Hversu líklegt er að við fáum að sjá Minnesota Timberwolves í úrslitakeppninni í vor? Ekki mjög. Raunar eru betri líkur á því að sjá fljúgandi svín keppa í listdansi á skautum í helvíti en að Úlfarnir komist í úrslitakeppnina. Og það er hæpið að breyting verði þar á á allra næstu árum.
Við verðum reyndar að hafa það í huga að það stóð nú aldrei til hjá Úlfunum að fara í úrslitakeppnina í vor. Hugmyndin var að búa til gott körfuboltalið með þeim Ricky Rubio, Kevin Love og Nikola Pekovic. Þið munið öll hvernig það gekk, svona inn á milli ferða á slysó.
Því var hætt við það allt saman, Ástþór seldur og stefnan sett á að byrja upp á nýtt og byggja upp nýtt lið skipað ungum og efnilegum leikmönnum. Í fimmtánþúsund-sjöhundruðfimmtugasta-
ogáttunda skiptið.
Kannski er þetta að verða dálítið þreytt aðferðafræði, en svona er þetta víst hjá Úlfunum og fólkið í Minnesota virðist hafa keypt þetta plan. Að ættleiða hvolpana efnilegu og styðja þá af stað út í lífið. Að byrja enn og aftur upp á nýtt.
En hvað erum við að tuða um Úlfana núna? Nú þegar félagið er í enn einum öldudalnum, aðeins nokkrum mánuðum eftir að það var einn mest spennandi klúbburinn í NBA. Liðið sem allir fylgdust reglulega með og farið var að valda stuðningsmannaframhjáhöldum og vagnhoppi daglega.
Jú, í því sem við fórum að hugsa um efniviðinn hjá Úlfunum, áttuðum við okkur um leið á því hvað þessir strákar eins og Andrew Wiggins eiga óhemju langt í land áður en þeir búa til lið sem einhver þarf að taka alvarlega. Það þýðir að sama skapi að klúbburinn sem hefur verið lengst allra utan úrslitakeppninnar í NBA, þarf enn að bíða eitthvað lengur.

Aðeins Golden State getur státað af öðrum eins aulagangi, þegar liðið missti af úrslitakeppninni tólf ár í röð frá árinu 1995 til 2007. Fólk gleymir því kannski í allri gleðinni við Flóann í dag, að Warriors var eiginlega ekki búið að gera neitt annað en gera sig að fífli í rúman áratug þegar það svo loksins komst í úrslitakeppnina árið 2006.
Eins og mörg ykkar muna, var það svo reyndar úrslitakeppni fyrir allan peninginn, þegar liðið gerði sér lítið fyrir og sló efsta lið deildakeppninnar út í fyrstu umferðinni (Dallas, sem vann hvorki meira né minna en 67 leiki í deildakeppninni þann veturinn).

Eruð þið búin að gleyma því hvernig Minnesota var mannað þegar það fór síðast í úrslitakeppni? Og munið þið hverjir mótherjar þess voru? Hafið ekki áhyggjur, við erum hérna til að hjálpa þeim sem muna þetta ekki.
Minnesota-liðið árið 2004 gerði nefnilega miklu meira en að komast í úrslitakeppnina. Það fór alla leið í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar þar sem það þurfti reyndar að láta í minni pokann gegn pappírs-pésunum í Los Angeles Lakers.
Úlfarnir voru með gríðarlega öflugt lið þarna fyrir tíu árum síðan og unnu 58 leiki í deildakeppninni, sem er langbesti árangur í sögu félagsins. Fjögur bestu árin hjá Úlfunum voru árin 2000 (50 sigrar), 2002 (50 sigrar), 2003 (51 sigur) og téð 2004 (58 sigrar).
Minnesota er eitt af yngstu félögunum í NBA deildinni og var ekki stofnað fyrr en 1989. Fyrstu árin í deildinni voru skiljanlega ansi mögur, þar sem liðið var að vinna 15-20 leiki, en svo fór ástandið hægt og bítandi að skána.