Showing posts with label Hnignun vestrænnar menningar. Show all posts
Showing posts with label Hnignun vestrænnar menningar. Show all posts

Saturday, December 23, 2017

Þetta hlýtur bara að vera/verða eitthvað


Sennilega er ekki ofsögum sagt að forráðamenn NBA deildarinnar hafi verið leiðandi síðustu áratugi þegar kemur að því að gera vöruna sína markaðsvænni. Eitt mikilvægasta atriðið hvað það varðar er að sjálfssögðu að gera NBA deildina sjónvarpsvænni.

 Það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan NBA gerði talsverðar breytingar á regluverki sínu, t.d. varðandi fækkun á leikhléum, til að verða við kröfu áhorfenda bæði á vellinum og heima í stofu um að fækka ítrekuðum og hundleiðinlegum stoppum undir lok leikja. Þetta er að okkar mati mjög jákvætt atriði - að risavaxin deild á heimsvísu, skuli ekki vera blind og heyrnarlaus þegar kemur að tillögum og aðfinnslum viðskiptavina.

Nýjasta nýtt þegar kemur að tækni- og sjónvarpsmálum í NBA deildinni eru auðvitað sýndarveruleikagræjurnar. Eins og þið vitið, er ritstjórn NBA Ísland svo aftarlega á tæknimerinni, að við myndum tæknilega (pun sooo intended) ekki teljast sitjandi á bakinu á henni.



Við verðum þó að viðurkenna að hugmyndin um að njóta NBA-leikja í sýndarveruleika(græjum) vekur hjá okkur talsverða forvitni og við sjáum ekki betur en að talsverðar vonir séu bundnar við að þetta nýja fyrirbæri gæti orðið eitthvað sem næði fótfestu í sjónvarpsupplifun fólks. 

Í myndbandinu hér fyrir neðan sjáum við stutta frétt sem gerð var um þetta nýlega fyrirbæri, en ljóst er að NBA deildin ætlar sér að þróa þessar hugmyndir eins langt og þurfa þykir af því flestum finnast þær jú ansi fróðlegar og spennandi.



Það er hægt að sjá fullt af myndböndum á youtube sem sýna sjónarhorn manneskju sem er að horfa á NBA leik í sýndarveruleika, en það litla sem við vitum um þetta fyrirbæri er að það er víst engan vegin sama upplifun að sjá þetta á myndbandi eins og hér í fréttinni fyrir neðan - eða að vera með græjuna á hausnum og upplifa það sjálf(ur). 

Við vitum ekki með ykkur, en við værum alveg til í að prófa. Það hlýtur að vera dálítið spennandi að hafa það á tilfinningunni að LeBron James sé að koma hlaupandi á fullum spretti í fangið á manni.

Friday, December 8, 2017

Afsakið (þetta) hlé


Það er náttúrulega ekkert annað en vanvirðing við þá örfáu lesendur sem enn nenna að kíkja á NBA Ísland að skrifa ekki staf handa þeim í marga mánuði. Hvað sem því líður, getið þið rétt ímyndað ykkur hvort fór ekki um ritstjórn síðunnar þegar hún vaknaði allt í einu upp við það í lok sumars að hún hafði engan áhuga á að skrifa lengur - eftir að hafa gert það nánast daglega í meira en áratug.

Við höfum ekki hugmynd um af hverju ritstjórnin lamaðist skyndilega í ágúst, en mögulega hafa stórar breytingar eitthvað með það að gera. Svona breytingar eins og að flytja höfuðstöðvar okkar úr æsingi höfuðborgarinnar í sveitina og svo, tjah, ýmislegt annað skulum við segja.

















Við höfum heldur ekki hugmynd um hvort neistinn til að skrifa er kominn aftur eða ekki. Það eina sem við vitum er að NBA deildin er alveg viðbjóðslega skemmtileg eins og alltaf - og að það er alveg stórkostlega asnalegt að skrifa ekki um það daglega eða vikulega eða hvað það nú er.

Tölvupóstunum hefur auðvitað rignt yfir okkur á nbaisland@gmail.com í þessari löngu og leiðinlegu pásu, þar sem þið lesendur eruð búnir að spyrja okkur hvað sé í gangi. Sum ykkar hafa verið reið yfir þessari leti og kæruleysi, sum ykkar hafið lýst yfir áhyggjum ykkar og spurt hvort við séum yfir höfuð á lífi.*

Við hefðum átt að vera búin að því fyrir löngu, en okkur langaði amk að segja ykkur að við værum enn lifandi, að okkur langaði ekki að loka síðunni, að við hötuðum meira en nokkru sinni að vera ekki lengur með hlaðvarp og að við ætluðum að reyna allt sem við mögulega gætum til að byrja að skrifa aftur. Ef ekki fyrir ykkur, þá fyrir okkur - og ef ekki fyrir okkur, þá fyrir ykkur, fattiði...

Við verðum bara að sjá hvað setur. Þessi færsla er amk byrjun, þó ekki væri annað.

----------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Hvert einasta orð í þessari málsgrein er samviskulaus helvítis haugalygi. Við höfum ekki fengið einn einasta tölvupóst vegna málsins, enda er öllum svo skítsama hvort þessi síða er til eða ekki, en við ætlum bara að loka augum og eyrum fyrir þeirri staðreynd og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Við erum ekki gáfaðari en þetta, eins og þið komust öll að fyrir mörgum árum.

Saturday, November 12, 2016

Popovich ræðir forsetakosningarnar


Hugsandi fólk er enn í losti yfir því að bandaríska þjóðin hafi kosið sjálfsmiðaðan níðing og trúð til að taka við embætti forseta þar í landi. Þetta kemur körfubolta ekkert við, en körfuboltamenn og miðlar hafa séð ástæðu til að tjá sig um málið eftir niðurstöðu kosninganna í vikunni.

Þannig tóku Ernie Johnson og félagar í Inside the NBA á málinu. Shaq og Barkley voru dálítið hneykslaðir á niðurstöðunni en ætla að gefa forsetanum nýkjörna tækifæri til að sanna sig. Ernie Johnson bað Jesú Krist bókstaflega að hjálpa sér í beinni útsendingu TNT - hjálpa sér að vinna úr þessari niðurstöðu mála.


Það sem allir biðu hinsvegar eftir, var að heyra viðbrögð Gregg Popovich þjálfara San Antonio. Þeir vissu að þar gæti komið biti sem færi rakleitt í mest lesið. Og Pop olli ekki vonbrigðum frekar en venjulega. Hann lýsti yfir áhyggjum sínum og fordæmdi óábyrgar og níðskotnar yfirlýsingar forsetans í kosningabaráttunni, sem hann sagði að hefðu kostað hvaða barn sem er áralangt útgöngubann. Hann líkir Bandaríkjunum við Rómarveldi.


Fyrir þremur árum settum við fram tvíþætta spá. Fyrri hluti hennar spáði því að Trump yrði kjörinn forseti Bandaríkjanna. Fólk hló að okkur. Síðari hlutinn sagði að Trump yrði valdur að þriðju heimsstyrjöldinni í forsetaembættinu. Við vonum að fólk eigi líka eftir að hlæja að því.

Þegar Donald Trump er dauður.

Sunday, December 13, 2015

Sjöundi mest pirrandi hlutur á jörðinni










































Það eru öryggisverðir úti um allt á NBA leikjum. Þetta eru ekki lögregluþjónar, ekki hermenn, ekki lífverðir. Þetta er alveg sérstakur þjóðflokkur, yfirgengilega amerískur. Þetta eru í mörgum tilvikum offitusjúklingar og ellilífeyrisþegar, sem þar af leiðandi eru álíka traustvekjandi og framsóknarmaður tengdur við lygamæli.

Hlutverk þessa fólks er annars vegar að standa illa gerðir hlutir í hallærislegum einkennisbúningum sínum og hinsvegar að lóðsa leikmenn af vellinum og inn í átt að búningsklefanum - hvort sem er eftir að leik lýkur með hefðbundnum hætti eða leikmaðurinn jafnvel er rekinn af velli.

Eitt hefur alltaf farið óheyrilega í taugarnar á okkur við þetta blessaða fólk og það er að það virðist ekki með nokkru móti geta sinnt þessu asnalega hlutverki sínu nema styðja höndinni á bakið á leikmanninum sem það er að fylgja út af vellinum. Hvort sem hann er að labba spakur og rólegur af velli, eða er jafnvel æstur og reiður eftir að hafa fengið reisupassann.

Þetta litla smáatriði virðist vera fastur hluti af hverjum einasta NBA leik og eftir stutta en vísindalega könnun höfum við komist að því að það eru í mesta lagi sex hlutir í veröldinni sem fara meira í taugarnar á okkur.

Er ekki alveg í fokkíng lagi!?!  Hvað er að þessu fólki? Heldur það bara alveg í alvörunni að það VERÐI bara að ýta tveggja metra háum heimsklassa íþróttamanni út af vellinum og inn í klefa - af því hann getur það ekki sjálfur þá, eða???

Það hafa allir sem æfa boltaíþróttir lent í því að hafa stokkið upp á nef sér og lent í smávægilegum ryskingum eða pústrum, þar sem fólk hefur jafnvel þurft að ganga inn á milli (hoooold me back!) og stilla til friðar.*

En hvað er það sem er meira pirrandi heldur en gaurinn sem tæklaði þig upp í hálsinn á fótboltaæfingunni eða hrinti þér á markstöngina á körfuboltaæfingunni?  Jú, gaurinn sem ætlar að fara að labba með þig eitthvað sem þú ætlar ekkert að fara - þegar þú ert æst(ur) í skapi.

Þetta er atvinna dyravarða dauðans í NBA deildinni. Fyrir utan það að standa eins og hálfvitar og stara út í loftið, er það eina físíska sem þetta fólk gerir - að styðja hendinni á bakið á atvinnumönnum í körfubolta og ýta þeim. Ekki leiðbeina þeim, þeir vita alveg hvert þeir eru að fokkíng fara - nei, ýta þeim inn í búningsklefa, jafnvel á þeirra eigin heimavelli!

Enn og aftur dáumst við að blíðlyndi og jafnaðargeði NBA leikmanna - við verðum bara að segja það. Við gætum verið í besta skapi í heimi þann daginn, en svo kemur einhver svona einfrumungur og fer að káfa á okkur - ýta okkur út af vellinum!

Er ekki í &$+&$*?# lagi???

Hvernig ætli þessu ágæta fólki myndi líða ef einhver gaur myndi allt í einu birtast í vinnunni hjá því og byrja að sleikja á því eyrun? Þetta er engu skárra.

Eins og Stephen Curry og Draymond Green hafi ekki verið NÓGU pirraðir eftir að hafa þurft að horfa á eftir sigurgöngunni sinni upp í fjósið á Milwaukee flippin Bökks í nótt - kemur ekki eitt svona guðsvolað viðrinið og byrjar að káfa á þeim - ýta þeim út af.

Þetta er mannréttindabrot. Svona fólk á bara að fá högg, sko.

------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Óheppinn þú ef þú hefur aldrei lent í smá axjóni á æfingu. Það er hollt, eflir anda og styrkir skapgerð, svo framarlega sem þetta fer ekki út í eitthvað rugl - við erum ekki að mæla með slíku.

Thursday, December 26, 2013

Bolur ársins?


Hún Tina frænka þín sagði já þegar kærastinn bað hennar á leik Golden State og LA Clippers í nótt. Warriors vann leikinn naumlega og við skulum vona að það gefi góð fyrirheit fyrir komandi hjónaband. Hún sagði svo auðvitað frá þessu öllu á Twitter skömmu síðar.

Bolnum í Bandaríkjunum virðist alltaf þykja það jafn töff að fara á skeljarnar á íþróttaviðburðum, það vekur alltaf athygli og oftast endar fyrirtækið í sjónvarpinu - í það minnsta á risaskjánum í loftinu. Það er erfitt að finna athafnir á pari við þetta þegar kemur að bolun/plebbun. Blessaður bolurinn er svo krúttlegur. Hann lengi lifi.











































P.s. - Það er gaman að sjá ljósmyndarann Daníel Rúnarsson þarna lengst til hægri á myndinni. Daníel er ljósmyndari á Fréttablaðinu og það vill svo skemmtilega til að hann kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að því að vera bolur. Það er nefnilega hægt að vera bæði fagmaður og bolur. Fer meira að segja ágætlega saman.


Saturday, October 27, 2012

Ristill: Roy Hibbert er gunga og lydda





















Ákveðið hefur verið að breyta kjörseðlum fyrir Stjörnuleikinn í NBA. Framvegis getur fólk kosið sér tvo bakverði og þrjá, tjah,  framverði, í stað tveggja framherja og eins miðherja áður.

Þetta er gert til að bregðast við þessari leiðindaþróun sem við erum alltaf að segja ykkur frá, nefnilega Dauða Miðherjans. Þetta þótti okkur efni í stuttan ristil.*

Þeim fer fækkandi með hverju árinu, stóru mönnunum. Sérstaklega þeim sem kunna körfubolta. Roy Hibbert hjá Indiana er leikmaður sem kallar sig miðherja og bara þess vegna komst hann í Stjörnuleikinn í fyrra - ekki af því hann gæti eitthvað.

Hann fór að grenja þegar hann heyrði af nýju reglunum, allir 218 sentimetrarnir af honum titruðu í ekkasogum. Vildu bara snuddu og mömmu.

Fyrirgefið okkur þó við tölum svona með analnum, en Roy Hibbert getur bara ekki blautan s**t í körfubolta, sama hvað hver segir.

Hann á að vera maður sem fer með Indiana á næsta stig, en ræður ekki við það og mun líklega aldrei gera. Hann er drasl sem hefði aldrei átt að koma nálægt Stjörnuleik og vinnur engan veginn fyrir laununum sínum.

Hibbert er ekki eina draslið í miðherjastöðunni. NBA deildin er full af svona rusli. Þar er aftur á móti hægt að finna fullt af góðum framherjum og það er miklu nær að leyfa þeim að spila Stjörnuleiki.

Aldrei þessu vant tekur deildin gáfulega ákvörðun. Þú átt að vinna þér sæti í Stjörnuleik af því þú ert góður í körfubolta, ekki af því þú ert eini miðherjinn í deildinni sem skorar tíu stig að meðaltali í leik.

Við erum niðurbrotin yfir dauða miðherjans eftir að hafa hlotið síðari partinn af  NBA uppeldinu á gullaldarárum stöðunnar. Þetta er eins og með þungavigtina í boxinu. Bara dáið og horfið og enginn veit hvað gerðist.

Einn daginn ertu að horfa á Tyson halda mönnum á lofti með hnefunum, Shaq rífa niður körfur með spjöldum og tjökkum, Hakeem dansa tangó í teignum. En allt í einu hurfu þeir jafn snögglega og risaeðlurnar.

Þú situr eftir með Darko Milicic, Eddy Curry og DeAndre Jordan. Vaknar upp við vondan draum eins og maður á alsæluniðurtúr eftir þriggja daga helgi á Thomsen.

Þetta er ekki sanngjarnt.

Haltu þér saman, Roy. Taktu þér tak og farðu að vinna fyrir kaupinu þínu. Reyndu að sýna okkur að staðan sé ekki dauð. Við höldum með þér, Hibbert. Þú ert gunga og lydda, en við höldum með þér.

* - Ristill er gremjublandinn pistill sem höfundur skrifar án raka og ábyrgðar, þ.e. með ra**gatinu.

Monday, October 22, 2012

Tvífarar vikunnar


Glen Davis er Kevin James NBA deildarinnar og Kevin James er svar Hollywood við Glen Davis.
Báðir eru þeir vel í holdum en ná einhvern veginn að spassast áfram þrátt fyrir litla hæfileika.

Báðir léku minna hlutverk þegar þeir stigu fram á sjónarsviðið fyrst en eru nú komnir í stór hlutverk sem þeir ráða engan vegin við. Davis er ekki byrjunarliðsmaður í NBA og James er sannarlega ekki maður sem ræður við að bera uppi gamanmynd, þó standardinn í Hollywood sé nákvæmlega enginn (sjá: Adam Sandler).

Allt hægt í Bandaríkjunum, líka ef þú ert feitur. Bara að vera nógu hress.


Friday, August 24, 2012

JR Smith í stólnum


Það er nákvæmlega ekkert eðlilegt við það að menn eins og JR Smith séu að senda myndir af sér í tannlæknastólnum á Twitter.

Karlinn virðist reyndar í mjög ásættanlegu ástandi á þessari stundu og er öfundsverður af því.

Félagsmiðlar á borð við Twitter eru hinsvegar einmitt hannaðir með það fyrir augum að menn eins og JR Smith geti sent myndir af sér í tannlæknastólnum á netið.

Við erum öll líklega ríkari á sálinni fyrir vikið.

Sennilega er þetta þó bara talandi dæmi um að vestræn menning sigli hraðbyri til andskotans.

Ætli sé ekki bara best að njóta þess að krúsa þar til aldan kemur.

Hún verður stór.