Showing posts with label Ricky Rubio. Show all posts
Showing posts with label Ricky Rubio. Show all posts

Friday, November 14, 2014

Skothvíslari Ricky Rubio


Þessi bráðhuggulegi maður heitir Mike Penberthy og spilaði nokkra leiki með meisturum Los Angeles Lakers á meistaraárunum um aldamótin.

Penberthy var og er skytta og þykist ekki vera neitt annað.

Í dag er hann skotþjálfari hjá Minnesota Timberwolves og hefur fengið það sérstaka verkefni að reyna að bæta hræðilega skotnýtinguna hans Ricky Rubio.

Penberthy hefur áður gert góða hluti með menn eins og Paul George hjá Indiana og Reggie Jackson hjá Oklahoma. Svo góða, að hann er kallaður skothvíslari hjá Minnesota.

Við heyrðum frábæra sögu af Penberthy á dögunum, sem við bara verðum að deila með ykkur.

Hún átti sér stað fyrir nokkrum dögum, skömmu fyrir einn af leikjum Minnesota. ESPN-penni nokkur var þá að horfa niður á völlinn þar sem leikmenn Timberwolves höfðu verið að hita upp skömmu áður, en nú var þar aðeins einn maður - téður Pemberthy.

Pemberthy tók sér stöðu í hægra horni vallarins og tók tíu þriggja stiga skot, sem öll fóru beint ofan í. Þá færði hann sig nokkra metra til vinstri og tók önnur tíu þriggja stiga skot á ská á móti körfunni, sem öll fóru sömu leið. Svo færði hann sig lengra til vinstri þangað til hann var beint á móti körfunni og enn setti hann tíu þrista í röð, sem snertu varla hringinn.

Þegar þarna var komið, voru komnir nokkrir áhorfendur sem voru farnir að fylgjast með þessum tilþrifum skotþjálfarans og þeir fóru að hlæja þegar 31. þriggja stiga skotið hans Pemberthy skall á hringnum og fór ekki ofan í. Hann var þá kominn á næstu skotstöð, á ská til vinstri.

Áhorfendahópurinn litli hló enn meira þegar næsta skot Pemberthy fór í spjaldið og ofan í. Þeir héldu áfram að hlæja og spurðu hvort þetta hefði þá allt verið grís hjá honum.

Þeir hættu að hlæja þegar næstu níu skot fóru í spjaldið og ofan í með nákvæmlega sama hætti.

Kannski getur einhver kennt Ricky Rubio að skjóta eftir allt saman.

Ef svona maður getur það ekki, er það ekki hægt.

Saturday, March 22, 2014

Já, veinaðu Úlfur, Úlfur*


Það er ljúft að fá loksins tækifæri til að vera í byrjunarliði í NBA deildinni. Eða svo virðist vera ef við skoðum feril nýliðans Gorgui Dieng ( í treyju númer fimm á myndinni hérna fyrir neðan) hjá Úlfunum.

Senegalinn síkáti var ekki búinn að fá nema það sem kallað er ruslmínútur í vetur en var hent í byrjunarliðið á dögunum eftir að Úlfarnir misstu þrettánþúsundfjögurhundruðogáttunda leikmanninn sinn í meiðsli.

Jæja, hann var ekki lengi að svara kallinu og er búinn að skila 15 stigum, 14 fráköstum og 2 vörðum skotum í þeim þremur leikjum sem hann hefur verið í byrjunarliðinu.

Á fimmtudagskvöldið bauð drengurinn svo upp á 22 stig og 21 frákast í tapi Úlfanna gegn Houston Rockets. Hvar endar þetta, er fólk eflaust farið að spyrja.

Það hafa jú ekki nema þrír leikmenn verið með svona læti í fyrstu þremur leikjunum þeir komu inn í byrjunarlið á síðustu tuttugu árum í deildinni (DeJuan Blair hjá Spurs (2x), Joe Smith (2x) hjá Warriors og auðvitað Tim Duncan hjá Spurs skv. tölfræði Elíasar og ESPN).

Æ, við verðum að reyna að finna eitthvað jákvætt hjá Úlfunum í vetur - ekki eru þeir að fara í úrslitakeppnina. Það getur ekki talist líklegt.**

Það eru meira en tveir mánuðir síðan þeir sem rýna í tölfræði fyrir lengra komna, lýstu því yfir að það væri ekki séns að Úlfarnir færu í úrslitakeppnina.

Okkur þótti sem þessir tölfræðingar (gott ef Kevin Pelton var ekki einn þeirra) dálítið snemma í því að dæma Úlfana okkar úr leik, en það er að koma á daginn að þeir voru sannspáir. Meira að segja jinx eins og þetta er ekki nóg til að koma Úlfunum í úrslitakeppnina. Og það er sorglegt.

Vissulega eru meiðsli búin að setja strik í rekninginn hjá Minnesota í vetur, en það er bara fastur liður hjá þessu liði og verður alltaf. Stjörnurnar hjá þessu liði spila bara ekki meira en 60-80% þeirra leikja sem eru í boði, nú eða náttúrulega minna en það.

Það nöturlega við þetta allt saman er ekki meiðslin. Það sorglega við það að Úlfarnir skuli nú vera að missa af úrslitakeppninni tíunda árið í röð, eða síðan Sam Cassell (20/7) og Kevin Garnett (24/15/5/2) fóru fyrir því og komu því alla leið í úrslit Vesturdeildar.

Sjáðu bara hvað þeir eru ánægðir með sig hérna til hægri. Þeir máttu svo sem vera það, þeir voru flottir þessir karlar.

Þá, eins og nú, er aldrei að segja hvað hefði gerst ef meiðsli hefðu ekki fokkað þeim upp á versta tíma.Við getum reynt að horfa áfram á björtu hliðarnar. Við getum reynt að fókusera á það að Úlfarnir eru hægt og bítandi búnir að vera að bæta sig undanfarin ár.

Það er reyndar helvíti erfitt að ná annað en betri árangri þegar lið vinnur bara 15 leiki allan veturinn, en Minnesota er búið að bæta sig frá 15 sigrum, í 17 sigra, í 26 sigra, í 31 sigur og er þegar komið með 34 sigra þegar þetta er ritað og því öruggt með besta árangur sinn síðan 2005 (44 sigrar).

Vandamálið er bara að þetta er ekki nóg í Vesturdeildinni í NBA. Þetta er ekki Austurdeildin, þar sem þú getur tapað sjö leikjum í röð án þess að það hafi nokkur áhrif á möguleika þína á að komast í úrslitakeppni. Þetta er Vesturdeildin, þar sem þú ert beisikklí fögt ef þú tapar 2-3 leikjum í röð.

Sjáið bara lið eins og Portland og Phoenix. Portland er búið að öskubuskast í toppbaráttunni í allan vetur, en er nú búið að lenda í smá mótlæti og er komið niður á jörðina.

Liðið sem var að elta San Antonio og Oklahoma á toppnum hálfan veturinn, má núna þakka fyrir að mæta ekki San Antonio eða Oklahoma í úrslitakeppninni og verða sópað út eins og hverju öðru rusli.

Phoenix var sömuleiðis búið að Spútnika yfir sig í allan vetur, en þarf sem komið er á kraftaverki að halda til að komast í úrslitakeppnina. Þrátt fyrir að vera með 57% vinningshlutfall og vera, án gríns, búið að vinna fjórum sinnum fleiri leiki en spár gerðu ráð fyrir í haust.

En vandamál Úlfanna er ekki bara sú staðreynd að liðið spilar í þessari ógnarsterku Vesturdeild. Það tekur okkur óhemju sárt að þurfa að segja þetta, en ákveðin sannleikur liggur fyrir varðandi Úlfana í vetur. Ákveðin staðreynd sem komið hefur í ljós, sama hvað meiðsli hafa reynt að fela hana.

Minnesota er bara ekki nógu gott lið.

Úlfarnir eiga sér nokkra grjótharða stuðningsmenn á Íslandi og á tímabili var orðið ansi þétt setið á Úlfavagninum góða. Allur þessi pótensjal sem þetta lið hafði! Þess var framtíðin, var ekki svo?

Öll héldum við að Rubio yrði betri, að Love yrði betri, að Pekovic yrði betri. Og að þessir aukaleikarar sem liðið var að safna í kring um þá og líma saman með sterkum þjálfara eins og Adelman?

Ef þetta lið drullaðist einhvern tímann til að haldast heilt nógu lengi, væri það að sjálfssögðu á leið beint í úrslitakeppninna - var það ekki?

Nei, nefnilega ekki. Meiðslin hafa reyndar haldið áfram að hrjá liðið, svo mikið að við erum búin að lýsa því yfir að þau séu komin til að vera, en það er ekki bara það. Minnesota er bara ekki nógu gott lið.

Alltaf er þetta spurnin um sömu hlutina. Minnesota er ekki nógu gott varnarlið, Ricky Rubio getur (alls, alls, alls) ekki skotið, Love og Pekovic eru gjörsamlega vonlaus varnarframlína, liðið ver engin skot, er ekki með neinar skyttur og bekkurinn hjá því er rusl.***

Kevin Love er alltaf með klámfengna tölfræði og árið í ár er þar engin undantekning. Rubio og Pekovic eru strangt til tekið búnir að bæta sig í tölfræðinni, en það sem er að þessu liði kemur ekki alltaf fram í tölfræðinni, nema kannski þetta með þá staðreynd að Össur Skarphéðinsson er sennnilega betri skytta en Ricky Rubio.

Kannski er það bara í takt við þetta að liðið sé að bæta sig örlítið ár frá ári, bara alls ekki eins mikið og við - hin óþolnimóða Twitter-kynslóð - er að óska eftir. En það er ekki bara okkar óþolinmæði.

Örfáir sigrar upp á við á ári eru bara ekki nóg ef það skilar ekki í það minnsta sæti í úrslitakeppni. Það ætti að vera ljóst, nú þegar Kevin Love er allt nema farinn frá félaginu

Sagt er að versti staðurinn til að vera á í NBA deildinni sé í meðalmennskunni - að vera svona Atlanta Hawks - lið sem þið munið að fór í úrslitakeppnina ár eftir ár eftir ágætis deildakeppni, en var svo alltaf slegið út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Ef þú getur ekki fengið til þín menn með lausa samninga og færð aldrei almennilega nýliða af því þú velur alltaf í kring um 20, eru líkurnar á því að þú bætir þig ansi litlar, alveg sama hvað þú ert með efnilegt lið.

Minnesota getur reyndar ekki einu sinni státað af því að detta út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð. Það gerði það á árunum með Kevin Garnett, þegar það datt 87 ár í röð í fyrstu umferð þegar það var fast í 50% vinninshlutfallinu. Það er líka ömurlegur staður til að vera á.

Það væri rosalega auðvelt fyrir svona hrokagikki eins og okkur að sitja hérna og segja Minnesota að það sé kominn tími til að stokka upp og breyta til - reyna eitthvað nýtt.

En það er bara sorglega líklegt að slík ákvörðun verði tekin fyrir félagið, þegar Kevin Love klárar samninginn sinn og fer (til Los Angeles). Og hvað verður þá til ráða?

Nei, smáklúbbur úr sveit eins og Minnesota Timberwolves getur ekki leyft sér jafn yfirgripsmiklar aðgerðir eins og að fara að kasta frá sér stórstjörnunni sinni eða bestu leikmönnunum sínum bara af því að liðið er ekki að bæta sig í nógu stórum stökkum. Líklega er þolinmæðin það eina sem er í stöðunni hjá Úlfunum.

Verstur fjandinn fyrir okkur og alla hina aðdáendur liðsins, er að við verðum örugglega öll farin að horfa eitthvað allt annað ef þessi þolinmæði ber einhvern daginn ávöxt.

Og þó...

Það er svo létt að hoppa á vagninn aftur.

---------------------------------------------------------------------------------------

* -- Þetta orti Megas einu sinni og líkurnar á því að við höfum notað þetta í fyrirsögn áður, eru betri en líkurnar á því að Úlfarnir komist í úrslitakeppnina - svo mikið er handvíst.

** -- Eins og hendi hafi verið veifað, er lítill "sælar stelpur, Gorgui hérna"-pungur búinn að breytast í stóran hlemm um endalausa ógæfu Úlfanna. Þarna gefst ykkur sjaldgæft tækifæri til að öðlast innsýn í brjálaða starfshætti ritstjórnar NBA Ísland. Fjandinn er fljótur að verða laus.

*** --  1.) Mótherjar Minnesota skjóta 63% undir körfunni. Langhæsta hlutfall í allri deildinni. Andstæðingar Indiana skjóta 51% undir körfunni (best í NBA).

2.) Minnesota ver fæst skot allra liða í NBA deildinni. Ronny Turiaf ver flest skot í liðinu (1,7) og enginn annar leikmaður (sem fær marktækar mínútur) er nálægt því að verja eitt skot í leik. Turiaf ver því helming skota liðsins. Til samanburðar má geta þess að Michael Jordan varði best 1,6 skot í leik með Chicago og Dwyane Wade 1,3 í tvígang. Þeir eru/voru jú bakverðir.

3.) Aðeins varamannabekkir Indiana, Washington, Toronto og Portland skora minna en bekkur Úlfanna, sem skilar liðinu 26 stigum í leik. Þá skilar bekkur Úlfanna aðeins 39,7% skotnýtingu, nánast sömu nýtingu og bekkur Golden State, en þessir tveir eru í langneðsta sæti í deildinni - meira en tveimur prósentustigum fyrir neðan næsta lið. San Antonio er að sjálfssögðu efst í þessum tölfræðiflokki - bekkur Spurs er með 48,8% skotnýtingu.

Wednesday, December 18, 2013

Akkílesarhæll "Bricky" Ricky Rubio


Ricky Rubio hefur verið einn af uppáhalds leikstjórnendunum okkar síðan hann hóf að leika í NBA deildinni fyrir rúmum tveimur árum. Það eina sem menn fundu að Rubio á sínum tíma, var að hann var frekar dapur skotmaður. En svona hæfileikaríkur leikmaður kippir því auðvitað í liðinn, er það ekki?

Hreint ekki.

Við höfum enga ánægju af því að vitna í greinar sem menn eru aftur farnir að skrifa um Rubio og vanhæfi hans sem skyttu, en staðreyndin er bara sú að Rubio er ein lélegasta skytta í sögu NBA deildarinnar.

Hann hitti úr 36% skota sinna á nýliðaárinu sínu, aftur 36% á öðru ári og viltu giska á hvernig hann er að skjóta í ár? Jú, 36%.

Hérna til hliðar sérðu skotkortið hans Rubio í vetur. Þar má glöggt sjá hvar hann er veikastur fyrir.

Þriggja stiga skotin hans eru reyndar aðeins skárri í ár en áður, en það breytir því ekki að hann hefur aðeins hitt úr einu af hverjum þremur þriggja stiga skotum sínum á ferlinum.

Og veistu hvaða nýtingu Rubio er með í fjórða leikhluta í leikjunum 25 sem hann hefur spilað í vetur? Tuttugu og þrjú prósent! Þú ert ekki beint ógnandi í krönsinu með slíkar tölur.

Rubio á fáa sína líka þegar kemur að því að lesa leikinn og senda boltann og það sem merkilegra er, er að hann er mjög góður varnarmaður.

Fjölmiðlamenn setja oft samasemmerki milli varnarleiks og stolinna bolta - sem er kjaftæði - en Rubio er úrvalsboltaþjófur líka.

Spánverjinn ungi er fimmti stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar með 8 snuddur í leik og er í öðru sæti í stolnum boltum með tæpa þrjá í leik.

Loks ber að geta þess að hann er ljómandi frákastari líka, aðeins Russell Westbrook og Chris Paul eru afkastameiri í leikstjórnandastöðunni.

Eins og þið sjáið á þessu, er Rubio enginn skussi, en skelfileg skotnýting hans háir Minnesotaliðinu í sóknarleiknum, því það ber ekki nokkur maður virðingu fyrir Rubio sem skyttu. Þetta þrengir mikið að Úlfunum í sókninni og ekki er á það bætandi - liðið er eitt slakasta skotliðið í NBA.

Eitt af því sem lækkar Rubio hvað mest í skotnýtingunni eru þó ekki langskotin, múrsteinahleðslan sem hann er að bjóða upp á innan ruðningslínu í teignum.

Hann skaut 41% í teignum á síðustu leiktíð og þótti skelfilegur, en hann er búinn að lækka sig í 38% í ár.

Til að setja það í samhengi, má benda á að Chris Paul er með 62% nýtingu í sömu skotum, Tony Parker 57%, Rajon Rondo var með 55% í fyrra og Kyrie Irving 50%.

Einhver hefði haldið að Rubio væri nógu klókur til að vinna bug á þessum vandræðum sínum, en því miður fyrir Rubio, erum við búin að sjá nógu mikið af honum til að átta okkur á því að hann kemur alltaf til með að verða í stórvandræðum í þessum þætti leiksins.

Þetta er sannarlega leiðinlegt fyrir Rubio og Úlfana. Hann er hörkuleikmaður í nær alla staði og á eftir að hafa vinnu í NBA deildinni eins lengi og hann kærir sig um. Ef hann hinsvegar heldur áfram að skjóta svona eins og emúi á alsælu, er hætt við að við sjáum hann aldrei ná á toppinn - hvorki með liði sínu, né sem einstaklingur.

Það liggur beinast við að kalla svona grjótkastara og múrhleðslumann Steinþór, ekki síst af því hinn lykilmaðurinn í liði Úlfana heitir auðvitað Ástþór. Steinþór og Ástþór - er það ekki eitthvað?

Thursday, November 28, 2013

Svartir Úlfar


Það eru skiptar skoðanir um aukabúninga Úlfana sem þeir klæddust í nótt. Auðvitað er þetta líkara hand- eða fótboltabúningum en körfuboltabúningum, en það má alveg hafa gaman að þessu. Svartur klikkar aldrei.


Wednesday, March 13, 2013

Takk, Ricky


Ricky Rubio, góðvinur ritstjórnarinnar, lét sér ekki nægja að bjóða upp á glæsilega þrefalda tvennu (21/13/12) í sigri Úlfanna á San Antonio í nótt. Hann bauð líka upp á þessi brakandi fersku tilþrif.


Tuesday, January 22, 2013

Úlfavaktin er enn ekki farin af stað


Það sáu það ekki endilega allir fyrir í fyrra, en á síðustu leiktíð, varð Minnesota eitt mest spennandi lið deildarinnar á að horfa. Það var ekki síst vegna þess að við sáum fram á að Timberwolves yrði keyrt áfram af ungstirnunum Ricky Rubio og Kevin Love.

Fyrirbærið sem síðar fékk nafnið #Úlfavaktin hefur svo náð enn minna flugi í vetur út af meiðslum bæði Love og Rubio. Eins og það hafi ekki verið nóg, hefur meiðsladraugurinn nánast tröllriðið öllum leikmannahópnum.

Vissirðu að Ricky Rubio og Kevin Love hafa aðeins spilað 27 leiki saman í byrjunarliði?

Jebb. Tuttugu og sjö. Þetta er hrikalegt.

Ætli við verðum ekki að taka ofan fyrir strákunum hans Rick Adelman í vetur fyrir að vera aðeins þremur leikjum undir 50 prósentunum í ógnarsterkri Vesturdeildinni?

Andrei Kirilenko hefur heldur betur reynst liðinu góður fengur í vetur með varnarleik og fagmennsku og þá hefur tröllið Nikola Pekovic bætt sig í miðjunni.

Langskotin hafa hinsvegar verið til sögulegra vandræða hjá Úlfunum og það hefur ekki verið á það bætandi að tvær af bestu langskyttum liðsins hafi verið meiddar meira og minna í allan vetur.

Líklega eru möguleikar Úlfanna á að komast í úrslitakeppnina litlir sem engir og því verða þeir annað árið í röð að reyna að eiga gott sumar og keyra sig í gang fyrir næsta keppnistímabil.

Það er bara eins gott að þetta lið drullist til að haldast heilt á næsta ári. Annars verður Úlfavaktin ekki annað en blautur draumur í minningunni. Guð forði okkur frá því.

Og úr því við erum farin að tala um Guð, er líklega best að láta þessari stuttu hugleiðingu um Úlfana lokið að sinni.

Wednesday, December 26, 2012

Wednesday, September 19, 2012

Allir verða á Úlfavaktinni


Það er ekki nokkur vafi hvaða lið verður "League-Pass-lið" vetrarins í NBA deildinni, það er að segja liðið sem flestir fylgjast næstmest með, fyrir utan sitt uppáhaldslið. Það verður sama lið og á síðustu leiktíð, Minnesota Timberwolves.

Það vill reyndar svo bölvanlega til að spænska undrabarnið Ricky Rubio verður ekki tilbúið í slaginn fyrr en nokkuð líður á veturinn vegna slæmra meiðsla sem hann varð fyrir á síðustu leiktíð. Liðið verður spennandi í vetur og óhemju spennandi þegar líður að vori og leikstjórnandinn Rubio dettur inn aftur.

Minnesota var í Spútnik-gírnum allt þar til Rubio meiddist á síðustu leiktíð og er reynslunni ríkara.

Nú hefur Úlfunum líka borist liðsstyrkur, sem reyndar er ómögulegt að segja til um hvort kemur að gagni.

Brandon Roy, fyrrum skotbakvörður Portland Trailblazers og Andrei Kirilenko fyrrum leikmaður Utah Jazz bætast í þegar áhugaverðan hóp Minnesota í vetur. Báðir þessir leikmenn eru mjög hæfileikaríkir en hafa verið óheppnir með meiðsli.

Kirilenko spilaði í heimalandi sínu Rússlandi síðasta vetur og fór þar á kostum, bæði með félags- og landsliðum sínum. Brandon Roy var eins og flestir muna búinn að leggja skó sína á hilluna vegna meiðsla, en hefur á einhvern undarlegan hátt ákveðið að snúa aftur þó hnén á honum séu í raun bæði ónýt.

Þegar Roy er við sæmilega heilsu, er hann af mörgum álitinn þriðji besti skotbakvörður heimsins á eftir þeim Kobe Bryant og Dwyane Wade, svo það er kannski skiljanlegt að Minnesota taki sénsinn á honum.

Fari svo að tímabilið í vetur verði nokkuð eðlilegt og forráðamenn Minnesota finna enga fjögurra eða fimm laufa smára í bakgarðinum hjá sér, munu báðir þessir leikmenn verða í bullandi vandræðum með meiðsli í allan vetur. Sérstaklega Roy, sem bara á ekki að geta spilað sem atvinnumaður í körfubolta með þessi ónýtu hné.

Ef Úlfarnir verða hinsvegar bænheyrðir og ofangreint par heldur heilsu, á þetta lið nánast takmarkalausa möguleika í baráttunni.

Kevin Love er trúlega besti kraftframherjinn í heiminum í dag og Ricky Rubio er frábær leikmaður, miklu betri en við áttum von á - sérstaklega í vörninni. Rick Adelman þjálfari er í hópi bestu þjálfara deildarinnar og tröllið Pekovic hefur komið mikið á óvart í miðjunni.

Bætum svo við þetta æstum og ört vaxandi aðdáendahóp og hinum spennandi Alexey Shved frá Rússlandi og við erum komin með mest spennandi lið vetrarins í NBA.

Hann verður þétt setinn bekkurinn á Úlfavaktinni í vetur, það er öruggt.

Sjáðu bara:

PG - Ricky Rubio
SG - Brandon Roy
SF - Andrei Kirilenko
PF - Kevin Love
C  - Nikola Pekovic

Þetta er bara hörkulið ef allir eru sæmilega heilir. Stórt ef, en samt.

Téður Shved verður svo á bekknum þar sem Chase Budinger frá Houston og Greg Stiemsma frá Boston verða líka í vetur. Þá getur Derrick Williams ekki annað en bætt sig eftir að hafa valdið gríðarlegum vonbrigðum á síðustu leiktíð.

Skrumið verður mikið í kring um Úlfana í vetur, en það eru ástæður fyrir því.

Það verður til dæmis ekki leiðinlegt að sjá hugmyndaríka sóknarmenn á borð við Rubio og Kirilenko læða sér daglega á tilþrifalista með skemmtilegum sendingum.

Veikleikar Wolves síðasta vetur voru varnarleikurinn og afleit frammistaða vængmanna.

Kirilenko, Roy og Shved hjálpa sannarlega til í þessu.

Þá er ekki síður mikilvægt að Minnesota hefur hægt og örugglega verið að losa sig við rugludalla og leikmenn sem kunna ekki körfubolta að undanförnu. Þar koma nöfn eins og Darko Milicic upp í hugann.

Þó útlitið sé bjart hjá Úlfunum, er það þó ekki eintómt sólskin. Það eru ekki mörg frábær lið í Vesturdeildinni, en hellingur af góðum liðum, sem eru slæm tíðindi fyrir Minnesota.

Meiðsli Ricky Rubio gera það að verkum að liðið á að öllum líkindum eftir að verða í vandræðum framan af vetri og það eitt getur nægt til að fella það nánast úr leik í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Við skulum þó vona að svo verði ekki. Það halda allir með Úlfunum í vetur.

Monday, March 12, 2012

Saturday, March 10, 2012

Ricky Rubio er farinn í sumarfríi














Fólk sem hefur á annað borð gaman af NBA körfuboltanum er dauft í dálkinn í dag eftir að í ljós kom að spænski leikstjórnandinn Ricky Rubio hjá Minnesota er með slitið krossband og leikur ekki meira með liðinu í vetur. Hann mun einnig missa af ÓL með spænska landsliðinu.

Um það bil átta milljónir leikmanna, blaðamanna og stuðningsmanna Rubio hafa sent honum batakveðjur á Twitter í kvöld. Frábært að sjá hvað hann á marga aðdáendur pilturinn og það kemur ekki á óvart. Svona guttar koma ekki inn í deildina á hverju ári. Ekki á hverjum áratug heldur.

Þessi meiðsli hans Rubio, sem hann hlaut eftir árekstur við sjálfan Kobe Bryant, þýða væntanlega að vonir og væntingar Úlfanna um að komast í úrslitakeppni minnka verulega. Minnesota var búið að vera á fínu róli og lið eins og Houston og Portland að drulla á sig á sama tíma, svo margir voru farnir að sjá liðið ná inn í úrslitakeppnina. Það hefði verið dásamlegt.

Það vilja allir sjá Úlfana stríða einhverju af toppliðunum í playoffs, en það verður að teljast ólíklegt að það takist án Rubio. Og á meðan eru hnúahausar eins og Stephen Jackson og Eddy Curry heilir heilsu. Hnuss!

Wednesday, February 22, 2012

Tuesday, January 3, 2012

Saturday, December 31, 2011

Skemmtilegur körfubolti í Minnesota




























LeBron James veit hvernig körfuhringurinn lítur út ofan frá. Átti stórleik á 27 ára afmælisdaginn sinn og horfði á félaga sinn Dwyane Wade klára annan leikinn á þremur dögum í blálokin. James átti reyndar sendinguna á Wade sem slúttaði leiknum. Hún þurfti að vera fullkomin og var það.



Annars var leikur Minnesota og Miami frábær skemmtun. Varamenn Minnesota gerðu það að verkum að leikurinn varð spennandi og á pervertískan hátt má eiginlega segja að Wolves séu með þokkalega breidd. Liðið er ekkert að vinna leiki frekar en venjulega, en það er allt annar bragur á liðinu en verið hefur. Þrjú töp með samtals níu stigum er ekkert svo hræðilegt.

Minnesota virðist hafa gert ágæta hluti í nýliðavalinu ef marka má frammistöðu þeirra Rubio og Williams. Rubio lofar virkilega góðu og vann marga efasemdamenn á sitt band með flottum leik gegn Miami. Framtíðin er bara þokkalega björt hjá Úlfunum.

Tuesday, December 27, 2011

Rubio er mættur


Menn með svona sendingagetu vaxa ekki á trjánum. Heimavöllur Minnesota Timberwolves hefur ekki rokkað svona síðan liðið lék til úrslita í Vesturdeildinni forðum. Rubio og Williams heldur betur að vekja vonir hjá fólkinu. Þetta Minnesota-lið á langt í land, en það verður ekkert leiðinlegt að horfa á það.

Sunday, December 18, 2011

Ungir Úlfar


Þetta er augljóslega ekki heimildarmynd um góðan varnarleik, en í myndbrotinu hér fyrir neðan sjáum við sýnishorn af því sem stuðningsmenn Minnesota Timberwolves gætu átt von á frá nýliðunum sínum Riky Rubio og Derrick Williams.