Showing posts with label Ríku ríkari. Show all posts
Showing posts with label Ríku ríkari. Show all posts

Thursday, July 6, 2017

NBA Ísland rýnir í félagaskipti Gordon Hayward


Þið heyrið leikmenn og þjálfara í NBA deildinni tala um að sé fjölskylduandrúmsloft hjá hinu eða þessu liði, nú eða fara alla leið með þetta og fullyrða að liðið þeirra standi saman eins og fjölskylda. Þetta er auðvitað rakinn þvættingur og flestir leikmenn væru til í að kveikja í þessari svokölluðu "fjölskyldu" sinni ef það þýddi að þeir fengju 5.000 dollurum hærri samning eða eitthvað þvíumlíkt.

Félögin í NBA deildinni eru misjöfn eins og þau eru mörg, en þó þeim verði aldrei ruglað saman við alvöru fjölskyldur, eru þó nokkrir klúbbar í NBA sem eru reknir á - hvað eigum við að segja - persónulegri máta en aðrir.



Margir klúbbar í NBA deildinni eru með afar ópersónulegt sýstem og kaldhranalegan kúltúr, ef einhvern kúltúr yfir höfuð og versla með leikmenn út og suður eins og þeir væru körfuboltamyndir en ekki manneskjur. Þarna er ekkert elsku amma, engin persónuleg sambönd og samskipti. Þetta er bara bissness.

Utah Jazz er félag sem rekið er nánast þveröfugt við þetta. Auðvitað er Utah líka bissness eins og hinir klúbbarnir og auðvitað skipta þeir á leikmönnum og bjóða þeim nískulega samninga og allt það eins og öll hin liðin, en þau gera þetta mestanpart öðruvísi en aðrir þarna í Utah.

Það liggur líka beinast við að aðferðafræðin hjá Jazz sé aðeins öðruvísi, því fólkið í Utah - í Salt Lake City þar sem liðið er til húsa - er af öðrum sauðahúsum en fólkið á bak við restina af klúbbunum í NBA. Allt öðrum.



Utah Jazz er afskaplega vel rekið félag, sannkallað fyrirmyndarfélag eins og San Antonio, sem kemur ekkert á óvart því að San Antonio smíðaði rekstrarmódelið sitt eftir Utah Jazz á tíunda áratugnum og til að rugla þessu enn betur saman, er hluti af staffinu hjá Utah fólk með Spurs-tengsli. Nægir þar að nefna framkvæmdastjórann Dennis Lindsay og þjálfarann Quin Snyder.

Og þetta vel rekna félag, á einum minnsta og á margan hátt óvinsælasta markaðnum í NBA deildinni, gerði allt rétt þegar kom að því að reyna að halda í Stjörnuleikmanninn sinn Gordon Hayward. Félagið hafði mikla trú á Hayward þegar það tók hann í nýliðavalinu á sínum tíma og það er alveg með hreinum ólíkindum að lesa hvað fólk var að segja um hann þegar Utah valdi hann.

Gleðipinninn í greininni hér fyrir neðan er gott dæmi, en hann gerir allt nema öskra upp yfir sig að Kevin O´Connor þáverandi framkvæmdastjóri Utah sé heilalaus helvítis hálfviti og eigi bara að ganga í sirkus fyrir þessa glórulausu vitleysu sem það var að drafta þennan horaða krakkavesaling inn í deild hinna fullorðnu karlmanna. Risavöxnu, fullorðnu karlmanna.
































Já, Utah-menn gerðu allt sem þeir gátu, eða nokkurn veginn allt. Þeir styggðu Hayward eitthvað á tímabili með því að bjóða honum eitthvað nískulegan samning, en það var bara vegna þess að a) félagið tekur ekki þátt í því að borga leikmönnum einhverja bull-samninga. Það bara kemur ekki til greina. Og b) Hayward var andskotann ekkert nógu góður til að fá þennan helvítis max samning sem hann hefur alltaf átt rétt á, alveg sama hvað hann var lélegur. Hér er auðvitað átt við fyrstu árin hans í deildinni.

En nú er Hayward farinn til Boston. Bless, bless Utah, segir hann í einhverri bull-grein, sem segir ekkert. Nafngreinir hvorki meira né minna en EINN leikmann, eftir að hafa spilað með liðinu árum saman. Spes.

Saturday, January 14, 2017

Korver til Cleveland | Hvað með það?


Kannski ofmetum við hvað Kyle Korver á eftir að gagnast Cleveland með nærveru sinni einni saman, hvað þá ótrúlegri hittni sinni, en eins og fram kom í 72. hlaðvarpsins okkar, urðu vistaskipti Korver þúfan sem velti hlassinu í okkar augum; Cleveland er nú sigurstranglegasta liðið í úrslitakeppninni 2017 að okkar mati.

Golden State er búið að vera sterkasta liðið í NBA í að verða þrjú ár samkvæmt okkar bókum, en endasprettur Cleveland í lokaúrslitunum síðasta sumar varð að sjálfssögðu til þess að veikja þá skoðun okkar. Það sem hefur svo velt Warriors úr toppsæti styrkleikalistans okkar og niður í annað sæti, er sú staðreynd að Golden State er ekki búið að stoppa upp í gatið sem Cleveland notaði til að vinna síðustu þrjá leikina í lokaúrslitunum í júní. 

Þið munið hvernig fór fyrir Warriors þegar Andrew Bogut meiddist (og ofan á það, hvernig liðinu gekk þegar Draymond Green tók út leikbann) og gat ekki lengur mannað miðjuna. LeBron James og Kyrie Irving nýttu sér fjarveru hans fullkomlega og James fékk sérstaklega að gera það sem hann gerir manna best - að ógna á blokkinni og ráðast á körfuna.


Zaza Pachulia er enginn Andrew Bogut og höfum hugfast að Festus Ezeli er líka farinn úr miðjunni hjá Warriors. JaVale McGee hefur ekki vitsmuni til að brúa þetta bil, þó hann hafi líkamlega burði til þess. Kevin Durant og Draymond Green loka miðjunni og verja körfuna svo vel að það er eiginlega aðdáunarvert. Fáir framherjar gera það betur. En líkamlega er hvorugur þeirra miðherji og verður aldrei.

Getur Golden State fundið lausn á þessum veikleika sínum? Okkur þykir það líklegt, já. Steve Kerr og félagar eru mjög klárir og þeir eiga mjög líklega eftir að herða varnarleik Warriors nógu vel til að fleyta liðinu í lokaúrslit þriðja árið í röð. En við setjum stórt spurningamerki við það hvort það er nóg til að vinna Cleveland.

Sem sagt: Það er skarð í vörn Warriors eftir mannskapinn sem fór frá félaginu. Skarð sem fínn varnarleikur og enn betri sóknarleikur sem Kevin Durant hefur verið að skila Golden State-liðinu í vetur, nær ekki að fylla. 

Cleveland er búið að vinna Golden State fjórum sinnum í röð og Cleveland var að bæta við sig manni sem á eftir að létta lykilmönnum meistaranna lífið til mikilla muna.

Þar komum við að Korver sjálfum. Allir sem fylgjast með NBA á annað borð vita að Korver er löngu búinn að sanna sig sem ein besta skytta í sögu deildarinnar.

Þó bestu og frískustu dagar Korver sem leikmanns séu að baki og meiðsli hafi gert honum lífið leitt að undanförnu, skulum við ekki gerast svo vitlaus að vanmeta þessa viðbót við lið meistaranna. Það hjálpar Cavs ekkert í dag, en það eru samt innan við tvö ár síðan Korver spilaði í Stjörnuleik. Það bæði segir mikið og ekki neitt, þið ráðið hvernig þið lesið í það. 

Myndin hér fyrir ofan sýnir skotkortið hans með Haukum í vetur, á nokkru sem kallast fremur lélegt ár ef miðað er við standardinn sem Korver er búinn að setja sér. Mjög gott ár ef við miðum við venjulega NBA-leikmenn.

Kyle Korver er fyrst og fremst stórskytta, já, en umræðuefni númer tvö þegar menn eru búnir að tala um hvað hann er hittinn, er alltaf annað hvort hvað hann er trúaður og góður strákur sem er duglegur að leggja góðum málefnum lið - eða varnarleikur hans. 

Korver hefur verið partur af nokkrum ljómandi fínum liðum í gegn um tíðina, liðum sem óhætt er að setja undir sama hatt og kalla annarar umferðar lið. Lið sem eru mjög góð, en ekki meistarakandídatar. Allt tal um varnarleikinn hans Korver fram að þessu hefur verið prump, en nú er hinsvegar kominn tími til að tala um hann fyrir alvöru, af því nú er Korver kominn í lið sem ætlar sér titil eða dauða, ekkert annað.

Og ef menn ætla að fá mínútur með slíku liði, verða þeir að vera þolanlegir varnarmenn, undir öllum kringumstæðum. Annað er bara ekki í boði og þess vegna verður óhemju forvitnilegt að sjá hvað Korver getur lagt til málanna á varnarendanum hjá Cavs. 

Við vitum að hann er klár strákur og duglegur, sem þýðir að hann er ljómandi vel læs og fínn í liðsvörninni. Það sem menn og konur hafa hinsvegar áhyggjur af, er að hann lendi á eyðieyju í vörninni úti á velli með Stephen Curry eða Kevin Durant á móti sér. Það er vísindalega sannað að það er bókstaflega versta martröð hvers þjálfara. 

Í rauninni skiptir ekki máli hvort það er Korver eða Kevin Love sem þú setur í þessar aðstæður, þær reyna svo á heilsu þjálfarateymisins að þær stytta aldur þeirra um meira en tvö ár að jafnaði. Það er vísindalega sannað líka. Og það verður mjög svo áhugavert að sjá hvort Cleveland treystir sér áfram til að gefa mönnum eins og Love og Korver mínútur í maí og júní í ljósi umræddra varnarvandamála.

Burtséð frá því hvort Korver spilar vel eða illa, er það fyrsta sem hann gerir fyrir Cleveland einfaldlega að gefa því skotbakvörð sem getur spilað mínúturnar hans JR Smith. Vitleysingurinn Smith er ekki væntanlegur til baka úr meiðslum fyrr en langt verður liðið á apríl og Cleveland var bara ekki með mann í bókhaldinu sem það treysti til að fylla upp í mínúturnar sem losnuðu þegar JR meiddist. 

Þetta tímabundna vandamál hefur nú verið leyst og vonandi fyrir stuðningsmenn Cavs, verður Korver-viðbótin til þess að létta þó ekki væri nema örlítið undir með lykilmönnum liðsins hvað mínútur varðar. LeBron James er sérstaklega að spila allt, allt of margar mínútur og við höfum vælt yfir því í meira en ár. Við skulum lofa að gera ekki meira af því hér.

Við höfum ekki hugmynd um hvernig Kyle Korver á eftir að falla inn í kúltúrinn hjá Cleveland Cavaliers, margt bendir til þess að hann verði pínulítið eins og prestur í rauða hverfinu á því sviði, hentar hann 100% fyrir Cavs þegar kemur að leikstíl liðsins. 

Síðast þegar við gáðum, var Cleveland að skjóta og skora meira af þristum en öll lið í deildinni nema Houston og langskotin eru auðvitað aðalsmerki Korver, svo það segir sig sjálft að það er draumur í dós fyrir Cavs.

Korver kemur samt með meira djús inn í sóknarleik Cavs en bara það að skora 3ja stiga körfur, því hann er með meira körfuboltalegt aðdráttarafl en nokkur annar leikmaður liðsins. Channing Frye kemst einna næst því, enda er hann búinn að skjóta frábærlega á síðustu árum. 

En þó fjöldi leikmanna Cavs geti sett niður þrista, sem þýðir að andstæðingar liðsins verða að taka þá alvarlega, útheimtir maður eins og Korver alveg sérstaka athygli, enda er enginn annar leikmaður í NBA búinn að skjóta betur úr 3ja stiga skotum en hann síðan árið 2010. Enginn. Ekki Steph Curry, ekki Klay Thompson, ekki amma þín. Kyle Korver.

Korver er maður sem þú (sem varnarmaður) mátt alls ekki yfirgefa undir neinum kringumstæðum og það gefur LeBron James í versta falli stöðu á vellinum sem hann nýtir betur en flestir. Það er nefnilega þannig að ef einn varnarmaður þarf að vera límdur á Korver öllum stundum, þýðir það að James og t.d. Kyrie Irving, þurfa í versta falli að spila fjórir á fjóra og þurfa því að hafa áhyggjur af einum leikmanni færra í vörnum og hjálparvörnum andstæðinga sinna.

Það á eftir að koma í hljós hvort Korver nær að halda sínu nógu vel í vörninni til að fá einhverjar mínútur að ráði ef Cleveland kemst nú aftur í úrslitin, en ef við miðum bara við deildarkeppnina, er koma hans til Cavs að tryggja að sóknarleikur liðsins er orðinn martraðarkenndari fyrir andstæðinga liðsins en nokkru sinni fyrr. 

Nú þarft þú, þjálfari andstæðinga Cleveland Cavaliers, að plana hvernig í ósköpunum þú ætlar að bregðast við því ef Cavs stilla upp sókndjörfu liði á móti þér. 

Hvernig ætlar þú að stoppa lið sem er að rótera Kyrie Irving, J.R. Smith, Kyle Korver, Kevin Love, LeBron James og Channing Frye í sóknarleiknum? 

Lið sem getur stillt upp fjórum eða fimm allt frá því mjög frambærilegum til heimsklassa skyttum hvenær sem því sýnist og getur valið um hvort það lætur Kyrie Irving eða LeBron James stýra leiknum?

Það er rétt hjá þér. 

Þú ert ekkert að fara að stoppa þetta. 

Það eina sem stöðvar þessa aftökusveit eru þessi fáu kvöld þar sem hún er ekki í stuði. Það kemur fyrir öll lið að skotin detta ekki. Það verða amk ekki varnir andstæðinganna sem stöðva Cavs.

Mörg ykkar eru vafalítið ósammála þessu mati okkar á stöðu mála, jafnvel svo ósammála að þið haldið því þvert á móti fram að Golden State muni rusla Cleveland upp í júní í sumar, ef liðin hittast þar þriðja árið í röð. Sérstaklega hefur fólk sagt okkur að við séum að ofmeta væntanlegt framlag Kyle Korver gróflega. Svo það sé á hreinu, erum við ekki að segja að Korver eigi eftir að tryggja Cleveland meistaratitilinn. Hann var aðeins dropinn sem fyllti mælinn fyrir okkur, ef svo má segja.

Tölfræðin hans Korver sem við sýnum ykkur á myndunum hér í þessari færslu eru Atlanta tölurnar hans í vetur fram að skiptunum til Cleveland. Korver er búinn að spila þrjá leiki fyrir Cavs. Það var skjálfti í honum í fyrstu tveimur leikjunum þar sem hann skaut 1 af 5 í þeim báðum og hitti ekki úr einu 3ja stiga skoti, en svo hrökk hann í gang í Sacramento í fyrrinótt og henti í 18 stig og var 4 af 6 í þristum. Ætli síðasti leikurinn gefi ekki betri mynd af því hvað Korver á eftir að gefa Cavs í vetur en fyrstu tveir. Eitthvað segir okkur það.



Við erum búin að segja ykkur þá skoðun okkar oftar en einu sinni að við förum aldrei ofan af því að betra liðið tapaði í lokaúrslitunum síðasta sumar, en þær breytingar sem við greindum frá hér að ofan eru orðnar það afgerandi að nú erum við á því að Cleveland sé hreinlega orðið betra lið en Golden State. 

Og nota bene, þá erum við að miða við að Cleveland myndi að okkar mati vera sigurstranglegra ef þessi lið mættust í einvígi í júní næstkomandi. Við erum ekki að meina að Cleveland sé betra lið en Golden State í deildarkeppninni. Þar er stór munur á. 

Cleveland er að spila pressulaust í gegn um deildarkeppnina og hugsar um það eitt að halda mannskapnum heilum fram á vorið.

Einhver hefði sagt að það væri sniðugt fyrir þá að gæta þess að spara lykilmennina aðeins, en það virðist ekki einu sinni vera inni á dagskrá, hvað þá stundað, og við fullyrðum að það á eftir að koma nður á liðinu á einhverjum tímapunkti. Vonandi ekki í ár.

Á sama tíma þarf Golden State að hafa sig allt við til að hanga fyrir framan San Antonio í sterkari Vesturdeildinni.

Það verður eintómt nammi að sjá hvernig Kyle Korver á eftir að smella inn í leik Cleveland í vetur og vor. 

LeBron James gæti átt eftir að bömpast upp um 1-2 stoðsendingar að meðaltali í leik þegar frábærar sendingar hans lenda í öruggum og skotglöðum höndum Korver í staðinn fyrir að lenda í krumlunum á grófhentum múrurum eins og Iman Shumpert. LeBron var spurður að því daginn fyrir fyrsta leikinn hans Korver hvernig nýjasti liðsmaður Cavs gæti best orðið að gagni. 

"Með því að skjóta. Alltaf. Um leið og hann snertir boltann," sagði LeBron James og glotti. 

Þetta er ekkert flókið.

Tuesday, July 1, 2014

Arenas er búinn að fá kaupið sitt


Það er langt síðan ólíkindatólið Gilbert Arenas hætti að spila í NBA deildinni, en hann var samt í þriðja sæti yfir launahæstu leikmenn NBA deildarinnar á liðinni leiktíð með rúman tvo og hálfan milljarð króna í árslaun.

Hann spilaði heila 49 leiki fyrir Orlando, sem fékk hann til sín í skiptum fyrir Rashard Lewis. Orlando nýtti sér svo amnesty-undanþáguna til að losa sig við hann, en þurfti auðvitað að borga launin hans í topp. Hann er nýbúinn að fá síðustu ávísunina sína. en hefur ekki verið tekinn alvarlega sem leikmaður síðan 2007.

Þessir milljarðar sem Arenas hefur verið áskrifandi að undanfarin ár, eru einhver mesti þjófnaður í sögu deildarinnar. Af hverju getum við ekki fengið svona eins og pínulitlar 200 milljónir af þessu - við gætum meira að segja sætt okkur við smáaura eins og 50 milljónir!

Það er ekki honum að kenna að hann meiddist, en samt. Kommon.


Wednesday, October 9, 2013

Skuðaskjóðurnar í Staples-höllinni


Stuðningsmenn Los Angeles Lakers eru misjafnir eins og þeir eru margir. Kvikmyndastjörnur og frægt fólk úr tónlistar- og skemmtanageiranum eru fastagestir í Staples-höllinni. Nú reynum við að forðast að tala illa um náungann, en það er erfitt að þegja þegar ákveðin tegund Lakers-manna er annars vegar. Þetta eru skuðaskjóðurnar (ísl. douchebags).

Sjáið til dæmis þennan hérna.



Fyrirgefðu bleiknefji, en þú ert sem sagt í alvöru að bjóða upp á keppnistreyju, byssur og risavaxið gullúr. Það er bara eitthvað svo rangt við þetta, en skuðaskjóðu þessari er alveg sama.
Lakers-skjóðurnar eru líklega þær öflugustu í deildinni.

Hver man ekki eftir þessum stórmeisturum og snillingum hérna fyrir neðan (sem kórónuðu þetta með því að vera báðir í Dwight Howard-treyjum, úff). Svona taktar eru á fárra færi.


Saturday, September 29, 2012

Ellefu þúsund þristar á Suðurströnd










































Kannski hefur það gleymst í öllu skruminu í sumar. Meistaralið Miami er búið að bæta við sig tveimur af atkvæðamestu þriggja stiga skyttum sögunnar.

Annar þeirra er ein besta langskytta sögunnar og er á síðustu metrunum en vel brúklegur.

Hinn hefur átt í vandræðum í nokkurn tíma, en er nú í fyrsta skiptið á ferlinum kominn í lið þar sem allt annað en meistaratitill er klúður. Samt er varla nokkur pressa á honum. Hann þarf bara að dæla upp þristum þangað til hann verður þreyttur í höndunum. Hvert skot sem hann setur niður er plús.

Þetta eru vinirnir Ray Allen og Rashard Lewis, sem á sínum tíma léku saman hjá Seattle sáluga. Fóru þar fyrir afar skemmtilegu liði sem Nate McMillan fór með eins langt og hægt var.

Láttu þér ekki bregða þó Miami eigi eftir að setja nokkuð marga þrista í einhverjum leiknum í vetur. Þeir Rashard og Ray eru ekki búnir að taka nema rétt rúmlega ellefu þúsund þrista á ferlinum. Hitta úr 4400. Það er... ágætt.

Gaman að geta þess að hinn 37 ára gamli Ray Allen er að hefja sína 17. leiktíð með fjórða liðinu sínu á ferlinum. Stigameðaltalið hans stendur í nákvæmlega 20 stigum og þessi atkvæðamesta þriggja stiga skytta í sögu NBA hefur hitt úr nákvæmlega 40% þeirra.