Showing posts with label Umgjörð. Show all posts
Showing posts with label Umgjörð. Show all posts

Sunday, November 24, 2013

Töff samantekt hjá Ísfirðingum


Flestum sem búa utan Vestfjarðakjálkans góða, vex það í augum að bruna alla leið á Ísafjörð jafnvel þó gæðakörfubolti sé í boði. Þess vegna er ómetanlegt að fyrir vestan sé metnaðarfullt fólk sem sýnir leiki KFÍ á netinu og tekur svo saman svona fallega pakka handa okkur sem búum í öðru landshlutum, hvort sem það er á Vopnafirði, Djúpavogi, Höfn, Reykjavík, Stykkishólmi, Hvammstanga, Húsavík eða Kópaskeri. Hérna fyrir neðan eru léttar svipmyndir frá leik KFÍ og Grindadvíkur í gær. Þetta er vel gert.

Wednesday, October 30, 2013

Lúxuskvöld í Hafnarfirði


Ungt lið Hauka er án nokkurs vafa eitt skemmtilegasta liðið í Dómínósdeild karla, en það er ekki bara liðið þeirra sem er í blússandi uppsveiflu. Haukarnir slógu nefnilega upp veislu í tilefni tvíhöfðans við Snæfell.

Við erum ekkert að deyja úr hrifningu yfir því að plögga eitthvað dæmi sem snertir okkur ekki beint, en það er ekkert nema sómi af því að Valitor hafi haldið upp á flutning sinn í Hafnarfjörðinn með því að bjóða áhorfendum frítt á tvíhöfðann.

Fyrir vikið var mætingin á leikina til mikils sóma. Við erum ekki með staðfestar tölur um mætinguna, enda skiptir það ekki höfuðmáli. Það sem skiptir máli er að fólk fjölmennti og hvatti bæði stráka og stelpur af miklum móð.

Þá veittum við því athygli að Haukarnir fíruðu líka upp í grillinu og smelltu í nokkra burgers. Vel má vera að þetta hafi oft verið gert á Ásvöllum, en við tókum sérstaklega eftir grillstemningunni í Hafnarfirðinum í kvöld. Þar mátti sjá höfðingja eins og Marel Guðlaugsson munda grilltöngina.

Það er bara eitthvað við andrúmsloftið sem skapast þegar kveikt er í grillinu fyrir leiki og mætingin er góð líkt og oftast er hjá t.d. KR-ingum og Stjörnumönnum, þó mætingin hjá síðarnefnda klúbbnum mætti vera miklu betri.

Við ætlum bara að nota þetta tækifæri og hrósa Haukunum fyrir flotta umgjörð í kvöld. Félagið er vissulega með frábær lið í karla og kvennaflokki, en svona flott umgjörð ber vott um klassa og metnað. Vel gert, Haukar.

Friday, October 12, 2012

Af metnaðarleysi ÍR-inga


Við hérna á ristjórn NBA Ísland reynum yfirleitt að vera jákvæð í bragði þegar við fjöllum um körfuboltann hér heima, þó við eigum til að vera stríðin.

Suma hluti er bara ekki hægt að líta jákvæðum augum. Hluti eins og algjört metnaðarleysi ÍR-inga til að halda uppi lágmarks þjónustu fyrir deildina, stuðningsmennina og blaðamenn.

Það var leikur í Seljaskóla í kvöld og þegar klukkan er farin að ganga ellefu, veit enginn sem ekki fór á leikinn hvernig hann fór. Þetta er útvalsdeildarleikur.

Í desember árið 2010 vöktum við athygli á þessu asnalega máli í færslu hér á vefnum og skoruðum við þá á ÍR-inga og aðra sem væru með netmálin í ólagi hjá sér að laga þau. ÍR-ingar tóku þessi skilaboð ekki til sín þá og eru enn ekki búnir að því.

Hvernig dettur mönnum í hug að reka lið í efstu deild árið 2012 og vera ekki með skothelda nettengingu í húsinu? Þetta er bara fáránlegt. Það er ekki hægt að kalla það neitt annað.

Við höfum ekkert á móti ÍR og eigum ekki að þurfa að taka það fram, það vita allir sem lesa þessa síðu, en nú er komið nóg af þessu bulli. ÍR-ingar verða bara að fá að heyra það núna. Svona rugl gengur ekki.

Reynið að sýna smá metnað og fjósast til að koma þessu í lag. Það duga engar afsakanir lengur.

Mynd/ÍR