Showing posts with label Pau Gasol. Show all posts
Showing posts with label Pau Gasol. Show all posts

Friday, May 22, 2015

Úttekt á úrvalsliðunum


Stundum nota sjónvarpsmenn fjölda Stjörnuleikja til að láta leikmenn hljóma rosalega góða. Þið vitið þó væntanlega að það er mjög ónákvæm aðferð til að mæla ágæti leikmanna í NBA deildinni, sérstaklega á þessum síðustu og verstu.

Það eru hinsvegar úrvalsliðin þrjú sem eiga að gefa okkur réttari mynd af því hvaða leikmenn voru að spila best á tilteknum tímabilum. Þessi aðferð er ekki gallalaus heldur vegna þess að kjörið miðar við að fylla þurfi allar leikstöður. Hér áður var ósköp einfalt að velja í þessi lið, en það er aðeins flóknara í dag. 

Þannig er búið að breyta reglunum þannig að menn geta "svindlað" aðeins og sett framherja í liðið sitt í stað miðherja ef svo býr undir og ekki er horft sérstaklega til þess hvort um er að ræða leikstjórnendur eða skotbakverði - þeir eru bara titlaðir sem bakverðir.

Valnefndin að þessu sinni var nokkuð sammála um hvaða leikmenn ættu heima í fyrsta úrvalsliðinu, enda var það ekki flókið. Það eina sem stingur í augun þar er að Marc Gasol frá Memphis skuli vera þar, en þar komum við inn á þetta sem við vorum að tuða yfir áðan - leikstöðurnar. Gengið er út frá því að það verði að vera miðherji í úrvalsliðunum hvað sem raular eða tautar - jafnvel þó hann eigi það ekki skilið.






























Marc Gasol hefur til dæmis ekkert að gera í fyrsta úrvalslið deildarinnar. Hann er vissulega mjög góður leikmaður, en það hefi verið réttara í okkar augum að velja til dæmis Chris Paul eða Blake Griffin þar inn í staðinn.

Þeir Stephen Curry, James Harden, LeBron James og Anthony Davis eru það sem við köllum nóbreiner í fyrsta liðið - það liggur í augum uppi að þeir eiga heima þar, hvort sem einhverjir þeirra misstu úr nokkra leiki í deildinni eða ekki.

Það eru hinsvegar lið tvö og þrjú sem fara aðeins í taugarnar á okkur að þessu sinni, en það er mjög auðvelt að laga það með því að skipta úrvalsliði tvö nokkurn veginn út og setja úrvalslið þrjú þar inn í staðinn. Þetta á sérstaklega við um stóru stöðurnar á vellinum, miðherja og framherjana.

Við hefðum þannig frekar sett Tim Duncan og Blake Griffin í lið tvö þar sem þeir eiga réttilega heima. Þeir eru nær því að vera í fyrsta úrvalsliðinu í okkar bókum en því þriðja og kannski á DeAndre Jordan bara heima þar með þeim.

Við höfum ekkert á móti LaMarcus Aldridge, Pau Gasol og DeMarcus Cousins, en þeir ná ekki í lið númer tvö hjá okkur - sérstaklega Pau Gasol - sem var ekki einu sinni besti maðurinn í sínu liði í vetur.

Á hverju ári er fólk að svekkja sig á því að þessi eða hinn skuli ekki ná inn í úrvalslið deildarinnar, annað sem er sérstakt við valið í ár er hvað menn þurftu að spila óguðlega vel til að komast á blað. Það segir sína sögu um styrk leikmanna þegar menn eins og Chris Paul og Russell Westbrook komast ekki í fyrsta úrvalsliðið þó þeir hafi báðir verið framúrskarandi í allan vetur. Það var bara enginn bakvörður að fara að taka sætið af annað hvort leikmanni ársins (Curry) eða manninum sem varð annar í kjörinu á leikmanni ársins (Harden).

Að lokum eru þarna tveir piltar sem vöktu athygli okkar, þeir Klay Thompson og DeMarcus Cousins. Thompson er vel að því kominn að ná inn enda spilaði hann mjög vel fyrir langbesta liðið í deildinni en við erum á báðum áttum með það hvort DeMarcus eigi heima í úrvalsliði tvö.

Hann setur vissulega upp bilaða tölfræði, betri en flestir leikmennirnir þarna, en í okkar huga á hann ekki skilið að komast í annað úrvalslið deildarinnar af því liðið hans vann ekki nema 29 leiki í vetur. 

Þú getur ekki ætlast til þess að verða verðlaunaður mikið ef liðið sem þú spilar með getur nákvæmlega ekkert. Leikmenn sem komast í úrvalslið deildarinnar eiga að vera það góðir að liðin þeirra vinni að minnsta kosti helming leikja sinna og komist helst í úrslitakeppnina. Okkur er alveg sama þó sé fátt um fína drætti í leikmannahóp Sacramento og Cousins fái litla hjálp. Þetta lið er drasl og því hefur stjarnan í því ekkert að gera í úrvalslið. 

Annar punktur varðandi Cousins er svo viðhorf hans og framkoma. Hann var aðeins byrjaður að sýna það í vetur að hann ætlaði að þroskast en hann var nokkuð fljótur að taka upp sína gömlu ósiði. Cousins skilar oftast hrikalegri tölfræði, en þetta er líka oftast innantóm tölfræði af því hún er stofnuð í tapleikjum. Þá kemur allt of oft fyrir hvað eftir annað að Cousins fari í fýlu, láti reka sig út af, nenni ekki að spila vörn og nenni ekki að keyra til baka. Úrvalsleikmenn haga sér bara ekki svona.


Friday, February 13, 2015

Saturday, November 1, 2014

Cleveland tók fyrstu lotu (+ myndir)


Það var Cleveland sem hafði betur í Austurdeildaruppgjörinu okkar í nótt.

Chicago var fimm stigum yfir þegar 47 sekúndur voru eftir af leiknum, en náði að missa hann í framlengingu þar sem Cleveland hafði að lokum góðan sigur 114-108.

LeBron James ferðaðist aftur í tímann og bar liðið á herðum sér í framlengingunni. Hann skoraði 36 stig og hirti 8 fráköst í leiknum og Tristan Thompson átti líka stóran þátt í sigri Cavs með því að hirða 12 sóknarfráköst.

Eftir að hafa verið of spenntir og ef til vill of fastir við leikplanið í gærkvöldi, leyfðu leikmenn Cleveland sér að vera frjálsari í sóknarleiknum gegn Bulls. Sá sóknarleikur gekk út á það að Kyrie Irving og LeBron James skiptust á að skora sjálfir.

Það er ekki fallegt til lengdar, en auðvitað er freistandi að grípa til þess háttar sóknaraðgerða ef þú ert með mannskap sem getur nánast skorað að vild.

Það var langt í frá sami glansinn á Chicago í kvöld og var í New York tveimur dögum áður, en við verðum líka að taka það með í reikninginn að þó svo að Derrick Rose sé kominn aftur, eru meiðsli samt enn að halda aftur af þessu liði.

Tuesday, September 16, 2014

Pau-wow-wow-yippie-yo-yippie-yay


HM-ævintýri Spánverja breyttist í martröð þegar þeir létu Frakka slá sig út úr keppninni á sínum eigin heimavelli. Enn ríkir körfuboltaleg þjóðarsorg á Spáni, því þennan titil ætluðu þeir sannarlega að vinna. Það hefur verið sannkölluð gullöld hjá spænskum síðastliðin ár, þar sem bæði fótbolta- og körfuboltalið þeirra hafa náð frábærum árangri á stórmótum. Ekki margar þjóðir sem leika það eftir.

Mitt í öllum vonbrigðunum er Pau Gasol, aðalmaður spænska liðsins sem hefur unnið til átta verðlauna á stórmótum á þeim rúma áratug sem hann hefur verið í landsliðinu. 

Við sáum reyndar ekki mikið af leikjum á HM að þessu sinni, en það sem við sáum til Gasol var í einu orði sagt frábært. Liðið hans drullaði kannski á sig, en Gasol þarf svo sem ekki að vera mjög ósáttur við sinn hlut í heildarmyndinni. Hann er nú kominn á alveg sérstakan stað í stórmótaannálum eins og þið sjáið í töflunni hérna fyrir neðan sem við fengum lánaða hjá hoopshype. 

Þar gefur að líta þá leikmenn sem oftast hafa verið kjörnir bestu menn mótsins á HM og EM (feitletruðu ártölin) og þá sem oftast hafa verið í úrvalsliðum mótanna.

Það setur reyndar strik í reikninginn að það er mjög misjafnt hvort bestu körfuboltamenn þjóðanna gefa kost á sér á þessi stórmót. Þannig tóku leikmenn eins og LeBron James, Kevin Durant, Tony Parker (besti maður EM í fyrra) og Manu Ginobili ekki þátt á HM að þessu sinni.


Thursday, November 21, 2013

Djössum þetta aðeins upp


Það eru engin mörk fyrir því hvað þetta er fyndin mynd. Því er tilvalið að stela henni.


Wednesday, May 15, 2013

Einhver klisjufyrirsögn um bræður


Við höfum ekki hugmynd um af hverju, en við föndruðum saman skotkortin þeirra bræðra Pau og Marc Gasol úr deildakeppninni í vetur. Við hötum nú ekki skotkortin, eins og einhver ykkar hafa tekið eftir.

Munið að rautt táknar undir meðaltali í deildinni, gult þýðir að nýtingin sé á pari við það sem gengur og gerist í deildinni og græni liturinn táknar að viðkomandi sé með betri en meðalnýtingu í deildinni.

Pau Gasol átti við meiðsli að stríða í allan vetur, er það breytir því ekki að litli bróðir er líklega búinn að taka fram úr honum sem leikmaður. Smelltu á myndina til að stækka hana.


Friday, November 9, 2012

Ristill: Staðan er slæm hjá LA Lakers


  Los Angeles Lakers tapaði fyrir Utah Jazz í nótt sem leið og hefur því tapað fjórum af fyrstu fimm leikjum sínum í vetur. Eini sigur liðsins kom gegn Detroit, sem þessa dagana ætti fullt í fangið með að vinna Mostra.

Meiðsli Steve Nash er sannarlega ekki að hjálpa Lakers-liðinu að stilla saman nýja strengi, en vandamálið sem liðið stendur frammi fyrir er svo miklu stærra en það. Við höfum skrifað ristil af minna tilefni.

Margir segja að það sé hin meinta Princeton-sókn sem sé að þvælast fyrir Lakers, en liðið var nú að skjóta yfir 50% áður en það fór til Salt Lake City í gær, svo það er ódýr útskýring.

Við viljum meina að vandræði Lakers séu fleiri og meiri en þetta. Auðvitað á þetta eftir að ganga betur hjá Lakers þegar Nash kemur heill inn í þetta og menn fara að þekkjast betur.

Það breytir því þó ekki að:

* Vanarleikur liðsins er afleitur. Dwight Howard átti að breyta miklu þar og gæti átt eftir að gera það einn daginn, en varnarleikur liðsins fram að þessu hefur á körflum verið skelfilegur.

* Helsta ástæðan fyrir töpunum fjórum hjá Lakers til þessa hefur verið tapaðir boltar, en Lakers hefur tapað hvorki meira né minna en 93 boltum. Það er næstversti árangur í deildinni og þar af eru Kobe Bryant (22) og Dwight Howard (19) með hátt í helminginn (41)Þetta er annað atriði sem ætti að lagast þegar menn fara að þekkjast betur en þetta er allt, allt of mikið.

* Dýptin í liðinu er engin.

* Kobe Bryant er kominn í fýlu. Hann var afleitur í fyrri hálfleiknum gegn Jazz í gær, en ákvað að skjóta Lakers inn í leikinn í þeim síðari. Hann setti nokkrar huggulegar körfur eins og hann er vanur og þurfti ekki annað en depla auganu til að brotið væri áhonum.

En menn sem fylgdust með leiknum, sóru fyrir það að Bryant hafi ekki gefið eina sendingu síðustu c.a. 7 mínútur leiksins. Ekki eina.

Hann var enda stuttur í spuna eftir leikinn og svo sem ekkert nýtt við það. Það er ómögulegt að taka viðtal við Bryant eftir tapleiki, sérstaklega ef þeir eru nokkrir á stuttum tíma. Bryant sendi ljót augnaráð í allar áttir meiripartinn af leiknum í gær og hafi einhver tekið þau til sín, hefur sá hinn sami líklega orðið hræddur.

Nú erum við komin út fyrir efnið, en vandræði Lakers eru raunveruleg.

Mike Brown getur ekki unnið með þessu sýstemi og fer rangt að hlutunum að okkar mati. Af hverju? Af því hann notar ekki hættulegasta sóknarmanninn í liðinu og er bara með tvö plön í gangi. Annað hvort lætur hann dæla boltanum stanslaust inn á Dwight Howard eða lætur Kobe Bryant skjóta sig í hel.

Allt of oft er Dwight Howard að fá boltann á vinstri blokkinni og hnoðast. Hann er takmarkaður sóknarmaður sem í besta falli fær villu og klúðrar báðum vítaskotunum.

Planið með Kobe Bryant höfum við öll séð. Þá fær hann einfaldlega græna ljósið á að gera eitthvað sem hann ræður bara ekki við nema í skömmtum lengur og þá er niðurstaðan því miður oftast svipuð og hún var í Energy Solutions Arena í gærkvöldi.

Hér er okkar kenning:

Pau Gasol er lykilmaður í liði Lakers að okkar mati, en Mike Brown notar hann eins og hvern annan kraftframherja og lætur því hæfileika hans fara til spillis. Pau Gasol er að okkar mati hæfileikaríkasti stóri maðurinn í NBA deildinni, alveg sama hvað hver segir um Dwight Howard, Andrew Bynum eða Ómar Ragnarsson.

Sóknarleikurinn hjá Lakers á að fara í gegn um Pau Gasol að okkar mati. Hann er eitraður nálægt körfunni og er frábær sendingamaður og óeigingjarn. Að okkar mati er Lakers-liðið langhættulegast þegar sóknin gengur í gegn um Spánverjann. Það má svo hver sem vill hafa allt aðrar skoðanir á því.

Lausnin við vandamálum Lakers virðist alltaf vera að losa félagið við Pau Gasol. Þvílíkur þvættingur.

Lakers-liðið hefur ENGA breidd. Einn af göllunum við að vera með eitt besta byrjunarlið sögunnar á pappírunum.

En það er erfitt að gera rósir með engan bekk eins og Lakers. Maðurinn sem átti að vera aðalnúmerið á bekknum hjá þeim, Antawn Jamison, getur ekki neitt og virðist búinn.

Á bara eftir að staðfesta andlátið.

Við hefðum ekkert á móti því þó lið Lakers næði að rétta úr kútnum og verði sterkt á ný. Við erum ekki að drekka neitt Hatorade hérna. Líkurnar á því að liðið verði gott eru meiri en minni. Eins og staðan er í dag erum við hinsvegar alls ekki að sjá að þetta dæmi muni ganga upp hjá þeim.

Þetta lið er ekki að fara að gera nokkurn skapaðan hlut í vor ef það ætlar að láta Kobe Bryant, Steve Nash og Pau Gasol spila 40 mínútur í leik, ef þeir verða þá heilir í vor. Og kannski þolir bakið á Howard það ekki heldur.

Ekkert lið í sögunni hefur orðið NBA meistari eftir að hafa byrjað leiktíðina 1-4 eins og Lakers núna. Við ætlum að tippa á að Lakers verði ekki fyrsta liðið til að afreka það, jafnvel þó það bæti sig til muna í vetur.

Þetta eru bara fimm leikir og því er glórulaust að ætla að byggja heilu kenningarnar á því, en við ætlum samt að reyna að gera okkur að fíflum bara fyrir ykkur.

Það kemur sér vel fyrir Lakers að næstu fimm leikir liðsins eru á heimavelli. Tveir fyrstu mjög vinnanlegir og svo slagur við San Antonio. Mike Brown þjálfari getur þakkað fyrir að þessi heimaleikjarispa er fram undan því Lakers er ekki í neinu standi til að fara á erfiða útivelli og vinna. Það sáum við í gær.

Það væri asnalegt ef Lakers myndi bara reka Mike Brown, en þrátt fyrir að stjórnin verði auðvitað að sýna honum þolinmæði, er óvíst að hann fái að tapa fullt af leikjum í haust. Það er einu sinni verið að berjast um sigur í Vesturdeildinni og sem stendur er liðið þar í neðsta sæti.

Allra augu beinast að Lakers þessa dagana og lið eins og Oklahoma og Miami elska hvað það dregur athyglina frá þeim. Sviðsljósið verður sterkara á Lakers en nokkru sinni fyrr meðan liðinu gegnur svona illa og það er stutt í að Los Angeles-miðlarnir fari að fá blóðbragð í munninn og tala illa um Mike Brown. Þannig er þetta bara í LA.

Og þá erum við ekki farin að tala um framtíðina hjá Lakers, þar sem risasamningur Kobe Bryant er efsta atriði á blaði. Skoðum það síðar.

Wednesday, May 23, 2012

Aftur fær LA Lakers skell í annari umferð


Eins og á hverju einasta ári hjá LA Lakers, liggur frammi langur spurningalisti sem finna þarf svör við að vori. Þó það nú væri hjá einu metnaðarfyllsta og sigursælasta félagi deildarinnar. Spurningarnar þetta vorið eru þó líklega fleiri en oft áður, því liðið hefur nú verið slegið út í annari umferð 8-1 síðustu tvö árin og það þykir ekkert spes í Glysbænum.

Lakers fékk skell í annari umferð í ár, en öfugt við ljótu systirina í Clippers, táknar það hnignun. Lakers er á niðurleið, meðan framtíðin er skjannabjört hjá ungu liði Oklahoma City.

Allt byrjar þetta og endar á Kobe Bryant. Hann er farinn að eldast og getur þvi ekki borið liðið á herðum sér lengur. Hann á heldur ekki að gera það. Ekki þegar hann er með tvo af bestu stóru mönnum deildarinnar með sér í liði.

Það má hiklaust hengja að minnsta kosti eitt tap Lakers beint utan um hálsinn á Bryant, þó enginn þori að gera það.

Samt er ekki annað hægt en að hrífast af geðsjúku keppnisskapi og sigurvilja Kobe Bryant. Ef einhver leikmaður í NBA á skilið að vera á fáránlega háum launum, er það hann.

Það er hinsvegar ekkert spes fyrir félagið að þurfa að greiða honum þessa árlegu þrettánhundruð þrilljarða í laun í þessu fjárhagslega árferði og nýju kjarasamningum.

Möguleikar Lakers á að vera með læti á leikmannamarkaðnum í nánustu framtíð eru því mjög takmarkaðir.

Einvígi Oklahoma og Lakers var hnífjafnt og ef við værum stuðningsmenn Lakers, værum við froðufellandi af reiði út í liðið fyrir að gera ekki betur. Liðið gaf bókstaflega frá sér einn, jafnvel tvo, leiki í seríunni og með smá heppni hefði þetta geta fallið með þeim. Oklahoma átti þó alfarið skilið að fara áfram úr einvíginu.

Eins og venjan er, þarf auðvitað að finna blóraböggul þegar hlutirnir fara svona úrskeiðis og svo virðist sem fólk sé alveg tilbúið að halda áfram að kenna Pau Gasol um allt sem miður fer hjá liðinu.

Vissulega hefði Gasol átt að vera grimmari í einvíginu við Oklahoma og úrslitakeppninni yfir höfuð, en við erum stranglega á móti því að kenna Gasol um ófarir Lakers.

Los Angeles Lakers er farið í sumarfrí af því liðið er með skelfilega veikan varamannabekk, þjálfara sem er ekki nógu góður og af því liðið er ekki komið með kerfi til að byggja á líkt og þríhyrningssóknina undir stjórn Phil Jackson.

Við vorum hissa á því þegar Lakers ákvað að gera samning við Mike Brown þjálfara.

Hann er ágætur sem slíkur - sérstaklega á varnarhliðinni - og hefur auðvitað náð prýðilegum árangri, en að okkar mati stendur hann ekki undir því að þjálfa klúbb eins og Lakers.

Í LA er krafan bara titill á hverju ári og Brown veldur því verkefni bara ekki.

Það hefur komið í ljós nokkrum sinnum í vetur að hann nýtur ekki fullkominnar virðingar leikmanna sinna eins og dæmin með agamál Kobe og Bynum sýndu.

Það þykir ansi líklegt að Lakers muni skipta Pau Gasol í burtu og reyna að fá gæði og aukna breidd í staðinn.

Það má vel vera að það takist, en það kæmi okkur heldur ekki á óvart að Gasol ætti eftir að nýtast nýja liðinu sínu mjög vel ef hann lendir þá hjá sæmilega góðu liði. Gasol er einn besti sóri maðurinn í deildinni. Það er bara þannig, hvort sem hann stóð sig í úrslitakeppninni núna eður ei.

Andrew Bynum átti heilt yfir nokkuð gott ár með Lakers, en hann þarf að laga hjá sér viðhorf og ákvarðanatöku og svo er heilsa hans alltaf dálítið spurningamerki.

Það verður óhemju áhugavert að fylgjast með framvindu mála hjá Lakers.