Wednesday, February 12, 2014

Léttur samaburður á framlagstölfræði


Framlagsstig eru skemmtilegur mælikvarði á alhliða frammistöðu körfuboltamanna. Þetta er stærðfræðiformúla sem tekur mið af tölfræðiframlagi og hagkvæmni aðgerða leikmannsins. Meðalframlag leikmanna í NBA deildinni er um það bil 15 stig í leik.

Án þess að reka hér sérstakan áróður fyrir einu eða öðru, datt okkur í hug að bera saman framlagstölur þeirra Michael Jordan, Kobe Bryant og LeBron James, sem eru sannarlega þrír af betri körfuboltamönnum síðari ára.

Eins og með annað er Michael Jordan að sjálfssögðu atkvæðamestur, en hann var með 27,9 framlagsstig að meðaltali á ferlinum, sem er nánast ómannlegt.

LeBron James er reyndar ekki nema hársbreidd frá Jordan eins og þið sjáið á myndinni hér fyrir ofan og er með 27,7 framlagsstig að meðaltali á ferlinum. Kobe Bryant er svo með talsvert lægri stuðul, eða 23,4.

Við erum alltaf að komast frekar á þá skoðun að það sé tilgangslaust að bera leikmenn saman sem mættust aldrei á vellinum og voru ekki í deildinni á sama tíma - eins og til dæmis Jordan og James - enda spila þeir ekki einu sinni sömu leikstöðu.

Það sem vegur þyngst í þessari pólitík okkar er sú staðreynd að það hafa orðið svo miklar breytingar á leiknum hvað varðar reglur og stíl að það er erfitt að færa rök fyrr því að "leikmaður A hefði verið betri en leikmaður B."

Hvað sem því líður, er nú alltaf gaman að skoða smá tölfræði og það var ekki nema dæmigert að Michael Jordan skuli hafa skákað bæði LeBron James og Kobe Bryant þegar kemur að framlagsstigum, en tölurnar á myndinni efst segja samt ekki alla söguna, sjáið þið til.

Það fyrsta sem þarf að reikna með er sú augljósa staðreynd að þeir James og Bryant eru enn að spila. Það þýðir að það séu 99% líkur á því að þeir eigi báðir eftir að lækka eitthvað í framlagi.

James er á hátindi ferilsins og leiða má líkur að því að hann fari nú að lækka sig eitthvað á næstu árum, enda er maðurinn búinn að vera tíu ár í deildinni.

Sömu sögu er að segja um Kobe Bryant, sem er augljóslega að byrja endasprettinn um 35 ára aldurinn.

Jordan og James hafa báðir náð 30+ framlagsstigum fjórum sinnum á ferlinum, en Kobe Bryant hefur þrisvar náð yfir 26 stigin. Best á hann 28 framlagsstig árið 2006, en það er í eina skiptið sem hann komst yfir meðaltal þeirra Jordan og James.

Merkilegasta atriðið í þessum létta samanburði er samt að skoða tölfræðina hjá Michael Jordan ef hann hefði sleppt Washington-ruglinu á sínum tíma.

Á árunum sínum tveimur hjá hræinu í höfuðborginni (Wizards) var hann "aðeins" með 19,9 framlagsstig að meðaltali, sem lækkar hann sem fyrr segir niður í 27,9 stig á ferlinum.

Á árunum sínum þrettán með Chicago Bulls var Jordan hinsvegar með 29,1 í framlag, sem er ekkert annað en rugl.

Þrátt fyrir að Washington-ruglið sé tekið með, er Jordan samt með hæsta framlag í sögu deildarinnar.

Við erum aftur á móti ekki nógu vel að okkur í þessari tölfræði allri til að geta útskýrt af hverju menn eins og Wilt Chamberlain eru ekki með nema 26 framlagsstig á ferlinum þrátt fyrir að hafa verið með 50/26 meðaltal þegar best lét.

Við látum öðrum það eftir að útskýra það, en vonum að þú hafir haft gaman af þessum litla samanburði á þremenningunum knáu.