Wednesday, May 14, 2014

Margt hangir á spýtunni í einvígi OKC og Clippers


Við höfum fengið að sjá rosalega mikið af mistökum í fjórða leikhluta síðustu tveggja viðureigna Oklahoma City og Los Angeles Clippers. Menn eins og Charles Barkley og Kenny Smith í þættinum Inside the NBA á TNT höfðu sérstaklega orð á því í nótt, þegar Oklahoma tryggði sér ævintýralegan 105-104 sigur í Clippers á heimavelli - og náði 3-2 forystu í einvíginu.

Auðvitað gera menn oft klaufamistök þegar svona mikið er í húfi. Barkley gerði klaufamistök eins og aðrir, líka Kenny Smith. Við gerum flest einhverja bölvaða vitleysu annað slagið, ekki síst undir pressu.

Því kemur ekki til greina að fara að setja út á þennan sportbíl sem þetta einvígi er, bara af því hann er ekki með alveg nógu góðar bremsur. Fokk itt - þá krassar hann bara - það má hafa gaman af því.

Við opnum á þessu tali um mistökin af því við viljum vera heiðarleg þegar við tölum um deildina okkar fögru. Við förum ekki að sópa því undir teppið að atriðin sem réðu úrslitum hafi sum ekki verið glæsileg. Það að einblína á það, væri samt rakinn hálfvitagangur.

Við sögðum ykkur allt frá því önnur umferðin byrjaði, en einvígi Oklahoma og Clippers ætti eftir að verða það besta í umferðinni. Og við höfum staðið við það. Þetta er langskemmtilegasta einvígið, þó aulagangur hafi vissulega sett svip sinn á síðustu tvo leiki - sérstaklega leikinn í nótt.

Clippers á að vera 3-2 yfir í einvíginu á leiðinni á heimavöllinn sinn til að loka þessu, en í stað þess að klára unninn leik, ákvað liðið að skíta á völlinn nákvæmlega eins og Oklahoma gerði í fjórða leiknum í Los Angeles. Það er því Oklahoma sem er yfir 3-2 og fær nú tvo sénsa til að loka þessu.

Það var ákveðið afrek hjá Oklahoma að klúðra leiknum á sunnudagskvöldið, en Clippers toppaði það í kvöld, á hreint út sagt glórulausum lokamínútum.

Clippers var yfir meira og minna allan leikinn og var með einvígið í hendi sér eins og frá byrjun fjórða leikhlutans í fjórða leiknum. Liðið var yfir 101-88 þegar 4 mínútur og 13 sekúndur voru eftir. Hey, þú ert með Chris Paul í leikstjórnandanum - hvað getur klikkað?

Allt.

Dómararnir flautuðu allt fyrir Oklahoma á lokamínútunum, þar sem Kevin Durant (3 af 18.879 á þeim tímapunkti) fór loksins að hitta og maður leiksins Russell Westbrook kláraði dæmið. Russ var stórkostlegur í þessum leik, en ef hann fær ekki flautið á Paul þarna í restina (sjá mynd) - er ekki talað um neitt annað fram að næsta leik en þetta glórulausa skot sem hann fór upp í á þessum tímapunkti.

Það er stundum ekki nema hársbreidd á milli þess hvort Russ er engill eða djöfull og í nótt var hann engillinn, sem var íííískaldur á vítalínunni og tryggði Oklahoma sigurinn með þremur vítum. Að hugsa sér hvað er stutt á milli Óskars og Ófeigs í þessu.

Á hinum endanum hefði einhver haldið að Chris Paul næði ágætis skoti á þeim sekúndum sem eftir voru af leiknum, en hann lét Reggie Jackson lemja sig svo fast í hendina að hann missti boltann og rann á rassgatið.

Leikur.

Eins og sönnum Twitter-notendum sæmir, höfum við að sjálfssögðu leitað logandi ljósi að einhverjum til að kenna um ófarir Clippers - bæði í þessum leik og hvar sem brugðið hefur út af leið í einvíginu. Sú leit hefur ekki borið mikinn árangur, en þó má hafa eftirfarandi í huga:

Russell Westbrook fer hamförum í þessu einvígi, fólk þarf að átta sig á því. Eins og hann er villtur og stundum bara æpandi geðveikur, ætti Oklahoma ekki séns í helvíti í þessa seríu ef hugrekki hans og krafta nyti ekki við.

Og Russ er ekki bara búinn að drita skotum út um allt - hann er líka búinn að hitta þokkalega. Pilturinn er að skila 30 stigum, 7 fráköstum, 8 stoðsendingum, 2 stolnum, 53% skotnýtingu, 41% í þristum og 87% í vítum. Ekki slæm tölfræði frá næstbesta manninum í liðinu, ha?


Ok, við ætluðum víst að fara að telja upp hvað væri að Clippers, en það má til sanns vegar færa að hann sé eitt af því sem er að Clippers. Liðið ræður ekkert við hann.

Ef við skoðum meðaltalið hjá leikmönnum Clippers í deildinni versus úrslitakeppninni, en Jamal Crawford stærsta breytan. Flestir leikmanna Clippers eru bara á svipuðu plani eða betri en í vetur, en Crawford er í ruglinu í þessu einvígi og það hefur áhrif.

Crawford byrjaði ágætlega og hitti vel eins og allt Clippers-liðið í fyrsta leiknum í einvíginu, þegar Oklahoma spilaði eins og kóalabirnir á ketamíni.

Eftir það, hefur heldur slokknað í gamla gönnernum. Við köllum þetta að hann sýni sitt rétta andlit.

Aumingja Crawford hefur aldrei reynst sigurvegari á sínum langa ferli og fer vart að byrja á því núna (jú, reyndar eftir þetta jinx, en o.k.).

Síðan Crawford átti ágætis fyrsta leik í einvíginu, er hann að skjóta 32% utan af velli og 26% í þriggja stiga skotum. Hann er þriðji skorari liðsins á eftir Griffin og Paul og það er ekki nóg að hann komi þarna inn á og driti eitthvað út í loftið - sérstaklega ekki í úrslitakeppni - af því liðið þarf á stigunum hans að halda.

Eins mikið og við tölum um að sé breidd í þessu Clippers-liði, nær það bara svo og svo langt. Stigaskorunin af bekknum er að mestu í höndunum á Crawford og í undanförnum leikjum hefur hann ekki bara farið illa með færin sín, heldur hefur hann sýnt skotval inn á milli sem fengi JR Smith til að roðna.

Við setjum spurningamerki við Jamal Crawford hjá Clippers í framhaldinu, hvað sem verður í þessari séríu, þessari úrslitakeppni og hvað þá á næstu tímabilum. Það er orðin mjög stór spurning hvort þú getir unnið með Jamal Crawford sem lykilmann.

Þessi skotglaði bakvörður fer yfir 1000 leikja múrinn á næsta keppnistímabili, en á aðeins að baki 40 leiki í úrslitakeppni. Og hann hefur ekki verið að gera neinar rósir í þessum úrslitakeppnum, þar sem hann er með 39% skotnýtingu og 34% þriggja stiga nýtingu. Þetta er pæling fyrir Doc og félaga í sumar, óháð því hve langt þeir ná í úrslitakeppninni að þessu sinni.

Við gætum fundið að því að stóru mennirnir hjá Clippers væru ekki búnir að vera nógu duglegir að frákasta í einvíginu og það væri fullkomlega réttmætt. Það er hinsvegar ekki nógu stór breyta til að ætla að velta einvíginu á henni, þó það sé búið að vera svo jafnt að það veldur nánast ógleði.

En hvert á þá að leita til að skella skuldinni á einhvern? Ekki á varamennina, ekki á Doc Rivers, þann mæta meistaraþjálfara!

Þú sérð hvert þetta er að fara.

Kannski er kominn tími til þess að einhver fari að gagnrýna Chris Paul.

Og þá er ekki annað en að hjóla í aðra grein...


Við munum eftir því hérna fyrir nokkrum árum þegar rifist var um það hvort Chris Paul eða Deron Williams væri besti leikstjórnandinn í deildinni, þegar Kidd og Nash voru að dala, Rose ekki kominn til sögunnar og Parker vær gleymdur og grafinn eins og alltaf.

Þetta var í alvörunni debat á þeim tíma, áður en Deron Williams fékk of háan samning, eyðilagði á sér báða ökklana og hætti að nenna að spila körfubolta - og þá helst ekki nema feitur.

Við vorum í Deron Williams-liðinu á móti Chris Paul. Ekki misskilja, við fylltumst lotningu við að horfa á Paul spila og ekki síður þegar við skoðuðum asnalega góða tölfræðina hans eins og hún var best hjá New Orleans forðum.

Tölur eins og 23 stig, 11 stoð, 5,5 fráköst og 2,8 stolnir með 50% skotnýtingu árið 2009.

Við tókum Williams, af því hann var stærri, sterkari (og lenti fyrir vikið ekki í eins miklum vandræðum og Paul þegar kom að því að dekka helminginn af ört stækkandi leikstjórnendum í deildinni) og að okkar mati öruggari skytta.

Það sem skipti svo líklega mestu máli, var að liðið hans Williams vann alltaf þegar þeir tveir mættust og liðin hans Williams komust oftast í úrslitakeppnina og áttu það til að gera þokkalegt mót, oft þökk sé Williams.

Nú er þessi samanburður úr sögunni og það væri sorglegt að bera þá saman í dag.

Chris Paul hefur nokkuð almennt verið talinn besti leikstjórnandinn í deildinni, kannski fyrir utan smá rispu hjá Derrick Rose þegar hann sprakk út og var kjörinn Verðmætasti leikmaðurinn forðum.

Fáir, ef einhverjir hafa deilt um að Paul sé besti leikstjórnandinn. Það var að verða mál manna. Charles Barkley kallar hann enn besta leiðtogann í NBA deildinni og þá vitum við til þess að mjög margir líta svo á að Chris Paul sé þriðji besti leikmaðurinn í NBA deildinni á eftir þeim LeBron James og Kevin Durant.

Það er auðvelt að skilja af hverju fólk hefur þessa ást á Chris Paul. Það fer ekki framhjá neinum hvernig hann tekur yfir leiki og stýrir leik sinna manna eins og herforingi. Hann sendir þegar hann á að senda og skorar þegar hann á að skora - hversu oft höfum við ekki séð hann taka réttar ákvarðanir með þetta í lok leikja.

Ok, en af hverju hefur hann þá aldrei komist upp úr annari umferð í úrslitakeppninni?

Það er mjög ósanngjarnt að stilla þessu svona upp - körfubolti er liðsíþrótt og allt það - en ef Chris Paul á að vera þriðji besti leikmaðurinn í deildinni, verður hann því miður bara að þola það að á hann séu settar kröfur.

Og er það eðlilegt samkvæmt því, að þriðji besti leikmaðurinn í NBA deildinni skuli ekki hafa komist í úrslitakeppnina þriðja hvert ár sitt í deildinni? Er það eðlilegt, að hann hafi þrisvar verið sleginn út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar? Og er það eðlilegt að hann sé nú í annari umferð úrslitakeppninnar í aðeins þriðja sinn á níu ára ferli?

Eðlilegt eða ekki, svona spurningar eiga fullan rétt á sér þegar svo mikils metinn leikmaður á í hlut. Hann er nú einu sinni sjálfur generallinn á gólfinu. Ef þú skoðar tölfræðina hans Chris Paul, færðu ekki annað út en að hann bæti sig frekar en hitt þegar hann kemur í úrslitakeppni.

En eitthvað vantar upp á. Á fyrstu árunum hans þræta margir fyrir að hann hafi liðið fyrir að New Orleans var með lélegan mannskap. Þið fyrirgefið, en David West, Tyson Chandler, Peja Stojakovic og fullt af fínum rulluspilurum eru ekki drasl lið. Ekki á nokkurn hátt.

Svo liggur leiðin til Clippers. Og auðvitað er þetta Clippers-lið ekkert gallalaust og auðvitað á Doc Rivers eftir að slípa það betur til eftir sínu höfði og leiðrétta bullið sem hefur verið í gangi hjá þessu félagi í áratugi. En er þetta Clippers-lið samt ekki nógu gott til að komast einu sinni upp úr annari umferð? Með besta leikstjórnanda deildarinnar, einn besta fjarkann, ógurlegan varnarmiðherja, fullt af skyttum og breiðan bekk - og nú loks þjálfara sem er nýbúinn að vinna titil?

Jú, sennilega.

Þetta sýnir okkur hvað það er mikil martröð að spila í Vesturdeildinni - og af hverju sumir þjálfarar láta sér ekki detta í hug að reyna að blanda sér í það stríð með því að taka við liði með metnað í Vesturdeildinni (sem eru um það bil öll lið í Vesturdeildinni nema Sacramento).

Þjálfararnir sjá miklu frekar fyrir sér kósi djobb í gríninu sem er Austurdeildin, þar sem hægt er að tapa tíu leikjum í röð hvað eftir annað en ná samt örugglega sæti í úrslitakeppninni. Þar sem hægt er að komast í aðra og jafnvel þriðju umferð með lið sem getur ekki blautan skít.

En við skulum ekki fara út fyrir efnið. Við erum búin að komast að því núna að Chris Paul ræfillinn er rosalega óheppinn að vera upp á sitt besta sem leikmaður í Vesturdeildinni í NBA í kring um árið 2014. Samkeppnin er ógurleg - og það þrátt fyrir að lið eins og Lakers séu í ruglinu í augnablikinu, nokkuð sem mun breytast fljótlega.

Þetta er bara engin afsökun. Sorry karlinn.

Við fullyrðum að Scott Brooks eigi mestu að tapa í einvígi Oklahoma og Clippers, af því við erum 100% viss um að hann verði rekinn ef hann tapar því.

Við viljum reyndar að hann verði rekinn hvort sem hann vinnur þetta eða ekki, en það er önnur saga. Brooks hefur mestu að tapa af því hann missir vinnuna.

En strax þar á eftir kemur Chris Paul - ekki nýkjörinn Verðmætasti leikmaður deildarinnar, Kevin Durant. Auðvitað er pressa á nýkjörnum MVP að standa sig og komast lengra en í aðra umferð, fjandakornið.

En það hangir meira á spýtunni hjá Chris Paul að okkar mati og það er kominn timi til að miðlar í Bandaríkjunum fari að viðurkenna það. Lið undir stjórn Chris Paul ná ekki langt í úrslitakeppnum og því ber að taka viðhorf sem stimpla hann sem hálfguð til rækilegrar endurskoðunar.

Það verður reglulega gaman að sjá hvernig Paul bregst við þessum pistli. Þið vitið að með þessu erum við að jinxa aumingja Oklahoma-strákana til andskotans.

En við urðum bara að koma orðum að þessu núna. Clippers er ekkert búið að tapa seríunni, sem er svo hnífjöfn að það skiptir engu fjandans máli hvort liðin eru heima eða úti. Það er 50/50 hvoru megin þetta lendir.

Við skulum fylgjast vel með Chris Paul á endasprettinum í þessu einvígi. Hann var gjörsamlega í rusli aumingja strákurinn eftir skituna sína í fimmta leiknum í nótt og tók þetta tap með réttu á sig eins og leiðtogar (sem skíta á sig) eig að gera. Vonandi nær hann að hrista þetta af sér og koma sínum mönnum aftur inn í einvígið. Hann veit að það er enginn annar að fara að gera það.

Og þá er ekki annað en að bíða og sjá hvað hann kemst langt.

Það verður ekki leiðinleg bið - svo mikið er víst.