Showing posts with label Tim Duncan. Show all posts
Showing posts with label Tim Duncan. Show all posts

Tuesday, December 20, 2016

Takk aftur, Tim


Nú er búið að hengja treyjuna hans Tim Duncan upp í rjáfur í San Antonio eins og þið tókuð eftir. Það var sannarlega ekki verið að drolla við þetta. Ætli forráðamenn Spurs séu ekki hræddir um að hann eigi eftir að hverfa inn í Amazon frumskóginn einn daginn og koma aldrei aftur, eða eitthvað slíkt. Hvað vitum við svo sem um þessa hávöxnu ráðgátu af manni.

Okkur þótti vænt um að horfa á seremóníuna, sem var stutt og hnitmiðuð á miðað við tilefnið, en þið vissuð að það yrðu ekki teknir neinir sjö tímar í að keyra Tim Duncan út. Alveg eins og þegar Duncan tilkynnti að hann væri hættur á sínum tíma, fengum við eitthvað nostalgíukast og hugsuðum að við yrðum nú að skrifa eitthvað um þetta. 
Vorum næstum því búin að gleyma því að við vorum búin að gera það, nokkuð ítarlega meira að segja. Þau ykkar sem nenntuð ekki að lesa það, getið þá kannski gert það núna, ef þið eigið eftir að sakna Duncan eins og við.

Við eigum ekki eftir að sakna þess að horfa á Duncan spila, þannig séð, við erum búin að gera meira af því en flestir á síðustu tveimur áratugum. Við eigum bara eftir að sakna hans af því hann var á sinn hljóðláta hátt ein af undirstöðunum í NBA deildinni, hvort sem hann fór í taugarnar á þér eða þú elskaðir hann.

Það er óþarfi að skrifa annan hlemm um Duncan eins og við gerðum í sumar, en okkur langar bara að vekja athygli á nokkrum atriðum.

Þau ykkar sem horfðuð á athöfnina þegar treyjan hans Duncan fór upp í rjáfur (hún er aðgengileg víða á youtube), hafið eflaust veitt því athygli hvað þeir Tony Parker, Manu Ginobili og Gregg Popovich töluðu lítið um leikmanninn Tim Duncan í ræðunum sínum. Það vita allir að Duncan var góður leikmaður og því var óþarfi að tala um það við þetta tækifæri - Duncan hefði líka ekki nennt að hlusta á það. 

Nei, það eina sem komst að hjá höfðingjunum sem tóku til máls til að heiðra liðsfélaga sinn til 15-20 ára var hvað hann væri góður liðsfélagi og góð manneskja. 

Þeir færðu líka rök fyrir máli sínu. Minntust á hvernig hann peppaði þá upp þegar illa gekk, hvað hann var mikill leiðtogi, hvað hann gaf gott fordæmi og hvað hann var alltaf tilbúinn að eyða tíma í að gera félaga sína betri (eins og að taka aukaæfingar til að reyna að gera körfuboltamann úr Boban á lokaárinu sínu). 

Það var ekki ónýtt fyrir börnin hans Duncan að fá að heyra allt þetta hrós um gamla manninn á þessu sviði. Það er ekki víst að það gerist nema einu sinni enn.

Þetta er allt voðalega boring, við vitum það, svona leiðindi þykja ekki sexí í dag. En þetta segir okkur hvernig manneskja er horfinn af NBA sviðinu - þið vitið hvernig leikmaður er horfinn af sviðinu. Við vorum búin að segja ykkur það.

Eitt í viðbót langaði ykkur að minnast á, sem við tókum ekki í fram í greininni í sumar. Það var að skjóta niður vitleysu sem við höfum heyrt nokkrum sinnum og vekja athygli á öðru atriði í framhaldinu.

Stundum er talað um að Spurs-liðið hans Tim Duncan hafi ef til vill haft heppnina með sér þegar kom að styrkleika mótherja þeirra úr austrinu í lokaúrslitunum. Þetta er rétt, en sömu sögu er að segja af t.d. aldamótaliði LA Lakers. 

Friday, July 15, 2016

Tim Duncan með augum NBA Ísland



















Þú veist að það er eitthvað sérstakt í gangi þegar hörkutól úr bransanum eins og RC Buford framkvæmdastjóri og Gregg Popovich þjálfari San Antonio vatna músum. En það gerðist nú samt á sitt hvorum fjölmiðlafundinum þegar þeir voru spurðir út í Tim Duncan, sem hefur ákveðið að leggja skó sína á hilluna eftir 19 ára feril í NBA deildinni.

Við erum búin að liggja yfir þessu í nokkurn tíma og reyna að átta okkur á því að Tim Duncan verði ekki í NBA deildinni næsta vetur. Rétt eins og verður með Kobe Bryant, eigum við öll eftir að sjá á eftir Tim Duncan þegar hann hverfur inn í sólarlagið, enda höfum við öll getað stillt klukkurnar okkar eftir stöðugri spilamennsku hans í nær tvo áratugi.

Við höfum stundum skrifað minningagreinar um menn þegar þeir hætta að spila í NBA. Við skrifuðum reyndar ekkert um Kobe Bryant á sínum tíma, því okkur þótti við vera búin að gera svo mikið af því í gegn um tíðina. Nú er ekki loku fyrir það skotið að við gerum ferilinn hans Kobe Bryant upp í pistli einn daginn, en þegar við heyrðum að Duncan væri hættur, greip okkur strax einhver tilfinning í ætt við skyldurækni - að við yrðum bara að skrifa pistil um hann.



Tim Duncan er sannarlega ekki litríkasti eða umdeildasti leikmaður í sögu NBA deildarinnar, enda hefur umfjöllun um hann alltaf verið í lágmarki bæði hér og annars staðar. Þar liggja nokkrar ástæður að baki. Duncan var aldrei neitt fyrir það að trana sér fram og vildi helst ekki veita viðtöl, en þar að auki hefur kúltúrinn hjá Spurs aldrei snúist um neitt skrum, frægð eða frama.

Og það var að hluta til Tim Duncan sem byggði þennan fræga kúltúr, þetta stjórnkerfi San Antonio Spurs sem öll hin liðin í NBA deildinni hafa öfundað það af í tvo áratugi. Tim Duncan bara mætti (snemma) í vinnuna, vann vinnuna sína vandlega og fór svo heim til fjölskyldunnar, án frægðarljóma eða flugeldasýninga. Gregg Popovich er arkítektinn á bak við megnið af kúltúrnum hjá Spurs, en Tim Duncan hefur verið kjarni hans í nær tuttugu ár.

Tim Duncan hefur aldrei verið allra og mörgum finnst hann leiðinlegur leikmaður, ekki síst af því stuðningsmenn hinna liðanna í NBA eru búnir að vera að tapa fyrir honum í tuttugu ár. Flest körfuboltaáhugafólk sem við þekkjum hefur hinsvegar vottað Duncan virðingu sína í vikunni, hvort sem það var gefið fyrir leik hans eða ekki, af því þetta fólk veit að þar hverfur af sjónarsviðinu algjör goðsögn í sögu deildarinnar.



Einhver ykkar eru eflaust búin að lesa eina eða fleiri af þeim fjölmörgu greinum sem skrifaðar hafa verið um Duncan síðustu daga. Þær hafa verið misgóðar, en leitað í svipaða sálma; Tim Duncan var frábær leikmaður - allt að því vélrænn - liðið hans vann næstum því alltaf, hann var meiri húmoristi og vænni drengur en flestir gerðu sér grein fyrir og líklega var hann líka betri leikmaður en flestir gerðu ráð fyrir.

Við hefðum kannski getað skrifað pistil í ætt við þetta, en þar sem við höfum alltaf horft á Tim Duncan út frá alveg sérstöku sjónarhorni, ákváðum við frekar að deila því með ykkur sem á annað borð nennið að lesa um hetjuna hæglátu. Nánar um það á eftir.



Fyrsti tendensinn sem vaknaði hjá okkur þegar fyrir lá að skrifa Duncan út, var að reyna að finna út hversu ofarlega hann á heima á lista bestu körfuboltamanna allra tíma. Þá hnussa mörg ykkar og segja að fólk eigi ekki að vera að flokka körfuboltamenn - það sé ekkert hægt að bera saman bakverði og miðherja og enn síður ef líða áratugir á milli þess sem þeir spila í deildinni.

Við skiljum að mörgum finnist svona uppröðun og listar asnalegir, en það eru margir sem hafa gaman af þessu og okkur þykir bara alveg nauðsynlegt að reyna að átta okkur á því hvar við eigum að setja Duncan eftir þennan stórkostlega feril sem hann átti í NBA.

Monday, July 11, 2016

Friday, March 18, 2016

Liðið í skugganum er líka að slá met - mörg met



Það fór ekki mikið fyrir sigri San Antonio á Portland í NBA deildinni okkar fallegu í gærkvöldi, en hann var svo sannarlega merkilegur. Sigur Spurs þýddi nefnilega að nú er San Antonio komið með "jákvætt" vinningshlutfall - yfir 50% - gegn ÖLLUM liðunum í NBA deildinni í sögulegu samhengi.

San Antonio varð hluti af NBA deildinni árið 1976 eftir að hafa heitið öllum illum nöfnum í ABA-deildinni sálugu, þar sem það hafði líka aðsetur hér og þar í Texas frá stofnun klúbbsins árið 1967. Það er dálítið skondið að félagið hafi verið stofnað árið 1976, því það er einmitt fæðingarár sigursælasta og besta leikmanns í sögu þess - Tim Duncan.

Duncan þessi verður fertugur í næsta mánuði og er búinn að bera liðið á herðum sér lengst af síðan San Antonio tók hann í nýliðavalinu árið 1997.

Það er auðvitað með ólíkindum að lítið félag eins og San Antonio - en ekki klúbbar eins og Lakers eða Celtics - skuli afreka það að vera með 50+ prósent vinningshlutfall gegn öllum hinum liðunum í deildinni.

Þetta ber fyrst og fremst vott um ótrúlega sigurhefð Gregg Popovich þjálfara, Tim Duncan og aukaleikara hans í gegn um árin, þar sem menn eins og Tony Parker og Manu Ginobili eru vitanlega efstir á blaði.

San Antonio er búið að fara hamförum í deildarkeppninni í vetur og er með 58 sigra og aðeins tíu töp, sem er árangur sem aðeins fimm lið í sögunni hafa státað af eftir 68 leiki.

Þessi frábæri árangur fellur gjörsamlega í skuggann af sögulegu gengi Golden State (61-6) í vetur, enda er Oakland-liðið að hóta því að slá met Chicago Bulls frá árinu 1996 yfir bestu deildarkeppni allra tíma, þegar Jordan og félagar unnu 72 leiki og töpuðu aðeins tíu.

Þetta eru ekki einu rósirnar í hnappagati Texas-klúbbsins. Liðið hefur þannig komist í úrslitakeppnina 19 ár í röð og er búið að vinna 50+ leiki 17 ár í röð, en svo er það líka taplaust á heimavelli í vetur - eins og Golden State.

Það er því hætt við því að eitthvað verði undan að láta á næstu vikum, því Spurs og Warriors eiga eftir að mætast þrisvar sinnum í viðbót áður en yfir lýkur.

Fyrsta viðureignin af þessum þremur fer fram í San Antonio núna á laugardagskvöldið (19. mars) og þar eiga Spursarar harma að hefna, því Warriors-liðið valtaði yfir það í fyrstu viðureign liðanna á árinu.

Það sem er svo allra sérstakast við rimmu Spurs og Warriors á laugardagskvöldið er að sjálfir meistararnir í Golden State hafa ekki unnið deildarleik í San Antonio síðan árið 1997 - ÁÐUR EN Tim Duncan gekk í raðir Spurs það ár. Sigur Warriors þetta ár kom þann 14. febrúar, þegar Stephen Curry var átta ára gamall. Þetta, er náttúrulega alveg eðlilegt.

San Antonio er búið að vinna 43 leiki í röð á heimavelli, sem er þriðja lengsta rispa síns eðlis í sögunni á eftir 44 leikjum Chicago leiktíðina 1995-96 og svo Golden State núna, sem er búið að vinna 50 heimaleiki í röð.

Chicago á metið yfir flesta heimasigra í röð í upphafi leiktíðar, en það var 37 í röð á áðurnefndu tímabili, en San Antonio er komið með 34 í röð í vetur og Golden State hefur unnið 32 fyrstu heimaleikina sína á leiktíðinni.

Engu liði hefur tekist að fara taplaust á heimavelli í gegn um heila leiktíð, þó Boston hafi verið nálægt því um miðjan níunda áratuginn, þegar það tapaði aðeins einu sinni á heimavelli eitt árið.

Þó langt sé í land og þessi ógnarsterku lið eigi mjög erfiða leiki eftir, þyrfti það sannarlega ekki að koma á óvart þó að minnsta kosti eitthvað af áðurnefndum metum ættu eftir að falla. Þessi vetur sem við erum að fá að fylgjast með núna, er einfaldlega það sérstakur.

Það þarf enga sérfræðinga í körfubolta til að sjá að þeir Tim Duncan, Manu Ginobili og Tony Parker eru allir farnir að hægja verulega á sér, enda komnir með ansi margar mílur á lappirnar á sér eftir að hafa spilað 100+ leiki með félagsliði sínu ár eftir ár - svo áratugum skiptir á ferlinum.

Svona óguðlegt álag bæði telur og tekur á skrokkinn. Spyrjið bara menn eins og Kobe Bryant.

En alltaf skulu þeir malla áfram þessir menn. Spurs-arar hafa fengið ljómandi fína hjálp í yngri stjörnuleikmönnum eins og Kawhi Leonard og LaMarcus Aldridge í vetur, en í okkar huga kemst liðið ekki nema ákveðið langt á þessum tveimur nýgræðingum í Spurs-vélinni.

Ef San Antonio á að komast í úrslitaeinvígið enn eitt árið, þarf það að hafa alla sína menn 100% heila og líklega að fá framlag frá mönnum sem eiga einfaldlega að vera orðnir of gamlir og lúnir til að veita það.

En við skulum gæta þess að afskrifa þessa snillinga, sem mynda eitt sigursælasta lið í sögu deildarkeppni NBA deildarinnar. Það gæti leynst eitthvað smá spúnk í þeim gömlu enn. Kannski einn sprettur enn (með Tim Duncan standandi í lappirnar).

Og eins og við segjum í hvert sinn sem þetta lið ber á góma: Ekki myndum við gráta það þó þetta lið tæki eina dollu til. Virðing okkar fyrir þessum klúbbi er nær takmarkalaus.

Hérna fyrir neðan getur þú svo skoðað þetta sem við sögðum ykkur frá í upphafi pistilsins: samantekt tölfræðideildar NBA punktur komm yfir árangur San Antonio gegn öllum hinum liðunum í NBA deildinni frá upphafi. Þetta er ekkert til að henda í ruslið, svo mikið er víst.


Friday, January 29, 2016

Tímamót


NBA Stjörnuleikurinn árið 2016 fer fram í Toronto á Valentínusardaginn, þann 14. nóvember næstkomandi. Þetta er vitanlega sunnudagur. Það sem er sérstakt við þennan leik og í rauninni merkilegast af öllu, er að það verður í fyrsta skipti síðan árið 1997 sem hvorki Tim Duncan né Dirk Nowitzki tekur þátt í Stjörnuleiknum í NBA.

Önnur gömul stjarna, Kobe Bryant, fékk að lafa inni í leiknum á lokaárinu sínu út á vinsældir sínar, því auðvitað hefur hann ekkert í leikinn að gera hvað spilamennskuna hans í vetur varðar.

Já, þetta eru sannarlega tímamót. Við sjáum engan þeirra í næsta Stjörnuleik. Svona verða kynslóðaskiptin í þessu eins og öðru. Við erum að fara að kveðja nokkrar af stærstu goðsögnum leiksins eftir eitthvað sem við mælum líklega í mánuðum en ekki árum.

Friday, December 18, 2015

Spurs er helsti keppinautur Warriors í vestrinu


NBA deildin er ekki komin í alveg eins mikið rugl og enska úrvalsdeildin - það er ekkert Leicester á toppnum í NBA - en hún er samt alls ekki að láta að stjórn í vetur. Hún er ekki að haga sér eins og við ætluðum henni, og það fer stundum dálítið í taugarnar á okkur eins og þið vitið kannski.

Það sem fer mest í taugarnar á okkur er að það eru allt of mörg lið í Vesturdeildinni að drulla dálítið á sig og um leið að láta Austurdeildina líta betur út. Og það fer sérstaklega mikið í taugarnar á okkur.

Úr því helmingur fólks er úti að kaupa jólagjafir og hinn að missa sig í einhverju nördarugli í kvikmyndahúsum, er því ekki úr vegi fyrir okkur að setjast niður og greina þessa undarlegu þróun aðeins. Til þess erum við jú - eitt stærsta hlutverk NBA Ísland er og hefur alltaf verið, að leiða ykkur í sannleikann um hvað NBA deildin er. Þetta er stór deild með fullt af liðum og fólk sem á sér vott af lífi hefur að sjálfssögðu engan tíma til að stúdera þetta allt saman. Þar komum við inn í þetta.


Eins og 99% ykkar vita, hefur nær allur fókus í umfjöllun um NBA deildina síðustu misseri verið á Vesturdeildinni, enda fær Cleveland bara enga samkeppni í austrinu. Þessi þróun hefur aðeins orðið sterkari í vetur, þar sem Cleveland er einfaldlega besta liðið í austrinu þrátt fyrir að vera meira og minna með lykilmenn í meiðslum.

Við erum ekki gáfaðari en það, að við héldum að eitthvað af liðunum í Austurdeildinni gætu að minnsta kosti veitt þessu vængbrotna Cleveland-liði smá samkeppni í deildarkeppninni, en það virðist ekki ætla að gerast. Um leið og Cleveland fær eitthvað af lykilmönnum sínum (almennilega) heila til baka, stingur liðið af í töflunni eystra og þá þurfum við ekkert að hafa áhyggjur af því meir.

Eitt og eitt lið í austrinu hefur ef til vill verið að vinna aðeins fleiri leiki en við reiknuðum með, en það er bara vegna þess að stærðfræðin segir okkur að þegar tvö lið í Austurdeildinni mætast - verður annað þeirra að vinna leikinn, sama hversu léleg þau eru bæði.

Ókei, ókei, þetta er kannski aðeins of grimmilega orðað, en í stóra samhenginu skiptir það ekki fjandans máli hvort eitthvað af liðunum í Austurdeildinni vinnur 35 leiki í stað 25 - það er ekki að fara að gera neitt í vor. Og hér ætlum við að skoða stóra samhengið - taka smá vörutalningu.



Kíkjum þá í Vesturdeildina.

Eins og einhver orðaði það á Twitter um daginn: "Guði sé lof fyrir lið eins og Golden State og San Antonio - annars myndi NBA deildin ekki meika sens lengur!"

Það er mikið til í þessu. Golden State og San Antonio eru nefnilega einu liðin í Vesturdeildinni sem eru að spila eins og þau hafa burði til - og meira að segja betur. Miklu betur, satt best að segja.

Við erum búin að skrifa Golden State svo fast ofan í kokið á ykkur í vetur að mörg ykkar hafa ekki lyst á meiru, en við höfum minna skrifað um San Antonio.

Það að Spurs hafi ekki fengið mikla umfjöllun er svo sem eðlilegt upp að vissu marki, því þetta lið er búið að vera meistaraefni nánast óslitið í tuttugu ár og þegar svo er, hættir mönnum við að fara að leita eitthvað annað eftir umfjöllunarefni.

Nú er hinsvegar svo komið að við verðum að fara að beina sjónum okkar að San Antonio aftur, því þar eru stórmerkilegir hlutir í gangi. 

Við viðurkennum fúslega að við höfum ekki horft mikið á Spurs spila í vetur, en á því fer að verða breyting. Gregg Popovich er nefnilega farinn að sýna töfrabrögð enn eina ferðina. 

Sunday, May 3, 2015

Clippers áfram - Spurs í frí


Ef við eigum að vera alveg hreinskilin, bjuggumst við ekki við þessu. Við áttum frekar von á því að þurfa að skrifa um það af hverju Clippers væri dottið snemma út úr úrslitakeppninni enn eitt árið. Spá í það hvernig dóma Chris Paul og restin af liðinu fengju ef þeir féllu úr í fyrstu umferð.

En annað kom á daginn. Það er Clippers sem varð í nótt síðasta liðið til að tryggja sér sæti í annari umferð úrslitakeppninnar með 111-109 sigri á San Antonio og setja þar með punktinn aftan við eina bestu seríu sem háð hefur verið í fyrstu umferð. Sumir segja þá bestu, t.d. Zach Lowe á Grantland.

Það var alveg í takt við annað í þessu einvígi að úrslitin skuli hafa ráðist einni sekúndu fyrir leikslok og við slík tækifæri verður ekki hjá því komist að finna hetjur og jafnvel skúrka. Látum það eiga sig að tala um skúrka og setjum fókusinn frekar á það jákvæða - á hetjuna Chris Paul.



Það var jú Chris Paul sem tryggði Clippers sigurinn með undrakörfu einni sekúndu fyrir leikslok, þrátt fyrir að vera haltrandi um á annari löppinni vegna meiðsla á aftanverðu læri. Hvernig drengurinn kom þessu skoti framhjá Tim Duncan er okkur hulin ráðgáta, hvað þá hvernig í ósköpunum hann fór að því að koma þvi ofan í körfuna.

Þetta einvígi er búið að vera lygilegt. Við vorum undir það búin að sjá Clippers detta út, því okkur fannst San Antonio stýra því lengst af, þó margir séu ósammála því.

Chris Paul (27 stig) var ekki á því að tapa þessu. Hann er búinn að fá nóg af því og ætlar sér lengra. Líka Blake Griffin, sem bauð upp á aðra þrennuna sína í einvíginu: 24/13/10. Þessir tveir eru í hópi allra bestu körfuboltamanna heims og það sem meira er, þeir eru búnir að sýna það í úrslitakeppninni.

Allt pískur um að Chris Paul skreppi eitthvað saman þegar spennan eykst í mikilvægum leikjum hefur væntanlega verið kæft með frammistöðu hans í síðustu tveimur leikjum.

Sá hefur andað léttar þegar ljóst var að þeir færu áfram, pressan á honum er alltaf að aukast. Raunar andaði hann svo mikið léttar að hann felldi tár.

Svona var mikið undir hjá honum og það bara kom ekkert til greina að tapa þessu. Þá er bara næsta mál á dagskrá, að vinna Houston Rockets og koma sér í úrslit Vesturdeildarinnar í fyrsta skipti á ferlinum.

Við bjuggumst ekki bara við sigri Spurs í þessu einvígi, við vorum satt best að segja að vona að Duncan og félagar færu áfram, því okkur fannst San Antonio líklegra til afreka í næstu umferðum. Þetta varð allt líklegra eftir að Chris Paul tognaði aftan á læri og var haltrandi út um allt.

Doc Rivers er strax búinn að gefa það út að Chris Paul verði sennilega ekki með í fyrsta leik Clippers í Houston í annari umferðinni. Sú rimma hefst strax á mánudagskvöldið og því er lítill tími fyrir Clippers að sleikja sárin og enn minni tími fyrir Paul að jafna sig.

Við vitum öll að svona aftanílærisvesen tekur alltaf nokkrar vikur og við vitum líka að Clippers - með alla sína ENGA breidd - á engan möguleika í framhaldinu án besta leikstjórnanda heims.

Hann er alfa og ómega í öllum aðgerðum liðsins, fyrir svo utan það að hann er eini hreinræktaði leikstjórnandinn í leikmannahópnum. Framkvæmdastjóra-Doc fær litlar þakkir frá þjálfara-Doc vegna þessa.

Þið vitið kannski að við höfum enga óbilandi trú á liði Houston og hefðum mjög líklega tippað á Clippers í þeirri rimmu.

Nú er hinsvegar ljóst að Chris Paul verður mjög takmarkaður á næstunni. Hann missir af fyrsta leiknum og kannski fleirum og okkur sýnist útséð með það að hann verði heill það sem eftir er af úrslitakeppninni.

Paul er nýjasta fórnarlamb meiðslabölvunarinnar í NBA. Hún verður ekki stöðvuð (Curry og Bogut hjá Warriors eru næstir). Eins og við erum búin að  segja sexhundruð sinnum áður: Þessi meiðsli hættu að vera fyndin fyrir jól, en núna er þetta bara orðið asnalegt. Þetta er langstærsti meiðslafaraldur sem riðið hefur yfir deildina á síðustu 30 ár og er bókstaflega að eyðileggja tímabilið.

En hvað verður nú um San Antonio?

Þeir voru alveg sorglega nálægt því að fara áfram, lærisveinarnir hans Pop, en þetta datt ekki með þeim að þessu sinni.

Og við vorum löngu búin að segja ykkur af hverju þetta er ekki ár Spurs. Þetta lið stoppar aldrei lengi við í úrslitakeppninni ef lykilmennirnir eru ekki heilir, það hefur sýnt sig aftur og aftur á undanförnum árum. Meiðsli Tiago Splitter og Tony Parker voru víst meira en liðið réði við.

Nú fara leikmenn San Antonio bara á Benidorm og chilla í smá tíma, en nokkrir þeirra þurfa líka að fara upp á kontór og skrifa undir nýja samninga við félagið.

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig það gengur, en forvitnilegast af þessu öllu er hvort þeir Tim Duncan og Manu Ginobili ætla yfir höfuð að halda áfram að spila körfubolta, 39 og 37 ára gamlir.

Þeir eru á ólíkum stað gömlu félagarnir. Ginobili (8 stig, 35% skotnýting gegn Clippers) virkaði frekar andlaus og mistækur í seríunni við Clippers, en Duncan var mjög traustur (18/11meðaltal og 59% skotnýting gegn Clippers). Það magnaða við Duncan er að hann er að skila mjög svipaðri tölfræði í deildarkeppninni í vetur og hann gerði fyrir tíu árum per 36 mínútur. Stórmeistari og galdramaður.

Af því Duncan spilaði svona vel í vetur, væri eiginlega synd ef hann gæfi bara skít í þetta og hætti. Hann er nefnilega betri en enginn. Sumum finnst kannski gert of mikið úr hæfileikum Duncan, en það er bull og vitleysa, hann er búinn að spila eins og engill í vetur og gerir hellings gagn ennþá. Þess vegna á hann ekkert að hætta. Taktu eitt tímabil í viðbót, gamli! Þú hefur bara gaman af því!

Friday, May 1, 2015

Oddaleikur í Englaborg um helgina


Þetta einvígi heldur bara áfram að gefa...

San Antonio og LA Clippers buðu upp á enn einn naglbítinn í nótt og aftur var boðið upp á skemmtilegt tvist, sem fáir áttu kannski von á að sjá. Clippers náði að vinna í San Antonio 102-96 og jafna metin í seríunni í 3-3. Við erum því að fara í oddaleik á miðnætti á laugardagskvöldið, sem verður talsvert stærri viðburður en Bardaginn sem hefði átt að fara fram fyrir sjö árum.

Eins og þessi sería hefur verið frábær, á það eftir að koma okkur þráðbeint í þunglyndi þegar annað þessara liða fellur úr keppni á laugardaginn. Það er af því við vitum upp á hár hvaða stefnu umræðan tekur varðandi tapliðið.

Ef San Antonio tapar, öskra menn ÞEEEEETT´ERBÚIÐ! - og byrja að skrifa minningargreinar um San Antonio í fjögurhundruðasta skipti, til þess eins að fá þær í andlitið árið 2021 þegar liðið vinnur næsta titil með 45 ára gamlan Tim Duncan í miðjunni.

Þessi skrif verða óhjákvæmilega blanda af nostalgíu og þunglyndi. Var þetta síðasti dansinn hjá Spurs? Hætta Duncan og Manu (og Pop)? Þið vitið, eintóm leiðindi, þannig séð.

Á  meðan San Antonio gæti svo sem alveg riðið inn í sólarlagið með alla sína titla og lokið keppni með sæld, er ekkert slíkt uppi á teningnum hjá Clippers.

Þar á bæ verður engin rómantík, bara aftökur og frussu-drull í allar áttir frá öllum mögulegum pennum, hvort sem þeir skrifa um körfubolta, hestaíþróttir eða hokkí. Eins vel og þeir eru búnir að spila, verða Chris Paul og Blake Griffin teknir af lífi til skiptis. Þeir verða svona eins og vankaða sæljónið sem háhyrningarnir nota sem tennisbolta í tíu mínútur áður en þeir éta það lifandi.

Það verður ekki vottur af sanngirni í því frekar en öðru á Twitter-öldinni, þar sem ekkert kemst að nema skyndiaftökur, alhæfingar og gífuryrði - þú ert annað hvort Michael Jordan eða mesti aumingi í heimi.

Sko...

Það getur vel verið að Clippers hafi einhvern tímann átt skilið smá drull, við gagnrýndum liðið t.d. nokkuð harðlega í fyrra ef við munum rétt. En fari svo að liðið tapi á laugardaginn (fyrir meisturunum), er ekki sanngjart að ætla að taka fram sveðjuna og byrja að höggva leikmennina niður.

Jú, jú, það getur vel verið að Clippers sé með versta bekk síðan... ever... og það getur vel verið að menn eins og Jamal Crawford séu mestmegnis búnir að drulla á sig í seríunni og vissulega getur verið að DeAndre Jordan sé með skarð á stærð við Þistilfjörð í leik sínum þegar hann getur ekki drullast til að hitta úr öðru hverju vítaskoti sem hann tekur.

En munurinn á Clippers núna og undanfarin ár hjá okkur, er að liðið var miklu þéttara í ár en fyrri ár. Það er betra varnarlega og stjörnurnar hafa verið að spila af sér anusana.

Chris Paul hefur oftast leikið mjög vel í úrslitakeppninni en það er alltaf eitthvað sem kemur í veg fyrir að hann fari áfram í keppninni.

Í fyrra átti hann sjálfur þátt í skitu Clippers, en að þessu sinni er ekkert svoleiðis í boði. Gaurinn er búinn að vera í lás í allt vor og klórar úr þér augun og hoppar ofan á þeim í takkaskóm ef þú ætlar að standa í vegi fyrir honum.

Helsta ástæðan fyrir auknum styrk Clippers er svo ungstirnið Blake Griffin, sem hefur farið hamförum á móti Spurs.

Hann bauð upp á smá prump í 4. leikhluta í fimmta leiknum, en þið megið ekki gleyma því að hann er kraftframherji en ekki bakvörður.

Hann getur ekki bara tekið boltann og gert hvað sem hann vill við hann, þó hann geri það stundum í hraðaupphlaupum. Það hefði einhver mátt reyna að segja okkur að Griffin ætti eftir að bjóða upp á 24 stig, 13 fráköst, 7 stoðsendingar, 2 stolna bolta og 2 varin skot að meðaltali í leik í fyrstu sex leikjunum við Spurs. Og gaurinn er með flensu...

Við vitum að mörg ykkar þola manninn ekki og hafið eflaust góðar og gildar ástæður fyrir því, en mikið fjandi er hann orðinn góður í körfubolta. Því er ekki hægt að neita.

Stóra fréttin við leik sex hjá Spurs var að gömlu góðu stjörnurnar hjá liðinu voru bara farþegar í þessum leik. Þeir gerðu nánast ekki neitt og létu þess í stað menn eins og Marco Belinelli og Boris Diaw bara sjá um þetta fyrir sig. Og það var næstum því nóg. En samt ekki.


Við vitum alveg að Parker og Splitter eru ekki heilir, en hversu góða möguleika haldið þið að Spurs eigi í sjöunda leiknum ef Tim Duncan, Manu Ginobili og Tony Parker skora ekki meira en 23 stig á milli sín. Nú eða að Duncan, Ginobili, Parker og Leonard (3 af 15 fg) verði ekki með nema 35 stig samtals. Það er mjög góð breidd í liði Spurs, en ef fernan þeirra frækna spilar ekki betur en þetta, er einvígið búið.

Okkur gæti faktískt ekki verið meira sama um hvernig þetta einvígi fer, við viljum bara fá áframhaldandi gæði í einn leik í viðbót.

Sigurvegarans bíður svo deit við Houston, sem hefur verið að spila ofar væntingum má segja, en sú sería byrjar strax á mánudaginn.
Það verður ekki létt dæmi fyrir eldgamla Spurs-ara eða Clippers með enga breidd (ekki eykst hún í fjarveru Tröllabarnsins sem fékk meiddi í kvöld eins og allir hinir).

Við segjum bara hallalúja yfir þessu einvígi. Þetta er botnlaust festival og flottheit og sama hvernig serían fer, eiga bæði lið skilið tröllakúdós fyrir frábæra rimmu. Sjáumst á laugardagskvöldið!

Thursday, April 23, 2015

Kawhi Leonard er ekki varnarmaður ársins


Við óskum Kawhi Leonard til hamingju með að hafa verið kjörinn Varnarmaður ársins í NBA deildinni í dag. Það hefur ekki borið rosalega mikið á Kawhi í vetur, nema kannski aðeins síðustu vikurnar. Kannski var það þess vegna sem hann náði kjöri - hann var kjósendum í fersku minni þegar gengið var í kjörklefana.

Ekki misskilja, við erum óhemju hrifin af Leonard og öllu hans framlagi hjá San Antonio. Hann er hinsvegar ekki varnarmaður ársins í okkar bókum. Það böggar okkur dálítið að hann skuli fá þessa nafnbót þrátt fyrir að hafa misst úr 20 leiki í vetur.

Draymond Green hjá Golden State er ekki jafn öflugur varnarmaður og Leonard - og kannski er enginn í heiminum betri en hann úti á velli - en Green missti aðeins úr þrjá leiki með Warriors í vetur og dekkaði allt frá bakvörðum til miðherja.

Andrew Bogut er akkerið í vörn Golden State (sem nota bene var besta vörnin í NBA deildinni í vetur), en Green er langfjölhæfasti varnarmaður liðsins og er einmitt að sýna það þessa dagana, þar sem hann er að standa sig eins vel eins og mannlegur máttur leyfir í að dekka Anthony Davis hjá New Orleans.

Nei, það er Draymond sem er varnarmaður ársins hjá NBA Ísland, með fullri virðingu fyrir Kawhi Leonard. Kawhi var auðvitað góður í vetur og það var DeAndre Jordan líka, þó hann sé ekki eins góður og þjálfarinn hans vill meina.

Það var gaman að sjá Rudy Gobert koma inn á listann og hann hefði líklega endaði í verðlaunasæti ef hann hefði fengið byrjunarliðssæti sitt fyrr en á miðri leiktíð. Hann verður á topp fimm í þessu kjöri næstu tíu árin ef heilsa leyfir.

Við sjáum að Tim Duncan er líka að fá smá ást í kjörinu, en samt ekki nógu mikla. Það gleymist oft hvað helvítis karlinn er magnaður varnarmaður. Það er kaldhæðnislegt að San Antonio hafi átt þrjá varnarmenn ársins á síðustu c.a. 30 árum en enginn þeirra heiti Tim Duncan.


Lifi Tim Duncan


Eins og getið var um í síðustu færslu, fór Tim gamli Duncan mikinn í sigri San Antonio á LA Clippers í nótt sem leið. Duncan hefur í sjálfu sér aldrei verið mikill skorari þannig séð, en vélræn staðfesta hans og samkvæmni tryggja að hann er nú kominn í hóp góðra manna í sögubókum.


















Þetta stutta myndbrot hérna fyrir neðan sýnir okkur glöggt hvað er enn mikill töggur í Duncan, sem verður 39 ára eftir nokkrar vikur. Þarna sjáið þið hann etja kappi við tvo af sprækari risum yngri kynslóðarinnar, þá Blake Griffin og DeAndre Jordan hjá LA Clippers.

Þrítugsaldurinn er tími ríkidæmis og stórra samninga, fertugsaldurinn er tími hæfileikanna. Eitthvað slíkt var haft eftir Duncan eftir frábæra frammistöðu hans í nótt. Við þreytumst ekki á því að horfa á þennan snilling gera það sem hann gerir betur en nokkur körfuboltamaður í sögunni.

Þeir Duncan og Blake Griffin eru gjörólíkir leikmenn, en Griffin ber óblandaða virðingu fyrir gamla manninum og er eflaust byrjaður að stela hreyfingum frá honum. Enda væri galið að gera það ekki.

Tuesday, October 28, 2014

Brátt kemur Brúnar


Þetta er alveg frábær mynd. Meiri grísinn í ljósmyndaranum að ná henni. Hefur alveg örugglega verið óvart. Ef þú áttar þig ekki á samhenginu, er Anthony Davis í forgrunni og hálf skelkaður Tim Duncan bakatil.
































Einn besti framherji/miðherji í sögu NBA deildarinnar, sem er á síðustu metrunum á ferlinum, fylgist með efnilegasta stóra manninum í dag. Manninum sem góðar líkur eru á að verði besti körfuboltamaður í heimi ef hann heldur heilsu.

Já, hann er alveg svona efnilegur hann Brúnar vinur okkar. Það verður alveg ógeðslega gaman að fylgjast með honum í vetur.


Sunday, October 12, 2014

Hrakfarir Spurs á Íslandi


Eins og allir vita er Ísland merkilegasta og besta land í heimi. Þess vegna var kominn tími til að besta körfuboltalið í heimi kæmi hingað, þó ekki væri nema í mýflugumynd.

Einn af fréttariturum NBA Ísland á Suðurnesjum var svo heppinn að hitta allt Spurs-klanið þegar það millilenti í Keflavík á leið sinni heim frá Tyrklandi. Þarna voru allir leikmennirnir, þjálfarateymið, aðstoðarfólk, klappstýrur og kok (konur og kærustur).

Það sorglega við þetta stopp Spurs-manna var að þeir eiga eflaust eftir að gretta sig þegar þeir heyra aftur minnst á Ísland, því í þá klukkutíma sem þeir þurftu að stoppa, fengu þeir hvorki vott né þurrt. Allt var lokað ekkert í boði. Ekki beint góð landkynning. Hér áður fengu menn frá NBA lopapeysur, sjúss og reiðtúr eins og allir merkilegir menn eiga að sjálfssögðu að fá þegar þeir koma til landsins.

Nei, við skulum því bara þakka fyrir að Tim Duncan skuli hafa nennt að skrifa þessar þrjár eiginhandaráritanir sem hann var beðinn um (ein þeirra á myndinni hérna fyrir ofan). Þú biður svona stórmeistara ekki um að sitja fyrir á bolamynd ef hann hefur hvorki fengið vott né þurrt - það væri bara frekja.

Annars var lítið hægt að kreista bitastætt upp úr hinum heppna útsendara okkar varðandi San Antonio liðið. Hann játti því að kærastan hans Tim Duncan væri, jú, svo sannarlega hugguleg - og bætti við að klappstýrur Spurs væru líka... ansi vingjarnlegar. Fleira var það nú ekki.

Saturday, October 11, 2014

Monday, June 16, 2014

Fimmti titillinn í hús hjá San Antonio Spurs


Já, þeir kláruðu dæmið gömlu refirnir. Auðvitað gerðu þeir það. Miami beit ekki frá sér nema í um það bil einn fjórðung og náði reyndar 16 stiga forskoti, en um leið og San Antonio náði að stilla spennustigið af og fór að spila af eðlilegri getu, var eftirleikurinn alveg jafn auðveldur og hann var í síðustu tveimur leikjum.

San Antonio er NBA meistari í fimmta skipti í sögu félagisns eftir öruggan 104-87 sigur á Miami Heat í Texas í nótt. Miami náði að klóra fram einn sigur í einvíginu, en San Antonio vann hina fjóra - alla með fimmtán stiga mun eða meira. Liðið setti fullt af metum í leiðinni, meðal annars yfir skotnýtingu í lokaúrslitaeinvígi og heildar stigamun.

Við höfum í sjálfu sér ekkert rosalega mikið að segja um þetta annað en að óska stuðningsmönnum Spurs á Íslandi til hamingju með titilinn.

Aðeins fyrsti titillinn í sögu félagsins (´99) á séns í að vera svipað sætur og þessi fyrir Spurs, en Tim Duncan sagði reyndar að þessi nýjasti væri sá sætasti af þeim öllum og þið vitið auðvitað að Tim Duncan segir aldrei ósatt.

Við sögðum flest það sem við höfðum að segja um Spurs í sexhundruð síðna og fimmtíu læka pistlinum í gær og litlu við það að bæta svo sem. Nú væri ráð að doka aðeins við og leyfa þessum tíðindum að taka sig áður en við pælum í framhaldinu.

Þú þekkir okkur illa ef þú heldur að við ætlum að sleppa því að dásama Spurs aðeins meira og drulla í leiðinni aðeins meira yfir Miami.

Sko, það er allt í lagi að Miami hafi tapað þessu einvígi - liðið var búið að fara í lokaúrslitin fjögur fjandans ár í röð og það er mjög vel gert.

Þó leið Miami í gegn um austrið hafi kannski ekki alltaf verið þyrnum stráð, verðum við að gefa LeBron og félögum það að þeir hafa alltaf veitt fulltrúum vestursins verðuga og öfluga keppni um titilinn.

Þangað til núna.

Hrakspár manna eins og Steve Kerr stóðu eins og stafur á bók. Lið sem fer svona djúpt í úrslitakeppninni fjögur ár í röð verður óhjákvæmilega orðið ansi lúið. Og bættu við það þeirri staðreynd að breiddin hjá Miami hefur oft verið það lítil að stjörnurnar - lykilmenn liðsins - hafa oftast þurft að spila óguðlega margar mínútur.

Þeir voru bara bensínlausir í þessu einvígi, leikmenn Miami. Þeir áttu séns þangað til skömmu eftir að flautað var til leiks í þriðja leiknum í einvíginu, en eftir það tók San Antonio þá á lærið, reif niður um þá og kaghýddi á þeim anusinn þar til fossblæddi úr öllu saman.

Við eigum enn eftir að mynda okkur skoðun á þessu. Eins og áður sagði, verða menn alltaf að leyfa rykinu að setjast aðeins eftir lokaleik vetrarins og hugleiða í smá stund áður en þeir byrja að skrifa um framhaldið hjá klúbbunum sem komust í úrslit. Þetta eru stundum ansi ólíkar pælingar eftir því hvort liðið á í hlut, jafnvel þó rimman hafi verið hnífjöfn eins og hún var í fyrra.

Án þess að fara dýpra í þessa hluti í bili, er ljóst að Miami þarf að gera einhverjar smá breytingar hjá sér ef það ætlar að vinna fleiri meistaratitla - sérstaklega ef meintar stórstjörnur eins og Dwyane Wade og Chris Bosh ákveða að eyða júnímánuði í að klóra sér í anusnum frekar en að spila heimsklassa körfubolta eins og í ár.

Við höfum miklu minni áhyggjur af meisturunum í San Antonio. Djöfull er skrítið að skrifa og segja aftur "meistarar San Antonio."

Það er bara eitthvað svo eðlilegt og það er engin ástæða til að ætla annað en að þeir verði þarna á sama stað að ári - alveg grínlaust.

Félagið þarf að ganga frá samningi við Tim Duncan og gott ef ekki Boris Diaw í leiðinni (kannski Patty Mills) og þá er það good to go eins og við segjum.

Eins og þið vitið er lið Spurs búið að vera allra liða duglegast við að láta alla ritstórnina á NBA Ísland líta út eins og slefandi fávita hvað eftir annað með því að rísa upp frá dauðum ár eftir ár. Þessi meistaratitill núna er svo algjörlega rúsínan í þeim afturenda. Við erum fífl og höfum ekkert vit á körfubolta, en þið hafið nú öll áttað ykkur á því fyrir mörgum árum síðan.

Já, hugsið ykkur, pungurinn hann Tim Duncan er bara búinn að vinna fimm meistaratitla! Það er eins og ein dolla á hverja háskólagráðu hjá Georg Bjarnfreðarsyni ef þú ert að telja og jafn margir titlar og Kobe Bryant hefur í sínu safni.

Duncan og Bryant eru enda sigursælustu stjörnur NBA deildarinnar á öldinni en næstu menn eru menn eins og Shaquille O´Neal (4) og Dwyane Wade með þrjár dollur. Það er talsverður munur.

Þá er körfuboltavertíðinni formlega lokið hvað spilamennsku varðar, en það er náttúrulega alltaf eitthvað að gerast í NBA og nú eru t.d. ekki nema um tíu dagar í nýliðavalið 2014.

Þið skulið ekki láta ykkur detta það í hug að við ætlum að leggja árar í bát hér á ritstjórninni þó boltinn sé hættur að skoppa í bili. Ekki aldeilis.

Við eigum eftir að gera nýafstaðna leiktíð upp í ræðu (hlaðvarpi) og riti og glíma við margvísleg verkefni sem okkur dettur í hug að taka upp. Það er sem sagt enginn að kveðja hér, þó búið sé að lyfta bikar í NBA deildinni.

Svona af því það er orðið mjög langt síðan síðast, langar okkur nú að að vekja aftur athygli á því að þau ykkar sem eruð ánægð með skrifin og hlaðvarpið í vetur, eigið möguleika á að styðja við bakið á ritstjórn NBA Ísland með frjálsum fjárframlögum ef þið eigið kost á því.

Síðast þegar við vældum í ykkur um stuðning, náðum við inn ágætis framlögum sem dugðu fyrir kaffi og klósettpappír. Þetta gerði bláfátæka ritstjórnina alveg óskaplega hamingjusama.

Það eina sem þú þarft að gera ef þú vilt láta gott af þér leiða, er að smella á gula hnappinn á hægri spássíu síðunnar sem á stendur "Þitt Framlag."

Þaðan er þér vippað í samband við paypal-þjónustuna og þar getur þú valið að styrkja NBA Ísland um upphæð sem hentar þér.

Ef einhver ykkar hafa hug á að koma til móts við okkur en ráðið ekki við paypal-batteríið, getið prófað að hafa samband við okkur á nbaisland@gmail.com og finna farsæla lausn á málinu.

Okkur þætti afar vænt um ef einhver ykkar væru aflögufær og langaði að bakka okkur upp. Svo er það nú auðvitað þannig að það er opið fyrir það ef einhver fyrirtæki þarna úti hafa hug á að fara í auglýsingasamvinnu við okkur. Þá er bara að senda póst á nbaisland@gmail.com.

Að lokum er svo rétt að þakka þeim ykkar sem hafa verið svo hugguleg að senda okkur fallega tölvupósta. Það þarf ekki að taka það fram að við á ritstjórninni verðum ekki bara hamingjusöm við að sjá peninga, við höfum líka óstjórnlega gaman af því þegar fólk segir fallega hluti um okkur.

Því skulið þið ekki hika við að hafa samband ef ykkur liggur eitthvað á hjarta, hvað sem það nú er.

Leikurinn er fallegur og lífið eftir því.

Ristjórn NBA Ísland


Duncan þokast upp dollulistann



Sunday, June 15, 2014

NBA Ísland reynir að útskýra velgengni Spurs


San Antonio er hársbreidd frá því að lengja afrekaskrá sína enn frekar. Það er ekki of djúpt í árina tekið þó við segjum að nánast allt við þessa leiktíð hjá félaginu er með hreinum ólíkindum.

Ef Spurs tekst að vinna fimmta titilinn í sögu félagsins á næstu dögum, skrifast nýr kafli í velgengniannála félags sem er búið að gleyma því hvernig tilfinning það er að komast ekki í úrslitakeppni - kann varla að tapa.

Það eina sem okkur dettur í hug til að bera saman við þetta velmegunartímabil hjá Spurs er sigurganga Sir Alex Ferguson hjá Manchester United og svo mulningsvél Boston Celtics á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

Thursday, May 22, 2014

Enn eitt metið hjá San Antonio
































Tim Duncan, Tony Parker og Manu Ginobili urðu í nótt sigursælasta tríó í sögu úrslitakeppninnar þegar þeir unnu sinn 111. sigur saman á því sviði. Þetta eru engir pappakassar sem þeir voru að setja á bak við sig - Lakers goðsagnirnar Magic, Kareem og Cooper. Langt er síðan þeir slógu Celtics-þrennunni Bird, Parish og McHale við.

Það getur vel verið að þú viljir ekki heyra það, en það eru bara ekki mörg lið í sögu NBA deildarinnar sem slá þessu Spurs-liði við.

Þett´er náttúrulega bara rugl.

Tríóið okkar - og raunar liðið allt - er hvað eftir annað að slá met í velgengni bæði í deildakeppni og úrslitakeppni. San Antonio-liðið hans Tim Duncan er sannarlega einstakt lið.

Eitt allra besta körfuboltalið allra tíma.

Öllum er að vísu skítsama, en þetta er staðreynd engu að síður.

Vittu til, þú átt eftir að finna léttan straum af fortíðarþrá leika um þig þegar þú montar þig af því við barnabörnin að þú hafir fylgst ítarlega með Spurs allar götur frá því Tim Duncan kom til sögunnar og þangað til hann og félagar hans Parker og Ginobili lögðu skó sína á hilluna árið 2087.

Við viðurkennum það að þetta lið hefur oft farið í taugarnar á okkur. Svona eins og gamall, strangur og afturhaldssamur kennari með allt á hornum sér. Stundum finnst þér hann fyrirsjáanlegur og stundum fer hann í allar þínar fínustu.

En þegar þú hugsar til hans eftir 25 ár, áttu eflaust eftir að minnast hans með hlýju.

Hann kunni þetta nú allt saman, helvískur!