Þið munið væntanlega eftir því þegar hann Tærekur Evans var kjörinn nýliði ársins hjá Sacramento Kings hérna um árið. Ekki? Jæja, ókei. Hann Evans var reyndar drulluflottur á því á nýliðaárinu sínu. Hann varð aðeins fjórði leikmaðurinn í sögu NBA deildarinnar til að skila yfir 20 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum.
Þessir þrír sem grísuðu á að ná þessu á undan honum voru einhverjir Oscar Robertson árið 1961, Michael Jordan árið 1985 og svo einhver Lee-Bron James fyrir tíu árum síðan. Ekki slæmur félagsskapur svo sem.
En eftir þessa huggulegu byrjun hefur Evans varla gert nokkuð annað en að drulla á sig. Hann lækkar um tvö stig á ári og sígur hægt og rólega niður í nær öllum tölfræðiflokkum, sem er stórundarlegt fyrir svona knáan íþróttamann.
Reyndar vitum við að bölvuð iljarfellsbólgan var talsvert að trufla hann þegar hann var hjá Sacramento á sínum tíma. Það er ömurlegur fjandi að eiga við.
Samt.
Áhöfnin á Pelíkananum RE-1100 var þó hvergi bangin við þennan neikvæða spíral sem Tærekur virtist kominn í. Allir skipstjórar hafa auðvitað óbilandi trú á hæfileikum sínum sem stjórnendur og peoples-persónur (ísl. mannfólk). Þeir myndu nú aldeilis rífa drenginn upp á anusnum og fá allt það besta út úr honum hjá þessu nýja og spennandi liði.
U, nei. Ja, bíddu við, ekki fyrr en um daginn!
Tæríkur er bara allt í einu farinn að spila eins og hann gerði á nýliðaárinu sínu og er að bjóða upp á 25/8/8 í mars! Það er engu líkara en hann og Trevor Ariza hafi dottið ofan í töfraseyðispottinn hans Steinríks (Tæríkur - Steinríkur... er eitthvað þarna? Nei?).
Svona getur deildin okkar verið stórfurðuleg stundum. Úr því að við erum að fabúlera um Pelíkananananananabúbú á annað borð, væri kannski réttast að spyrja hvað sé að frétta þarna í fenjunum eiginlega. Það er nefnilega ekki andskoti mikið.
New Orleans átti að verða eitt af Spútnikliðum vetrarins, en í staðinn fyrir að taka c.a. svona Phoenix á þetta, er liðið meira að taka New York á þetta - sem snýst mest um að framleiða óæskilegan og óendurvinnanlegan úrgang eins og þið vitið.
Meiðsli spila þarna stórt hlutverk eins og alls staðar í vetur og það er erfitt að ætla að gera eitthvað í Vesturdeildinni þegar tveir af sterkustu mönnum liðsins eru í klessu.
En fyrir utan þetta, hefur okkur alls ekki þótt neinn glans á liðinu, jafnvel í þessum fáu leikjum þar sem það var sem næst því að vera með alla menn heila.
Nei, það eina sem kætir í þessum vandræðum er hann Brúnar okkar. Þvílíkur leikmaður sem hann er að verða! Strákurinn er kominn með 20/10 eins og alvöru stór, nýtir vel og ver bæði og verst.
Við erum svo hrifin af stráknum að við reiknum með að safna augabrúnum í mottumars.
Æ, vonandi ná þeir að hrista þetta eitthvað saman þarna í New Orleans á næsta ári. Þetta var kannski ekki 100% stefna hjá þeim að ná í Jrue Holiday frænda þinn og Tærek en það eru til galnari lið í deildinni þó þau þurfi ekki að gefa Austin Rivers að borða á hverjum degi. Menn eru allavega að reyna að gera eitthvað - það er meira en segja má um marga.