Showing posts with label Roy Hibbert. Show all posts
Showing posts with label Roy Hibbert. Show all posts

Wednesday, May 28, 2014

Óvísindalegir tölfræðimolar úr úrslitakeppninni


Það er nákvæmlega engin hefð fyrir því að staldra við og skoða tölfræði leikmanna í miðri úrslitakeppni. Ástæðan er auðvitað ólíkar skammtastærðir - það er kannski ekki alveg lógík í því að bera saman menn sem spilað hafa sjö eða sautján leiki í úrslitakeppninni. Við gefum skít í þetta. Okkur langar að skoða aðeins tölfræðina og pæla dálítið í því hvaða menn hafa verið að standa sig vel í úrslitakeppninni og hverjir ekki. Það ætti ekki að særa neinn... hmmm, ha?

Ætli sé ekki best að klára það bara frá að dásama Russell Westbrook. Þið vitið hvað við elskum hann Russ. En hafið þið spáð aðeins í tölfræðina sem drengurinn er að bjóða upp á í úrslitakeppninni í vor? Hún er svo rosaleg að hún er líklega sú fallegasta í úrslitakeppninni í dag.

Svona að öllu gríni slepptu, eru þetta ekki bara tölurnar. Hvað eru margir leikmenn búnir að spila betur en Westbrook í úrslitakeppninni? 

Fullt af þeim, segja hatursmenn Russ. Það eru mennirnir sem sjá ekki annað en Vonda Russ - gaurinn sem tekur hræðileg skot, fær dæmda á sig ruðninga og kastar boltanum upp í stúku í staðinn fyrir að gefa hann á manninn við hliðina á sér.

Við erum alltaf að rífast við hatursmenn Russ, en margir þeirra fatta ekki ennþá að það er löngu, löngu, löngu orðið bæði þreytt og hallærislegt að dissa Russ. Það myndu allir vilja hafa Russ í sínu liði - mann eins og Russ - gaur sem er alltaf á útopnu, hræðist ekkert og berst til síðasta manns. 

Tuesday, May 27, 2014

Miami er komið með annan fótinn í úrslit


Eins vel og Indiana líður þegar það er litla liðið, þegar það er undir í seríu og enginn trúir á það - erum við ekki að sjá að það moki sig upp úr þessari holu. Það má vel vera að liðið nái að pappíra sig og vinna einn í viðbót á heimavelli á miðvikudagskvöldið, en það er alveg eins líklegt að það verði síðasti leikur Pacers í vor.

Miami sá til þess að Indiana sá aldrei til sólar í nótt þegar það komst í 3-1 í einvíginu með 102-90 sigri á heimavelli sínum í fjórða leiknum. Rúmlega 96 af 100 liðum sem komast í 3-1 í sjö leikja seríum ná að klára þær. Eins og staðan er núna, er Indiana ekki sérlega líklegt til að verða eitt af liðunum sem nær að bjarga sér úr slíkri krísu.

Indiana vann fyrsta leikinn af því Miami leyfði það, en síðan hafa meistararnir verið með yfirhöndina þegar þeir þurfa á því að halda - í lok leikjanna.

Það var líka fín hugmynd hjá Lance Stephenson að halda áfram að rífa kjaft við LeBron James og Dwyane Wade í fjölmiðlum. Það er alltaf hægt að skipta um nærbuxur ef maður drullar á sig. Eða þannig virðist það vera hjá Lance, sem þó verður að fá kúdós fyrir að halda þessu einvigi alltaf áhugaverðu hvað sem aðrir segja eða gera.

Spennan í fjórða leiknum varð aldrei mikil og okkur þykir ljóst að Miami sé að fara að vinna það 4-1 eða 4-2, svona ef við leyfum okkur að fara fram úr okkur eins og fólk gerir á internetinu árið 2014. Það sem hér fer á eftir er því hæperbóla og ótímabærar hugsanir handa þér.

Eins og venjulega, hafa meistarar Miami legið undir gagnrýni í þessari úrslitakeppni.

Sunday, June 2, 2013

Miami og Indiana mætast í hreinum úrslitaleik


Það ræðst ekki fyrr en á mánudagskvöldið hvort það verður Miami eða Indiana sem mætir San Antonio í úrslitaeinvíginu um meistaratitilinn í NBA.

Það á ekki að koma neinum hrikalega á óvart að þetta fari í oddaleik. Indiana var þegar búið að vinna tvo leiki gegn Miami og bætti einum við í nótt með góðum 91-77 sigri á flotta heimavellinum sínum. Ekki kom það okkur neitt sérstaklega á óvart.

Það sem kom okkur á óvart, var hinsvegar blóðlaus frammistaða Dwyane Wade og Chris Bosh. Enn eina ferðina. Meiðsli eiga þarna einhvern þátt, en okkur er alveg sama. Wade og Bosh eru í besta falli tálbeitur eins og þeir eru að spila núna - eru inni á vellinum til að draga athyglina frá LeBron James.

James konungur hefur oft átt betri leik en í nótt, sem segir sína sögu um standardinn sem hann hefur sett fyrir sjálfan sig og þarf helst að toppa í hverjum leik.

98% af leikmönnum deildarinnar myndu gráta af gleði ef þeir næðu að skora 29 stig, hirða 7 fráköst og gefa sex stoðsendingar með um 50% hittni. Hjá James heitir þetta bara bleh leikur.

 James skaut 48% í nótt, en restin af liðinu 26%. Miami endaði með 36% skotnýtingu í leiknum, sem er það versta í allan vetur í deildakeppni eða úrslitakeppni.

Ef þessar svokölluðu stórstjörnur í Miami verða að taka hausinn út úr ristlinum á sér og fara að spila eins og menn ef þeir ætla ekki í sumarfrí. Spilamennskan sem þeir eru að sýna í undanförnum leikjum er grátleg.

Chris Bosh er með sex stig að meðaltali í síðustu þremur leikjum, þar sem hann hefur aðeins hitt úr fjórum af 21 skoti utan af velli. Viltu heyra annan? Hann nær ekki fjórum fráköstum að meðaltali í leik í einvíginu. Hann er 211 sentimetra hár og vegur um 110 kíló.

Dwyane Wade hefur verið í svipuðu rugli. Í síðustu þremur leikjum hefur hann hitt úr 11 af 34 skotum sínum ( 33%) og skilar innan við tólf stigum að meðaltali í leik. Þeir Bosh og Wade eru samanlagt með 35 milljónir dollara í árslaun. Bosh eilítið hærri laun en Wade - þau sömu og LeBron James upp á krónu - 2,15 milljarða króna á ári. Og hækkar í launum á næsta ári. Umtalsvert.

Það getur vel verið að Wade sé að drepast í hnénu og Bosh sé aumur í ökklanum sem hann sneri um daginn - okkur er bara alveg sama. Svona spila meistarar ekki, enda er nákvæmlega enginn meistarabragur á Miami í síðustu þremur leikjum. Enginn.

Þeir Wade og Bosh skoruðu aðeins 15 stig í sjötta leiknum í gær og það er það lægsta sem þeir hafa skorað samanlagt síðan Bosh (og LeBron James) gekk í raðir Miami. Eldra metið var 17 stig og það jöfnuðu þeir í þarsíðasta leik, svo það fer ekki fram hjá nokkrum manni að hér er eitthvað að.

Eins og við höfum áður sagt, verður auðvitað að gefa varnarleik Indiana plús fyrir eitthvað af þessu, en hann einn og sér á ekki að geta eyðilagt leik Miami.

Sólstrandargæjarnir skoruðu ekki nema fimm sinnum undir körfunni í leiknum og hafa aðeins einu sinni í vetur skorað færri körfur þar. Það var að sjálfssögðu á móti Indiana sem það gerðist, nánar tiltekið í janúar.

Indiana spilaði ljómandi vel í sóknarleiknum í nótt með Paul George fremstan í flokki. Pilturinn skoraði 28 stig og hitti úr 11 af 19 skotum sínum annan leikinn í röð. Hann hirti auk þess 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Roy Hibbert vinur hans var líka frábær með 24 stig og 11 fráköst, en það er nokkurn veginn meðaltalið hans í einvíginu.

Þetta var fimmti leikurinn í röð sem Hibbert fer yfir 20 stig og er það í fyrsta skiptið í vetur sem hann nær því.

Hann skoraði einu sinni 20 stig eða meira í fjórum leikjum í röð í haust, en þar fyrir utan voru bara einn og einn 20 stiga leikur á stangli hjá honum. Gott að spila á móti Miami.

Nú er ljóst að við förum í hreinan úrslitaleik í þessu einvígi - leik sjö í Miami á mánudagskvöld.

Ef tölfræðin er skoðuð, kemur í ljós að heimaliðið er með afgerandi betri árangur en útiliðið í þessari stöðu. Heimaliðið hefur unnið tæp 80% af öllum oddaleikjum sem spilaðir hafa verið í sjö leikja seríum í NBA (89-112). Á hinn bóginn er reyndar ekki langt síðan útiliðið vann sigur í oddaleik, því Chicago lagði Brooklyn á útivelli í eina oddaleiknum sem verið hefur í úrslitakeppninni í ár.

Miami hefur unnið þrjá af sex oddaleikjum sem það hefur tekið þátt í, en þar af fóru fimm þeirra fram á heimavelli liðsins. Síðasti sigur Miami í oddaleik kom gegn Boston Celtics í úrslitum Austurdeildarinnar í fyrra. Þessu er öfugt farið hjá Indiana, sem hefur unnið tvo en tapað þremur oddaleikjum og voru þeir allir á útivelli.

Miðað verið frammistöðu liðsfélaga LeBron James í síðustu leikjum, mætti ætla að Miami þurfi á ofurmannlegu framlagi að halda frá honum á mánudagskvöldið. Hann hefur þrisvar sinnum farið í oddaleik á ferlinum, tapaði í tvígang með Cleveland á útivelli en vann áðurnefnt einvígi við Boston fyrir ári.

James hefur skorað yfir 34 stig að meðaltali í leik í oddaleikjum á ferlinum og er það hæsta meðaltal í sögu deildarinnar ef miðað er við fleiri en einn leik spilaðan.

Þetta voru nokkrir tölfræðimolar sem við fengum að láni frá ESPN. Þessar tölur skipta auðvitað ekki nokkru máli þegar komið er í leikinn sjálfan á mánudagskvöldið, en úrslitin í nótt þýða að það er komin upp alveg ný staða í einvíginu í okkar huga.

Indiana getur unnið það.

Guttarnir hjá Pacers hafa verið að elta allt einvígið, en nú eru þeir allt í einu búnir að ná meisturunum og þá blasir við að taka fram úr þeim. Það er erfitt en þægilegt að elta, en allt önnur ella að taka fram úr. Aðeins hugrakkir og skapfastir menn geta klárað svoleiðis - ekki síst á útivelli.

Á pappírunum á Miami að vinna þennan oddaleik vandræðalítið og mun eflaust gera það, en þegar þú ert kominn í hreinan úrslitaleik, má ekkert klikka.

Öll pressan í einvíginu er nú farin af Indiana og hleðst á Miami.

Hugsið ykkur bara. Hvað í fjandanum ætlar Miami að gera ef svo ólíklega vildi til að LeBron James myndi nú eiga skítaleik á mánudaginn? Akkúrat - þeir væru (mök)!

Við skulum þvi segja að allt geti gerst af því þetta er oddaleikur. Það er alltaf mjög spes andrúmsloft þá sjaldan að spilaðir eru hreinir úrslitaleikir í NBA deildinni.

Nánast allir sem fylgjast eitthvað með spáðu Miami í úrslitin (eða lengra) en nú er sá möguleiki allt í einu kominn upp á borðið að það komist ekki í úrslit líkt og tvö síðustu ár.

Hugsið ykkur hvað sögusviðið breytist gígantískt ef meistararnir detta út. Indiana og San Antonio í úrslitum? Það væri eins og Njarðvík-Skallagrímur - enginn LeBron og markaðsdeildin færi í þunglyndi. Út frá körfuboltasjónarmiðinu væri samt ekkert að því, þó hinn möguleikinn sé meira sexý.

Það hefur aldrei gerst að lið hafi farið óverðskuldað í lokaúrslit. Menn þurfa að vinna fyrir því og guttarnir í Indiana eru búnir að vinna sér inn fyrir þessum séns. Nú er bara að sjá hvort þeir hafa pung í að taka hann. Þetta eru leikirnir sem við borgum fyrir að fá að sjá. Sagan skrifuð á staðnum.

Hibbert talar umbúðalaust


Roy Hibbert var spurður af því á fjölmiðlafundi í nótt hvað honum þætti um að hafa aðeins hafnað í 10. sæti í kjörinu á varnarmanni ársins. Sá stóri sagði sína skoðun umbúðalaust og það verður að segjast alveg eins og er - hann hefur rétt fyrir sér.


Friday, May 31, 2013

Roy Hibbert er maðurinn í miðjunni hjá Indiana


Eins og þið vitið, erum við engir sérfræðingar þegar kemur að körfubolta. Ritstjórn NBA Ísland samanstendur af persónuleikum sem fyrst og fremst elska körfubolta. Hitt er svo annað hvort þeir hafa eitthvað vit á honum.

Þeir sem hafa lítið vit á körfubolta, gætu dottið í þá gryfju að fara að skammast út í Miami og Indiana fyrir að sýna ekki sínar bestu sóknarhliðar í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar, sem er líklega orðið besta einvígið í úrslitakeppninni til þessa.

Við gerðumst sek um að skammast út í Miami í svefngalsanum í nótt og ætlum nú reyndar að standa við bróðurpartinn af þeim skömmum, en við verðum samt að passa okkur á því.

Við megum ekki gleyma því að Miami og Indiana eru óhemju sterk varnarlið, sem þýðir að þau leyfa hvort öðru sjaldan að glansa í sóknarleiknum.

Sókn eftir sókn eru liðin að berja hvort á öðru og leita lausna, en vörnin gerir fá mistök og því enda margar sóknir á dálítið neyðarlegum skotum.

Það eru sennilega ekki nema lengra komnir sem átta sig fullkomlega á þessu og við ætlum ekki að þykjast tilheyra þeim flokki, því miður.

Þegar svona illa gengur að skora, leita liðin vitanlega að lausnum sem eru líklegastar til að bera árangur og í tilviki Indiana felst það í því að dæla boltanum inn í teig. Ekki aðeins vegna þess að Pacers er sterkt í miðjunni, heldur einnig af því miðjan er Akkílesarhæll meistaranna.

Indiana skoraði líka flest stig per sókn í "post ups" í NBA í vetur, ef einhver njörðurinn hefur gaman af slíkum upplýsingum.

Alráður í miðjunni hjá Indiana er Roy Hibbert og það hefur verið skondið að fylgjast með framgöngu hans í úrslitakeppninni í ár. Þeir sem lesa NBA Ísland daglega vita að við höfum oftar en einu sinni verið með læti út í Hibbert af því hann var valinn í Stjörnuliðið á síðustu leiktíð.

Það var stórkostlega óverðskuldað, nema þér finnist eðlilegt að maður sem skorar tólf stig og hirðir 8-9 fráköst sé Stjörnuleikmaður. Okkur þótti það full langt gengið í meðvirkninni með stóru mönnunum að setja svona svepp í febrúarfestivalið.

Ekki var Hibbert með skárri tölur í vetur. Hann byrjaði vægast sagt hræðilega og þó eitthvað af erfiðleikum hans eigi rætur að rekja til meiðsla, er ekkert ósanngjarnt að segja að hann hafi valdið vonbrigðum í vetur - að minnsta kosti þegar kemur að sóknarleiknum.

Spólum nú inn í úrslitakeppnina. Skemmst er frá því að segja að þar hefur Hibbert verið sem nýr maður. Tölfræðin og frammistaðan hjá honum hefur verið lóðrétt upp á við. Hann spilaði 32 mínútur í leik gegn Atlanta, 38 mínútur gegn New York og er kominn hátt í 40 mínúturnar gegn Miami.

Hibbert hefur verið akkerið í varnarleiknum hjá Indiana og án hans væri liðið sannarlega ekki komið jafn langt og raun ber vitni. Ekki nóg með það, heldur skorar hann stóran hluta af stigum sínum eftir sóknarfráköst.

Hibbert hirðir að meðaltali yfir fimm sóknarfráköst í leik í úrslitakeppninni og átti stóran þátt í því að í fyrstu fjórum leikjunum gegn Miami, hirti Indiana sóknarfrákastið eftir 40% af skotunum sem það klikkaði á. Það er með ólíkindum.



Það verður áhugavert að fylgjast með Roy Hibbert á komandi árum. Er drengurinn með metnað í að koma sér í fremstu röð, eða ætlar hann að láta sér nægja að spila vörn og blaka einum og einum bolta í körfuna í sókninni? Hann verður aldrei lipur eða fljótur, en hæð hans og styrkur eru það sem hann treystir á.

Hibbert er aðeins 26 ára gamall, sem er ungt í miðherjaárum (miðherjar toppa oftast seinna en aðrir leikmenn) og hann hefur nægan tíma til að bæta brellum inn í sóknarleikinn sinn. Hvernig væri að æfa upp góðan krók eða áreiðanlegt fimm metra stökkskot?

Komdu okkur á óvart, Hibbert. Það er átakanlega mikið pláss fyrir bætingar í miðherjastöðunni í NBA og sviðið er þitt ef þú nennir þessu.

Þegar við vorum að spá í spilin fyrir úrslitakeppnina, sáum við fyrir okkur að Indiana myndi ná að gera þokkalega hluti út af sterkum varnarleiknum en að sóknarleikurinn yrði því að falli.

Það var nefnilega stundum þannig í vetur að Indiana tók fínar rispur, sem lauk svo alltaf með háværum skelli þegar liðið datt inn á leik þar sem það hitti bara ekki neitt.

Við óttuðumst að Indiana myndi eiga einn eða tvo svona leiki í hverri séríu en það hefur sloppið ótrúlega vel og í rauninni má segja að sóknarleikur Indiana í einvíginu við Miami sé búinn að vera bara nokkuð góður.

Annar veikleiki Indiana, tapaðir boltar, hefur líka vafist fyrir liðinu gegn Miami. Það er einfaldlega bannað að tapa boltanum á móti Miami, þá er þér refsað grimmilega.

Indiana-drengir eru nú komnir með bakið upp að vegg í einvíginu og verða að vinna heimaleikinn sinn annað kvöld til að halda lífi í keppninni. Flestir hallast að því að Miami muni loka þessu en veturinn er samt búinn að vera mjög flottur hjá Indiana og getur orðið enn flottari ef liðinu tekst að komast í úrslit.

Indiana er þegar komið með A í einkunn fyrir veturinn í okkar bókum en næsta vetur verður pressan meiri. Þá verður gerð krafa um að liðið fari lengra, sérstaklega ef það nær nú að búa sér til varamannabekk og finna sér skyttur. Grunnurinn er sannarlega til staðar og er einn sá besti í deildinni. Þá er bara að hlaða ofan á hann.

Wednesday, May 29, 2013

Allt í járnum í austrinu


Við ætlum ekki að fara mörgum orðum um fjórða leik Miami og Indiana í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar. Við þurfum þess ekki. Indiana varð að vinna þennan leik, sérstaklega í ljósi þess hvernig fór í vestrinu. Við viljum ekki sjá sóp (4-0) og herramannasóp (4-1) í undanúrslitarimmunum. Það væri bara glatað. Lokatölurnar urðu 99-92.

Indiana slapp ekki aðeins við að lenda undir 3-1 og eiga næsta leik á útivelli, heldur er liðið nú búið að jafna metin í seríunni - sem er allt í einu orðin galopin á ný. Það er ekkert stórfurðulegt að Indiana hafi unnið þennan leik. Þeir áttu inni að spila betur en í leik þrjú og Miami gat fjandakornið ekki haldið áfram að hitta eins og það gerði í leiknum á undan.

Nú er því tryggt að við fáum amk eina undanúrslitarimmu sem verður spennandi og á meðan safna Tim Duncan og félagar í San Antonio ryki heima í Texas. Sjá fram á níu eða tíu daga frí.

Þegar Indiana vinnur Miami, er það af því liðið leikur góða vörn (39% hittni hjá Heat), frákastar vel (+19) og fær gott stigaframlag frá Lance Stephenson (20 stig,  9 af 15 í skotum). Svo var sláninn okkar Roy Hibbert líka að standa sig, bauð upp á þriðja 20/10 leikinn í röð og hirti sóknarfráköstin sem tryggðu Pacers sigurinn í nótt.

Það er skammt stórra högga á milli. Eftir öruggan sigur Miami í þriðja leiknum, sáu margir ekki fram á að liðið myndi tapa öðrum leik í þessu einvígi og Indiana átti að vera alveg búið á því. Sem betur fer var það ekki þannig og heimamenn kipptu því í liðinn sem þeir þurftu að laga fyrir fjórða leikinn. Þessi sería búin að vera hin besta veisla og ætlar að vera það áfram. Sérdeilis prýðilegt.

Wednesday, May 15, 2013

Látið boðin berast


New York Knicks lagði mikið  upp úr langskotunum í vetur. Byrjaði sjóðandi heitt og var líka í miklu stuði á síðustu vikunum í deildakeppninni. Knicks tók rétt tæplega 29 þriggja stiga skot að meðaltali í vetur, sem er með því mesta sem sést hefur í sögu NBA. Þá hitti liðið þokkalega - eða tæp 38%.

Indiana veit að New York vill skjóta mikið fyrir utan og í fyrstu fjórum leikjunum í einvíginu, gekk Pacers nokkuð vel að hrekja Knicks af þriggja stiga línunni. Svo vel að New York tók "aðeins" 20 þrista í hverjum leik og þá var hittnin ekki nema 33%.

New York er nú komið í bullandi vandræði í einvíginu, er á leið á heimavöllinn sinn í leik sex þar sem það gæti endað í sumarfríi ef það vinnur ekki. Knicks getur huggað sig við að Indiana getur hvenær sem er hitt á ömurlegan leik í sókninni þar sem ekkert gengur, svo liðið á enn möguleika þó hann sé ekki stór.

Það hefur líka vakið athygli okkar hvað Roy Hibbert hefur spilað vel fyrir Indiana í þessu einvígi og stóru mennirnir hjá Pacers hafa gjörsamlega tekið Tyson Chandler og félaga í nefið. Bættu svo við það þeirri staðreynd að ´Melo hefur verið í strangri gæslu og hitt illa , JR Smith er að reyna að eiga lélegustu seríu allra tíma og New York er komið í talsverð vandræði.

Wednesday, November 28, 2012

Flensuleikurinn dugði ekki


 Auðvitað kom Indiana með einn flottan sigur til að fylgja eftir ristlinum sem við skrifuðum um liðið hérna á dögunum. Auðvitað fór Indiana til Los Angeles og lagði jójólið Lakers 79-77.

George Hill var óhemju svalur í lokin og skoraði tvær síðustu körfur Indiana, sitt hvoru megin við stóran þrist frá Kobe Bryant sem lyfti honum í 40 stigin þrátt fyrir flensu.

Það er tíska að spila vel með flensu, rétt eins og að binda mönnum helskó til að ganga á til Valhallar.

Kobr Bryant hefur nú skorað 40 stig eða meira 114 sinnum á ferlinum. Hitti 12 af 28 skotum í nótt, hirti 10 fráköst og tapaði 10 boltum.

Verst að Lakers hafi tapað leiknum. Þú vinnur ekki þegar þú tapar 19 boltum og klikkar á tuttugu vítum. Tuttugu! Þar af var Dwight Howard 3 af 12. Þetta á ekki að vera hægt.

Það er ekkert að marka þetta Lakers-lið fyrr en Nash kemur aftur og liðið nær að spila sig saman.

Það er reyndar langt í það, en stóra spurningin er líka hvort meiðslastandið á þessum fuglum kemur yfir höfuð til með að leyfa þeim að stilla saman strengi.

Ef þú heldur að Dwight Howard hafi verið dómínerandi í leiknum með 17 stig og 8 fráköst, bíddu þá þar til þú heyrir hvað Roy Hibbert gerði. Stjörnuleikmaðurinn sá skilaði 8 stigum og 5 fráköstum á hvorki meira né minna en 18 mínútum áður en hann fékk sjöttu villuna.

Þvílíkir kálfar, gungur og lyddur.

Lakers verður því eitthvað áfram með lakari árangur en Charlotte Bobcats.

Saturday, October 27, 2012

Ristill: Roy Hibbert er gunga og lydda





















Ákveðið hefur verið að breyta kjörseðlum fyrir Stjörnuleikinn í NBA. Framvegis getur fólk kosið sér tvo bakverði og þrjá, tjah,  framverði, í stað tveggja framherja og eins miðherja áður.

Þetta er gert til að bregðast við þessari leiðindaþróun sem við erum alltaf að segja ykkur frá, nefnilega Dauða Miðherjans. Þetta þótti okkur efni í stuttan ristil.*

Þeim fer fækkandi með hverju árinu, stóru mönnunum. Sérstaklega þeim sem kunna körfubolta. Roy Hibbert hjá Indiana er leikmaður sem kallar sig miðherja og bara þess vegna komst hann í Stjörnuleikinn í fyrra - ekki af því hann gæti eitthvað.

Hann fór að grenja þegar hann heyrði af nýju reglunum, allir 218 sentimetrarnir af honum titruðu í ekkasogum. Vildu bara snuddu og mömmu.

Fyrirgefið okkur þó við tölum svona með analnum, en Roy Hibbert getur bara ekki blautan s**t í körfubolta, sama hvað hver segir.

Hann á að vera maður sem fer með Indiana á næsta stig, en ræður ekki við það og mun líklega aldrei gera. Hann er drasl sem hefði aldrei átt að koma nálægt Stjörnuleik og vinnur engan veginn fyrir laununum sínum.

Hibbert er ekki eina draslið í miðherjastöðunni. NBA deildin er full af svona rusli. Þar er aftur á móti hægt að finna fullt af góðum framherjum og það er miklu nær að leyfa þeim að spila Stjörnuleiki.

Aldrei þessu vant tekur deildin gáfulega ákvörðun. Þú átt að vinna þér sæti í Stjörnuleik af því þú ert góður í körfubolta, ekki af því þú ert eini miðherjinn í deildinni sem skorar tíu stig að meðaltali í leik.

Við erum niðurbrotin yfir dauða miðherjans eftir að hafa hlotið síðari partinn af  NBA uppeldinu á gullaldarárum stöðunnar. Þetta er eins og með þungavigtina í boxinu. Bara dáið og horfið og enginn veit hvað gerðist.

Einn daginn ertu að horfa á Tyson halda mönnum á lofti með hnefunum, Shaq rífa niður körfur með spjöldum og tjökkum, Hakeem dansa tangó í teignum. En allt í einu hurfu þeir jafn snögglega og risaeðlurnar.

Þú situr eftir með Darko Milicic, Eddy Curry og DeAndre Jordan. Vaknar upp við vondan draum eins og maður á alsæluniðurtúr eftir þriggja daga helgi á Thomsen.

Þetta er ekki sanngjarnt.

Haltu þér saman, Roy. Taktu þér tak og farðu að vinna fyrir kaupinu þínu. Reyndu að sýna okkur að staðan sé ekki dauð. Við höldum með þér, Hibbert. Þú ert gunga og lydda, en við höldum með þér.

* - Ristill er gremjublandinn pistill sem höfundur skrifar án raka og ábyrgðar, þ.e. með ra**gatinu.