Snareðlurnar frá Toronto eiga ekki tvítugsafmæli fyrr en eftir eitt ár, en félagið er strax byrjað að fagna því með fortíðarblæ. Í nótt tóku forráðamenn Raptors loksins þá ákvörðun að heiðra fyrrum leikmann sinn Vince Carter með smá myndbandssýningu á risaskjánum.
Margir voru búnir að bíða ansi lengi eftir þessu augnabliki. Sumir til að fá tækifæri til að klappa honum lof í lófa, en aðrir til að baula á hann. Vince Carter lék með Toronto frá árinu 1998 til ársins 2004, þegar honum var skipt til New Jersey Nets fyrir dauða hænu, ryðgað stjörnuskrúfjárn og hálfan pakka af bláum Gajol - sem er ekki einu sinni góður eins og þið vitið.
Sumir segja að fyrsta höggið í þessu drama hafi komið frá félaginu, að það hafi verið klúbburinn sem klúðraði þessu öllu saman og flæmdi Vince í burtu. Við trúum því mætavel að félagið hafi klúðrað fullt af hlutum - það er staðreynd - en það er ekki hægt að kenna því um brotthvarf Vince Carter.
