Showing posts with label Burt með þetta sull. Show all posts
Showing posts with label Burt með þetta sull. Show all posts

Wednesday, November 30, 2016

Draymond Green afgreiðir körfuboltaleiki, aftur


Þau ykkar sem hlustuðu á hlaðvarpið okkar á föstudaginn var, hafa eflaust tekið eftir því að þar fór að minnsta kosti helmingur þátttakenda gjörsamlega á límingunum við það að lýsa hrifningu sinni á spilamennsku Leatherman-framherjans Draymond Green hjá Golden State Warriors.

Alhliða spilamennska Green er nú í sviðsljósinu sem aldrei fyrr, ekki síst varnarleikur kappans, sem var eitt helsta umræðuefnið þegar leikmanninn bar á góma í ofangreindu hlaðvarpi. Hann er orðinn svo góður í körfubolta að það virðist ekki vera hægt að jinxa hann einu sinni.

Ekki ef marka má frammistöðu hans á lokaaugnablikunum þegar Warriors-liðið tók á móti Atlanta Haukunum á dögunum, en þá tók Green sig til og gerði nákvæmlega það sem lýst var í hlaðvarpinu; hann tók þá skynsömu ákvörðun að klára leikinn upp á sitt einsdæmi á lokamínútunum - og það sem meira er - hann gerði það (mestmegnis) með því að spila varnarleik.

Þetta var dálítið dæmigerður Warriors-leikur. Það var alltaf líklegra að Golden State væri að fara að vinna hann, því lið sem stunda það að vinna 10+ leiki í röð eiga það til að vera sigurstranglegri en... til dæmis lið úr Austurdeildinni.

Þetta var samt alveg leikur þarna í restina á mánudagskvöldið og Atlanta er alveg með gaura sem geta sparkað í punginn á þér ef þú yfirbugar þá ekki, svona ef við gætum þess að hafa líkingamálið bæði karllægt og ofbeldisfullt í tilefni jólanna.

Jæja, eins og þið sjáið í myndbandinu hérna fyrir neðan, freistaði Curry þess að stinga rýtingnum í Haukaliðið, en hetjuskotin hans voru ekki að detta og þið heyrið alveg að sjónvarpsþulir Warriors-liðsins eru ekkert yfir sig hrifnir af ákvarðanatöku og óþolnimæði sinna manna í sókninni þarna í lokin.

Það var á þessum tímapunkti sem Draymond Green tók áðurnefnda ákvörðun, sem minnst var á í hlaðvarpinu á föstudaginn; svona: Æ, best að loka þessu bara, snöggvast!

Smelltu á play, spólaðu á 7:30 og sjáðu hvað gerist. Nei, reyndar ekki. Farðu á 7:30 og horfðu bara á hvað Draymond Green gerir!



Það er ekki flókin stærðfræði að nánast allt jákvætt sem gerist hjá góða liðinu frá og með þessum tímapunkti, kemur frá Green. Sama hvort það eru hindranir, stoðsendingar, fráköst, hagkvæmar villur, réttar staðsetningar og ákvarðanir - jú, eða kannski tvö varin skot sem klára leikinn og annað þeirra hrekkur meira að segja af sóknarmanninum og í innkast, eins og til að kóróna fagmennskuna.

Þetta er akkúrat málið með Draymond Green. Hvenær sástu svona leikmann, með svona pakka, gera svona hluti inni á körfuboltavelli síðast? Nákvæmlega.

Við vitum alveg að við erum dramatísk og við vitum líka að við höfum ekki með körfuboltalegt kapítal í að ætla okkur að fara að greina NBA leiki - hvort sem um er að ræða varnar- eða sóknarleik, Val eða Warriors. Við erum hvorki Valur Ingimundar né Hubie Brown (aiiit?).

En málið snýst heldur ekkert um það.

Málið snýst alfarið um það hvað Draymond Green er orðinn ískyggilega góður í körfubolta og hvað sú staðreynd er sumpart farin að grafa undan hugmyndafræði okkar um stórstjörnuna í NBA sem setið hefur og safnað ryki um árabil. Þetta er sannarlega rannsóknarefni, sem taka verður föstum tökum, helst með hjálp sérfræðinga, þegar hlutirnir róast aðeins á ritstjórninni eftir mánaðamótin.

Thursday, April 17, 2014

Smá tölur


Hérna er listi yfir þá sem hafa troðið oftast í NBA í vetur og hægra megin er svo listi yfir þá leikmenn sem hafa látið hvað oftast verja frá sér skotin. Michael Carter Williams tekur þann titil eiginlega, þar sem Rose blessaður spilaði svo lítið.


Monday, June 10, 2013

Brasilíumanni meinaður aðgangur


Hér sjáum við umtalaðasta atvikið úr öðrum leik Miami og San Antonio í lokaúrslitunum í nótt. Miami valtaði yfir gestina í síðari hálfleik og ætli þessi mögnuðu tilþrif hjá besta körfuboltamanni heims hafi ekki verið rúsínan í afturendanum.

LeBron James var ekki á því að láta Brasilíumanninn Tiago Splitter troða í andlitið á sér og ekki er laust við að sá stóri komi dálítið illa út úr návíginu. Satt best að segja, höfum við ekki séð svona vandræðalegan Brassa síðan þeir Adriano og Robinho voru gómaðir með klæðskiptingunum forðum.


Saturday, January 5, 2013

Skaðræðisgripurinn Brian Mills


Mikið gladdi það okkar litla hjarta að sjá körfuboltann fara af stað hér heima eftir langt og leiðinlegt jólafrí.

Leiðin lá að sjálfssögðu í Ásgarðinn þar sem Stjörnumenn voru að frumsýna nýjan leikmann að nafni Jarrid Frye og stóð hann sig ágætlega.

Það gekk ekki þrautalaust hjá meistaraefnunum í Garðabæ að klára leikinn, því Fjölnisliðið barðist eins og ljón allan leikinn eins og þeir hafa gert í þeim leikjum sem við höfum séð með þeim í vetur.

Kannski var það formsatriði fyrir Stjörnumenn að loka svona leik, en þeir spiluðu dálítið þannig á köflum og menn geta brennt sig á því.

Þessi deild er svo jöfn að allir geta tapað leikjum ef þeir eru ekki 100% með hausinn í þessu. Sjáðu bara hvernig Skallagrímur fer í Þorlákshöfn og nær í sigur.

Það fór þó þannig að lokum að Stjarnan kláraði dæmið 95-87 og maður leiksins hjá okkur í kvöld (af því við gerum bara það sem okkur sýnist) var án efa Endurskoðandinn, Brian Mills hjá Stjörnunni.

Þessi skemmtilegi miðherji heldur áfram að terrorísera andstæðinga Stjörnunnar á báðum endum vallarins eins og sjá má á myndasamsetningunni hér fyrir neðan.

Hann lætur ekki mikið yfir sér þegar hann kemur trítlandi með skjalatöskuna og skallann, en svo treður hann í andlitið á þér og ver skotið þitt upp í stúku.

Talsmaður NBA Ísland hjá Stjörnunni segir að Mills hafi ekki hlotið náð fyrir augum tölfræðihaldara á Íslandi í vetur og verji mun nær fjórum skotum í leik en þeim tveimur sem skráð hafa verið á hann.

Menn draga það nú ekki í efa þegar þeir sjá svona tilþrif eins og hann sýndi í kvöld.

Ps - Við erum reyndar með bölvað samviskubit yfir því að vera að búa til veggspjöld með ungum og efnilegum leikmönnum, en svona ógæfu eiga þeir að nota sér til framdráttar. Taka betur á því á næstu lyftingaæfingu, borða rétt og mæta fljótari og sterkari í næsta leik.




Tuesday, April 24, 2012

Framvegis verður lítið um körfubolta í Newark


Körfuknattleiksfélagið New Jersey Nets hefur spilað sinn síðasta leik í Newark. Verður framvegis í Brooklyn frá og með næsta tímabili. Alltaf verið að breyta í NBA.

Saga Nets á undanförnum árum hefur ekki verið vörðuð stórsigrum og gleði, en liðið fór þó í lokaúrslitin í tvö ár í röð undir stjórn Jason Kidd (2002-03).

Sé eitthvað fólk í öngum sínum yfir flutningi þessum, hefur ekki heyrst mikið í því.

Þessir 300 manns frá Newark sem bera taugar til liðsins munu þurfa að leggja á sig ansi myndarlegt ferðalag til að fara á Nets leiki framvegis.

Stuðningsmennirnir halda niðri í sér andanum. Afar fátt bendir til þess að Deron Williams muni verða um kyrrt hjá félaginu þegar samningur hans rennur út.

Hann vildi fá Dwight Howard eða viðlíka leikmann með sér til Nets, en nú er útlit fyrir að enginn slíkur glans verði í boði. Hvort sem Jay-Z mætir á leiki eða ekki.

Megum til með að láta þetta stutta myndbrot fljóta með þessari hugleiðingu. Ætla má að þessi gaukur sé einn af 300 harðlínustuðningsmönnum Nets sem munu láta sig hafa þvælinginn til að styðja Nets áfram. En kannski hefur hann bara migið á rafmagnsgirðingu. Hver veit.

Monday, March 12, 2012

Fjölskyldumynd dagsins



Faðirinn í þessari skemmtilegu fjölskyldu spilaði einu sinni í NBA deildinni, en gerir það ekki lengur.

Hann afrekaði það einn veturinn að leiða deildina í vörðum skotum og er eini Evrópubúinn sem hefur gert það.

Hann er líka eini minni framherjinn sem hefur varið flest skot í NBA - hinir voru flestir fimmur, nokkrir þeirra fjarkar, einn þristur.

Andrei Kirilenko heitir pilturinn.