Jim Barnett hefur verið aðstoðarlýsandi á leikjum Golden State Warriors í þrjá áratugi og er ein af þessum röddum sem er ómissandi í flórunni. Fyrir tveimur árum tilkynntu forráðamenn Warriors að til stæði að yngja upp í starfi Barnett, sem í staðinn fengi kósí "sendiherrastöðu" hjá félaginu í tilefni þess að hann var að komast á eftirlaunaaldurinn.
Barnett var ekki alveg sammála þessum plönum og stuðningsmenn Warriors voru það svo sannarlega ekki heldur. Þeir settu því af stað herferð með það fyrir augum að halda Barnett í starfi. Þeir gátu ekki hugsað sér að horfa á Warriors-leiki í sjónvarpinu án þess að hafa þægilega rödd Barnett til að leiða sig í sannleikann um gang mála, en hann hafði með veikum mætti reynt að finna jákvæðu hliðarnar á spilamennsku liðs sem var í besta falli búið að vera lélegur brandari í deildinni áratugum saman.
Skemmst er frá því að segja að forráðamenn Golden State urðu við bón stuðningsmanna liðsins og buðu Barnett að halda áfram. Hann er enn að lýsa Warriors-leikjum og hugsið ykkur bara hvað það hefði verið handónýtt ef karlinn hefði nú verið látinn fara loksins þegar liðið fór að geta eitthvað í fyrsta skipti síðan það vann meistaratitilinn fyrir 40 árum síðan.

Barnett lék aðeins einn vetur með Celtics og það í landslagi sem á ekkert skylt við NBA deildina í dag. Nýliðaárið hans 1966 var árið áður en leikmannasamtökin voru stofnuð og í þá daga voru engar tryggingar í samningum leikmanna og langtímasamningar þekktust ekki.
Barnett skrifaði upphaflega undir tveggja ára samning við Celtics sem nýliði og nískupúkinn Red Auerbach borgaði honum aðeins ellefu þúsund dollara í árslaun auk 500 dollara bónus við undirritun samnings.
Árið 1966 voru aðeins tíu lið í NBA deildinni og keppnisfyrirkomulagið var þannig að liðin tíu léku níu leiki hvert við annað og því samtals 81 leik á tímabilinu.
Það var svo árið eftir sem farið var að spila 82 leiki, þegar San Diego Rockets (Houston Rockets frá árinu 1971) og Seattle Supersonics (1967-2008 R.I.P.) bættust í hópinn og NBA liðin því orðin tólf.

Leikmenn ferðuðust gjarnan í þessa leiki á einkabílum sínum (félagið borgaði bensín) og þurftu oft að keyra í marga klukkutíma í útileiki.
Undirbúningstímabilið hjá Celtics í þá daga var fjórar vikur og þar af tóku leikmenn tvær æfingar á dag í tvær þeirra. Seinni æfing dagsins gat þá verið 48 mínútna útileikur í tveggja tíma ökuferð í burtu.
Keppnisfyrirkomulagið í NBA var með allt öðrum hætti en nú tíðkast og menn sem kvarta yfir álagi í deildinni í dag hefðu átt að prófa að spila í deildinni fyrir 50 árum.
Á nýliðaárinu hans Jim Barnett spilaði Boston til að mynda tólf leiki í röð í tíu fylkjum á tólf dögum og fór á milli leikjanna með rútu - sem það deildi með tveimur öðrum liðum (Hawks og Sixers)!
Frá Boston lá leið hans til nýliðanna í San Diego Rockets og þaðan til Portland Trailblazers þar sem hann átti sitt besta tölfræðiár í NBA, 18,5 stig, 4,8 fráköst og 4,1 stoðsendingu.