Sunday, June 15, 2014

NBA Ísland reynir að útskýra velgengni Spurs


San Antonio er hársbreidd frá því að lengja afrekaskrá sína enn frekar. Það er ekki of djúpt í árina tekið þó við segjum að nánast allt við þessa leiktíð hjá félaginu er með hreinum ólíkindum.

Ef Spurs tekst að vinna fimmta titilinn í sögu félagsins á næstu dögum, skrifast nýr kafli í velgengniannála félags sem er búið að gleyma því hvernig tilfinning það er að komast ekki í úrslitakeppni - kann varla að tapa.

Það eina sem okkur dettur í hug til að bera saman við þetta velmegunartímabil hjá Spurs er sigurganga Sir Alex Ferguson hjá Manchester United og svo mulningsvél Boston Celtics á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.


Nei, þetta Spurs-lið hefur aldrei unnið tvö ár í röð, það hefur ekki unnið 1800 meistaratitla eins og Ferguson og það var aldrei nálægt því að vinna neina átta meistaratitla í röð eins og gullaldarlið Celtics á árunum 1959-´66.

Það er hinsvegar algjört einsdæmi í nútímakörfubolta - og hvaða körfubolta sem er, fjandakornið - að sama liðið sé á eða við toppinn í hátt í tvo áratugi og það með sama þjálfara og sama lykilleikmanninn.

En þannig hefur það nú samt verið hjá San Antonio alveg síðan Tim Duncan byrjaði að spila með liðinu haustið 1997.

Þú veist, þegar Michael Jordan var ennþá besti körfuboltamaður í heimi.

Við gerum okkur fulla grein fyrir því að við höfum skrifað einhverjar áttahundruð lofgreinar um San Antonio, en við höfum líka skrifað liðið út af sakramentinu oftar en einu sinni og það lýsir því kannski best hvað sigurganga liðsins er búin að vera lygileg.

San Antonio vann meistaratitilinn síðasti árið 2007 eins og þið munið og þegar farið er að pæla í því, er alveg hrottalega langt síðan.

Þá voru allir að grilla, græða og taka gengislán á Íslandi. Þeir eru reyndar að því ennþá, en þið munið að væbið hér á landi var talsvert annað þá en það er í dag.

Og þá var líka NBA landslagið allt öðruvísi en það er í dag. Shaquille O´Neal var nýbúinn að vinna titil með Dwyane Wade í Miami og menn eins og Dirk, Nash og Kobe voru aðalspaðarnir í NBA og strákar eins og Kevin Durant voru 19 ára gamlir nýliðar í deildinni.

Fyrstu meistaratitlar San Antonio, sérstaklega árin 1999 og 2003 (kannski 2005 líka), unnust ekki síst á frábærum varnarleik og yfirburðum Tim Duncan í teignum á báðum endum vallarins.

Það voru ekki nema allra hörðustu pjúristar sem hrifust af leik Spurs á þessum árum og þó það sé auðvitað einföldun að lýsa leikaðferð Spurs og styrkleikum með þessum hætti, er það ekki langt frá sannleikanum.

En hvað gerðist svo eftir að liðið vann meistaratitilinn árið 2007, af hverju hefur liðið ekki unnið síðan og af hverju í ósköpunum er það búið að láta alla spámenn líta út eins og hálfvita síðustu tvö ár með því að vera betra en nokkru sinni fyrr?

Árið 2008 fór alveg eftir bókinni hjá Spurs, þar sem liðið fór alla leið í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar, en lá þar fyrir Los Angeles Lakers sem var fulltrúi vestursins í lokaúrslitunum það árið (og tapaði fyrir Boston). En strax eftir þetta tók heldur að halla undan fæti hjá Texasundrinu okkar.

Reyndar hitti það nú oftast þannig á á þessum árum að þegar í úrslitakeppnina var komið, voru alltaf einhverjir af lykilmönnum Spurs að glíma við meiðsli og því varð lítið úr áformum liðsins þar þrátt fyrir fína deildakeppni.

Oftast voru þetta Tim Duncan og Manu Ginobili sem voru að glíma við meiðslin og þeir tveir eru bara menn sem verða að vera heilir til að San Antonio eigi að hafa einhverja möguleika í úrslitakeppninni.

Þannig var það í úrslitakeppninni árið 2009, þá ruslaði Dallas þeim út 4-1 í fyrstu umferð þar sem Duncan var á felgunni. Árið eftir fór liðið í aðra umferð en lét Phoenix svo gjörsamlega drulla yfir sig 4-0.

Árið 2011 var San Antonio síðan svo óheppið að mæta eina liðinu sem það átti ekki möguleika í í fyrstu umferðinni og tapaði þar 4-2 fyrir Memphis Grizzlies með sína tröllvöxnu framlínu.

Þegar þarna var komið við sögu, vorum við löngu farin að segja að þetta væri komið gott hjá Spurs. Við hugsuðum það þegar liðið féll úr keppni árið 2008 og við héldum því hátt og snjallt fram að þetta væri búið hjá þeim eftir Phoenix-sópið árið 2010.

Þegar Spurs tapaði svo fyrir Memphis í fyrstu umferðinni 2011, var þetta bara orðið dálítið kjánalegt. Þetta var eins og að sjá kúreka lemja svipunni hvað eftir annað í síðuna á höltum hesti. Það var kominn tími til að fara af baki og lóga dýrinu - þetta var orðið átakanlegt.

Þið vitið að okkur finnst gaman að gefa út yfirlýsingar og grípa til gífuryrða hérna á ritstjórninni, en við vorum hreint ekki ein um að gera það þegar San Antonio hesturinn var orðinn haltur þarna um árið. Flestir pennar sem á annað borð hafa einhvern pung, voru búnir að skrifa sína útgáfu af "þett´er búið" fyrir San Antonio.

Við höfum nú oftast nálgast San Antonio af mikilli virðingu hér á NBA Ísland, en við gátum auðvitað ekki stillt okkur um að skrifa liðið út þegar þarna var komið við sögu. Við skrifuðum fleiri en einn pistil um þessi mál, en þar sem við tókum dýpst í árina sögðum við eitthvað á þá leið að tími San Antonio sem titiláskoranda með þennan mannskap væri á enda runninn - það væri nokkuð víst.

Við sögðum sem sagt allt nema að þið mættuð flengja okkur og kalla okkur Súsí ef San Antonio ætti afturkvæmt í titilslaginn á ný. Þið munið því kannski hvað okkur létti í fyrra þegar San Antonio tapaði fyrir Miami í úrslitunum. Það munaði kannski ekki nema veiðihári að Spurs yrði meistari, en það kláraði ekki og því gátum við enn haldið andlitinu eftir að hafa skrifað liðið út á árunum 2010-11.

Flestir þekkja nú söguna af því hvað gerðist hjá Spurs, við höfum sagt ykkur þessa sögu áður. Það var Gregg Popovich þjálfari sem á líklega megnið af heiðrinum á bak við það að koma liðinu á toppinn á ný, þó fleira komi vissulega til.

Það var Popovich sem ákvað (sérstaklega eftir Phoenix-sópið) að nú væri kominn tími til að breyta til - breyta um leikaðferð.

San Antonio var ekki lengur með mannskap til að spila eins og liðið hafði gert þegar það vann fyrstu titlana og munaði þar auðvitað mest um að Tim Duncan var kominn á þann aldur að hann gat ekki tortímt öllu á báðum endum vallarins eins og áður.

Nei, í stað þess að verjast, gretta sig, grýta og grænda eins og áður, var nú kominn tími til að leggja áherslu á sóknarleikinn.

Sóknarleikur Spurs var satt best að segja engin geimvísindi hér á árum áður, en nú átti það að breytast. Og sú varð heldur betur raunin. Þessi hugarfarsbreyting hjá liðinu hefur nú verið að bruggast í nokkur ár og niðurstaðan er þessi sinfónía sem þið hafið orðið vitni að undanfarna daga - þetta tortímingartól sem Spurs hefur notað til að drulla yfir og niðurlægja tvöfalda meistara Miami Heat.

Arsenal spilaði hrútleiðinlega varnarknattspyrnu hér á árum áður, síðast í stjórnartíð George Graham allar götur fram á tíunda áratuginn. Þetta breyttist sannarlega með tilkomu Arsene Wenger og manna eins og Thierry Henry og Dennis Bergkamp.

Þýska knattspyrnulandsliðið var með svipað orð á sér á ofanverðri 20. öldinni. Þýska stálið hötuðu allir eins og pestina nema Þjóðverjarnir sjálfir og einstaka sérvitringar eins og Lárus Guðmundsson.

Það var svo ekki fyrr en undir stjórn Jurgen Klinsmann og síðar Jóakims Ljónshjarta að menn áttuðu sig á því að gamla, harða, kalda, leiðinlega þýska stálið, var einfaldlega orðið eitt skemmtilegasta - ef ekki skemmtilegasta - knattspyrnulandslið heimsins á að horfa.

Svona var þetta með San Antonio líka. Það eru ekki nema 2-3 hræður eftir á jörðinni (ein í Afganistan, önnur í Úganda og talið er að sú þriðja sé í felum í Færeyjum) sem halda enn ófullar að San Antonio spili leiðinlegan körfubolta.

Þetta er einn algengasti misskilningur í vestrænu samfélagi en eins og við sögðum, er hann óðum að deyja út nú þegar fólk er farið að skiptast á youtube-myndböndum á Facebook sem sýna ofbeldisfulla fagurfræði Spurs í sóknarleiknum.

En hér með er ekki öll sagan sögð.

Þegar við fórum að pæla í því hvernig í andskotanum við ættum að snúa okkur út úr því að hafa skrifað San Antonio út en þurfa nú væntanlega að éta það ofan í okkur þegar Tim Duncan tekur við fimmtu dollunni sinni á ferlinum í vikunni, mundum við allt í einu eftir öðru atriði sem mögulega gæti skorið okkur niður úr snörunni.

Við settum þann fyrirvara á yfirlýsingar okkar að San Antonio ætti aldrei eftir að keppa um annan titil MEÐ ÞENNAN MANNSKAP, munið þið.

Og þar komum við að hinu atriðinu sem hefur orðið þess valdandi að dauði hesturinn árið 2010 er nú risinn upp frá dauðum og kominn á stökkið á ný. Fyrst var um að þakka (algjörlega) breyttu leikskipulagi, já, en það var ekki allt.            

Þú mátt ekki gleyma mannskapnum!

Þegar við sögðum "með þennan mannskap" vorum við auðvitað að vísa í Duncan, Ginobili og Parker (þó Parker sé enn á besta aldri). Það gat bara ekki verið að menn sem væru búnir að líta út eins og gamlir, meiddir og slitnir ár eftir ár eftir ár, færu allt í einu að drekka úr æskubrunninum og yrðu allt í einu miklu betri í körfubolta!

Jú.

Sérstaklega á þetta við Duncan. Og þið getið ekkert "bleimað" okkur fyrir að klikka á þessu. Hversu oft gerist það að menn sem eru komnir undir fertugt, spóli allt í einu mörg ár aftur í tímann og verði betri?

Það kemur einstaka sinnum fyrir að menn nái einu svona ári, en ALDREI fleirum. Aldrei.

Ekki fyrr en núna.

Duncan hefur ekki bara létt sig og komið sér í besta form ævi sinnar, heldur hefur hann haldist heill og haldið áfram að skila gott ef ekki betri tölum per 48 mínútur en á fyrri árum.

Manu Ginobili hefur tekið alveg sömu risatökk og Duncan í þessu, en hann hefur verið heppnari með meiðsli undanfarin tvö ár en í mörg ár þar á undan.

Það kaldhæðnislega er að ef einhver hefur verið meiddur, hefur það einna helst verið unglambið Tony Parker. Hann var aldrei heill í úrslitunum í fyrra, en hefur verið þokkalega heill í ár þó allt mögulegt hafi verið að honum áður en í úrslitaleikina kom um daginn.

En það er ekki bara þetta sem gerir það að verkum að San Antonio er að láta okkur líta út eins og fífl. Síðasti og ef til vill stærsti faktórinn á bak við það að Spurs er punghári frá titlinum í ár, er að liðið er einfaldlega með miklu, miklu, miklu betra lið en undanfarin ár. Betra LIÐ, með stóru L-i. Leikmenn Spurs leika ekki bara betur saman, heldur hefur mönnum sem kunna körfubolta í hópnum fjölgað mjög skemmtilega.

Það er fyndið að hugsa til þess, en við vorum svo önnum kafin við að leita að stað til að fela okkur ef Spurs yrði meistari, að við gleymdum þessari staðreynd. San Antonio er bara með miklu betri mannskap núna en áður. Þess vegna er liðið að verða meistari og þess vegna er það búið að vera pund fyrir pund besta lið NBA deildarinnar síðustu tvö ár.

Döh! Þetta var ekki flókið!

Eða langar þig kannski frekar að vera með þessa aukaleikaraheldur en þessa?Einmitt.

Þannig er þetta bara krakkar. Gregg Popovich er vissulega búinn að þjálfa af sér anusinn í vor og sumar og þremenningarnir Duncan, Parker og Manu hafa allir spilað eins og englar á sinn hátt, en öfugt við undanfarin ár, hafa þeir fengið hjálp.

Þeir voru nógu ungir, ferskir og flottir til að klára titilinn sjálfir árið 2007, en síðan þá, hafa þeir þurft á hjálp að halda við að komast djúpt inn í úrslitakeppnina. Og þrátt fyrir áðurnefnda drykkju manna eins og Duncan úr æskubrunnum, þurfa þremenningarnir eðli málsins samkvæmt alltaf meiri hjálp með hverju árinu sem þeir eldast. Og það var ekki fyrr en árin 2013 og 2014 sem Duncan-aðstoðin varð nógu öflug til að koma liðinu á toppinn á ný.

Þökk sé mönnum og Kawhi Leonard, Danny Green, Boris Diaw, Tiago Splitter, Marco Belinelli og meira að segja Patty flippin´ Mills - aukaleikurum sem hegða sér hvað eftir annað eins og aðalleikarar - er San Antonio nú að leggja lokahönd á að taka NBA deildina og snýta sér á henni.

Enn eina ferðina.

Svo það sé á hreinu (og munið að það er ekki til neitt sem heitir jinx, Teitur Örlygsson segir það), spáum við San Antonio Spurs því hér með NBA titlinum fram til ársins 2017!

Þetta fullkomna helvítis félag skal aldrei, aldrei láta okkur líta illa út aftur.