Lesendur NBA Ísland geta alltaf treyst á að fá að vita með reglulegu millibili hvað klukkan slær í NBA. Eins og þið vitið flest, er narratífið fljótt að breytast í þessari dásamlegu deild. Stundum þarf ekki annað til en að einn eða tveir leikmenn verði fyrir því óláni að meiðast og þá getur allt farið upp í loft.
Við setjumst reglulega niður og skoðum stöðu mála í deildinni og reynum að veita ykkur yfirsýn á 30 liða deild þar sem fjöldi leikja fer fram á hverju kvöldi og fólk því fljótt að detta út úr taktinum. Við höfum kallað þetta vörutalningar.
Nú ætlum við að henda í smá áramótapistil, en að þessu sinni er hann ekki aðeins ætlaður sem vörutalning og stöðutékk, heldur eru að verða til nokkrar áhugaverðar fléttur sem vert er að skoða nánar. Eitt það allra áhugaverðasta við NBA deildina - alveg eins og t.d. ensku úrvalsdeildina - er að taka eftir því og fylgjast með því þegar ný lið og nýir leikmenn ryðja sér til rúms í deildinni.
Fyrst beinum við sjónum okkar að Austurdeildinni og þróun mála þeim megin. Þar er að eiga sér stað merkileg þróun, þó megnið af liðunum þar sé í ruslflokki. Við botninn þar er New York, sem er búið að tapa 20 af 21 þegar hér er komið við sögu og er svo mikið drasl að stuðningsmenn þess eru farnir að þykjast vera Nets-aðdáendur.
Við erum reyndar búin að skrifa nóg um hamfarir Knicks og látum það því duga, þó það sé bíó út af fyrir sig að horfa á þetta lið tapa.

Annað lið á botninum í austrinu er Detroit. Þið hafið heyrt okkur hrauna yfir þann ágæta klúbb með reglulegu millibili í vetur, en nú eru skondnir hlutir að gerast þar á bæ.
Þið munið að félagið borgaði Josh Smith fyrir að hætta að mæta í vinnuna um daginn. Þegar Smith fór til Houston, var Detroit búið að tapa fjórum leikjum í röð, sem var svo sem bara í ætt við annað hjá liðinu í vetur.
Síðan Smith fór, hefur liðið hinsvegar snúið svona hressilega við blaðinu og er allt í einu búið að vinna fjóra leiki í röð - og það stórt. Detroit var 5-23 þegar Smith fór og var einn og hálfan mánuð að vinna fjóra leiki í upphafi leiktíðar (þó það væri 3-6 eftir fyrstu tvær vikurnar), en núna hefur það skyndilega unnið fjóra í röð á aðeins einni viku.
Þýðir þetta að Detroit sé allt í einu hætt að vera sorglegt körfuboltafélag? Nei, en það var kominn tími til að einhverjir af stuðningsmönnum Pistons hættu við að stökkva í sjóinn. Það er alveg hægt að búa til smá stemningu í kring um brotthvarf Josh Smith og ef stuðningsmönnunum leiðist, geta þeir líka horft á Houston-leiki sér til skemmtunar.