Showing posts with label Mike D´Antoni. Show all posts
Showing posts with label Mike D´Antoni. Show all posts

Friday, May 19, 2017

Allt um aðra umferð úrslitakeppninnar


Þegar úrslitakeppnin í NBA er upp á sitt versta, er hún dálítið eins og pizza. Oft fær maður pizzu sem er ekkert spes, en pizza er alltaf pizza og hún slær á hungrið og veitir einhverja (litla) næringu, þó hún sé kannski ekki best í heimi í það skiptið. Það má alveg eins setja kynlíf inn í þessa jöfnu í stað flatböku, fyrir þau ykkar sem borða ekki flatbökur.

Við ætlum að vona að einhver ykkar lesi NBA Ísland að staðaldri af þvi þið treystið því að við segjum ykkur sannleikann um deildina okkar. Við reynum alltaf að gera það - vera samkvæm sjálfum okkur og kalla endur endur og erni erni.

Og það þarf enga sérfræðinga til að segja ykkur að úrslitakeppnin í NBA 2017 er búin að vera afskaplega döpur og ef við eigum að vera alveg hreinskilin, er þetta mögulega ein slappasta úrslitakeppni sem við munum eftir á seinni árum.

Það þurfti hvorki Nasa-starfsmenn né Nóbelsverðlaunahafa til að spá því strax í haust að líklega ættum við eftir að fá lokaúrslit með sömu liðunum þriðja árið í röð. Cleveland færi þangað þriðja árið í röð af því það spilaði í Austurdeild sem var svo mikið drasl að ekkert lið gæti ógnað því.


Golden State kæmist ekki hjá því að komast þangað eftir að það bætti Kevin Durant í leikmannahóp sinn - og þá alveg sama hvort það yrðu meiðsli í herbúðum liðsins eins og á síðustu leiktíð eða ekki. Já, margir urðu hreinlega reiðir og sögðu að tímabilið væri ónýtt og kenndu Kevin Durant helst um allt saman. 

Því miður gengu þessar spár eftir í deildarkeppninni, því Golden State fræsti sig í gegn um deildarkeppnina og náði besta árangri allra liða í deildinni með lítilli fyrirhöfn, þó San Antonio hafi þó veitt því sæmilegt aðhald lengst af í vetur. 

Og þessar leiðindaspár hafa mestmegnis gengið eftir í úrslitakeppninni, því þegar þetta er ritað, eru Golden State (10-0) og Cleveland (9-0) enn taplaus í úrslitakeppninni og hafa ekki aðeins verið miklu betri en allir andstæðingar sínir, heldur hafa þau líka verið miklu heppnari en andstæðingarnir (með meiðsli). 

En ætlun okkar með þessum pistli er ekki að greina undanúrslitin eða úrslitin, það kemur síðar, heldur ætlum við að renna stuttlega yfir hvað gerðist í annari umferð úrslitakeppninnar. Og já, við erum í alvörunni að spá í að reyna að gera þetta stuttlega að þessu sinni, þó þessi langloka okkar hérna í byrjun gefi sannarlega merki um eitthvað allt annað.*

Látum okkur sjá. Byrjum fyrir austan eins og venjulega:



CLEVELAND 4 - TORONTO 0

Andstæðingar Cleveland í austrinu eru löngu búnir að gera sér grein fyrir því að það útheimtir ákveðna auðmýkt að mæta LeBron James og félögum í úrslitakeppninni. Toronto-liðið er eitt þessara liða og eftir þessa nýjustu rimmu þessara liða er lúbarinn og vælandi hundur, liggjandi á götunni, fyrsta myndlíkingin sem kemur upp í hugann þegar við hugsum um þetta einvígi.

Við vitum vel að Kyle Lowry var meiddur og missti af megninu af seríunni. Hann er besti leikmaður Toronto og því vantar að sjálfssögðu ansi mikið í Kanadaliðið ef hans nýtur ekki við. Vitið þið hvað? Það skiptir samt ekki nokkru einasta helvítis máli. 

Þetta Toronto lið - sem var meira að segja búið að sækja sér liðsstyrk sem átti að hjálpa til við að veita Cleveland meiri keppni - hafði aldrei, aldrei trú á því að það gæti unnið Cleveland. Ekki einu sinni í sínum villtustu draumum.

Og þetta fundu James og félagar, sem voru byrjaðir að leika sér að Toronto liðinu eins og háhyrningar að vönkuðum selskóp þegar aðeins örfáar mínútur voru liðnar af leik eitt. 


Það var hreinlega átakanlegt að horfa upp á þetta. Toronto liðið var ekki jafn vonlaust og karakterslaust og Atlanta hér um árið, en við vorkenndum Snareðlunum frá fyrsta leik. Þær höfðu ekkert í þessa rimmu að gera og hefðu alveg eins getað setið heima.

Það er eitt að tapa seríu, annað að gera sig nánast að fífli. Það er stór munur þarna á, eins og við munum koma að síðar í þessum pistli. Sóp er ekki endilega það sama og sóp, sjáið þið.

Nú eru gríðarlega stórar ákvarðanir á döfinni hjá Toronto. Forráðamenn félagsins þurfa að ákveða hvort þeir ætla að framlengja samningana við nokkra af lykilmönnum sínum, þar sem Kyle Lowry og samningurinn hans stendur auðvitað hæst. 


Toronto er nú þegar með 7. hæsta launakostnaðinn í NBA deildinni en ef félagið ætlar að framlengja við alla sína menn, fer það svo hátt yfir launaþakið að það þyrfti líklega að borga lúxusskatt sem nemur launakostnaði 2-3 félaga í viðbót. Það gefur augaleið að það er ekki raunhæfur valkostur og þó ekki væri nema bara þess vegna, er augljóst að breytinga er að vænta hjá Toronto.

Auðvitað eru stuðningsmenn Toronto og ansi margir hlutlausir í netheimum, löngu byrjaðir að öskra upphátt og heimta að forseti körfuboltamála hjá félaginu Masai Ujiri sprengi liðið algjörlega upp og byrji upp á nýtt. 

Flestir tippa á að Dwane Casey þjálfari verði látinn fara í sumar (persónulega erum við nokkuð hissa á því að hann skuli enn halda starfi sínu) og að Raptors verði með duglegri félögum á markaðnum í sumar. Gallinn er bara að það lítur enginn við mannskapnum hjá þeim og tæki sennilega ekki við honum gegn greiðslu.

Útlitið hjá Toronto er ekki alveg svart, það eru nokkrir ungir leikmenn í hópnum sem gefa einhverja ástæðu til bjartsýni, en það er ljóst að aðalliðið hans Casey með þá Lowry og DeRozan í fararbroddi, er bara ekki að gera sig þegar kemur að úrslitakeppni, þó þeir vinni 50 leiki í svefni í deildarkeppninni.

Hér komum við að þessari sígildu spurningu sem alltaf er fyrst fram á varirnir þegar kemur að því hvort félög eiga að halda baráttunni áfram með óbreytt lið eða stokka allt upp á nýtt. Það er hvort félagið treystir sér til þess að bjóða stuðningsmönnum sínum upp á þau óhjákvæmilegu ár sem framundan eru ef taka á ákvörðun um að byrja upp á nýtt. 



Og félög á borð við Toronto eru einfaldlega mjög rög við að fara út í svo drastískar aðgerðir, af því forráðamenn félagsins muna enn allt of vel hvernig það var að vera skítalið sem enginn tók alvarlega, átti enga aðdáendur alþjóðlega, enga stjörnuleikmenn og aldrei komst í úrslitakeppnina. 

Á þessum ógeðslega stað var Toronto um árabil og rétt eins og er með LA Clippers og við sögðum ykkur frá í vesturhelmingi uppgjörsins um 1. umferðina, eigum við erfitt með að sjá að stjórn Toronto hafi kjark í að fara í dramatískar aðgerðir þegar hún er með 50 sigra lið í höndunum - alveg sama hversu ógeðslega LeBron James niðurlægir það á hverju einasta vori. 

Það er ekki eins og þetta sé eitthvað skemmtileg staða sem þeir eru í, aumingja Toronto-mennirnir. Það er ekki víst að sé ljós í enda ganganna, hvora leiðina sem þeir velja.

BOSTON 4 - WASHINGTON 3

Einvígi Boston og Washington átti fátt sameiginlegt með jarðarförinni í Toronto, því fyrir það fyrsta voru þar á ferðinni tvö körfuboltalið sem voru áþekk að styrkleika. Munurinn á liðunum var bara tvíþættur þegar upp var staðið - og allt hugsandi fólk gat sagt sér það fyrir einvígið - Boston var með heimavallarréttinn og var, öfugt við Washington, með körfuboltamenn á varamannabekk sínum sem voru með mælanlegan púls.

Sunday, July 7, 2013

Svarið við gátunni góðu


Dyggur lesandi minnti okkur á það í dag að við værum enn ekki búin að birta svarið við gátunni sem við settum hérna inn fyrir nokkru síðan.

Skemmst er frá því að segja að þátttakan í þessum litla leik var gríðarlega... engin. Þetta var auðvitað skepnuskapur hjá okkur að hafa þetta svona erfitt. Tökum það á okkur.

Hvað um það. Við spurðum ykkur hvað þeir Scott Ian gítarleikari Anthrax og Mike D´Antoni þjálfari Los Angeles Lakers ættu sameiginlegt og hér kemur svarið:

Þeir hafa báðir spilað með Billy Milano.

Mike D´Antoni spilaði um árabil sem atvinnumaður á Ítalíu þar sem hann var afar sigursæll með liði Olimpia í Mílanó. Á Ítalíu, eins og reyndar víðar í Evrópu, tíðkaðist að lið tækju nöfn stuðningsaðila sinna. Þannig fékk lið Olimpia nafnið Billy Milano á árunum 1978 til 1982 og heitir meira að segja Emporio Armani í dag.



Gítarleikarinn Scott Ian er þekktastur fyrir mögnuð riff sín með hljómsveitinni Anthrax frá New York, en um miðjan níunda áratuginn ákváðu hann og trommarinn Charlie Benante að taka höndum saman við tvö aðra snillinga og stofna ruslmálmssveitina S.O.D. (Stormtroopers of Death).

Mennirnir sem um ræðir voru fyrrum Anthrax bassaleikarinn Dan Lilker (sem á þeim tíma spilaði með Nuclear Assault) og jú, söngvarinn Billy Milano (til vinstri á myndinni hér fyrir ofan), aðalsprauta hljómsveitarinnar M.O.D.

Fjórmenningarnir hittust og hentu saman plötunni "Speak English or Die" á mettíma, en hún braut niður ákveðna veggi milli harðkjarna-, pönkrokks og þyngri málma.

Það sem byrjaði sem grín hjá þeim félögum, átti eftir að verða plata sem olli straumhvörfum í metalnum.  Þetta er algjört meistarastykki sem til er á öllum betri heimilum.

En þið vissuð þetta nú auðvitað allt saman.

Kíktu endilega á þetta myndbrot hérna fyrir neðan, þar sem strákarnir í S.O.D. - og þá sérstaklega téður Billy Milano - sýna okkur hvernig á að opna rokktónleika. Gætið þess að fylgjast vel með Milano þegar hann mætir á svæðið.


Monday, November 12, 2012

NBA Ísland heldur áfram að pönkast á LA Lakers



















Við verðum að viðurkenna að það kom okkur dálítið á óvart að Los Angeles Lakers tæki þá ákvörðun að ráða Mike D´Antoni til að taka við þjálfarastöðunni af Mike Brown.

Það virtist vera nánast klappað og klárt að Phil Jackson fengi sér sæti í sérútbúnu stólunum sínum aftur. Þeir voru þarna á sínum stað í æfingaaðstöðunni hjá Lakers og Mike Brown hefur eflaust þótt æðislega gaman að horfa á stólana í upphafi hverrar æfingar.

Engin pressa...

Nú kemur það í hlut Mike D´Antoni að horfa á stólana hans Jacksons, húsgögn sem minna á nýjasta velgengnitímabil Los Angeles Lakers sem útlit er fyrir að verði ekki leikið eftir í bráð.

Okkur þykir miður að harðorður pistill okkar á dögunum hafi orðið til þess að Mike Brown ræfillinn var rekinn á svona eftirminnilegan hátt, en það er ekkert grín að þjálfa Lakers, hann vissi það alveg sjálfur.

Myndin hérna fyrir neðan var tekin af Brown á kjúklingastað aðeins klukkustundum eftir að hann var látinn fara. Hann brosti sínu breiðasta, enda á hann eftir að fá um það bil einn og hálfan milljarð í laun frá Lakers áður en yfir lýkur.

Þeir öskra hátt núna, þeir fjölmörgu sem settu spurningamerki við ráðningu Mike Brown á sínum tíma. Við vorum í þeim hópi reyndar, en nú fær þessi sami hópur nýtt skotmark til að baula á - Mike D´Antoni.

D´Antoni náði frábærum árangri með Phoenix-hraðalestina með Steve Nash í fararbroddi en gat svo auðvitað ekki neitað sér um það þegar hann fékk tækifæri til að beygja Titanic-skipi þeirra New York manna frá ísjakanum.

Auðvitað tókst það ekki og nú bíður hans annað álíka krefjandi verkefni.

Enginn gerði beinlínis þær kröfur til D´Antoni að hann gerði Knicks að NBA meistara, en hjá Lakers er það titill eða dauði. Hann er með miklu betri mannskap hjá Lakers, en ekki nógu góðan, eins og við höfum tíundað í pistlum hér á síðustu dögum.

Nafnarnir Brown og D´Antoni eru spegilmynd hvor af öðrum.

Brown er flottur varnarþjálfari sem veit ekkert hvað hann er að gera á hinum enda vallarins, það hafa dæmin sýnt. D´Antoni er aftur á móti mjög góður sóknarþjálfari sem aldrei hefur getað fengið liðið sitt til að spila nógu góða vörn til að vinna meistaratitil.

Þetta kann að ljóma neikvæður og harðbrjósta dómur um Mike-ana tvo, en svona er þetta bara svart á hvítu.

Það er allt í lagi að vera krúttlegur þegar maður er að þjálfa Cleveland (Brown) eða Phoenix (D´Antoni) en þegar maður tekur við Lakers með fjóra Heiðurshallarmeðlimi í byrjunarliði, er það einfaldlega titill eða dauði.

Lakers-liðið ætti að vinna fleiri leiki nú þegar D´Antoni er tekinn við, einfaldlega af því hann er með litla generálinn sinn Steve Nash inni á vellinum. Nash veit upp á hár hvað hann á að gera fyrir D´Antoni og ef einhver maður í deildinni getur látið Lakers smella með því að spila jazz, er það Steve Nash.

D´Antoni er fullfær um að búa til Showtime á ný í Los Angeles, það er bara ansi fátt sem bendir til þess að liðið nái að sýna þá takta alveg fram í júní.  Til þess eru aðalpersónur of gamlar, vörnin of slök og breiddin of lítil.

Fari svo að Lakers reki þetta allt ofan í okkur - og því ætti það ekki að vera hægt með þennan mannskap - tökum við því auðvitað fagnandi. Dæmin bara sýna að það verður hrikalega erfitt fyrir Lakers að fara alla leið með þeim mannskap sem fyrir er.

Einn góður maður sem við heyrðum í í dag hitti naglann svo skemmtilega á höfuðið:  

"Ég hefði orðið dálítið smeykur við Lakers ef Phil Jackson hefði tekið við liðinu, en ég er bara ekkert hræddur við Lakers undir stjórn Mike D´Antoni."

Það er samt ekki þjálfarastaðan sem er vandamálið hjá Lakers. Það eru forráðamenn liðsins sem eru að gera í buxurnar. Uppbygging liðsins hefur ekki verið hugsuð til enda og því er erfitt að sjá hvernig Lakers á að haldast í fremstu röð á næstu árum.

Það er vinsælt að kenna auknum umsvifum Jim Buss, sonar eigandans Jerry Buss, um það sem hefur farið úrskeiðis hjá Lakers að undanförnu. Við ætlum ekki að þykjast hafa vit á þeim málum, en ljóst er að félagið hefur ekki haldið alveg nógu þétt á spöðunum að undanförnu.

Þessar miklu hræringar á Los Angeles Lakers haustið 2012 valda að okkar mati engum straumhvörfum í valdajafnvæginu í NBA deildinni.

Það eina sem þær gera er að gera sterkt en takmarkað lið Lakers skemmtilegra og þó það ætti auðvitað að selja fleiri miða og vera tryggara hinni gömlu og góðu showtime-stefnu félagsins, verður það ekki til að auka líkurnar á því að Kobe Bryant jafni Michael Jordan í titlafjölda.

Sumir halda eflaust að við séum að blanda heldur sterkt Hatorade handa Lakers með þessum endalausu bölsýnipistlum okkar, en svona sjáum við þetta bara.

Það yrði okkur sannur heiður að fá tætlurnar úr þessari spá í andlitið í sumar ef svo fer.

Ekkert mál.

Wednesday, April 13, 2011