Monday, November 30, 2009

Tap um Töp


Það er ekki nema eðlilegt að minnast aðeins á Minnesota eftir þetta New Jersey þunglyndi hérna fyrir neðan.

Við ætluðum að gera aðeins grín að Minnesota í framhaldi af þessu Njéts-rugli en þá tók liðið upp á því að vinna í Denver. Stöðva þar með 15 leikja taphrinu sem í sjálfu sér var áhrifaríkari en öll töpin hjá Njéts.

Vá hvað Minnesota er lélegt lið!

Svona er þetta. Það er annað hvort í öxl eða eyra eins og maður sem við þekkjum sagði.

Og í þessum skrifuðu orðum eru Njéts að fara formlega í 0-17 og jafna þar með verstu byrjun í sögu NBA. Þennan vafasama heiður áttu Clippers og Heat en eiga ekki lengur... ein.... þannig.

New Jersey á næst Dallas á heimavelli og getur þar eignast þennan tapheiður skuldlausan. Nú ætlum við ekki að spá Njéts tapi - en tippum á að Devin Harris bjóði upp á 45+ stig gegn Jason Kidd. Það er það eina sem er bókað.

Lárusar Sprengingar Franks


Lífið er ekki alltaf sanngjarnt. Svona eins og þegar maður er rekinn fyrir það eitt að tapa sextán fyrstu leikjunum á tímabilinu.

Forráðamenn New Jersey Njéts mátu það svo að Lawrence Frank væri kominn á endastöð með lið sitt eftir áratugarstarf.

Frank vann fyrstu þrettán leiki sína sem aðalþjálfari Njéts á sínum tíma, ef minni okkar svíkur okkur ekki. Sem það gerir reyndar oft. Hlýtur að vera allur frostlögurinn sem við drukkum í menntaskóla.

Það er ekki margt um þennan brottrekstur að segja. New Jersey er samt með alvarlega lélegt lið. Hvort sem Devin Harris er meiddur eða ekki. Byrjunarliðið hljómar meira eins og aukaleikarar í Dynasty-þætti. Brook Lopez, Chris Douglas-Roberts, Trenton Hassell, Josh Boone....(!)

Ýtt úr vör


Þetta er fyrsta færslan á NBA Ísland.Í nóvemberlok 2009. Tímabilið farið á fult auðvitað. Ritstjórnin er öll á iði. Ekki leiðinlegt að opna nýjan vef.

Japönsku pennarnir eru sérstaklega kátir en þeir munu skila efni inn á síðuna reglulega. Skrifa sitt efni á móðurmálinu en birta það á íslensku - þökk sé Google Translate.

Áður en við snúum okkur að efninu, NBA deildinni, neyðumst við til að standa við gamalt loforð og birta hér stutta orðsendingu frá japönsku strákunum alla leið frá Hokkaido - nánar tiltekið frá Sapporo:

Mikla það vera heiður rithöfundur vefskrift Ísland. Körfubolti virðing loðnufrysting skógarbjörn ef til vill. Sjónauki páfagaukur svona fór um sjóferð þá langstökk kryddhilla.
 

Minningargrein,
Auðmjúkur nemandi Japan frá.


Við vonum að boðskapurinn hafi komist til skila. Þá er bara að snúa sér að körfuboltanum. Af nægu er að taka. Það er einlæg ósk ritstjórnarinnar að sem flestir geti haft gaman af þessu.

Með vinsemd og virðingu,
Ritstjórn NBA Ísland.