Showing posts with label Kevin Love. Show all posts
Showing posts with label Kevin Love. Show all posts

Saturday, December 31, 2016

Meistaraskýrsla


Sigur Cleveland á Golden State í jólaleiknum um daginn og áhugaverð þróun í spilamennsku lykilmanna liðsins varð til þess að nú höfum við óvart skrifað smá skýrslu um stöðu mála hjá meisturunum á síðasta degi ársins 2016. Ykkur er velkomið að renna yfir hana, hún er meira að segja stutt, svona á miðað við það sem gengur og gerist á þessu vefsvæði.

Ef við skellum Cleveland í gegn um vandamálagreiningarskannann, dúkka fáar niðurstöður upp. Eina vandamálið í herbúðum Cleveland þessa dagana er að (nothæfra) leikmannahópurinn er of fámennur, sérstaklega í ljósi meiðsla JR Smith, sem mætir ekki til vinnu á ný fyrr en lóan kemur.

Þetta er svo sem ekki vandamál í sjálfu sér, því það er ekki eins og Cleveland sé að fá mikla samkeppni í deildarkeppninni í austrinu. Eina liðið sem ógnar meisturunum í keppninni um efsta sætið eystra er Toronto og þó Kanadaliðið sé að spila vel, er Cleveland ekkert hrætt við það - hvort sem það verður með heimavöll eða ekki þegar í úrslitakeppnina er komið.



Nei, það eina neikvæða við það að lykilmenn Cleveland séu að spila of margar mínútur í vetur er að LeBron James sé að spila of margar mínútur. Við erum búin að tuða um það í allan vetur, að of mikið álag á James er ekki smámál, heldur lögreglumál

James varð 32 ára í gær og eftir um það bil tíu leiki, verður hann 33. maðurinn í sögu NBA til að spila 40.000 mínútur í deildarkeppninni. Þá eru ótaldar 8.383 mínúturnar sem hann hefur spilað í úrslitakeppni á ferlinum og til að gefa ykkur hugmynd um hvað það er stór viðbót við þessar 40.000, má geta þess að aðeins Kobe Bryant, Kareem Abdul-Jabbar og Tim Duncan hafa spilað fleiri mínútur en James í úrslitakeppni í sögu NBA. Hentu inn í þetta tæpum 2.500 mínútunum hans á undirbúningstímabilum og við erum komin vel yfir 50.000 mínútur að ótöldu landsliðsskaki.

Fimmtíu. Þúsund. Mínútur.



LeBron James er einhver blanda af ofurmenni, geimveru, hálfguði og sæborg. Það er það eina sem útskýrir hvernig í ósköpunum skrokkurinn á manninum hefur staðið undir öllu þessu álagi án þess að meiðast nokkru sinni alvarlega.

En svona ef við tölum aðeins í alvöru, er frábært heilsufar LeBron James á körfuboltaferlinum álíka einstakt og lottóvinningur. Líkurnar á að atvinnumaður í deild með jafn miklu álagi og NBA meiðist ekki alvarlega á þrettán og hálfu ári og fimmtíu þúsund mínútum eru álíka góðar og að Jón Viðar Jónsson vakni í svo góðu skapi tvo daga í röð að hann ákveði að sleppa því að drekkja kettlingum í heila viku.

Þið sjáið að þetta mínútumál hans LeBron James liggur þungt á okkur, en það er ekki af ástæðulausu. Cleveland kemur til með að halda áfram að gefa James leik og leik í frí (liðið er búið að tapa öllum leikjunum sem hann hefur sleppt í vetur) en þó það sé hið besta mál, vegur það ekki upp á móti öllum þessum 40 mínútna leikjum hans að undanförnu. 

Ekki segja að við höfum ekki varað ykkur við, Cleveland.



Annað sem vekur athygli okkar hjá Cavs í vetur, fyrir utan mínúturnar hans James og þá staðreynd að hann er líka að spila eins og höfðingi eins og hann er vanur (t.d. búinn að laga 3ja stiga nýtinguna sína til muna, sem er ómetanleg staðreynd fyrir hann), er hvað þeir Kyrie Irving og Kevin Love eru líka búnir að vera flottir í vetur.

Kevin Love er hreinlega allt annar maður en hann var í fyrra, þegar meiðsli, taktleysi og andlegur núningur gerðu honum lífið ansi hreint leitt. Nú er hann hinsvegar búinn að fara með liðinu alla leið í úrslitakeppninni og finna sína rullu og sinn takt með liðinu sem gerir það að verkum að lífið er í alla staði léttara hjá honum. 



Þetta skilar sér beint á tölfræðiskýrsluna eins og þið sjáið og þó hann sé aldrei að fara að taka einhver 25/15 tímabil með þessu Cleveland-liði, er lykiltölfræðin hans búin að taka áberandi kipp í vetur. Þar munar mestu um næstum fimm tikk upp á við í 3ja stiga nýtingunni og hvorki meira né minna en sex stiga bætingu að meðaltali í leik, sem er meira en umtalsvert.

Sömu sögu er að segja af Kyrie Irving. Það hefur ekki borið mikið á honum í vetur ef hetjukarfan hans í jólaleiknum gegn Warriors er undanskilin, en leikstjórnandinn knái er líka búinn að bæta sig helling í tölfræðinni og er að eiga sitt besta tímabil á ferlinum í stórum þáttum eins og stigum og skotnýtingu og er líka að hóta því að bæta sinn besta árangur í stoðsendingum, sem að okkar mati yrði mjög áhugavert.



Við komumst nefnilega að því fyrir tilviljun þegar við fórum að skoða tölfræðina hans Irving í dag, að hann er allt í einu farinn að gefa boltann eins og hann fái borgað fyrir það.

Vitið þið hvað Kyrie Irving átti marga 10+ stoðsendinga leiki á síðustu leiktíð? O.k. við skulum bara segja ykkur það. Hann gaf ekki einu sinni tíu stoðsendingar eða meira á síðustu leiktíð - hvorki í deild né úrslitakeppni. Ekki einu sinni! Það getur vel verið að hann sé meiri skorari en leikstjórnandi, en þetta á ekki að þekkjast.

Og hann byrjaði þessa leiktíð með svipuðum hætti. Hann gaf aðeins einu sinni 10 stoðsendingar í október og nóvember, en núna í desember eru stórfurðulegir hlutir að eiga sér stað.

Allt í einu er Kyrie Irving búinn að gefa tíu stoðsendingar eða meira í fimm af síðustu sjö leikjum Cleveland! Þar af 13 stoðsendinga leik gegn Milwaukee, sem var met hjá honum á ferlinum. Ja, batnandi mönnum og allt það...

Þetta voru nokkur orð um meistara Cleveland Cavaliers* og stöðu mála hjá þeim. Sigur liðsins á Warriors á jóladag sýnir að liðið er til alls líklegt í sumar ef það heldur heilsu og meira en það.

Eins og staðan er í dag, er Cleveland nefnilega komið í stöðu sem það hefur aldrei nokkru sinni lent í áður í sögu félagsins. Cleveland er sigurstranglegasta liðið í baráttunni um meistaratitilinn í NBA deildinni árið 2017.

Þú getur dundað þér við að hugsa um þetta það sem eftir lifir af árinu 2016 - einu furðulegasta boltaíþróttaári allra tíma.

Ári Íslands, Leicester City og Cleveland Cavaliers.

------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Það hættir aldrei að vera súrrealískt að tala um lið frá Cleveland sem meistara í einhverju.

Wednesday, May 25, 2016

Jæja, Cleveland...


Auðvitað vorum við að jinxa seríuna áfram þegar við slógum upp fyrirsögn hér á dögunum sem sagði að mótherjar Cleveland í Austurdeildinni gætu ekki skít!* Allt fyrir ykkur. Viljum við ekki öll fá fullt af leikjum?

Það sem vekur athygli okkar við Cleveland-Toronto-seríuna er hvað Cleveland hefur spilað eins og aumingjar í síðustu tveimur leikjum, sérstaklega í vörninni. Það hlaut að koma að því að þetta lið hætti að skjóta 70% úr þriggja stiga skotum, en það á að vera alveg nógu gott í vörn til að halda Toronto niðri í annað hvort leik þrjú eða fjögur til að geta farið heim og klárað í leik fimm.

Ekki aldeilis.

Út frá sjónarhóli Cleveland, sjáum við ekki alveg hvað er svona flókið við að dekka lið sem er með tvo valkosti í sóknarleik sínum og ekkert að frétta í teignum af því sóknarmiðherji þess (Jónas, nokkur) er ekki með. Án þess að vera að verja Cleveland-menn, var allt að detta fyrir Toronto-liðið í þessum síðustu tveimur leikjum og hið andstæða uppi á teningnum hjá LeBron og félögum.

Það má samt ekki taka það af Kanadamönnunum. Þeir áttu skilið að vinna þessa leiki. Það er svo einfalt. Nú standa þeir frammi fyrir því að fara til Cleveland og reyna að halda þessum látum áfram þar. 

Það er ekki séns í helvíti og Cleveland vinnur auðveldan sigur í leik fimm. Hvað gerist svo eftir það, er okkur ráðgáta.

Okkur þótti áhugavert að sjá talsmann LeBron James á ESPN, hinn þéttvaxna Brian Windhross, taka Tyronne Lue þjálfara Cleveland af lífi í pistli eftir fjórða leikinn. 

Þar sagði hann að Lue hefði verið að gera nýliðamistök sem þjálfari og meðan annars gert þau mistök að láta LeBron James spila allt of mikið í leik fjögur (46 mínútur). 

Windhrossið skrifar ekki svona beitta pistla um Cleveland nema LeBron James gefi grænt ljós á þá og því vakti þessi árás á þjálfarann óneitanlega áhuga okkar. Þessi pistill þýðir bókstaflega að LeBron James sé ekki sáttur við hvernig þjálfarinn hans er að að vinna hlutina. 

Það sem hann ætti hinsvegar að hafa meiri áhyggjur af, er að finna svör við því af hverju Cleveland getur ekki unnið lið eins og Toronto nokkuð örugglega.

Svona er þetta. Það þarf ekki nema tvo leiki til að breyta hinni fullkomnu leiktíð í kúkableyju. Fyrir fimm dögum var Cleveland á krúskontról á leið í úrslitin - taplaust og hitti úr öllu sem það grýtti á körfuna. Núna líta þeir út eins og aular á móti liði sem á ekkert erindi í undanúrslit NBA deildarinnar. Hvað heldurðu að Toronto myndi vinna marga leiki í sjö leikja seríu á móti Oklahoma og Golden State? Nú, eða San Antonio eða heilbrigðu Clippers-liði? Hekk, Portland? Áhugaverð pæling í hugum ritstjórnarinnar.

Blóraböggullinn hjá Cleveland þessa stundina, ef þjálfarinn er undanskilinn, er kunnuglegur náungi. Maðurinn sem er búinn að vera blóraböggullinn hjá liðinu frá fyrstu mínútu sinni hjá Cleveland. Dýrasti rulluspilari í heimi - Kevin Love.

Það kemur svo sem ekkert mikið á óvart að hann Ástþór okkar hafi fengið að heyra það, því hann er ekki að skila nema 11 stigum, 5 fráköstum og 36% skotnýtingu í einvíginu við Toronto.  

Til samanburðar er LeBron James að skjóta 64% í seríunni við Toronto þó hann sé að skjóta eins og blindur órangútan í þriggja stiga skotum (18%). Aumingja Kevin Love á aldrei eftir að gera neinum fyllilega til geðs meðan hann býr í Cleveland. Það er að verða nokkuð ljóst.

Annars er fyllilega eðlilegt að Channing Frye sé að skjóta 23 af 40 (58%) í þristum og skora níu stig að meðaltali í leik fyrir Cleveland í úrslitakeppninni. 

Við lýstum yfir hrifningu okkar af ákvörðun Cleveland að pikka hann upp í vetur, en bjuggumst ekki alveg við þessu. 

Cavs-liðið er algjört skaðræði í sóknarleiknum þegar það er með Frye í fimmunni - ekki síst þegar drengurinn er að skjóta svona. LeBron James getur keyrt á körfuna eins og hann hefur úthald til.

Á Kyle Lowry skilið að fá klapp á bakið fyrir frammistöðu sína í síðustu tveimur leikjum? Líklega. 

Hann spilaði eins og hann gerir best og án hans væri Toronto ekki búið að jafna þessa seríu. En það hvernig drengurinn er búinn að spila bókstaflega eins og jójó alla úrslitakeppnina sýnir svart á hvítu að Kyle Lowry er bara mjög góður körfuboltamaður. 

Hann er ekki stórstjarna. Hann er ekki leikmaður sem á að spila í Stjörnuleiknum ár eftir ár og ekki DeMar Derozan heldur. Þeir eru ekki alvöru stórstjörnur - bara mjög góðir körfuboltamenn. Og það er líka alveg í fínu lagi.

Lítum við út eins og fífl og fávitar fyrir að hafa skrifað Toronto út af sakramentinu í stöðunni 2-0? Já, já, við skulum alveg taka það á okkur eins og annan asnaskap sem við berum ábyrgð á. En treystið okkur samt. Við lítum ekki eins illa út eins og Cleveland gerir núna.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Þetta er reyndar haugalygi frá a til ö.

Wednesday, January 20, 2016

Af dvínandi meistaravonum Cleveland


"Ég var ekki vanur að pæla í því að leikir gætu verið steitment-leikir þegar ég spilaði í deildinni, en það sem þetta Golden State-lið er að gera hérna... það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en steitment."

Það var eitthvað í þessum dúr sem hann Chris Webber sagði við Marv Albert þar sem þeir félagar sátu saman og lýstu leik Cleveland og Golden State á TNT sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi.

Ef það fór framhjá einhverju ykkar, þá valtaði Golden State yfir heimamenn í Cleveland 132-98, í leik sem var spennandi í um það bil fimmtán mínútur en breyttist svo í eitthvað sem er ekki hægt að kalla annað en hreina og klára slátrun. Það er hægt að senda frá sér yfirlýsingar með talsvert minna áberandi og afgerandi hætti en þetta.

Við erum sammála Chris Webber upp að vissu marki. Það er ekki alltaf mikið að marka þegar lið mætast í deildarkeppninni - sérstaklega ekki þegar þau eru á sitt hvorri ströndinni og mætast ekki nema tvisvar allan veturinn. Það getur því þýtt eitt þegar liðin mætast í nóvember og allt annað þegar þau mætast aftur í mars.

Nú eru Golden State og Cleveland búin að mætast í tvígang á leiktíðinni og mætast því ekki aftur fyrr en ef þau rekast aftur á hvort annað í lokaúrslitunum í júní.


Þegar þessi lið mættust á jóladag síðastliðinn, munum við að lengra komnir höfðu orð á því að báðir þjálfarar hafi haldið spilunum nokkuð þett upp að bringunni í þeim leik og þeir spáðu því að þau ættu bæði eftir að gera það í síðari viðureigninni. Það má vel vera að svo hafi verið, en það breytir því ekki að við erum alveg tilbúin í að lesa eitthvað út úr þessum leikjum - sérstaklega leiknum í gær.

Í okkar augum - og við erum svo heppin að hafa ekki hundsvit á körfubolta, þannig að það þvælist ekki of mikið fyrir okkur þegar við erum að leikgreina - styrkti leikurinn í gær okkur í ákveðinni trú.

Við höfum ekki verið tilbúin með að gefa út of stórar yfirlýsingar varðandi Golden State vs Cleveland fram að þessu af því það veit jú enginn hvernig þessi lið myndu smella saman í úrslitakeppninni ef þau mættust þar með alla sína menn heila.

En nú vitum við hvað gerist og erum tilbúin að deila því með hverjum sem vill heyra.


Cleveland á ekki fræðilegan möguleika í logandi helvíti í Golden State Warriors - hvorki í deildarkeppni, né seríu, með heilan leikmannahóp eða hálfan. Ekki breik. Ekki séns. Gleymdu því bara. Það er ekki að fara að gerast.

Hitti Golden State á toppleik og Cleveland á lélegan þarna í gær? Vissulega, en það breytir engu máli.

Þegar Warriors var búið að ná 40 stiga forskoti í leiknum, veittum við því athygli að það klikkaði á 4-5 galopnum þriggja stiga skotum sem það setur venjulega ofan í.

Það munaði sem sagt ekki miklu að Cleveland lenti yfir 50 stigum undir í þessum leik - á heimavelli - þar sem liðið tapar næstum aldrei. Sérstaklega með alla sína menn heila eins og það er loksins að gera nú um þessar mundir.

Þetta varð svo vandræðalegt á kafla að Andre Iguodala bókstaflega sofnaði á varamannabekk Warriors.

Saturday, November 7, 2015

Kalt er í Kóngsins ríki


Passíf/agressíf skapgerð LeBron James kemur hvergi eins augljóslega fram og í samskiptum hans við Kevin Love, liðsfélaga hans hjá Cleveland Cavaliers. James átti það til að senda Ástþóri pillur á síðustu leiktíð, sem snerust þá oftast um hlutverk Love hjá liðinu (og sumir segja að líkamlegt ástand hans hafi ekki staðist kröfur James).

Í haust var planið að allir byrjuðu með hreint borð. Love mætti tálgaður og flottur til leiks með hárgreiðsluna hans Rick Fox og James lýsti því yfir í öllum viðtölum að Love fengi aukið hlutverk í sóknarleik liðsins meðan hann sjálfur hefði sig minna fram en áður, enda ekki alveg heill heilsu.

Svo virðist þó sem Adam verði ekki lengi í Paradís, því James er byrjaður að senda passífar bæði og agressífar pillur á ný, eins og myndbrotið hér að neðan sýnir.



Venjulegt sér auðvitað ekkert athugavert við þessar sekúndur, en þeir sem fylgjast með NBA daglega sjá að sú staðreynd að LeBron James sleppir því ekki aðeins að hjálpa Love á fætur, heldur bókstaflega lætur eins og hann sé ekki til, er ekkert annað en bleitant yfirlýsing um að hér sé ekki allt með felldu.

Nú hlær einhver og segir okkur að róa okkur á dramanu, en hlæðu eins og þú vilt. Þetta er hrein og klár yfirlýsing hjá James. NBA leikmenn gera ekki annað en klappa hver öðrum á rassgatið og knúsast heilu leikina, alveg sama hvort það eru æfingaleikir eða úrslitaleikir. Þú hleypur yfir völlinn þveran og endilangan til að hjálpa félaga þínum á fætur - sama hvað. Þannig er þetta bara í NBA.

Ef liðsfélagi þinn - tölum nú ekki um ef hann er yfir tveir metrar eins og Kevin Love - liggur flatur í jörðinni við hliðina á þér og þú labbar bara í burtu og þykist ekki sjá hann, eru það skýr skilaboð um að hann sé ekki að fara eftir þeim reglum sem þú hefur sett honum sem liðsfélagi hans, þjálfari, framkvæmdastjóri og eigandi (LeBron James). Þetta er ekki tilviljun. Ekki séns.

Verið alveg róleg, við ætlum ekki að fá einhvern tremma yfir þessu og þetta eyðileggur veturinn alveg örugglega ekki fyrir Cleveland - okkur þótti þetta bara dálítið merkilegt, því svona lagað sérðu ekki á hverjum degi í NBA deildinni.

Hvað sem hver segir, er bara augljóst að Kevin Love kærir sig ekki um að læra leynibankið sem þarf til að komast inn í tréhúsið í bakgarðinum hans LeBron James og það finnst okkur dálítið skondið.

Tuesday, October 21, 2014

Friday, June 20, 2014

Oakland vill Ástþór


Nú er pískrað um að Golden State sé að vinna í því að fá framherjann Kevin Love til sín frá Minnesota. Love hefur sem kunnugt er farið fram á að verða skipt frá Úlfunum, þar sem hann hefur enn ekki náð að komast svo mikið sem einu sinni í úrslitakeppnina á þeim sex árum sem hann hefur spilað þar.

Það er ekkert leyndarmál lengur að Love vilji fara frá Minnesota og sú staðreynd veikir auðvitað samningsstöðu Úlfanna mikið þegar kemur að því að fá eitthvað almennilegt í skiptum fyrir framherjann sterka. Forráðamenn Úlfanna eru nú samt að gera sig eins breiða og þeir geta og sagt er að þeir heimti að fá megnið af yngri og efnilegri leikmönnum Warriors í staðinn ef af þessu á að verða.

Þar er átt við pilta eins og Klay Thompson, Harrison Barnes og Draymond Green, en Kaliforníufélagið vill líka helst losna við framherjann sinn David Lee í þessum skiptum, enda spilar hann sömu stöðu og Ástþór og yrði því allt nema atvinnulaus ef eitthvað gerðist nú í þessu.

Eins og þið vitið kannski, erum við venjulega lítið fyrir það að velta okkur mikið upp úr svona slúðri og leyfum hlutunum oftast að gerast áður en við förum að spá í spilin í kring um hugsanlegar mannabreytingar.

En þegar við heyrðum að Warriors væri að reyna að ná í Kevin Love...

Það fyrsta sem við færum að pípa ef þetta gengi eftir væri að sjálfssögðu eitthvað um það að Love ætti nú svo sem ekki eftir að styrkja Golden State mikið meira í varnarleiknum en David Lee og ekki væri það nú efnilegt og bla bla bla bla.

En skítt með alla hagkvæmni og raunsæi. Það er hægt að spá í það seinna.

Ertu eitthvað að pæla í því hvaða rugl færi í gang hjá Golden State ef Kevin Love bættist við stórskotaliðið sem er þar fyrir? Steph Curry og Kevin Love í vegg og veltu? Ertu eitthvað að grínast?

Curry og Love tóku yfir ellefuhundruð þriggja stiga skot samanlagt á síðustu leiktíð, þó hvorugur þeirra spilaði alla 82 leikina.

Það eru: Ellefu. Hundruð.

Til samanburðar má geta þess að Reggie Miller tók 950 þriggja stiga skot síðustu þrjú árin sín í NBA og ekki hataði hann að láta vaða.

Og hugsið ykkur bara ef Golden State næði á einhvern hátt að halda Klay Thompson líka (sem er reyndar ólíklegt ef díllinn á að ganga í gegn). Kæmu ekki nema svona 500+ þristar í viðbót þaðan.

Þett´er náttúrulega bara lol.

Okkur er til efs að Steve Kerr ætti eftir að banna þessum byssum að beita langskotunum og því mætti alveg eins reikna með enn stærri flugeldasýningu í Oakland en á síðustu tveimur árum - og þá er nú mikið sagt.

Golden State gæti ugglaust orðið fyrsta körfuboltaliðið til að skjóta hreinlega yfir sig!

Saturday, March 22, 2014

Já, veinaðu Úlfur, Úlfur*


Það er ljúft að fá loksins tækifæri til að vera í byrjunarliði í NBA deildinni. Eða svo virðist vera ef við skoðum feril nýliðans Gorgui Dieng ( í treyju númer fimm á myndinni hérna fyrir neðan) hjá Úlfunum.

Senegalinn síkáti var ekki búinn að fá nema það sem kallað er ruslmínútur í vetur en var hent í byrjunarliðið á dögunum eftir að Úlfarnir misstu þrettánþúsundfjögurhundruðogáttunda leikmanninn sinn í meiðsli.

Jæja, hann var ekki lengi að svara kallinu og er búinn að skila 15 stigum, 14 fráköstum og 2 vörðum skotum í þeim þremur leikjum sem hann hefur verið í byrjunarliðinu.

Á fimmtudagskvöldið bauð drengurinn svo upp á 22 stig og 21 frákast í tapi Úlfanna gegn Houston Rockets. Hvar endar þetta, er fólk eflaust farið að spyrja.

Það hafa jú ekki nema þrír leikmenn verið með svona læti í fyrstu þremur leikjunum þeir komu inn í byrjunarlið á síðustu tuttugu árum í deildinni (DeJuan Blair hjá Spurs (2x), Joe Smith (2x) hjá Warriors og auðvitað Tim Duncan hjá Spurs skv. tölfræði Elíasar og ESPN).

Æ, við verðum að reyna að finna eitthvað jákvætt hjá Úlfunum í vetur - ekki eru þeir að fara í úrslitakeppnina. Það getur ekki talist líklegt.**

Það eru meira en tveir mánuðir síðan þeir sem rýna í tölfræði fyrir lengra komna, lýstu því yfir að það væri ekki séns að Úlfarnir færu í úrslitakeppnina.

Okkur þótti sem þessir tölfræðingar (gott ef Kevin Pelton var ekki einn þeirra) dálítið snemma í því að dæma Úlfana okkar úr leik, en það er að koma á daginn að þeir voru sannspáir. Meira að segja jinx eins og þetta er ekki nóg til að koma Úlfunum í úrslitakeppnina. Og það er sorglegt.

Vissulega eru meiðsli búin að setja strik í rekninginn hjá Minnesota í vetur, en það er bara fastur liður hjá þessu liði og verður alltaf. Stjörnurnar hjá þessu liði spila bara ekki meira en 60-80% þeirra leikja sem eru í boði, nú eða náttúrulega minna en það.

Það nöturlega við þetta allt saman er ekki meiðslin. Það sorglega við það að Úlfarnir skuli nú vera að missa af úrslitakeppninni tíunda árið í röð, eða síðan Sam Cassell (20/7) og Kevin Garnett (24/15/5/2) fóru fyrir því og komu því alla leið í úrslit Vesturdeildar.

Sjáðu bara hvað þeir eru ánægðir með sig hérna til hægri. Þeir máttu svo sem vera það, þeir voru flottir þessir karlar.

Þá, eins og nú, er aldrei að segja hvað hefði gerst ef meiðsli hefðu ekki fokkað þeim upp á versta tíma.Við getum reynt að horfa áfram á björtu hliðarnar. Við getum reynt að fókusera á það að Úlfarnir eru hægt og bítandi búnir að vera að bæta sig undanfarin ár.

Það er reyndar helvíti erfitt að ná annað en betri árangri þegar lið vinnur bara 15 leiki allan veturinn, en Minnesota er búið að bæta sig frá 15 sigrum, í 17 sigra, í 26 sigra, í 31 sigur og er þegar komið með 34 sigra þegar þetta er ritað og því öruggt með besta árangur sinn síðan 2005 (44 sigrar).

Vandamálið er bara að þetta er ekki nóg í Vesturdeildinni í NBA. Þetta er ekki Austurdeildin, þar sem þú getur tapað sjö leikjum í röð án þess að það hafi nokkur áhrif á möguleika þína á að komast í úrslitakeppni. Þetta er Vesturdeildin, þar sem þú ert beisikklí fögt ef þú tapar 2-3 leikjum í röð.

Sjáið bara lið eins og Portland og Phoenix. Portland er búið að öskubuskast í toppbaráttunni í allan vetur, en er nú búið að lenda í smá mótlæti og er komið niður á jörðina.

Liðið sem var að elta San Antonio og Oklahoma á toppnum hálfan veturinn, má núna þakka fyrir að mæta ekki San Antonio eða Oklahoma í úrslitakeppninni og verða sópað út eins og hverju öðru rusli.

Phoenix var sömuleiðis búið að Spútnika yfir sig í allan vetur, en þarf sem komið er á kraftaverki að halda til að komast í úrslitakeppnina. Þrátt fyrir að vera með 57% vinningshlutfall og vera, án gríns, búið að vinna fjórum sinnum fleiri leiki en spár gerðu ráð fyrir í haust.

En vandamál Úlfanna er ekki bara sú staðreynd að liðið spilar í þessari ógnarsterku Vesturdeild. Það tekur okkur óhemju sárt að þurfa að segja þetta, en ákveðin sannleikur liggur fyrir varðandi Úlfana í vetur. Ákveðin staðreynd sem komið hefur í ljós, sama hvað meiðsli hafa reynt að fela hana.

Minnesota er bara ekki nógu gott lið.

Úlfarnir eiga sér nokkra grjótharða stuðningsmenn á Íslandi og á tímabili var orðið ansi þétt setið á Úlfavagninum góða. Allur þessi pótensjal sem þetta lið hafði! Þess var framtíðin, var ekki svo?

Öll héldum við að Rubio yrði betri, að Love yrði betri, að Pekovic yrði betri. Og að þessir aukaleikarar sem liðið var að safna í kring um þá og líma saman með sterkum þjálfara eins og Adelman?

Ef þetta lið drullaðist einhvern tímann til að haldast heilt nógu lengi, væri það að sjálfssögðu á leið beint í úrslitakeppninna - var það ekki?

Nei, nefnilega ekki. Meiðslin hafa reyndar haldið áfram að hrjá liðið, svo mikið að við erum búin að lýsa því yfir að þau séu komin til að vera, en það er ekki bara það. Minnesota er bara ekki nógu gott lið.

Alltaf er þetta spurnin um sömu hlutina. Minnesota er ekki nógu gott varnarlið, Ricky Rubio getur (alls, alls, alls) ekki skotið, Love og Pekovic eru gjörsamlega vonlaus varnarframlína, liðið ver engin skot, er ekki með neinar skyttur og bekkurinn hjá því er rusl.***

Kevin Love er alltaf með klámfengna tölfræði og árið í ár er þar engin undantekning. Rubio og Pekovic eru strangt til tekið búnir að bæta sig í tölfræðinni, en það sem er að þessu liði kemur ekki alltaf fram í tölfræðinni, nema kannski þetta með þá staðreynd að Össur Skarphéðinsson er sennnilega betri skytta en Ricky Rubio.

Kannski er það bara í takt við þetta að liðið sé að bæta sig örlítið ár frá ári, bara alls ekki eins mikið og við - hin óþolnimóða Twitter-kynslóð - er að óska eftir. En það er ekki bara okkar óþolinmæði.

Örfáir sigrar upp á við á ári eru bara ekki nóg ef það skilar ekki í það minnsta sæti í úrslitakeppni. Það ætti að vera ljóst, nú þegar Kevin Love er allt nema farinn frá félaginu

Sagt er að versti staðurinn til að vera á í NBA deildinni sé í meðalmennskunni - að vera svona Atlanta Hawks - lið sem þið munið að fór í úrslitakeppnina ár eftir ár eftir ágætis deildakeppni, en var svo alltaf slegið út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Ef þú getur ekki fengið til þín menn með lausa samninga og færð aldrei almennilega nýliða af því þú velur alltaf í kring um 20, eru líkurnar á því að þú bætir þig ansi litlar, alveg sama hvað þú ert með efnilegt lið.

Minnesota getur reyndar ekki einu sinni státað af því að detta út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð. Það gerði það á árunum með Kevin Garnett, þegar það datt 87 ár í röð í fyrstu umferð þegar það var fast í 50% vinninshlutfallinu. Það er líka ömurlegur staður til að vera á.

Það væri rosalega auðvelt fyrir svona hrokagikki eins og okkur að sitja hérna og segja Minnesota að það sé kominn tími til að stokka upp og breyta til - reyna eitthvað nýtt.

En það er bara sorglega líklegt að slík ákvörðun verði tekin fyrir félagið, þegar Kevin Love klárar samninginn sinn og fer (til Los Angeles). Og hvað verður þá til ráða?

Nei, smáklúbbur úr sveit eins og Minnesota Timberwolves getur ekki leyft sér jafn yfirgripsmiklar aðgerðir eins og að fara að kasta frá sér stórstjörnunni sinni eða bestu leikmönnunum sínum bara af því að liðið er ekki að bæta sig í nógu stórum stökkum. Líklega er þolinmæðin það eina sem er í stöðunni hjá Úlfunum.

Verstur fjandinn fyrir okkur og alla hina aðdáendur liðsins, er að við verðum örugglega öll farin að horfa eitthvað allt annað ef þessi þolinmæði ber einhvern daginn ávöxt.

Og þó...

Það er svo létt að hoppa á vagninn aftur.

---------------------------------------------------------------------------------------

* -- Þetta orti Megas einu sinni og líkurnar á því að við höfum notað þetta í fyrirsögn áður, eru betri en líkurnar á því að Úlfarnir komist í úrslitakeppnina - svo mikið er handvíst.

** -- Eins og hendi hafi verið veifað, er lítill "sælar stelpur, Gorgui hérna"-pungur búinn að breytast í stóran hlemm um endalausa ógæfu Úlfanna. Þarna gefst ykkur sjaldgæft tækifæri til að öðlast innsýn í brjálaða starfshætti ritstjórnar NBA Ísland. Fjandinn er fljótur að verða laus.

*** --  1.) Mótherjar Minnesota skjóta 63% undir körfunni. Langhæsta hlutfall í allri deildinni. Andstæðingar Indiana skjóta 51% undir körfunni (best í NBA).

2.) Minnesota ver fæst skot allra liða í NBA deildinni. Ronny Turiaf ver flest skot í liðinu (1,7) og enginn annar leikmaður (sem fær marktækar mínútur) er nálægt því að verja eitt skot í leik. Turiaf ver því helming skota liðsins. Til samanburðar má geta þess að Michael Jordan varði best 1,6 skot í leik með Chicago og Dwyane Wade 1,3 í tvígang. Þeir eru/voru jú bakverðir.

3.) Aðeins varamannabekkir Indiana, Washington, Toronto og Portland skora minna en bekkur Úlfanna, sem skilar liðinu 26 stigum í leik. Þá skilar bekkur Úlfanna aðeins 39,7% skotnýtingu, nánast sömu nýtingu og bekkur Golden State, en þessir tveir eru í langneðsta sæti í deildinni - meira en tveimur prósentustigum fyrir neðan næsta lið. San Antonio er að sjálfssögðu efst í þessum tölfræðiflokki - bekkur Spurs er með 48,8% skotnýtingu.

Monday, March 3, 2014

Thursday, November 28, 2013

Svartir Úlfar


Það eru skiptar skoðanir um aukabúninga Úlfana sem þeir klæddust í nótt. Auðvitað er þetta líkara hand- eða fótboltabúningum en körfuboltabúningum, en það má alveg hafa gaman að þessu. Svartur klikkar aldrei.


Monday, November 4, 2013

Tuesday, January 22, 2013

Úlfavaktin er enn ekki farin af stað


Það sáu það ekki endilega allir fyrir í fyrra, en á síðustu leiktíð, varð Minnesota eitt mest spennandi lið deildarinnar á að horfa. Það var ekki síst vegna þess að við sáum fram á að Timberwolves yrði keyrt áfram af ungstirnunum Ricky Rubio og Kevin Love.

Fyrirbærið sem síðar fékk nafnið #Úlfavaktin hefur svo náð enn minna flugi í vetur út af meiðslum bæði Love og Rubio. Eins og það hafi ekki verið nóg, hefur meiðsladraugurinn nánast tröllriðið öllum leikmannahópnum.

Vissirðu að Ricky Rubio og Kevin Love hafa aðeins spilað 27 leiki saman í byrjunarliði?

Jebb. Tuttugu og sjö. Þetta er hrikalegt.

Ætli við verðum ekki að taka ofan fyrir strákunum hans Rick Adelman í vetur fyrir að vera aðeins þremur leikjum undir 50 prósentunum í ógnarsterkri Vesturdeildinni?

Andrei Kirilenko hefur heldur betur reynst liðinu góður fengur í vetur með varnarleik og fagmennsku og þá hefur tröllið Nikola Pekovic bætt sig í miðjunni.

Langskotin hafa hinsvegar verið til sögulegra vandræða hjá Úlfunum og það hefur ekki verið á það bætandi að tvær af bestu langskyttum liðsins hafi verið meiddar meira og minna í allan vetur.

Líklega eru möguleikar Úlfanna á að komast í úrslitakeppnina litlir sem engir og því verða þeir annað árið í röð að reyna að eiga gott sumar og keyra sig í gang fyrir næsta keppnistímabil.

Það er bara eins gott að þetta lið drullist til að haldast heilt á næsta ári. Annars verður Úlfavaktin ekki annað en blautur draumur í minningunni. Guð forði okkur frá því.

Og úr því við erum farin að tala um Guð, er líklega best að láta þessari stuttu hugleiðingu um Úlfana lokið að sinni.

Wednesday, November 28, 2012

Nú er nóg komið, sögðu Körfuboltaguðirnir...


...þegar Minnesota hafði tapað fimm leikjum í röð. Hvað getur það verið annað þegar Ástþór ísar leikinn með svona skoti. Hann hefur fengið einhverja hjálp við þetta síðasta skot sitt, þó hann hafi átt megnið af 23 stigunum og 24 fráköstunum sínum sjálfur.



Wednesday, September 19, 2012

Allir verða á Úlfavaktinni


Það er ekki nokkur vafi hvaða lið verður "League-Pass-lið" vetrarins í NBA deildinni, það er að segja liðið sem flestir fylgjast næstmest með, fyrir utan sitt uppáhaldslið. Það verður sama lið og á síðustu leiktíð, Minnesota Timberwolves.

Það vill reyndar svo bölvanlega til að spænska undrabarnið Ricky Rubio verður ekki tilbúið í slaginn fyrr en nokkuð líður á veturinn vegna slæmra meiðsla sem hann varð fyrir á síðustu leiktíð. Liðið verður spennandi í vetur og óhemju spennandi þegar líður að vori og leikstjórnandinn Rubio dettur inn aftur.

Minnesota var í Spútnik-gírnum allt þar til Rubio meiddist á síðustu leiktíð og er reynslunni ríkara.

Nú hefur Úlfunum líka borist liðsstyrkur, sem reyndar er ómögulegt að segja til um hvort kemur að gagni.

Brandon Roy, fyrrum skotbakvörður Portland Trailblazers og Andrei Kirilenko fyrrum leikmaður Utah Jazz bætast í þegar áhugaverðan hóp Minnesota í vetur. Báðir þessir leikmenn eru mjög hæfileikaríkir en hafa verið óheppnir með meiðsli.

Kirilenko spilaði í heimalandi sínu Rússlandi síðasta vetur og fór þar á kostum, bæði með félags- og landsliðum sínum. Brandon Roy var eins og flestir muna búinn að leggja skó sína á hilluna vegna meiðsla, en hefur á einhvern undarlegan hátt ákveðið að snúa aftur þó hnén á honum séu í raun bæði ónýt.

Þegar Roy er við sæmilega heilsu, er hann af mörgum álitinn þriðji besti skotbakvörður heimsins á eftir þeim Kobe Bryant og Dwyane Wade, svo það er kannski skiljanlegt að Minnesota taki sénsinn á honum.

Fari svo að tímabilið í vetur verði nokkuð eðlilegt og forráðamenn Minnesota finna enga fjögurra eða fimm laufa smára í bakgarðinum hjá sér, munu báðir þessir leikmenn verða í bullandi vandræðum með meiðsli í allan vetur. Sérstaklega Roy, sem bara á ekki að geta spilað sem atvinnumaður í körfubolta með þessi ónýtu hné.

Ef Úlfarnir verða hinsvegar bænheyrðir og ofangreint par heldur heilsu, á þetta lið nánast takmarkalausa möguleika í baráttunni.

Kevin Love er trúlega besti kraftframherjinn í heiminum í dag og Ricky Rubio er frábær leikmaður, miklu betri en við áttum von á - sérstaklega í vörninni. Rick Adelman þjálfari er í hópi bestu þjálfara deildarinnar og tröllið Pekovic hefur komið mikið á óvart í miðjunni.

Bætum svo við þetta æstum og ört vaxandi aðdáendahóp og hinum spennandi Alexey Shved frá Rússlandi og við erum komin með mest spennandi lið vetrarins í NBA.

Hann verður þétt setinn bekkurinn á Úlfavaktinni í vetur, það er öruggt.

Sjáðu bara:

PG - Ricky Rubio
SG - Brandon Roy
SF - Andrei Kirilenko
PF - Kevin Love
C  - Nikola Pekovic

Þetta er bara hörkulið ef allir eru sæmilega heilir. Stórt ef, en samt.

Téður Shved verður svo á bekknum þar sem Chase Budinger frá Houston og Greg Stiemsma frá Boston verða líka í vetur. Þá getur Derrick Williams ekki annað en bætt sig eftir að hafa valdið gríðarlegum vonbrigðum á síðustu leiktíð.

Skrumið verður mikið í kring um Úlfana í vetur, en það eru ástæður fyrir því.

Það verður til dæmis ekki leiðinlegt að sjá hugmyndaríka sóknarmenn á borð við Rubio og Kirilenko læða sér daglega á tilþrifalista með skemmtilegum sendingum.

Veikleikar Wolves síðasta vetur voru varnarleikurinn og afleit frammistaða vængmanna.

Kirilenko, Roy og Shved hjálpa sannarlega til í þessu.

Þá er ekki síður mikilvægt að Minnesota hefur hægt og örugglega verið að losa sig við rugludalla og leikmenn sem kunna ekki körfubolta að undanförnu. Þar koma nöfn eins og Darko Milicic upp í hugann.

Þó útlitið sé bjart hjá Úlfunum, er það þó ekki eintómt sólskin. Það eru ekki mörg frábær lið í Vesturdeildinni, en hellingur af góðum liðum, sem eru slæm tíðindi fyrir Minnesota.

Meiðsli Ricky Rubio gera það að verkum að liðið á að öllum líkindum eftir að verða í vandræðum framan af vetri og það eitt getur nægt til að fella það nánast úr leik í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Við skulum þó vona að svo verði ekki. Það halda allir með Úlfunum í vetur.

Tuesday, March 27, 2012

Nokkrir molar um 30/20 leiki


Þið sem á annað borð lesið NBA Ísland vitið hvað ritstjórnin er gefin fyrir skemmtilega tölfræði.

Atmennið Kevin Love hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu enda er hann að bjóða upp á tölfræði sem er fyllilega á pari við það sem duglegustu menn voru að gera fyrir um 30 árum síðan.

Og það er hrós.

Tölfræði á borð við þá sem okkur þykir sjálfssögð í dag hefur ekki verið haldin almennilega síðan árið 1985. Því er ekki fyllilega marktækt að slá upp svona töflum, en það er óskaplega skemmtilegt.

Hér til hliðar er tafla yfir þá leikmenn sem oftast hafa boðið upp á 30 stig og 20 fráköst í einum og sama leiknum.

Þarna kemur bersýnilega í ljós að það sem Kevin Love er að gera um þessar mundir er hreint ótrúlegt.

Love er aðeins á sínu fjórða ári í deildinni, en hvað varðar 30/20 leiki hefur hann þegar skotið mörgum Heiðurshallarmeðlimum ref fyrir rass. Mönnum eins og David Robinson, Karl Malone og Tim Duncan, svo einhverjir séu nefndir.

Þó þetta sé vissulega skuggalegur árangur hjá Love, á hann enn óralangt í fyrirbærið Charles Barkley sem náði þessum áfanga hvorki meira né minna en 20 sinnum á ferlinum. Það er bara ein af átta þúsund ástæðum fyrir því að við og svo margir fleiri elska Charles Barkley.

Hér fyrir neðan er yfirlit yfir 30/20 leikina hans Barkley (smelltu á myndina til að stækka hana). Taktu eftir því að í þrígang er hann hársbreidd frá því að bæta við 10 stoðsendingum (9,9,8) og breyta tröllatvennunni í ofurþrennu. Í einum leiknum (16.) bætir þessi töffari svo við 7 vörðum skotum (og 7 töpuðum boltum) til gamans. Svona mannlegar grjótskriður eins og Barkley koma ekki fram nema einu sinni á öld. Þvílíkt eintak.


Það er þó hætt við því að Wilt heitinn Chamberlain myndi fussa og sveia yfir þessum tölum, því hann gjörsamlega stútaði allri þessari tölfræði og miklu meira en það.

Nægir að nefna að leiktíðina 1961-62 var Chamberlain með SJÖTÍU 30/20 leiki.  Þá þótti ekkert tiltökumál að hann tæki 40-50 skot í leik og átti meðal annars 38 frákasta leik. Það var algjör undantekning ef hann hirti undir 20 fráköst í leik það tímabil eins og reyndar mörg önnur.

Að lokum hendum við inn mynd af þremur gullfallegum körfuboltamönnum sem allir náðu á einhvern óskiljanlegan hátt að slysast í 30/20 leik á ferlinum. Getur þú sagt okkur hvað þessir heiðursmenn heita án þess að svindla? Sendu svarið á nbaisland@gmail.com ef þú ert með þetta.

Saturday, March 24, 2012

Tuesday, February 28, 2012

Eplið og eikin


Feðgarnir Stan og Kevin Love hafa báðir leikið í NBA deildinni. Aðeins meira kjöt á jr, en sá gamli var alveg með þetta líka eins og sjá má.



Sunday, February 5, 2012

Ástþór bauð Scola upp á bókstaflega andlitsmeðferð


Fyndið. Það er svo stutt síðan við vorum að lesa frásögn af Kevin Love traðkandi á andlitinu á mótherja sínum. Hvort það var þegar hann var í mennta- eða háskóla, skiptir ekki öllu máli.

Það er vafalítið hundleiðinlegt að spila á móti honum Luis Scola, en hér gengur Ástþór full langt. Svona má ekki gera og pilturinn fær líklega sekt og leikbann fyrir þessi tilþrif sín.

Friday, January 20, 2012