Ritstjórn NBA Ísland hvetur lesendur til að lesa formálann að þessari ritröð áður en það tekst á við greinarnar sem á eftir koma, en í honum reynum við að útskýra hvað fyrir okkur vakir með þessu öllu saman.
Strangt til tekið er kannski ekki nauðsynlegt að lesa formálann fyrst, því það skilur enginn samhengislausan vaðalinn í okkur hvort sem er, en þið ráðið auðvitað hvernig þið hafið þetta. Það er það góða við NBA Ísland. Þið ráðið þessu öllu saman og þetta kostar ekki neitt frekar en venjulega. Hefst þá pistillinn:
Hér er fyrst mikilvæg áskorun frá ritstjórn:
Áður en lengra er haldið í þessum fyrsta pistli okkar í uppgjörinu á leiktíðinni 2016-17, verðum við eiginlega að ráðleggja fólki að sleppa því að lesa hann.
Fyrsta ástæðan fyrir því að sleppa því, er að hann er allt of langur, fer allt of mikið út fyrir efnið (persónulegt met hjá okkur, reyndar, og þið getið rétt ímyndað ykkur hvurslags geðveiki þarf til að toppa metið okkar í að fara út fyrir efnið) og ef einhver lesandinn yrði svo nógu bilaður að lesa pistilinn til enda og jafnvel skilja hann líka, gæti viðkomandi lent í talsverðri klemmu.
Umræddur lesandi fengi þannig teiknaða upp fyrir sig allt of skýra og heildstæða mynd af nákvæmlega öllu sem viðkemur ákvörðun Kevin Durant að fara til Warriors í fyrra, áhrifum ákvörðunar hans á bæði Oklahoma og Golden State og um það bil þrjú þúsund aðra misáhugaverða hluti.
Eins og venjulega, leggjum við málin í ykkar hendur, kæru lesendur. Við treystum ykkur til að taka skynsamlegar ákvarðanir og fara ykkur ekki að voða í þessu.
Jæja, allir klárir? Ókei. Keyrum þá bara á þetta saman.
Þetta er sumsé fíllinn sem er búinn að vera skítandi í herbergið í ellefu og hálfan mánuð - (auðveldlega) umdeildasta atriði ársins í NBA deildinni:
Ákvörðun Kevin Durant að ganga til liðs við Golden State sumarið 2016.
Fjöldi fólks hefur spurt sig að þessu og fjöldi fólks hefur líka spurt okkur beint að þessu: Af hverju?Auðvitað er NBA Ísland með svarið handa ykkur, til þess erum við, en við fórum að sjálfssögðu ekki beinu leiðina til að afla þess; tókum bara upp símann og hringdum í Kevin Durant eða fórum bara í heimsókn til hans í kaffi og kleinur. Þið vitið að þetta virkar ekki þannig - og ef þið vitið það - vitið þið líka að það kemur ekki eitt einasta satt orð út úr kjaftinum á atvinnuíþróttamönnum í viðtölum ef þeir eru spurðir spurninga sem eitthvað vit er í. Þannig er bransinn bara, því miður.*
Og þess vegna er miklu, miklu skemmtilegra fyrir ykkur að lesa svörin sem við gefum ykkur við spurningunni heldur en nokkurn tímann að hlusta á Durant sjálfan ljúga einhvern fjölmiðlamanninn stútfullan af útursnúningum og klisjum. Gleymdu því! Það er ekkert varið í það! Miklu betra að treysta á Íslandið sitt.
Flest ykkar vita hvernig vistaskipti Kevin Durant komu til, en fyrir þau ykkar sem eruð ekki með það á hreinu, var fólk ekki brjálað út í Durant fyrir það eitt að fara frá Oklahoma. Jú, jú, fólkinu sem var búið að styðja við bakið á honum í öll átta árin sem hann spilaði í borginni sárnaði þetta auðvitað og hluti af því mun baula á hann þangað til hann drepst.
En rétt eins var með og ákvörðunar-klúðrið hjá LeBron James á sínum tíma, hefði Durant getað komið mun færra fólki í vont skap ef hann hefði haft manndóm í sér til að ganga frá málum sínum eins og maður en ekki eins og gunga.
Sú staðreynd að Durant hafði ekki kjark til að segja meðstirni sínu Russell Westbrook frá ákvörðun sinni auglitis til auglitis - og ekki einu sinni með símtali - heldur bara með kjarklausu sms-i og gott ef það kom ekki eftir að allir voru búnir að frétta þetta allt saman hvort sem er. Við munum það ekki, enda skiptir það engu máli.

Við tökum þó fram og ítrekum, að við höfum að sjálfssögðu engan veginn efni á að dæma annað fólk þó við séum alltaf að gera það.
Þessir fordómar okkar út í manneskju sem er búin að láta meira gott af sér leiða en við munum gera alla okkar ævi, er líka gott dæmi um þann karakter sem við höfum að geyma. Gleymum því ekki.
Við mannfólkið höfum öll einhverja vankanta og galla, enda væri lífið nákvæmlega ekkert gaman ef allir væru fullkomnir!
Þá yrði lífið allt bara eins og þýsk fræðslumynd um frjósemirannsóknir á landsvæðum með krefjandi kolefnabindingar í krítísku hlutfalli koðnandi karbónatmagns við kjörvaxtarskilyrði keisaramörgæsa.
Annað atriði við flutninginn hans Durant fór þvert ofan í líklega 99% af fólki sem hafði skoðun á málinu yfir höfuð, en það var auðvitað ákvörðun hans að ganga til liðs við klúbbinn (Golden State) sem var nýbúinn að slá liðið hans Durant (Oklahoma) út í oddaleik í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar.
Við gerum viljandi lítið af því að vitna í oflátunginn Stephen A. Smith á sjónvarpssviði ESPN, en hann hefur allar götur síðan í fyrra kallað þetta aumustu félagaskipti sem hann hafi orðið vitni að í atvinnuíþróttum á sínum langa ferli sem fjölmiðlamaður.
Og það er ekkert skrum að kalla þetta hin aumustu félagaskipti, því svona gera menn eiginlega ekki í NBA deildinni. Ekki alveg svona gróft. Durant gæti vel mögulega verið búinn að setja heimsmet í vandræðalegum augnablikum á síðustu tólf mánuðum.
Gamlir karlar og útbrunnar stjörnur hafa alla tíð stundað það á efri árum sínum í deildinni að stökkva yfir í lið sem þeim þykja líklegir kandídatar í að vinna meistaratitil eða tvo, sérstaklega ef umræddri stjörnu hefur ekki tekist að vinna meistaratitil á ferlinum.
En að menn í blóma körfuboltalífsins - á hátindi frægðar sinnar og getu - skuli fara úr liði sem var árviss kandídat í að berjast um titilinn (þó það væri aldrei beinlínis sterkasti kandídatinn, var það alltaf með í umræðunni ef Westbrook og Durant (og Ibaka) voru heilir heilsu) og yfir í lið sem:
A) var nýbúið að slá liðið hans Durant út úr úrslitakeppninni í epískri seríu, þar sem Oklahoma komst meira að segja yfir 3-1 og aðeins skita - meðal annars hjá Durant - varð þess valdandi að Oklahoma sat eftir með sárt ennið en Golden State fór í úrslit.