Þegar úrslitakeppnin í NBA er upp á sitt versta, er hún dálítið eins og pizza. Oft fær maður pizzu sem er ekkert spes, en pizza er alltaf pizza og hún slær á hungrið og veitir einhverja (litla) næringu, þó hún sé kannski ekki best í heimi í það skiptið. Það má alveg eins setja kynlíf inn í þessa jöfnu í stað flatböku, fyrir þau ykkar sem borða ekki flatbökur.
Við ætlum að vona að einhver ykkar lesi NBA Ísland að staðaldri af þvi þið treystið því að við segjum ykkur sannleikann um deildina okkar. Við reynum alltaf að gera það - vera samkvæm sjálfum okkur og kalla endur endur og erni erni.
Og það þarf enga sérfræðinga til að segja ykkur að úrslitakeppnin í NBA 2017 er búin að vera afskaplega döpur og ef við eigum að vera alveg hreinskilin, er þetta mögulega ein slappasta úrslitakeppni sem við munum eftir á seinni árum.
Það þurfti hvorki Nasa-starfsmenn né Nóbelsverðlaunahafa til að spá því strax í haust að líklega ættum við eftir að fá lokaúrslit með sömu liðunum þriðja árið í röð. Cleveland færi þangað þriðja árið í röð af því það spilaði í Austurdeild sem var svo mikið drasl að ekkert lið gæti ógnað því.
Golden State kæmist ekki hjá því að komast þangað eftir að það bætti Kevin Durant í leikmannahóp sinn - og þá alveg sama hvort það yrðu meiðsli í herbúðum liðsins eins og á síðustu leiktíð eða ekki. Já, margir urðu hreinlega reiðir og sögðu að tímabilið væri ónýtt og kenndu Kevin Durant helst um allt saman.
Því miður gengu þessar spár eftir í deildarkeppninni, því Golden State fræsti sig í gegn um deildarkeppnina og náði besta árangri allra liða í deildinni með lítilli fyrirhöfn, þó San Antonio hafi þó veitt því sæmilegt aðhald lengst af í vetur.
Og þessar leiðindaspár hafa mestmegnis gengið eftir í úrslitakeppninni, því þegar þetta er ritað, eru Golden State (10-0) og Cleveland (9-0) enn taplaus í úrslitakeppninni og hafa ekki aðeins verið miklu betri en allir andstæðingar sínir, heldur hafa þau líka verið miklu heppnari en andstæðingarnir (með meiðsli).
En ætlun okkar með þessum pistli er ekki að greina undanúrslitin eða úrslitin, það kemur síðar, heldur ætlum við að renna stuttlega yfir hvað gerðist í annari umferð úrslitakeppninnar. Og já, við erum í alvörunni að spá í að reyna að gera þetta stuttlega að þessu sinni, þó þessi langloka okkar hérna í byrjun gefi sannarlega merki um eitthvað allt annað.*
Látum okkur sjá. Byrjum fyrir austan eins og venjulega:
CLEVELAND 4 - TORONTO 0
Andstæðingar Cleveland í austrinu eru löngu búnir að gera sér grein fyrir því að það útheimtir ákveðna auðmýkt að mæta LeBron James og félögum í úrslitakeppninni. Toronto-liðið er eitt þessara liða og eftir þessa nýjustu rimmu þessara liða er lúbarinn og vælandi hundur, liggjandi á götunni, fyrsta myndlíkingin sem kemur upp í hugann þegar við hugsum um þetta einvígi.
Við vitum vel að Kyle Lowry var meiddur og missti af megninu af seríunni. Hann er besti leikmaður Toronto og því vantar að sjálfssögðu ansi mikið í Kanadaliðið ef hans nýtur ekki við. Vitið þið hvað? Það skiptir samt ekki nokkru einasta helvítis máli.
Þetta Toronto lið - sem var meira að segja búið að sækja sér liðsstyrk sem átti að hjálpa til við að veita Cleveland meiri keppni - hafði aldrei, aldrei trú á því að það gæti unnið Cleveland. Ekki einu sinni í sínum villtustu draumum.
Og þetta fundu James og félagar, sem voru byrjaðir að leika sér að Toronto liðinu eins og háhyrningar að vönkuðum selskóp þegar aðeins örfáar mínútur voru liðnar af leik eitt.
Það var hreinlega átakanlegt að horfa upp á þetta. Toronto liðið var ekki jafn vonlaust og karakterslaust og Atlanta hér um árið, en við vorkenndum Snareðlunum frá fyrsta leik. Þær höfðu ekkert í þessa rimmu að gera og hefðu alveg eins getað setið heima.
Það er eitt að tapa seríu, annað að gera sig nánast að fífli. Það er stór munur þarna á, eins og við munum koma að síðar í þessum pistli. Sóp er ekki endilega það sama og sóp, sjáið þið.
Nú eru gríðarlega stórar ákvarðanir á döfinni hjá Toronto. Forráðamenn félagsins þurfa að ákveða hvort þeir ætla að framlengja samningana við nokkra af lykilmönnum sínum, þar sem Kyle Lowry og samningurinn hans stendur auðvitað hæst.
Toronto er nú þegar með 7. hæsta launakostnaðinn í NBA deildinni en ef félagið ætlar að framlengja við alla sína menn, fer það svo hátt yfir launaþakið að það þyrfti líklega að borga lúxusskatt sem nemur launakostnaði 2-3 félaga í viðbót. Það gefur augaleið að það er ekki raunhæfur valkostur og þó ekki væri nema bara þess vegna, er augljóst að breytinga er að vænta hjá Toronto.
Auðvitað eru stuðningsmenn Toronto og ansi margir hlutlausir í netheimum, löngu byrjaðir að öskra upphátt og heimta að forseti körfuboltamála hjá félaginu Masai Ujiri sprengi liðið algjörlega upp og byrji upp á nýtt.
Flestir tippa á að Dwane Casey þjálfari verði látinn fara í sumar (persónulega erum við nokkuð hissa á því að hann skuli enn halda starfi sínu) og að Raptors verði með duglegri félögum á markaðnum í sumar. Gallinn er bara að það lítur enginn við mannskapnum hjá þeim og tæki sennilega ekki við honum gegn greiðslu.
Útlitið hjá Toronto er ekki alveg svart, það eru nokkrir ungir leikmenn í hópnum sem gefa einhverja ástæðu til bjartsýni, en það er ljóst að aðalliðið hans Casey með þá Lowry og DeRozan í fararbroddi, er bara ekki að gera sig þegar kemur að úrslitakeppni, þó þeir vinni 50 leiki í svefni í deildarkeppninni.
Hér komum við að þessari sígildu spurningu sem alltaf er fyrst fram á varirnir þegar kemur að því hvort félög eiga að halda baráttunni áfram með óbreytt lið eða stokka allt upp á nýtt. Það er hvort félagið treystir sér til þess að bjóða stuðningsmönnum sínum upp á þau óhjákvæmilegu ár sem framundan eru ef taka á ákvörðun um að byrja upp á nýtt.
Og félög á borð við Toronto eru einfaldlega mjög rög við að fara út í svo drastískar aðgerðir, af því forráðamenn félagsins muna enn allt of vel hvernig það var að vera skítalið sem enginn tók alvarlega, átti enga aðdáendur alþjóðlega, enga stjörnuleikmenn og aldrei komst í úrslitakeppnina.
Á þessum ógeðslega stað var Toronto um árabil og rétt eins og er með LA Clippers og við sögðum ykkur frá í vesturhelmingi uppgjörsins um 1. umferðina, eigum við erfitt með að sjá að stjórn Toronto hafi kjark í að fara í dramatískar aðgerðir þegar hún er með 50 sigra lið í höndunum - alveg sama hversu ógeðslega LeBron James niðurlægir það á hverju einasta vori.
Það er ekki eins og þetta sé eitthvað skemmtileg staða sem þeir eru í, aumingja Toronto-mennirnir. Það er ekki víst að sé ljós í enda ganganna, hvora leiðina sem þeir velja.
BOSTON 4 - WASHINGTON 3
Einvígi Boston og Washington átti fátt sameiginlegt með jarðarförinni í Toronto, því fyrir það fyrsta voru þar á ferðinni tvö körfuboltalið sem voru áþekk að styrkleika. Munurinn á liðunum var bara tvíþættur þegar upp var staðið - og allt hugsandi fólk gat sagt sér það fyrir einvígið - Boston var með heimavallarréttinn og var, öfugt við Washington, með körfuboltamenn á varamannabekk sínum sem voru með mælanlegan púls.