Showing posts with label Dirk Nowitzki. Show all posts
Showing posts with label Dirk Nowitzki. Show all posts

Wednesday, June 28, 2017

Uppgjör 2017: Kevin Durant og Ákvörðunin II


Eftirfarandi pistill er hluti af uppgjöri NBA Ísland á nýafstöðnu keppnistímabili í NBA deildinni, með aðaláherslu á lokaúrslitaeinvígi Golden State og Cleveland og öllu mögulegu sem tengist því með beinum eða óbeinum hætti.

Ritstjórn NBA Ísland hvetur lesendur til að lesa formálann að þessari ritröð áður en það tekst á við greinarnar sem á eftir koma, en í honum reynum við að útskýra hvað fyrir okkur vakir með þessu öllu saman. 


Strangt til tekið er kannski ekki nauðsynlegt að lesa formálann fyrst, því það skilur enginn samhengislausan vaðalinn í okkur hvort sem er, en þið ráðið auðvitað hvernig þið hafið þetta. Það er það góða við NBA Ísland. Þið ráðið þessu öllu saman og þetta kostar ekki neitt  frekar en venjulega. Hefst þá pistillinn:



Hér er fyrst mikilvæg áskorun frá ritstjórn:

Áður en lengra er haldið í þessum fyrsta pistli okkar í uppgjörinu á leiktíðinni 2016-17, verðum við eiginlega að ráðleggja fólki að sleppa því að lesa hann.

Fyrsta ástæðan fyrir því að sleppa því, er að hann er allt of  langur, fer allt of mikið út fyrir efnið (persónulegt met hjá okkur, reyndar, og þið getið rétt ímyndað ykkur hvurslags geðveiki þarf til að toppa metið okkar í að fara út fyrir efnið) og ef einhver lesandinn yrði svo nógu bilaður að lesa pistilinn til enda og jafnvel skilja hann líka, gæti viðkomandi lent í talsverðri klemmu.

Umræddur lesandi fengi þannig teiknaða upp fyrir sig allt of skýra og heildstæða mynd af nákvæmlega öllu sem viðkemur ákvörðun Kevin Durant að fara til Warriors í fyrra, áhrifum ákvörðunar hans á bæði Oklahoma og Golden State og um það bil þrjú þúsund aðra misáhugaverða hluti.

Eins og venjulega, leggjum við málin í ykkar hendur, kæru lesendur. Við treystum ykkur til að taka skynsamlegar ákvarðanir og fara ykkur ekki að voða í þessu.

Jæja, allir klárir? Ókei. Keyrum þá bara á þetta saman.

Fyrsta málið sem okkur langar að tækla í þessu margþætta uppgjöri okkar við leiktíðina 2017, er málið sem flestir sem fylgjast með NBA deildinni hafa myndað sér skoðun á, hvort sem hún var stór eða lítil.

Þetta er sumsé fíllinn sem er búinn að vera skítandi í herbergið í ellefu og hálfan mánuð - (auðveldlega) umdeildasta atriði ársins í NBA deildinni:

Ákvörðun Kevin Durant að ganga til liðs við Golden State sumarið 2016.

Fjöldi fólks hefur spurt sig að þessu og fjöldi fólks hefur líka spurt okkur beint að þessu: Af hverju?Auðvitað er NBA Ísland með svarið handa ykkur, til þess erum við, en við fórum að sjálfssögðu ekki beinu leiðina til að afla þess; tókum bara upp símann og hringdum í Kevin Durant eða fórum bara í heimsókn til hans í kaffi og kleinur. Þið vitið að þetta virkar ekki þannig - og ef þið vitið það - vitið þið líka að það kemur ekki eitt einasta satt orð út úr kjaftinum á atvinnuíþróttamönnum í viðtölum ef þeir eru spurðir spurninga sem eitthvað vit er í. Þannig er bransinn bara, því miður.*

Og þess vegna er miklu, miklu skemmtilegra fyrir ykkur að lesa svörin sem við gefum ykkur við spurningunni heldur en nokkurn tímann að hlusta á Durant sjálfan ljúga einhvern fjölmiðlamanninn stútfullan af útursnúningum og klisjum. Gleymdu því! Það er ekkert varið í það! Miklu betra að treysta á Íslandið sitt.





















Flest ykkar vita hvernig vistaskipti Kevin Durant komu til, en fyrir þau ykkar sem eruð ekki með það á hreinu, var fólk ekki brjálað út í Durant fyrir það eitt að fara frá Oklahoma. Jú, jú, fólkinu sem var búið að styðja við bakið á honum í öll átta árin sem hann spilaði í borginni sárnaði þetta auðvitað og hluti af því mun baula á hann þangað til hann drepst.

En rétt eins var með og ákvörðunar-klúðrið hjá LeBron James á sínum tíma, hefði Durant getað komið mun færra fólki í vont skap ef hann hefði haft manndóm í sér til að ganga frá málum sínum eins og maður en ekki eins og gunga.

Sú staðreynd að Durant hafði ekki kjark til að segja meðstirni sínu Russell Westbrook frá ákvörðun sinni auglitis til auglitis - og ekki einu sinni með símtali - heldur bara með kjarklausu sms-i og gott ef það kom ekki eftir að allir voru búnir að frétta þetta allt saman hvort sem er. Við munum það ekki, enda skiptir það engu máli.

Durant einfaldlega skeit á bitann í þessu máli og svona viðskilnaður þykir okkur satt best að segja ekki sýna merki um mikinn þroska eða vandaðan karakter.

Við tökum þó fram og ítrekum, að við höfum að sjálfssögðu engan veginn efni á að dæma annað fólk þó við séum alltaf að gera það.

Þessir fordómar okkar út í manneskju sem er búin að láta meira gott af sér leiða en við munum gera alla okkar ævi, er líka gott dæmi um þann karakter sem við höfum að geyma. Gleymum því ekki.

Við mannfólkið höfum öll einhverja vankanta og galla, enda væri lífið nákvæmlega ekkert gaman ef allir væru fullkomnir!

Þá yrði lífið allt bara eins og þýsk fræðslumynd um frjósemirannsóknir á landsvæðum með krefjandi kolefnabindingar í krítísku hlutfalli koðnandi karbónatmagns við kjörvaxtarskilyrði keisaramörgæsa.

Annað atriði við flutninginn hans Durant fór þvert ofan í líklega 99% af fólki sem hafði skoðun á málinu yfir höfuð, en það var auðvitað ákvörðun hans að ganga til liðs við klúbbinn (Golden State) sem var nýbúinn að slá liðið hans Durant (Oklahoma) út í oddaleik í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar.

Við gerum viljandi lítið af því að vitna í oflátunginn Stephen A. Smith á sjónvarpssviði ESPN, en hann hefur allar götur síðan í fyrra kallað þetta aumustu félagaskipti sem hann hafi orðið vitni að í atvinnuíþróttum á sínum langa ferli sem fjölmiðlamaður.

Og það er ekkert skrum að kalla þetta hin aumustu félagaskipti, því svona gera menn eiginlega ekki í NBA deildinni. Ekki alveg svona gróft. Durant gæti vel mögulega verið búinn að setja heimsmet í vandræðalegum augnablikum á síðustu tólf mánuðum.


Gamlir karlar og útbrunnar stjörnur hafa alla tíð stundað það á efri árum sínum í deildinni að stökkva yfir í lið sem þeim þykja líklegir kandídatar í að vinna meistaratitil eða tvo, sérstaklega ef umræddri stjörnu hefur ekki tekist að vinna meistaratitil á ferlinum.

En að menn í blóma körfuboltalífsins - á hátindi frægðar sinnar og getu - skuli fara úr liði sem var árviss kandídat í að berjast um titilinn (þó það væri aldrei beinlínis sterkasti kandídatinn, var það alltaf með í umræðunni ef Westbrook og Durant (og Ibaka) voru heilir heilsu) og yfir í lið sem:

A) var nýbúið að slá liðið hans Durant út úr úrslitakeppninni í epískri seríu, þar sem Oklahoma komst meira að segja yfir 3-1 og aðeins skita - meðal annars hjá Durant - varð þess valdandi að Oklahoma sat eftir með sárt ennið en Golden State fór í úrslit.

Wednesday, May 11, 2016

Stórkostlegur Stephen Curry


Við gleymum því aldrei þegar Dallas-maðurinn Dirk Nowitzki tók við MVP styttunni sinni á blaðamannafundi árið 2007. Nowitzki brosti ekki mikið á fundinum, því tólf dögum áður, hafi 67 sigra Dallas-liðið hans látið liðið í áttunda sæti (Golden State) slá sig út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð. 

Þetta voru ein óvæntustu úrslit í sögu úrslitakeppninnar og Nowitzki vissi það. Þetta var rosalega átakanlegur fjölmiðlafundur, þó Þjóðverjinn og allir sem á honum sátu reyndu að gera gott úr öllu saman. Dirk vissi að hluti af þessari katastrófu skrifaðist á hann, sem stórstjörnu Dallas, þó líklega hafi þjálfarinn hans Avery Johnson átt þar stærri hlut að máli. 

MVP-inn sem gat ekki einu sinni drullast til að koma liðinu sínu upp úr fyrstu umferðinni. 
Hnuss! Það var meiri andskotans MVP-inn, sögðu menn hneykslaðir. 

Það tók Nowitzki fjögur ár að hrista þennan apa af bakinu á sér og fólk myndi horfa talsvert öðrum augum á feril hans ef hann hefði ekki unnið titilinn með Dallas fjórum árum síðar.

Það hefur sem sagt ekki alltaf hitt vel á þegar menn taka við styttunni frægu. Þetta er ekki eintómar blöðrur og leikir. 

NBA deildin getur verið svo vægðarlaus og grimm og er enginn staður fyrir veiklunda einstaklinga.

Svo koma menn eins og Stephen Curry. Þessi Curry, sem í gær bauð upp á eitthvað sem segja má að hafi verið algjör andstæða þess sem Nowitzki upplifði árið 2007. 

Sem sagt að sýna þeim sem kusu hann MVP fram á að þeir hefðu ekki gert nein mistök (já, við vitum að deild og úrslitakeppni er ekki það sama, en þetta tengist allt hugmyndafræðilega). Þið eruð öll búin að lesa um það, eða voruð svo heppin að sjá það, hvernig Curry sneri aftur eftir hálfsmánaðar hlé vegna meiðsla og skaut Portland gjörsamlega í kaf í fyrrakvöld. 

Hvernig hann hitti ekki úr fyrstu tíu þristunum sínum, en skoraði svo sautján stig í framlengingunni þar sem Golden State allt nema kláraði seríuna með því að ná 3-1 forystu og fá tækifæri til að loka þessu á heimavelli í næsta leik.


Við gerðum ítarlega og hávísindalega könnun á þessu málefni og niðurstöðurnar voru eftir bókinni: Það er ekki hægt að setja punktinn öllu betur yfir i-ið kvöldið áður en þú ert kjörinn leikmaður ársins. Í stuttu máli sagt: Það er ekkert hægt.

Og það er svo margt sem er ekki hægt við þennan blessaða dreng. Til dæmis sú staðreynd að ekkert okkar áttaði sig á því hversu banvænn sóknarmaður hann gæti orðið, af því ekkert okkar var nógu galið til að sjá fyrir sér að nokkur körfuboltamaður myndi reyna að gera það sem Curry er búinn að vera að gera undanfarna mánuði. Það væri líklega hægt að veggfóðra Þjóðarbókhlöðuna með töflum og gröfum af afrekum hans í vetur.



















Við erum búin að skrifa mikið um Stephen Curry í vetur og munum halda því áfram á meðan drengurinn heldur áfram að ögra öllu sem heitir rökvísi þegar kemur að sóknarleik í körfubolta. Þetta gerum við í trássi við eitthvað af lesendum okkar, en það besta við NBA Ísland er að það þarf enginn að lesa neitt sem hann vill ekki lesa hér á síðunni.

Veistu samt hvað? Það eru yfirgnæfandi líkur á að þú sért að fylgjast með kolvitlausu sporti ef þér er það mjög á móti skapi að Stephen Curry skuli vera að fá umfjöllun í ljósi þess hvað hann er að gera. Ef svo er, ættirðu kannski að halda þig við skák og skotveiði. Eða bara ef þú ert á móti Curry yfir höfuð! 

Hvers konar manneskja ertu ef þú ert með leiðindi út í mann eins og Curry, svona í alvöru? Er kannski ekki allt í lagi heima hjá þér? Er kannski bara ekki í lagi með þig yfir höfuð? Og verður þessi mynd af MVP-inu að taka af sér sjálfu, hallærislegri en broddar og sítt að aftan eftir 20 ár?



Við vissum öll að Curry yrði valinn maður ársins og það eina sem okkur vantaði að vita í gær var hvort hann yrði valinn einróma eður ei. Og auðvitað fékk hann fullt hús og einróma kosningu, það var bara eftir bókinni. Okkur er eiginlega skítsama um hvort hann vann einróma eður ei, það pælir enginn í því eftir nokkur ár.

Það sem var óhjákvæmilegt eftir þessa niðurstöðu, var að einhver eldflaugaverkfræðingurinn ætti eftir að reyna að drulla yfir þessa velgengni hjá Curry.  Við þurftum ekki að bíða lengi, því Té-Mákur Tracy McGrady lýsti því yfir að þó Curry hefði staðið sig vel í vetur, væri þessi einróma kosning til marks um að deildin væri að þynnast þegar kæmi að stórstjörnum. Really, Té-Mákur?

Svona bull er ekki svaravert. Eða finnst þér efstu kapparnir í MVP-valinu vera svona lélegir?



Jú, jú, Curry þurfti ekki að keppa við Jordan, Bird eða Magic þegar kom að kapphlaupinu um titilinn leikmaður ársins, en höfum í huga að hann er nú til dæmis búinn að hirða þessa nafnbót tvisvar sinnum af fjórföldum MVP-hafanum LeBron James á meðan sá er enn á hátindi ferils síns. 

Nær undantekningalaust, hafa leikmennirnir sem voru kjörnir leikmenn ársins í NBA deildinni verið valdir af því liðið þeirra náði framúrskarandi árangri á tímabilinu. Við megum því alls ekki gleyma þætti liðsfélaga hans í þessum verðlaunum og eins og búast mátti við, var Curry ekki spar á hrósið til félaga sinna í þakkarræðu sinni í gær.

Við skulum samt átta okkur á því að án Curry er Golden State ekki annað en gott körfuboltalið, en með hann innanborðs, er það eitt besta lið sem við höfum séð. 

Og hann hefði ekki getað undirstrikað það öllu betur en hann gerði á skotsýningunni sinni í Portland í fyrrakvöld, þar sem stórleikur hans á ögurstundu sneri einvíginu algjörlega Warriors í hag.

Ef Golden State hefði tapað fjórða leiknum og staðan því orðin jöfn 2-2, hefði verið ljóst að liðið þyrfti sex eða jafnvel sjö leiki til að klára seríuna með öllum þeim barningi sem því fylgir.*

En Curry sá til þess að núna er ekki annað en formsatriði fyrir Golden State að klára einvígið á heimavelli í nótt (11. maí kl. 02:30 á NBATV). 

Hann er bara svona góður og virðist staðráðinn í að halda áfram að bæta sig. Og ekki ætlum við að veðja á móti honum. Það hafa nógu margir farið flatt á því.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------



* - Það er alveg bráðnauðsynlegt að taka fram hvað Portland-liðið er búið að standa sig frábærlega í þessari úrslitakeppni. Jú, jú, þeir voru heppnir að Clippers-liðið vængbrotnaði á báðum í fyrstu umferðinni, en þeir gerðu vel í að klára það verkefni og hafa svo staðið rækilega í meisturunum í annari umferðinni.

Við vitum að það er rosalega þreytt klisja að tala um einhverja móralska sigra þegar litlu liðin eru að stríða þeim stóru í úrslitakeppni, en Portland er nú samt búið að standa sig óhemju vel og hefði með smá heppni getað tekið fjórða leikinn og jafnað einvígið.

Það er fullt af risavöxnum götum í þessu Portland-liði og þó það hafi tekið smá Kamerún á þetta í vetur og vor, skulum við varast of mikla bjartsýni þegar kemur að nánustu framtíð. Staðreyndin er sú að Portland vantar talsvert sterkari leikmenn en það hefur núna til að taka næsta skref í úrslitakeppninni, en við skulum ekki loka hurðinni á þá. 

Það er metnaður í Portland-mönnum, en þeir eiga vandasamt verkefni fyrir höndum að koma liðinu upp úr krúttflokknum og í alvöruna.


Friday, January 29, 2016

Tímamót


NBA Stjörnuleikurinn árið 2016 fer fram í Toronto á Valentínusardaginn, þann 14. nóvember næstkomandi. Þetta er vitanlega sunnudagur. Það sem er sérstakt við þennan leik og í rauninni merkilegast af öllu, er að það verður í fyrsta skipti síðan árið 1997 sem hvorki Tim Duncan né Dirk Nowitzki tekur þátt í Stjörnuleiknum í NBA.

Önnur gömul stjarna, Kobe Bryant, fékk að lafa inni í leiknum á lokaárinu sínu út á vinsældir sínar, því auðvitað hefur hann ekkert í leikinn að gera hvað spilamennskuna hans í vetur varðar.

Já, þetta eru sannarlega tímamót. Við sjáum engan þeirra í næsta Stjörnuleik. Svona verða kynslóðaskiptin í þessu eins og öðru. Við erum að fara að kveðja nokkrar af stærstu goðsögnum leiksins eftir eitthvað sem við mælum líklega í mánuðum en ekki árum.

Wednesday, January 13, 2016

NBA Ísland skoðar einstaka körfuboltamenn


Frávik eru nauðsynleg í samfélagi okkar fullyrti franski félagsfræðingurinn Émile Durkheim fyrir meira en hundrað árum síðan. Enski náttúrufræðingurinn Charles Darwin talaði líka um annars konar frávik - skrímsli og ýmis konar vanskapnað - sem hefur áhrif á þróun dýrategunda. Við mannfólkið erum jú ekkert annað en dýr. Þetta eru merkileg fræði þó ólík séu, frá tveimur af skörpustu hugsuðum nítjándu aldarinnar.

Nú voru þeir Darwin og Durkheim ekki svo heppnir að geta fylgst með NBA körfuboltanum, en okkur verður stundum hugsað til þeirra þegar við fylgjumst með Leiknum í dag. Það er nefnilega eins með körfuboltamenn og annað fólk - það má finna skrímsli í þeirra röðum og það má alltaf koma auga á einhverja þróun í bæði leiknum og mönnunum sem spila hann.

Þeir sem lesa NBA Ísland reglulega muna eflaust eftir því að við höfum átt það til að skrifa um sérstaka tegund leikmanna sem við köllum fyrirbæri. Sumum finnst þetta kannski ljótt orð til að lýsa körfuboltamönnum, en trúið okkur, við meinum ekkert illt með því - þvert á móti. Við köllum nefnilega ekki hvern sem er fyrirbæri. Ó, nei.






(Mynd: Lakers miðherjarnir Kareem Abdul-Jabbar, Shaquille O´Neal og George Mikan)

Ástæðan fyrir því að við erum að hugsa um fyrirbæri núna er sú að þegar við vorum að hugsa um eitt þeirra um daginn, flaug okkur í hug að líklega væru fleiri fyrirbæri í NBA deildinni í dag en nokkru sinni fyrr. Og til að færa rök fyrir því, er upplagt að útskýra fyrir ykkur hvað við meinum með orðinu fyrirbæri, greina frá sögu þess og segja ykkur loks frá fyrirbærum dagsins í dag.

Fyrirbæri er í stuttu máli sá körfuboltamaður sem skarar fram úr keppinautum sínum með líkamlegum yfirburðum sínum og/eða hreinum hæfileikum. Flest fyrirbærin hljóta þá nafngift hjá okkur af því þau eru stærri, sterkari, fljótari, fjölhæfari eða hæfileikaríkari en flestir ef ekki allir mótherjar þeirra á körfuboltavellinum.

Eins og þið getið ímyndað ykkur, er enginn á ritstjórn NBA Ísland sem fór á NBA leiki fyrstu áratugina sem deildin var í gangi og því verðum við að styðjast við ritaðar heimildir í leit að fyrirbærum eins og öllu öðru sem átti sér stað um og eftir miðja síðustu öld.

Líklega eru flestir sammála um að fyrsta fyrirbærið í sögu NBA deildarinnar hafi verið George Mikan.  Miðherjinn Mikan teldist sannarlega ekki mikið fyrirbæri í NBA deild dagsins í dag, enda ekki nema 208 sentimetrar á hæð - hvítur og luralegur náungi með gleraugu.

Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar var Mikan hinsvegar hinn eini sanni risi deildarinnar og var margfaldur stigakóngur og meistari með forvera Los Angeles Lakers í Minneapolis. Mikan var kallaður Herra Körfubolti og sjá má styttu af honum fyrir utan heimahöll Minnesota Timberwolves.

Við gætum haldið langan fyrirlestur um Mikan og þau áhrif sem hann hafði innan og utan vallar, en það sem skiptir mestu máli hvað fyrirbærafræðina varðar var að Mikan var það áhrifamikill í teignum að gerðar voru reglubreytingar út af honum.

Það eru góðar líkur á því að þú sért fyrirbæri ef þarf að breyta reglunum út af þér og það er engin tilviljun að miðherjarnir sem komu á eftir Mikan og höfðu þessi áhrif á reglurnar, fá líka á sig fyrirbærastimpilinn hjá okkur.



Næsta fyrirbæri á blaði hjá okkur kom ekki inn í NBA deildina fyrr en nokkrum árum eftir að Mikan hætti, en það var Wilt Chamberlain - mögulega fyrirbæri allra fyrirbæra.

Við höfum skrifað um Wilt áður og minnum ykkur á að þessum pistli er ekki ætlað að vera ævisaga mannanna sem fjallað er um, en Wilt er á þessum lista - og mögulega á toppnum - af því hann var fullkomlega óstöðvandi körfuboltamaður, líkamlegt og íþróttafræðilegt undur sem NBA deildin var hreinlega ekki tilbúin að taka á móti þegar hann kom til sögunnar í upphafi sjöunda áratugarins.

Wilt er eini maðurinn sem hefur skorað 100 stig í einum leik í NBA deildinni og hann er eini maðurinn sem hefur skorað 50 stig að meðaltali í leik í NBA deildinni.

Hann á flest met NBA deildarinnar í stigaskorun og fráköstum, en hann leiddi deildina líka einu sinni í stoðsendingum bara af því hann langaði að prófa það. Wilt var magnaður alhliða íþróttamaður og var frambærilegur bæði í blaki og frjálsum íþróttum á sínum tíma.

Svo skemmir það ekki fyrir goðsögninni Chamberlain að hann var sagður hafa átt bólfélaga sem skiptu þúsundum, hann spilaði einu sinni meira en 48 mínútur að meðaltali í leik yfir heila leiktíð, hann tróð einu sinni bolta með mann hangandi í honum og á að hafa fótbrotið annan mann af því hann tróð boltanum svo fast ofan á aðra löppina á honum.

Wilt Chamberlain gjörsamlega dómíneraði NBA deildinni allan sjöunda áratuginn og fram á þann áttunda og enginn leikmaður fyrr eða síðar hefur gert eins miskunnarlausar árásir á tölfræðiskýrslur í sögu körfuboltans.

Já, góðir hálsar. Wilt Chamberlain var fyrirbæri. Kannski fyrirbæriÐ.



Næstu tvö fyrirbæri á blað hjá okkur verða einfaldlega að fara þangað af því þau voru svo fáránlega góð í körfubolta, en það vill reyndar svo skemmtilega til að þau voru einu sinni saman í liði. Þetta eru Lew Alcindor, síðar Kareem Abdul-Jabbar og félagi hans Oscar Robertson.

Kareem er að mörgum talinn besti miðherji allra tíma í NBA deildinni og var sexfaldur meistari, sexfaldur leikmaður ársins og er stigahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi með 38.387 stig.

Punkturinn yfir i-ið hjá Kareem var svo einkennismerkið hans, sveifluskotið, sem gerði hann að óstöðvandi sóknarmanni. Hann upplifði það líka að reglunum í leiknum var breytt út af yfirburðum hans á vellinum.

Liðsfélagi Jabbars (um hríð hjá Milwaukee Bucks), Oscar Robertson, var annars konar fyrirbæri, en hann er fyrsti maðurinn á lista okkar sem var ekki miðherji.

Robertson var bakvörður sem er frægastur fyrir fjölhæfni sína á vellinum, enda  er hann eini maðurinn sem hefur verið með þrefalda tvennu að meðaltali í leik yfir heilt tímabil í NBA deildinni.

Robertson var framúrskarandi körfuboltamaður á öllum sviðum. Hann hafði alla kosti sem góðir bakverðir þurfa að hafa, en var ofan á það sterkur eins og ljón og frákastaði eins og stór maður.

Saturday, September 5, 2015

Siglt inn í söguna


Nú standa yfir merkustu tímar í sögu boltaíþrótta á Íslandi, þar sem karlalandsliðið í knattspyrnu er við það að feta í fótspor kvennaliðsins og tryggja sér sæti á stórmóti og karlalandsliðið í körfubolta er þegar komið á stórmót.

Það var einmitt í dag sem strákarnir í körfuboltalandsliðinu þreyttu frumraun sína á stórmóti, þegar þeir töpuðu naumlega fyrir Þjóðverjum 71-65 í opnunarleik B-riðils Evrópumótsins í Berlín. Eins og tölurnar bera með sér, var munurinn á liðunum ekki mikill í leiknum þó heimamenn væru skrefinu á undan frá fyrstu mínútu.

Oft er það smá skammtur af heppni sem fleytir liðum yfir síðustu hindranirnar þegar þau ná árangri. Gott dæmi um það er Hollandsleikur knattspyrnulandsliðsins ytra á dögunum. Þar duttu nokkur atriði með íslenska liðinu sem höfðu úrslitaáhrif á leikinn. Meiðsli lykilmanns, rautt spjald og vítaspyrnudómur. Svona atriði duttu aldrei með íslenska landsliðinu hér áður, en nýleg dæmi sýna svo ekki verður um villst að lið skapa sér heppni sína mikið til sjálf.

Ástæðan fyrir því að við minnumst á þessa heppni er að ef körfuboltastrákarnir hefðu verið með slíka heppni með sér í Berlín í dag, hefðu þeir getað stolið leiknum og skrifað nýja kafla í körfuboltakatalógana.

Þýska liðið náði nokkrum sinnum yfir 10 stiga forystu í leiknum og virtist algjörlega með leikinn í hendi sér eftir þrjá leikhluta. En eins og í fyrri hálfleiknum, náði íslenska liðið smá áhlaupi og náði að minnka muninn í sex stig þegar skammt var eftir.

Ef áðurnefnd heppni hefði verið með okkur, hefðu skotin hans Jóns Arnórs á þeim tímapunkti dottið niður og við hefðum ekki tapað boltanum í sókninni á eftir. Þjóðverjarnir gáfu okkur séns á að stela þessu í lokin, en það hafðist ekki að þessu sinni.

Auk þess að vera án heppninnar í leiknum, hefði íslenska liðið líka þurft að fá meira sóknarframlag frá mönnum eins og Pavel og Loga.


Þá gengur einfaldlega ekki að skjóta 55% úr vítum í svona leik og verða af 10 stigum á þeim bænum. Það var eflaust þarna sem taugatitringurinn kom best í ljós og við verðum sennilega að fyrirgefa þetta í ljósi þess hve risavaxið verkefnið var.

Það getur komið fyrir á bæstu bæjum að klikka á vítum - meira að segja Dirk Nowitzki klikkaði á tveimur vítum í röð, sem gerist á tíu ára fresti.

Já, Dirk Nowitzki. Þeir voru að spila við Dirk Nowitzki...

Það má vel vera að þú trúir ekki á móralska sigra í körfubolta, að tap sér alltaf tap, alveg sama hvernig á það er lítið - sama hvort það er með tveggja stiga mun eða fjörutíu stiga mun.

Stundum erum við hérna á ritstjórninni svona neikvæð og svartsýn á hlutina, en okkur dettur ekki í hug að vera það þegar kemur að landsliðinu okkar - sérstaklega eftir frammistöðu eins og þessa sem við fengum í Berlín í dag.

Strákarnir eiga hrós skilið fyrir frammistöðuna í dag. Þeir börðust auðvitað eins og ljón, skárra væri það nú, en það sem okkur fannst merkilegra var að þeir létu tilefnið ekki stíga sér til höfuðs.

Reyndasti leikmaður liðsins Jón Arnór Stefánsson viðurkenndi að hann hefði aldrei verið eins taugatrekktur fyrir nokkurn leik og hann var í dag. Það var sannarlega ekki að sjá á honum, enda átti drengurinn frábæran leik og var besti maður vallarins að okkar mati.

Það er með endemum að leikmaður í þessum gæðaflokki skuli vera samningslaus. Hann nær að standa upp úr og skína gegn hvaða mótherjum sem er.

Jón er í Evrópuklassa og myndi sóma sér vel með hvaða liði sem er. Við höfum haldið því fram í tíu ár að hann ætti fullt erindi inn í NBA deildina, því hann er betri en margir bakverðir sem eru með vinnu þar.

Næsta verkefni á dagskrá hjá landsliðinu er Ítalía annað kvöld klukkan 16:00. Þetta er sunnudagurinn 6. september 2015, nánar tiltekið. Þar gildir að gleyma leiknum í dag, þó bragðið í munninum eftir hann sé súrt.

Það má reikna með því að lykilmenn liðsins verði þreyttir og eftir sig á morgun en það verður bara að hafa það. Því ekki að fara dýpra á bekkinn eftir því sem líður á mótið? Allt sem við gerum á þessu
móti er að vinna - pressan er engin, við erum að spila með peninga hússins.

Mikið óskaplega er það sérstakt en um leið gaman fyrir okkur öll - boltafólkið - að fá að upplifa svona spennandi tíma. Fyrir tíu árum síðan hefði enginn ódrukkinn maður spáð því að landsliðin okkar hefðu náð öðrum eins árangri og þau eru að sýna þessa dagana.

Því er vægast sagt súrrealískt að vera að horfra upp á BÆÐI fótboltann (væntanlega) og körfuna í Öskubuskuævintýrum á sama tíma.

Því er ekki úr vegi að hvetja fólk til að gleyma ekki að staldra aðeins við og þefa af blómunum í allri þessari hamingju. Gefum okkur tíma til að njóta þessara spennandi tíma. Þessi helgi er risavaxin og við skulum öll reyna að fá sem mest út úr þessu ævintýri.

Tuesday, October 7, 2014

Fyrirsögn sem gefur til kynna að þrír menn varpi körfuboltum gjarnan í körfur með ágætum árangri


Gissur Gullrass á Grantland skrifaði stutta hugleiðingu um það sem hann telur bestu skytturnar í NBA deildinni. Fínt hjá honum. Eina ástæðan fyrir því að við minnumst á þetta er að okkur langar svo að sýna ykkur grafíkina sem fylgdi með og taka kredit fyrir hvað hún er sniðug og hugguleg. Það nær ekki nokkurri átt hvað Dirk er skotviss. Ekki halda að þetta sé eitthvað eðlileg tölfræði sem maðurinn er að bjóða upp á. Schnauze!




Thursday, June 19, 2014

Monday, June 16, 2014

Wednesday, October 31, 2012

Miklar breytingar hjá Dallas






























Það er erfiður vetur fram undan hjá Dallas þó liðið hafi unnið góðan útisigur á Lakers í fyrsta leik án lykilmanna. Jason Terry er farinn og Dirk Nowitzki missir af fyrstu leikjum tímabilsins. Það gæti orðið til þess að liðið missti keppinauta sína fram úr sér í harðri Vesturdeildinni.

Það er ekkert grín að taka Dirk og Terry út úr samhenginu hjá Dallas. Terry, sem nú er leikmaður Boston Celtics eins og flestir vita, skoraði 267 stig Dallas í fjórða leikhluta á síðustu leiktíð.

Dirk Nowitzki kom fast á hæla honum með 235 stig og það segir þér kannski ekki mikið, en þriðji stigahæsti leikmaður Dallas Mavericks í fjórða leikhluta á síðustu leiktíð var Rodrigue Beaubois með 118. Ansi mikill munur þarna.

Terry og Dirk skoruðu 54 stig á síðustu tveimur mínútum leikja fyrir Dallas á síðustu leiktíð. Næst þar á eftir? Shawn Marion, með 11 stig. Ellefu.

Á síðustu tveimur árum, hafa 67% skota Dallas í krönsinu (innan við tvær mín. eftir og 4 stiga munur í leiknum eða minna) verið tekin af Dirk Nowitzki eða Jason Terry. Og þeir eru báðir mjög hagkvæmir sóknarmenn á tölfræðimáli.

Auðvitað fylla OJ Mayo, Darren Collison og fleiri leikmenn upp í eitthvað af þessu, Dallas er nú einu sinni með einn allra besta þjálfarann í deildinni. Þessi tölfræði sýnir hinsvegar svart á hvítu að breytinga er að vænta hjá Dallas, sérstaklega meðan Nowitzki er frá keppni.

Ef þessar breytingar skila sér ekki, gæti Dallas átt á hættu að missa af úrslitakeppninni í fyrsta sinn í tólf ár. Fátt sem Vince Carter getur gert til að sporna við því.

Monday, July 30, 2012

Dirk í það heilaga


Dirk Nowitzki er ekki vanur að hafa hátt um hlutina.

Nú greina fréttamiðlar frá því að hann hafi skellt sér til Afríku og gengið að eiga unnustu sína Jessicu Olson í heimalandi hennar Kenýa.

Eins og myndin ber með sér er sagt að Þjóðverjinn geðþekki hafi farið alla leið með þetta og brúðkaupið hafi verið að hætti heimamanna.

 Það er orðin tíska að gifta sig árið 2012.

Thursday, March 8, 2012

Dirk Nowitzki spilar körfubolta


Þú mátt endilega láta vita ef þú veist um betri aðferðir við að stöðva Dirk Nowitzki þegar hann er í essinu sínu. Í þessu myndbroti sjáum við Nick Collison og félaga hans í Oklahoma reyna það í fyrrakvöld.

Thursday, January 26, 2012

Sunday, January 1, 2012

Tuesday, December 27, 2011

Saturday, July 9, 2011

Þjóðverji á þjóhnappnum


Þegar fyrsti titillinn kemur í hús eftir áratuga baráttu, er fátt rökréttara en að húðflúra andlitsmynd af tveggja metra háum Þjóðverja á analinn á sér. Þannig er það amk hjá Dallas-stuðningsmanninum Derek Dilday. Svona snillinga á tafarlaust að setja á listamannslaun.

Wednesday, June 29, 2011