Showing posts with label Titlar. Show all posts
Showing posts with label Titlar. Show all posts

Wednesday, June 28, 2017

Uppgjör 2017: Kevin Durant og Ákvörðunin II


Eftirfarandi pistill er hluti af uppgjöri NBA Ísland á nýafstöðnu keppnistímabili í NBA deildinni, með aðaláherslu á lokaúrslitaeinvígi Golden State og Cleveland og öllu mögulegu sem tengist því með beinum eða óbeinum hætti.

Ritstjórn NBA Ísland hvetur lesendur til að lesa formálann að þessari ritröð áður en það tekst á við greinarnar sem á eftir koma, en í honum reynum við að útskýra hvað fyrir okkur vakir með þessu öllu saman. 


Strangt til tekið er kannski ekki nauðsynlegt að lesa formálann fyrst, því það skilur enginn samhengislausan vaðalinn í okkur hvort sem er, en þið ráðið auðvitað hvernig þið hafið þetta. Það er það góða við NBA Ísland. Þið ráðið þessu öllu saman og þetta kostar ekki neitt  frekar en venjulega. Hefst þá pistillinn:



Hér er fyrst mikilvæg áskorun frá ritstjórn:

Áður en lengra er haldið í þessum fyrsta pistli okkar í uppgjörinu á leiktíðinni 2016-17, verðum við eiginlega að ráðleggja fólki að sleppa því að lesa hann.

Fyrsta ástæðan fyrir því að sleppa því, er að hann er allt of  langur, fer allt of mikið út fyrir efnið (persónulegt met hjá okkur, reyndar, og þið getið rétt ímyndað ykkur hvurslags geðveiki þarf til að toppa metið okkar í að fara út fyrir efnið) og ef einhver lesandinn yrði svo nógu bilaður að lesa pistilinn til enda og jafnvel skilja hann líka, gæti viðkomandi lent í talsverðri klemmu.

Umræddur lesandi fengi þannig teiknaða upp fyrir sig allt of skýra og heildstæða mynd af nákvæmlega öllu sem viðkemur ákvörðun Kevin Durant að fara til Warriors í fyrra, áhrifum ákvörðunar hans á bæði Oklahoma og Golden State og um það bil þrjú þúsund aðra misáhugaverða hluti.

Eins og venjulega, leggjum við málin í ykkar hendur, kæru lesendur. Við treystum ykkur til að taka skynsamlegar ákvarðanir og fara ykkur ekki að voða í þessu.

Jæja, allir klárir? Ókei. Keyrum þá bara á þetta saman.

Fyrsta málið sem okkur langar að tækla í þessu margþætta uppgjöri okkar við leiktíðina 2017, er málið sem flestir sem fylgjast með NBA deildinni hafa myndað sér skoðun á, hvort sem hún var stór eða lítil.

Þetta er sumsé fíllinn sem er búinn að vera skítandi í herbergið í ellefu og hálfan mánuð - (auðveldlega) umdeildasta atriði ársins í NBA deildinni:

Ákvörðun Kevin Durant að ganga til liðs við Golden State sumarið 2016.

Fjöldi fólks hefur spurt sig að þessu og fjöldi fólks hefur líka spurt okkur beint að þessu: Af hverju?Auðvitað er NBA Ísland með svarið handa ykkur, til þess erum við, en við fórum að sjálfssögðu ekki beinu leiðina til að afla þess; tókum bara upp símann og hringdum í Kevin Durant eða fórum bara í heimsókn til hans í kaffi og kleinur. Þið vitið að þetta virkar ekki þannig - og ef þið vitið það - vitið þið líka að það kemur ekki eitt einasta satt orð út úr kjaftinum á atvinnuíþróttamönnum í viðtölum ef þeir eru spurðir spurninga sem eitthvað vit er í. Þannig er bransinn bara, því miður.*

Og þess vegna er miklu, miklu skemmtilegra fyrir ykkur að lesa svörin sem við gefum ykkur við spurningunni heldur en nokkurn tímann að hlusta á Durant sjálfan ljúga einhvern fjölmiðlamanninn stútfullan af útursnúningum og klisjum. Gleymdu því! Það er ekkert varið í það! Miklu betra að treysta á Íslandið sitt.





















Flest ykkar vita hvernig vistaskipti Kevin Durant komu til, en fyrir þau ykkar sem eruð ekki með það á hreinu, var fólk ekki brjálað út í Durant fyrir það eitt að fara frá Oklahoma. Jú, jú, fólkinu sem var búið að styðja við bakið á honum í öll átta árin sem hann spilaði í borginni sárnaði þetta auðvitað og hluti af því mun baula á hann þangað til hann drepst.

En rétt eins var með og ákvörðunar-klúðrið hjá LeBron James á sínum tíma, hefði Durant getað komið mun færra fólki í vont skap ef hann hefði haft manndóm í sér til að ganga frá málum sínum eins og maður en ekki eins og gunga.

Sú staðreynd að Durant hafði ekki kjark til að segja meðstirni sínu Russell Westbrook frá ákvörðun sinni auglitis til auglitis - og ekki einu sinni með símtali - heldur bara með kjarklausu sms-i og gott ef það kom ekki eftir að allir voru búnir að frétta þetta allt saman hvort sem er. Við munum það ekki, enda skiptir það engu máli.

Durant einfaldlega skeit á bitann í þessu máli og svona viðskilnaður þykir okkur satt best að segja ekki sýna merki um mikinn þroska eða vandaðan karakter.

Við tökum þó fram og ítrekum, að við höfum að sjálfssögðu engan veginn efni á að dæma annað fólk þó við séum alltaf að gera það.

Þessir fordómar okkar út í manneskju sem er búin að láta meira gott af sér leiða en við munum gera alla okkar ævi, er líka gott dæmi um þann karakter sem við höfum að geyma. Gleymum því ekki.

Við mannfólkið höfum öll einhverja vankanta og galla, enda væri lífið nákvæmlega ekkert gaman ef allir væru fullkomnir!

Þá yrði lífið allt bara eins og þýsk fræðslumynd um frjósemirannsóknir á landsvæðum með krefjandi kolefnabindingar í krítísku hlutfalli koðnandi karbónatmagns við kjörvaxtarskilyrði keisaramörgæsa.

Annað atriði við flutninginn hans Durant fór þvert ofan í líklega 99% af fólki sem hafði skoðun á málinu yfir höfuð, en það var auðvitað ákvörðun hans að ganga til liðs við klúbbinn (Golden State) sem var nýbúinn að slá liðið hans Durant (Oklahoma) út í oddaleik í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar.

Við gerum viljandi lítið af því að vitna í oflátunginn Stephen A. Smith á sjónvarpssviði ESPN, en hann hefur allar götur síðan í fyrra kallað þetta aumustu félagaskipti sem hann hafi orðið vitni að í atvinnuíþróttum á sínum langa ferli sem fjölmiðlamaður.

Og það er ekkert skrum að kalla þetta hin aumustu félagaskipti, því svona gera menn eiginlega ekki í NBA deildinni. Ekki alveg svona gróft. Durant gæti vel mögulega verið búinn að setja heimsmet í vandræðalegum augnablikum á síðustu tólf mánuðum.


Gamlir karlar og útbrunnar stjörnur hafa alla tíð stundað það á efri árum sínum í deildinni að stökkva yfir í lið sem þeim þykja líklegir kandídatar í að vinna meistaratitil eða tvo, sérstaklega ef umræddri stjörnu hefur ekki tekist að vinna meistaratitil á ferlinum.

En að menn í blóma körfuboltalífsins - á hátindi frægðar sinnar og getu - skuli fara úr liði sem var árviss kandídat í að berjast um titilinn (þó það væri aldrei beinlínis sterkasti kandídatinn, var það alltaf með í umræðunni ef Westbrook og Durant (og Ibaka) voru heilir heilsu) og yfir í lið sem:

A) var nýbúið að slá liðið hans Durant út úr úrslitakeppninni í epískri seríu, þar sem Oklahoma komst meira að segja yfir 3-1 og aðeins skita - meðal annars hjá Durant - varð þess valdandi að Oklahoma sat eftir með sárt ennið en Golden State fór í úrslit.

Tuesday, May 9, 2017

Er Golden State göldrótt eða heppnasta lið heims?


Það er að eiga sér stað þróun í úrslitakeppninni núna sem fær okkur til að gretta okkur. Alveg eins og á þarsíðustu leiktíð þegar Golden State vann meistaratitilinn, eru andstæðingar Warriors í úrslitakeppninni núna hægt og bítandi að missa lykilleikmenn sína á meiðslalista.

Þetta er farið að minna okkur svo mikið á 2015 að það er eiginlega hætt að vera fyndið. Fyrir það fyrsta þarf lið eins og Golden State auðvitað alls ekki hjálp, því það er eins hlaðið snillingum og nokkurt annað körfuboltalið í sögunni og í öðru lagi HÖTUM við meiðsli, sem eru búinn að fara langt með að eyðileggja nokkur af síðustu tímabilum.

Hvað sem öðru líður er áhugavert að rifja upp hvað gerðist hjá Warriors fyrir tveimur árum og skoða nánar hvort það geti raunverulega verið að hlutirnir séu að renna í svipaðan farveg

Þau ykkar sem hafið fylgt okkur eftir hér á síðunni munið vel eftir Fílnum í Herberginu þegar kom að meistaratitlinum sem Warriors-liðið vann fyrir tveimur árum. 

Flestir samþykktu að þetta Golden State lið hefði ekki aðeins verið ljómandi skemmtilegt, heldur líka ógnarsterkt, enda vann það haug af leikjum (67 ef við eigum að vera nákvæm, rétt eins og liðið þeirra í ár) og var jafnbesta liðið í deildinni allan veturinn.

En þá eigum við eftir að tala um þennan fíl, því hann var helvíti stór. Auðvitað munið þið hvað hann stóð fyrir. Eini gallinn við þetta Warriors-lið og titilinn sem það vann, var að það fékk allt of mikla hjálp við það. Hjálp, sem það þurfti engan veginn á að halda eins og þið munið. Hjálp í formi heppni og stundum í formi óheppni og ógæfu sem hellist yfir andstæðinga Warriors..

Þau ykkar sem munið vel eftir þessu eruð örugglega orðinn hrikalega leið á þessari orðræðu, því hún lá eins og svart ský yfir Warriors-liðinu lengi á eftir og eins og þið munið létu einhverjir hausar hafa það eftir sér um sumarið og haustið á eftir að Golden State menn hefðu verið "heppnir" að vinna titilinn. Þessi ummæli voru svo teygð og toguð og misskilin í alla kanta, en við vissum alveg hvað menn voru að meina þegar þeir töluðu um þessa heppni.

Golden State 2015 var fyrst og fremst heppið af því það hélt sæmilegri heilsu á leiktíðinni, enda fékk það svo að kynnast því strax á leiktíðinni á eftir hvað gerist þegar menn eru ekki heilir í úrslitakeppninni  - og þá sérstaklega í lokaúrslitunum þegar þeir mæta liði eða liðum sem eru jafngóð eða betri.

En það var sannarlega ekkert svoleiðis uppi á teningnum árið 2015 og fyrir þau ykkar sem muna ekki eftir þessu eða tóku hreinlega ekki eftir þessu, skulum við hlaupa yfir þetta í hvelli (immit).

Ástæðan fyrir því að menn töluðu um heppni í Warriors-liðinu var ekki að það hefði verið að hitta þriggja stiga skotum frá miðju og að andstæðingar þess hefðu verið að klikka á sniðskotum, heldur áttu menn þá við að á meðan Golden State hélt allt að því fullkominni heilsu í úrslitakeppninni - voru allir andstæðingar liðsns á leiðinni að titlinum vængbrotnir að einhverju leyti vegna meiðsla.

Ef við tökum þetta eftir röð, byrjaði Golden State á því að mæta New Orleans í fyrstu umferðinni og þó Warriors-menn hefðu unnið þá seríu 4-0, áttu Dílaskarfarnir ágætis spretti í rimmunni og náðu að gera eitthvað af þessum leikjum áhugaverða. En það sem gerði útslagið hjá New Orleans í seríunni var að leikstjórnandinn og (líklega) næstbesti leikmaður liðsins var á annari löppinni allt einvígið og missti að okkur minnir af amk einum af þessum fjórum leikjum.

Ekki minnkaði mótspyrnan í annari umferðinni þegar Golden State mætti hnefaleikurunum í Memphis, því eins og frægt er orðið, komst Memphis yfir 2-1 í seríunni áður en Steve Kerr og félagar í þjálfarateymi Warriors gerðu breytingar sem hafa síðan verið fastir liðir í spilamennsku liðsins. 

Þessi sería er mjög merkileg fyrir þær sakir að þetta var ein af rimmunum þremur* sem að okkar mati stuðlaði að því að Golden State hætti að vera efnilegt lið sem vann fullt af leikjum í deildarkeppninni en fékk svo skrekk í úrslitakeppninni. Leikmenn Warriors urðu fullorðnir í þessari seríu og öðluðust grunninn að því sjálfstrausti sem þeir hafa í dag þegar þeir náðu að snúa við blaðinu og slátra Memphis eftir að hafa verið undir 2-1 í einvíginu og auðsjáanlega nokkuð slegnir í hávaðanum í Memphis. 

Golden State á sem sagt skilið að fá klapp á bakið fyrir þennan viðsnúning sinn á sínum tíma, en þar erum við ekki komin að fílnum í herberginu í þessari seríu. Það var nefnilega ekki bara góður leikur Warriors sem tryggði þeim sigur í einvíginu, því nákvæmlega eins og New Orleans í seríunni á undan, var Memhis með vængbrotið lið af því leikstjórnandi liðsins og næstbesti leikmaður var meiddur og átti alls ekki góða seríu. 


Þið þurfið ekki að horfa lengra en til spilamennsku Mike Conley í 1. umferðinni í ár til að sjá hvað hann er gríðarlega þýðingarmikill liði sínu og bara drullu góður í körfubolta! Aftur fóru Warriors áfram í næstu umferð með því að vinna lið með meiddan leikstjórnanda, að þessu sinni 4-2.

Næsta lið á dagskrá hjá Warriors var Houston í úrslitum Vesturdeildarinnar en þetta Houston-lið var þó að minnsta kosti ekki með leikstjórnandann sinn og besta varnarmann í meiðslum eins og fyrstu tveir andstæðingar, andskotinn hafi það....?

Hvað heldur þú? Auðvitað vantaði leikstjórnandann í Houston-liðið! Þriðju seríuna í röð. Þessi leikstjórnandi sem vantaði hjá Rockets var reyndar aðeins öðruvísi týpa en Conley og Holiday og var til að mynda saknað frekar lítið í sóknarleiknum en hann skildi eftir sig risastórt skarð í varnarleiknum. 

Það hefði til dæmis augljóslega komið í hlut Patrick Beverley að dekka Stephen Curry megnið af seríunni, en í staðinn fyrir að hafa hann, var það áttatíu og fjögurra ára gamall Jason Terry sem sá um að koma upp með boltann fyrir Houston þegar James Harden nennti því ekki.


Við getum augljóslega ekki kennt fjarveru Beverley um það að Houston skíttapaði seríunni 4-1 og leit frekar illa út á meðan. Golden State var búið að finna fjölina sína, komið í bullandi takt og engin meiðsli til að tala um ennþá, fyrir utan smá brak í hálsinum á Stephen Curry eftir að hann lenti í óvæntri flugferð í Houston-seríunni.

Það var því ljóst að Warriors-menn voru komnir í lokaúrslit í fyrsta skipti í áratugi, en andskotinn hafi það, ekki vantaði þó leikstjórnandann í þetta Cleveland lið líka? 

Þú mátt giska...

Cleveland mætti undirmannað í lokaúrslitaeinvígið af því hálfvitinn Kelly Olynyk mölvaði handlegginn á Kevin Love skömmu áður og eins og þú varst eflaust búin(n) að átta þig á, hrundi Kyrie Irving í gólfið með ónýtt hné undir lok fyrsta leiksins. 

LeBron James tókst einhvern veginn að koma liðinu sínu yfir í einvíginu 2-1, en þá gerði Steve Kerr síðustu stóru breytinguna á liðinu sem lagði grunninn að sigri þess í rimmunni og allir hafa verið skíthræddir við þetta lið allar götur síðan.

Þið verðið nú að gefa okkur það, að við vorum ekki lengi að útskýra þetta frekar en við erum vön. Einmitt. En hérna er þetta samt, svona á myndrænan hátt, ef svo má segja:

Ókei, þá erum við búin að tækla fílinn í herberginu árið 2015, en við vorum löngu búin að kryfja hann (lifandi) með handþeytara. Það sem er að bögga okkur núna, er að það er aftur kominn fíll í helvítis herbergið og þó fjölmiðlar (aðrir en Utah) séu ekki búnir að fatta það. 

Þessi 2017 fíll er nefnilega mjög líkur hinu kvikindinu og ef við eigum að vera alveg hreinskilin, erum við einum meiðslum frá því að kalla þetta bölvun.

Hverjar haldið þið í alvöru að séu líkurnar á því að lið sem vinnur meistaratitilinn mæti fjórum andstæðingum í röð sem missa byrjunarliðsleikstjórnandann sinn í meiðsli? Um það bil engar, það er ekki lengi verið að reikna það.

Golden State sem sagt flýgur í gegn um úrslitakeppnina 2015 og vinnur titilinn á tiltölulega sannfærandi hátt, en tapar svo í úrslitaeinvíginu árið eftir, að hluta til vegna þess að í þetta skiptið voru það leikmenn Warriors sem voru meiddir en ekki leikstjórnendur andstæðinganna.

En núna erum við komin með það sterklega á tilfinninguna að þetta sé allt saman að þokast í sömu átt og fyrir tveimur árum. Við ákváðum að prófa að föndra þessa pælingu saman á myndrænan hátt svo fólk geti skoðað þetta og vonandi fattað þetta án þess að þurfa að lesa þessar sextán þúsund blaðsíður sem þessi pistill er.

Skoðum þetta bara ofan í kjölinn. Andstæðingar Warriors í fyrstu umferðinni þetta árið voru Portland og eins og eftir formúlunni, gat nýjasti liðsmaður Portland ekki tekið þátt í einvíginu nema í örfáar mínútur vegna meiðsla. 

Jusuf Nurkic var ekki stærsta breytan í þessu einvígi og við ætlum ekki að segja að fjarvera hans hafi vegið þyngra en ef Portland hefði t.d. verið án Damian Lillard, enda skiptir það svo sem ekki máli. Portland var ekki með fullskipað lið í einvíginu. Golden State hefði sópað þessu alveg sama hvort einn maður, sjö menn eða ennginn hefði verið meiddur hjá Portland.

Næsti!



Já, næsti andstæðingur Warriors var svo Utah Jazz og Curry og félagar voru ekki að drolla við að senda þá í sumarfrí frekar en Portland, en þarna eru þeir aftur farnir að halda í hefðina, því Utah var án leikstjórnanda síns í þremur leikjum af fjórum vegna meiðsla og tveir aðrir lykilmenn Jazz voru tæknilega á annari löppinni (Derrick Favors er búinn að haltra um gólfið alla úrslitakeppnina og Rudy Gobert þarf að hlífa hnénu á sér þegar hann er að setja hindranir og er því ekki að skila sínu venjulega framlagi).

Á hvaða tímapunkti förum við bara að kalla þetta það sem það er, en ekki eitthvað krúttlegt og eða asnalegt eins og að tala um fílinn í herberginu. Svarti galdur, kukl og bölvanir eru sannarlega ekki eitthvað sem við myndum kalla krúttlegt. Og ef þið trúið þessu ekki ennþá, getið þið bara skoðað dæmið lengra fram í tímann.

Golden State mun mæta sigurvegaranum í einvígi San Antonio og Houston í úrslitum Vesturdeildarinnar og við þurfum ekkert að bíða eftir úrslitum í Texasslagnum til að meta framhaldið þar. Þið vitið að Tony Parker er leikstjórnandi San Antonio, er það ekki? Og þið vitið að hann meiddist í vikunni og er ekki að fara að spila körfubolta  í meira en hálft ár (kannski heilt). 

Houston svaraði meiðslum Frakkans með því að missa algjöran lykilmann í sínu liði í meiðsli. Sá heitir Nene og (ekki um jólin!) er frá Brasilíu - og leiktíðin er líka búin hjá honum, þó hún yrði framlengd út ágúst. 

Ætli við verðum ekki að segja eins og er að við séum hissa að það skuli hafa verið Nene sem meiddist hjá Houston en ekki annar hvor leikstjórnandinn (Beverley, Harden) en gleymið ekki að það er enn tími til stefnu hjá Warriors að kukla einn eða tvo góða leikmenn frá Houston í vel útilátin meiðsli áður en serían hefst - ef það verður Houston sem fer áfram úr Texas-stríðinu, það er að segja.

Hér fyrir neðan er svo 2017-útgáfan af brakketinu okkar sem sýnir skörðin sem höggvin hafa verið í andstæðinga Warriors - og meira að segja í nokkur af hinum liðunum líka, svona eins og til vara! Til dæmis Blake Griffin hjá Clippers.

Og þá er bara eitt lið eftir og það er Cleveland. Eins og staðan er í dag hljóta að vera yfir 90% líkur á því að það verði Cleveland sem verður fulltrúi austursins í lokaúrslitunum og þó líkurnar séu kannski ekki alveg eins góðar hjá þeim í vestrinu, þarf eitthvað mjög furðulegt að gerast ef Golden State á ekki að fara í úrslitaeinvígið.

Og ef við gefum okkur að það verði Warriors og Cavaliers sem fara í úrslitin þriðja árið í röð, er bara einni spurningu ósvarað áður en lokarimman hefst - og hún er ísköld:

Hvaða lykilleikmaður Cleveland mun meiðast áður en lokaúrslitin hefjast?


Wednesday, October 26, 2016

Wednesday, June 22, 2016

Okkur þykir það leitt, en...


Úrslitaeinvígin í NBA deildinni eru alltaf söguleg upp að vissu marki, en úrslitaeinvígið sem við fengum í ár var alveg sérstakt - einfaldlega eitt af þeim allra, allra bestu. Og það er Cleveland sem vann þetta allt saman. Cleveland! Margir trúa því ekki enn.

Margir héldu að úrslitarimma Cavs og Warriors yrði alltaf ákveðið skref niður á við í drama og gæðum frá stórkostlegu einvígi Golden State og Oklahoma um daginn, en lokaúrslitin voru ekki aðeins á pari við þá seríu - þau voru betri! Og það segir sína sögu.

Þeir voru ekki margir, sérfræðingarnir sem spáðu Cleveland sigri í þessu einvígi og ef þú hefur lesið eitthvað af pistlum okkar hér á þessu vefsvæði í vetur, veistu að þetta kemur okkur gríðarlega á óvart. Að Cleveland skuli hafa hirt titilinn af Golden State, er nokkuð sem við hefðum talið óhugsandi fyrir aðeins nokkrum dögum síðan, en nú er það orðin staðreynd sem við verðum að rannsaka nánar.



Staðreyndin er nefnilega sú að Golden State er betra lið en Cleveland. Meira að segja miklu betra. Og það fékk tækifæri til að sýna okkur það enn einu sinni í þessum mánuði, en það tókst ekki að þessu sinni. Öllum verður á í messunni annað slagið og þegar Warriors-menn ætluðu að sýna okkur enn og aftur hvað þeir eru með gott tak á Cleveland, misstu þeir takið á seríunni sem þeim var gefin til þess.

Þið vitið alveg jafn vel og við að Warriors-liðið er betra en Cleveland. Þið sáuð Golden State vinna úrslitaeinvígið í fyrra nokkuð sannfærandi þegar upp var staðið, þið sáuð Warriors vinna leiki liðanna í deildarkeppninni í vetur og þið sáuð Curry og félaga komast í 2-0 og 3-1 í rimmu liðanna á dögunum.



En lengra komust þeir ekki. Þeir misstu Cleveland fram úr sér og töpuðu. Ástæðurnar fyrir því eru margvíslegar og okkur grunar að þú sért einmitt að lesa þennan pistil af því þig langar að vita hvað gerðist í þessu einvígi. Hvernig í ósköpunum fór Golden State að því að tapa úrslitaseríu eftir að hafa verið komið 3-1 yfir? Eftir svona frábæran og sögulegan vetur?

Við skulum ekki pína þig lengur. Ástæðurnar fyrir tapi Warriors eru banvæn blanda af kæruleysi, hroka, meiðslum, þreytu, óheppni og einum hálfguði. Hálfguðinn er LeBron James, ef það er að vefjast fyrir þér.



Þetta kemur kannski út eins og við séum að gera lítið úr Cleveland og gjaldfella meistaratitilinn þeirra, en það er nú ekki ætlunin hjá okkur. Við erum bara að benda á sannleikann hérna. Við höldum hvorki með Cleveland né Golden State og er nokk sama hvort þessara liða vinnur þegar þau mætast í úrslitum. Við vorum ákaflega ánægð fyrir hönd LeBron James þegar hann vann þriðja titilinn sinn, en eigum annars ekki hest í þessum veðreiðum.

Ákvörðun Golden State að eltast við sigrametið í deildarkeppninni í vetur var nokkuð umdeild og það er ekki nokkur spurning að hið aukna álag sem fylgdi þeim áformum gerði Warriors-mönnum erfiðara fyrir í úrslitakeppninni.



Á meðan var pressa á þeim fyrir nánast hvern einasta leik í vetur (þar sem þeir fengu oftast verðuga samkeppni frá mótherjanum af því þeir voru jú meistararnir) var Cleveland á krúskontról eftir hraðbrautum Austurdeildarinnar. Þá er ótalið að Golden State flýgur miklu, miklu lengra en Cleveland yfir veturinn, en förum ekki nánar út í það hér.

Margir segja að Warriors hefðu aldrei átt að eltast við þessi met í deildarkeppninni af því það væri meistaratitillinn sem skipti máli, ekkert annað. Þetta fólk hefur ekki skilning á því hvernig NBA deildin virkar. Þú segir ekki tiltölulega ungu og sögulega góðu körfuboltaliði að sleppa því að verða kallað besta lið allra tíma! Auðvitað læturðu slag standa, svona einu sinni! Ekki vera asni! Met eru til að slá þau!



Warriors-liðið var nær óþekkjanlegt á löngum köflum í lokaúrslitaeinvíginu og það var að hluta til af því mannskapurinn var bara búinn á því. Búinn á því eftir langan og strangan vetur og bensínlaus eftir maraþonviðureign við Oklahoma í einvíginu á undan þar sem það þurfti sjálft að koma til baka eftir að hafa lent undir 3-1.

Meiðsli settu sinn svip á þetta líka. Stephen Curry var aldrei hann sjálfur í þessari úrslitakeppni, ekki nema í litlum rispum og það skiptir gríðarlegu máli fyrir allt gengi Warriors. Svo dettur Bogut út og Iguodala var ónýtur í bakinu. Þetta hjálpaði ekki.

Warriors menn gerðu sig líka seka um hroka og kæruleysi. Aftur fyrir bak sendingarnar hans Stephen Curry og afleit frammistaða hans á löngum köflum í varnarleiknum, eru færð í þann flokk. Meistararnir þáverandi héldu að þetta væri bara komið eftir tvo leiki - og endanlega búið eftir fjóra. Að þeir gætu bara látið sig renna í mark.



Þá kom þetta Draymond Green dæmi upp á, enn eitt pungsparkið og leikbannið og hvað það nú var. Við erum ekki viss um að það hafi endilega verið rusltalið í Draymond sem kveikti í LeBron James (hann er ekki vanur að sækja sér mótiveríngu í einhverju til að verða brjálaður yfir), en eitthvað var það sem gerði það að verkum að hann tók þetta einvígi og sneri því við - nánast upp á sitt einsdæmi.

Og eins og þið sjáið, var það LeBron James sem var stóra breytan í einvíginu. Við vorum nánast hætt að öskra á sjónvarpið þegar kom að James. Fyrst sótti hann allt of lítið á körfuna og þegar hann loksins fór að sækja á körfuna, náði hann ekki að hitta nokkurn skapaðan hlut og því slógum við því föstu að hann væri bara orðinn of lúinn til að slútta.



Var hann orðinn of gamall allt í einu!?! Það var það eina sem okkur datt í hug, en eins og þið sáuð í þremur síðustu leikjunum, reyndist það blessunarlega vera þvættingur. Ætli hann hafi ekki bara verið að geyma það besta þangað til í lokin.

James átti mestan þátt í því að Cleveland náði að vinna einvígið sem það átti ekki að geta unnið og við munum segja ykkur hvað okkur finnst um það í sérstökum pistli hér á NBA Ísland innan skamms.

En þrátt fyrir hetjúdáðir LeBron James, fékk hann nú smá hjálp frá félögum sínum líka. Kyrie Irving sýndi að hann getur ekki bara hangið á bolta og skorað hetjukörfur úr glórulausum færum í deildarkeppninni - heldur getur hann það í lokaúrslitum líka. Sem er áhrifamikið.



Meira að segja Kevin Love hjálpaði til í úrslitaleiknum og (gúlp) JR Smith átti sennilega rispuna sem kveikti endanlega í Cleveland-liðinu í oddaleiknum. Við sögðum einhvern tímann að það yrði ekkert lið meistari sem þyrfti að treysta á mann eins og JR Smith í lykilhlutverki.

Ekki eruð þið hissa á því. Maðurinn er bandormur og vitleysingur. En mjög svo sveiflukenndur leikur hans í skotbakvarðarstöðunni nægði Cleveland að þessu sinni. Það er ekki annað en frekari sönnun þess hve yfirnáttúrulegur LeBron James var í úrslitunum.

Þrátt fyrir allt þetta mótlæti var Golden State nú samt aðeins tveimur sóknum frá því að verja titilinn sinn, sem einmitt þess vegna hlýtur að vera ennþá grátlegra fyrir leikmenn og þjálfara liðsins. Þeir töpuðu fyrir liði sem var orðið "tíkin þeirra" og geta ekki kennt neinum öðrum en sjálfum sér um það.

Þeir eiga líka eftir að gera það í allt sumar og við höfum trú á því að þeir komu brjálaðir en einbeittir til leiks næsta vetur og nýti sér þessa auknu reynslu til að hirða aftur það sem þeir telja að tilheyri þeim í júní á næsta ári.

Annað sem þarf að taka fram. Þó leikmenn Golden State hafi stundum spilað hrokafullan bolta og þó þeir fari orðið í taugarnar á mjög mörgum (eins og meistaralið eiga að gera), var framkoma þeirra algjörlega upp á tíu eftir leik. Þeir gáfu sér tíma til að þakka mótherjum sínum fyrir leikinn, hrósa þeim og sýna almenna auðmýkt sem er ekki á allra færi. Warriors-menn hafa sem sagt sýnt okkur að þeir kunna bæði að vinna og tapa eins og herramenn.



Þessari hugleiðingu ekki ætlað að vera árás eða hraun yfir það sem Cleveland hefur afrekað í vetur, þvert á móti. Það að Cavs hafi náð að rífa titilinn af liði sem er búið að ná öðrum eins árangri og Warriors er ekkert minna en afrek.

Málið er bara að Golden State er búið að vera dálítið eins og Stephen Curry undanfarið. Þú sérð glefsur af snilldinni annað slagið, en ekkert í líkingu við það sem hann sýndi okkur dag eftir dag í vetur. Það skilar þér eitthvað áleiðis, jafnvel í úrslit, en það er ekki nóg til að vinna titil. Ekki þetta árið að minnsta kosti.

Friday, April 29, 2016

Fella hjá KR

































Körfuboltavertíðinni hér heima lauk formlega hjá strákunum í gærkvöldi þegar KR lagði Hauka nokkuð örugglega 70-84 á Ásvöllum og tók úrslitaeinvígið sumsé 3-1. Þetta er búinn að vera nokkurn veginn fullkominn vetur hjá KR-ingum sem tóku bæði deild og bikar í ár.

Áætlunin hans Helga Magnússonar um að hætta með stæl gekk því óaðfinnanlega upp, þar sem hann er Íslandsmeistari þrjú síðustu árin sín og vinnur allt á lokaárinu sínu. Þið munið eflaust eftir öðrum þekktum körfuboltamanni sem lagði skó sína á hilluna árið 1998 eftir að hafa orðið meistari þrjú ár í röð, en það er nokkuð skondin tilviljun að sá leikmaður fór líka til Washington eftir titlana þrjá eins og Helgi ætlar sér að gera átján árum síðar.


KR-ingar eru vel að titlinum komnir eins og venjulega. Haukaliðið er einfaldlega ekki nógu sterkt til að vinna KR í seríu og við vissum það öll fyrirfram. Hinsvegar verðum við að hrósa Haukapiltum fyrir að ná að gera þetta að einvígi á kafla en ekki sópi. Við fengum smá drama í þriðja leiknum og það reddaði seríunni, sem hefði ekki verið merkileg ella. Til dæmis ekki nálægt því eins góð og Njarðvíkurserían hjá KR.

Það hefði verið gaman að sjá KR mæta Stjörnunni, það hefði verið gaman að sjá KR mæta Njarðvíkurliði sem væri ekki með lykilmenn í meiðslum og síðast en ekki síst hefði verið helvíti gaman að fá að sjá Kára Jónsson spila með Haukunum í úrslitaeinvíginu. En svona er þetta víst. Meiðsli gerast og allt það.



Það verður forvitnilegt að sjá hvernig KR-ingar ætla að fylla í það stóra skarð sem Helgi Magnússon skilur eftir sig næsta vetur og það verður eftirsjá í þessum flinka leikmanni og leiðtoga. Það verður líka áhugavert að sjá hvernig Haukarnir tækla næstu leiktíð - hvort þeir ætla að láta sér nægja að hafa skrifað smá Öskubuskuævintýri núna og sökkva sér bara aftur í meðalmennskuna þegar Kári er farinn. Vonandi ekki.

Ritstjórn NBA Ísland óskar KR-piltum og Snæfellsstúlkum hjartanlega til hamingju með titlana sína í vikunni. Þetta er búinn að vera frábær körfuboltavetur hjá okkur á innlendum vettvangi.

Hérna eru loks nokkrar myndir frá Ásvöllum í gær.
Smelltu á "Lesa meira" ef þig langar að skoða þær allar.








Sunday, February 14, 2016

Og þá var kátt í Höllinni


NBA Ísland óskar KR-piltum og Snæfells-stúlkum til hamingju með bikarmeistaratitlana í gær. Það er alltaf svo gaman að vera til á bikardeginum, þegar við fjölmennum öll í höllina, hittum hvort annað og skemmtum okkur saman yfir frábærum körfubolta. Allir vinna, nema þeir sem tapa.

Við ætlum ekki að reyna að neita því að Þórsliðið úr Þorlákshöfn er búið að heilla okkur mikið í vetur og því var sómi af því að sjá þetta skemmtilega lið í Höllinni í gær. Eins og flestir reiknuðu með, reyndist KR-liðið of stór biti til að kyngja fyrir austanmenn, en þeir stóðu sig frábærlega og eiga hrós skilið fyrir frammistöðu sína í sínum fyrsta bikarúrslitaleik.

Það sem gladdi okkur mest við úrslitaleikinn í karlaflokki var sú staðreynd að Helgi Magnússon næði að vinna sigur í því sem er nokkuð örugglega hans síðasti bikarúrslitaleikur. Helgi og KR-liðið hans hefur lent í basli í bikarnum á undangengnum árum, en það var ljóst frá fyrstu mínútu í gær að Helgi ætlaði alls ekki tómhentur heim úr höllinni. Hann ætlaði að vinna þennan fjandans titil og ekkert rugl!

Það verður eftirsjá í höfðingja eins og Helga þegar hann hættir að spila í vor, því menn eins og hann vaxa ekki á trjánum. Liðsmenn og leiðtogar út í gegn, fúndamentin á hreinu og aldrei neitt bull. Sannkallaður meistari, hann Helgi. Þá er bara að loka Íslandsmeistaratitlinum, til að fullkomna endasprettinn. Það yrði sannarlega draumaár fyrir þennan frábæra leikmann.

Hérna eru nokkrar gular myndir úr Höllinni: