Showing posts with label Miðherjar. Show all posts
Showing posts with label Miðherjar. Show all posts

Tuesday, October 20, 2015

Natvélin í urrandi botni


Við sögðum ykkur frá upplifun okkar af KR-liðinu um helgina, eftir að það tapaði fyrir Stjörnunni í Garðabæ.
Í gærkvöldi kíktum við á Vesturbæinga taka á móti Þórsurum frá Þorlákshöfn og sjáum hreint ekki eftir því.

Þeir sem sáu þennan leik voru að tala um að öfugt við leikinn í Garðabæ á föstudaginn, hafi KR amk átt nokkrar glefsur af almennilegri spilamennsku að þessu sinni. Ekki margar, en nógu margar til að klára Þórsarana sem þó bitu og klóruðu allan tímann, 90-80.

En við ætlum ekki að þvaðra um KR núna og við ætlum reyndar ekki að þvaðra um Þór heldur - ekki þannig. Við þurfum að tala aðeins um miðherja Þórs, Ragnar Ágúst Nathanaelsson - Natvélina!

Sagan segir að pilturinn hafi endurskoðað viðhorf sín til körfuknattleiksíþróttarinnar fyrir nokkrum misserum, sem hefur eflaust verið ákvörðun sem honum var hjálpað að taka, en það fylgir því auðvitað enginn eftir nema hann sjálfur.

Kannski hefur einhver sest niður með honum og sagt: "Hey, þú ert tveir og átján - kannski geturðu fengið vinnu við að troða körfuboltum ofan í körfur!"

Hvað sem því líður virðist Ragnar hafa gefið rekið hælana í klárinn og skerpt á plönum sínum. Hann var náttúrulega verðlaunaður fyrir það með því að fá að vera í frægasta landsliðshóp í sögu íslensks körfubolta sem Spútnik-aði yfir sig á EM um daginn.

Það er freistandi að fara að velta sér upp úr tröllatölfræðinni sem Ragnar er búinn að bjóða upp á í fyrstu tveimur leikjunum sínum í deildinni í ár (22 stig, 15 fráköst og 3 varin) en til þess er skammtastærðin einfaldlega of lítil.

Nei, við þurfum nefnilega ekki að horfa í tölfræðina til að átta okkur á því hvað er að gerast hjá Natvélinni. Það er nóg að horfa á piltinn spila í nokkrar mínútur.

Við sáum Ragnar spila gegn KR í gærkvöldi og það er skemmst frá því að segja að við vorum mjög hrifin af því sem fyrir augu bar.

Hann hefur alltaf verið stór, en það eru komin miklu meiri læti í hann núna. Hann er allur fljótari, kvikari og sterkari og það sem okkur finnst skipta mestu máli, hann spilar með miklu meira sjálfstrausti en áður.

Og hluti af þessu sjálfstrausti er farið að brjótast út í smá hroka.

Nú erum við almennt ekkert sérstaklega hrifin af hroka* en við erum þeirrar skoðunar að því sé eins farið með miðherja í körfubolta og stórsöngvara - t.d. tenóra. Þeir fúnkera bara miklu betur ef þeir eru hrokafullir.

Sjáðu til dæmis menn eins og Fannar Ólafsson - hvar væri hann án þessarar góðu slettu af hroka? Hefði hann farið fyrir KR og unnið alla þessa titla án hrokans? Kannski, en hrokinn skemmdi áreiðanlega ekki fyrir.

Leikstíll þeirra er gjörólíkur,  en það er gaman að fylgjast með vexti og þroska tveggja ungra og 218 sentimetra hárra miðherja um þessar mundir - þeirra Ragnars og frönsku andspyrnu-hreyfingarinnar Rudy Gobert. 

Frakkinn knái spilaði líka á EM og okkur datt hann í hug af því hann er líka á bullandi uppleið og er dásamlega hrokafullur. Og ekki bara af því hann er franskur. Hann ætlar að verða besti miðherji í heimi og er alveg nákvæmlega sama hvað þér finnst um það.

Ragnari virðist líka vera drullusama hvað mönnum eins og Michael Craion finnst um veru hans í teigum Domino´s deildarinnar - hann virðist kominn hingað til að vera með dólg og draga Þórsliðið eins langt og hann mögulega getur.

Hann er ekki eitthvað stiff sem sveiflast fram og aftur í teignum og veit ekkert hvað það er að gera, hann er farinn að telja á báðum endum vallarins.

Fá menn til að skipta um skoðun þegar þeir ætla að keyra á körfuna eða skjóta í teignum - og berja skotin þeirra upp í rjáfur ef þeir eru nógu vitlausir til að reyna þau. Taka við boltanum á blokkinni og setja niður stutta króka eða þruma niður troðslum á hinum endanum.

Með öðrum orðum, Natvélin er að verða fullorðins og það er orðið alveg drulluskemmtilegt að horfa á hana vinna á fullum snúningi eins og í DHL höllinni í gærkvöldi, þar sem hún grændaði sér inn 25 stig, 17 fráköst og sex varin skot.

Við hvetjum Ragnar eindregið til að halda áfram á þessari braut, halda áfram að æfa, halda sér hungruðum og hrokafullum og sverja þess eið að troða yfir allt og alla í þessari deild - aftur og aftur, oft og fast! Hrækja á tölfræðiskýrslur og slá met!

Svo á hann alltaf eftir að koma í hlaðvarp NBA Ísland og segja okkur alla söguna, enda liggur fyrir samningur þess efnis sem undirritaður var á Twitter fyrir margt löngu.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Nema þegar Zlatan er annars vegar, auðvitað.

Saturday, November 30, 2013

Sælar stelpur, Spencer hérna


Spencer Hawes verður að fara að gæta að sér. Ef hann heldur áfram á þessari braut, þarf hann að spila Stjörnuleik í febrúar.

Sixers-miðherjinn geðþekki er að skora 17 stig, hirða 10 fráköst, gefa 3 stoðsendingar og verja 1,6 skot að meðaltali í leik. Þar að auki er hann að skjóta rúmlega 53% utan af velli og hittir úr 49% þriggja stiga skota sinna - sem er fjandi magnað því hann tekur hátt í fjögur langskot að meðaltali í leik.

Við komumst að því í nótt að Spencer Hawes er á ákveðinn hátt algjör andstæða Marc Gasol sem miðherji í NBA deildinni. Gasol er frábær miðherji sem skilar skítlélegum tölum alveg sama hvað hann spilar vel.

Nú ætlum við ekki að segja að Hawes greyið sé skítlélegur, en hann er klárlega ekki alveg eins góður og tölfræðin hans segir. Hann er náttúrulega að spila með liði sem vinnur ekkert rosalega marga leiki.

Við skulum samt ekkert vera að velta okkur upp úr því, heldur njóta þess sem Hawes er að bjóða upp á í vetur. Af hverju að vera að setja út á það, þá sjaldan að miðherji gerir eitthvað í NBA deildinni.


Sunday, August 4, 2013

Yao Ming hefur ekki minnkað


Ekki höfum við hugmynd um hvað kínverski risinn og gæðablóðið Yao Ming var að dandalast með Kanadamanninum Patrick Chan, en svo skemmtilega vill til að það náðist mynd af þeim félögum. Chan er 171 sentimetri á hæð og er margfaldur heimsmeistari í listdansi á skautum. Okkur sýnist Yao vera aðeins hærri.


Friday, May 31, 2013

Roy Hibbert er maðurinn í miðjunni hjá Indiana


Eins og þið vitið, erum við engir sérfræðingar þegar kemur að körfubolta. Ritstjórn NBA Ísland samanstendur af persónuleikum sem fyrst og fremst elska körfubolta. Hitt er svo annað hvort þeir hafa eitthvað vit á honum.

Þeir sem hafa lítið vit á körfubolta, gætu dottið í þá gryfju að fara að skammast út í Miami og Indiana fyrir að sýna ekki sínar bestu sóknarhliðar í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar, sem er líklega orðið besta einvígið í úrslitakeppninni til þessa.

Við gerðumst sek um að skammast út í Miami í svefngalsanum í nótt og ætlum nú reyndar að standa við bróðurpartinn af þeim skömmum, en við verðum samt að passa okkur á því.

Við megum ekki gleyma því að Miami og Indiana eru óhemju sterk varnarlið, sem þýðir að þau leyfa hvort öðru sjaldan að glansa í sóknarleiknum.

Sókn eftir sókn eru liðin að berja hvort á öðru og leita lausna, en vörnin gerir fá mistök og því enda margar sóknir á dálítið neyðarlegum skotum.

Það eru sennilega ekki nema lengra komnir sem átta sig fullkomlega á þessu og við ætlum ekki að þykjast tilheyra þeim flokki, því miður.

Þegar svona illa gengur að skora, leita liðin vitanlega að lausnum sem eru líklegastar til að bera árangur og í tilviki Indiana felst það í því að dæla boltanum inn í teig. Ekki aðeins vegna þess að Pacers er sterkt í miðjunni, heldur einnig af því miðjan er Akkílesarhæll meistaranna.

Indiana skoraði líka flest stig per sókn í "post ups" í NBA í vetur, ef einhver njörðurinn hefur gaman af slíkum upplýsingum.

Alráður í miðjunni hjá Indiana er Roy Hibbert og það hefur verið skondið að fylgjast með framgöngu hans í úrslitakeppninni í ár. Þeir sem lesa NBA Ísland daglega vita að við höfum oftar en einu sinni verið með læti út í Hibbert af því hann var valinn í Stjörnuliðið á síðustu leiktíð.

Það var stórkostlega óverðskuldað, nema þér finnist eðlilegt að maður sem skorar tólf stig og hirðir 8-9 fráköst sé Stjörnuleikmaður. Okkur þótti það full langt gengið í meðvirkninni með stóru mönnunum að setja svona svepp í febrúarfestivalið.

Ekki var Hibbert með skárri tölur í vetur. Hann byrjaði vægast sagt hræðilega og þó eitthvað af erfiðleikum hans eigi rætur að rekja til meiðsla, er ekkert ósanngjarnt að segja að hann hafi valdið vonbrigðum í vetur - að minnsta kosti þegar kemur að sóknarleiknum.

Spólum nú inn í úrslitakeppnina. Skemmst er frá því að segja að þar hefur Hibbert verið sem nýr maður. Tölfræðin og frammistaðan hjá honum hefur verið lóðrétt upp á við. Hann spilaði 32 mínútur í leik gegn Atlanta, 38 mínútur gegn New York og er kominn hátt í 40 mínúturnar gegn Miami.

Hibbert hefur verið akkerið í varnarleiknum hjá Indiana og án hans væri liðið sannarlega ekki komið jafn langt og raun ber vitni. Ekki nóg með það, heldur skorar hann stóran hluta af stigum sínum eftir sóknarfráköst.

Hibbert hirðir að meðaltali yfir fimm sóknarfráköst í leik í úrslitakeppninni og átti stóran þátt í því að í fyrstu fjórum leikjunum gegn Miami, hirti Indiana sóknarfrákastið eftir 40% af skotunum sem það klikkaði á. Það er með ólíkindum.



Það verður áhugavert að fylgjast með Roy Hibbert á komandi árum. Er drengurinn með metnað í að koma sér í fremstu röð, eða ætlar hann að láta sér nægja að spila vörn og blaka einum og einum bolta í körfuna í sókninni? Hann verður aldrei lipur eða fljótur, en hæð hans og styrkur eru það sem hann treystir á.

Hibbert er aðeins 26 ára gamall, sem er ungt í miðherjaárum (miðherjar toppa oftast seinna en aðrir leikmenn) og hann hefur nægan tíma til að bæta brellum inn í sóknarleikinn sinn. Hvernig væri að æfa upp góðan krók eða áreiðanlegt fimm metra stökkskot?

Komdu okkur á óvart, Hibbert. Það er átakanlega mikið pláss fyrir bætingar í miðherjastöðunni í NBA og sviðið er þitt ef þú nennir þessu.

Þegar við vorum að spá í spilin fyrir úrslitakeppnina, sáum við fyrir okkur að Indiana myndi ná að gera þokkalega hluti út af sterkum varnarleiknum en að sóknarleikurinn yrði því að falli.

Það var nefnilega stundum þannig í vetur að Indiana tók fínar rispur, sem lauk svo alltaf með háværum skelli þegar liðið datt inn á leik þar sem það hitti bara ekki neitt.

Við óttuðumst að Indiana myndi eiga einn eða tvo svona leiki í hverri séríu en það hefur sloppið ótrúlega vel og í rauninni má segja að sóknarleikur Indiana í einvíginu við Miami sé búinn að vera bara nokkuð góður.

Annar veikleiki Indiana, tapaðir boltar, hefur líka vafist fyrir liðinu gegn Miami. Það er einfaldlega bannað að tapa boltanum á móti Miami, þá er þér refsað grimmilega.

Indiana-drengir eru nú komnir með bakið upp að vegg í einvíginu og verða að vinna heimaleikinn sinn annað kvöld til að halda lífi í keppninni. Flestir hallast að því að Miami muni loka þessu en veturinn er samt búinn að vera mjög flottur hjá Indiana og getur orðið enn flottari ef liðinu tekst að komast í úrslit.

Indiana er þegar komið með A í einkunn fyrir veturinn í okkar bókum en næsta vetur verður pressan meiri. Þá verður gerð krafa um að liðið fari lengra, sérstaklega ef það nær nú að búa sér til varamannabekk og finna sér skyttur. Grunnurinn er sannarlega til staðar og er einn sá besti í deildinni. Þá er bara að hlaða ofan á hann.

Friday, May 24, 2013

Meira af mönnunum í miðjunni


Við erum alltaf að tuða um dauða stóra mannsins - þá staðreynd að alvöru miðherjar eru að verða útdauð tegund í NBA deildinni. Skondið dæmi um þetta eru úrvalsliðin þrjú sem tilkynnt voru í dag.

Stóri maðurinn í fyrsta úrvalsliðinu er tæknilega ekki miðherji, en fyrir þá sem vilja kalla Tim Duncan miðherja, skoraði hann 18 stig, hirti 10 fráköst og varði þrjú skot í leik í vetur.

Maðurinn í öðru úrvalsliðinu, Marc Gasol, var með skítlélegar tölur (14 stig, 8 fráköst, 2 varin) eins og við sögðum ykkur í aurskriðunni af pistli fyrr í kvöld. Við gáfum Gasol samt undanþágu og "leyfðum honum" að vera á sínum stað í úrvalsliðinu af því hann er svo óeigingjarn, góður sendingamaður og duglegur í vörninni.

Þriðji miðherjinn í úrvalsliðið var svo Dwight Howard blessaður. Hann átti slakasta ár sitt í langan tíma, mestmegnis vegna meiðsla, en náði þó að skila þokkalegum tölum. Hann skoraði 17 stig, hirti 12 fráköst og varði tvö skot í leik í vetur.

Þetta eru nú ekki beint MVP-tölur eins og þið sjáið. Eigum við að fá smá samanburð?

Árið 1992 var miðherji nokkur að spila í NBA deildinni sem skoraði 22 stig, hirti 12 fráköst, varði 4 skot og stal tveimur boltum að meðaltali í leik.  Hann var með yfir 50% skotnýtingu og liðið hans var með yfir 50% vinningshlutfall.

Þessi maður komst ekki í úrvalslið NBA deildarinnar. 

Ekki í fyrsta lið, ekki í annað, ekki þriðja heldur.

Þetta var Hakeem Olajuwon, leikmaður Houston.

David Robinson hjá San Antonio var í fyrsta úrvalsliði, Patrick Ewing hjá New York í öðru og Cleveland-miðherjinn Brad Daugherty í því þriðja.

Heldurðu að Hakeem hefði komist í úrvalsliðið í ár?

Sunday, January 20, 2013

Ristill: Um afleita frákastavinnu Bosh og Bargnani


Mikið hefur verið gert úr því að Miami hefur ekki verið að spila sérstaklega vel undanfarið. Auðveldast væri að segja að það sé út af varnarleiknum, en fráköst eru sannarlega hluti af varnarleik og þar situr sveðjan í beljunni. Miami er sem stendur í 29. sæti deildarinnar í fráköstum.

Á töflunni hér fyrir neðan sérðu hvað leikmenn Miami eru slappir í fráköstunum. LeBron James gerir nokkuð vel að venju, en strangt til tekið má segja að allir hinir leikmennirnir þurfi að skoða sín mál.


















Það eru auðvitað stóru mennirnir sem eiga að frákasta og því miður fyrir Miami er það Chris nokkur Bosh sem gegnir stöðu miðherja hjá liðinu. Það á eftir að koma í ljós, en við óttumst að Chris Bosh eigi eftir að verða valinn í Stjörnulið Austurdeildarinnar í ár.

Það er eitthvað að ef svo verður. Bosh er búinn að vera hræðilegur undanfarið.

Bosh er sannarlega enginn miðherji og þó hann hafi lengst af á ferlinum verið skráður kraftframherji, er hann líkari skotbakverði á vellinum en kraftframherja.

Hlutverk stórra manna í körfubolta er að spila vörn, verja skot og hirða fráköst. Bosh hefur hinsvegar lítinn áhuga á þessu og sérgrein hans er stökkskot utan af velli, því hann hefur ofnæmi fyrir snertingu.

Þetta fer allt saman rosalega í taugarnar á okkur eins og þið eruð eflaust farin að átta ykkur á.

Bosh átti nokkra skínandi leiki í úrslitakeppninni á síðasta ári og hann á jú sínar sterku hliðar sem leikmaður, en hann mun aldrei vinna fyrir þeim fáránlegu launum sem hann er að fá hjá Miami. Og það fer líka í taugarnar á okkur.

Menn sem vinna engan veginn fyrir kaupinu sínu og stórir menn sem þola ekki snertingu og hirða ekki fráköst, eru atriði á topp 10 lista okkar yfir mest óþolandi hlutina í NBA deildinni.

Lítum aðeins á tölurnar hans Chris Bosh:

Hann er að spila fæstar mínútur á ferlinum og því kemur ekki á óvart að hann sé að hirða færri fráköst en nokkru sinni. Hann er að rífa niður heil sjö fráköst á 33 mínútum, sem er grátlega lélegt. Það er nú ekki eins og hann sé að spila með einhvern Pekovic eða Love við hliðina á sér.

Chris Bosh hirti fjórum sinnum 10 fráköst eða meira í einum leik í nóvember og fjórum sinnum í desember, en hann hefur enn ekki náð tveggja stafa tölunni í janúar.

Hann hefur náð í heilar níu tvennur í allan vetur og hefur ekki náð 10 fráköstum síðan í fyrra.


Við sögðum ykkur frá upplifun okkar þegar við horfðum á Bosh spila gegn Warriors á dögunum. Þar hitti hann 5 af 14 skotum, skoraði 11 stig, hirti 6 fráköst og tapaði 3 boltum.

Það er erfitt að lýsa því með orðum hvað hann var lélegur. Hvað eftir annað var hann að láta kasta sér til og lét bakverði rífa af sér fráköst. Það er sorglegt að horfa á manninn spila.

Það eina sem Chris Bosh getur huggað sig við þessa dagana - og reyndar alltaf - er að þótt ótrúlegt megi virðast, er hann EKKI lélegasti frákastarinn í NBA deildinni! (hér væri upplagt að spila mjög hátt á gamalt kirkjuorgel til að undirstrika þessi gríðarlega óvæntu tíðindi - svona til að auka hughrifin).

Án þess að leggja fram vísindaleg rök fyrir því - fullyrðum við að Andrea Bargnani er lélegasti frákastarinn, ekki bara í NBA deildinni, heldur mögulega í öllum heiminum. Hann lætur Bosh líta út eins og Dennis Rodman í samanburði. Að hugsa sér að þessir menn hafi spilað saman á árum áður. Hvernig náði Toronto fráköstum?

Bargnani er einmitt á svipuðu flugi og Chris Bosh var varðar aumingjaskap í vetur. Hann hefur alltaf verið ömurlegur frákastari en er nú að hóta því að setja ný met í að frussu-drulla á sig á frákastasviðinu.

Bargnani er skráður miðherji eins og Bosh en spilar raunar stöðu kraftframherja. Það er ekki andskoti mikill kraftur í umræddum framherja, því hann heldur auðvitað að hann sé skotbakvörður alveg eins og Bosh.

Þessi 213 sm hái Ítali er að hirða hvorki meira né minna en 4,3 fráköst að meðaltali í leik á 33 mínútum. Þetta er ekki langt frá því að vera heimsmet - það bara getur ekki annað verið.

Bargs er búinn að vera dálítið meiddur í vetur og er bara búinn að spila 21 leik, en þú hugsar örugglega með þér;

"ókei, hann er kannski slappur frákastari, en hann hlýtur að vera búinn að ná sér í EINA tvennu í vetur... er það ekki?"

Nei.

Hann hefur einu sinni tekið níu fráköst.

Tvisvar átta.

Þetta á ekki að vera hægt.

Það eru ellefu bakverðir í NBA deildinni sem hirða fleiri fráköst en Andrea Bargnani.
Hann er í sjöunda sæti í fráköstum í sínu liði! Sjöundi! Bakverðirnir taka fleiri fráköst en hann.

Hvað á að gera við svona aumingja? Án gríns!

Fyrirgefið okkur þessi ógurlegu leiðindi, en við bara getum ekki þagað yfir svona.

REYNIÐ AÐ PAPPÍRA YKKUR, AULAR!

Saturday, October 27, 2012

Ristill: Roy Hibbert er gunga og lydda





















Ákveðið hefur verið að breyta kjörseðlum fyrir Stjörnuleikinn í NBA. Framvegis getur fólk kosið sér tvo bakverði og þrjá, tjah,  framverði, í stað tveggja framherja og eins miðherja áður.

Þetta er gert til að bregðast við þessari leiðindaþróun sem við erum alltaf að segja ykkur frá, nefnilega Dauða Miðherjans. Þetta þótti okkur efni í stuttan ristil.*

Þeim fer fækkandi með hverju árinu, stóru mönnunum. Sérstaklega þeim sem kunna körfubolta. Roy Hibbert hjá Indiana er leikmaður sem kallar sig miðherja og bara þess vegna komst hann í Stjörnuleikinn í fyrra - ekki af því hann gæti eitthvað.

Hann fór að grenja þegar hann heyrði af nýju reglunum, allir 218 sentimetrarnir af honum titruðu í ekkasogum. Vildu bara snuddu og mömmu.

Fyrirgefið okkur þó við tölum svona með analnum, en Roy Hibbert getur bara ekki blautan s**t í körfubolta, sama hvað hver segir.

Hann á að vera maður sem fer með Indiana á næsta stig, en ræður ekki við það og mun líklega aldrei gera. Hann er drasl sem hefði aldrei átt að koma nálægt Stjörnuleik og vinnur engan veginn fyrir laununum sínum.

Hibbert er ekki eina draslið í miðherjastöðunni. NBA deildin er full af svona rusli. Þar er aftur á móti hægt að finna fullt af góðum framherjum og það er miklu nær að leyfa þeim að spila Stjörnuleiki.

Aldrei þessu vant tekur deildin gáfulega ákvörðun. Þú átt að vinna þér sæti í Stjörnuleik af því þú ert góður í körfubolta, ekki af því þú ert eini miðherjinn í deildinni sem skorar tíu stig að meðaltali í leik.

Við erum niðurbrotin yfir dauða miðherjans eftir að hafa hlotið síðari partinn af  NBA uppeldinu á gullaldarárum stöðunnar. Þetta er eins og með þungavigtina í boxinu. Bara dáið og horfið og enginn veit hvað gerðist.

Einn daginn ertu að horfa á Tyson halda mönnum á lofti með hnefunum, Shaq rífa niður körfur með spjöldum og tjökkum, Hakeem dansa tangó í teignum. En allt í einu hurfu þeir jafn snögglega og risaeðlurnar.

Þú situr eftir með Darko Milicic, Eddy Curry og DeAndre Jordan. Vaknar upp við vondan draum eins og maður á alsæluniðurtúr eftir þriggja daga helgi á Thomsen.

Þetta er ekki sanngjarnt.

Haltu þér saman, Roy. Taktu þér tak og farðu að vinna fyrir kaupinu þínu. Reyndu að sýna okkur að staðan sé ekki dauð. Við höldum með þér, Hibbert. Þú ert gunga og lydda, en við höldum með þér.

* - Ristill er gremjublandinn pistill sem höfundur skrifar án raka og ábyrgðar, þ.e. með ra**gatinu.

Tuesday, September 4, 2012

Þegar Robert Parish var yngri


Hvort sem þú trúir því eða ekki, var Robert Parish einu sinni aðeins yngri en hann er í dag. Hér er mynd af kappanum þegar hann lék með Golden State Warriors. Þá var hann stundum sakaður um leti. Það breyttist þegar Celtics stal honum. Tæpum tveimur áratugum síðar var hann orðin goðsögn.