Showing posts with label Pavel Ermolinski. Show all posts
Showing posts with label Pavel Ermolinski. Show all posts

Saturday, February 20, 2016

Ófreskjan að vakna?


Sumir héldu kannski að KR-ingar yrðu eitthvað værukærir þegar deildarkeppnin byrjaði á ný, eftir þennan ljómandi fína sigur í bikarúrslitaleiknum um síðustu helgi. Ekki við. Við sáum það langar leiðir að leikmenn og þjálfarar KR ætluðu einmitt að gæta þess vel að koma brjálaðir til leiks í deildinni og klára hana sem fyrst. Þar styttist í verklok.

Andstæðingar KR í úrvalsdeildinni upplifa örugglega ákveðið "ó, fokk" móment núna. Þetta er augnablikið árlega þegar KR ófreskjan stendur upp, hristir sig og öskrar eins og T-Rex - minnir alla hina á að þeir eiga ekki séns. Sigur KR á Kef í gær var dálítið þannig.

KR á enn helling inni. Við vitum það og þeir vita það, en við þóttumst merkja það á liðinu í gær að nú ætti að fara að ræsa mótorana. Svo hjálpar það mikið þegar einn besti leikmaður deildarinnar er að komast í sitt besta form aftur eftir endalaus meiðslaleiðindi. Við fögnum því að sjá Pavel Ermolinski nálgast sitt fyrra form - sjá hann í og við þrennuna leik eftir leik. Þannig á þetta að vera.

Hérna eru nokkrar myndir úr Vesturbænum í gær.





Saturday, October 17, 2015

Kalt start hjá KR


Kannski var það rétt sem Fannar Ólafsson sagði í Körfuboltakvöldinu í gær. Kannski mættu fyrrum félagar hans í KR eins og skussar í Garðabæinn í gærkvöldi, þegar þeir töpuðu fyrsta leiknum sínum í deildinni 80-76. Ef til vill er eitthvað örlítið til í þessu.

En ef þið hafið hlustað á eitthvað af viðtölunum við Finn þjálfara að undanförnu, ættuð þið líka að vita að hann er búinn að viðurkenna að liðið hans eigi langt í land. Kannski finnst einhverjum það léleg afsökun að Íslandsmeistararnir mæti ekki klárir til leiks að hausti, en þetta er ekki alveg svona einfalt.

Ástæðan fyrir því að KR er á eftir áætlun er þátttaka leikmanna í EM um daginn og sífelld og þrálát meiðsli lykilmanna. Það gefur augaleið að þú getur ekki æft neitt af viti ef byrjunarliðið þitt er annað hvort ekki á staðnum (og ekki þú heldur reyndar, sem aðstoðarþjálfari landsliðsins) eða að glíma við meiðsli.

En það er óþarfi að vera með einhverjar afsakanir fyrir Íslandsmeistarana. Þeir þurfa ekkert svoleiðis og eru langt frá því að fara í eitthvað hjartastopp þó þeir tapi einum leik, en það er augljóst að þeir eiga eftir að spila sig talsvert betur saman.

Eins innilega og við fögnum endurkomu Ægis Þórs Steinarssonar* til landsins, hefði pilturinn auðvitað mátt fara í eitthvað annað lið en KR, bara til að reyna að jafna mótið.

Þið vitið að við höfum óhemju gaman af að horfa á Ægi spila körfubolta og það eina neikvæða við komu hans í íslenska boltann er að hann gæti átt eftir að skemma tölfræðina hans Pavels all verulega, sérstaklega hvað varðar stoðsendingarnar.

Nú er KR liðið náttúrulega að gera tilraunir með að láta Ægi stýra leik liðsins úr hinni hefðbundnu leikstjórnandastöðu, en tefla Pavel fram í stöðu kraftframherja. Ef allt væri eðlilegt, myndi Pavel Ermolinski líklega spila stöðu kraftframherja í deildinni hér heima. Hann er tveir metrar og frákastar eins og andskotinn sjálfur, svo hann er upplagður leikmaður í þá stöðu þó hann finni sig að sjálfssögðu betur í leikstjórnandanum.

Það góða við að spila fjarkann fyrir Pavel er að hann þarf þá síður að elta eldsnögga bakverði út um allan völl í vörninni, en í staðinn þarf hann að leggja meira á sig í teignum, þar sem olnbogar fljúga og kraftar og kíló ráða miklu.

Það er þó sama hvaða stöðu Pavel spilar, ef hann hirðir varnarfrákast - sem hann gerir oftar en flestir - þá keyrir hann auðvitað fram völlinn sjálfur og reynir að finna samherja sína í hraðaupphlaupinu. Hann kemur sumsé til með að fá að klappa boltanum eitthvað líka og eins þegar Ægir hvílir.

Þetta er allt á frumstigi ennþá hjá KR. Það á alveg eftir að koma í ljós hvernig þetta þróast hjá liðinu, hvort því hentar betur að láta Ægi eða Pavel stýra leiknum og fleira í þeim dúr. Finnur þjálfari benti okkur réttilega á það að svona hlutir leystust venjulega þegar tímabilið fer á fullt og það á eftir að rætast. Það er óþarfi að hafa áhyggjur af KR.

Annars ætlar Finnur víst að breyta eitthvað um leikaðferð í vetur og hefur í hyggju að nýta hina miklu breidd sem er í KR liðinu til hins ítrasta. Þá með því að spila stífan varnarleik og keyra á andstæðingana við hvert mögulegt tækifæri.

Það má vel vera að einhver af liðunum í deildinni geti haldið í við byrjunarlið Vesturbæinga, en ef allt er eðlilegt, ætti heldur að draga í sundur þegar sterkur bekkur KR mætir þunnum bekkjum flestra mótherjanna.

Hvað frammistöðu einstaka leikmanna varðar, er ekki hægt annað en að gretta sig örlítið þegar kemur að frumraun Ægis Þórs með KR í deildinni. Blessaður pilturinn hitti nákvæmlega ekkert í þessum leik (2 af 12 í skotum), en hann á eftir að hrista þessa frammistöðu af sér og gera betur í næstu leikjum, það er engin spurning.

Öllu jákvæðara var að sjá piltinn frákasta, en hann sleit niður átta slík og gott ef hann fer ekki að hirða molana af borði Pavels í þeim tölfræðiþætti líka. Svei oss öllum ofan frá.

Kunnugir segja okkur að Michael Craion hjá KR sé í lélegu formi, sem sé fastur liður hjá þeim sterka leikmanni á haustin. Við fullyrðum ekkert um það, en við höfum oft séð Craion spila betur en hann gerði í gær. Hann átti erfitt uppdráttar gegn Alonzo Coleman í teignum og klikkaði á nokkrum kanínum.

Það vakti hinsvegar athygli okkar að Craion var mjög viljugur að spila félaga sína uppi og það finnst okkur mjög rómantískt þó hann hafi stundum ákveðið að kasta boltanum út fyrir línu í stað þess að fara upp sjálfur í teignum. Miðherjinn knái skilaði nú samt 16 stigum, 8 fráköstum, 4 stoðsendingum, 5 stolnum boltum og tveimur vörðum skotum. Og við skömmum hann fyrir það. Eðlilegt.

Hann Pavel vinur okkar olli engum vonbrigðum frekar en fyrri daginn og skilaði 15/13/7/3 leik úr framherjastöðunni. Það er svo mikill lúxus að vera með svona boltalipran fjarka að það ætti að vera bannað. Sjáið til dæmis menn eins og Draymond Green hjá Golden State, sem á það oft til að fara sjálfur upp með boltann í hraðaupphlaup eftir að hafa hirt varnarfrákast. Svona menn er dásamlegt að hafa.

Talandi um dásamlega menn. Justin Shouse segir að félagar hans í Stjörnuliðinu séu farnir að kalla hann Rauðvínið og vísa þar með í að hann verði bara betri með aldrinum. Kannski er sitt hvað til í þessu, því sá gamli bar enga virðingu fyrir KR-liðinu frekar hann er vanur og sýndi að það er nóg eftir í pokanum hjá honum. Bauð upp á 23 stig, 5 fráköst, 7 stoðsendingar og reyndar 7 tapaða bolta. Þvílík gersemi sem þessi drengur er.

Tómas Þórður Hilmarsson vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína með Stjörnunni í gær. Ungi maðurinn skoraði átta stig og hirti fjórtán fráköst, flest allra á vellinum. Það er gaman að sjá svona stráka fá sénsinn og taka honum opnum örmum.

Öllu frægari Tómasinn í liði Stjörnunnar fékk ekki að taka þátt í síðustu mínútum leiksins þegar hann fékk fimmtu villuna sína, sem var í kjánalegri kantinum en skítur skeður eins og þeir segja.

Tómas á eftir að teygja vel á gólfinu í Garðinum í vetur þar sem hann er sífelld og alvarleg skotógn fyrir utan línu. Honum er þó fjandakornið alveg óhætt að taka fleiri en sjö skot í leik eins og hann gerði í gær, því auðvitað setti hann 3 af 4 langskotum sínum niður eins og Curry-inn sem hann er.

Þú manst kannski eftir fáránlegri nýtingunni hans á öllum sviðum á síðustu leiktíð, þegar hann skilaði 50-40-90 tímabili og var raunar nær því að ná 60/50/90 sísoni, sem er algjör þvættingur. Gaurinn bauð upp á 56% skot, 48% í þristum og yfir 91% á línunni. Svona menn fá kauphækkun og fara í Garðabæinn.

Eitt sem vakti alveg sérstaka athygli okkar af því við erum búin að vera að bíða eftir því. Sæmundur Valdimarsson (a.k.a. Lil Marv) virðist nefnilega hafa rifið duglega í lóðin í sumar, því hann er ekki lítill lengur.

Handleggirnir á honum voru eins og pípuhreinsarar í fyrra, en nú ber fyrir byssum og allt annað að sjá drenginn. Hann hirti líka 7 fráköst á aðeins 9 mínútum í gær og nú langar okkur að vita hvort Marvin finnst það bara allt í lagi að litli bróðir hans sé búinn að kjöta sig upp og sé orðinn stærri en hann. Ekki tækjum við svona lagað í mál.

Bandaríkjamaðurinn Coleman hjá Stjörnunni var óhemju lengi í gang í sóknarleiknum, en eins og við sögðum, olli hann landa sínum Craion erfiðleikum beggja vegna á vellinum.

Þarna virðist vera á ferðinni hæfileikaríkur strákur með ljómandi fína hæð, sem auk þess virðist spila fyrir liðið. Hann setti líka stórar körfur á lokasprettinum, svo það getur vel verið að Stjarnan sé þar komin með keeper í kananum stóra.

Domino´s deildin okkar fer ljómandi vel af stað og við erum þegar búin að fá fullt af rafmögnuðum spennuleikjum eins og leik Stjörnunnar og KR í gær. Það er fínt fyrir deildina að KR skuli byrja á að tapa leik, því margir hölluðust að því að þetta mót yrði aðeins formsatriði fyrir Vesturbæinga. Þetta er nú samt sjaldnast þannig eins og þið vitið. Þú þarft að hafa fyrir því að vinna þessa deild.

Að lokum er ekki annað eftir en að senda Jóni Axeli Guðmundssyni hjá Grindavík úthróp fyrir að hjóla í þrefalda tvennu strax í fyrstu umferð, þegar hann bauð upp á 16/10/10 leik í skrautlegum sigri þeirra gulu á FSU í Iðu. Svona eiga menn að stimpla sig inn - svona komast menn í góðu bækurnar á NBA Ísland og á þrennuvegginn á Körfuboltakvöldi Kjartans Atla og félaga.**

Mikið ljómandi er það nú gaman að þetta skuli vera byrjað aftur. Aaaaah!

-----------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Ægir Þór gekk gjarnan undir gælunafninu Geitungurinn á NBA Ísland hér áður og við höfum heyrt það haft eftir bæði í blöðum og í sjónvarpi. Við heyrðum hinsvegar af því að Ægir væri ekki allt of sáttur við gælunafnið sem við fundum handa honum (þó það passi vel, annars væri fólk ekki að nota það) og þess vegna erum við að hugsa um að droppa því í bili.

Ægir er líka að verða full hrikalegur til að kallast geitungur. Jú, jú, hann er öskufljótur ennþá, en hann er líka búinn að vera duglegur að taka í stálið og það er einmitt fátt sem ýtir leikmönnum jafn hratt upp vinsældalista NBA Ísland og lyftingar og hrikalegheit.

Við skulum sjá til með Geitunginn. Sjá hvað kappinn segir um þetta sjálfur.

** - Körfuboltakvöldið á Stöð 2 Sport fer óhemju vel af stað að okkar mati. Við erum kannski ekki hlutlaus vegna augljósrar tengingar okkar við stöðina, en það er nóg að skoða ummælin á samfélagsmiðlum til að sjá að körfuboltafjölskyldan jafnt sem óbreyttir eru mjög ánægð með hvernig Kjartan Atli og félagar hafa farið af stað í þessu.

Þið megið ekki gleyma því að það er eitt að vita eitthvað um körfubolta - annað að stýra umræðuþætti um hann í sjónvarpinu í beinni útsendingu. Kjartan Atli er fagmaður og er að leysa þetta verkefni með sóma. Það stefnir í frábæran vetur í körfunni með svona umgjörð. Það verða jólin í allan vetur.

Monday, January 19, 2015

Pavel fer ótroðnar tölfræðislóðir (+ myndir)


Í annað sinn í vikunni skelltum við okkur í DHL-höllina í gærkvöldi og horfðum á KR vinna körfuboltaleik. Ef skemmtilegur körfubolti, óhollt bakkelsi og ný myndavélarlinsa er ekki nóg til að draga fólk á völlinn, gerir ekkert það.

Við erum ekki frá því að sé að myndast hálfgerð hefð fyrir því að karlalið KR vinni körfuboltaleikina sem það tekur þátt í í vetur. Á fimmtudaginn sáum við KR leggja ÍR í deildakeppninni en í gærkvöldi voru það Keflvíkingar sem voru fórnarlömb Vesturbæinga. 

Sóknarleikur KR var ansi beittur og hittnin góð, svo Suðurnesjamennirnir áttu aldrei raunhæfa möguleika í þessu dæmi. Lokatölur urðu 111-90 fyrir KR og fyrir þau ykkar sem eruð ekki búin að skoða tölfræðina, getið gert það hér.

Það eina sem er fáránlegra en yfirburðir KR í deild og bikar í vetur, er gereyðingartölfræði Pavels Ermolinski. 

Eftir að hafa boðið upp á ólöglega 24/18/14/2 línu í sigrinum á ÍR á dögunum, bætti drengurinn um betur í gærkvöldi þegar hann fór inn í hálfleikinn með 8 stig, 12 fráköst og 11 stoðsendingar! 

Eins og til að stríða okkur ákvað Pavel að sýna okkur hvað honum er sama um tölfræðina sína með því að skora bara níu stig í leiknum og sleppa þannig þrennunni, en það voru auðvitað ekki stigin sem skiptu máli. Það voru frekar þessi nítján fráköst og sextán stoðsendingar sem vöktu athygli. Þetta er svo mikið kjaftæði að það væri réttast að hringja í lögregluna.

Við höfum öruggar heimildir fyrir því að svona súrrealísk tölfræði hefur aldrei sést í úrvalsdeild karla í körfubolta. Vissulega hafa menn náð þrennu og þrennu, en það er bara ekkert eðilegt að þeir séu að fara um og yfir 15 í fráköstum og stoðsendingum leik eftir leik - og hvað þá að bjóða upp á 14/12/11 meðaltal í deildakeppninni.

Við þurfum að fara alla leið aftur til Óskars Róbertssonar hjá Milwaukee Bucks til að finna dæmi um jafn suddalega tölfræði og Pavel er að bjóða upp á.  Roberson er sem kunnugt er (er það ekki?) eini leikmaðurinn í sögu NBA sem hefur verið með þrennu að meðaltali yfir heilt tímabil (10+ stig, 10+ fráköst og 10+ stoðsendingar) árið 1962. 

Magic Johnson var ekki langt frá þessu 20 árum síðar (18,6 stig, 9,6 frák og 9,5 stoð), en það að hann skuli ekki hafa náð þessu, segir okkur hvað það er nær ómögulegt. Það yrði ótrúlegt afrek ef Pavel næði að klára það að vera með þrennu að meðaltali í deildinni í vetur. 

Tölurnar sem hann er að bjóða upp á eru svona eins og þú hefðir boðið langömmu þinni að taka leik í NBA 2K15, þar sem þú hefðir valið að vera með bandaríska landsliðið með LeBron James í fararbroddi en gamla konan - elliær, heyrnarlaus og vitlaus - hefði valið Coventry City.

Já, það þarf eitthvað mikið að breytast í körfuboltalandslaginu á Íslandi ef KR á ekki að hlaupa í burtu með bikarana sem í boði eru. Og þegar og ef að því kemur, verður það Pavel Ermolinski sem sér um að passa þá.

Friday, January 16, 2015

Myndir frá KR-ÍR


KR og ÍR buðu okkur formlega gleðilegt ár með tvíframlengdri bombu í DHL-höllinni í gærkvöldi. ÍR-ingar virtust vera búnir að gleyma því að þeir gætu ekkert í körfubolta og áttu í fullu tré við meistarana. Neyðarlegar tilraunir þeirra til að verja forskotið sitt á lokamínútunum í venjulegum leiktíma mistókust algjörlega og KR nýtti sér það. Lokatölur 113-110 fyrir KR.

Það er freistandi að lýsa því yfir að ÍR hafi sýnt okkur að það sé miklu sterkara en staða þess í deildinni segir til um, en það er leikrit sem við höfum öll séð oft áður. Tölfræði-hundarnir fengu sannarlega nóg fyrir peninginn í þessum leik.

Pavel bauð upp á 24 stig, 18 fráköst og 14 stoðsendingar hjá KR - eins og það sé bara alveg eðlilegt - og Matthías Sigurðarson leikstjórnandi Breiðhyltinga hlóð í 29/12/9. Við þökkum strákunum kærlega fyrir þennan nýársglaðning þeirra í tölfræðisafnið og fögnum því að karfan sé aftur farin á fullt á nýju ári.

Það voru teknar einar sjötíu myndir af þessu eins og þið sjáið hérna fyrir neðan. Gjörið svo vel og skoðið þær eins og þið viljið, við vitum að þið farið ekkert illa með þær þó þær séu ómerktar.





Monday, August 11, 2014

Ljómandi sigur hjá landsliðinu


Það kom ansi mörgum á óvart a strákarnir okkar í körfuboltalandsliðinu tækju Stór-Bretana og flengdu 83-70 þá í Laugardalshöllinni í kvöld. Piltarnir okkar virðast hinsvegar hafa vitað það allan tímann að þeir ættu eftir að taka þetta.

Af því við höfum ekki hundsvit á körfubolta, spurðum við okkur reyndara fólk út í breska landsliðið og styrk þess. Allir voru á einu máli um að lið sem tryggir sér sæti á hverju stórmótinu á fætur öðru (án þess að nota NBA-menn í undankeppnum) hljóti bara að kunna körfubolta, jafnvel þó Alan Bannister sé hættur að spila.

Þið eruð öll búin að sjá og lesa um hvernig þetta fór allt saman. Hvernig piltar eins og Haukur Pálsson og Martin Hermannsson virtust ákveða það í síðari hálfleiknum að nú væri best að vinna körfuboltaleik.

Mikið er búið að ala þessa stráka vel upp á körfuboltasviðinu.

"Rosalega er gaman að sjá þessa ungu stráka. Þeir mættu bara og kláruðu leikinn!" sagði fyrrum landsliðsmaður himinlifandi eftir leikinn. Brosti hringinn eins og synir hans hefðu verið að vinna Nettómótið.

Flestir strákanna voru að gera eitthvað skemmtilegt fyrir okkur í kvöld. Hlynur Bæringsson Hlynur Bæringsson-aði til dæmis yfir sig með 14/15 leik, hörkuvörn, baráttu og er sjálfsagt enn að plokka tennurnar á Englendingunum úr olnbogunum á sér. Okkur þykir svo vænt um Hlyn.

Tuesday, May 27, 2014

Friday, January 31, 2014

KR vann körfuboltaleik í Garðabæ

































KR-vélin heldur áfram að hiksta dálítið eftir áramótin, en samt vinnur hún körfuboltaleiki. Stjörnumenn eiga sjálfsagt eftir að sofa illa í nótt eftir súrt tap fyrir KR á heimavelli í kvöld.

Gaman að sjá gulldrenginn okkar Pavel Ermolinski setja sigurkörfuna skömmu fyrir leikslok. Líka gaman að geta þess að Jón Sverrisson og Keli í Stundinni okkar tóku fleiri skot en Marvin Valdimarsson í liði Stjörnunnar - og sá síðarnefndi er ekki einu sinni í Stjörnunni.

Óþarfi að taka það fram að Martin Hermannsson (23/7/5) var besti maður vallarins í kvöld og það var einstaklega gaman að sjá hann kljást við Dag. Hey, hérna eru nokkrar myndir af þessu öllu saman.



























Monday, October 7, 2013

Tvífarar vikunnar


Við áttum erfitt með að halda einbeitingu þegar við horfðum á fyrsta þáttinn í gamanþáttaröðinni Brooklyn Nine-Nine. Það var eitthvað svo kunnuglegt við aðalleikarann Andy Samberg en við komum ekki fyrir okkur af hverju. En svo kom það auðvitað.

Monday, September 23, 2013

Þetta er að byrja


Það er haust í lofti, nokkuð sem hefur ekki farið framhjá nokkrum Íslendingi. Nú fer í hönd þessi nöturlegi tími þegar frostlögur og rúðusköfur eru allsráðandi. Við værum löngu flutt af landinu ef kuldinn og rökkrið þýddi ekki að þá færi í hönd jólahátíðin okkar - körfuboltatímabilið.

Af sérstökum ástæðum vorum við að fara á okkar fyrsta haustleik í körfunni í vetur í kvöld. Leikur KR og Snæfells varð fyrir valinu, já viti menn! Það þarf svo sem aldrei að hvetja þessa ritstjórn sérstaklega til að fara á KR-Snæfell, en hjörð af óðum nautum hefði ekki getað dregið okkur í burtu frá þessum tiltekna leik.

Ástæðan var auðvitað endurkoma Pavel Ermolinski með KR.

Þeir sem fylgst hafa með á NBA Ísland undanfarin ár vita að ritstjórninni leiðist ekkert sérstaklega að fylgjast með honum Pavel spila körfubolta. Frábær tíðindi fyrir deildina hérna heima að fá þennan galdramann aftur heim. Hann stimplaði sig inn með 15/9/9/5 leik og á eftir að skemmta okkur öllum með KR í vetur.

Við ætlum ekki að detta í þá gryfju að ætla að lesa mikið út úr þessum leik, en það vakti athygli okkar á köflum hvað KR-strákarnir voru óeiginigjarnir í sóknarleiknum og uppskáru nokkrar fallegar körfur upp úr því. Martin Hermannsson hvíldi hjá KR í leiknum og erlendur leikmaður er enn ekki kominn til sögunnar. Vesturbæingar verða sterkir í vetur, það ætti engum að dyljast.

Lið Snæfells verður öflugt að vanda með sína hörkuframlínu. Fyrstu kynni okkar af erlendu vinnuafli vestanmanna voru ekkert sérstök, en það á margt eftir að gerast áður en þau mál liggja fyrir.

Gaman að sjá þá Magnússyni kljást eftir að Finnur skipti í Snæfell. Það á eftir að taka einhvern tíma að venjast honum í rauðu, en á hinn bóginn er eins og Darri hafi aldrei farið úr röndótta búningnum. Við þreytumst aldrei nokkru sinni á því að segja ykkur hvað Darri Hilmarsson er mikill fagmaður.

Eitthvað er verið að pískra um það að Gillette sé að hugsa um að taka upp auglýsingu á Íslandi og að leikmenn KR og Snæfells verði notaðir sem fyrir og eftir-menn í stykkinu. Það voru ekki undir þrír metrar af skeggi inni á vellinum í einu í þessum leik.

Það er hálfundarlegt að þetta sé bara byrjað allt í einu. Eins gott og það var nú að fá smá sól í sumar, jafnast ekkert á við að heyra ískrið í skónum á ný. Jólin eru að koma.

Hérna eru nokkrar myndir: