gerir góða hluti í úrslitakeppninni. Við berum óhemju virðingu fyrir þessum snillingum og þú ættir að gera það líka.

Friday, January 4, 2013

Manu óhress eftir tapleik


Sjö leikja sigurganga San Antonio var stöðvuð í New York í nótt. Manu Ginobili var ekki par hrifinn af því að tapa frekar en venjulega og virðist hafa misst gjörsamlega stjórn á sér á Twitter eftir leikinn.

Mikið má vera ef deildin lítur þetta ekki alvarlegum augum og sektar manninn, sem meðal annars hraunar yfir landa sinn Pablo Prigioni. Við gerum okkur grein fyrir að fæst ykkar geta lesið spænsku, en við vorum nú ekki lengi að vippa þessu yfir á íslenskuna. Það var ekkert.


Saturday, July 28, 2012

Tuesday, April 24, 2012

Sendingar ársins


Skondin tilviljun að aðeins þrír dagar hafi liðið milli sendingar ársins í NBA og Iceland Express deildinni.

Sending ársins í IE deildinni kom í gærkvöld í fyrsta leik Grindavíkur og Þórs í lokaúrslitunum. Þar var að verki Giordan Watson hjá Grindavík, sem átti fasta snúningssendingu af gólfinu inn í teiginn á Sigurð Þorsteinsson sem skoraði auðveldlega. Glæsileg tilþrif og hér fyrir neðan má sjá þau í boði Leikbrots. Ekki besta sjónarhornið, en það er gaman að eiga þetta á bandi.



Sendingu ársins í NBA átti svo Manu Ginobili þann 20. apríl síðastliðinn. Þú hefur líklega séð þessa sendingu nú þegar en það leiðist engum að horfa á þessa bombu svona sautján sinnum í viðbót. Ritstjórnin er hugfangin af Ginobili einmitt vegna svona tilþrifa - án samkynhneigðar.