Showing posts with label Kevin Garnett. Show all posts
Showing posts with label Kevin Garnett. Show all posts

Sunday, January 4, 2015

Erfiður áratugur hjá Úlfunum


Hversu líklegt er að við fáum að sjá Minnesota Timberwolves í úrslitakeppninni í vor? Ekki mjög. Raunar eru betri líkur á því að sjá fljúgandi svín keppa í listdansi á skautum í helvíti en að Úlfarnir komist í úrslitakeppnina. Og það er hæpið að breyting verði þar á á allra næstu árum.

Við verðum reyndar að hafa það í huga að það stóð nú aldrei til hjá Úlfunum að fara í úrslitakeppnina í vor. Hugmyndin var að búa til gott körfuboltalið með þeim Ricky Rubio, Kevin Love og Nikola Pekovic. Þið munið öll hvernig það gekk, svona inn á milli ferða á slysó.

Því var hætt við það allt saman, Ástþór seldur og stefnan sett á að byrja upp á nýtt og byggja upp nýtt lið skipað ungum og efnilegum leikmönnum. Í fimmtánþúsund-sjöhundruðfimmtugasta-
ogáttunda skiptið.

Kannski er þetta að verða dálítið þreytt aðferðafræði, en svona er þetta víst hjá Úlfunum og fólkið í Minnesota virðist hafa keypt þetta plan. Að ættleiða hvolpana efnilegu og styðja þá af stað út í lífið. Að byrja enn og aftur upp á nýtt.


En hvað erum við að tuða um Úlfana núna? Nú þegar félagið er í enn einum öldudalnum, aðeins nokkrum mánuðum eftir að það var einn mest spennandi klúbburinn í NBA. Liðið sem allir fylgdust reglulega með og farið var að valda stuðningsmannaframhjáhöldum og vagnhoppi daglega.

Jú, í því sem við fórum að hugsa um efniviðinn hjá Úlfunum, áttuðum við okkur um leið á því hvað þessir strákar eins og Andrew Wiggins eiga óhemju langt í land áður en þeir búa til lið sem einhver þarf að taka alvarlega. Það þýðir að sama skapi að klúbburinn sem hefur verið lengst allra utan úrslitakeppninnar í NBA, þarf enn að bíða eitthvað lengur.

Minnesota hefur nefnilega ekki komist í úrslitakeppnina síðan 2004 og því verða ellefu ár í vor síðan liðið fékk að spreyta sig á alvörunni. Þetta ku vera næstlengsta lægð þessarar tegundar síðan 16 liða úrslitakeppnin var tekin í gagnið með núverandi fyrirkomulagi árið 1984.

Aðeins Golden State getur státað af öðrum eins aulagangi, þegar liðið missti af úrslitakeppninni tólf ár í röð frá árinu 1995 til 2007. Fólk gleymir því kannski í allri gleðinni við Flóann í dag, að Warriors var eiginlega ekki búið að gera neitt annað en gera sig að fífli í rúman áratug þegar það svo loksins komst í úrslitakeppnina árið 2006.

Eins og mörg ykkar muna, var það svo reyndar úrslitakeppni fyrir allan peninginn, þegar liðið gerði sér lítið fyrir og sló efsta lið deildakeppninnar út í fyrstu umferðinni (Dallas, sem vann hvorki meira né minna en 67 leiki í deildakeppninni þann veturinn).

Það hljómar kannski ekkert svakalega langt, þannig, þessi ellefu ár án úrslitakeppni hjá Úlfunum. En bíðið þið bara.

Eruð þið búin að gleyma því hvernig Minnesota var mannað þegar það fór síðast í úrslitakeppni? Og munið þið hverjir mótherjar þess voru? Hafið ekki áhyggjur, við erum hérna til að hjálpa þeim sem muna þetta ekki.

Minnesota-liðið árið 2004 gerði nefnilega miklu meira en að komast í úrslitakeppnina. Það fór alla leið í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar þar sem það þurfti reyndar að láta í minni pokann gegn pappírs-pésunum í Los Angeles Lakers.

Úlfarnir voru með gríðarlega öflugt lið þarna fyrir tíu árum síðan og unnu 58 leiki í deildakeppninni, sem er langbesti árangur í sögu félagsins. Fjögur bestu árin hjá Úlfunum voru árin 2000 (50 sigrar), 2002 (50 sigrar), 2003 (51 sigur) og téð 2004 (58 sigrar).

Minnesota er eitt af yngstu félögunum í NBA deildinni og var ekki stofnað fyrr en 1989. Fyrstu árin í deildinni voru skiljanlega ansi mögur, þar sem liðið var að vinna 15-20 leiki, en svo fór ástandið hægt og bítandi að skána.

Monday, January 27, 2014

Velkomnir aftur


Kevin Garnett og Paul Pierce fengu konunglegar móttökur þegar þeir sneru aftur í Garðinn sinn í Boston í kvöld. Fallega gert af fólkinu að sýna þeim piltum smá ást eftir titilinn þeirra árið 2008. Svo var Pierce náttúrulega búinn að spila með Boston í 86 ár áður en hann skipti yfir til Nets.

Saturday, November 30, 2013

Að tapa fyrir Kings


Þessar tvær skemmtilegu myndir tók ljósmyndarinn Rocky Widner. Sú fyrri (t.v.) var tekin árið 2003 þegar LeBron James spilaði sinn fyrsta leik í NBA deildinni. Þá tapaði hann fyrir heimamönnum í Kings með liði sínu Cleveland Cavaliers.

Seinni myndin var svo tekin snemma á þessu ári, tæpum tíu árum seinna. Þar er James aftur á flugi en nú með Miami Heat og í þetta skiptið vann hann auðvitað sigur, verandi tvöfaldur meistari og besti leikmaður heims.

Eins og þið sjáið á gólfinu eru báðar myndirnar teknar í Sacramento. Það boðar fátt annað en gott að tapa sínum fyrsta NBA leik gegn Kings á útivelli ef marka má söguna.

Það vill svo skemmtilega til að Kevin Garnett þreytti einnig frumraun sína í Sacramento og mátti hann líka sætta sig við tap.

Ferill miðherjans Sam Bowie var reyndar ekki jafn farsæll. Hann spilaði sinn fyrsta leik á ferlinum gegn Kings árið 1984 en náði aldrei að halda heilsu - var í meiðslaveseni allan ferilinn.

Ætli það hafi ekki verið af því hann vann fyrsta leikinn sinn gegn Kings.

Umrætt tímabil var liðið reyndar ekki komið til Sacramento, heldur var það á síðasta árinu sínu í Kansas sem Kansas City Kings. Félagið var í Kansas á árunum 1972 til 1985.

Árið 1983 spilaði svo skotbakvörðurinn Byron Scott sinn fyrsta NBA leik með Los Angeles Lakers gegn Kings í Kansas. Scott lét sér nægja að setja eina körfu í leiknum, meðan Kareem Abdul-Jabbar (25/10) og Magic Johnson (16/11) drógu vagninn fyrir Lakers.

Þarna eruð þið komin með ágætis trivíu fyrir næsta pöbb kvis. Það var lítið.
























P.s. - Á myndinni hér fyrir ofan sjáið þið goðsögnina Reggie Theus, sem var einn þeirra leikmanna sem fluttu með félaginu frá Kansas alla leið vestur til Sacramento. Þú ert ekkert að hjóla það.

Friday, July 12, 2013

Grænir þakka fyrir sig


Celtics keypti heilsíðu auglýsingu í Boston Globe í dag þar sem félagið þakkar þeim Kevin Garnett og Paul Pierce fyrir vel unnin störf. Þeir félagar eru gengnir í raðir Brooklyn Nets og uppbyggingarstarf því fram undan hjá þeim grænu.


Monday, July 8, 2013

Garnett og fjölskylda í afmæli


Það er ekkert slor að vera frægur. Það þýðir að séu góðar líkur á því að annað frægt fólk bjóði þér í afmælisveislur barnanna sinna.

Þannig var það í Malibu í Kaliforníu um helgina þegar haldið var upp á fimm ára afmæli Levi McConaughey, sonar hjartaknúsarans og Hollywood-leikarans Matthew McConaughey. Meðal þeirra sem mættu í geimið voru Óskarsverðlaunahafinn Sandra Bullock og Garnett-fjölskyldan.

Kevin Garnett, sem nýverið gekk í raðir Brooklyn Nets, er nágranni McConaughey og á dóttur á svipuðum aldri og leikarinn tungulipri. Garnett hefur búið í Malibu á sumrin í meira en áratug.











Saturday, June 29, 2013

Prokhorov bruðlar í Brooklyn:


Þetta er ekki dónalegt byrjunarlið á pappírunum.

Rússinn Mikhail Prokhorov var ekkert að grínast þegar hann keypti Nets árið 2010. Margir hlógu þegar hann sagðist ætla að vinna titil innan fimm ára og það getur vel verið að þeir brosi enn, en þeir eru hættir að hlæja.

Prokhorov er bókstaflega að taka Manchester City-pakkann á þetta og er skítsama um þær óhugnalegu peningaupphæðir sem hann kemur til með að þurfa að greiða í lúxusskatt á næstu árum. Þið vitið að við erum reyndar ekkert rosalega mikið fyrir að velta okkur upp úr peningamálum leikmanna í NBA deildinni - nema þeir séu ekki að vinna fyrir þeim.

Nei, við erum meira fyrir að skoða hvað gerist inni á körfuboltavellinum sjálfum.

Fyrir Boston þýða þessi skipti einfaldlega að það á að fara að byggja allt upp á nýtt og nú er liðið með hvorki meira né minna en sex valrétti í fyrstu umferð nýliðavalsins næstu þrjú ár. Með smá klókindum ætti að fást eitthvað gott fyrir það.

Eina spurningin sem er ósvarað hjá Celtics er hvort Rajon Rondo verður látinn fara líka, en þó hann sé reyndar meiddur enn þá, er hann á fínum samningi og engin ástæða til að hræra í því.

Það er Brooklyn sem er í sviðsljósinu eftir þessi skipti og þó félagið hafi í rauninni haft afar lítið svigrúm til að stokka upp hjá sér, verðum við líklega að taka ofan fyrir forráðamönnum klúbbsins fyrir að prófa þetta djarfa útspil.

Margir vilja gera breytingar bara til að gera breytingar - og óþolinmóðir eigendur sem eru grilljarðamæringar eru sannarlega engin undantekning þar á.

Það er hinsvegar fullkomlega rökrétt að stokka aðeins upp í þessu hjá Nets að okkar mati, því þó liðið hafi bætt sig í deildakeppninni á milli ára, var frammistaða þess óásættanleg í úrslitakeppninni.

Nú er svo komið að Nets hefur losað sig við fáránlegan samninga þeirra Gerald Wallace og Kris Humphries og einnig losað sig við tvo leikmenn sem spiluðu undir væntingum á síðustu leiktíð. Það er í sjálfu sér mjög vel gert, en auðvitað koma himinháir samningar inn í staðinn.

Mestu munar þarna um Paul Pierce sem þénar 17 milljónir dollara næta vetur en þeir Kevin Garnett og Jason Terry eru svo sem ekkert að vinna kauplaust heldur.

En þá er bara stóra spurningin eftir: Verður Brooklyn-liðið betra eftir þessi skipti?

Stutta svarið er já, en hversu mikið betra eigum við alveg eftir að sjá.

 Ef marka má úrslitakeppnina í vor, er ekkert rosalega mikið eftir á tanknum hjá þeim Garnett og Pierce og Jason Terry fékk hvað eftir annað að koma inn á hjá Boston þó hann væri látinn.

Þeir KG og Pierce verða 37 og 36 ára gamlir þegar leiktíðin hefst í haust og eru því augljóslega löngu komnir af léttasta skeiði. Spurningin er bara hversu vel þeir ná að mótívera sig í vetur.

Þeir hljóta að geta keyrt sig upp á því að Boston hafi dissað þá og ekki kært sig um starfskrafta þeirra. Það má vel vera að þeir félagar hafi verið sprækari, en þeir geta samt kennt sekkjunum hjá Nets eitt og annað .

Til dæmis koma þeir með leiðtogahæfileika, drápseðli og dugnað inn í dæmið - og ef allt gengur upp - kenna þeir þessum skussum kannski að vinna körfuboltaleiki.

Keppnin í Austurdeildinni verður væntanlega mun harðari næsta vetur en hún var í ár.

Miami-skrímslið verður á sínum stað, unglingarnir hjá Indiana verða bara betri og endurheimta Danny Granger (eða fá einhvern í hans stað) og endurkoma Derrick Rose lyftir Chicago úr meðalmennskunni í keppnina á toppnum.

Það er því ljóst að Brooklyn-liðið þarf að slípast vel saman og halda heilsu í vetur ef það á að ná sér í góða stöðu fyrir úrslitakeppnina. Svo má auðvitað ekki gleyma því að þjálfari liðsins hefur ekki hugmynd um hvað hann er að gera, af því hann hefur aldrei þjálfað áður.

Jason Kidd er klár strákur og er með góða aðstoðarmenn, en það verður sannarlega forvitnilegt að sjá hvernig honum tekst að ná sambandi við jafnaldra sína frá Boston. Ráðning Kidd var stórfurðuleg, en það getur vel verið að þessi áhætta borgi sig líkt og var með Mark Jackson hjá Warriors.

En svo er hinn möguleikinn. Að þetta springi allt í andlitið á þeim. Það þarf nú ekkert að pína Deron Williams í að láta reka þjálfarana sína eins og þið vitið - hann er þegar með þrjú nöfn á samviskunni þessi fitubolla.

Svo er það stór spurning í okkar huga hvernig kemistríið á eftir að verða í þessu liði. Þarna er hellingur af egói, reynslu og skoðunum - stýrt af manni sem hefur enga reynslu af þjálfun.

Hmmm.

Brooklyn er sem fyrr að reyna að hlaða í titil strax, verkefni sem er nær ómögulegt nema vera með hárréttan mannskap, þjálfara og fullt af heppni. Segðu hvað sem þú vilt um þessa kostnaðarsömu aðferðafræði Prokhorov, það verður ekki tekið af honum að hann hefur að minnsta kosti kjark til að reyna að gera eitthvað og setur um leið smá púður í þetta karlinn.

Friday, February 8, 2013

KG í 25k


Við þolum ekki Kevin Garnett, en það þýðir ekki að við berum ekki virðingu fyrir honum. Þetta frábæra myndskeið fangar augnablikið svo skemmtilega þegar hann komst í úrvalshóp leikmanna sem skorað hafa 25 þúsund stig í NBA deildinni.


Sunday, June 17, 2012

NBA Ísland fer í tilfinningamotocross með Celtics:


Það hljómar líklega illa í eyru bæði stuðningsmanna og fjandmanna liðsins, en Boston Celtics átti - afsakið orðbragðið - helvíti gott ár.

Af þessu tilefni er ekki úr vegi að taka smá Boston-rússíbana. Bölva liðinu og blessa það til skiptis. Lestu endilega áfram.

Stuðningsmenn Boston eru ósáttir af því það munaði svo litlu, fjandmenn Boston eru reiðir yfir því hve langt liðið komst og aðrir af því Boston rústaði hjá þeim brakketinu.

Það eru líklega bara svona hlutlausir sveppir eins og við sem getum hrósað Celtics fyrir árið 2012.

Við munum ekki hvenær við afskrifuðum Boston í titilbaráttu, en það eru örugglega mörg ár síðan.

Úrslitakeppnin í Austurdeildinni missti talsverðan sjarma þetta árið þegar Chicago lenti í öllum þessum meiðslum, en áfram mallaði Boston eins og af gömlum vana - þó heilsa manna þar á bæ væri sannarlega ekki með besta móti.

Það er skondið að bera saman lið Celtics í dag og liðið eins og það var þegar þeir Bird, McHale og Parish voru komnir á felguna. Meiðsli settu sinn svip á liðið, menn voru komnir af léttasta skeiði, en stoltið, hjartað og kunnátan voru enn til staðar.

Þannig er það með Celtics árið 2012. Margir hata þetta lið bara af því þetta er Boston, aðrir af því liðið spilar stundum leiðinlegan bolta og einhverjir af því nokkrir af lykilmönnum liðsins hreinlega biðja um að vera hataðir.

Þrátt fyrir að vera nokkuð hlutlaus þegar kemur að NBA deildinni, verðum við að viðurkenna að Boston fer stundum óhugnarlega í taugarnar á okkur.

Það endurspeglast mest í þeim Kevin Garnett og Paul Pierce. Þeir geta farið rosalega í taugarnar á okkur. Þetta á við um alla með tölu hér á ritstjórninni.

Paul Pierce fer í taugarnar á okkur á krúttlegan hátt. Hann er með pirrandi rödd, pirrandi líkama, pirrandi leik, pirrandi svægi og - satt best að segja - alveg hrottalega leiðinlegan leik.

Athugaðu að það þýðir alls ekki að við berum ekki virðingu fyrir honum. Pierce var alltaf góður leikmaður, en hann fór upp um klassa þegar hann sýndi hvað hann gæti á stóra sviðinu árið 2008.

Síðan hefur hann verið ískaldur slúttari og einn besti Neyðarkarlinn í deildinni. Frábær leikmaður en hundleiðinlegur. Bara okkar skoðun.

Kevin Garnett er annar leikmaður sem fer í taugarnar á okkur, en öfugt við Pierce, er nákvæmlega ekkert krúttlegt við það.

Garnett er nefnilega að drulla dálítið yfir arfleifð sína á efri árum. Þetta vita aðeins þeir sem fylgjast vel með. Garnett hefur nefnilega breyst í ómerkilegan fant á síðustu misserum.

Mann, sem gefur bakvörðum og þeim sem minna mega sín ógeðsleg olnbogaskot meðan dómarinn sér ekki til. Garnett geltir hunda hæst, en gætir þess að gera það ekki á menn sem eru mikið yfir 180 sentimetrar á hæð.

Þessir óþolandi taktar hans færðist nokkuð í aukana í vetur og við sáum hann t.d. fara illa með tvo mótherja sína í einum og sama leiknum í Garðinum. Enginn tók eftir því nema mennirnir sem urðu fyrir þessum skræfuárásum hans. Það er eitt að leika fast, annað að stunda svona.

Það er leiðinlegt að sjá jafn hæfileikaríkan mann og Garnett skemma fyrir sér með svona fíflagangi, en okkur þótti nauðsynlegt að segja frá þessu áður en við færum að kyssa á honum afturendann.

Garnett átti nefnilega ekkert minna en stórkostlegan vetur og úrslitakeppni með Boston í ár. Fáir leikmenn á þessum aldri (36) hafa skilað öðru eins tímabili og Garnett átti í vetur. Meiðslin í herbúðum Boston þýddu að liðið þurfti enn meira á honum að halda en áður og hann stóð undir því eins og mannlegur máttur hans og geðveiki áttu til.

Það var ákveðinn innblástur í því fólginn að fylgjast með gömlu jálkunum í Boston berjast til síðasta blóðdropa í úrslitakeppninni um daginn.

Boston hafði ekki nokkurt einasta erindi í að fara svona langt - hvað þá í öllum þessum meiðslum - en gerði það nú samt. Ögraði öllum helstu kenningum um aldur og hnignun.

Við þurfum ekki að fara mörgum orðum um Rajon Rondo og hve mikill snillingur hann er. En það er eins með Rondo og hina karakterana í liði Boston. Þú veist aldrei hvað þú færð frá honum þá um kvöldið.

Oft færðu leiðinlegan leik og einstaka sinnum slaka frammistöðu, en inn á milli færðu hágæðaskemmtun og öskrandi klassík - hluti sem þú sérð hvergi nema í Garðinum.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess, en kannski verður Boston bara áfram í bullandi séns í Austurdeildinni ef það nær að halda í helstu leikara og styrkja sig á réttum stöðum í sumar. Með klókindum og smá heppni - því í fjandanum ekki?

Það er örugglega búið að vera hálfgerður rússíbani að lesa þennan pistil, þar sem við skiptumst á að blóta liðinu og hrósa því. En svona er Boston og hefur alltaf verið. Heldur vonandi áfram að kalla fram þessi viðbrögð hjá stuðningsmönnum, andstæðingum og pennum.

Vonandi taka stuðningsmenn Celtics ekki illa í þessi leiðindi í okkar út í liðið og leikmenn þess, en þessi leiðindi eru að okkar mati bara ómissandi partur af prógramminu sem er Boston Celtics. Þetta er allt byggt á virðingu.

Sem sagt; Þú getur hatast út í Boston eins og þú vilt, en rétt eins og með San Antonio, verða menn bara að sýna klúbbnum virðingu þegar upp er staðið.

Og það gerum við.

Friday, May 18, 2012

Gömlu hræin í Boston eru enn á lífi


Enn tekst Boston að gabba okkur öll. Ef marka má fádæma auðveldan sigur liðsins á Philadelphia í þriðju viðureign liðanna á miðvikudaginn, er Boston á leið í úrslit Austurdeildar.

Mikið hefur verið gert úr meintum meiðslum leikmanna Boston. Ökklinn á Ray Allen er í hassi og það leynir sér ekki, en síðustu daga hefur hnéð á Paul Pierce verið enn meira í fréttum. Pierce er nagli sem neitar alltaf að tala um meiðsli sín. Netar að vera  með afsakanir, þó hann banni mönnum ekki að ná í hjólastól fyrir sig ef hann finnur til á vellinum.

Við ætlum bara að nota þetta tækifæri og segja ykkur að það er ekki rassgat að Paul Pierce. Það getur vel verið að hann finni aðeins til í hnénu eins og 90% leikmanna í NBA, en ömurleg frammistaða hans í leikjum 1 og 2 skrifast ekki á hnémeðsli. Maður sem er meiddur á hné skorar ekki fyrstu tvær körfurnar sínar með því að keyra í gegn og troða yfir fullt af fólki. Það er bara þannig.

Boston-menn eru hundgamlir og því verða þeir lengi að klára þessa seríu eins og allar aðrar. Þeir þurfa alltaf að taka sér frí í leik og leik til að safna kröftum. Neyðumst víst til að taka ofan fyrir baráttu og spilamennsku Kevin Garnett í úrslitakeppninni. Hún er til fyrirmyndar og svo er Rondo auðvitað í ruglinu góður eins og alltaf þegar Celtics gengur vel.

Þetta er búinn að vera fínn sprettur hjá Sixers og liðið er að fara eins langt og allar heilladísir heimsins geta hleypt þeim. Þetta lið er bara ekki með vopn til að fara lengra, annað væri óeðlilegt. Nema Boston drulli algjörlega á sig.

Sunday, December 25, 2011

Sunday, December 18, 2011

Kevin Garnett týndi þræðinum


Það er líklega rétt sem þú heyrðir. Kevin Garnett ER búinn að missa það.
Það er ekki auðvelt að sjá nákvæmlega hvað hann er að reyna að gera við Andreu Bargnani í þessu stutta myndbroti hér fyrir neðan, en hvað sem það var, þá virkaði það ekki. Ítalinn lak framhjá honum á hraða snigilsins. Ekki beint snöggur þarna, hann KG. Jæks.

Wednesday, June 8, 2011