Showing posts with label West is best. Show all posts
Showing posts with label West is best. Show all posts

Friday, May 20, 2016

Cleveland fær enga samkeppni í Austurdeildinni


Þetta er eiginlega verra en við reiknuðum með. Við vorum að vona að Toronto gæti eitthvað staðið í Cleveland í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar, þó nákvæmlega ekkert benti til þess. Cleveland er búið að taka 2-0 forystu í rimmunni og þó mótspyrnan hafi verið aðeins meiri hjá Toronto í leik tvö, þurftu Cleveland menn ekki að fara í sturtu eftir leikinn.

Þeir eru vissulega meiddir, Kanadamennirnir sem eru engir Kanadamenn, en þeir voru líka að væla um þreytu eftir annan leikinn. Kommon. Toronto er búið að spila helmingi fleiri mínútur en Cleveland í úrslitakeppninni, en svona ungt lið eins og Toronto hefur engar afsakanir fyrir því að geta ekki drullast til að spila á 48 tíma fresti.

Það er alltaf annar Toronto-bakvörðurinn eða báðir í einhverri krísu. Nú er það Kyle Lowry sem er í krísu af því hann er búinn að skjóta 4 af 14 í báðum leikjum og er búinn að hitta einu af sextánhundruðogáttatíuþúsund 3ja stiga skotum sínum.


Lowry er samt frákastahæsti leikmaður Toronto liðsins í seríunni við Cleveland.

Með fimm fráköst að meðaltali í leik...

Dæs...

Toronto spilaði þokkalega vörn á köflum í  seríunni við Miami, en þeir eru búnir að stengleyma hvernig þeir fóru að þvi. Það þarf víst að dekka aðeins fleiri menn hjá Cleveland. Það eru fleiri en einn maður þar sem geta skorað.

Andstæðingar Cleveland hafa ekki verið andskoti merkilegir í úrslitakeppninni fram að þessu, en á einhverjum tímapunkti verðum við að gefa þeim smá kúdós fyrir að skjóta svona fyrir utan. Cavs er með þrjá leikmenn sem eru að skjóta 50% eða betur í þristum og sex leikmenn sem eru 45% eða betur. Þetta er frekar mikið rugl sko.






















Þið eruð búin að heyra og lesa það út úr LeBron James í allan vetur að hann hefur mjög ákveðnar hugmyndur um það hver sé besti körfuboltamaður heims.

"Verðmæti, serðmæti!" segir hann upphátt við sjálfan sig þegar kemur fimm mínútna löng syrpa í sjónvarpinu sem sýnir Stephen Curry raða niður þriggja stiga körfum og taka við Podoloffnum úr höndum Stjórans. Annað árið í röð.

"Sjá þennan titt..."


Cleveland er ekki með fullkomið lið, en það er mesta furða hvað það hefur komið sér á góða siglingu í úrslitakeppninni. Það var búið að vera drama í allan vetur, alveg eins og síðasta vetur, og það var meira að segja búið að vera hikst á liðinu í nokkrum leikjum í úrslitakeppnini. Samt virðist þetta ætla að smella sæmilega saman fyrir rest.

Nú eru líka allir heilir. Það er allt annað að spila við Golden State með stjörnuleikmenn á hvora hönd í stað þess að þurfa að gera allt sjálfur. Nei, sko, ALLT sjálfur. Enga svoleiðis steypu aftur.

Og nú er líka boðið upp á reglulega hvíld. Svo mikla að það liggur við að liðið detti úr takti. Enginn alvarlega meiddur núna. Nú verður tekinn almennilegur slagur og nú sjáum við hvort er hægt að vinna titil í Cleveland eða ekki.

LeBron James er náttúrulega að hugsa um:


Og ef það á að lúkka rétt, þarf að fara að koma titill áður en glugginn lokast.
Áður en það verður of seint.

Það veltur alveg á Cleveland hvað Toronto serían verður löng. Það getur vel verið að þeir leyfi þessu að fara í fimm leiki, bara svona til gamans. Það kæmi okkur þó alls ekki á óvart þó Cleveland myndi sópa þessu.

Vonandi fyrir stuðningsmennina nær Toronto að bjarga andlitinu með því að vinna einn eða tvo leiki heima svo þetta verði ekki alveg tilgangslaus ferð í úrslit austursins hjá þeim greyjunum.

Kaldur og nöturlegur veruleikinn blasir samt við Kanadaliðinu. Toronto er laumufarþegi í undanúrslitum og er tveimur klössum veikara lið en hin þrjú sem eru eftir.

Þetta þýðir að LeBron James er að krúsa inn í enn eitt lokaúrslitaeinvígið án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut fyrir því og þetta hefur aldrei verið eins létt fyrir hann eins og í ár.

Cleveland er tíu núll og  er að setja alls konar met. Við nennum ekki að telja þau upp, af því Cleveland mönnum gæti ekki fræðilega verið meira sama um þau. Þeir vilja bara klára upphitunina svo þeir geti byrjað á bardaganum.

Eitt þarf að koma hér fram, mjög mikilvægt atriði. Fólk þarf að taka höfuðið út úr ristlinum á sér og átta sig á því að LeBron James er ennþá alveg hrikalega góður í körfubolta.

Við verðum alltaf vör við það reglulega að einhverjir ellilífeyrisþegar og aldamótabörnin eru að hrauna yfir hann. LeBron er bara old news og drasl af því Stephen Curry er búinn að vera leikmaður ársins tvö ár í röð. Kommon.

LeBron er að spila á krúskontról núna af því hann þarf ekki að eyða meiri orku í þetta, en hann er samt að spila stórkostlega.

Hann henti í þrennu í nótt til gamans og minnti okkur á það hvað hann er viðbjóðslega góður í körfubolta. Það eru allir búnir að taka honum sem sjálfsögðum hlut þrjú ár og eru því búnir að gleyma því að leikmenn eins og hann koma fram á fimmtíu ára fresti.

Við erum að segja ykkur það: LeBron James er HARÐ ákveðinn í að hjóla í hvaða stórstjörnu sem það verður sem hann mætir í úrslitum og sýna henni eða þeim hver er besti körfuboltamaður í heimi.

Minnir á þetta skemmtilega komment í úrslitunum í fyrra (1:03).



LeBron James verður á missjóni sem aldrei fyrr í lokaúrslitunum í næsta mánuði og það verður geggjað að fá að fylgjast með því. Curry? KD? Russ? LeBron? Hver ætlar að hirða hásætið?

Sunday, August 3, 2014

Það er ekki alveg sama hvar þú spilar körfubolta


Stóri-Al Jefferson hjá Charlotte Hornets er prúður og vel upp alinn piltur frá Mississippi, nánar tiltekið frá Monticello, en það er bær á stærð við Sandgerði í suðurhluta ríkisins.

Því má kannski segja að hann hefði alist upp í Mjóafirði í Suður-Múlasýslu ef hann hefði fæðst á Íslandi. Þó má reyndar teljast ólíklegt að hann hefði farið út í körfuboltann ef hann hefði alist upp hjá Fúsa á Brekku, þrátt fyrir að vera vel á þriðja metrann á hæð.

Atlanta-framherjinn Paul Millsap er frá talsvert stærri borg sem heitir Monroe í norðurhluta nágrannaríkisins Louisiana. Hann er kannski ekki alveg sami sveitamaðurinn og Jefferson, en báðir eru þeir rólegir og geðþekkir piltar sem eiga það jú sameiginlegt að vera frambærilegir körfuboltamenn. Vissulega eiga þeir það líka sameiginlegt að hafa verið samherjar hjá Utah Jazz á árunum 2010 til 2013.

Saturday, May 10, 2014

Meistaraheppni Miami er með ólíkindum


Það eina sem skyggir á þessa stórkostlegu úrslitakeppni er sú sorglega staðreynd að Austurdeildin er í besta falli arfaslök um þessar mundir. Vesturdeildin er búin að vera áberandi sterkari en systir hennar í um það bil aldarfjórðung, en aldrei hefur munurinn verið meiri en einmitt núna.

Vissulega hefur Austurdeildin átt flott lið og verðuga meistara á síðustu 25 árum. Þar erum við m.a. með tvö stykki af ógnarsterkum liðum bæði frá Detroit (´89-´90 + ´04) og Miami (´06 + ´12-´13), þrælsterkt lið frá Boston (´08) og svo auðvitað sögulegu ófreskjuna frá Chicago með alla sína titla á tíunda áratugnum (´91-´93 + ´96-´98).

Athugið að við erum ekki að halda því fram að ofangreind lið séu eitthvað annað en frábær. Það sem við erum að tala um er að Vesturdeildin á miklu fleiri góð lið en Austurdeildin og hefur átt lengi.

Við hugguðum okkur við það í vetur að þó megnið af liðunum í Austurdeildinni væru megarusl, ættum við þó að minnsta kosti í vændum jafnt og skemmtilegt einvígi í úrslitarimmunni austan megin eins og í fyrra þegar Miami og Indiana fóru alla leið í oddaleik. Þessar vonir eru nú að verða orðnar að engu eftir að Indiana byrjaði að drulla svona heiftarlega á sig.

Það getur vel verið að Indiana rétti eitthvað aðeins úr kútnum og það getur meira að segja vel verið að það nái að gera Miami lífið leitt ef við fáum sama úrslitaeinvígið í austrinu og við fengum í fyrra. Það breytir því þó ekki að Miami er að fara að setja neyðarlegt met núna. Miami er að slá metið sem við skulum kalla því óþjála nafni "auðveldasta leið síðari tíma í lokaúrslit."

Krambúleraðir keppinautar

Sko, það er ekki ætlunin hjá okkur að gera lítið úr afrekum Miami frá því að Sólstrandargæjarnir leiddu saman hesta sína á Suðurströnd. En það er með algjörum ólíkindum hvað heilladísirnar eru góðar við þetta lið. Við höfum skrifað um það áður bæði hvað Miami hefur verið heppið með meiðsli og hvað andstæðingar liðsins hafa á sama tíma verið lygilega óheppnir með meiðsli.


Sjáið bara hvaða lið hafa gert sig líkleg til að ógna veldi Miami í Austurdeildinni síðan LeBron James og Chris Bosh gengu í raðir liðsins. Þar var Chicago náttúrulega efst á blaði. Chicago veitti Miami verðuga samkeppni áður en Derrick Rose nánast hætti að spila körfubolta vegna meiðsla. Boston missti Rajon Rondo í meiðsli. Atlanta missti Al Horford í meiðsli. Orlando-liðið var leyst upp. New York hótaði því að verða gott en skeit svo gjörsamlega á sig í fyrravor og hefur ekki náð sér síðan.

Einhver hefði haldið að þarna væru ófarir keppinauta Miami á enda, en það var nú öðru nær.

Strax í fyrsta leik hjá Miami í úrslitakeppninni núna í vor, gufa þær litlu vonir sem Charlotte hafði um að veita meisturunum keppni út í loftið eftir að besti sóknarmaður liðsins (Al Jefferson) meiðist. Það var ekkert annað í stöðunni fyrir Miami en að sópa þessu og það var klárað.

Þá er það næsta umferð. Þar er mótherjinn jú Brooklyn Nets, lið sem að sjálfssögðu er án eina leikmannsins sem gæti gert Miami lífið leitt - miðherjans Brook Lopez.

Það er fullt af flottum nöfnum í liði Brooklyn, en einu leikmennirnir hjá Nets sem tæknilega ættu möguleika á að vinna Miami eru bara orðnir svo gamlir að David Attenborough er að spá í að gera þátt um þá.

Sunday, April 27, 2014

Meistaraefnin í Vesturdeildinni eru sein í gang


Þetta er ekki alveg að ganga nógu smurt hjá Oklahoma. Satt best að segja, er liðið bara í bullandi vandræðum. Ef ekki hefði verið fyrir epíska frammistöðu varamannsins Reggie Jackson í nótt, væri Oklahoma nú komið 3-1 undir á móti þessu ólseiga liði Memphis.

Við höfum heyrt fjölmiðlamenn halda því fram að þetta Memphis lið sé sterkasta 7. sætis lið allra tíma. Það er kannski full djúpt í árina tekið, en það er ljóst að Memphis er miklu sterkara en hefðbundin 7. sætis lið. Þið sjáið það til dæmis með því að bera Grizzlies saman við Charlotte Bobcats. Einmitt.

Það er auðvitað grábölvað fyrir lið eins og Oklahoma að þræla sér út allan veturinn til að ná í góða stöðu inn í úrslitakeppnina, en fá svo í rauninni eins sterkan andstæðing og fyrir er að finna í Vesturdeildinni strax í fyrstu umferð!

Ef við gæfum okkur að Oklahoma næði nú að leggja Memphis og færi áfram, yrði mótherjinn í næstu umferð Clippers eða Warriors.

Okkur er alveg sama hvað þú segir, það að mæta öðru þessara liða í næstu umferð yrði eins og að spila æfingaleik fyrir Oklahoma eftir að hafa verið í klónum á Memphis.

Það er dásamlegt að vera Miami þessa dagana. Liðið fær mótherja í fyrstu umferðinni sem hefur enga reynslu í úrslitakeppni og er með sinn besta mann á annar löppinni - eins og austrið hafi ekki verið nógu lélegt fyrir.

Ef Indiana heldur áfram að skíta á parketið í staðinn fyrir að spila körfubolta, er ljóst að það verður spegilsléttur sjór í úrslitaeinvígið fyrir meistara Miami. Ekkert lið hefur fengið eins létta leið í úrslit síðan Lakers-liðið var að krúsa í gegn um lélega Vesturdeildina á níunda áratugnum.

Meistaraefnin í Vesturdeildinni eru svo hreint ekki að láta finna fyrir sér. San Antonio er í bullandi vandræðum gegn Dallas og þarf nauðsynlega á sigri að halda í Dallas í næsta leik ef ekki á illa fyrir þeim að fara. Óháð því hvernig þetta einvígi fer, er bara sú staðreynd að Dallas sé búið að vinna tvo af fyrstu þremur leikjunum alveg með ólíkindum.

Það má eiginlega segja sömu sögu af hinum meistaraefnunum í vestrinu, Oklahoma City. Það munaði punghári að liðið lenti undir 3-1 í nótt - og þar með í holu sem sjaldgæft er að lið nái að grafa sig upp úr. Ef Oklahoma tapar í fyrstu umferð, verður Scott Brooks svo rekinn að hann verður sennilega laminn líka.

Þeir Kevin Durant og Russell Westbrook hafa mestmegnis spilað eins og vitleysingar í rimmunni. Durant er að skjóta innan við 40% og aðeins 26% í þristum, meðan Westbrook er enn verri með aðeins 35% og heil 19% í þristum.

Sumpart má segja að Oklahomaliðið hafi verið óþekkjanlegt í einvíginu. Það er samt ekki nema að litlum hluta Oklahoma að kenna - kannski 10-20% - en restin er Tony Allen Memphis að kenna. Það er bara ógeðslegt að spila við þetta lið. Ekki hægt.

Oklahoma og Memphis eru með öllu ólík körfuboltalið, en félögin tvö eru þó í mjög svipaðri stöðu. Þau eru á liltlum markaði og með eigendur sem eru of nískir til að byggja upp meistaralið. Oklahoma og Memphis eru bæði gríðarlega sterk lið, sem fyrir vikið vantar ekki nema 1-3 góða bita til að verða allt frá því að vera alvöru meistaraefni yfir í að landa titlinum.

Hugsaðu þér ef Oklahoma City væri með almennilegan miðherja og eina góða skyttu á bekknum. Hugsaðu þér ef Memphis væri með tvær almennilegar skyttur í viðbót og einn væng sem gæti búið sér til skot sjálfur. Þá yrðu þessi lið ekki hrædd við Miami, það getum við lofað ykkur.

Hvað sem gerist í þessu einvígi og hversu illa sem Oklahoma hefur litið út í fyrstu fjórum leikjunum, erum við nú samt á því að Thunder hafi meira áfram að gera - sé lið sem sé líklegra til að komast lengra en Memphis. Ekki mikið lengra. Aðeins lengra.

Í ljósi þess hve illa Spurs og Thunder fara af stað í úrslitakeppninni, gætum við alveg eins sagt að sé frekar meistarabragur á LA Clippers - nú eða jafnvel Portland. Ætli við verðum ekki að taka þessi lið með í reikninginn.

Clippersliðið ætti ekki að verða í stórvandræðum með að klára Golden State, þar sem Oaklandliðið er auðvitað illa vængbrotið án Andrew Bogut. Það hefur líka sýnt sig, þar sem Blake Griffin og DeAndre Jordan hafa farið illa með Warriors í teignum.

Það verður líka óhemju áhugavert að sjá hvernig sigurvegaranum í Houston-Portland seríunni á eftir að vegna í framhaldinu. Þar eru tvö hörkulið á ferðinni.

Að lokum var svo ein pæling. Eða staðhæfing.

Ef Andrew Bogut væri heill, fullyrðum við að öll liðin í úrslitakeppni Vesturdeildarinnar gætu unnið öll liðin í úrslitakeppni Austurdeildarinnar ef Miami er undanskilið. Og ekki bara unnið, heldur unnið nokkuð auðveldlega.

Gefum okkur það að Dallas, Houston, Golden State og Memphis myndu tapa í fyrstu umferðinni í vestrinu. Ætti einhvert lið annað en Miami úr austrinu stjarnfræðilega möguleika á móti einhverju þessara liða, ef þau væru heil heilsu (Bogut)?

Við segjum nei, ekki síst af því Dallas er komið yfir á móti San Antonio.

Fjandakornið, nei.

Wednesday, April 16, 2014

Deildakeppninni lýkur í nótt


Í kvöld og nótt fer fram síðasta umferðin í deildakeppninni í NBA, þar sem öll 30 liðin verða í eldlínunni. Enn er ekki endanlega ljóst hvaða lið munu mætast í úrslitakeppninni og því eru leikir eins og viðureign Memphis og Dallas gríðarlega áhugaverðir.

Memphis og Dallas eru nefnilega að spila hreinan úrslitaleik upp á 7. sætið í Vesturdeildinni og losna þar með við að mæta San Antonio skrímslinu í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Liðið sem vinnur leikinn mætir annað hvort Oklahoma eða LA Clippers í fyrstu umferð. Til mikils er að vinna, því Memphis og Dallas eru bæði 0-4 á móti Spurs í vetur.

Sigurvegarinn í slag Griz og Mavs nær þar með í 50. sigur sinn á leiktíðinni og verður þá sjöunda liðið í Vesturdeildinni til að vinna 50 leiki. Metið er átta lið, en það var sett í vestrinu árin 2008 og 2010.

Útlit er fyrir að liðið í 8. sætinu í Vesturdeildinni myndi ná þriðja sætinu inn í úrslitakeppnina ef það væri í Austurdeildinni.

Oklahoma tryggir sér annað sætið í vestrinu með sigri á Detroit á heimavelli í nótt, en undirmannað Clippers-liðið þarf að sækja sigur til Portland og treysta á að Oklahoma tapi til að eiga séns á þriðja sætinu. Oklahoma er búið að vinna síðustu níu leikina sína gegn Detroit.

Svo er víst eitthvað að gerast í Austurdeildinni...

Wednesday, March 26, 2014

Vestlæg átt, þykknar upp síðdegis


Hérna er tafla sem sýnir hvaða tíu lið í NBA deildinni hafa skarað fram úr í tölfræðinni í síðustu tíu leikjum. Þarna sérðu hvar liðin ranka í sókn, vörn og svo heilt yfir. Eitthvað þarna sem vekur sérstaklega áhuga þinn?

Það þarf ekki að koma á óvart að 90% liðanna á listanum séu úr Vesturdeildinni, sérstaklega þegar Miami og Indiana eru í skitukeppni þessa dagana. Sannarlega saga til næsta bæjar að Toronto af öllum liðum sé með þessi læti, eitthvað sem fáir hefðu séð fyrir.


Saturday, November 16, 2013

Osom í Oakland


Eins og nánast alltaf, er óhemju gaman að fylgjast með Vesturdeildinni í vetur. Þar finnur þú safaríkustu einvígin og í liðinni viku fengum við tvo algjöra toppleiki þar á bæ.

Við sögðum ykkur frá skemmtilegum leik LA Clippers og Oklahoma fyrir skömmu og vorum rétt búin að setja punktinn aftan við lokasetninguna í pistlinum þar þegar flautað var til leiks í viðureign Golden State og Oklahoma. Það er frábær leikur á pappírunum og allir þeir töfrar sem teiknaðir voru á það blað urðu að veruleika í Oakland í fyrrakvöld. Þetta var deildaleikur upp á 9,5 af 10.

Eins og við sögðum ykkur í pistlinum um Oklahoma á dögunum, var Russ vinur okkar Westbrook ekki alveg búinn að stilla miðið þó hann væri komnn á fullt aftur eftir hnémeiðslin. Gegn Warriors fann hann punktinn sinn og sallaði 31 stigi á heimamenn.

Oklahoma var langt undir lengst af í leiknum, en náði góðu áhlaupi í lokin sem endaði á því að Russell Westbrook fór upp í ííískaldan þrist þegar 2-3 sekúndur voru eftir af leiknum og kom Þrumudrengjunum yfir í fyrsta skipti í einhverja klukkutíma.

Eins og flestir vita, dugðu þessi hetjutilþrif ekki hjá Russ, því Andre Iguodala sleit hjartað úr Oklahoma með því að smella niður flautukörfu hægramegin á blokkinni. Sannarlega gaman fyrir Iguodala sem hefur verið að spila eins og engill hjá Warriors.

Liðið hefur enda þurft á allri hans fjölhæfni að halda þar sem meiðslavesen er á varaleikstjórnandanum. Munaður að geta bara hent boltanum í lúkurnar á Iggy, sem er að skila 14 stigum, 4 fráköstum, 6 stoðsendingum og 2 stolnum boltum það sem af er.

Við ætlum ekki að lesa meira út úr þessum leikjum í bili, enda er ekki búið nema korter af deildinni. Það er hinsvegar morgunljóst að þessi vetur verður partí frá upphafi til enda - og Golden State er eitt af liðunum á VIP-listanum.







Tuesday, June 5, 2012

Þetta hlýtur bara að vera búið


Þetta er búið hjá Spurs. Það er ekki hægt að túlka það öðruvísi eftir þrjú töp liðsins í röð gegn Oklahoma.

Fyrir fimm dögum var það formsatriði fyrir San Antonio að vinna fimmta titilinn hans Tim Duncan. Núna? Nú líta Spurs út eins og gamla liðið sem þeir eru. Oklahoma hleypur hringinn í kring um þá eins og Dallas og Lakers áður.

Það er svo rosalega stutt á milli í þessu. Flestir leikirnir hafa verið jafnir. Oklahoma, sem er nú hársbreidd frá því að komast í lokaúrslit, hefur nær undantekningalaust verið á réttum enda á öllum þessum háspennuleikjum. Þeir eru ekki með jafnþrautreynt sýstem og Spurs, en þeir eru með einstaklinga í sínum röðum sem geta gert hvað sem þeir vilja, hvenær sem þeir vilja.

Við erum satt að segja hálf hneyksluð á San Antonio. Vorum búin að sætta okkur við að liðið yrði meistari á báðum verkfallsárunum og að Duncan sigldi með fimm titla inn í sólarlagið, sem einn besti körfuboltamaður allra tíma.

En nú er alveg búið að fokka því upp.

Við þurfum að fara að endurskoða þetta Oklahoma lið.

Það getur ekki verið að San Antonio komi til baka - í Oklahoma - eftir að hafa gefið einvígið svona frá sér, er það?

Austurdeildarelskendur, varnarpredikarar og pjúristar munu hata okkur fyrir þessa yfirlýsingu, en okkur er alveg sama. Vesturdeildin er betri en Austurdeildin, hefur verið það í mörg ár og verður það í nánstuu framtíð. Það er okkar skoðun.

Og það verður skandall ef fulltrúi Vesturdeildarinnar drullar ekki yfir liðið sem kemur úr austrinu í ár.

Gott að ritstýra eigin miðli og geta rifið svona kjaft.