Showing posts with label Tölfræði. Show all posts
Showing posts with label Tölfræði. Show all posts

Saturday, December 31, 2016

Meistaraskýrsla


Sigur Cleveland á Golden State í jólaleiknum um daginn og áhugaverð þróun í spilamennsku lykilmanna liðsins varð til þess að nú höfum við óvart skrifað smá skýrslu um stöðu mála hjá meisturunum á síðasta degi ársins 2016. Ykkur er velkomið að renna yfir hana, hún er meira að segja stutt, svona á miðað við það sem gengur og gerist á þessu vefsvæði.

Ef við skellum Cleveland í gegn um vandamálagreiningarskannann, dúkka fáar niðurstöður upp. Eina vandamálið í herbúðum Cleveland þessa dagana er að (nothæfra) leikmannahópurinn er of fámennur, sérstaklega í ljósi meiðsla JR Smith, sem mætir ekki til vinnu á ný fyrr en lóan kemur.

Þetta er svo sem ekki vandamál í sjálfu sér, því það er ekki eins og Cleveland sé að fá mikla samkeppni í deildarkeppninni í austrinu. Eina liðið sem ógnar meisturunum í keppninni um efsta sætið eystra er Toronto og þó Kanadaliðið sé að spila vel, er Cleveland ekkert hrætt við það - hvort sem það verður með heimavöll eða ekki þegar í úrslitakeppnina er komið.



Nei, það eina neikvæða við það að lykilmenn Cleveland séu að spila of margar mínútur í vetur er að LeBron James sé að spila of margar mínútur. Við erum búin að tuða um það í allan vetur, að of mikið álag á James er ekki smámál, heldur lögreglumál

James varð 32 ára í gær og eftir um það bil tíu leiki, verður hann 33. maðurinn í sögu NBA til að spila 40.000 mínútur í deildarkeppninni. Þá eru ótaldar 8.383 mínúturnar sem hann hefur spilað í úrslitakeppni á ferlinum og til að gefa ykkur hugmynd um hvað það er stór viðbót við þessar 40.000, má geta þess að aðeins Kobe Bryant, Kareem Abdul-Jabbar og Tim Duncan hafa spilað fleiri mínútur en James í úrslitakeppni í sögu NBA. Hentu inn í þetta tæpum 2.500 mínútunum hans á undirbúningstímabilum og við erum komin vel yfir 50.000 mínútur að ótöldu landsliðsskaki.

Fimmtíu. Þúsund. Mínútur.



LeBron James er einhver blanda af ofurmenni, geimveru, hálfguði og sæborg. Það er það eina sem útskýrir hvernig í ósköpunum skrokkurinn á manninum hefur staðið undir öllu þessu álagi án þess að meiðast nokkru sinni alvarlega.

En svona ef við tölum aðeins í alvöru, er frábært heilsufar LeBron James á körfuboltaferlinum álíka einstakt og lottóvinningur. Líkurnar á að atvinnumaður í deild með jafn miklu álagi og NBA meiðist ekki alvarlega á þrettán og hálfu ári og fimmtíu þúsund mínútum eru álíka góðar og að Jón Viðar Jónsson vakni í svo góðu skapi tvo daga í röð að hann ákveði að sleppa því að drekkja kettlingum í heila viku.

Þið sjáið að þetta mínútumál hans LeBron James liggur þungt á okkur, en það er ekki af ástæðulausu. Cleveland kemur til með að halda áfram að gefa James leik og leik í frí (liðið er búið að tapa öllum leikjunum sem hann hefur sleppt í vetur) en þó það sé hið besta mál, vegur það ekki upp á móti öllum þessum 40 mínútna leikjum hans að undanförnu. 

Ekki segja að við höfum ekki varað ykkur við, Cleveland.



Annað sem vekur athygli okkar hjá Cavs í vetur, fyrir utan mínúturnar hans James og þá staðreynd að hann er líka að spila eins og höfðingi eins og hann er vanur (t.d. búinn að laga 3ja stiga nýtinguna sína til muna, sem er ómetanleg staðreynd fyrir hann), er hvað þeir Kyrie Irving og Kevin Love eru líka búnir að vera flottir í vetur.

Kevin Love er hreinlega allt annar maður en hann var í fyrra, þegar meiðsli, taktleysi og andlegur núningur gerðu honum lífið ansi hreint leitt. Nú er hann hinsvegar búinn að fara með liðinu alla leið í úrslitakeppninni og finna sína rullu og sinn takt með liðinu sem gerir það að verkum að lífið er í alla staði léttara hjá honum. 



Þetta skilar sér beint á tölfræðiskýrsluna eins og þið sjáið og þó hann sé aldrei að fara að taka einhver 25/15 tímabil með þessu Cleveland-liði, er lykiltölfræðin hans búin að taka áberandi kipp í vetur. Þar munar mestu um næstum fimm tikk upp á við í 3ja stiga nýtingunni og hvorki meira né minna en sex stiga bætingu að meðaltali í leik, sem er meira en umtalsvert.

Sömu sögu er að segja af Kyrie Irving. Það hefur ekki borið mikið á honum í vetur ef hetjukarfan hans í jólaleiknum gegn Warriors er undanskilin, en leikstjórnandinn knái er líka búinn að bæta sig helling í tölfræðinni og er að eiga sitt besta tímabil á ferlinum í stórum þáttum eins og stigum og skotnýtingu og er líka að hóta því að bæta sinn besta árangur í stoðsendingum, sem að okkar mati yrði mjög áhugavert.



Við komumst nefnilega að því fyrir tilviljun þegar við fórum að skoða tölfræðina hans Irving í dag, að hann er allt í einu farinn að gefa boltann eins og hann fái borgað fyrir það.

Vitið þið hvað Kyrie Irving átti marga 10+ stoðsendinga leiki á síðustu leiktíð? O.k. við skulum bara segja ykkur það. Hann gaf ekki einu sinni tíu stoðsendingar eða meira á síðustu leiktíð - hvorki í deild né úrslitakeppni. Ekki einu sinni! Það getur vel verið að hann sé meiri skorari en leikstjórnandi, en þetta á ekki að þekkjast.

Og hann byrjaði þessa leiktíð með svipuðum hætti. Hann gaf aðeins einu sinni 10 stoðsendingar í október og nóvember, en núna í desember eru stórfurðulegir hlutir að eiga sér stað.

Allt í einu er Kyrie Irving búinn að gefa tíu stoðsendingar eða meira í fimm af síðustu sjö leikjum Cleveland! Þar af 13 stoðsendinga leik gegn Milwaukee, sem var met hjá honum á ferlinum. Ja, batnandi mönnum og allt það...

Þetta voru nokkur orð um meistara Cleveland Cavaliers* og stöðu mála hjá þeim. Sigur liðsins á Warriors á jóladag sýnir að liðið er til alls líklegt í sumar ef það heldur heilsu og meira en það.

Eins og staðan er í dag, er Cleveland nefnilega komið í stöðu sem það hefur aldrei nokkru sinni lent í áður í sögu félagsins. Cleveland er sigurstranglegasta liðið í baráttunni um meistaratitilinn í NBA deildinni árið 2017.

Þú getur dundað þér við að hugsa um þetta það sem eftir lifir af árinu 2016 - einu furðulegasta boltaíþróttaári allra tíma.

Ári Íslands, Leicester City og Cleveland Cavaliers.

------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Það hættir aldrei að vera súrrealískt að tala um lið frá Cleveland sem meistara í einhverju.

Saturday, December 12, 2015

Andstæðir pólar



Stephen Curry teymir NBA deildina inn í nýja tíma


Stór hluti af byltingunni sem Stephen Curry og Warriors-liðið hans fara fyrir í NBA deildinni þessi misserin er byggður á þriggja stiga skotunum - að taka mörg, óhemju mörg - og hitta vel úr þeim.

Öll hafið þið heyrt línuna hans Charles Barkley, sem er orðin mjög fræg á meðal þeirra sem aðhyllast tölfræði fyrir lengra komna, að lið sem byggja sóknarleik sinn á stökkskotum vinni ekki titla. Þetta var kannski þannig þegar Barkley spilaði í deildinni, en það var bara ekki sama deild og við erum að horfa á í dag.

Núna vinna lið sem byggja á stökkskotum - þriggja stiga skotum - meistaratitla ár eftir ár. Við erum búin að sjá minnst þrjú slík á síðustu árum í Dallas, San Antonio og nú Golden State. Allt lið sem treystu gríðarlega mikið á þriggja stiga skotin, reyndar alveg eins og Miami gerði líka.

Við erum dálítið spurð út í þetta. Hvað sé svona sérstakt við þetta Warriors-lið og ekki síður hvað sé svona hættulegt við þetta Curry-krútt, sem er alltaf brosandi eins og engill og skokkar um völlinn í rólegheitum milli þess sem hann tekur langskotin sín mjúku. Hann lítur ekki út fyrir að vera hryðjuverkamaður í einu eða neinu, þetta rassgat.

En látið ekki blekkjast, Curry er ekkert krútt, amk ekki ef þú ert í körfuboltaliði sem þarf að mæta honum. Og hann er að fara að sprengja öll þriggja stiga met sem til eru til fjandans áður en hann hættir. Á grafinu hérna fyrir neðan sjáið þið hvað hann gjörsamlega skilur aðrar skotgoðsagnir eftir í rykinu þegar kemur að afköstum og magni.



Það myndi taka okkur einn af þessum glórulaust-löngu pistlum að útskýra það endanlega hvað Curry og Golden State eru að breyta NBA deildinni og gera hluti sem hafa aldrei sést áður, en við nennum því ekki núna, enda er það ekki tímabært. Við skrifum kannski bara bók um það nokkrum árum eftir að byltingunni lýkur.

Akkúrat núna, langar okkur að draga upp einfalda mynd af því hvernig Curry byltingin virkar með því að setja hann aðeins í samhengi við aðra þekkta leikmenn í NBA sögunni. Setja þetta í perspektíf.

Það er dálítið skondið að hugsa til þess, en þriggja stiga línan er ekki nema 35 ára gamalt fyrirbæri í NBA deildinni og það tók bæði menn og lið mörg ár að taka henni opnum örmum. Sumir þykjast meira að segja hata hana enn þann dag í dag, þó það sé auðvitað tóm vitleysa.

Það hafa alltaf verið til þriggja stiga sérfræðingar í NBA deildinni - menn sem gerðu lítið annað en að skjóta þriggja stiga skotum - og þumalputtaregla til að finna þessa menn er að renna í gegn um þátttakendur í 3ja stiga skotkeppnunum um Stjörnuhelgina. Hérna fyrir neðan sjáið þið þátttakendur í annari 3ja stiga skotkeppninni sem haldin var um Stjörnuhelgina í Seattle árið 1987.

Þið sjáið hann Larry lengst til vinstri, Detlef með mottuna við hliðina á honum, Dale Ellis þar við hliðina (sem sagar í fótinn á sér með bogasög daglega fyrir að vera ekki NBA leikmaður í dag) og hversu óheyrilega og ógeðslega kaldhæðnislegt er að sjá sjálfan þriggja stiga skota fæluna, tölfræði fyrir lengra komna hatursmanninn og afturhaldssegginn Byron Scott þarna þriðja frá hægri? Hann skammast sín eflaust gríðarlega fyrir að hafa tekið þátt í þessum vitleysisgangi á sínum tíma.



Maðurinn sem rúllaði þessari keppni upp fyrstu þrjú árin* var goðsögnin Larry Bird hjá Boston Celtics og segja má að hann hafi verið ein af fyrstu stjörnunum í NBA deildinni sem hafði 3ja stiga skotin í vopnabúri sínu, þó hann hafi meira notað það sem neyðartæki eða bakbrjót, í stað reglubundinnar leikaðferðar eins og menn gera í dag.

Næsta stjarna sem byggði leik sinn mikið á þriggja stiga skotunum var Reggie Miller hjá Indiana Pacers. Miller er einn ofmetnasti leikmaður í sögu NBA og gerði ekkert inni á vellinum annað en að skora, en það verður ekki af honum tekið að hann var fín skytta.

Fulltrúi kynslóðarinnar sem kom á eftir Miller var tvímælalaust Ray Allen sem undir lok ferils síns tók fram úr Reggie Miller og varð afkastamesta 3ja stiga skytta í sögu deildarinnar.

Allen var ekki bara betri skytta heldur en Miller, heldur skaut hann líka meira, enda var langskotið þegar hér var komið við sögu orðið miklu stærri partur af öllum sóknarleik í deildinni en hann var áður.

Allen spilaði lengst af á ferlinum með Milwaukee og Seattle, en mörg ykkar muna ef til vill meira eftir honum á síðustu árunum hans í deildinni þar sem hann spilaði alltaf fram í júní með liðum sínum Boston Celtics og síðar Miami Heat.

Þar náði hann að skilja eftir sig djúp fótspor með í sögunni með meistaratitlum og æfingum eins og þessum hérna á myndinni fyrir ofan þegar hann skaut hjartað úr San Antonio í lokaúrslitunum um árið.

Það kemur svo í hlut manna eins og Stephen Curry að taka við keflinu af Allen og enn og aftur eru þeir að skjóta meira en kynslóðin á undan. Það klikkaða við þetta er bara að hann er ekki bara að skjóta miklu meira, hann er líka að hitta miklu betur!


Eins og þið sjáið á töflunni hérna fyrir ofan (smelltu bara á hana og stækkaðu hana ef hún er svona fjandi óskýr - hvað er eiginlega að þér?) sýnir hún Curry ekki vera að taka "nema" 6,8 3ja stiga tilraunir í leik á ferlinum, en það er náttúrulega bara pínöts miðað við hvað hann er að gera í dag, þar sem hann er að taka ELLEFU þriggja stiga skot í leik.

Fyrir aðeins örfáum árum, hefði svona skotgleði verið kölluð stöppu-geðveiki - hvort sem menn hefðu verið að hitta úr þessu eða ekki. Menn bara skutu ekki svona hér áður, það hefði bara þótt dónaskapur.

En eins og við höfum farið í gegn um áður, tók það menn einfaldlega mjög langan tíma að fatta það að þriggja stiga skotin eru drullu hagkvæm skot þó þau fari ekki jafn oft ofan í og tveggja stiga skotin, af þeirri einföldu ástæðu að það fást fleiri stig fyrir að setja þau niður.

Nú er það vitaskuld ekki á færi allra liða að hitta fyrir utan, en þegar þú ert með lið eins og Warriors, sem er með fimm og sex leikmenn í sínum röðum sem skjóta vel yfir 40% fyrir utan - þá gefur augaleið að þú lætur vaða eins og fjandinn sé á hælunum á þér.


Öll þessi tölfræði fyrir lengra komna sýnir svo ekki verður um villst að öll þessi þriggja stiga skot - í höndunum á liði sem getur sett þau niður - eru að gera Golden State að einu af bestu liðum sögunnar. Og það er náttúrulega Stephen Curry sem fer fyrir öllu þessu. Það er hann sem tekur flest skotin og það er hann sem veldur mótherjum Warriors mestum kvíða.

En það er alveg sama hvað mótherjar liðsins skáta hann fram og aftur, hann finnur alltaf leiðir til að raða þristum í andlitið á þeim en spilar svo bara félaga sína uppi ef hann sjálfur fær of mikla athygli. Það er nú eitt af því sem er svo bjútífúl við drenginn - honum er fullkomlega sama um allt þetta skytterí bara ef liðið hans er að vinna. Og það er sko að vinna.

Sjáðu skotkortið hjá þessum brjálæðingi! Það er eins og lógóið hjá vinstri grænum!
























Curry og Warriors-liðið hans er fjarri því að vera eina liðið í deildinni sem tekur mikið af þriggja stiga skotum og við eigum eflaust eftir að sjá sóknarleikinn verða enn meira þristaþenkjandi áður en við förum að sjá draga úr langskotum í NBA.

Gallinn við þetta er bara að það eru ekki öll lið svo heppin að eiga bakvarðapar eins og Curry og Klay Thompson sem skjóta eins og brjálæðingar en hitta alltaf í kring um 45% úr þristunum sínum. Á meðan svo er, verður þetta Golden State skaðræði við að eiga.

------------------------------------------------------------------------------------------------

* Fræg er sagan af því þegar Bird mætti inn í klefa fyrir 3ja stiga keppnina og hreytti út úr sér svo allir hinir keppendurnir heyrðu til hans: "Jæja, hver af ykkur aumingjunum ætlar að verða í öðru sæti í þessari keppni?"



Aðeins af Draymond og Warriors


Það er ekki oft sem NBA deildin stelur sviðsljósinu frá öðrum greinum fyrir áramótin, en hún er sannarlega að gera það núna út af þessum látum í Golden State Warriors. Við höfum tekið eftir því að Jón Jónsson úti á götu veit af þessu, veit að þetta Golden State lið er að vinna fullt af leikjum í röð og svona, en pælir ekkert meira í því. Veit ekki hvað er í gangi.

Þetta er reyndar ekkert mikið öðru vísi með þá lengra komnu, þeir fatta jú af hverju Golden State vinnur fullt af leikjum, en það skilur enginn upp eða niður í þessari lygilegu sigurgöngu hjá liðinu. Andstæðingar og hatursmenn geta huggað sig við að við erum jú bara ennþá stödd í desember og það er langt langt þangað til úrslitakeppnin byrjar.

Það er ekki hlaupið að því að fá miða þegar Warriors koma í heimsókn og dæmi eru um það að miðaverð hafi hækkað fimm til tífalt. Allir vilja sjá Curry og Warriors koma í bæinn, og lúskra á liðinu sínu. Liðið fær líka lygilegan stuðning á mörgum útivöllum. Bolurinn lætur sig ekki vanta á vagninn frekar en venjulega, en menn segja nú samt að þeir hafi ekki séð aðrar eins rokkstjörnur á ferðinni síðan seinni útgáfan af Chicago-liðinu hans Jordans var og hét.

Luke Walton og þjálfarateymi Warriors eru í sjálfu sér örugglega ekkert allt of hamingjusamir með þessa löngu sigurgöngu, því þeir hefðu eflaust viljað hvíla lykilmenn liðsins eitthvað aðeins meira en þeir hafa verið að gera í allra síðustu leikjum, en öll þessi met - sem liðið er annað hvort búið að slá eða er alveg við það að slá - gera það að verkum að það er erfitt að kýla ekki á það.

Til hvers eru lið jú í þessu ef þau reyna ekki að setja mark sitt á söguna og slá met. Eins og einhver sagði  - og hafði að hluta til rétt fyrir sér - það verður eitt lið meistari á hverju ári, en mjög fá lið fá tækifæri til að reyna að slá nærri hálfrar aldar gamalt met LA Lakers yfir flesta sigurleiki í röð (33).

Það tryggir þér öruggan sess í sögubókum. Þegar við lesum greinar um þau NBA met sem er erfiðast að slá, er þetta met alltaf nefnt til sögunnar, en nú er svo komið að það er í hættu í annað skipti á þremur árum eða svo.

Við erum ekki bara að skrifa þessar línur til að jinxa Warriors til að fara að tapa leikjum. Ætli við séum ekki helst að því af því við urðum að skrifa eitthvað til að lýsa yfir hrifningu okkar á Draymond Green enn eina ferðina.


Einu sinni voru menn eins og Andre Iguodala eða Andrew Bogut eða Klay Thompson næstbestu leikmenn Golden State - og þeir eiga það til að vera það í leik og leik. En það er orðið alveg ljóst í dag að það er Draymond Green sem er næstbesti maður liðsins.

Drengurinn er að spila alveg óheyrilega vel. Hann kórónaði þessa pælingu ekki illa með því að komast í mjög takmarkaðan hóp leikmanna í sögu NBA sem hafa náð fimmfaldri fimmu, þegar hann skoraði 24 stig, hirti 11 fráköst, gaf 8 stoðendingar, varði fimm skot og stal fimm boltum! Hann er aðeins þriðji leikmaðurinn í sögunni til að ná þessum tölum í leik í NBA deildinni. Hrottalegt!

Stigaskorið hans drepur engan (13,5) en það er heldur ekki það sem honum finnst skemmtilegast að gera og hann lítur þannig á að það sé nóg af mönnum í liðinu sem geta séð um það. Og það er líka rétt hjá honum. Það er hinsvegar alltaf pláss fyrir varnarmenn, hindranasetningamann, frákastara og pleimeikera í öllum liðum - og Draymond tikkar í öll þessi box eins og fáir aðrir leikmenn í deildinni.


Green er ekki bara að skjóta mjög virðingarverðum 36% eða svo fyrir utan 3ja stiga línu og hirða nærri níu fráköst í leik - hann er í sjöunda sæti í NBA deildinni í stoðsendingum! Það er svona á líka og ef Arjen Robben væri í sjöunda sæti í Bundeslígunni í því að vinna skallaeinvígi eða tæklingar. Það er sannarlega þetta með skrattann og sauðalegginn.

Draymond Green er búinn að gera stórhættulegan sóknarleik Golden State helmingi meira hættulegan með því að vera búinn að breyta sér í 105 kílóa þungan leikstjórnanda sem er bæði klókur og fullkomlega óeigingjarn eins og restin af liði Warriors náttúrulega.

Það er ekki ónýtt að settur kraftframherji liðsins geti tekið pressu af verðmætasta leikmanni deildarinnar þegar hann þarf ef til vill að hvíla í nokkrar sóknir eða jafnvel sagt að spila af boltanum um stund. Þetta er með ólíkindum.

Draymond Green á að vera í byrjunarliði Vesturdeildarinnar í Stjörnuleiknum. Á að vera annað nafnið niður á blað á eftir félaga sínum Stephen Curry.

En við vitum að það verður ekki þannig, af því kosningin í byrjunarliðin í Stjörnuleikinn er júróvisjón og júróvisjón er heilalaust rusl og ómenning.

Kobe Bryant verður í byrjunarliði Vesturdeildarinnar í Stjörnuleiknum. Það verður gaman fyrir hann og stuðningsmenn Lakers, en það verður óverðskuldaðasta val síðan... tjah, sennilega síðan Bryant var valinn í fyrsta Stjörnuleikinn sinn á ferlinum forðum.

 Það verður einhver mjög góður körfuboltamaður í Vesturdeildinni að sætta sig við að horfa á hann í sjónvarpinu meðan Kobe tekur mínúturnar hans. Svona er þetta víst bara.

Haters og Neikvæðar-Nönnur reyna að taka af Warriors með því að benda á að það hafi sloppið við að spila við lið eins og Cleveland, San Antonio og Oklahoma á þessari rispu, en leikmenn Warriors geta bara ekkert að því gert. Þeir fá tækifæri til að mæta þessum liðum fljótlega - Cleveland t.d. um jólin og Golden State getur heldur ekkert að því gera að það þurfi að vinna eitthvað af þessum leikjum án 1-2 byrjunarliðsmanna og hvern einn og einasta þeirra án aðalþjálfara síns.


Það skiptir engu máli hvað hver segir, Golden State heldur bara áfram að slá met og það er ekkert sem þú eða þið getið gert í því. Nú þegar við hugsum um það, hrifsaði Golden State metabókina (eða bækurnar) til sín á seinni hluta síðasta tímabils og situr nú bara með þær í fanginu og skrifar í þær eins og jólasveinninn. Og liðið er ekkert að fara að skila þessum bókum neitt á næstunni - hvort sem það tapar leik á morgun eða eftir mánuð. Þeir eru sko ekki búnir - þeir eru rétt að byrja þessir menn.

Wednesday, November 11, 2015

Friday, October 23, 2015

Blóðbað í Breiðholtinu


Fallega gert af Natvélinni og félögum í Þór að standa undir hrósinu sem við gáfum þeim á dögunum með því að valta yfir Tindastól í Ljósabekknum í Þorlákshöfn 92-66. Þetta eru ekki beint tölurnar sem við hefðum búist við, en Þórsarar eru þarna að láta enn betur vita af sér en þeir gerðu í Vesturbænum á mánudaginn.

Ekki skemmir að téð vél hélt áfram að terrorísera í teignum og hirti 17 fráköst, þó það væri auðvitað Davíð Ágústsson sem stal senunni með þristunum sínum sjö úr átta tilraunum.

Það er okkur alltaf ánægjuefni þegar litlu liðin úti á landi eru með kjaft, þó að þessu sinni hafi ofbeldið bitnað á öðru landsbyggðarliði. Þið vitið hvað við erum að fara.

Okkur dreymir jú öllum um að hvert einasta pláss á landinu fái forskeytið "körfuboltabærinn xxx."

Annað landsbyggðarlið með leiðindi er FSu, en það náði að hræða líftóruna úr Garðbæingum í Ásgarði í kvöld. Stjarnan náði á endanum að klára leikinn 91-87 en frá bæjardyrum heimamanna sýnir þessi leikur glöggt að það eru ansi fáir leikir gefnir í þessari deild.

Ef við skoðum dæmið frá sjónarhorni austanmanna, hljóta þessi úrslit að vera alveg sérstaklega svekkjandi, því þetta er í annað skipti á viku sem liðið tapar leik þar sem úrslitin ráðast í blálokin.

Liðið kastaði þessum kannski ekki frá sér líkt og Grindavíkurleiknum um daginn, en það er sama. FSu er hér að eiga við dæmigerða nýliðakveisu - að geta ekki klárað leiki - annað hvort vegna þess að það skortir reynslu eða gæði (oft bæði).

Nú er bara að sjá úr hverju FSu-menn eru gerðir, hvort þeir láta þetta mótlæti brjóta sig niður og eyðileggja tímabilið eða hvort þeir ná að bæta sig um þessi 5% sem vantar upp á til að fara að vinna leiki. Stigin eru dýrmæt í þessu, svo mikið er víst.

Aðalleikur kvöldsins fór fram í Breiðholtinu, þar sem ÍR tók á móti Grindavík. Þetta var aðalleikur kvöldsins af þeirri einföldu ástæðu að NBA Ísland var á svæðinu, enda alltaf gott að koma í Seljaskólann.

En talandi um Seljaskólann, megum við til með að minnast á mikilvægt atriði áður en lengra er haldið.

Um árabil - já, um árabil, voru Breiðhyltingar með allt lóðrétt niður um sig þegar kom að umgjörð og aðstöðu fyrir fjölmiðlafólk. Þar bar auðvitað hæst að internetið í kofanum var aldrei í lagi - ef það var þá einhvern tímann til staðar yfir höfuð. Við öskruðum okkur hás og skrifuðum okkur í krampa yfir þessum málum aftur og aftur en það skilaði litlu.

En batnandi fólki er best að lifa. Í kvöld varð okkur á að skjótast upp í fjölmiðlastúku inn á milli leikhluta til að skoða tölfræðina og þar beið okkar nokkuð mögnuð sjón. Þá reyndust ÍR-ingarnir ekki aðeins vera með dúndurgott internet (4G), heldur var þarna aðstaða fyrir alla fjölmiðlamenn hvort sem þeir voru skrifandi eða takandi upp og svo var þarna meira að segja kaffi, gos og bakkelsi!

Nú vitum við hvað þið eruð að hugsa - ætli blaðamannastéttin sé ekki nógu fjandi feit svo körfuboltafélögin á landinu fari ekki að bera í þau bakkelsi og slikkerí! Jú, þetta er hárrétt, en okkur þykir alveg nauðsynlegt að minnast á það þegar svona vel er staðið að málum - ekki síst þar sem menn voru með allt lóðrétt áður.

Þú þarft ekkert að vera með gos og bakkelsi, þannig séð, en það lýsir bara ákveðnum standard að hugsa vel um fjölmiðlafólkið meðan á leik stendur. Það hjálpar ekki aðeins til þegar kemur að umfjöllun, heldur er það líka augljóst merki um metnað og fagmennsku.

KR-ingar hafa verið í algjörum sérflokki þegar kemur að þessu atriði undanfarinn áratug. Við vitum alveg að KR er stór klúbbur og á því auðveldara með svona trakteríngar en önnur félög, en eins og áður sagði er þetta allt spurning um metnað félaganna. Það geta allir boðið upp á góða alhliða umgjörð ef viljinn er fyrir hendi - líka litlu klúbbarnir.

En vindum okkur að leiknum. Þeir eru eflaust fáir sem eru sammála okkur, en okkur þótti leikur ÍR og Grindavíkur alveg ógeðslega skemmtilegur.

Eins og þið vitið líklega, vann Grindavík miklu öruggari sigur en lokatölurnar 79-94 segja til um, þetta var blástur frá upphafi og langleiðina til enda. ÍR lenti sannarlega í grændernum í kvöld.

Monday, October 19, 2015

Endurtekinn áróður um LeBron James


Við vitum að við höfum skrifað um þetta áður og það er hallærislegt, en mikilvæg skilaboð verður stundum að tyggja í fólk svo það sé örugglega með á nótunum. Ekki síst nú á síðustu og verstu tímum þar sem hægt er að halda athygli fólks í innan við sekúndu í senn. Og nú hætta margir að lesa og skipta yfir á bleikt.is eða eitthvað, sem er auðvitað ljómandi í sjálfu sér.

Okkur langaði bara að sýna ykkur hvað það sést skemmtilega svart á hvítu hver er búinn að vera besti körfuboltamaður heims undanfarin ár. Flakkið á LeBron James milli Suðurstrandar og Cleveland hefur eflaust farið í taugarnar á mörgum, en það góða við það er að það gefur okkur perspektíf á hvað það gerir fyrir lið að fá LeBron James í sínar raðir - og missa hann.

Hérna fyrir neðan sérðu hvernig Cleveland gekk árin áður en LeBron kom inn í deildina, hvað liðið tók stórstígum framförum um leið og hann byrjaði að spila og fór að lokum langt yfir 60 sigra. Svo sérðu skarðið ljóta sem eru árin fjögur sem hann skrapp niður á Flórída.

Cleveland gjörsamlega drullaði lungum og lifur á meðan og var lélegasta liðið í NBA á þessum fjögurra ára kafla. Svo mætir karlinn aftur til Cleveland og það var eins og við manninn mælt - það poppaði strax aftur upp fyrir 50 sigra og fór beint í lokaúrslitin. Þið munið hvernig liðið komst þangað - hvað James fékk mikla hjálp við það.


Svo eru það árin hjá Miami. Það var sama uppi á teningnum þar, Miami hafði gengið svona la la áður en James mætti á ströndina, en um leið og hann kom, varð allt vitlaust. Miami vann tæpa 60 leiki að meðaltali (verkbannsárið uppreiknað) árin fjögur sem hann spilaði þar og fór í lokaúrslit öll árin - sem er rugl, þó austrið hafi verið veikara en Oprah Winfrey.


Það er afar sjaldgæft að einn körfuboltamaður hafi önnur eins áhrif og James hefur haft undanfarin áratug - ekki bara á liðið sem hann spilar með, heldur einnig á valdajafnvægið í allri deildinni. Síðasti leikmaðurinn sem hafði önnur eins áhrif með félagaskiptum var Shaquille O´Neal. Hann fór frá meistaraliði Lakers og gerði Miami að meistara (með góðri hjálp).

Við vitum alveg að það hjálpar James mikið hvað deildin sem hann spilar í er mikið dómsdags rusl, en þú getur ekki tekið það af honum að þetta er helvíti magnaður árangur hjá honum. Þetta er kallað að vera sigurvegari.

Nú, ef þetta fer allt saman fyrir ofan garð og neðan hjá þér, geturðu að minnsta kosti skoðað grafíkina sem við útbjuggum með færslunni. Hún er af dýrari gerðinni þó við segjum sjálf frá.

Monday, June 15, 2015

Tölur og töflur úr leik fimm


Hver hefur ekki gaman af töflum, gröfum og tölum til að krydda þetta frábæra úrslitaeinvígi? Internetið lætur ekki sitt eftir liggja í þeim efnum, sérstaklega Twitter. Hér er sýnishorn:










Saturday, May 9, 2015

Rólegur, Chris


Chris Paul var langt frá sínu besta formi í nótt þegar hann sneri aftur eftir tveggja leikja fjarveru með LA Clippers vegna meiðsla sem hann varð fyrir í oddaleiknum við San Antonio um síðustu helgi.

Málið er bara að "Langt frá sínu besta formi"-Chris Paul er betri en nokkrir leikstjórnendur í NBA deildinni og í nótt færði hann liðinu sínu nákvæmlega það sem það þurfti - góða byrjun og bílstjóra. Það er algjör lúxus fyrir Paul og Clippers að hann hafi ekki þurft að spila nema um 20 mínútur og nú fær hann 48 tíma til að hvíla lærið á sér aftur.

Ef hlutirnir færu eftir bókinni í Vesturdeildinni, yrði ekki ólíklegt að við fengjum að sjá erkióvinina Warriors og Clippers í úrslitum (vesturs) og ef svo færi, VERÐUR Chris Paul að vera heill. Það sér það hver maður að Clippers ætti ekki séns í Warriors án Paul. Það yrði svona eins og að horfa upp á Gunnar Nelson berjast við Jóhönnu Sigurðardóttur

En ástæðan fyrir þessari færslu er þó ekki ofangreint, heldur langaði okkur að deila með ykkur skjáskoti af textalýsingunni frá leiknum í nótt. Myndin sýnir á ljóslifandi hátt hvernig Chris Paul stýrir sóknarleik Clippers og skapar færi fyrir sig og félaga sína meðan hann er að fræsa tölfræðiskýrslurnar.

Svo gefur hann FIMM stoðsendingar á tveimur mínútum! Og svo hendir hann í tvær körfur á eftir svona til að setja berið upp á ísinn. Eins og til að sýna okkur hvað þetta er allt saman auðvelt fyrir hann á annari löppinni. Nákvæmlega ekkert eðlilegt við þetta. Þetta er bara hroki.


Monday, May 4, 2015

MVP tölurnar



Frá Kerr til Curry



Við erum alltaf að pæla í því annað slagið hvernig það hefði verið ef gömlu hetjurnar í NBA deildinni væru að spila í dag, sérstaklega skytturnar. Við minntumst á það hér fyrir ekki svo löngu að menn eins og Drazen Petrovic heitinn hefðu heldur betur blómstrað í NBA í dag, þar sem allir leikmenn eru með græna ljósið á að skjóta nær ótakmarkað fyrir utan. Menn eins og Drazen hefðu ekki látið sér nægja að skjóta boltanum - hann hefði sett hann ofan í líka.

Annað slagið rekumst við á sögur, staðreyndir eða statt sem fá okkur til að horfa um öxl. Dæmi um slíkt gerðist í kvöld þegar það lak út að Stephen Curry yrði kjörinn MVP í NBA í ár, sem kemur ekkert á óvart. Einn liðurinn í því sem gerir Curry svona góðan er náttúrulega þriggja stiga skotin hans, en hann bætti metið yfir flesta þrista á tímabili um daginn (gamla metið setti hann sjálfur árið áður).

Þá varð okkur hugsað til þjálfarans hans Stephen Curry, Steve Kerr. Þeir sem muna eftir seinni titlaþrennu Chicago Bulls frá 1996 til 1998 muna sannarlega eftir Kerr - gjarnan galopnum í horninu að taka skot eftir að Michael Jordan var þrídekkaður. Kerr lét ekki þar við sitja og flutti sig um set til San Antonio þegar Jordan hætti árið 1998.

Það var kannski ekki sami glans á Spurs og hafði verið á Bulls, en liðið vann nú samt meistaratitilinn á verkbannsárinu ömurlega árið 1999 og því vann Kerr meistaratitilinn fjórum sinnum í röð, sem er einstakt. Hann bætti meira að segja einum titli við með Spurs á lokaárinu sínu í deildinni árið 2003.

En þá að því sem við vorum að hugsa um. Steve Kerr var alltaf þekktur sem rosaleg þriggja stiga skytta og það var svo sem engin furða, hann er jú með bestu þriggja stiga nýtingu í sögu deildarinnar.



Það var hinsvegar sama hversu góðar skyttur menn voru, liðin í deildinni trúðu því ekki að það gæti verið gáfulegt að taka fleiri þriggja stiga skot undir ákveðnum kringumstæðum - sumir þjálfarar trúa því reyndar ekki enn (t.d. Byron Scott).

Í dag þykir hinsvegar ákaflega sniðugt að taka þriggja stiga skot og það ekki síst ef þú ert með eina bestu þriggja stiga skyttu allra tíma í liðinu þínu, mann eins og Stephen Curry.

Það magnaðasta við Curry er í raun og veru ekki nýtingin hans, þó hún sé frábær og dugi honum í þriðja sæti listans. Nei, það klikkaðasta er nýtingin hans miðað við það óguðlega magn af langskotum sem hann tekur.

Þetta er helsti munurinn á Curry og Kerr. Á meðan Steve Kerr var fyrst og fremst maður sem beið í hornunum og setti niður opin skot sem hann tók úr kyrrstöðu, hefur Curry komið með nýja vídd inn í þetta með því að skjóta á fullri ferð upp völlinn, sem gerir það að verkum að varnir fá taugaáfall um leið og hann kemur yfir miðju.

En hvað er Curry þá að skjóta mikið meira en Kerr? Fljótlegasta leiðin er að útskýra það með eftirfarand dæmi. Steve Kerr skoraði 726 þriggja stiga körfur á ferlinum í NBA sem spannaði hvorki meira né minna en fimmtán ár.

Curry er búinn að skora 819 þrista á síðustu þremur tímabilum.

Mætti halda að væru breytingar í gangi.


Wednesday, February 25, 2015

LeBron James klífur tölfræðilistana


Clyde Drexler, Kobe Bryant, Larry Bird, Michael Jordan, Allen Iverson, Dwyane Wade, Clyde Frazier, Tracy McGrady, Rick Bary, Gary Payton, Jerry West, Pete Maravich, Penny Hardaway, Paul Westphal og nú Scottie Pippen...

Þessir gæðaleikmenn eiga fleira sameiginlegt en að vera goðsagnir í sögu NBA deildarinnar, því þeir hafa allir gefið færri stoðsendingar en LeBron James á ferlinum. James varð í nótt stoðsendingahæsti framherji í sögu NBA deildarinnar þegar hann hoppaði yfir Scottie Pippen á listanum. Pippen hirti sætið af John Havlicek hjá Boston skömmu eftir aldamótin.

Fæstir leikmannanna sem við töldum upp hér að ofan eru leikstjórnendur - mennirnir sem alla jafna eru efstir í stoðsendingum hjá liðum sínum - en þeir eru nokkrir af sterkustu leikmönnum allra tíma. Okkur datt því í hug að telja nokkra þeirra upp til að gefa ykkur mynd af því hvert stefnir hjá LeBron James.

Það sem er áhugaverðast við þennan áfanga hjá fyrirbærinu James er hvað hann er ungur þegar hann nær honum. Drengurinn er nýorðinn þrítugur og það tók hann innan við 900 leiki að taka fram úr Pippen á stoðsendingalistanum. Pippen gaf sínar 6135 stoðsendingar í 1178 leikjum, en James þurfti "ekki nema" 890 leiki til að taka fram úr honum.

Ástæðan fyrir því að James er búinn að ná þessum áfanga er náttúrulega sú að þó hann sé í grunninn skráður (minni) framherji og skili því fullkomlega, hefur hann oftar en ekki spilað meira eins og bakvörður og handleikur boltann miklu meira en kollegar hans í framherjastöðunum.

James, alveg eins og Pippen, hefur verið uppnefndur "framstjórnandi" eða "leikherji" (point forward) til að undirstrika fjölhæfni hans á vellinum.

Það er nánast sama hvert er litið þegar kemur að LeBron James. Alls staðar eru met í sjónmáli. Sem stendur er hann staddur í 24.000+ stigum, 6000+ fráköstum og 6000+ stoðsendingum, sem eru tölur sem sjást ekki á hverjum degi - hvað þá frá þrítugum manni sem gæti með smá heppni átt eftir að spila mörg ár í viðbót í deildinni.

James er þegar kominn í 22. sæti stigalistans og verður einhvers staðar í kring um 25. sætið á stoðsendingalistanum þegar vorar hjá okkur, það er að segja ef kemur eitthvað vor.

Enn og aftur, krakkar, langar okkur að gefa ykkur heilræði. Reynið umfram allt að taka leikmanni eins og James ekki sem sjálfssögðum hlut og reynið að njóta hvers augnabliks. Við erum að fylgjast með leikmanni sem kemur til með að fá að setjast við háborðið í Heiðurshöllinni þegar að því kemur. Borðinu sem er frátekið fyrir MJ, Larry, Magic, Kareem, Wilt, Oscar og Russell.

Saturday, February 14, 2015

Við munum þig, Mason


Góðvinur ritstjórnarinnar Anthony Mason berst nú fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi eftir að hafa fengið alvarlegt hjartaáfall ofan á önnur veikindi sem þegar voru að hrjá hann.

Dapurlegt þegar svona ungir menn missa heilsuna og þó nýjustu fréttir bendi til þess að ástand hans hafi skánað eitthvað lítillega, er hann enn í lífshættu.

Þið eruð kannski búin að gleyma því hvað Anthony Mason var skemmtilegur leikmaður á sínum tíma, en við erum svo sannarlega ekki búin að gleyma því.

Og þá erum við ekki bara að tala um þegar hann myndaði eina físískustu framlínu körfuboltasögunnar með þeim Patrick Ewing, Charles Oakley og Charles Smith í New York.

Nei, við munum líka eftir því þegar hann gekk í raðir Charlotte, þar sem hann fór sérstaklega hamförum leiktíðina 1996-97.

Þá spilaði hann með drullu-skemmtilegu Hornets-liði sem hafði á að skipa mönnum eins og Glen Rice, Vlade Divac, Dell Curry (pabba Stephen Curry), Muggsy litla Bogues að ógleymdum fagmönnum eins og Ricky Pierce og Matt Geiger. Þetta lið vann 54 leiki um veturinn, en lét reyndar New York sópa sér út 3-0 í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Anthony Mason var byggður eins og jarðýta, en það skondna við það var að hann var með ágætis boltameðferð og átti það til að koma upp með boltann og stýra spili Hornets.

Þarna var hann líka með sína flottustu tölfræði á ferlinum - skoraði 16,2 stig, hirti 11,4 fráköst, gaf 5,7 stoðsendingar, stal einum bolta og skaut 52,5% utan af velli, sem er ekkert slor.

Kappinn bauð upp á einar fjórar þrennur um veturinn og setti í nokkrar hrikalegar tölfræðilínur inn á milli.

Dæmi má nefna fjóra leiki sem hann tók í röð janúar árið 1997 þar sem hann hrærði í 19/12/7, 20/17/8, 20/17/7 og 14/11/9 á einni viku í síðari hluta mánaðarins.

Í mánuðinum á eftir bauð hann upp á svipuð læti, þar sem sjá mátti leiki upp á 15/22/10, 21/18/8, 28/12/9, 19/13/12, 19/14/12 og svona var þetta leik eftir leik hjá vini okkar, skoðaðu bara logginn hans frá árinu 1997. Það eru ansi feitar línur þarna inn á milli.

 Mason var fjall að burðum, en í rauninni of lágvaxinn til að vera fjarki en of hrikalegur til að vera þristur. Ef við ættum að finna hliðstæðu Mason í deildinni í dag myndum við kannski helst benda á Draymond Green hjá Golden State.

Green er fljótari á löppunum og betri varnarmaður en Mason, en sá síðarnefndi var með miklu betri leik á póstinum og svona 89 sinnum sterkari. Það er þó eins með Mason og Green, ef menn hafa hæfileika, passa þeir inn í hvaða lið sem er.

Það var tíska hjá sumum að raka eitt og annað í hárið á sér þarna á tíunda áratugnum og Mason var fremstur í flokki í NBA deildinni í þeirri list, þar sem hann skaut meira að segja Dennis Rodman ref fyrir rass.

Við teljum ólíklegt að Mason sitji núna í sjúkrarúminu sínu (ef hann er þá með meðvitund) og hugsi um hvað það sé nú merkilegt og skemmtilegt að það sé fólk á Íslandi að hugsa fallega til hans í veikindunum og rifja upp afreksverk hans á körfuboltavellinum.

En svona er nú heimurinn lítill og lífið almennt undarlegt.

Láttu þér batna, Mase. Við hugsum hlýlega til þín.