Showing posts with label Troðkeppnir. Show all posts
Showing posts with label Troðkeppnir. Show all posts

Sunday, February 14, 2016

Ótrúleg troðkeppni í Toronto í nótt


"Troðkeppnin er komin aftur!" tístu menn eins og Dominique Wilkins eftir að hafa horft á troðkónginn Zach LaVine frá Minnesota verja titil sinn í troðkeppninni í NBA í gærkvöldi eftir rosalegt einvígi við Aaron Gordon frá Orlando.

Þetta eru orð að sönnu. Við erum ekki frá því að þetta hafi verið flottasta úrslitarimma í sögu keppninnar. Aaron Gordon var maður fólksins og Twitter var ósammála dómurunum að gefa LaVine sigurinn. Það skiptir þó í rauninni engu máli, því það sem stendur upp úr er að við fengum sögulega skemmtilega troðkeppni í Toronto í gær.

Gordon kom heldur betur á óvart og lét LaVine, sem fyrirfram var talið að færi létt með þetta eins og í fyrra, vinna fyrir kaupinu sínu fram í síðustu troðslu. Það sem okkur finnst flottast við prógrammið hjá Gordon var að hann klikkaði ekki á einni einustu troðslu í allri keppninni, sem er lygilegt þegar haft er í huga hvað drengurinn var að framkvæma flókna hluti þarna uppi.

Þetta var hreint út sagt frábær keppni og það gleður okkur óendanlega að sjá að troðkeppnin lifi góðu lífi, eftir að hafa nánast dáið út um árabil. Svona háloftafuglar eins og LaVine og Gordon eiga heiður skilinn fyrir þessa hágæðaskemmtun í nótt. Við vorum svo hrifin af þessu að við ákváðum að henda hérna inn bæði myndbandi og myndum handa ykkur sem misstuð af stemmaranum, eða viljið upplifa hann á ný.









Saturday, January 25, 2014

Veðurathuganir Travis Cohn (þarna uppi)


Troðkeppnir geta alveg verið skemmtilegar ef þátttakendur kunna til verks. Snæfellingurinn Travis Cohn III er sannarlega einn þeirra. Klikkaði ekki á einni troðslu og sýndi langbestu tilþrifin í Hafnarfirði í dag, þar sem Stjörnuleikurinn 2014 fór fram.

Tilburðir hans hefðu auðveldlega dugað til að koma honum í úrslit í troðkeppninni í NBA deildarinnar. Maðurinn hefur svo lítið fyrir því að klifra þarna upp og dúlla sér að það er eiginlega asnalegt. Algjör fagmaður.

Hentum hérna inn nokkrum myndum af troðurunum knáu. Reyndar vantar þarna mynd af Nat-vélinni, en það kemur ekki til af góðu. Hann tók eiginlega Birdmanninn á þetta og var í stórvandræðum með útfærslurnar á troðslunum sínum. Endaði yfirleitt á því að skila niður iðnaði sem fékk svo ekki háa einkunn hjá dómurum.














Sunday, July 14, 2013

Til lukku, Spud


Troðkóngurinn fyrrverandi Spud Webb átti fimmtugsafmæli um helgina (f. 13/7´63). Ritstjórn NBA Ísland óskar honum hjartanlega til hamingju með það. Einhver annar þarna úti sem upplifir sig á leið á elliheimilið?

Hinn rétt um 170 sentimetra hái Webb tróð sér bókstaflega inn í hjörtu körfuboltaáhugamanna árið 1986 þegar hann sló félaga sínum Dominique Wilkins við í troðkeppninni um Stjörnuleikshelgina.

Ef þú hittir Íslending á förnum vegi, eru ágætis líkur á því að hann geti nefnt um þrjá til fimm körfuboltamenn með nafni sem spilað hafa í NBA deildinni. Spud Webb er glettilega oft einn þeirra, alveg eins og maðurinn sem er með honum á myndinni á  bryggjunni hérna fyrir neðan.

Þetta sýnir okkur að þú þarft kannski ekki endilega að vera stigakóngur til að verða goðsögn í NBA deildinni. Webb skoraði nákvæmlega 9,9 stig á um það bil tíu ára ferli í NBA deildinni. Sá hefur örugglega fengið að heyra það oftar en einu sinni að hann hafi verið of lítill til að spila í NBA. Einmitt. 






Sunday, February 17, 2013

Ekki gekk nógu vel að troða körfuboltum


Í fyrsta skipti í mörg ár vorum við dálítið spennt fyrir troðkeppninni í NBA, af því í hana voru skráðir menn sem ögrað hafa þyngdarlögmálinu um árabil.

Skemmst er frá því að segja að mennirnir sem flestir tippuðu á að myndu berjast um sigurinn í keppninni - þeir James White og Gerald Green - kúkuðu eiginlega í rúmið.

Báðir eru sannarlega meðal mestu troðara allra tíma (kíktu á þá á youtube) en ætluðu sér hreinlega um of í þetta sinn.

Það var að lokum Terrence Ross frá Toronto Raptors sem fór með sigur af hólmi eftir úrslitaeinvígi við troðkóng síðasta árs, Jeremy Evans frá Utah Jazz.

Troðslurnar hans Ross voru í rauninni ekkert meira en solid, engin þeirra fékk okkur til að hoppa upp úr sófanum. Æ, þetta var samt flott hjá honum og við skulum bara segja að hann hafi ekki gert lítið úr Vince Carter með því að klæðast gömlu treyjunni hans í einni troðslunni (sjá mynd að ofan).

Einhver þolinmóður einstaklingur taldi að á móti þeim 15 troðslum sem lukkuðust í keppninni, hefðu 36 stykki farið forgörðum - og það er auðvitað nóg til að reyna á þolinmæði hvers sem er.

Spurning um að reyna við troðslur sem maður ræður við, ha, strákar?

Þetta kennir okkur að vera ekki að byggja upp væntingar fyrir troðkeppninni. Við höfum látið blekkjast í síðasta sinn. Það er á hreinu.