Showing posts with label Hlynur Bæringsson. Show all posts
Showing posts with label Hlynur Bæringsson. Show all posts

Sunday, July 19, 2015

Hlaðvarp NBA Ísland: 45. þáttur




Í nýjasta þætti hlaðvarpsins slær Baldur Beck á þráðinn til landsliðsmannsins Hlyns Bæringssonar sem um þessar mundir er í sumarleyfi á Íslandi til að safna kröftum fyrir átökin á EM í haust. Miðherjinn sterki i ræðir meðal annars feril sinn sem atvinnumanns, dvölina í Svíþjóð, nýja samninginn hans og svo auðvitað verkefnið stóra sem er fram undan hjá landsliðinu..

Þú getur hlustað á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann. Viljir þú tjá þig um efni þáttarins, hlaðvarpið, NBA Ísland eða ef þú lendir í tæknivandræðum, geturðu haft samband við okkur á nbaisland@gmail.com

Thursday, August 28, 2014

Ísland á EM í körfubolta (+ myndir)


Karlalandsliðið okkar í körfubolta er búið að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins í fyrsta skipti í sögunni og körfuboltaáhugamenn á Íslandi vita hreinlega ekki hvað þeir eiga af sér að gera.

Þetta varð ljóst þrátt fyrir að liðið tapaði 70-78 á heimavelli fyrir Bosníumönnum og Hersigóvum í gærkvöldi. Tölfræðisérfræðingarnir okkar sögðu okkur að íslenska liðið væri sama og komið áfram vegna stöðunnar í öðrum leikjum áður en flautað var til leiks í Höllinni í gær. Íslenska liðið hefði þurft að tapa með yfir 30 stiga mun til að eiga á hættu að sitja eftir. Það var aldrei uppi á teningnum í þessum hnífjafna leik, þar sem gestirnir reyndust sterkari í lokin.

Það kemur enda lítið á óvart að Bosnía skuli vinna körfuboltaleik. Þetta er flott lið hvort sem í það vantar NBA leikmann eða ekki. Sérstaklega þótti okkur varnarleikur beggja liða sterkur í gær og það var varnarleikur gestanna sem tryggði þeim sigurinn að lokum. Íslenska liðið fann ekki svör í sókninni á síðustu mínútunum. Burðarásar eins og Stefánsson skiljanlega orðnir nokkuð þreyttir.

Það vantaði kannski skorunarmaskínu frá Brooklyn Nets í lið gestanna, en líklega hefur skarðið sem Hlynur Bæringsson skildi eftir sig verið enn stærra fyrir íslenska liðið.

Eins og atmennið sem hann er, spilaði Hlynur nokkrar mínútur á krambúleruðum ökklanum, en gat skiljanlega ekki beitt sér að fullu.

Þetta nýttu risarnir frá Bosníu sér vel og það gefur augaleið að ein stærsta breytan á bak við sigur þeirra var yfirburðir þeirra undir körfunni - bæði í sókn (54% nýting í tvistum gegn 32% hjá íslenska liðinu) og í fráköstunum (44-35).

Þetta var fín æfing fyrir strákana okkar á þessu sviði, því þeir eiga eftir að þurfa að kljást við ófáa risana þegar þeir koma á EM, hvar sem það verður nú haldið.

Annars erum við sammála Hauki Helga Pálssyni, sem í samtali við Guðmund Marínó Ingvarsson á Vísi sagði að líklega hefðum við tekið þennan leik ef Hlynur hefði verið 100% heill. Það er grábölvað að vera án hans eins og þið sáuð þegar andstæðingar okkar dældu boltanum hvað eftir annað inn í teiginn og fóru illa með miklu lágvaxnari leikmenn íslenska liðsins.

Þetta lagaðist aðeins þegar þjálfarinn sendi Natvélina á vettvang og við hefðum viljað sjá hana lengur en í sjö mínútur inni á vellinum.

Monday, August 11, 2014

Ljómandi sigur hjá landsliðinu


Það kom ansi mörgum á óvart a strákarnir okkar í körfuboltalandsliðinu tækju Stór-Bretana og flengdu 83-70 þá í Laugardalshöllinni í kvöld. Piltarnir okkar virðast hinsvegar hafa vitað það allan tímann að þeir ættu eftir að taka þetta.

Af því við höfum ekki hundsvit á körfubolta, spurðum við okkur reyndara fólk út í breska landsliðið og styrk þess. Allir voru á einu máli um að lið sem tryggir sér sæti á hverju stórmótinu á fætur öðru (án þess að nota NBA-menn í undankeppnum) hljóti bara að kunna körfubolta, jafnvel þó Alan Bannister sé hættur að spila.

Þið eruð öll búin að sjá og lesa um hvernig þetta fór allt saman. Hvernig piltar eins og Haukur Pálsson og Martin Hermannsson virtust ákveða það í síðari hálfleiknum að nú væri best að vinna körfuboltaleik.

Mikið er búið að ala þessa stráka vel upp á körfuboltasviðinu.

"Rosalega er gaman að sjá þessa ungu stráka. Þeir mættu bara og kláruðu leikinn!" sagði fyrrum landsliðsmaður himinlifandi eftir leikinn. Brosti hringinn eins og synir hans hefðu verið að vinna Nettómótið.

Flestir strákanna voru að gera eitthvað skemmtilegt fyrir okkur í kvöld. Hlynur Bæringsson Hlynur Bæringsson-aði til dæmis yfir sig með 14/15 leik, hörkuvörn, baráttu og er sjálfsagt enn að plokka tennurnar á Englendingunum úr olnbogunum á sér. Okkur þykir svo vænt um Hlyn.

Saturday, August 17, 2013

Ísland vann Rúmeníu í körfubolta


Íslenska karlalandsliðið hristi af sér Búlgaríubömmerinn í kvöld með því að leggja Rúmena 77-71 í Laugardalshöllinni í kvöld. Seint verður sagt að hér hafi verið um fallegan körfuboltaleik að ræða, en strákarnir gerðu mjög vel í að klára leikinn, sem var í járnum lengst af.

Það er ansi vel af sér vikið að vinna körfuboltaleik þar sem þriggja stiga nýtingin er sjö prósent og tapaðir boltar fara yfir tuttugu. Það var gaman að fá að sjá strákana spila þessa tvo landsleiki hérna heima og ljómandi fínt hjá þeim að ná öðru sætinu, þó auðvitað hafi munað sorglega litlu að við tækjum efsta sætið. Það kemur bara næst. Hérna eru nokkrar myndir sem við smelltum af í kvöld.