Saturday, March 15, 2014

Hvað ætlar Phil Jackson að gera í New York?


Þegar stórmenni eins og Phil Jackson ráða sig í vinnu, er það jafnan í áhrifastöður hjá alvöruklúbbum. Annað væri enda óeðlilegt. Hvað ætti svo sem sjötugur og þrettánfaldur NBA meistari eins og Jackson að gera með að fara að hella sér út í járnabindingar, meindýraeyðingu eða þjálfa Milwaukee?

Þeir sem hafa haldið niðri í sér andanum yfir því hvort Knicks-orðrómurinn um Phil Jackson væri réttur, geta nú loksins andað frá sér og haldið áfram að lifa sínu eðlilega lífi. Ef þessir sömu aðilar ætla hinsvegar að sjúga inn annan lítra af lofti og halda niðri í sér andanum meðan Jackson losar um hnútana og kemur Knicks aftur á kortið sem alvöru körfuboltaliði, er illa fyrir þeim komið.

Þess vegna erum við að skrifa um þetta nokkur orð. Við erum að vara stuðningsmenn Knicks við því að missa sig í gleðinni. Er það ekki dæmigert af þessari bölsýnu, leiðinlegu og neikvæðu ritstjórn? 

Í þessum pistli færðu að vita hvaða helstu skilyrði þú þarft að uppfylla ef þú hyggst byggja upp samkeppnishæft lið í NBA deildinni, þar sem óguðlegt verkefni Phil Jackson hjá Knicks verður haft til hliðsjónar.

Það er ógeðslega létt að setjast við lyklaborð og skrifa nokkur orð um að það sé meira en að segja það að rétta Knicks-skútuna af og koma henni aftur á siglingu.

Skrifa, að þú gætir ekki komið Knicks á toppinn á ný þú þú nytir aðstoðar Frank Underwood, Walter White, Völu Matt, Leðurblökumannsins, Kim Larsen, Herra T, Vreni Schneider, gaursins sem lék Gunther í Friends og Jesúsar frá Nasaret.

Verkefnið er svo risavaxið að meira að segja Phil Jackson - einn sigursælasti maðurinn í sögu körfuboltans - gæti ekki leyst það.

Jackson, sem vann titlana sína tvo sem leikmaður þegar hann spilaði með Knicks fyrir fjörutíu árum síðan, gerir sér örugglega grein fyrir því eins og allir aðrir að verkefnið að koma Knicks aftur á toppinn er eins og að ausa hafið með skel.

En af hverju er hann þá að taka þessu djobbi? Maðurinn sem hefur hingað til ekki verið mikið fyrir það að eyða tíma sínum í eitthvað rugl, heldur stefnt að því að vinna titla með hjálp alvöru körfuboltamanna - Michael Jordan, Shaquille O´Neal og Kobe Bryant, svo einhverjir séu nefndir.

Fyrir það fyrsta er Jackson auðvitað að skipta um vettvang núna, því hann er að setjast alveg á skrifstofuna og lætur öðrum eftir að þjálfa. Enginn veit nákvæmlega hvert hlutverk Jackson verður hjá Knicks, en í okkar huga eru þó nokkur atriði alveg augljós.
Fyrir það fyrsta, er maðurinn ekki að vinna kauplaust, það er á hreinu. Það skiptir máli fyrir hann, en ekki Knicks, sem er opinn hraðbanki sem aldrei tæmist.

Hjá Knicks er hann að vinna hjá félagi þar sem hann nýtur mikillar virðingar, ekki bara sem sigursælasti þjálfari NBA-sögunnar, heldur líka af því hann spilaði með klúbbnum á sínum tíma og var í síðasta og eina Knicks-liðinu sem vann meistaratitil (1971 og 1973). 

Það hjálpar mikið á vinnustaðnum að vera með gott kaup, njóta virðingar og síðast en ekki síst - að vera ekki að vinna fyrir kærustuna sína og mág sinn líkt og þegar hann var á mála hjá Lakers síðast. 

Lakers var ekki tilbúið að ganga að skilyrðum Jackson þegar til stóð að ráða hann sem þjálfara í þriðja sinn á sínum tíma. Félagið var ekki tilbúið að opna budduna upp á gátt og heldur ekki að ganga að þeim skilyrðum sem Jackson setti varðandi keppnisferðalög og annað sem hafði með heilsu hans að gera. Það gleymist að Jackson er ekkert unglamb og hefur verið í vandræðum með heilsuna. 

Það var pínulítið klúðurslegt hvernig Phil Jackson skildi við Lakers síðast (reyndar ekki í fyrsta sinn) og þar vegur þyngst hvernig gengið var framhjá honum á elleftu stundu þegar gengið var frá ráðningunni á Mike D´Antoni á sínum tíma. 

Því má reikna með því að Jackson beri engan sérstakan hlýhug til Jim Buss og stjórnar Lakers og ef þessi ráðning hans hjá Knicks nú verður ekki til neins annars en að senda Buss-börnunum (fyrir utan kærustu hans Jeanie) og öðrum forráðamönnum Lakers hringsettan fingurinn, er hún örugglega þess virði fyrir Jackson. 

Nærvera Jackson ein, ætti að gefa Knicks trúverðugleika á leikmannamarkaðnum sem félagið hefur ekki búið yfir síðan Pat Riley var þar í brúnni fyrir tuttugu árum. Sú staðreynd að Jackson er búinn að skrifa undir þýðir að vægi Knicks er strax orðið talsvert meira en það var fyrir mánuði síðan.

Það eina sem félagið hefur haft upp á að bjóða síðustu ár er sú staðreynd að það er staðsett í einni merkilegustu borg í heimi, sem þar að auki er mekka körfuboltans. Miami hefur hinsvegar Pat Riley, hringana hans og vatnsgreiðslu - veðurfar, glans og guggur á Suðurströnd.

Við trúum því ekki að Phil Jackson sé bara að ráða sig til Knicks til að ulla á Lakers, fjandakornið. Eitthvað meira hlýtur að liggja að baki, hann hefur löngu gefið það út að hann er fjarri því að vera hrifinn af kuldanum þarna fyrir austan. Maðurinn hlýtur að ætla sér að ná árangri þarna eins og hann hefur gert allar götur síðan hann vann fyrsta meistaratitilinn sinn sem þjálfari árið 1991. Forsendurnar til þess eru bara ekki til staðar. Þess vegna erum við öll dálítið forvitin og í raun steinhissa á því hvað Jackson er að pæla með þessu.

Heldur maðurinn í alvörunni að hann geti náð árangri með Knicks? 

Langar hann kannski að ná að feta í fótspor Pat Riley forseta Miami Heat með því að verða meistari á þriðja stigi leiksins? 

Það hafa fáir gert, en Jackson veit að menn eins og Riley og Jerry West njóta talsverðrar virðingar fyrir skrifstofustörf sín ofan á sigra sem leikmenn og þjálfarar.

Jackson er auðvitað búinn að vinna miklu fleiri titla en Pat Riley, en ferill Riley er alltaf dálítið sérstakur af því hann hefur náð árangri á öllum þremur stigum leiksins. 

Riley var var rulluspilari í einu frægasta og besta körfuboltaliði allra tíma (Lakers 1972), þjálfaði eitt besta lið allra tíma (Skemmtikraftana hjá Lakers undir stjórn Magic Johnson á níunda áratugnum) og flutti loks til Miami eftir silfurstopp í New York í nokkur ár. Í Miami hefur hann náð að byggja upp tvö mjög sterk lið sem hann hefur gert að meisturum bæði sem þjálfari og síðar skrifstofumaður. 

Afsakið orðbragðið, en þú fokkar ekkert í þessu. Þetta er stórkostlegur árangur.

Auðvitað er smá séns á því að Jackson sé bara að tryggja fleiri kynslóðum afkomenda sinna efnahagslegan farborða með því að taka við nokkrum milljörðum frá bjöllusauðunum sem eru eigendur Knicks, svona rétt áður en hann gerist formlega ellilífeyrisþegi.

En myndir þú ekki frekar tippa á að svona mikill keppnismaður ætlaði í þennan slag til að ná árangri? 

Jú, við líka, en það segir okkur ekkert svo sem. Ekkert konkret á bak við það.

Ef við ætlum að komast að því hverjar raunverulegar fyrirætlanir Jackson eru, neyðumst við því til þess að gefa okkur smá tíma til að greina ástandið og fylgjast með því hvað hann gerir í vinnunni næstu misseri.

Gefum okkur það að Jackson ráði einhverju í nýja djobbinu. New York Knicks er risavaxið batterí og stór klúbbur sem hefur lítið gert annað en að verða sér til skammar síðustu ár. Ef til stendur að breyta því, verður að stokka gjörsamlega upp í dæminu eins og við höfum hvað eftir annað skrifað um á þessu vefsvæði. 

Og ef á að gera breytingar, verða fingraför Jackson væntanlega á verkefninu. Helsta ástæða þess að Knicks-mönnum er ráðlagt að halda ekki niðri sér andanum í biðinni eftir árangri er sú klúbburinn er eins og maður sem er fastur í kviksyndi. 

Því meira sem hann hamast og reynir að bjarga sér á örvæntingarfullan hátt, því hraðar sekkur hann.

Klárustu félögin í NBA deildinni (Lakers) voru oft ótrúlega fljót að stokka upp og byggja upp ný stórveldi - stundum þurftu þau ekki einu sinni að stokka upp. 

Í dag er hinsvegar búið að breyta reglunum svo mikið að svona aðferðafræði er nær ómöguleg. Þú verður helst að drulla konunglega upp á bak, vera lélegur í einhvern tíma og stokka svo allt upp á nýtt áður en þú getur farið að spá í að vinna titla á ný. Meira að segja stærstu klúbbarnir verða að fara þessa leið í dag.

Og það er þetta sem blasir við Knicks í dag. Þetta er auðvitað risastór klúbbur og krafan í Madison Square Garden er alltaf að bjóða upp á keppnishæft lið til að réttlæta bjánalega hátt miðaverðið. 

Það grátlega við þetta er hinsvegar að því meira sem þeir hafa reynt að undanförnu, því verra verður liðið eins og við bentum á í kviksyndislíkingunni áðan.

Knicks er með svívirðilega háan launakostnað og er með stórstjörnur á launaskrá, en það er ekki að skila nokkrum hlut. Því gæti einhver spurt: 

Af hverju þá ekki að "dömpa" bara öllum þessum "stjörnum" og byrja bara upp á nýtt?

Þarna komum við aftur að nýja djobbinu hans Jackson. Hvað myndir þú gera ef þú værir í hans sporum? 

Stærsta spurningin sem blasir við Knicks núna er samningsmálin hjá Carmelo Anthony. Myndir þú semja við hann og reyna áfram að byggja upp lið í kring um hann?

Phil Jackson var frábær þjálfari og vissi upp á hár hvað hann var að gera þegar hann var kominn með mannskap sem passaði vel inn í hugmyndafræði hans, þríhyrningssóknina, kammeratskap og kosmíska krafta. 
En hvað gerir hann nú þegar það kemur í hans hlut að ráða mannskap til að koma Knicks á toppinn?

Við segjum að þetta byrji allt saman á þjálfarastöðunni. Strúktúrinn hjá Knicks er til staðar, það er til nóg af peningum og umgjörðin er flott. 

Núna er bara að halda fund, koma sér saman um stefnu félagsins og byrja að ráða menn í verkefnið. Þetta er hægt að gera ef þú ert Knicks, en allt nema ómögulegt að gera ef þú ert Sacramento eða Minnesota.

Það vill enginn spila þar og rapparar, leikarar og fyrirsætur eru sjaldgæf sjón í dýru sætunum við hliðarlínuna

Efst á blaði er að ráða þjálfara fyrir liðið og það þarf að vera almennilegur þjálfari, ekki Mike Woodson, með fullri virðingu fyrir honum. 

Þetta þarf annað hvort að vera þjálfari sem er með plan og veit hvað til þarf til að búa til meistaralið (Rick Carlisle), eða einhver afburðasnjall maður í yngri kantinum sem sefur á skrifstofunni sinni og er tilbúinn að selja nýrun úr móður sinni til að vinna körfuboltaleiki (Erik Spoelstra).

Svo þarf að finna stórstjörnu, einn af fimm bestu leikmönnum deildarinnar (helst LeBron James eða Kevin Durant, auðvitað), mann sem er svo sterkur að hann myndi gera hvaða lið sem er í deildinni að virkum keppinaut - kandídat í meistaraskap. 

Svona kappar hrista upp í valdajafnvægi deildarinnar og þegar þeir skipta um lið, breytir það öllum hugmyndum manna um titilbaráttu næstu ára. Dæmi um þetta eru þegar Shaquille O´Neal fór frá Lakers til Heat og þegar LeBron James samdi við Miami.

Eins og áður sagði er búið að breyta strúktúrnum í NBA svo mikið að allar svona æfingar eru óhemju erfiðar. Lúxusskattur og leikmannasamningar þýða að aðeins handfylli af klúbbum í deildinni á möguleika á að lokka til sín samningslausa leikmenn. Memphis er ekkert að fara að landa Kevin Love þegar samningar hans losna, bara út af Elvis, vinalegu fólki eða góðum steikum. 

Regluverkið í dag er þannig að stjörnuleikmaðurinn Guðmundur annað hvort heldur áfram að spila hjá liði X þegar samningur hans rennur út hjá félaginu sem hann spilar fyrir - eða hann stingur af og fer eitthvað annað.

Klúbburinn hans Guðmundar getur boðið honum miklu hærri laun en nokkurt annað félag, svo það er umhugsunarvert hvort hann á að taka og Carmelo Anthony á þetta, væla sig út hjá klúbbnum sínum og ganga til liðs stórt og ríkt félag á stórum markaði.

Það sem ræður því að menn fara til stóru klúbbanna er "stærð markaðarins", kúltúrinn og svo auðvitað tekjumöguleikar. 

Þú getur t.d. rétt ímyndað þér hvort Kevin Love hefur meiri möguleika á því að vökva frægð sína og egó og fita hjá sér budduna í Minneapolis eða Los Angeles.

Þarna sjáið þið að það er sannarlega ekki að því hlaupið að byggja upp stórveldi í NBA deildinni. Það hefur satt best að segja aldrei verið erfiðara og þetta á bæði við um smáklúbba og þá stóru. Litlu klúbbarnir (Spurs, Thunder) þurfa bókstaflega að vinna í Víkingalottóinu sjö helgar í röð til að takast að koma saman meistaraliði. 

Risaklúbbarnir þurfa að vinna tvær vinnur og allar helgar, vera með klárt fólk á skrifstofunni, í þjálfun og frábæra leikmenn, ótakmarkað fjármagn og vorubílshlass af heppni til að gera sama hlut.

Möguleikar stóru klúbbanna á því að hlaða í meistaralið eru sem sagt takmarkaðir, sem þýðir jafnframt að möguleikar litlu klúbbanna eru astrónómískir

Og það þrátt fyrir að David Stern hafi um árabil verið að reyna að stilla regluverkið þannig að Davíð ætti smá séns í Golíat svona inn á milli.

Það má svo deila um ágæti þessarar jafnaðarstefnu fram á nótt, en það verður ekki gert hér.

Þannig að...

Það er sem sagt ekki víst að við sjáum einhverja risavaxnar breytingar hjá Knicks alveg strax, einfaldlega af því félagið er svo mikil rjúkandi rúst að það er ekki gott að sjá hvar best er að byrja. 

Við sögðum ykkur að þeir þyrftu að stokka upp - og það þurfa þeir að gera - en þeir verða að vera dálítið útsjónarsamir með það hvernig þeir fara að því.

Fyrsta og annað skrefið í uppstokkun hjá Knicks er Carmelo Anthony og við spáum því að við eigum eftir að læra mikið inn á tilætlanir Jackson og félaga þegar við sjáum hvernig þeir standa að ´Melo-málum. 

Félagið er reyndar svo efnað að það getur svo sem vel verið að það framlengi bara samninginn við Anthony hvort sem það ætlar sér að stokka upp eða ekki. 

Það má alltaf djassa upp einhverja díla með menn eins og Carmelo Anthony, málið er bara að reyna að gelda félagið ekki of langt inn í framtíðina (sjá: Bryant, Kobe og Lakers).

Við höfum oftar en einu sinni viðrað skoðanir okkar á Carmelo Anthony á þessu vefsvæði. Hann er einn besti stigaskorari jarðarinnar, en að okkar mati er hann ekki heppilegur kjarnaleikmaður til að byggja upp meistaralið í kring um.

Það eru um það bil þúsund ástæður fyrir því að að Knicks ætti að framlengja við ´Melo eins og skot og einbeita sér að næsta atriði, en að okkar fátæklega mati ætti félagið að losa sig við hann undir eins og reyna að fá eins mikið fyrir hann og unnt er.

Það ætti að vera nokkuð gerlegt enn sem komið er, því Anthony er enn í blóma lífsins og skorar eins og Hollywood-leikari á djamminu í Reykjavík.

Það má vel vera að Phil Jackson sé með plan í vasanum sem gengur út frá því að byggja upp samkeppnishæft NBA lið í kring um Carmelo Anthony á 150 milljón dollara samningi, en okkur er það til efs. 

Jackson er margfalt klárari en við þegar kemur að öllu sem snýst um körfubolta nema kannski lélegum Photoshop-bröndurum og Sasha Vujacic og þess vegna grunar okkur að það eigi ekki eftir að verða pláss fyrir Carmelo Anthony á málverkinu sem Jackson er nú að versla í striga og liti.

Tyson Chandler væri aftur á móti hiklaust maður sem væri inni í okkar plönum ef við værum í stöðunni hans Jackson, en því miður fær hann ekki að gegna stóru hlutverki í pælingunni sökum aldurs. 

Chandler er eini leikmaðurinn í liði New York í dag sem smellpassar inn í svona plön eftir okkar höfði - allt byrjar þetta í varnarleiknum. 

Þið megið ekki misskilja okkur og halda að við séum að drulla yfir ´Melo litla - hann er alveg góður körfuboltamaður - málið er bara að hann er ekki að fara að taka á sig neinar launalækkanir meðan hann er upp á sitt besta og því passar hann ekki inn í þetta skema hjá Knicks. 

Auðvitað gæti hvaða meistaralið sem er vel notað stórskorara eins og Anthony, en vandamálið er bara að það er svo lítill peningur eftir undir launaþakinu þegar hann er búinn að fá borgað að það er ekki hægt að borga restinni af meistaraliðinu okkar meinta laun.

Það er einhvern veginn svona sem við sjáum stöðu mála hjá Knicks í dag. Þetta er veruleikinn sem blasir við Phil Jackson í nýju vinnunni. 

 Forríkt félag á mögulega besta markaði í NBA deildinni sem heldur að það sé samkeppnishæft með því að tefla fram liði sem er blanda af of gömlum, of feitum, of heimskum og of meiddum leikmönnum sem eru allt frá því að vera sæmilegir að getu, niður í að vera bókstaflega kómískir og bara...  fyrir!

Það er orðin spurning um að skipta um vinnu ef þú ert orðin(n) fyrir í vinnunni, en þetta er oft raunveruleiki sem blasir við mönnum eins og Andrea Bargnani, J.R. Smith, Amare Stoudemire, Iman Shumpert, Kenyon Martin og Cole Aldrich svo einhverjir séu nefndir.

Það er hæpið að snillingur eins og Phil Jackson verði í hóp þeirra sem eru bókstaflega fyrir hjá New York Knicks, en í okkar augum er verkefnið sem við honum blasir svo risavaxið að líklega yrði það mesta afrekið hans á hans þó sögulega ferli ef hann næði að gera eitthvað með þetta Knicks-lið. 

Hér er að hefjast eitthvað sem er lygasögu líkast og eins og þetta horfir við okkur, er líklegast að fáir eigi eftir að heyra þessa sögu.

Verði sagan hinsvegar að bók, er ljóst að við erum að tala um verk sem á eftir að seljast meira en biblían og vitnað verður í til eilífðarnóns.

Slíkt er verkefnið sem blasir við Phil Jackson.